Vinarkveðja - Ást er auði betri.

Mitt í öllu þessu veseni er gott að fá hlýjar kveðjur.  Færeyingar hafa alltaf verið vinir okkar og vandamenn, bræður og systur.  Ekki bregðast þeir nú frekar en fyrri daginn.  Ég hugsa til þeirra í hvert skipti sem ég fer um Súðavík. Söfnun þeirra í erfiðleikum þorpsbúa þar var ómetanleg.  Skólinn stendur þar sem minnismerki um hvað lítil þjóð getur gert.  Það er ekki alltaf stærðin sem skiptir máli.  Það ættum við að hafa í huga líka. 

Þó margt virðist vera dimmt yfir í augnablikinu, þá mun birta upp, ég er sannfærð um það.   Og þá verðum við reynslunni ríkari, getum staðið fastar í bárunni, og höfum vonandi lært að það er alltaf best að hafa fast land undir fótum. 

En við skulum heldur ekki gleyma, hvers vegna við fórum þessa holskeflu, og við skulum muna það vel.  Þegar kemur að því að láta fjöregg sitt í körfuna, þá skal gæta vel að því hver á henni heldur.  Ég held að íslendingar hafi verið orðnir allof værukærir og haldið að þetta reddaðist allt saman einhvernveginn, enda var okkur sagt það stanslaust.  Sofandi flutum við að feigðarósi, og fossinn var ógnarhár, niðurinn hávær og argandi.  Niðurfallið skelfilegt. 

En við erum ennþá hér.  Og við erum sama þjóðin, sama fólkið.  Við erum öll í sömu súpunni, bara mismikið á kafi.  Það stendur upp á þá sem standa hærra, að draga hina upp.  Svo við getum öll staðið keik. 

Þetta á að kenna okkur að meta hið einfalda og smáa.  Kenna okkur að við þurfum ekki dýr málverk upp á vegg.  Meðan við höfum himnagalleríið ókeypis.  Þá er ég ekki að tala um þá fjölmörgu listamenn sem vilja koma list sinni á framfæri, heldur milljónaverk, sem bara skapa ótta um að missa þau. Við þurfum ekki sérhannaða galakjóla, þegar við getum alveg eins keypt okkur efni og saumað sjálf eitthvað fallegt, nú eða breytt gamla kjólnum sem hefur hangið inn í skáp síðan sautjánhundruð og súrkál.  Hvað um það, þó einhverjar vinkonur viti að hann var til áður ?  Við þurfum ekki að fara út að borða, þegar við getum keypt gourmemat út í búð, og eldað hann sjálf heima, og notið þess að vera til.  Þurfum ekki að fara út á barinn, þegar við getum alt eins setið heima við eldhúsborðið með kertaljós og ávaxtate, og spjallað saman. 

Lífið heldur áfram, fyrir okkur öll, ekki bara suma.  Og þó útlitið virðist svart í augnablikinu, þá skulum við hafa í huga að meðan við erum hraust og stöndum saman, þá vinnum við okkur út úr vandanum.  Og þó við séum ekki hraust, þá þarf bara að rétta út hönd, og það verður tekið í hana.  Að rétta höndina EKKI út eftir aðstoð er líka hroki.

Við skulum ekki láta eitthvað jafnómerkilegt og peninga, eða skuldabréf eyðileggja heilsu okkar, hún er allof dýrmæt.  Peningar geta verið óttalegt froðufé, og ef maður á of mikið af þeim, þá eru þeir beinlínis hættulegir.  Þeir geta komið manni í vandræði, því við þurfum þá sífellt að hafa áhyggjur af því að missa þá.  Eða þeir geta skemmt sálina í manni, með græðgi og öfund, sem alltaf eru fylgifiskar ríkidæmis.  Síðast en ekki síst eru sífelldar væntingar gerðar til þeirra sem hafa meira en aðrir, maður losnar við þá kvöð að standa eins og sökudólgur við að eiga meira en annar.

Það er auðvitað verst með þá sem hafa sparað saman af litlu, og ætlað að hafa í ellinni.   En þá er ráðið við því að hlú að mannlega þættinum, og læra að elska náungan eins og sjálfan sig.  Vera jákvæður og glaður.  Þá einhvern veginn kemur allt til manns.

Ég er líka að skynja að hugarfarið er þegar farið að breytast til hins betra.  Við erum að vakna upp sem þjóð væntumþykju fyrir hvort öðru.  Verið glöð, segja útvarpsmenn, þeir reyna að hressa landann við, og listamenn taka sig saman og sýna hvað í þeim býr.  Læknar og hjúkrunarfólk býr sig undir að taka við þeim sem ekki hafa orku að lyfta sér upp úr svartnættinu af sjálfsdáðum.  Allt þetta á eftir að aukast, og ég held að upp rísi sterk þjóð, samtaka og sameinaðri en nokkru sinni fyrr.

Verum því jákvæð og brosum.  Elskum hvort annað, og stöndum saman.  Um leið og við gerum það, skulum við samt ekki gleyma hvers vegna við erum í þessum sporum, heldur ákveða hér og nú, að treysta meira á okkur sjálf.  Sýna að við viljum breytingar á stjónun á velferð okkar.  Fara fram á að skipt verði um stjórnendur, en það er líka okkar sjálfra að halda fólki við efnið.  Við verðum að vera ábyrg og þora að refsa eða hrósa.  Við verðum að fara að nota það vald sem við höfum sem almenningur í landinu, og takast af ábyrgð við að veita aðhald. 


mbl.is Vinarkveðja frá Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ásthildur mín.

Ef að við sameinuðumst um að blogga á þeim nótum sem þú gerir þessa dagana,þá væri vel.

Þetta ætti fólk að hugsa um,   allt það sem þú hefur látið niður á Bloggheima blaðið.

Já, ef að við færum aðeins nær okkur, þá væri veröld önnur.

Takk fyrir Ásthildur mín.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 10:56

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Faðmlag til þín ljúfust

Hrönn Sigurðardóttir, 10.10.2008 kl. 11:01

3 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Takk fyrir þetta innlegg. Hafðu góða helgi ég veit að ég ætla að fara á tjúttið á morgum

Guðborg Eyjólfsdóttir, 10.10.2008 kl. 11:03

4 identicon

Takk fyrir þetta innlegg, vonandi koma fleiri með svona færslur heldur en bara eymd og volæði.

Knús vestur

Kidda (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 11:08

5 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mér þykir ótrúlega vænt um þig Ásthildur

Sigrún Jónsdóttir, 10.10.2008 kl. 11:09

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Íslendingar hafa aldrei staðið saman og elskað hvern annan. Afhverju halda menn að þeir fari að gera það núna? Hver mun reyna að bjarga sjálfum sér. Það er allt og sumt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.10.2008 kl. 11:23

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki sammála þér þar Sigurður minn, hefurðu heyrt málsháttinn neyðin kennir naktri konu að spinna og lötum manni að vinna.  Einmitt þegar um allt þrýtur, þá koma innri eiginleikar fólks í ljós.  Og ég veit það, að íslendingar eru gott og velhugsandi fólk.  Við erum bara dálitið eigingjörn þegar allt er í lukkunnar velstandi, en um leið og tíðin versnar, þá koma hinir góðu eiginleikar okkar í ljós.  Vittu bara til.  Knús á þig minn kæri.

Sömuleiðis Sigrún mín.  Væntumþykja hefur enginn landamæri sem betur fer

Elsku Kidda mín, já við skulum vera glöð og vongóð.  Þetta lagast allt saman.

Góða skemmtun Guðborg mín

Knús til baka Hrönn mín.

Takk Þórarinn minn, ég held bara að allir geti smitast af þínum eldmóði.  Takk sjálfur fyrir að vera til.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 11:39

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er ákveðin í að heimsækja hann pápa minn eftir matinn, og peppa hann upp.  Honum líður ekki vel.  En ég ætla að segja honum að hann sé ríkur, jafnríkur og áður, af því að hann á svo marga í kring um hann sem elska hann.  Hann þarf ekki að hafa neinar áhyggjur, kærleikurinn sigrar allt.   Þú getur ekki kysst og knúsað peningana þína og því síður skuldabréf eða hlutabréf.  Það er meira að segja vond lykt af peningum.  En hlýjir barnsarmar og risaknús og kram annarrar manneskju sem elskar þig er eitthvað sem enginn getur tekið frá manni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 11:45

9 Smámynd: G Antonia

þetta var mikið falleg og vel skrifuð grein... þú ert listapenni með hjartað á réttum stað kæra Ásthildur Cecil, bara að við værum öll eins og þú!  ...   knús og kveðja til þín og takk fyrir skemmtilega bloggsíðu og heimspekileg og falleg orð sem fær mann til að hugsa. ***

G Antonia, 10.10.2008 kl. 12:41

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.10.2008 kl. 18:03

11 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Stórt knús til þín elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 10.10.2008 kl. 18:24

12 identicon

Satt segirðu elsku Íja mín. Allt sem skiptir máli er við sjálf og fólkið okkar. Þau okkar sem eiga ekki á hættu að missa hús og heimili geta bara beðið og séð hvað verður og eftirá er hægt að finna sökudólga. Nú ríður á að standa saman og hlúa hvert að öðru. . Þú skiptir mig miklu meira máli en einhverjir peningar, við kaupum ekki vini og væntumþykju.

Dísa (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 19:33

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nei alveg rétt Dísa mín, okkar vinátta verður ekki keypt með neinu gulli eða purpura.  Hún bara er... dásamleg og hefur staðið núna í yfir fimmtiu ár.   Og svei mér þá verður innilegri með hverju árinu sem líður.

Knús á þig líka Katla mín.

Knús Jenný mín.

Sömuleiðis elsku Búkolla mín.

Takk Elsku G. Antonía mín.  Fólk eins og þú hvetur mann svo sannarlega til dáða elskuleg mín.  Takk fyrir að vera til

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2008 kl. 19:49

14 identicon

Styttra í sextíu árin, man ekki eftir að þekkja þig ekki.

Dísa (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 21:27

15 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.  Kærleikurinn öfundar ekki.  Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.  Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.  Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.  Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.  Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
(1. Korintubréf 13:4-8a)

Ég ætla ekkert að vera með neinar trúarpredikanir hér, en mer finnst þetta segja svo margt um það hvað kærleikurinn er okkur öllum mikilvægur. Kærleiksknús til ykkar

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 10.10.2008 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband