Frá mínu brjósti, amen.

Einræðisherra riðar til falls.  Það má glöggt sjá m.a. hér á blogginu.  Loksins hefur runnið upp fyrir fólki að það er eitthvað stórkostlegt að á þeim bænum.  En það þurfti mikið til, og ef til vill er skaðinn svo mikill, að langur tími líði áður en hann er bættur. 

Það getur aldrei orðið til góðs þegar ein manneskja getur haft svona afgerandi völd að enginn þori að hrófla við henni.  En við verðum líka að hafa í huga, að manneskjan sjálf verður ekki svona áhrifarík ein og sér.  Þar þarf meira til.  Þeir aðilar sem sitja kring um hana, og þjóna dyggilega í allskonar verkum, bera meiri ábyrgð en manneskjan sjálf.  Því þeir veita valdið.  Svo eru aðrir sem læðast í kring um grautinn, taka mola sem falla af borðinu, og vilja ekki raska stöðunni, annað hvort af hræðslu við að fá ekki lengur mola, eða bara einfaldlega vilja halda friðinn.  Þeir bera líka stóra ábyrgð á því hvernig hlutirnir æxlast.  Síðast og ekki síst eru þeir sem veita þessum aðilum umboð sitt aftur og aftur til að halda áfram á sömu braut.

 Já ábyrgð liggur víða.  Ég get alveg skilið þá sem mesta ábyrgð bera nú á ástandinu, að vilja ekki að verið sé að leita að sökudólgum.  Þeir tala nú fagurlega um að nú verði allir að standa saman, snúa bökum saman og gleyma fortíðinni, horfa fram á veginn. 

Ég segi aftur á móti, það er ekki hægt.  Því miður, ef við greinum ekki vandann, og gerum okkur grein fyrir hverjir eru sökudólgar í þessu stærsta máli þjóðarinnar, þá getum við ekki horft fram á við.  Því þá er hætt við að sagan endurtaki sig.  Ef enginn þarf að bera ábyrgð, þá er ekki von til þess að menn lagi það sem þarf að laga.

Hversu erfitt það verður fyrir þá aðila að horfast í augu við sjálfa sig, og okkur hin, þá verður það að gerast.  Ég vona að sem flestir geri sér grein fyrir því.  Við erum bara mannleg öll sem eitt.  Og við lærum ekki af mistökum okkar, ef við neitum að þau hafi gerst.  Að sleppa með skrekkinn er eitthvað sem má ekki gerast núna.  Því ef við lærum ekki af þessu, þá er hætt við að okkur farnist illa.

Það er orðið nokkuð ljóst að þeir menn sem hafa varðað veginn síðustu tvo áratugina hafa siglt skútunni í strand, þeir hafa brugðist því trausti sem til þeirra var borið, og standa nú frammi fyrir þjóð sinni og reyna að fegra allt saman.  Öll stóru orðin um að hér væri góðæri, allar væntingarnar um útrásir og hagræðingu, einkavæðingu.... hvar eru þær núna ?  Þessir aðilar hafa teymt okkur hin út í forað sem ekki verður snúið við úr, nema með utanaðkomandi aðstoð. 

Það er ekki einu sinni hægt að kenna neinum utanaðkomandi aðilum um í þetta sinn.  Okkar menn hafa gjörsamlega klúðrað öllu á síðustu metrunum.  Allt blaður um hvað við erum rík þjóð, og hvað við eigum og höfum, hefur hefur klúðrast fyrir fáránleg mistök, eða röð af mistökum hér heima fyrir.  Og ekki bara af einum manni, heldur líka af þeim sem næst honum standa, og hefðu átt að vita betur.  Þeit hljóta að þurfa að axla ábyrgðina með honum. 

 Hér þýðir ekki að bölva viðskiptajöfrunum, þeir hafa aldrei gefið sig út fyrir neitt annað, en að vera slíkir, og græða sem mest.  Það hafa aftur á móti ráðamenn ekki gert, hvort þeir hafa trúað því sjálfir að þeir væru að gæta almannahags, með því að gefa auðlindir okkar, og gefa síðan vinum sínum algjörlega frálsar hendur, skal ósagt látið, en við verðum að skilja, að þeir bera stærstu ábyrgðina á því hvernig komið er.  Því þeir áttu að setja leikreglurnar, og þeir áttu að líta eftir því að hagur almennings væri ekki fyrir borð borinn.  Þar hafa þeir brugðist skyldum sínum, og eiga þvi að fara frá völdum, láta öðrum eftir að reisa landið úr rústum. 

Annað hvort með þjóðstjórn, eða með nýjum kosningum.  Við hljótum að gera þá kröfu að þannig verði það.  Á sínum tíma, neitaði forsetinn að skrifa undir fjölmiðlalög, vegna mikillar andstöðu fólksins í landinu.  Nú ber okkur að krefja forseta vor um að hann rjúfi þing, slíti ríkisstjórninni og boði til kosninga.  Ég veit ekki hvort hann hefur til þess umboð, en það kæmi ekki á óvart, þó það leyndust einhverjir neyðarlagakrókar einhversstaðar um það, þegar þessi staða kemur upp. 

Ég er að eðlisfari bjartsýn manneskja, og ég hef trú á manneskjunni sem hugsandi veru.  Ég geri mér líka grein fyrir því, að þegar okkur gengur allt í haginn, þá verðum við andvaralaus, þegar við gætum hags annara, og við fáum ekki aðhald, verðum við kærulaus, og að lokum dramsöm.  Þetta er mannlegt.  Þess vegna hef ég sagt gegnum tíðina, að það sé hættulegt lýðræðinu að kjósa alltaf sama fólki yfir sig aftur og aftur, hvernig sem það stendur sig.  Því ber þjóðin mestu ábyrgðina því miður, við sjálf, sem höfum endalaust, gagnrýnislaust hvernig sem fólk hefur hagað sér, endalaust veitt þeim umboð okkar aftur og aftur.  Er ekki komið nóg?

Ég veit að við  munum ná okkur á strik aftur sem þjóð.  Það mun taka tíma að þvo af okkur ósómann.  En eins og marg oft hefur komið fram, erum við kröftug þjóð.  Við höfum ennþá frumkraftinn í okkur, þó mörg undanfarin ár, höfum við verið í líki leiguþýja og trúgjarnra aumingja, látið plata okkur upp úr skónum endalaust.  Ég vona bara að eftir þessa holskeflu verðum við meðvitaðri um hvað lýðræðið snýst.  Það snýst fyrst og fremst um að vera ábyrgur þegn, vera gagnrýnin og spyrja spurninga.  Refsa þeim sem ekki stendur sig, og veita aðhald þeim sem hafa tekið að sér að sjá um okkar mál.  Ef við gerum það ekki, þá fer allt í sama farið aftur.

Vakna þjóðin mín, vakna og sjá

 

til vitundar um nýja daga.

 

Að mörgu skal hyggja, í mikið að spá,

 

margt sem við þurfum að laga.

 

 

Fátæktargrílan oss finnur sig hjá,

 

fólkið í móann þó maldi.

 

Hér þarf að taka til hendi og fá

 

hald á því ógnarvaldi.

 

 

Að bjarga sér fólki er bannað í dag.

 

Ei bein má úr Gullkistu bera.

 

Ráðstjórnarherrum finnst ríkisins hag,

 

ráðlegast lénsherrum gera.

 

 

Valdníð og hroki oft viðgengst hér nú.

 

Og veldið hans Mammons er mikið.

 

Makráðir forstjórar milljónir fá

 

og maka sinn krók fyrir vikið.

 

 

Já vakna þjóðin mín, vakna og sjá

 

því verst er í þessu skreimta.

 

því freistum þess koma þeim ráðstjórum frá,

 

Og frelsi vort endurheimta.

Ásthildur Cesil. 2005.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

100% sammála og ekki orð um það meir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.10.2008 kl. 11:34

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Algerlega sammála öllu sem þú segir Ásthildur.

Það er frekar súrealískt að þeir sem aldrei fundu fyrir góðæri á eigin skinni, horfi nú á þessa sýndar spilaborg hrynja með skelfilegum afleiðingum fyrir allt þjóðarbúið, en kemur kannski síst niður á þeim sem ekkert "áttu" fyrir.

Sigrún Jónsdóttir, 9.10.2008 kl. 11:58

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Heyr, heyr.

Helga Magnúsdóttir, 9.10.2008 kl. 13:00

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.10.2008 kl. 14:06

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú kemur ekkert á óvart með annann snilldarpiztilinn í röð.

Á þing með þig kona, sem snarazt & skjótazt...

Steingrímur Helgason, 9.10.2008 kl. 14:31

6 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Takk fyrir þennan pistil og þegar verður kosið til alþingis næst skulum við halda því til haga hver var á vaktinni hvenær og gerði hvað eða öllu heldur gerði ekki það sem þurfti að gera. Grunnurinn að hruninu var lagður í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra með Sjálfstæðisflokkinn að því er virtist einhuga á bak við sig og með fullu samþykki samstarfsflokksins, Framsóknar.

Guðrún Helgadóttir, 9.10.2008 kl. 14:50

7 identicon

Sammála Jenný 100%

Knús vestur

Kidda (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 15:02

8 Smámynd: Solla Guðjóns

Ég hef vellt því mikið fyrir mér hvort stjórnin ætti að fara frá.Mér finnst að þessir ........mjögljótt orð..... ættu að koma hlutunum í lag...við eigum varla minni kröfu á  þá en það...MÁLIÐ ER AÐ ÉG EFAST UM HÆFNI ÞEIRRA TIL ÞESS.

Og það get ég sagt að ég er fyrst núna að skilja allt talið um góðæri og uppgang...

Tölurnar sem maður er að heyra um laun og eignir þotuliðsins eru óraunverulegar og ekki í takk við neytt og langt langt fyrir utan öll skynsemismörk.

Það þarf enginn  að segja mér það að æðstu menn þjóðarinnar hafi ekki haft hugmynd um hvað væri að gerast.........

Þvílíkir grasasnar mega þeir nú vera......

Nú er ég að verða virkilega reið og er hætt.

Mjög góður pistill hjá þér.

Solla Guðjóns, 9.10.2008 kl. 21:55

9 Smámynd: Laufey B Waage

Þitt yndislega gefandi ríkidæmi felst meðal annars í því að geta sett það sem þér liggur á hjarta í bundið mál. Takk sæta.

Laufey B Waage, 9.10.2008 kl. 22:52

10 Smámynd: Elín Helgadóttir

heyr.. heyr..

Þú ert snilli ásthildur.

Elín Helgadóttir, 9.10.2008 kl. 23:07

11 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Það er búið að tönnslast á þessu svokallaða góðæri í langan tíma. Varla nokkur maður hefur fundið fyrir þessu góðæri á eigin skinni. Svo þegar allt er farið til andskotans, hverjir eru það þá sem borga brúsann? Það er náttúrulega almúginn, sem þarf að gangast við "þjóðarsátt" og herða sultarólarnar. Þeir sem settu allt um koll munu halda áfram að lifa í vellystingum.. Ég væri sko alveg til í að klóna eins og rúmlega sextíu stykki af þér, Ásthildur, og senda á Alþingi. Knús á þig, einstaka kona.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 10.10.2008 kl. 01:13

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Sigrún mín.  Ef þú myndir garantera að ég yrði ekki meira en eitt til tvö kjörtímabil, því valdið spillir ótrúlega mikið.

Takk Elín mín.

Takk Laufey mín.

FLott þetta mjög ljóta orð Solla mín  En annars er ég sammála því að burtu með seðlabankastjóranna, fjármálaráðið og ríkisstjórnina.  Látum fagmenn í þetta allt saman.

Knús til baka Kidda mín.

Einmitt Guðrún mín, þetta gullfiskaminni íslendinga er mjög hættulegt lýðræðinu.  Við þurfum að huga að mikilli uppryfjun fyrir næstu kosningar.

Steingrímur minn, þakka traustið.  Það er sko komin tími til að rusla dálítið til þarna á hinu háa alþingi.

Knús Linda mín

Takk Búkolla mín.

Helga Magnúsdóttir, nú tökum við við, og gerum eitthvað til að laga siðferðið hér.

Sigrún mín, það er alveg rétt að við sem aldrei fundum fyrir þessu svokallaða góðæri þurfum ekki að púkka upp á þá sem lifðu í vellystingum praktuglega.  Því miður eru allof margir sem detta þarna niður gegnum öryggisnetið sem er orðið með allof stóra möskva.

Takk Jenný mín.  Ég vona að við stöndum öll saman, fólki sem vill meiri jöfnuð í samfélaginu og samhyggð.  Og leyfum frjálhyggjunni að fjúga sinn veg, beint í gjaldþrot. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 09:31

13 Smámynd: Gló Magnaða

Nú verður fólk á höfuðborgasvæðinu að safna liði í miðborgina (helst jafn mörgum og tók á móti handboltalandsliðinu) og krefjast afsagnar með hávaða og látum.

Davíð hefði átt að víkja um leið og séð var í hvað stefndi og láta fagmenn um þetta. En maðurinn er með sjúklega valdagræðgi og ætlar ekki burt. Og það sem verra er hann ætlar ekki að lækka vexti þó svo að öll nágranna lönd séu að lækka hjá sér. Hann gerir bara það sem honum sýnist og spáir ekkert í hag þjóðarinnar.

Meira að segja hörðustu sjálfstæðismenn, sem hingað til hafa hneygt sig og beygt fyrir foringjanum, eru orðnir rasandi hissa á manninum.

Gló Magnaða, 10.10.2008 kl. 10:43

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir þetta Gló mín, Reykvíkingar og nágrannar, nú stendur upp á ykkur að fara og mótmæla fyrir okkur hin líka sem erum fjarri góðu gamni.  Allir af stað nú !!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 10:55

15 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl mín kæra, ég er þér svo sammála.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 10.10.2008 kl. 15:49

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk og gaman að sjá þig hér Ásgerður mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.10.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2020894

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband