Mannlegt eðli - dýrseðli - hugleiðing.

Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum sem hafa auðsýnt mér og fjölskyldu minni samhug og hlýju á þessum erfiðu tímum. Heart

 

 Ég hef vanrækt ykkur hér, en ætla mér að bæta úr því.  Þetta samfélag er gott samfélag, og hreinsandi fyrir hugann.  Þó oft ofbjóði mér að lesa sumt sem fram kemur, þá er það svo að betra er að vera upplýstur um slíkt en sitja í þokumóðu, eins og verið hefur þangað til blogg og spjallrásir komu fram.  Þá loksins hafa opnast dyr fyrir hinn almenna mann að tjá sig og segja frá því sem betur má fara.  Það er að mínu mati nauðsynlegt aðhald fyrir ráðamenn hvar sem þeir eru, hvort heldur andlega leiðtoga, stjórnmálamenn eða bissnessmenn. 

 

 

284007_258_preview

Eva Joly, kona sem ég ber djúpa virðingu fyrir.

 

Hugleiðing:

  

Biskupinn sá sem nú hrekst milli horna í undanslætti og sögufalsi, hefur í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að það góða í manneskjunni sé frá biblíunni og kristninni komið.   Hann hefur nú rækilega afsannað þá kenningu sína.

  

Málið er að samviska og góð hugsun fylgir ekki neinum trúarbrögðum eða kirkjulegri ítroðslu, heldur því hvernig manneskjan er sjálf innréttuð, og hvað hún hefur tamið sér og hvernig uppeldi hennar hefur verið háttað hvernig hún sjálf hefur unnið úr lífi sínu og umhverfi. 

Mér hefur reyndar alltaf fundist það fyndið hvernig kristnir menn hafa reynt að boða að réttlæti, umburðarlyndi og aðrir góðir kostir mannskepnunnar séu vegna trúar á Guð og biblíuna.  Því í gegnum tíðina hafa margir  slíkir menn sýnt að hvergi er grimmdin meiri, ofstækið dýpra og fordæming svartari en einmitt hjá  fólki sem telur sig hreintrúað og les biblíuna reglulega og fer í kirkju.

 

Þar með er ég ekki að segja að allir sem kalla sig trúaða séu slíkir.  Heldur einungis að benda á þá sem hæst tala.  Ég þekki yndislegt fólk sem lifir í kristilegum kærleika, presta, prestlærlinga og fólk sem trúir einlæglega á Guð og Jesús.   Þó ég sé ekki sammála því að Jesús hafi verið Guðsson og að allt líf sé honum háð og í hans dýrð, þá virði ég þessar skoðanir, þegar þær eru iðkaðar af fólki sem einlæglega trúir þessu og lifir í kærleikanum.  En verð að segja að það er svo langur vegur frá, að hægt sé að virða þá sem telja sig þess umkomna að standa á haug og fordæma alla sem ekki lúta þeirra skoðunum.  Jafnvel sínum eigin trúbræðrum af því þeir eru ekki nógu róttækir.  Til slíkra hugsa ég með vorkunn  því ég hugsa að þeir verði fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar  þeir loksins fara yfir móðuna miklu og sjá að þar er enginn hörpusöngur þeim til dýrðar, og ekkert hásæti frátekið fyrir þá.  Heldur þurfa þeir að horfast í augu við eigin fordæminu, hræsni og sjálfsupphafningu.  Ætli það verði ekki þeirra versta refsing

 

Ég hef aldrei haft mikið álit á biskupnum séra Karli.  Mér hefur alltaf fundist hann einn af þessum upphafningum, sem telja sig ofar en aðrir.  Þröngsýnn og  fordæmandi.  Nú hefur komið í ljós að maðurinn er uppfullur af  skúmaskotum, og hrekst  frá einni lyginni í aðra til að bjarga sínu eigin skinni.  Meira að segja Gunnar í krossinum sem ég þó taldi sitja á sama bekk, hefur séð villu síns vegar, og vill bæta sitt umburðarlyndi, það er gott mál og honum til sóma. 

 

Það er ekki mikill munur á sjálfskipuðum andlegum leiðtogum þjóðarinnar og þeim veraldlegu.  Flestir hugsa þeir fyrst og fremst um sig og sitt nánasta.  Flestir þeirra löngu komnir langt burt frá almenningi í landinu, gjáin svo breið að þeir hvorki sjá né heyra í fólkinu, fyrr en það þjappar sér saman og kallar í einum kór. 

 

Málið er bara að almenningur er ekki alveg tilbúin til að standa saman og tala einum rómi, þó hann hafi séð, svo ekki verður um villst að um leið og honum er  gróflega misboðið,  og hann myndar bandalag um einstaka mál, þá þorir yfirvaldið ekki annað en að grípa til aðgerða, snúa af leið eða afsaka sig.  Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þarna liggur máttur okkar og megin.   Samstaða okkar er það eina sem dugar gegn ofurvaldinu.  Við þurfum líka að átta okkur á því að við erum öll jöfn,  þessi óttablandna virðing fyrir fólki sem hefur tekið sér völd, verður að víkja.  Það er til dæmis allt í lagi að kalla ráðherra Gellu, rétt eins og litlu Gunnu Jóns.  Sá undirlægjuháttur sem einkennir allt of marga og hefur gert alla tíð, verður að víkja fyrir hugsuninni um jafnrétti og bræðralag ALLRA en ekki bara sumra.

 

Dropinn holar steininn, en það gerist ekki allt í einu, heldur smátt og smátt.  Þess vegna verðum við að sýna þolinmæði, og setja okkur einföld markmið.  Láta ekki vaða yfir okkur með yfirgangi, heldur standa þétt saman og láta vita að það er hingað og ekki lengra.  En setja síðan fram skynsamlegar tillögur og krefjast þess að þær séu uppfylltar.  Fáar en sterkar.  Eins og Hörður Torfason gerði á Austurvelli.  Ein megin krafan í dag hlýtur að vera að hætt verði við að leyfa allt að 2 milljón króna framlögum til framboðs í stjórnlaga þing þar eiga ekki að koma peningar nein staðar nálægt.  Það er óþolandi hve stjórnvöld eru illa að sér um greiðsluþol þorra landsmanna og bara þetta hlýtur að útiloka langflesta landsmenn frá þátttöku.  

 

Við eigum yndislegt land og gott fólk, en einhverra hluta vegna hefur hluti þjóðarinnar hrifsað til sín allt það sem efnahagslega skiptir máli.   Auðæfin, yfirráðin og fjölmiðlana og bráðum auðlindirnar.  Þessu verður að breyta.  Því við verðum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn, og meðan þetta fólk situr og neitar að víkja, heldur spillingin áfram og við slíkar aðstæður verða menn sífellt ágjarnari, heimtufrekari og vilja stærri köku.  Löngu komnir úr öllum takti við þjóðina. 

 

Ég hef reynt að ímynda mér hvernig því fólki líður, sem hefur verið staðið að allskonar illum ásetning og spillingu.  Þegar uppkemst og það uppsker reiði, fyrirlitningu og   andstyggð samferðamanna sinna.  Situr samt sem áður fast þar sem það er, og neitar að horfast í augu við raunveruleikann.  Byrjar að ljúga og afbaka sannleikann til að fegra gjörðir sínar.  Það hlýtur að vera mjög erfitt að standa í slíku sjálfskaparvíti.

 

Ef einhver samviska er eftir í þeim huga, hlýtur þeim sama að líða illa.  En græðgin er of mikil í völd eða peninga.  Svo heldur en biðjast afsökunar og skila ránsfeng, eða víkja til hliðar til að hleypa öðrum betri aðila að, er setið og þumbast við. 

Það kemur alltaf að skuldadögum.  Það gerist ef til vill ekki í dag, eða á morgun, en það veit sá sem allt veit, að það kemur að því að uppgjör fer fram.   Þá þarf að fara að horfast í augu við eigin heimsku, græðgi og gjörðir.  Ég held að það sé varla til harðari refsing nokkrum manni en að þurfa að mæta sjálfum sér og samviskunni, þegar  of seint er að breyta nokkru að bæta fyrir glæpinn.  Þurfa að mæta þeim sem gjörðir þeirra, hafa orðið til að eyðileggja líf eða heilsu, sundrað fjölskyldum, valdið óbætanlegu tjóni og jafnvel verið valdir að ótímabærum dauða samferðamanna. 

 

Vald er vandmeðfarið, og þegar fólk tekur að sér að stjórna samfélagi manna, þá er það mesti glæpurinn að nota það vald til að hygla sjálfum sér, vinum og kunningjum á kostnað annarra sem betur eru til þess hæfir að sinna slíku.  Þetta er því miður frekar viðtekinn venja en hitt.  Allt slíkt er örugglega skráð í himnabækurnar, og þeir sem trúa því að lykla Pétur sitji og skrái niður gjörðir mannanna, sitjandi við Gullna hliðið, hljóta að óttast dauðann meira en nokkuð annað.  Og þá ekki síður hinir andlegu leiðtogar, því ef þeir virkilega trúa því sem þeir eru að segja fólkinu í kirkjum landsins, þá ættu þeir að óttast efsta dag manna mest.  Eða halda þeir ef til vill að þeir séu sjálfir hafnir yfir þann dóm?

 

Ef menn eru að hugsa um heiti þráðarins, um mannlegt eðli og dýrseðlið, þá er það svo skilgreint, sem mér finnst afar illa til fundið.  Því oft er mannskepnan grimmari en nokkurt dýr.  Meira að segja minkurinn ræðst ekki á afkvæmin hvorki sinna eigin né annarra minka.  Ætli mannskepnan sé ekki eina dýrið sem getur bæði misþyrmt og drepið sitt eigi afkvæmi og annarra. 

 

Það er líka misskilningur ef elítan heldur að þau komist upp með þetta endalaust.  Eins og ég sagði áðan dropinn holar steininn, það er löngu kominn tími á að skipta út vanhæfu fólki, sem er löngu hætt að finna til með þjóðinni, en reynir alla feluleiki  sem það finnur til að villa um og flækja málin.  Það er líka komin tími til að við förum að huga að því sem skiptir mestu máli hjá okkur, að hlú að fjölskyldunni, heimilunum, okkar minnstu bræðrum og systrum.   Þeirra vegna þurfum við að snúa af þessari hraðbraut til Andskotans, læra að standa saman og fara að snúa bökum saman um velferð samfélagsins.  Eða eins og Hörður Torfason vinur minn sagði; Það er ekki hægt að benda þú og þú og þú mátt vera með, en þú ekki.   Hann sagði við verðum að leyfa spillingaröflunum og útrásarvíkingunum að vera með okkur, en við þurfum að leiðbeina þeim í áttina að því samfélagi sem við viljum hafa hér.  Vera umburðarlynd og sterk, og hjálpa þeim til að skilja að okkur líður öllum best ef við stöndum saman og hlúum að því góða og fallega. 

c_documents_and_settings_erna_hjaltested_my_documents_blog_isl_faninn_713981 G1N49PDS c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_2008-08-27_2008_27_8_unnar_yndir_fyrir_blogg_2_janth09_3_ja_775132 

Ísland er land þitt

 

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir

Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.

Ísland er landið sem ungan þig dreymir,

Ísland í vonanna birtu þú sérð,

Ísland í sumarsins algræna skrúði,

Ísland með blikandi norðljósa traf.

Ísland að feðranna afrekum hlúði,

Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.


Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.


Magnús Þór Sigmundsson / Margrét Jónsdóttir
Jamm fyrirgefið ef ykkur finnst ég væmin.  En í dag er ég svo væmin og uppfull af landinum mínu og þjóðinni.  Við verðum að finna okkar grundvöll og standa fast á okkar rétti sem þjóð.  Við erum Íslands synir og dætur, og okkur ber að virða sjálfstæði landsins með öllum tiltækum ráðum. 
Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott hjá þér :)

Ísland er land mitt !

Kv.

Gaui.Þ

Gaui.Þ (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 17:53

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég tek undir með þér, "Málið er að samviska og góð hugsun fylgir ekki neinum trúarbrögðum eða kirkjulegri ítroðslu, heldur því hvernig manneskjan er sjálf innréttuð, og hvað hún hefur tamið sér og hvernig uppeldi hennar hefur verið háttað hvernig hún sjálf hefur unnið úr lífi sínu og umhverfi. "   ég man þegar Karl biskup gifti mig, hélt hann svo háfleyga ræðu að ég skildi varla orð af því sem hann sagði.  Í dag finnst mér að hann Karl biskup ætti að segja af sér, hann stendur sig ekki.  Hann hefur greinilega týnt sjálfum sér einhversstaðar á leiðinni.   

Svo vona ég að við almúginn lærum fljótlega að standa saman, þrátt fyrir skiptar skoðanir okkar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.8.2010 kl. 01:01

3 Smámynd: Lýður Árnason

Alveg einsog þjóðin, þarf kirkjan sjálfstæði, þannig getur hún flíkað sínu fólki að vild og á eigin kostnað.   Og sú stund nálgast enda hlálegt að predika kærleika en iðka svo eitthvað allt annað.  Vona bara guð fyrirgefi þeim, blessuðum...

Lýður Árnason, 24.8.2010 kl. 02:18

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Guðjón minn.

Jóna, ég held að við munum læra að standa saman um einhver þau atriði sem skipta okkur mestu máli.  ég hef þá sýn að það fólk sem hvað mest hefur unnið með okkur, bloggarar og lærðir menn, muni leiða okkur inn í slíkt ferli.  Okkur mun takast að standa saman og segja NEI við vitleysunni og hefja nýtt samfélag, og það verður ekki innan veggja ESB.  Við höfum aflið, viljann og getuna til þess, við erum einungis núna að leita að gatinu sem við getum skriðið út um til að láta í okkur heyra.

Sammála Lýður, kirkjan þarf að vera utan við fjárlög ríkisins, nema með einhversskonar stuðningi eins og önnur trúfélög.   Málið er sennilega að þeir telja sig eiga fullt af jörðum og jafnvel heilu kaupstaðina eins og Hafnarfjörð.  En fá verður líka að ryfja upp á hvern hátt prestarnir sölsuðu undir sig eigur bændanna á dánarbeði oft á saknæman hátt.  Rétt skal vera rétt. Prestar voru útrásarvíkingar gamla tímans. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2010 kl. 08:42

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 24.8.2010 kl. 14:43

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 24.8.2010 kl. 15:11

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gott að sjá þig

Hrönn Sigurðardóttir, 24.8.2010 kl. 20:40

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Sæl Ásthildur, við deilum áliti á Karli biskupi. Það er eitthvað svo ó-einlægt við hann, sem ég get ekki fest fingur á, bara tilfinning. Sigrún Pálína talaði algjörlega inn í hjarta mitt í kvöld í Kastljóssviðtali. Ég er hrædd um að Karl eigi eftir að sitja sem fastast og skaða þannig þjóðkirkjuna meira en orðið er.

Annars bara takk fyrir mig og þakka þig sem segir alltaf það sem þér býr í brjósti.

Jóhanna Magnúsdóttir, 26.8.2010 kl. 22:42

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk allar

Jóhanna mín ef allir þeir sem telja sig kristna væru eins og þú, þá væri þessi óeining ekki til.  Það er svo greinilegt að Karl er bara að bjarga eigin skinni með þessari væmni, og þorir ekki að taka af skarið og vera maður til þess, ekki fyrir 20 árum og því síður núna.  Takk sömuleiðis.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.8.2010 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2020897

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband