Elsku Pabbi minn.

Í dag er til foldar borinn elskulegur faðir minn, Þórður Ingólfur Júlíusson.  Ég elskaði hann mikið, og bar alla tíð djúpa virðingu fyrir honum og því fólki sem hann kom frá.  Harðduglegu fólki sem mátti ekki vamm sitt vita.  Þar sem handtak og orð stóðu eins og stafur á bók.  Aldrei fals eða lygi, stundum röff, komandi frá harðbýlasta stað á Íslandi.  Þar sem lífsbaráttan var eins og annara dýra, hörð.  Barátta um mat og afkomu.  Að lifa.  Þó var þetta fólk gestristnasta fólk í heimi.  Menn sem heimsóttu Fljótavík fengu allan viðurgerning eins og gestum bar á þeim tíma, og aldrei var spurning um neina þóknun eða borgun.  Þó menn kæmu án heimboðs.  Kurteisi og góður viðurgerningur við gesti var þeirra aðal.  Oft var lítið um mat í hörðustu frostavetrum, þá varð að bjarga sér á því sem til var.  Ef allt var ísilagt var lifað á trosi uns hægt var að róa á ný.  Ekki var að furða þó föður mínum væri næst á þessum síðustu dögum, þegar hugsunin var ekki alltaf skýr, hver hefði farið að róa með pabba i dag.  Og ég, sem er ekkert svona mikið fyrir söguna eins og sumir minna ættmenna, giskaði iðulega á vitlausan bróður til að hafa róið, ýmist of ungur, farin að heiman of snemma, eða einfaldlega ekki á staðnum.  Samt reyndi ég að spila með.  Því þegar svona er komið, þá er hugurinn komin heim í heiðardalinn og ekki þarf að ræða það meir.

Afi Júlíus í Fljótavík með hundinn siinn

Afi Júlíus með hundinn sinn, hann þurfti að bregða búi árið 1946. Það hafa verið þung spor að yfirgefa heimili sitt, þar sem hann hafði búið yfir 40 ár, og átti tiltölulega nýbyggt hús.  Enda var það svo að afi fór aldrei aftur til Fljótavíkur.  Gat ekki hugsað sér að sjá víkina sína í eyði.  Sagt var að afi væri þriggja manna maki við slátt.  Og víst er að hann var heljarmenni að burðum.  Því útræði stundaði hann allan ársins hring meðfram búinu, og þá frá Aðalvík, þaðan sem hann þurfti að bera allt sitt til heimabruggs yfir fjallveg, heim að kvöldi og yfir aftur snemma að morgni til að róa.

Upp úr þessu stritlífi er pabbi minn sprottinn.  Og það hefur einkennt allt hans líf.  Hann og öll hans systkini voru hörkudugleg og þegar hann kemur til Ísafjarðar um 18 ára gamall, með eina ferðatösku sem innihélt allar hans eigur, þá bar hann vonina um betra líf í brjósti. 

Bróðir hans Jóhann Júlíusson var þá fluttur á Ísafjörð, hann var nokkrum árum eldri.  Þeir bræður byrjuðu strax á að koma sér fyrir.  Stríðið var ekki búið, en það var samt von í fólki um uppbyggingu. 

Pabbi byrjaði á að fara á sjóinn.  Árið 1940 lenti hann í miklum sjávarháska þegar mótorbáturinn Ísbjörn strandaði og sökk með tólf menn innanborðs í Skálavík.  Bjargaðist mannskapurinn naumlega fyrir vasklega framgöngu skipstjóra og áhafnar.  Með Þórði var eldri bróðir hans, Jón Ólafur. Jón Ólafur bróðir hans fórst svo um ári seinna í sjóslysi.  Ég hugsaði er ég las þetta að ef pabbi hefði dáið þarna, sem allt benti til, hefðum við systkinin aldrei litið dagsins ljós, og ekki barnabörnin heldur. En málið var að þetta stóð mjög tæpt, og þeir hófust strax handa við að binda allskonar belgi við björgunarbátinn, því hann var of lítill til að bera þá alla.  En það dugði til að þeir komust í land allir heilir á húfi.

Pabbi og Högni í fljótavík

Pabbi með mági sínum Högna í fjörunni í Fljótavík. Björgunarskýlið í baksýn. 

Þeir bræður Jóhann og pabbi fóru svo að hugsa sér til hreyfings, fyrst fóru þeir í veitingarekstur með stað sem hér Uppsalir.  þvínæst keyptu þeir sér vörubíla og fengu vinnu við slíkan akstur, einnig gerðust þeir leigubílstjórar.  Ég man að oft var hringt að nóttu til, til að panta leigubíl, þegar ég var lítil.  Það var samt reynt að láta það ekki trufla líf barnanna.

Síðan keyptu þeir bát sem hafði strandað í Fljótavík, Gunnvöru, þeir hirtu það sem hægt var að hirða úr flakinu, og nýttu ágóðan sem þeir fengu fyrir það til að láta smíða eikarbát í Skipasmíðastöð Marzellíusar á Ísafirði.  Báturinn fékk svo nafnið Gunnvör.  Það var happafley, og síðar létu þeir smíða tvo stálbáta, annan 150 tonn, sem þeir nefndu Guðrúnu Jónsdóttur eftir mömmu sinni, og Júlíus Geirmundsson 250 tn sem þeir nefndu Júlíus Geirmundsson.

stebbi[1]

Í silungsveiði í Fljótavík, systkinin um 1960.

Þeir hófu fiskverkun um svipað leyti auk ýmissa annarra umsvifa, t.d. stunduðu þeir í mörg ár að ná í ís af vötnum í nágrenni bæjarins og mala hann niður og seldu til togaranna og oft fengu þeir greitt í fiski.  Árið 1954 stofnuðu þeir Fiskiðjuna hf. ásamt fleirum og keyptu nokkru síðar íbúðabragga, sem stóð á Hesteyri, rifu hann niður og byggðu aftur upp við höfnina á Ísafirði.   Árið 1955 stofnuðu Þórður, Jóhann bróðir hans og Jón B. Jónsson  ásamt eiginkonum sínum útgerðarfélagið Gunnvöru hf.. og sóttu þeir nafnið til hins strandaða skips í Fljótavík. 

Síðan létu þeir smíða nýjan togara í Austur Þýskalandi sem bar nafnið Júlíus Geirmundsson, endurnýjuðu hann svo tvisvar með smíði í Flekkefjord í Noregi og svo er núverandi togari smíðaður í Póllandi happafleyta.  Upp úr 1990 ákvað pabbi svo að selja sinn hlut í útgerðinni og togaranum, og var það þá sameinað Hraðfrystihúsi Hnífsdals og ber nú nafnið Hraðfrystihúsið Gunnvör  sem er með öflugust sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.  Auðvitað hefði þetta ævintýri aldrei geta orðið við núerandi kvótakerfi.  það er bara þannig.

En pabbi ásamt mági sínum keypti líka ratsjárstöðina á Straumnesfjalli á sjöunda áratugnum, fór hann svo og reif byggingar og seldi það sem hægt var að selja.  Það eru margar skemmtilega sögur af afrekum hans í því sambandi. 

Árið 1965 hóf hann svo  rækjuvinnslu í skúr ofan við heimili okkar  Vinaminni við Seljalandsveg og starfrækti hana um 15 ára skeið og tók samhliða þátt í útgerð smærri báta til rækjuveiða.

En pabbi var eitthvað svo miklu meira en þetta.  Hann var stórbrotinn maður, yndislegur pabbi.  Hann sagði stundum að hann vildi kenna börnunum sínum að vera sjálfstæðir einstaklingar.  Ef ég get komið því svo fyrir að þið plummið ykkur í lífinu og verðir góðir samfélagsþegnar, þá er ég ánægður sagði hann. 

Hann var nefnilega einn af þessum mönnum sem stóð við allt sem hann sagði.  Og það þurfti engar undirskriftir, handtak gilti eins og undirskrift.  þvílíkur langur vegur frá því sem er í dag. IMG_7068

Hann átti ef til vill ekki mikinn tíma fyrir börnin sín, því hann var sívinnandi, en hann átti svo sannarlega tíma fyrir barnabörnin.  Og jú hann kenndi okkur öllum bænirnar.  Þó sum okkar séu ef til vill búin að gleyma því.  Hann hrósaði okkur líka fyrir vel unnin verk, en gat verið harður og óvæginn ef honum fannst við ekki standa okkur.

IMG_9163

Hér er hann að kenna Ísaac litla lífsreglurnar.

Júllí skírn Úlfs

Hér heldur hann Þórði A. Úlfi Júlíussyni nafna sínum undir skírn.

Pabbi og Úlfur

Og hér fær hann pelann sinn.

IMG_9506

Og hér skoða þeir matseðilinn.

Pabbi hafði gaman af að ferðast.  Sennilega hefur blundað í honum útþrá við einangrunina í Fljótavíkinni.  Ungur athafnasamur maður sem komst ekki neitt.  Hann byrjaði að róa með pabba sínum 10 ára gamall, og þurfti oft að fara með föður sínum yfir fjöllin til að komast á sjóinn frá Látrum, heim að kvöldi og strax snemma morguns að leggja í hann aftur.

IMG_5679

Hann tók líka að sér fjölskylduna mína frá El Salvador, og það var alltaf kærleikur þar á milli.

Pabbi var einstaklega elskulegur og skilningsríkur maður.  Enda var það svo að við börnin gátum komið heim með allskonar fólk inn á heimilið, hvort sem um var að ræða jól, páska eða bara í heimsókn, öllum var ljúflega tekið og rýmt pláss fyrir gestina, sama hvernig á stóð.  Þar voru þau mamma einstaklega samtaka.

Börnin í Fljótavík

Fljótavíkin varð svo okkar paradís, og barnanna okkar.  Bræðurnir byggðu bústaðinn í upphafi og voru betri en enginn í að fjármagna hann eftir því sem kröfurnar jukust.  En þar var líka unnið óeigingjarnt starf af ættingjum bæði afa Júlíusar og Vernharðs Jósepssonar, en á Atlastöðum sem sumarhúsið dregur nafn sitt af var tvíbýli og þar bjuggu þessar hetjur uns þeir fluttu burtu.

Myndir frá París og fleira 473

Eins og ég sagði hafði pabbi gaman af að ferðast, hér er hann með dætrum sínum og mökum þeirra í París, hann fór líka til Kanarí og kúpu, auk Ameríku, Danmerkur og Noregs, líka til Austurríkis.  Svo sveitapilturinn fór víða.

Um borð í skútu

Hann fór líka í skútusiglingu með sonum sínum og vinum þeirra, sem var algjört ævintýri.  

Já Pabbi minn átti viðburðarríka ævi.  Maður sem fæddist í liggur við moldarkofa, og vann sig upp í að verða stórútgerðarmaður, eiga bæði fullt af börnum, og líka fullt af peningum.  Og þegar þeim var öllum stolið af honum í hruninu, sýndi hann þvílít æðruleysi, en þó hann sýndi það ekki þá varð það honum þungur kross. Og þessir útrásarvíkinga og bankaklíkan mega virkilega skammast sín fyrir að brjóta slíkt eðalmenni niður.  Þeirra er svo sannarlega skömmin. Megi þeir fá það sama í sinn rann, mér að meinalausu. 

Júlli og Ingi afi amma og mamma

reyndar urðu foreldrar mínir og við öll fyrir miklum missi, þegar litli bróðir minn dó aðeins 7 mánaða gamall, ég átti son á sama aldri, hér eru þeir þegar litli bróðir minn varð að fara suður og kom aldrei til baka.  Afi Hjalti og amma Ásthildur halda hér á strákunum. Það var erfið kveðja, og allt sem þar á eftir fylgdi.  En svona er lífið. 

~8125550

Pabbi minn var flottur.  Hans vegna ber ég höfuðið hátt, hef átt inneign í lífið, sama og við öll.  Hans og mömmu vegna erum við það sem við erum, og ég er þeim þakklát fyrir yndislega æsku, gott líf og traust sem við njótum, ekki bara vegna okkar og þess sem við stöndum fyrir, nóta bene vegna leiðbeiningar þeirra, heldur líka vegna þess að pabbi minn var einn af hornsteinum bæjarfélagsins.  Hann gaf mikið af sér til margra og líka til ýmissa líknarmála, aldrei var það skrifað niður eða hrópað í fjölmiðlum.  Hann gaf í kyrrþey, af því að hann vildi gera það og gat það.  Strákurinn sem stóð á hafnarkantinum átján ára gamall með eina ferðatösku, gat orðið það sem hann var, með útsjónarsemi, eljusemi og áhuga á lífinu.  Það mættu margir taka það upp eftir honum.

Nu er hann genginn og farinn á hinar grænu veiðilendur.  Þar hefur hann hitt fólkið sitt sem er komið yfir, bæði foreldra, barn, konu og líka ´Júlla minn.

Júlli og pabbi

Þeir voru bestu vinir.  Og ég reyndi að koma í hans stað þegar drengurinn minn fór.  Vera sá vinur sem hann saknaði svo mjög. Og reyndar vorum við afskaplega náin þessa síðustu mánuði og fyrir það er ég óskaplega þakklát.

IMG_7324

Með fjölskyldunni í grillveislu.  En síðustu árin kom hann alltaf á sunnudögum og borðaði með fjölskyldunni allavega yfir sumarið. 

Gifting Íja

Elsku pabbi minn, þetta er bara svona okkar í milli.  Ég elska þig svo mikið, og dáist að þér.  Þú varst alltaf lífs míns idol og fyrirmynd.  Þakka þér fyrir samfylgdina og þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér, og allt sem gerir það að verkum að ég ber mitt höfuð hátt, sátt við allt og alla, og get miðlað því áfram til barnanna minna og barnabarnanna.  Gott að við skyldum vera svona góðir vinir á síðustu metrunum.  Það var gott að hlæja saman, segja brandara og miðla visku.  þú varst töffari og alltaf svolítill prakkari í þér.

Innilega takk fyrir mig. Heart 

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa auðsýnt mér og mínu fólki samhug og kærleika.  Það skiptir miklu máli þegar maður syrgir að finna opna arma, hlý orð og hluttekningu.  Það fer beint inn í hjartað og geymist þar.  Einnig vil ég þakka starfsfólki sjúkrahússins á Ísafirði fyrir alla þolinmæðina, kærleikan og umhyggjuna sem þau sýndu pabba mínum á síðustu þrautargöngunni, ég held að yndislegra starfsfólk sé ekki til en þau. 

Innilega takk öll fyrir mig og pabba og okkur öll.  Megi þið eiga góðan dag.  Ég ætla að nota minn til að heiðra minningu besta pabba í heimi. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: .

Guð veri með þér ljúfan, sendi þér rmínar innilegustu samúðarkveðjur.

., 21.8.2010 kl. 13:44

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ásthildur ég votta þér, öllum skyldmennum þínum og öðrum aðstandendum Þórðar heitins samúð mína og bið góðan Guð að vera með ykkur.

Merkilegt að aðeins fáum dögum áður en pabbi þinn dó kannski daginn áður, dreymdi mig hana systir þína og bekkjarsystir mína Ingu Báru, henni rétt brá fyrir í draumnum. Finnst eftir á eins og það hafi verið fyrirboði.

En ítreka samúðaróskir mínar til ykkar.

Theódór Norðkvist, 21.8.2010 kl. 15:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Halla mín og Theodor.  Já litla systir mín hefur tekið afar nærri sér fráfall föður okkar.  Reyndar eins og við öll.  En það er gott að hann fékk friðinn, það hvíldi yfir honum mikil rósemd og fallegur var hann þessi elska.  Blessuð sé minning hans.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.8.2010 kl. 15:49

4 identicon

Elsku Ásthildur og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar. Virkilega falleg kveðja til föður þíns.

Harpa Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 17:46

5 Smámynd: Kidda

Guð veri með ykkur öllum á þessum erfiða degi

Knús í sorgarkúluna

Kidda, 21.8.2010 kl. 17:58

6 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ingólfur H Þorleifsson, 21.8.2010 kl. 18:35

7 identicon

Sæl Ásthildur mín.

Ég sendi mínar innilegustu,

SAMÚÐARKVEÐJUR til þín og allrar þinnar fjölskyldu.

Kærleikskveðjur á ykkur öll.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 19:38

8 Smámynd: Ragnheiður

Innilegar samúðarkveðjur af þessu tilefni.

Ég skoðaði vel myndirnar og finnst mikill svipur með þeim pabba þínum og Júlla. Myndarmenn báðir. Nú ganga þeir saman hönd í hönd, vinir í varpa, aftur sem fyrr og áður.

Hjartaknús

Ragnheiður , 21.8.2010 kl. 21:44

9 identicon

Kæra Ásthildur !votta þér og fjölskyldu þinn mina dýpstu samúð ,vegna andláts föður þins Ég vann hjá þeim bræðrum á Uppsölum þegar ég var 15 ára þeir sóttu m leifi til sýslumanns um að þeir mættu ráða mig i vinnu Ég var of ung til að vinna á veitingastað ,það var mjög skemmtilegt og pabbi þinn vakti svolitið yfir mér að allt væri i lagi Greinin þin er mjög vel skrifuð eins og allt sem þú skrifar berðu kveðju mina til fjölskyldunnar Sigr .Aðalst

sigriður aðlsteins (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 22:08

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mínar innilegustu samúðarkveðjur Cesil. Skv. myndunum hefði pabbi þinn aldrei getað logið þig af sér ;-)

Haukur Nikulásson, 21.8.2010 kl. 23:36

11 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Ég votta þér og fjölskyldu þinni samúð mína.  Mér sýnist á myndunum að pabbi þinn hafii verið afar myndarlegur og borið aldurinn vel.  Eiginlega algjör sjarmör, eins og sagt var í gamla daga. 

Minnstu þess alltaf að þeir sem við elskum og þurfum að kveðja hverfa aldrei úr hjarta okkar og sál, því þar munu þeir lifa að eilífu.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 22.8.2010 kl. 01:03

12 identicon

Kæra Ásthildur.  Innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu þinnar. Minning um mikinn heiðursmann lifir. Yndislegt að lesa þessi fallegu orð sem þú skrifar um hann pabba þinn, takk fyrir að deila því með okkur.

 Kveðja, Þórunn

Þórunn Pálsdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 01:33

13 identicon

elsku Ásthildur og þið öll sömul innilegar samúðarkveðjur til ykkar vona að það fari nú að birta til hjá ykkur, ég og börnin mín gátum því miður ekki komin vestur en vorum með ykkur í bænum okkar  p.s. 15 ágúst fyrir 27 árum lést Siggi Margeirs maðurinn hennar Helgu Hjalta (TEA ) mikið er nú tilveran skrítinn,og jarðafaradagur hjá pabba ykkar er afmælisdagur hans Hjalta Heimis.megi guð almáttur vaka yfir ykkur öllum kveðja Guðný A og fjöldsk

guðny (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 01:43

14 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Blessuð sé minning föður þíns Cesil mín og kærleikskveðjur til þín og þinna.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 22.8.2010 kl. 01:44

15 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vel skrifað um hann pabba þinn og líf hans eins og þín er von og vísa.  Sterkur maður sem hafði fyrir lífinu og skilur mikið eftir, blessuð sé minning hans og ég trúi að nú rölti þeir saman hann og Júlli þinn og víðlendi framtíðar okkar allra.  Guð blessi ykkur öll.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.8.2010 kl. 12:47

16 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 23.8.2010 kl. 01:52

17 identicon

Mínar innilegustu samúðarkveðjur; til þín og fjölskyldu þinnar, Ásthildur mín.

                                            Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 02:23

18 identicon

Innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu þinnar kæra Ásthildur.

 Kærleikskveðjur

Halldóra

Halldóra (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 12:23

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir allar samúðarkveðjurnar og hlýhug knús og vináttu til mín og minna á þessum erfiðu tímum.  Þó vissulega megi segja að það er gott þegar svona gamall maður kveður og fer, þá er sorgin alltaf til staðar, tómleikinn þegar skarð er rofið í fjölskylduna,  Sérstaklega svona djúpt skarð, með þvílíkum öðling og stórbrotinni manneskju sem alltaf var tekið eftir, vegna reisnar sinnar og höfðingsskapar.  Hann gat líka verið erfiður stundum, eins og slíkt fólk.  Þess vegna sendi ég mínar kærustu kveðjur til starfsfólkssins á Sjúkrahúsinu, bæði bráðadeild og svo öldrunardeild, og líka þegar við vorum farin að sitja yfir honum, alltaf kaffi og meðlæti á boðstólum og starfsfólki yndislegt huggandi og brosandi.  Það var beinlínis dekrað við óþekktarangann, hann var svo yndislegur sögðu starfstúlkurnar og hjúkkurnar brosandi.  Takk öll, það eru einmitt svona viðbrögð sem hjálpa manni gegnum sorgina, það þarf ekki að vera neitt róttækt eða mikið.  Bara oft smáknús og láta vita að maður samhryggist. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2010 kl. 08:37

20 identicon

Kæra Ásthildur. Ég kem nú svo sjaldan á bloggið og því koma hér síðbúnar samúðarkveðjur. Af öllum skrifum þínum hef ég séð að faðir þinn var ykkur öllum mjög mikils virði enda þar á ferð stór maður á öllum sviðum. Það er gott að eiga góðar minningar um langan tíma með svo sönnum og góðum manni. En mikill er missir þinn Ásthildur mín og skammt stórra högga á milli. Ég votta þér og fjölskyldunni mína dýpstu hluttekningu og bið að Guð styrki ykkur og huggi á erfiðum tímum.

Dagný Zoega (IP-tala skráð) 3.9.2010 kl. 09:35

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk Dagný mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.9.2010 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 2020844

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband