Smá hugvekja.

eftir að ég hlustaði á byrjun á viðtali við Séra Gunnar í Krossinum, en þar sem ég var að fara inn í gönginn, þá slitnaði samtalið.  Ég varð samt rosalega hugsi yfir því sem ég hafði heyrt eftir að ég fór inn í gönginn, þar sem ég var ein með sjálfri mér, tröllunum, álfunum og dvergunum, sem eru svona að ná sér eftir innrás mannanna í þeirra hýbýli.  Og þá varð þessi hugvekja til.  Hún er raunar ekki illa meint, en svona umhugsun um það hve veruleika fyrrt sumt fólk getur verið, í sinni sjálfsánægju og fullvissu að þau hafi höndlað hinn eina og sanna sannleika. 

Gamli presturinn.

 

Gamli presturinn sat í uppáhalds stólnum sínum.  Hann hallaði sér aftur, með köflótt teppi yfir beinaberum hnjánum.  Hann var með lukt augu, og grannar hendurnar lágu ofan á opinni biblíu sem lá í keltu hans, ofan á teppinu. Mjúkt húmið lagðist yfir stofuna hægt og hægt. 

Æ hvað ég á gott, hugsaði hann.  Ég get glaður kvatt þetta líf.  Ég hef verið prestur í rúmlega sextíu ár, og alla tíð haft orð biblíunnar að leiðarljósi.  Aldrei hefur borið skugga á trúarlíf mitt, og aldrei hafa freistingarnar hlaupið með mig í gönur.  Ég hef verið góður og gegn maður.  Með öll prinsipp á hreinu.  Ég hef verið samviskuksamur, umburðarlyndur, auðmjúkur þjónn drottins og góður við alla, sem til mín hafa leitað.  Sælir eru þeir sem eiga slíka trú.  Það lék ánægjubros um varir hans. 

Hann hlaut að hafa dottað, því hann heyrði einhvern kalla til sín.

 

Gamli maður, kom þú með mér, sagði röddinn.

Hver ert þú ? spurði hann undrandi.  Hafði ekki ennþá vaknað almennilega.

Ég er einn af þeim ungu mönnum sem þú afhommaðir hér um árið, sagði ungur maður glaðlega.

Afhommaði ? sagði gamli maðurinn, en þú varst svo ungur, af hverju ert þú þá hér ?

Jú sagði ungi maðurinn, þegar sjálfið er tekið frá manni, þá er lítið eftir til að lifa fyrir.  Ég trúði því að þú segðir mér satt, og biblían væri rétt.  Svo ég gerði eins og þú sagðir mér.

Já það var alveg rétt af þér góði minn, sagði presturinn.  Þú hefur örugglega orðið miklu hamingjumari á eftir.

Ekki get ég sagt það, sagði ungi maðurinn blíðlega. Svo eftir nokkrar vikur gat ég ekki horfst í augu við sjálfan mig lengur, og endaði líf mitt. 

 

Gamli presturinn þagði nokkra stund.  Svo sagði hann, ég held að ég vilji fá einhvern annan til að sækja mig, en þig.  Ég er heiðvirður maður, sem hef helgað líf mitt öðrum, og á skilið að vera sóttur af einhverjum sem er æðri en þú.

 

 Hafðu það eins og þú vilt gamli minn, sagði ungi maðurinn.

 

Ekki nema það þó, að ætla að senda homma að sækja mig, hugsaði presturinn.  Ég sem hef alla tíð haft guðsorð að leiðarljósi.

 

Sæll, sagði kvenrödd rétt hjá honum.

 

Hann leit upp, og sá brosandi unga stúlku.  Honum fannst hann eitthvað kannast við svipinn á henni. 

Ég kem þér ekki fyrir mig, sagði hann.

 

Nei það veit ég, okkar samfundum bar við fyrir löngu.

 

Nú ? sagði hann spyrjandi.

 

Já sagði stúlkan, ég leitaði ráða hjá þér sem sálusorgara, með að nota smokkinn, og þú bannaðir mér það alfarið.  Sagðir að ef ég vildi stunda kynlíf, sem ég ætti auðvitað alls ekki að gera, nema giftast, þá væri það bannað í biblíunni að stemma stigu við því lífi sem Guð vildi senda í heiminn. 

Já það er alveg rétt, sagði presturinn.  Það er synd að treysta ekki almættinu fyrir slíku.

 

Jæja, sagði stúlkan, það varð til þess að ég varð eyðninni að bráð.  Það tók reyndar fljótt af hjá mér, því ég var viðkvæm fyrir.

 

Þetta hefur nú ekki verið neitt annað en þú áttir skilið, fyrir lauslætið, sagði presturinn argur. Farðu og segðu almættinu að ég vilji fá einhvern annan til að sækja mig.

 

Þú hefur ekki breyst neitt, sagði stúlkan og fór.

 

Halló gamli maður, fyrir framan hann stóð drengur á að giska 7 ára. Ég á að sækja þig.

 

Ég hef sagt að ég vil að einhver sæki mig sem skiptir máli.  Sagði presturinn, ég hef þjónað embætti mínu vel, og á rétt á virðulegri heimkomu.

 

Hér eru allir jafnir sagði drengurinn.

 

Þú segir mér það, sagði sá gamli.  En ég er viss um að þeir sem hafa hagað sínu lífi réttlátlega og eftir boði orðsins, ganga fyrir.  Og hver ert þú svosem.

 

Þú þekkir mig ekki, sagði drengurinn, en ég átti föður sem var drykkjumaður og ofbeldisfullur.  Móðir mín vildi fá skilnað.  En þú komst í veg fyrir það. Sagðir að það sem Guð hefði tengt saman, mætti ekki sundur skilja.  Það endaði því með að faðir minn, drap bæði mig og móður mína í bræðiskasti. 

Ég gerði rétt, þrumaði presturinn.  Það sem Hann hnýtir saman, má enginn mannlegur máttur slíta sundur.  Það er synd. 

 

Það heyrðist hlátur bak við stólinn.  Presturinn leit í kring um sig, og uppgötvaði þá, að hann var ekki í herberginu sínu.  Hann sat þó enn í stólnum, en það var ekkert í kring um hann.

 

Hver er að hlæja sagði hann dálítið smeykur.

 

Það skiptir ekki máli, sagði einhver úti í tóminu.  En þú hefur nú hrakið burtu þá sem áttu að sækja þig og færa til ljóssins, með þeim sama hroka sem þú varst haldinn í lifenda lífi.

 

Vitleysa, sagði presturinn reiður.  Ég hef alltaf lifað eftir Guðsorði, og því sem í biblíunni stendur.  Það er hinn eini og sanni sannleikur.

 

Já já, það er það sem þið haldið sumir hverjir.  Nú færð þú eitt tækifæri enn til að komast á þann stað sem þú telur þig tilheyra.

 

Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega ? þrumaði presturinn, hvar eru englarnir sem sækja þá sem lifa sínu lífið samkvæmt lögmáli Drottins ?

 

Litli drengurinn hér áðan sagði þér að hér væru allir jafnir, ekki satt, sagði röddinn þurrlega.  En fylgdu mér, ég skal sýna þér tvær leiðir til að fara. 

 

Þeir fóru eftir löngum gangi, og í enda hans voru tvær risastórar hurðir. 

Sá sem fyrir honum fór, opnaði aðra hurðina, þaðan barst út svo mikið ljós að presturinn fékk ofbirtu í augun.  Lokaðu þess strax, sagði hann ætlarðu að blinda mig ?

 

Nei sagði hinn, hér er svo hin hurðin.  Hann opnaði hana, og fyrir innan blasti við helgimynd af Jesúbarninu í fangi móður sinnar Maríu og Jósef stóð bak viðhana og lagði hönd á öxl hennar.

 

Loksins hrópaði presturinn, hér er staðurinn þar sem ég á heima.  Hingað vil ég komast. 

Gjörðu svo vel, vesæli maður, sagði röddinn.  Þetta er alveg dæmigert fyrir þá sem eiga blinda trú.  Þú hafnaðir öllum þeim sem vildu leiða þig rétta veginn, samt sem áður var það fólk sem þú hafðir gert illt með trúarofstæki þínu.  Gefið þeim falskar vonir og afvegaleitt þá í nafni Guðs.

Síðan, þegar þú færð tækfæri til að stíga beint inn í ljós kærleikans, þá færðu ofbirtu í augun og villt ekki sjá þar sem þar er að finna. 

Loks fellurðu fyrir tálmynd af því sem þú vilt sjá, og heldur að sé rétt. 

Gamli maðurinn staulaðist inn eftir ganginum, og sá að þetta var satt.  Þessi helgimynd var bara það.  Líkneski.  Bak við þau var bara að sjá myrkur.  Ekkert hljóð. Ekkert. 

Hann fann að hann hafði týnt sjálfum sér, vegna þess að hann hlustaði ekki á sína eigin rödd, heldur trúði því sem hann las. Og hann hafði framkvæmt í blindri trú á að hann væri að gera rétt, þó oftast hefði hann átt að sjá, að sú leið var ekki leið umburðarlyndisins, eða réttlætisins.

Það er þá svona sem komið er fyrir mér, hugsaði hann.  Ég hef bara horft á eina hlið á sannleikanum, en lokað allt annað úti. 

Ég gleymdi því að sagt var; leitið og þér munuð finna, knýjið á og fyrir yður mun upplokið verða. 

 

Skyndilega fann hann að tárin fóru að leka niður hrukkóttar kinnar hans.  Ekki braust úr hálsi hans, og hjartað var að springa.

Þá var skyndilega kveikt ljósið í stofunni.  Húshjálpin kom inn, rjóð í kinnum, með rjúkandi heita súpu. 

Kristinn minn, hvað er að sjá.  Situr þú hér í myrkrinu og brynnir músum ?  Hefur eitthvað komið fyrir, þú sem alltaf hefur verið svo sjálfsöruggur. 

Æ já, sagði hann.  Ég hef orðið fyrir slíkri reynslu í kvöld, að ég held að ég þurfi að endurskoða allt mitt líf frá byrjun.  Geturðu rétt mér dagbækurnar mínar og gleraugun. Ég hef sem betur fer fengið dálítinn frest til að endurskoða líf mitt, og biðjast fyrirgefningar.  Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Búkolla mín  Knús til baka.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.7.2008 kl. 18:36

2 identicon

Ég var að lesa svo hrikalega krúttlegt komment eftir þig á öðru bloggi og hló mig alveg máttlausa, ég hugsa að við séum soldið líkar á sumum sviðum! 

pssst...  öfunda þig af afganginum af saltkjötinu ...

Maddý (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 19:09

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehehehehe Maddý mín, jamm það var roooooooooooosalega gott

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.7.2008 kl. 19:37

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær lesning Ásthildur mín

Sigrún Jónsdóttir, 23.7.2008 kl. 19:48

5 Smámynd: Lena pena

Þetta var merkileg saga og fær fólk til að hugsa. Við höfum öll gott af svona lestri.  Knús..

Lena pena, 23.7.2008 kl. 19:52

6 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er góð saga og öllum hollt að velta hlutunum aðeins fyrir sér. Takk fyrir mig.

Helga Magnúsdóttir, 23.7.2008 kl. 19:59

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þetta var bæði hollt og gott, takk fyrir mig

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 23.7.2008 kl. 21:16

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mikið svakalega ertu heppin kona að samtalið við Gunnar í Krossinum skyldi detta út þegar þú fórst inn í göngin. Þarf þó að leiðrétta það að hann er ekki séra, þó það skipti ekki öllu máli. Mér líður alltaf eins og ég hafi orðið fyrir andlegri nauðgun þegar ég hlusta á þennan mann, um hans afhommanir og hans túlkanir á kristindóminum. Mér finnst hann að mörgu leyti vera andhverfa þess sem Jesús stendur fyrir.

Það góða við að þú byrjaðir að hlusta á hann var að þú skildir fá andann yfir þig vegna þessarar hugvekju. Ég las hana í gegn og það væri óskandi að sumir sem álíta sig útvalda sanntrúaða fengju svona vitranir kæra Ásthildur. Þú ert flottur predikari ... af andans náð, ef ég má segja svo ...  x 1000 þakkir ..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.7.2008 kl. 21:28

9 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Góð dæmisaga Ásthildur, og þakka þér kærlega fyrir söguna. - Að öðru leyti vil ég taka undir það sem hún Jóhanna Magnúsar-og Völud. segir hér fyrir ofan.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 23.7.2008 kl. 21:51

10 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er mjög  góð saga og holt að lesa takk fyrir elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 23.7.2008 kl. 22:11

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku Ásthildur, þetta er yndisleg frásögn og kennir mikið. Takk fyrir að deila þessu með okkur, maður batnar við að lesa svona. Þetta er svo innilegt og satt.  Kær kveðja vestur

Ásdís Sigurðardóttir, 23.7.2008 kl. 22:35

12 Smámynd: Steingrímur Helgason

Fínn 'Dickens' í sagnfræði þessari, takk fyir mig.

Steingrímur Helgason, 23.7.2008 kl. 23:29

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Steingrímur minn.

Takk fyrir það Ásdís mín

Takk Katla mín

Lilja mín ég vil nú eiginlega skora á þig að koma hingað til mín í haust, þegar við  báðar höfum tíma, og að við setjumst niður saman og gerum eitthvað sérstakt.  Það gæti komið eitthvað spes út úr því. 

Takk Jóhanna mín, þú varst svolítið í mínum huga líka þegar ég var að setja þetta niður á blað.  Þú ert einstök í mínum huga varðandi réttindi samkynhneigðra og við hugsum dálítið líkt varðandi kristindóminn mín kæra.

Takk Hulda mín

Helga mín, stundum þarf maður að velta hlutunum fyrir sér á annan hátt.

Takk Lena mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.7.2008 kl. 23:46

14 identicon

Kæra Ásthildur. Þið tvær, þú og dóttir okkar hjóna hafið greinilega hugsað ykkar eftir að hlusta á manninn í morgun. Hér er krækjan á blogg dóttur minnar. http://ungamamma.blogspot.com/

Þið eruð báðar hreint út frábærar í skrifum ykkar um málið. Bestu kveðjur úr Andakílsárvirkjun í Borgarfirði. Dísa Gests

Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 23:56

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið er stelpan fott á því.  Ég hefði ekki getað orðar þetta betur en hún.  Knúsaðu hana frá mér þetta er aldeilis flott færsla hjá henni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.7.2008 kl. 00:25

16 Smámynd: Rannveig H

Þessi pistill þyrfti að fara víða,þörf lesning fyrir margan manninn. Takk kærlega fyrir mig mín kæra.

Rannveig H, 24.7.2008 kl. 00:52

17 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þetta var snjöll dæmisaga, í anda Dickens. Takk fyrir

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 24.7.2008 kl. 10:46

18 identicon

Þetta var góð saga hjá þér, heyrði reyndar ekki í Gunnari í gær. En hef oft heyrt hann og oftast fundist hann vera svolítið í anda Fariseans. Þakka þér Guð að ég er ekki eins og þessi og þessi. Eina manneskjan sem ég get breytt er ég, og einu áhrifin sem hægt er að hafa er að reyna að koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Takk fyrir góða hugvekju. 

Dísa (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 12:12

19 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Sannarlega góð dæmisaga Ásthildur, sem allir ættu að lesa. Skil bara ekki hvernig sumir geta sett sig á háan hest og dæmt aðra, algjör hroki, eins og sagan sýnir

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 24.7.2008 kl. 13:08

20 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Því miður heyrði ég ekki þetta viðtal við Gunnar en dæmisaga þín er alveg einstök og vona ég eins og margir hafa sagt hér að ofan að sem flestir lesi þetta. Hún er góð skilaboð til allra. Eins og segir: "Dæmdu og þú munt verða dæmdur".  Við erum öll af Guði gerð í mismunandi gerð og mynd og okkur ber að virða það.  Þetta er bara alveg hreint frábær saga. Knús á þig mín kæra, Ásthildur.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.7.2008 kl. 13:26

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.  Þið megið alveg dreyfa henni út um allt.  Ég bara varð að setja þetta niður.  Og ég endurtek, þetta er ekki áfellisdómur yfir trúuðu fólki almennt,  því margt fólk m.a. nokkrir bloggvinir mínir hér, eru yndislegt fólk, sem dæmir ekki svona.  Það eru hinir, sem haga sér eins og fílar í postulínsbúð, sem ég verð að mótmæla, eins og Gunnar í Krossinum, eins og hann kom fram í viðtalinu.  Það hlýtur að vera hægt að hlusta á það á vefrúv.

Takk Rannveig mín.

Hehe ekki er ég sett í neitt smáslor Matthildur mín, elskuleg.

Það er alveg rétt Dísa mín, við getum bara breytt okkur sjálfum, og hver er sá sem þykist vera talsmaður Guðs á jörð, og sýnir af sér slíkan hroka sem þessi ákveðni maður, og reyndar fleiri.  Biskupinn okkar hefur gert sig sekan um nákvæmlega sama hrokann.

Sigrún mín, ég fékk yndislegan pakka inn úr dyrunum í dag.  Ég var svo glöð.  Mikið þakka ég þér vel fyrir, og mikið veit ég að litlu stelpurnar mínar verða glaðar þegar þær fá húfurnar sínar, þær eru svo flottar.  Takk takk fyrir mig.  Þú veist að þú átt alltaf þinn stað í mínu hjarta, þó ekki gengi allt eftir sem til var gengið.  Þið bæði komin með aðra maka og yndisleg börn.  Svona er lífið elskuleg mín.

Takk elsku Sigurlaug mín.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.7.2008 kl. 17:12

22 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta er mjög góð frásögn Áshildur og holl lesning fyrir alla.  En ég verð samt að taka öllu með fyrirvara sem frá Gunnari í Krossinum kemur.  Mér finnst hann hálfgerður fals-spámaður um trúarbrögð, en það geta líka komið góðir punktar frá honum, eins og þessi frásögn þín er.

Jakob Falur Kristinsson, 24.7.2008 kl. 17:13

23 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús og bestu kveðjur til þín frá mér

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 24.7.2008 kl. 17:38

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jakob minn.  Já þeir eru margir tilkallaðir en fáir útvaldir held ég. 

Bestu kveðjur til þín líka Linda mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.7.2008 kl. 17:45

25 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Mín var ánægjan Ásthildur mín.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 24.7.2008 kl. 18:04

26 identicon

Æðisleg saga, takk takk!

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 22:52

27 Smámynd: Bumba

Fín færsla frú Ásthildur. Það er nú meira hvað allt þetta samkyhneigða fólk í heiminum yfirleytt hefur á samvizku sinni samkvæmt þessum guðsvolaða vesalingi sem þú vitnar í. Þessi mannræfill gerir ekkert annað en að afvegleiða fólk og ætti nú heldur betur að taka til athugunar hvað hann segir hvað eftir annað um samkynhneigða. Stenzt það lög að bera þá svona út eins og hann gerir? Með beztu kveðju.

Bumba, 24.7.2008 kl. 23:10

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þakka þér Martha mín.  

Já Bumba, það er alveg ótrúlegt hvað sumt fólk getur verið haldið mikilli blindni á sjálft sig, í nafni einhvers félagsskapar.  En slíkt fólk hittir sig sjálft fyrir á efsta degi, það er konnuð ljóst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.7.2008 kl. 07:34

29 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Ja hérna hér! Þvílík snilldarlesning og hverju orði sannara! Takk fyrir að bera þessa lærdómsríku sögu fram Áshildur, ég þekki margan manninn sem geta lært alveg heilmikið af henni! Því miður er þessi prestur enginn skáldsagnapersóna, og eru margir sem eiga við sömu vandamál að stríða og hann. 

En það er vegna svona sagna sem gerir okkur kleift að koma auga á sannleikann og hann lýsir sér best í ofdrambi prestsins.

Takk fyrir þetta Ásthildur mín og Guð blessi þig og þína.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 25.7.2008 kl. 09:32

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Guðsteinn minn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.7.2008 kl. 12:06

31 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tek undir allt það lof, sem hér er að ofan og bæti við einum brúsa í viðbót. Hér er allt það, sem menn mættu endurskoða, sem hafa blinda og ósveigjanlega trú. Lífið fyrir þeim er svart og hvítt og þeir sjá aldrei litrófið.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.7.2008 kl. 17:33

32 Smámynd: Ásgerður

Frábær hugvekja,,,þetta ætti að vera skyldulesning.

Takk fyrir þetta Ásthildur

Ásgerður , 26.7.2008 kl. 13:15

33 identicon

Sweet saga.
Það kemur fyrir að ég óski þess að helvíti sé til... bara svo Gunnar í krossinum og allir ofurtrúarnöttar fái að kenna á ruglinu í sér.

Guðsteinn minn, hvað segir þú um td giftingar samkynhneigðra.. ert þú ekki biblískur með það dæmi, ertu þá nokkuð skárri en Gunnar eða Eiki...

Ég segi það og skrifa að hver sá sem fer eftir biblíu eða öðrum trúarritum er ekki trúaður, hver sá sem skráir sig í skipulögð trúarbrögð er ekki trúaður... þeir eru ekkert nema sauðir í trúarvændi.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 13:17

34 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég geri eins og Jón Steinar, tek undir lofið og bæti við.

En mér leikur forvitni á að vita á hvaða stöð þetta var. Er búin að leita á Rás 1 og 2 og Bylgjunni en finn ekki. Manstu hvaða stöð þetta var?

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.7.2008 kl. 20:24

35 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er merkilegt, að í 35 innleggjum ber hér enginn hönd fyrir höfuð Gunnars Þorsteinssonar, eins og hann hafi ekki orðið að þola nóg nú í sínu lífi. Jafnvel Guðsteinn Haukur ber lof á þig, Ásthildur! – hefur trúlega dottið vitlausum megin fram úr í morgun.

Þessi skáldsaga gerir Gunnari alls ekki rétt til og er í raun og sannleika rætin og dæmandi í hans garð. Guð fyrirgefi ykkur.

Jón Valur Jensson, 27.7.2008 kl. 15:38

36 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Dæmið ekki svo þér munið ekki dæmdir verða. Óskaplega var þetta klén lesning Ásthildur, dulbúin árás á hina kristnu í dæmisöguformi. Auðvitað eru hinir kristnu talsmenn Guðs hér á jörðu og þann hóp leiðir biskupinn hér á landi. Gunnar í Krossinum er að sjálfsögðu góður liðsmaður, sem og allir sem boða Guðs orð í hinum ýmsu söfnuðum. Það er afgerandi meirihluti þjóðarinnar sem er skírður og fermdur til kristinnar trúar og ef þið heiðingjarnir eru farnir að kalla það hroka þegar Gunnar í Krossinum eða biskupinn yfir Íslandi koma fram í nafni trúarinnar þá er eins gott fyrir okkur sem aðhyllumst kristna trú að vera á varðbergi gegn slíkum andkristilegum áróðri.

Óttar Felix Hauksson, 27.7.2008 kl. 16:23

37 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi tvö síðustu innlegg segja meira en þúsund orð.  Ég þarf engu þar við að bæta. 

Lára Hanna mín, ég man ekki en þetta er sennilega annað hvort morgunútvarp ríkisútvarpsins rás eitt eða tvö, ég var að hlusta á þetta, á leiðinni til Flateyrar og fór inn í göngin áður en viðtalið var búið.  Það sem hann sagði þar, vakti þessi viðbrögð hjá mér.  Það er einmitt þessi hræðsluáróður þeirra sem trúa bókstafnum, sem er dálítið erfitt að sætta sig við, í samfélagi, þar sem hver ætti að vera sinnar gæfu smiður. Menn ættu að fá að leita að sinni trú og lífskoðunum í friði fyrir prédikurum, sem alltaf þykjast vita betur en hinn almenni maður.  Fólk sem í rauninni getur ekki staðið á eigin fótum, en þarf endalaust að styðja sig við eitthverja hækju.  Ég segi bara, að Guðsteinn Haukur sýnir okkur hér, að þar fer trúaður maður sem hefur leitað og fundið.  Hann er ekki hræddur við að gagnrýna það sem honum finnst ekki við hæfi.  Hann hefur fundið sína trú á Guð, og hún er sterk, en hún er líka réttlát og tekin meðvitað.  Það eru margir fleiri hér þannig.  Og það er vel. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2008 kl. 16:33

38 Smámynd: Ólafur Als

Ásthildur,

ég verð að taka undir orð Óttars og kalla þessa dæmisögu kléna og jafnvel rætna. Mér sýnist drambið bera jásystkyninum þínum jafn slæmt vitni og prestsins úr dæmisögunni. Umburðarlyndið, sem svo margir vilja sveipa sig, er sérleg fylgismey og á meðan sumir telja sig sjá litrófið er það blint á fjölmargt gott sem kristnir láta af sér leiða, sér í lagi margir í hinum frjálsu söfnuðum. Að Gunnar Þorsteinsson telji að hægt sé að "afhomma" virðist kveikja réttlætis- og reiðikennd hjá mörgum. Viðbrögðin eru oft ofsafengin og sveipuð heilagleika, sem er jafn óþolandi og bókstafstrú sumra á Gamla testamentinu.

Ásthildur, vitanlega telur predikarinn sig vita betur en aðrir - það hlýtur að vera mergurinn málsins! Ekki ósvipað og þín eigin lesning og mín ... ef nánar er að gáð er stór hluti þess bókstafs sem settur er hér á blað predikun af einhvers konar tagi. En mikið færi það þér og svo mörgum öðrum vel að lækka rostann í gagnrýninni á blessaðan manninn, hann Gunnar og fleiri sem vilja (en tekst misjafnlega) feta í fótspor manns sem við flest virðum og jafnvel dáum og var uppi fyrir tvö þúsund árum.

Kveðja,

Ólafur Als, 27.7.2008 kl. 17:17

39 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

En mikið færi það þér og svo mörgum öðrum vel að lækka rostann í gagnrýninni á blessaðan manninn, hann Gunnar og fleiri sem vilja (en tekst misjafnlega) feta í fótspor manns sem við flest virðum og jafnvel dáum og var uppi fyrir tvö þúsund árum.

Manns? ég veit ekki betur, ef þú ert að tala um Jesúm, að menn hafi sett hann á stall og segja hann vera Guð.  Ég get alveg tekið undir það að Jesús var aðdáunarverður maður.  það var hann örugglega.  En hann sagði líka svo margt, sem trúaðir mættu íhuga.  Eins og þetta með hræsnina, með faríseana, og umburðarlyndið.  Þar skortir þó nokkuð á hjá sumum sem eru að feta sig í hans fótspor.  Og vilja að lýðurinn hlusti og gegni.  Um það snýst málið ekki satt ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2008 kl. 17:36

40 Smámynd: Árni þór

Varlega skal fara í það að tala í gegn þjónum Guðs, þeim sem tala orð Guðs og að tala í gegn Guði, ritningin varar okkur við slíku.
Gunnar í krossinum er bara mannlegur eins og ég og þú, það er hægt að finna að öllum því við erum öll syndarar.

Gunnar boðar Jesús Krist, að Jesús dó til sáluhjálpar öllum mönnum og það var fyrir orð Gunnars, að hann talar þennan sannleika umbúðalaust að ég tók við Jesú Kristi sem frelsara mínum árið 1983 á samkomu í Krossinum og er það það besta sem ég hef upplifað á æfi minni.

Árni þór, 27.7.2008 kl. 17:36

41 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ritningin já minn ágæti.  Hvað er þessi ritning ? orð á blaði sem hafa verið sett þar niður af einhverjum mönnum, oft á tíðum til að hafa hemil á fólki.  Það ber að taka slíkt með fyrirvara.  En alls ekki fordæma allt.  Það er bara einfaldlega ekki rétt. Og auðvitað á að virða trú þeirra sem hana hafa meðtekið.  Ef þú hefur fundið þig í Jesú Kristi þá er það mjög gott mál og ber að virða.  En það á þá líka að virða þá sem ekki hafa hann að leiðtoga lífs síns.  Mér þykir vænt um Jesús og ég vona svo sannarlega að það sé rétt sem stundum er talað um, að hann hafi komist burtu frá Golgata, með unnustu sinni og barnsmóður og flúið til Frakklands. 

Guð aftur á móti er ljós og kærleikur, sem er í okkur öllum að mínu mati.  Guð er ekki kristinn, heldur er það sem við köllum Guð uppspretta alls lífs hér á jörðinni.  Við erum eins og dropar hafsins, sem höfum gufað upp, og leitum svo heim aftur til hafsins, þaðan sem við öll fórum í upphafi.  Og það er í okkar valdi að finna leiðina.  Hún getur verið vörðuð allskonar steinum, sem beina okkur rétta leið.  Það er okkar að velja þá leið sem okkur hentar best.  Ef það þýðir að við þurfum að hlusta á prestinn til að okkur líði vel, þá er það hið besta mál.  En ef leiðin er vörðuð öðrum kennileitum, eins og að leita annara leiða,  þá er það líka okkar mál.  Kærleikurinn, umburðarlyndið og krafturinn til að vera góður, er ekki bundinn neinum, heldur býr í hverjum og einum okkar.  Og þó sumir virðist vera alvondir, þá hefur lífið einhvernveginn gert þá þannig, en ekki það að þar eigi enginn Guð neista sinn í viðkomandi.  Heldur hefur einstaklingurinn afneitað þeim neista og lokað hann úti.  Það segir ekkert um trú okkar og kærleika hvaða trú við aðhyllumst, eða trúleysi, heldur hvernig við högum okkar lífi, og hvernig við umberum þá sem eru í kring um okkur.  Það er sá eini mælikvarði sem verður tekin til greina á okkar efsta degi.  Ekki hvernig við töluðum, eða ætluðumst til einhvers af öðrum.  Heldur hvernig við brugðumst við, þegar okkur gafst tækifæri til að gera gott, og hlú að því sem í kring um okkur er.  Þannig virkar lögmálið að mínu mati.  En þetta er bara að mínu mati eins og ég segi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2008 kl. 18:03

42 Smámynd: Árni þór

Guð opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum í gegnum Jesús Krist, krossfestan og upprisinn, er við biðjum hann um að fyrirgefa okkur þá hreinsar hans blóð alla synd og upprisukraftur hans verður raunverulegur í okkar lífi fyrir heilagan anda sem Guð úthellir yfir okkar líf frá himnum þar sem Jesús Kristur er til hægri handar föðurnum.

Ég hef lifað í því sem þú ert að segja Ásthildur og þar fann ég ekkert nema villu og svima, en er ég bað Jesús að koma inn í líf mitt þá varð myrkrið að ljósi og ég fékk að reyna endurlausnarkraft Guðs og kærleika.  

Árni þór, 27.7.2008 kl. 18:50

43 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ásthildur mín (hún og Elli maður hennar eru gamlir kunningjar mínir – bið kærlega að heilsa honum!), hvaða ritningar voru skrifaðar "til að hafa hemil á fólki"? Fræddu okkur!

En nú trúir þú á skáldsögu (Dans Brown) fremur en guðspjöllin, sem upplýsa okkur um dauða og upprisu Jesú Krists. Ert jafnvel sjálf búin að skrifa skáldsögu. En gaztu ekki sleppt því að særa Gunnar í leiðinni? – Með góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 27.7.2008 kl. 19:34

44 Smámynd: Linda

Ég las merkileg orð í dag úr bókinni Dýrmætara en Gull og ég ætla að leyfa mér að skrifa þau hér.  Þau eiga svo vel við.

"Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir.  Dómarinn stendur fyrir dyrum" Jak.5:9"

Eftirfarandi eru orð Systur Basileau Shlink mikil og einlæg Guðs kona og reyni ég að lesa daglega eftir hana.

Jafnvel það að kvarta undan hver öðrum er synd sem kallar á dóm Guðs.  Því undirrót nöldurs og dómssýki er skortur á kærleika.  Mælirðu sjálfan þig með sömu mælistiku og þú notar á aðra? Í stað þess að kvarta yfir bróður þínum skaltu líta í eigin barm, á óþolinmæði þína og skort þinn á kærleika og umburðarlyndi.  Elskaðu heldur bróður þinn og leið hann þannig á réttan veg." (end Quote)

Linda, 27.7.2008 kl. 20:29

45 Smámynd: Björn Heiðdal

Einhver segir hér að ofan að hinir kristnu séu talsmenn Guðs.  Ekki veit ég hvernig það virkar.  En það boðar ekki gott að hafa milljónir talsmanna sem hver talar með sínu nefi og munni.  Björgólfur er t.d. bara með einn talsmann.  Gunnar og biskupinn virðast oft tala í kross.  Ef ég væri Guð mundi ég bara hafa einn talsmann og annað hvort reka Gunnar eða biskupinn. 

Björn Heiðdal, 27.7.2008 kl. 20:30

46 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Dæmisagan er mergjuð og áhrifamikil.

Að mínu mati stæði hún sterkari ein og sér, án tengingar í formála við tiltekna persónu. 

Sigurður Þórðarson, 27.7.2008 kl. 20:48

47 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Ég vil líka leggja orð í belg Gunnari til varnar því enda þótt hann sé ekki minn sálnahirðir höfum við sömu trú á sama Krist og í stórum dráttum segir hann það sama og ég myndi líka segja.  Gunnar, eins og aðrir í framvarðarsveitinni, þarf oft að segja hluti sem aðrir stroka einfaldlega út úr sinni “trú”.  Ég er feginn því að þú ert mér þó sammála að efsti dagur sé til, þegar spilin eru gerð upp.  Því það gerir líka ráð fyrir því að til séu einhverjar leikreglur sem hægt er að brjóta eða fylgja.  Oft vantar röddina sem varar við og enda þótt hún sé nauðsynleg er hún ekki alltaf sú vinsælasta.  Oft er einmitt meiri kærleikur í varnaðarröddinni heldur en þeirri sem þeirri sem þegir í skjóli umburðarlyndis.

Ragnar Kristján Gestsson, 27.7.2008 kl. 21:10

48 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Oft er einmitt meiri kærleikur í varnaðarröddinni heldur en þeirri sem þeirri sem þegir í skjóli umburðarlyndis.

Jamm þetta er alveg satt. En sjónarhóllin er bara þannig þaðan hver sá horfir sem mælir. 

Ég til mig trúaða manneskju, ég trúi á ljósið, kærleikan og umburðarlyndið.  En ég er ekki tibúin til að meðtaka allt það sem krossberar "trúarinnar" vilja segja okkur.  Og ég er ekki tilbúin til að taka undir margt það sem stendur í biblíunni.  Og ég er ekki tilbúin til að meðtaka órökstuddar varnarræður til handa Gunnari Hvítasunnupresti né neinum öðrum sem talar eins og hann, þar með talinn biskup Íslands, með sínar fordómafullu rullur um að þessi eða hinn sé ekki samboðin kristinni trú.  Samkvæmt því sem ég trúi, þá eru allir jafn gjaldgengir til Guðs.  Það er ekki farið í greiningu á þessum eða hinum.  Heldur má hver og einn taka því sem hann stendur fyrir.  Orð eru til einskis nýt nema til að gera sjálfan sig betri í augum annara.  það sem gildir eru gjörðirnar, kærleikurinn og umbyrðarlyndið sem hver og einn skilar af sér til samfélagsins.  Ég gef ekki neitt fyrir orðin, ef ekki fylgir neitt á eftir nema fordæming eða hræsni.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2008 kl. 21:22

49 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

En sjáðu til, þarna ertu búin að búa þér til þinn eiginn Guð sem hefur þá eðlisþætti sem þú kýst þér að "undirgangast".  Hvar er þar trúin?  Ég held að vox populi, vox dei (rödd fólksins=rödd Guðs) sé fyrirbæri sem einkenni "trú" dagsins í dag, réttgetið afkvæmi þess stolts sem dragi niður allt okkar andlega líf á svið sjálfsupphafningar.  En hvar endar það á efsta degi?  Að maður mæti sjálfum sér?

Ragnar Kristján Gestsson, 27.7.2008 kl. 21:44

50 identicon

Dæmisagan er góð og verðug öllum til umhugsunar - því ekki er það í Drottins vilja að við hrokumst up og teljum okkur æðri öðrum mönnum.
Takk Ásthildur fyrir hana.

Mig langar líka að segja ykkur að ég ber virðingu fyrir Gunnari í Krossinum því í mínum huga er hann mjög hugrakkur að þora alltaf að tala út frá sannfæringu síns hjarta - við erum svo alltof mörg sem segjum það sem við höldum að fólk vilji heyra okkur segja - svo enginn verði reiður við okkur.

Mér dettur í hug hin týpíska spurning sem svo oft er borin upp við fólk í viðtali: - Hvað er það sem þér líkar verst í fari fólks?
Svarið er í flestum tilfellum: - Óheiðarleiki - fals - ósannsögli.
Og það sem flestum líkar í fari annarra: - Heiðarleiki - trygglyndi - sannsögli.


Gunnar þorir að koma fram með það sem hann vill segja þó hann viti að slíkt aflar honum óvinsælda - til þess þarf mikið hugrekki!!
Þess vegna finnst mér alltaf vænt um Gunnar í Krossinum.

Guð elskar alla menn og vill gefa ykkur öllum sem viljið taka við því yfirflæði af gleði, hamingju og innri frið!!!

Ása (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 22:23

51 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Að ég sé búin að búa mér til minn eigin Guð ? já ef til vill, en þá ef ég gert það af öllum mínum vilja og mætti og trúi á að það sé rétt.  Er það eitthvað verra eða minna virði en trú ykkar á Gunnar í Krossinum? Ég hef upplifað það sem kallast Nirvana, beint samband við almættið,  upplifað þá yndislegu tilfinnigu að tilheyra Guði.  Ég hef upplifað kærleikann í sinni tærustu mynd.  Og ég segi við ykkur sem hér komið fram og talið tungum, ég skil hvað þið eruð að segja, en ég segi líka, þetta er ekki bundið við hvorkið biblíuna né Jesúm Krist.  Þetta hefur með að gera trúna á Guð, sem er ljós og kærleikur, með það að gera að bera virðingu fyrir öllu lífi, og bera virðingu fyrir sjálfákvörðunarrétti hvers og eins til að ákveða sjálfur hvaða leið hann vill ganga. Í mínum huga virkar lögmálið þannig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.7.2008 kl. 23:03

52 identicon

Afar góðir punktar en Gunnar hefur skapað úr sér táknmynd þess sem margt fólk fyrirlítur í fari trúarbragða eða óþroskaðan ósveigjanleika sem gengur gegn kærleikanum sjálfum. sjálf ert þú trúaðri en Gunnar því þú þorir að sleppa haldreipi prentsvertunnar

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 23:10

53 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Einn munurinn á hinni kristnu trú og þeim sem blendingi sem oft hefur verið settur undir hattinn „transcendental meditation“ er að kristin trú er til fyrir velferð einstaklingsins með hag fjöldans, hópsins og/eða fjölskyldunnar að leiðarljósi en tm er bara gert fyrir einstaklinginn.  Markmið kristninnar er réttlæti fjöldans (dikaiosyne=heildarréttlæti) en flestra annar leiða einmitt nirvana þar sem hver situr að sínu.  Gegn slíkum andlegum egóisma berst m.a. Gunnar, því miður í óþökk margra ykkar.

„Guð og sjálfsákvörðunarréttur allra“ er þetta ekki líka þversögn í eðli sínu eða jafnvel eðli Guðs?

Ragnar Kristján Gestsson, 28.7.2008 kl. 07:48

54 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Jón Valur - "Jafnvel Guðsteinn Haukur ber lof á þig, Ásthildur! – hefur trúlega dottið vitlausum megin fram úr í morgun.

Þessi skáldsaga gerir Gunnari alls ekki rétt til og er í raun og sannleika rætin og dæmandi í hans garð. Guð fyrirgefi ykkur."

Gunnar í Krossinum á alla mína virðingu, og leit ég ekki á þetta sem aðför á hans persónu. Dæmisagan sem slík er góð og gild, og er hægt að læra ýmislegt af henni. Ekki nema ég hafi misskiilið eitthvað og þú hafir verið að heimfæra þessa sögu uppá Gunnar sjálfan? Var það Ásthildur? Því slíkt er illa gert og get ég eigi samþykkt slíkann boðskap. En sagan sjálf er ágæt ein og sér.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 28.7.2008 kl. 09:02

55 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Því Ásthildur þú segir:

Ég gef ekki neitt fyrir orðin, ef ekki fylgir neitt á eftir nema fordæming eða hræsni.   

Veist þú þá hvaða góðverk Gunnar hefur gert? Ég get bent á þó nokkur. Hann er ekki bara með talanda, hann er með verkin líka.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 28.7.2008 kl. 09:08

56 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sagan er ekki um Gunnar í Krossinum, en viðtal sem ég heyrði hluta úr kveikti hjá mér hugsunina að þessari sögu.  Það verður hver og einn að bera ábyrgð á því sem hann segir.  Það geri ég líka. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.7.2008 kl. 09:10

57 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Það er það sem mig grunaði Ásthildur, og læt ég hér staðar numið.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 28.7.2008 kl. 09:17

58 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jafn-heill og góður maður sem þú ert, Guðsteinn Haukur, er nú greinilegt orðið, að þú hefur ekki verið að taka undir neinar ásakanir á hendur Gunnari, og ég er þess fullviss, að hann reiknar þér þetta eftirtektarleysi ekki til neinnar óvináttu né vansæmdar. Guð blessi þig, kæri vinur, og ég bið þig að fyrirgefa mér að hafa nefnt nafn þitt þarna, þegar ég vissi þó ekki, að í raun hafði þér alls ekki skilizt þessi dæmisaga á þennan veg.

Friður sé með samfélaginu! Ragnar Kristján, þakka þér að deila hér með öðrum innsýn þinni í málin, um eðli kristinnar trúar og sérstöðu hennar. Ég get þó ekki á neinn hátt gert lítið úr því, sem Ásthildur hefur upplifað, hvort sem það er kallað nirvana, algleymi með Guði eða andleg reynsla. Fleiri upplifa návist Guðs og kærleika en þeir, sem beinlínis eru yfirlýstir kristnir, en þeir ættu þó, ef þeir fá að kynnast kristinni trú í réttri útleggingu hennar, að sjá, að upplifun þeirra var í sömu áttina og hún og að ekkert í þeirri upplifun gefur þeim í raun ástæðu til að andmæla neinu í sannindum kristindómsins. – Með kærri kveðju og góðum óskum,

Jón Valur Jensson, 28.7.2008 kl. 11:48

59 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Takk fyrir það kæri Jón Valur. Ég skildi þessa ágæti dæmisögu á þann veg að hún eigi við okkur öll, sama hver við erum eða hvaða skoðun við kunnum hafa.  Ég viðurkenni samt fúslega að ég tók ekki eftir að minnst var á Gunnar, ég var of upptekinn að lesa þessa ágætu sögu, og eru það mín mistök og biðst ég forláts á misskilningnum.

Dæmisagan sjálf er samt afar góð og vel fram sett, eins og segi við getum öll lært af henni sama hvaða trúar eða skoðun við höfum.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 28.7.2008 kl. 12:42

60 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásthildur mín og þið öll.

Ég tek undir skrif Sigga vinar míns Þórðarsonar.

"Að mínu mati stæði hún sterkari ein og sér, án tengingar í formála við tiltekna persónu."

Að endingu: Munið að öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.

Friðarkveðjur/Rósa.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 28.7.2008 kl. 13:12

61 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábær saga Ásthildur mín.  Þú ert velhugsandi kona, það hefur komið margoft fram.  Þér er greinilega annt um fólk og allt fólk og því gagnrýnir þú það sem aðrir standa fyrir þegar það stangast á við hreinleika þinn og einlægni.

Hvernig endalaust er hægt að gagnrýna samkynhneigða af öfgatrúarliðinu og blekkja fólk með innrætingu guðsótt er bara skelfilegt.  Ég vorkenni öfgatrúuðum og mér leiðist hræsnistalið þeirra og skrifin um þennan guð þeirra sem er allt annað en góður.  Að vera háður ritningum í biblíunni og líta á þær sem lög ber mikinn vott um ósjálfstæði og þörf fyrir að láta aðra segja sér hvernig á að hugsa og akta.

Fólk þarf að temja sér sjálfstæða hugsun.  

Knús á þig Þú stendur þig eins og hetja.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.7.2008 kl. 13:28

62 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.  Ég sagði bara eins og var, að ummæli Gunnars kveiktu þessa sögu hjá mér.  Það má alveg deila um það hvort rétt var að tengja nafn hans við hana.  En er ekki sannleikurinn alltaf sagna bestur.  Væri ég betri manneskja ef ég hefði ekki sagt frá því hvaðan hugmyndin kom ?

Takk fyrir hlý orð Margrét mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.7.2008 kl. 17:14

63 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

þetta er svoldið sjúk saga og kannski óþarfi að tala eitthvað um það nánar, en Þeir sem réttlæta sjálfa sig og telja sig hafa unnið sér inn í Guðsríkið vegna hversu góðir þeir voru eru á rangri hillu. Við erum réttlæt vegna þess hver Jesús er og einu skilyrðin eru að meðtaka hann sem frelara sinn og Drottinn, til að vera hólpin í himnaríki...

Sigvarður Hans Ísleifsson, 29.7.2008 kl. 14:24

64 Smámynd: Sigvarður Hans Ísleifsson

Ásthildur ert það ekki líka þú sem varst með það sem mottó að skrifa aðgát skal höfð í nærveru sálar? er þá ekki best að gæta að því hvað þú skrifar?

Sigvarður Hans Ísleifsson, 29.7.2008 kl. 14:29

65 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásthildur mín

Það er aldeilis fjör hér hjá þér.

Fyrsta málsgreinin í sögunni um gamla prestinn lýsir manni sem hefur farið út af sporinu og hefur hrokast upp. Það er ekki vilji Guðs að við séu svona og veit ég að Gunnar er ekki svona því ég þekki hann persónulega. Því miður virðist vera auðvelt að snúa út úr öllu og breyta því sem hann eða aðrir segja og þá er ég ekkert endilega að meina bara  trúmál. Ótrúlegt að hlusta á Alþingismenn toga og teygja setningar hvors annars.

Sem betur fer fékk presturinn í sögunni tækifæri að endurmeta líf sitt og breyta því sem hafði farið aflaga. Ég ætla ekkert að kíkja á hvert smáatriði en ég get túlkað þetta þannig að við höfum öll syndgað en við eigum árnaðarmann hjá Guði föður okkar sem er einkasonur hans Jesús. Ef við viljum fá fyrirgefningu á syndum okkar getum við beðið Jesú Krist að fyrirgefa okkur og eins alla þá sem við höfum gert til miska.

Guð veri með þér kæra vinkona

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.7.2008 kl. 14:47

66 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sigvarður er greinilega haldinn miklum guðsótta.  Það kemst semsagt enginn til himnaríkis nema fara hans leið..........hinir fara allir til helvítis .........omg

Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.7.2008 kl. 17:23

67 identicon

Já Magga en stundum byrjar andleg vakning með svona látum því fólk grípur til næstu prentsveru í stað þess að hugsa alla leið og kanna alla kosti.  Guðsótti er engu að síður röng nálgun við almættið því sá er gengur veginn af ótta sér ekki blómin í kantinum.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 17:51

68 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Leiðina til Guðs getum við mennirnir ekki ratað á andlegum stiga, né mannlegri visku. Jesús sagði að það væri auðveldar fyrir úlfalda að komast í gegn um nálaraugað, heldur en ríkan mann í Guðsríki.

Við mennirnir erum full af sjálfréttlætingum (ég er þar ekki undanskilin) og hroka. Jesús sagði að engin kæmist til Föðurins (Skaparans - Guðs) nema fyrir sig. Hann sagði ÉG ER Dyrnar, Ég ER SANNLEIKURINN, VEGURINN OG LÍFIÐ, ENGINN KEMUR TIL FÖÐURINS NEMA FYRIR MIG.

Annað hvort var Jesús fullur af hroka og ranghugmyndum um sjálfan sig, eða hann sagði og lifði SANNLEIKANN.

Ég dáði Jesú þegar ég var barn í einlægri barnstrú minni. Enda sagði Jesús að sá sem ekki kæmi til Guð eins og barnið, (í einlægu trúartrausti og blátt áfram) ættu í erfiðleikum með að  höndla trúna.

En vegur minn var þyrnum stráður og víða leitaði ég af Guði. Ég reyndi að smíða mína andlegu stiga upp til Guðs og bæta mig á þann hátt að ég yrði Guði þóknanleg. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að Guð sjálfur kom niður til mín, þar sem að ekki er til kleifur stigi inn í hans nærveru. Guðríki er gjöf og hann vill kalla okkur syni (dætur). 

Jesús sagði að ekki einn stafkrókur úr lögmálinu félli niður (Jesús var Gyðingur) og ekki kom hann til að breyta lögmálinu, heldur til að uppfylla það.

Elska Guðs er svo mikil og undursamleg að hana fáum við seint skilið. Ég veit það eitt að ég hef meðtekið Frelsara minn og Guð Föður og efast ekki um að hans lög séu góð. Ég trúi því að Biblían sé Guðs Orð, innblásið af hans Heilaga Anda. Ég get valið fyrir mig að beygja mig í gleði fyrir hans Anda og leita eftir hans nærveru og Krafti inn í mitt líf, dag hvern, eða ég get valið að ganga fram í hroka og sjálfsréttlætingu holds míns. Um þetta snýst baráttan og ég get ekki ætlast til að allt sé þægilegt og gaman, því það góða sem að ég vil gjöra, gjöri ég ekki, en það vonda sem að ég vil ekki gjöra, gjöri ég. Ég er hér að taka undir orð Páls Postula, en hann var maður sem að þreytti þessa baráttu.

Það sem ég er að segja er að þó svo að sumum finnist þessi dæmisaga Ásthildar vera góð, að þá er ég ekki viss um að hún endilega gleðji Hjarta Guðs.

Það er alveg ljóst að Drottinn minnist þess að við erum mold, eins og segir í Sálmunum og því er miskunnsemi hans við okkur eylíf. Hann elskar börnin sín með skilyrðislausum Kærleika sínum, það er ekki þar með sagt að allt sem að við hugsum, segjum og gerum gleðji hann.  

En elskum við mennirnir Guð Föður okkar á þann hátt sem að Jesús sagði okkur að við skyldum gera, af öllum huga okkar, hjarta okkar og mætti. Erum við mennirnir tilbúnir að beygja vilja okkar og líf á þann hátt sem að honum er þóknanlegt. Ég verð að segja fyrir mig, að þarna er ég oftar en ekki sek um að falla í gryfju sjálfshyggjunnar og Egósins.

Þess vegna bið ég Guð um að opna mína sálarsjón og leifa mér að sjá og skilja hið góða, fagra og fullkomna í Hans Eðli.

Áður en þú gagnrýnir mig kærir bloggari, þá spyr ég þig, ert þú tilbúinn að leita Guðs af öllu þínu hjarta og ert þú tilbúinn að læra að þekkja Hann raunverulega  og persónulega, en ekki bara af afspurn. Jesús sagði, Lýður minn mun farast vegna vanþekkingar.  

 Gunnar í Krossinum er maður sem að lifir sína sannfæringu og þolir bæði dóma fólks og gagnrýni fyrir. Hann er svo sem ekki hafinn upp fyrir gagnrýni, en mér finnst samt menn oft vera að kasta steinum úr glerhúsum.

Menn segja að hann sé sjálfsumglaður og hrokafullur. En hann skortir allavega ekki þá náð að geta fyrirgefið, hann fór sjálfur að heimsækja og uppörva morðingja móður sinnar, sem ég veit persónulega að hann elskaði heitt. Þar reyndi á Gunnar að lifa Trú sína og hann stóðs þá raun. Fyrir það og margt annað á hann virðingu mína.  

Guð blessi ykkur öll !

G.Helga Ingadóttir, 30.7.2008 kl. 00:29

69 Smámynd: Jón Valur Jensson

Yndislegt þetta frá G. Helgu, og það sem meira er: það er svo satt.

Jón Valur Jensson, 30.7.2008 kl. 02:29

70 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Það sem Helga segir er hennar trú! og eins og margir aðrir trúaðir predikar hún yfir fólki Síðan er ekki vitað hvað Jesú sagði, hann skrifaði ekkert sjálfur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 31.7.2008 kl. 02:05

71 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 5.8.2008 kl. 19:31

72 identicon

Auðvitað er JVJ og Gunnar í krossinum skíthræddir við guðinn sinn, það stendur jú í biblíunni að guðinn mun drepa JVJ og Gunnar líka ef hann verður pissed.
JVJ og Gunnar eru að hrópa á hjálp: Hjálp, hjálp, samkynhneigðir eru að gera gudda svo reiðann að hann gæti drepið okkur líka og sett okkur í helvíti.

Báðir þessir kumpánar hafa lesið biblíu skrilljón sinnum og vita vel hvað þeir eru að segja.
Kjarninn í tali ofsatrúarmanna er einmitt sjálfselska og örvænting yfir örlögum þeirra sjálfra, þeir segja að guðinn sé yndislegur, miskunsamur, kærleiksríkur ástartappi en staðreyndin er sú að dæmið er öfugt; Munið mottó guðs: Submit or burn.

En auðvitað er þetta bara gamalt ævintýri og misheppnuð vísindi fornmanna... en JVJ + Gunnar þora ekki að taka sénsinn á að viðurkenna þetta... vegna þess að þeir elska sjálfa sig svo mikið.. og náttlega Ísrael ofurþjóð guðsins

DoctorE (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 08:24

73 Smámynd: Laufey B Waage

Frábær saga mín kæra. Má ég prennta hana út og eiga hana? Ég nennti nú ekki að lesa allar athugasemdirnar frá orði til orðs. Mér finnst alltaf svo sorglegt hve margir sem telja sig Kristna og gaspra hátt um það, - koma í raun óorði á Kristindóminn, með því að hegða sér og tala í algjörri andstöðu við það sem Kristur sjálfur boðaði með orðum sínum og gerðum.

Laufey B Waage, 6.8.2008 kl. 08:32

74 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Auðvitað máttu eiga hana Laufey mín, mín er ánægjan.  Já það er alltaf sorlegt þegar fólk missir sig í einhvern ofsa, þegar einhver segir eitthvað.   Þá er alveg sama um hvað er rætt.  En það eru aðallega allavega atriði sem alls ekki má ræða hér á Íslandinu okkar góða.  En það eru trúmál og útlendingar og aðstaða þeirra.

Ég var reyndar ekkert að tala um Gunnar í sögunni.  Ég sagði bara að viðtal við hann hefði kveikt hugmyndina.  Það þýðir bara fyrir mér, að maðurinn talaði þannig að þessar hugsanir komust á kreik í hausnum á mér.  Sem svo varð til þess að ég skrifaði söguna.  Þess vegna er furðulegt að draga hann inn í söguna, og fara að verja hann á einhvern hátt.  Nema að fólk hugsi meira um það hvernig hann talar, þvert ofan í allt hólið um hann.  Ekki veit ég.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2008 kl. 09:02

75 identicon

Rifjum upp orð Gunnars þegar Guddi drap 70 manns.. ef Gunnar hefði verið guð þá hefði hann drepið 70 þúsund manns.. mmmuhhhhoooo
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/555987/

DoctorE (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband