Færsluflokkur: Bloggar

Kæru Jóhanna og Steingrímur.

Ég ætla að þakka ykkur kærlega fyrir alla hjálpina.  Í fyrsta lagi eigið þið heiður skilinn fyrir að láta atkvæðagreiðsluna fara fram yfir höfuð.  Ég man nefnilega að síðast þegar forsetinn neitaði, þá drógu þáverandi stjórnvöld allt saman til baka, en þið gerðuð það þó ekki sem betur fer.

Í annan stað vil ég þakka ykkur fyrir yfirlýsingarnar um að þið ætlið að sitja heima.   Þetta verður öruggleg til þess að hver einasta letihrúga landsins, sem hefði ekki nennt að láta sjá sig, drífur sig á kjörstað og kýs.  Þekkjandi þjóðina mína, þá svínvirkar svona aðferðarfræði.  Heart

Nú verður hver sjóraftur á flot dreginn og þátttakan verður yfir 70% og það verður mikið til ykkur og yfirlýsingum ykkar að þakka.

 Svo vil ég þakka ykkur unnin störf, held að þið hafið ætlað að gera ykkar besta, en því miður er pólitíkin svo rotinn niður í neðstu rætur samfélagsins og hagsmunaaðiljarnir svo frekir, að þið réðuð ekki við neitt.

 

Þess vegna þurfum við núna utanþingsstjórn með sérfræðingum sem kunna alþjóðaviðskipti, gera greinarmun á réttu og röngu, hafa réttlæti og gagnsæi að leiðarljósi og hafi ekki komið nálægt Alþingi síðustu þrjátíu árin eða svo.  Verndari þessarar utanþingsstjórnar á svo að vera Eva Joly.

Með kæru þakklæti fyrir að leggja okkur lið.  Heart


mbl.is Steingrímur: Ólíklegt að ég kjósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er nú eða aldrei.

Jæja gott fólk, þá er nokkuð öruggt að kosningin fer fram á laugardaginn.  Ég er ánægð með það, og lít á það sem stóran áfanga í okkar lýðræðisbrölti, þ.e. þjóðarinnar.  
Okkur hefur nú tekist að fæla burtu eina ríkisstjórn með pottaglamri og mætingu á Austurvöll, og ná fram vilja okkar með þá næstu.  Ég er ekki að segja þetta af illvilja.  Heldur einungis að segja að það fólk sem við kusum til að fara með okkar mál, hafa ekki staðið sig í stykkinu.  Héldu að þau kæmust upp með hvað sem var gagnvart fólkinu í landinu, af því að það hefur bara alltaf verið þannig.  En nú sjá þau að þetta er bara ekki svoleiðis lengur.  Við erum vonandi hætt að láta bjóða okkur hvað sem er.
Ég er ekki að segja að ráðamenn og forystumenn flokkanna séu vont fólk.  En málið er að vald spillir, og ef við látum bara þumba okkur áfram bara með að krunka saman í eldhúsinu, á barnum eða á kaffistofunni, þá gerist nákvæmlega ekki neitt.
Við höfum sjálf alið þessa spekinga upp og leyft þeim að halda að þau gætu bara gert hvað sem er í krafti atkvæðanna okkar.
En ekki lengur.  Nú höfum við sýnt svo ekki verður um villst, að við höfum ákveðin samtakamátt, sem við getum notað.  
Það hlýtur að vekja vandaðri vinnubrögð, meiri alvöru í kosningaloforðum og ábyrgð á því sem menn segja og gera.
Á þjóðþingi sem haldið var kom upp að við viljum fyrst og fremst virðingu, sanngirni og réttlæti.  Það hefur skort mikið á það í marga áratugi. 
Nú er tækifærið til að krefjast utanþingsstjórnar, að tekið verði föstum tökum á útrásarvíkingum og þeim sem hafa farið illa með peninga og eigur almennings í landinu, og komið okkur út úr þessu kyrrstandi sem hefur ríkt alveg síðan síðasta ríkisstjórn tók við.
Ég þykist vita að enginn af þeim séu neitt spennt fyrir því að taka að sér að fara í ríkisstjórn, meðan ástandið er svona.   Og eins gott, því enginn af núverandi frammámönnum landsins á traust meirihluta landsmanna.   
Og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar útbrunninn og gjörsamlega búin á því.
Eg ætla að enda þennan pistil með viðtali við Jón Daníelsson, Atkvæðagreiðsla getur einungis hjálpað okkar málstað.  Tíminn vinnur með Íslandi.
Þið sem ekki hafi nú þegar kjósið.  Þið verðið að fara á kjörstað og segja vilja ykkar hver sem hann er.  Ekki láta þetta einstaka tækifæri lýðræðisins fara fram hjá ykkur.
Innlent - fimmtudagur - 4.3 2010 - 17:08

Jón Daníelsson: Atkvæðagreiðsla getur aðeins hjálpað okkar málstað. Tíminn vinnur með Íslandi

 

jondaniels.jpgJón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, segir engan vafa leika á í sínum huga að öll umræða um Icesave komi Íslendingum vel og sama gildi um þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardaginn kemur. Sú umræða erlendis sem um hana verður gerir ekkert nema styrkja málstað Íslands og gefa fleiri innsýn inn í hversu óréttmætir Icesave samningarnir séu gagnvart þjóðinni.

Þessu lýsti Jón yfir í Síðdegisútvarpi RÚV í dag

en þar ítrekaði Jón að nú væri hlutirnir farnir að falla dálítið okkar megin varðandi Icesave. Ekki aðeins væru fleiri að uppgötva hversu illa væri verið að fara með þjóðina í þessum samningum heldur ekki síður að tíminn væri nú farinn að vinna með Íslendingum. Íslendingar hefðu rúmt ár áður en verulega færi að þrengja að gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og engin pressandi rök væru fyrir neinum flýti af okkar hálfu.

 

Að sama skapi ykist jafnt og þétt þrýstingurinn á Breta og Hollendinga. Ekki aðeins væru kosningar framundan í báðum löndum heldur hefði Evrópusambandið áhyggjur af málinu sem og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að ógleymdum Norðurlandaþjóðunum. Allir þessir aðilar kölluðu eftir lyktum í Icesave deilunni og sú pressa væri fyrst og fremst á Breta og Hollendinga.


Það sem skiptir alvörumáli:

Hitti góða vini mína í dag í Samkaupum.  Hef hitt þau oft þar og átt alltaf skemmtileg viðtöl við þessi dásamlegu hjón.  Þau hafa átt ýmsa erfiðleika i sínu lífi.  Misst dóttur, orðið gjaldþrota, hann misst heilsuna og ég veit ekki hvað og hvað. 

En að tala við þau, er eins og ferskur vorblær. Þau standa saman í öllu sínu basli. Og eru svo jákvæð.  Í dag sagði maðurinn við mig, en hann hefur átt við alvarleg veikindi að stríða núna um hríð.  Ásthildur; ég vakna á morgnanna og segi við sjálfan mig ég ætla að þakka fyrir þennan dag, og gera hann að besta degi lífs míns.  Og ég segi bara,  ég á kannski ekki eftir að lifa nema 500 daga, og ef ég eyði tveimur dögum af þessum 500 hundruð í leiðindi, þá hef ég minnkað gleðina um tvo daga.

Ég veit að þessi maður á eftir miklu fleiri frábæra daga en bara 500.  En þessi fílósófía hans er svo falleg að ég get ekki annað en sett hana hér inn. Og konan hans stendur alveg með honum í öllu þessu sterk og jákvæð.

Ef við lifum lífi okkar eftir þessari hugmyndafræði, og leyfum okkur bara að lifa hvern dag eins og hann sé sá síðasti, þá farnast okkur vel.

Þá verður ekki spurningin um að reyna að græða á morgundeginum, jafnvel valta yfir næsta mann til að eignast meira.  Eða svíkja og pretta náungann.  Því allt slíkt yrði hjómið eitt. 

Þegar ég hitti þessi elskulegu hjón og ræði við þau fæ knús og jákvæðni, þrátt fyrir allt það sem þau hafa þurft að þola.  Þá geng ég út svo sæl í minni sál, og þakklát fyrir að þekkja svona fólk.  Þau eru ekki þau einu sem ég á samskipti við á þessum nótum.  En einstök vegna þess að þau hafa gengið í gegnum flesta þá erfiðleika sem við getum ímyndað okkur að væri það versta sem gæti gerst.

Okkur hættir oft til að verða reið yfir vanþakklæti heimsins, og eyða orkunni í neikvæðni, og reiði út í allt og alla.  En það er svo rangt sem það mest getur verið.

Og einmitt við að eiga svona yndislegt fólk að, sýnir manni svo ekki verður um villst að ef við bara kunnum að taka því sem kemur með æðruleysi og opnum huga, læra af því sem lífið færir okkur, vera þakklát fyrir hvern þann dag sem lífið gefur okkur þá líður okkur betur.

Við getum ekki breytt því sem var, við getum ekki ráðið við þau öfl sem eru ekki í handfæri.  En við getum ráðið því hvernig við sjálf tökum á okkar tilveru, og við getum annað hvort eytt henni í reiði, vonsvikni eða hatur, eða eytt tilverunni í að vera þakklát, jákvæð og fyrirgefandi. 

Þetta verðum við að hafa í huga.  Ekki eyða tímanum í að hata einhvern sem hefur gert okkur rangt til.  Ekki heldur vera reið við einhvern sem okkur finnst hafa tekið eitthvað frá okkur sem máli skiptir.

Að geta litið upp yfir allt svona og lifað hvern dag eins og hann sé sérstök gjöf til okkar er eitthvað sem gefur okkur meiri gleði, meiri hamingu og meiri lífsfullnægingu en nokkuð annað. 

Elskuleg hugsið um þetta og látum enduróma í huga okkar orð þessara vina minna.  Lífið er dásamlegt og þess virði að þakka fyrir hvern dag.  Því þegar við svo stöndum frammi fyrir brottför héðan, þá verður það bara gleðin ein að hafa gert þessa jarðvist að okkar eigin paradís. Heart


Ísafjörður bærinn minn!

Nokkrar myndir frá góðum degi hér á Ísafirði.

IMG_1319

Brandur bregður sér út fyrir og gáir til veðurs.

IMG_1325

Jamm það er útlit fyrir fallegan sólríkan dag.

IMG_1326

Ég heyri í fuglunum sem bíða eftir mat, þeir sitja á þaki nágrannans og vita sem er að ég gef þeim að borða.  Ég hef stundum smá áhyggjur af Brandi, en hann hefur hingað til aldrei náð sér í fugl sem er að borða mat að vetri til. Hann nær ungaflónunum á vorin, þá langar mig mest til að loka hann inni prakkarann þann.

IMG_1324

En veðrið gengur eftir, og þegar ég sé svona velmokaðan veg dettur mál alltaf í hug skíðasleði og kerrupoki mamma með mig og bróður minn bæði á skíðasleðanum, annað snúandi að mömmu gegnum opið og hinn í kerrupoka fyrir framan, og við svo bundinn á sleðan.  það var oft sem þannig var farið með okkur í bæinn í denn.

IMG_1327

Pápi gamli er ekki alveg sáttur við að vera á öldrunardeildinni, og við reynum að fara með hann í bíltúra. Í gær fórum við pabbi svo til rakarans, hans Villa Valla flottasta tónlistarmanns á Ísafirði, og á móti okkur tók Sammi rakari, hann er samt ekkert rakari en Villi Valli, því þeir drekka hvorugir.  En Sammi var bassaleikari í BG og sonur hans var svo bassaleikar í Írafár, og saman er þetta bara svona músikrakarastofa númer eitt,

IMG_1329

Hér er Sammi að spila á bassann.

IMG_1330

Hér er svo Villi Valli að klippa.

 

IMG_1331

Hverjir vilja giska á þá sem hér eru?  þessi mynd ásamt lisaverkunum gerð af Villa Valla.

IMG_1332

Og ef ykkur gengur vel með hina myndina, hverjir eru þá á þessari.  Nei þetta er ekki Erró, þetta er Villi Valli.  Margir hér sem fólk kannast við.

IMG_1333

Þessi síungi vinur minn er jafnvígur á myndir af fólki, húsum og náttúrunni.

Reyndar vantar mig ennþá nýja diskinn hans.  Ég elska þennan eldri og spila hann oft.  Hvar er hægt að fá hinn?  þeir segja mér að hann fáist á Hótel Ísafirði, en ég hef spurt þar og enginn diskur í sjónmáli.  Hvernig er það útgefendur? er ekki hægt að fá meira upplag?

 

IMG_1334

Ísafjörður er alveg spes, við höfum nefnilega tvær sólir á lofti, við erum nefnilega alveg sér á parti.Tounge

IMG_1335

Birta og Úlfur að fara á snjóbretti.  Þau sakna Sóleyjar Ebbu, en eru góðir vinir sem betur fer.

IMG_1336

Ísafjörður bærinn minn.

IMG_1337

Ég verð síðust í burtu og slekk ljósin, en ef það gerist þá mun gamla norninn láta þá finna fyrir því sem haga sér þannig að landsbyggðin leggist af.  Það fer illa fyrir þeim sem þannig haga sér.

IMG_1338

Ég er nefnilega dóttir Tívanna og meira tröllakyn en mannkyn, þannig að ég get gert ýmislegt ef ég vil.

IMG_1339

Það er ef nauðsyn ber til.

IMG_1340

Bærinn minn er fallegur, meira að segja snjóhaugarnir sem sturtað hefur verið í sjóinn eru fallegir.  Svo ágætu stjórnvöld ekki reyna að troða vestfjarðarnorninni um tær, það eina sem upp úr því hefst er niðurlæging fyrir ykkur sjálf. Devil

 


Point of no return.

Það er ekki hægt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna núna.  Það er eitthvað í flugi sem heitir eitthvað eins og place of no return.  Eða að ekki verði hætt við flugtak. 

Í þessum töluðu orðum eru lögreglumenn á Vestfjörðum að fara yfir fjöll og firnindi með kjörgögn, það er eins og ráðamenn búi í öðrum heimi, því öll kjörgögn hér voru sent á Ísafjörð þaðan sem lögreglan þarf að fara með til Patreksfjarðar, gegnum Hólmavík, Arnkötludal og dalina, og þaðan vestur yfir heiðar til Patreksfjarðar.

Síðan eru strandirnar ófærar, það mátti ekki moka til Dúpuvikur um daginn svo frægur leikari komst ekki þangað í afslöppun þessi danski sem lék í Lord of the Rings,  svo nú verða lögreglumenn á Hólmavík að fara sennilega á snjósleðum og snjóbílum út um allar trissur með kjörgögnin.  Ef allt þetta ferli á svo að afturkalla korteri fyrir kosningar, þá eru stjórnvöld meiri fífl en ég hélt.

Málið er að það er réttur hvers manns að fá að kjósa.  Og margir staðir hér fyrir vestan eru einangraðir vegna snjóa.  Þetta ætti samgönguráðherra að vera fullkunnugt um, sérstaklega þar sem öll mokun hefur verið skorin við nögl. 

Þið hættið ekki við atkvæðagreiðsluna gott fólk, nú er  POINT OF NO RETURN.

safe_image

það getur verið að hver kjósi um sitt, en við fáum að láta í ljós álit okkar á þessum fíflagangi alls fjórflokksins, og það er eitthvað sem við verðum að fá útrás í, eftir allt sem þið hafið gert okkur þjóðinni.  Það er hreinlega hreinsun og andlegt bað að fá að fara á kjörstað og segja NEI OG AMEN EFTIR EFNINU!


Stöndum saman íslendingar.

Já það er málið.  Þetta er eins og í þorskastríðinu og baráttunni við dani á sínum tíma.  Loksins tekur þjóðin sjálf af skarið og dregur mörkin.  Og nákvæmlega á þeim tímapunkti sem þráinn Bertelsson segir að stór hluti þjóðarinnar sé fífl.

Ég hef stundum sagt að við séum kjánar og kunnum ekki fótum okkar forráð.  En núna er ég stolt af mínu fólki.  Loksins göngum við í takt og erum sem þjóð, stöndum upp og segjum hvað okkur finnst, við gerum það ekki endilega á Austurvelli, við gerum það heima við tölvuna.  Við gerum það í kaupféllaginu, við gerum það í saumaklúbbunum, og við gerum það á söngæfingum og í saunaklefanum. 

En við erum að komast að samkomulagi um að nú sé eiginlega nóg komið.  Reyndar vorkenni ég dálítið Jóhönnu og Steingrími, ég held að þau hafi viljað vel.  En einhversstaðar á leiðinni misstu þau af lestinni og misstu af þjóðinni.  Aðrir í stjórninni hafa bara ekki komið neinstaðaðar nálægt nema Össur svona smá, sem sendi hvuttana sína til að tala við BNA, og hafði gleymt að hann hafði sjálfur móðgað þá alveg rosalega með afturköllun á orðu, sem hann hefur reyndar aldrei útskýrt af hverju hann gerði.

En áfram íslenska þjóð.

 

Öxar við ána, árdax í ljóma,
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.
Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,
skundum á þingvöll og treystum vor heit.
Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.
Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.

 

 


mbl.is Sama aðferð og í þorskastríðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar að snappa.

Það er að koma æ betur í ljós það sem vinir mínir bæði í Þýskalandi, Austurrík og Danmörku hafa verið að segja.  Evrópusambandið er skíthrætt við þessa litlu þjóð í ballarhafi.  Nú er hótað sem aldrei fyrr.  Hollendingar sitja eftir sárir og móðir, rúnir orku til að ljúka málinu.

Hér eykst aftur á móti andstaðan við óréttlætið og þvinganirnar.  Þrátt fyrir endalausan áróður ríkisstjórnarinnar. 

Gætið að hvað þessi maður segir, John McFall, þetta hafi afleiðingar fyrir alla Evrópu,  kosning hér upp á Íslandi.  Þeir vita sem er að á eftir kemur þeirra eigið fólk, og að spillingin mun vella upp á yfirborðið á fleiri stöðum en hér. 

Ég las einhversstaðar í gær að menn væru að BÍÐA MEÐ AÐ SENDA ÚT KOSNINGAGÖGNI, TIL AÐ SJÁ HVORT VERÐI AF ATKVÆÐAGREIÐSLUNNI:  Hverslags ósvífni er þetta eiginlega?  Eru menn algjörlega fyrrtir veruleikanum.  En hann er sá að hér verður kosið eftir nokkra daga.  Þið komist ekki hjá því kæru stjórnmálamenn, því ég get lofað ykkur því að meirihluti landsmanna mun aldrei samþykkja að gengi sé þvert á bak vilja meirihluta þjóðarinnar, og það er ekki verið að tala um 51% það er verið að tala um yfir 70% og fer talan hækkandi eftir því sem nær dregur. 

Fólk sem áður var meðfylgjandi ESB inngöngu hefur snúist á sveif þeirra sem ekki vilja í í töluverðum mæli.  Þrátt fyrir mikinn áróður og allskonar leigupenna, bæði hérlendis og erlendis til að hræða úr okkur líftóruna, séu með flesta miðla á sínu bandi.  Það dugar ekki til.

Við viljum fá að kjósa.  Og Jóhanna, þú spyrð kjósa um hvað?  'Eg skal segja þér hvað ég vil kjósa um; 'Eg vil segja með þessu atkvæði mínu að ég hef algjöra skömm á framkomu ykkar í þessu Icesavemáli. 

Þið getið sem best haldið áfram að stjórna landinu, ef ekki er hægt að setja á neðarstjórn, því þrátt fyrir allt, eruð þð skárri en D og B.  En þið verðið að fara að opna augu og eyru fyrir því sem fólkið í landinu er að segja ykkur. 

Hætti þessu ESB brölti og einbeitið ykkur að vanda fólksins í landinu.  Frasinn um að moka flórinn, að lögð sé nótt við dag í að vinna að málum, eða þetta sé vandi síðust ríkisstjórna, duga bara ekki lengur sorrý það er komið meira en eitt og hálft ár.

Snúið ykkur að þvi sem brennur á fólki og látið þessi hugðarmál ykkar forystumannanna í glatkistuna í bili.  Icesave og ESB eru ekki á dagskrá hjá þjóðinni.  Það er aftur á móti skjaldborgin um heimilin og þjóðina, skattar sem eru að slig almenning sérstaklega öryrkja og aldraða, og slík mál.  Þau mega einfaldlega ekki bíða lengur.  Ef þið getið ekki komið  ykkur í þann gírinn, ber ykkur að segja af ykkur og leyfa öðrum að komst að.

Ég geri mér grein fyrir að enginn núverandi stjórnmálaflokkur vill taka við þjóðarbúinu, þá verður að skipa utanþingsstjórn, og í hana þarf að velja vel.  Ef það á að voga sér að skipa gamla afdankaða pólitíkusa eins og Þorstein Pálsson eins og heyrst hefur, þá springur það allt saman framan í andlitin á þeim sem það reyna.  Við erum búin að fá nóg af gömlu spillingarliði, og öllu sem það inniber.

c_documents_and_settings_erna_hjaltested_my_documents_blog_isl_faninn_713981


mbl.is McFall: Telur að lausn verði að nást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar kúlumyndir og fjallasýn.

Nokkrar kúlumyndir.

IMG_1265

Þau systkin gistu hjá ömmu í kúlu á laugardaginn. 

IMG_1266

Það var gaman að leika sér í snjónum.

IMG_1267

Og gera snjóhús.

IMG_1305

Úlfur passaði svo upp á að allt væri í lagi. Þau fengu að vera með kerti.

IMG_1268

Stundum er líka gaman bara að pússla.

IMG_1269

Við bökuðum pizzur.

IMG_1271

Í svoleiðis geta allir hjálpast að.

IMG_1281

litli bróðir í Taikvondó dóti frá stórabróður.

IMG_1290

Veðrið er líka búið að vera einstaklega fallegt.

IMG_1293

Dálítill snjór en það er bara betra, þá er hægt að fara á bretti upp á Seljalandsdal.

IMG_1296

Himnagalleríið var líka opið í morgun.

IMG_1307

Morguninn var fallegur, sólin skein á fjallatoppa og beið þess að komast upp yfir fjallatoppana.

IMG_1311

Og það tókst auðvitað.

IMG_1308

Þetta er inngangurinn inn í Ævintýralandið Wink

IMG_1317

Hér eru svo tveir kettir.  Sá litli apar allt eftir þessum stóra, en sá lætur sér fátt um finnast um þennan kjána. 

Eigið góða nótt mín kæru. 


Gömlu skíðin undir vagna og kerrur.

Þetta er yndisleg frétt og skemmtileg.  Gaman að sjá hvað hægt er að gera með gott hugmyndaflug og koma því í framkvæmd.

En ég vil benda vagna-og kerrumæðrum á að hér á Ísafirði þegar færð er slæm, setja þær skíði undir vagnana og kerrurnar og komast þar af leiðandi betur yfir svæði sem ekki eru vel mokuð.

Það væri til dæmis vel til fundið hjá einhverjum handlögnum að útbúa svoleiðis skíði, geta verið gömul og aflóga sem hægt væri að smella undir vagninn ef svo ber undir.  Nýta allt sem hægt er að nýta.


mbl.is Púla með afkvæmin í kerrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við sem viljum segja NEI við Icesave.

Sól skín í heiði og allt er hulið hvítum hreinum snjó, nema fjöllinn efst ég kalla þessa tússfjöllin, því þau eru eins og fallegar tússlitamyndir við svona aðstæður.

Ég er að hugsa um Icesave og allt sem er að gerast í þeim málum.  Ég er að hugsa um skyndilega breytingu hjá bretum, sem hingað til hafa ekkert verið nema heimtuferkjan og hótanir.  Og allt í einu núna eins og lömb sem vilja brauð úr lófa.  Það sem breyttist var.... já nefnilega bara eitt það var þjóðaratkvæðagreiðslan væntanlega núna í mars. 

Og af hverju skyldu þeir óttast hana svo mjög?  Jú fólk sem ég þekki erlendis og ég tek mark á hefur undanfarin ár varað mig við ESB og hvernig það bákn starfar.  Þetta fólk hefur líka sagt mér, og það fyrir löngu síðan að aðildarlönd ESB óttuðust ekkert meira en að Litla Ísland sýndi þeim fingurinn og neitaði ESBaðild.  Þeir vita fullvel um alla ónægjuna sem grasserar í þeirra eigin löndum vegna báknsins sem þeir hafa enga stjórn á lengur.  Sama heyri ég í Austurrík, Danmörku og fleiri löndum. 

Það er líka sagt við mig.  Þeir (ESBstjórnin) Nota þá aðferð að finna út lykilmenn í landinu, þetta fólk er svo reynt að kaupa með embætti í Brussel eða góðri stöðu í heimalandinu.  ESB er nefnilega ekki góðgerðarsamtök eins og sumir virðast halda, sem ætlar að koma þjóðum til aðstoðar. 

Þær þjóðir sem hafa verið hvað lengst í sambandinu eru hundóánægðar með hvernig þeir þurfa sífellt að borga hærri skatta sem fara svo til ráðstöfunar í Brussel.  Og sífellt er verið að troða þeim meira saman í eitt ríki, eina ríkisstjórn einn fána og eitt yfirvald. 

Þó þetta fólk sem ég tala við sé ef til vill ekki alveg með allt á hreinu varðandi þetta, þá er umræðan svona í ýmsum löndum ESB.  Þau sögðu mér líka í fyrra sumar að Evran myndi hrynja á þessu ári.  Svo það sýnir að ýmislegt hefur síast út í samfélagið um ástand og horfur. 

Sem betur fer er hér meirihluti fyrir því að ganga ekki inn í ESB.  Þó er áróðurinn stanslaus og Jóhanna búin að fara bónleið til Brussel til að biðja um flýtimeðferð.  Hvað sem henni gengur til og Össur getur heldur ekki á sér setið.  Það er einmitt þetta atriði sem hefur gjörsamlega rústað trúverðugleika þessara tveggja hjá mér.  Ég hafði mikla trú á Jóhönnu í upphafi, en það er horfið veg allrar veraldar.  Og það er mest fyrir þessa þráhyggju hennar, þegar þjóðin er í sárum að vera endalaust að baka ESBvandræðabollur. 

Steingrímur endaði sinn traustferil hjá mér með Icesave.  Ekkert meira um það að segja.

Nema að þegar fólk er að segja að þjóðarkosningin um Icesave sé óþörf og það eigi að hætta við hana, þá segi ég, þið sem þannig talið hafið ekki hundsvit á mikilvægi lýðræðis.

Það er einmitt svo að þessi kosning verður að fara fram.  Það er réttur fólksins að fá að kjósa, eftir neitun forsetans.  Að stjórnvöld séu reyna að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna er svo mikil lágkúra að ég á ekki orð.  Á hvers bandi eru þeir eiginlega. 

Það er næsta víst að fólk (NEI) kýs eftir því sem því líður, sumir vegna þess að þeir vilja fara dómstólaleiðina, aðrir vilja ekki binda sig og allt sitt klan á klafa þrælkunnar, enn aðrir vilja einfaldlega ekki láta beygja sig í duftið fyrir erlendum yfirgangi og svo eru margir sem ekki vilja borga skuldir óreiðumanna. 

Það er með ólíkindum að loksins núna viðurkennir Steingrímur að það liggi ekki fyrir ábyrgð ríkisins á þessari skuld.  Meðan allan tímann hefur hann hamrað á því að við verðum að borga, og þessi glæsilegi samningur sem félagi hans kom með heim, var sá besti í stöðurnni og átti að þvinga gegnum alþingi helst án þess að alþingismenn fengju að lesa hann yfir.

Nei gott fólk, við höldum okkar þjóðaratkvæðagreiðslu, og þau okkar sem hugsa þannig mætum öll og segjum NEI, ég er reyndar búin að fara og segja mitt álit.  Ef við viljum lýðræði og réttlæti í landinu þá mætum við á kjörstað og kjósum.  Svo er að sjá svart á hvítu hvað þjóðin vill gera. 

Nú er komin í gang hræðsluáróður um að við verðum að athlægi um allan heim ef aðeins mæti 10 - 15% á kjörstað. 

Það eru endalaus hræðsluáróður búin að vera í gangi af fólkinu sem hvorki þorir né vill. Þeir hrekjast frá einum hræðsluáróðrinum til annars.  Fólk sem situr eins og strúturinn og þorir ekki að vera til. 

Látum þau ekki hafa áhrif á okkur hin.  Mætum öll á kjörstað og segjum okkar álit.  Það hefur komið í ljós að augu heimsins hvíla á þessari örþjóð í miðju Atlandshafinu.  Og við skulum ekki valda þeim vonbrigðum.  Látum rödd okkar berast hátt og lengi; við viljum lýðræði, réttlæti og sanngirni,  við látum ekki kveða okkur í kútinn og binda á okkur þrælaklafa sem við eigum engann þátt í að hafa komið af stað. 

c_documents_and_settings_erna_hjaltested_my_documents_blog_isl_faninn_713981

 

c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_cesil_img_3810_293710

Í þessum töluðu orðum brýst sólin fram yfir Erninum og beint í augu mér.  Það er góð tilfinning.  Eigið góðan dag. Heart


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2024043

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband