Færsluflokkur: Bloggar

Smá hugleiðing í skammdeginu.

Mig langar að ræða um viðkvæma hluti núna sem hefur verið í huga mínum nú nokkurt skeið.  En þessi tími er sá tími hjá viðkvæmum sálum sem er mjög erfiður.  Hann er erfiður fyrir fólk sem hefur verið í meðferð vegna alkóhólisma eða fíkniefna.  Mesta hættan á falli er einmitt þessi tími.  Erfiður fyrir þá sem eru ennþá í neyslu, aukinn hætta á sjálfsvígum.  Erfiður fyrir aðstendendur sem óttast um ástvini sína.  Já þessi tími fram að jólum reynist mörgum sá hjalli sem þeir komast ekki yfir.

Þess vegna er mikil þörf á því að sýna samkennd og kærleika.  Vera á varðbergi og reyna að hugga og vernda.  Við vitum aldrei hvað vanhugsað orð eða fljótræði getur gert viðkvæmum sálum.  Þó maður geri ekki annað en að brosa og bjóða góðan dag, það getur oft borið vansæla manneskju heilan dag. 

Mitt í öllu annríkinu skulum við minnast þeirra sem eiga í allskonar baráttu og basli.  Ekki bara fíkla heldur líka þeirra sem sjá ekki fram úr peningavandræðum.

Við þurfum líka að breyta hugsun okkar.  Það eru ekki gjafir né góður matur sem skiptir máli á hátíð ljóssins.  Það eru aðrir hlutir sem skipta miklu meira máli. En það er okkar samviska og innri friður. 

Við getum setið við matarborð hlaðið allskyns kræsingum horft á jólatré skreytt og fullt af gjöfum, en ef samviska okkar er ekki góð, líður okkur ekki vel þá er þessi hátíð ljóss og friðar ekki til. 

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum vildi sonur minn sem nú er látinn, koma með gest á aðfangadag.   Það var svo sem ekkert óvenjulegt, hann vildi alltaf vera að gera öðrum gott og miðla af því sem hann hafði.  Þessi tiltekni maður var einstæðingur og ekki allof hreinlátur.  Ég var því ekkert voða hrifinn, en ég hugsaði með mér að það gengi ekki að neita syni mínum um þessa bón.  Svo gamli maðurinn kom í matinn.  Ég verð að segja að það var eintóm gleði að hafa hann við borðið.  Í fyrsta lagi var allt í lagi með hann, hafði farið í bað og var hreinn og fínn, þó það skipti ekki máli.  En barnsleg gleði hans yfir að fá að vera í okkar félagsskap í stað þess að sitja einn í íbúð sinni smitaðist yfir okkur öll.  Við hefðum ekki þurft gjafir né kræsingar.  Það hefði ekkert toppað þann innri frið og gleði yfir að fá tækifæri til að gleðja manneskju svona mikið. 

Ég vil líka beina orðum mínum til fólks sem á "öðruvísi börn".  Afkvæmi sem hafa lent á villigötum.  Hugsið fallega til þeirra á þessum tíma.  Ég veit að sum eru svo langt leidd að það er ekki hægt að hafa þau heima.  Eða bjóða þeim neitt, því það er bara þannig að sumir eru það langt leiddir á braut eiturlyfja að þeim er ekki treystandi. 

En það er hægt að senda þeim bréf, og segja þeim að mömmu og pabba (afa og ömmu, bróður eða systur) þyki vænt um þau.  Þó þau geti ekki sætt sig við fíkilinn.  Ef þau eru í fangelsi, má koma bréfi þangað.  Ef þau eru einhversstaðar á götunni, eru ýmsir staðir sem þau heimsækja, til dæmis Konukot og ýmsir barir þar sem þau fara og svo eru þau sem eru í meðferð ekki gleyma að þau þurfa á því að halda að fólkið þeirra elski þau og séu hreykin af því sem þau eru að gera.  Ég veit að sumir eru búnir að gefast upp.   En ég veit líka hversu mikilvægt er samt sem áður fyrir fólk sem hefur misst allt frá sér að fá smá kærleika eða haldreipi einhversstaðar.  Ég veit líka að þó foreldri hafi gefist upp á fíklinum í fjölskyldunni, þá elska allir barnið sem var.  Í hörðum köldum, miskunnarlausum heimi eitursins gæti svona bréf verið smá ljós, og jafnvel vendipunktur til að breyta til. 

Við skulum minnast þess að allt sem maður gerir í kærleika öðru fólki, fær maður tífalt til baka.  Það er því líka gert fyrir mann sjálfan.  Manni líður sjálfum betur ef maður hefur komið kærleiksorðum eða hlýju til einhvers sem maður hefur misst út í tómið, en saknar.  Og í Guðs bænum ef reiði er til staðar þá skuluð þið moka henni út.  Hún gerir ekkert nema eyða manni sjálfum, og gera mann veikan.  Reiði og vonbrigði með ástvini sem hafa komið sér út úr mannlegum samskiptum er eyðandi afl, sem engu þjónar.  Það er örugglega líka gott að setja upp mynd af barninu sínu kveikja á kerti og fara með bæn eða bara kærleiksorð.  Það skilar sér einhvernveginn alltaf á endanum.  Það veit ég af fenginni reynslu með minn dreng. 

Þó ég gæti ekki bjargað honum og hjálpað til lengra lífs, þá gat ég hjálpað til að gefa honum góð ár í kærleika og friði síðustu árin.  Þó var hann einn af þeim sem hvað lengst hafa farið ofan í ræsið.  Sprautaði sig á tímabili með skömmtum sem hefðu drepið hvern venjulegan mann.  Eina sem ég þakka fyri er að aldrei var hann ofbeldisfullur.  Hann var alltaf sjálfum sér verstur.  Og á þeim sama tíma sem hann svar sjálfur í ræsinu var hann endalaust að hugsa um og hjálpa örðum. 

Ég tel að hluta af því megi rekja til þess að hann fékk kærleiksríkt og gott heimili og ættingja alla stórfjölskylduna sem stóð í kring um hann alltaf.  Þó við þyrftum að meina honum aðgang að heimilinu þegar svo var komið.  Var honum alltaf sýnt að við elskuðum hann.  Persónuna hann sjálfan.  Ég skrifað honu til dæmis alltaf bréf, næstum á hverjum degi þegar hann sat inni, og það voru nokkuð mörg skipti.  Þó fólki finnist barnið okkar vonlaust, þá er það samt svo og það segi ég vegna þess hve minn sonur fór langt niður, að enginn er vonlaus.  ENGINN.   En til þess að þau nái áttum, þá er fyrsta skrefið kærleikur og umhyggja.  Ef þau finna hvergi neitt slíkt, þá er ekki von til að þau geti rifið sig upp. 

Síðan er svo hlutur þess opinbera kerfisins, sem er forkastanleg og þarf virkilega að vinna að því að breyta.  Til þess þarf samtakamátt aðstandenda fíkla.  En það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur öll að krefja kerfið um betri aðbúnað fyrir fíkla og meðferðarúrræði sem gagnast öllum.   Það er enginn lausn að fylla fangelsin með fólki sem er ekki sjálfrátt gerða sinna. 

Megi allir góðir vættir vaka yfir okkar minnstu bræðrum núna yfir þennan erfiða tíma, og megi ljós og kærleikur ná til þeirra hvar sem þeir eru. 

Ég hugsa oft er herðir frost,

  hel dimm nóttin nálgast oss

Með skammdegi og skugga

Er skylda okkar að hugga.

Þann sem ekki á neinn að.

einskis barn, við skiljum það

að þá er þörfin brýna

að þekkja vitjun sína.  

Með kærleikann sem leiðarljós

Lifir best vor  sálarrós.

það blómið blítt sem dafnar

og birtu andans safnar.

Allt sem innra áttu nú

elsku þína og von og trú

vert er gaum að gefa

grát og sorgir sefa.   

Dreyfðu ást um byggð og ból

Þá bestu áttu gleði jól.

Gott er lífið sitt á því að byggja.

Að sá sem gefur öðrum, allt mun þiggja.

 

Friður sé með ykkur inn í daginn. Heart 

angel


Smá mömmublogg.

 

IMG_5330

Tunglið tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja.

IMG_5331

Þar situr hún móðir mín og spinnur ull nýja.

IMG_5332

Já hann þvælist fullur um geiminn núna.

IMG_5333

Og félagsskapurinn er krummi karlinn.

IMG_5336

En fröken Hanna Sól er að læra að synda, og nú var komið að því að halda foreldra sýningu.

IMG_5342

Þetta er annað árið hennar í sundtímum.  Hún er auðvitað flugsynd, en vantar tæknina. Og það er hún að læra núna, og henni hefur fleygt fram.

IMG_5348

Amma afi og Ásthildur voru að fylgjast með.

IMG_5357

Með kennaranum. Mikið hafa þau gott af að læra tæknina á þessum árum, þegar þau eru svona móttækileg og fljót að læra.

IMG_5358

Flottust.

IMG_5370

Hér syndir hún fram úr þeim sem var á undan henni í röðinni.

IMG_5373

Margrét að ræða málin við nemendurna.

IMG_5387

Rosalega flottir krakkar öll sömul.

IMG_5393

Og allir fengu verðlaun.

IMG_5395

Svo í heita pottinn, það er ekki auðvelt að fá þau upp úr pottinum eftir sundtímana.

IMG_5401

Á eftir Hönnu Sól kom svo hópurinn hans Sigurjóns Dags.

IMG_5405

Ómetanlegt starf sem unnið er þarna, að kenna litlu ungunum okkar að synda og vera sjálfbjarga ef þau lenda í þannig aðstæðum.

IMG_5406

Svo er gott að fá sér epli þegar maður kemur heim.  Þau syntu 200 metra þann daginn.

IMG_5407

Sumir þurfa líka að skera sjálfir.

IMG_5408

eg vil svona, sagði litli grísinn.  þetta er jalapeno ég leyfði henni að hnusa af.

IMG_5409

Hanna Sól að hjálpa ömmu.


Ég er víst afdalasinni og stolt af því.

Ég verð nú að segja það, að oft hef ég verið skömmuð fyrir ljótt orðbragð, einkum hér áður og fyrr, þegar ég var óþroskaðri og var heitt í hamsi.  En ég er bara venjuleg kerling út í bæ.  Ég held að við verðum að gera meiri kröfur til þeirra sem sitja á hinu ´"háa" alþingi...... eða þannig, hæstvirtur og háttvirtur.  Þetta er eina stofnunin sem krefst þess að menn séu ávarpaðir þannig.  Sennilega vegna minnimáttarkenndar alþingismanna svona yfirleitt. Devil 

 En þegar ég sé svona á prenti eftir þessa leikara í leikhúsi fáránleikans, verð ég næstum því kjaftstopp.

Afdalasinnar og ESB Baráttan fyrir inngöngu Íslands í ESB - á forsendum góðra samninga - hefst fyrir alvöru á komandi vikum. Afdalasinnaðir einangrunarsinnar mega eiga sín sérhagsmunarök og sosum tími kominn til að þeir finni til tevatnsins.Ekkert verkefni er mikilvægara nú um stundir í stjórnmálum en að tengja Ísland umheiminum - og afnema innmúrað sérhagsmunapot í viðskiptum og umsýslu hins opinbera. Karlaklíkan er fullreynd á Íslandi … þar sem eftirlitið felst í flissi briddsfélaganna.Meginverkefnið er þetta: Að fletta ofan af lygavef afdalamennskunnar um ESB-hætturnar. Þar hafa áhugamenn um umsókn látið deigan síga að undanförnu. Og allt of lengi.Ég ætla að byrja lokaorrustuna með Eiríki Bergmann Einarssyni á ÍNN í kvöld kl. 21.30 og afhjúpa helstu rökleysur afdalasinna … svona í tilefni fullveldisdagsins … og þeir mega áfram flissa sem halda að sérgæsku samfélagsins sé hvergi lokið …

- SER.

http://www.sigmundurernir.is/2009/12/01/afdalasinnarm-og-esb/

Það er ef til vill svona sem virðingin kemur. 

http://www.youtube.com/watch?v=Q0--r8ZiH0k 

Ég segi nú bara fyrir mig ef þetta er afstaðan sem þingmennirnir okkar bera til okkar almennings í landinu, þ.e.a.s. þeirra sem þeim eru ekki sammála, þá held ég að komin sé tími til að skipta þeim út fyrir venjulegt fólk.  Helst einhverja sem ekki hafa komið nálægt alþingi síðustu 20 árin eða svo.

 

Flissað bara eins og þú vilt Sigmundur Ernir Rúnarsson.  En það er hvorki afdalamennska eða einangrunarmennska að vilja vera sjáfstæð þjóð. Og við sem berjumst gegn kjána- og sleikjumennsku ykkar ESB sinna, erum einmitt að benda ykkur á að við getum verið sjálfstæði þjóð í sjálfstæðu landi.  Það er okkar réttur að fá að kjósa um það, og meirihlutinn sker þá væntanlega úr um málið. Þangað til sé ég nákvæmlega EKKERT rangt við það að þæfast á móti gönuganginum í ykkur. 

 

SKÁL!

 


Hef mikið verið að íhuga af hverju........

Ég ætla að láta verða af því að trúa ykkur fyrir leyndarmáli.  Ég hef borið það nokkuð lengi, eða alveg frá því að ég komst til vits og ára og fór að hugsa sjálfstætt.  En einhverra hluta hef ég ekki viljað segja frá því, veit ekki af hverju.  Einhver pempía ef til vill, eða ótti við að særa einhvern.  En hér kemur það loksins, og þá í tilefni þess að á morgunn er 1. des og jólasveinarnir fara að koma sér í bæinn allof snemma að vísu, því þeir eru jú bara þrettán, sumir segja níu.  En hvað um það.

Það sem ég vildi segja er að ég hef eiginlega aldrei skilið af hverju íslensku jólasveinarnir, þeir Giljagaur, Stekkjastaur og allir hinir íslensku jólasveinar klæðast rauðum búningum og bera hvít skegg eins og sankti kláus.  Þegar þeir koma niður af fjöllunum bera þeir þessi fáránlega rauðu klæði, sem ég er viss um að Grýla hefur aldrei nokkurntímann haft hugsun á að búa til, hvað þá þurfa að lita þetta allt í eldrauðum litum.

Ég gæti skilið það ef við hefðum bara inporterað Sankta Kláusi og það væri þá bara einn glaður jólakarl.  En nei aldeilis ekki, nú eru þeir þrettán þessir kumpánar rauðir á húð og hár.  Ég verð að segja að mér hefur alla tíð fundist þetta fáránlegt.  Og eftir því sem ég verð eldri því fáránlegra.

Íslensku hrekkjalómarnir eru ekkert líkir Sankta Kláusi.  Og það er viðurkennt þegar þeir koma, þá bregða þeir á leik og hrekkja fólk. Það gerir Sanktinn aldrei.

cokesanta

Hann er að vísu farin að drekka kóka kóla í gríð og erg, en meira hrekkjerí vinnur hann ekki.

Öðru máli gegnir um okkar gömlu þjóðlegu hrekkjalóma.

nokkrir-jolasv[1]

Þeir ærslast og hrekkja alla tíð.  Eigum við ekki bara að stefna á að vera sjálfum okkur samkvæm og heimta að jólasveinarnir okkar fari aftur í gömu fatadruslurnar sem Grýla gamla útbjó fyrir þá og að þeir hætti þessu nýmóðins jólaeftiröpun frá Evrópu?

En hér eru aðrir hrekkjalómar.

IMG_5317

Þessi er ekki bara á jólum, hún er hrekkjalómur allan ársins hring.

IMG_5319

Og henni dettur ýmislegt öðruvísi í hug, rétt eins og jólasveinunum.

IMG_5326

Litla hrekkjusvínið hennar ömmu sín.

IMG_5322

Hér er svo innlifaður söngur, fagur eins og fljóðið.

IMG_5325

Auðvitað verður sú litla að gera alveg eins.  Vona bara að stóri bróðir sjái ekki myndirnar, hann verður æfur ef hann sér að þær hafa stolist í Ukuleleið hans.  Tounge

IMG_5324

en nú er ekki langt í að mamma komi þá verður fjör.

IMG_5327

Svo er það Ísafjörður í dag.

IMG_5328

Fyrir fjallafólkið mitt og brottflutta.

Svo ætla ég á endanum að setja hér inn jólasveinakvæðið hans Jóhannesar úr Kötlum, svona til uppryfjunar fyrir þá sem fara að setja í skóinn eftir tæpan hálfan mánuð.  Þá er eins gott að vita í hvaða röð karlarnir koma. 

Segja vil ég sögu


af sveinunum þeim,

sem brugðu sér hér forðum

á bæina heim.

 



Þeir uppi á fjöllum sáust,


- eins og margur veit, -

í langri halarófu


á leið niður í sveit.

 



Grýla var þeirra móðir


og gaf þeim tröllamjólk,


en pabbinn Leppalúði,


- það var leiðindafólk.

 


Þeir jólasveinar nefndust,


- um jólin birtust þeir.

Og einn og einn þeir komu,

en aldrei tveir og tveir.

 


Þeir voru þrettán

þessir heiðursmenn,

sem ekki vildu ónáða

allir í senn.

 

Að dyrunum þeir læddust

og drógu lokuna úr.

Og einna helzt þeir leituðu

í eldhús og búr.

 


Lævísir á svipinn

þeir leyndust hér og þar,

til óknyttanna vísir,

ef enginn nærri var.

 


Og eins, þó einhver sæi,

var ekki hikað við

að hrekkja fólk og - trufla

þess heimilisfrið.

 


Stekkjarstaur kom fyrstur,

stinnur eins og tré.

Hann laumaðist í fjárhúsin

og lék á bóndans fé.

 


Hann vildi sjúga ærnar,

- þá var þeim ekki um sel,

því greyið hafði staurfætur,

- það gekk nú ekki vel.

 


Giljagaur var annar,

með gráa hausinn sinn.

- Hann skreið ofan úr gili

og skauzt í fjósið inn.

 


Hann faldi sig í básunum

og froðunni stal,

meðan fjósakonan átti

við fjósamanninn tal.

 


Stúfur hét sá þriðji

stubburinn sá.

Hann krækti sér í pönnu,

þegar kostur var á.

 


Hann hljóp með hana í burtu

og hirti agnirnar,

sem brunnu stundum fastar

við barminn hér og þar.

 


Sá fjórði, Þvörusleikir,

var fjarskalega mjór.

Og ósköp varð hann glaður,

þegar eldabuskan fór.

 


Þá þaut hann eins og elding

og þvöruna greip,

og hélt með báðum höndum,

því hún var stundum sleip.

 


Sá fimmti, Pottaskefill,

var skrítið kuldastrá.

- Þegar börnin fengu skófir

hann barði dyrnar á.

 


Þau ruku' upp, til að gá að

hvort gestur væri á ferð.

Þá flýtti 'ann sér að pottinum

og fékk sér góðan verð.

 


Sá sjötti, Askasleikir,

var alveg dæmalaus. -

Hann fram undan rúmunum

rak sinn ljóta haus.

 


Þegar fólkið setti askana

fyrir kött og hund,

hann slunginn var að ná þeim

og sleikja á ýmsa lund.

 


Sjöundi var Hurðaskellir,

- sá var nokkuð klúr,

ef fólkið vildi í rökkrinu

fá sér vænan dúr.

 


Hann var ekki sérlega

hnugginn yfir því,

þó harkalega marraði

hjörunum í.

 


Skyrjarmur, sá áttundi,

var skelfilegt naut.

Hann hlemminn o´n af sánum

með hnefanum braut.

 


Svo hámaði hann í sig

og yfir matnum gein,

unz stóð hann á blístri

og stundi og hrein.

 


Níundi var Bjúgnakrækir,

brögðóttur og snar.

Hann hentist upp í rjáfrin

og hnuplaði þar.

 


Á eldhúsbita sat hann

í sóti og reyk

og át þar hangið bjúga,

sem engan sveik.

 


Tíundi var Gluggagægir,

grályndur mann,

sem laumaðist á skjáinn

og leit inn um hann.

 


Ef eitthvað var þar inni

álitlegt að sjá,

hann oftast nær seinna

í það reyndi að ná.

 


Ellefti var Gáttaþefur,

- aldrei fékk sá kvef,

og hafði þó svo hlálegt

og heljarstórt nef.

 


Hann ilm af laufabrauði

upp á heiðar fann,

og léttur, eins og reykur,

á lyktina rann.

 


Ketkrókur, sá tólfti,

kunni á ýmsu lag. -

Hann þrammaði í sveitina

á Þorláksmessudag.

 


Hann krækti sér í tutlu,

þegar kostur var á.

En stundum reyndist stuttur

stauturinn hans þá.

 


Þrettándi var Kertasníkir,

- þá var tíðin köld,

ef ekki kom hann síðastur

á aðfangadagskvöld.

 


Hann elti litlu börnin

sem brostu, glöð og fín,

og trítluðu um bæinn

með tólgarkertin sín.

 


Á sjálfa jólanóttina,

- sagan hermir frá, -

á strák sínum þeir sátu

og störðu ljósin á.

 


Svo tíndust þeir í burtu,

- það tók þá frost og snjór.

Á þrettándanum síðasti

sveinstaulinn fór.

 


Fyrir löngu á fjöllunum

er fennt í þeirra slóð.

- En minningarnar breytast

í myndir og ljóð.

 

 

Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og vernda. Heart

Allur réttur áskilinn börnum skáldsins.

Ferð inn í Heydal í Mjóafirði.

Við hjónin fórum inn í Heydal á föstudag seinnipartinn.  Úlfur er að fara í viku dvöl þar á bæ, hjá henni Stellu og Gísla Pálmasyni.  Hann er alsæll að komast í sveitina og er bæði duglegur og hjálpsamur þar eftir því sem Stella segir mér.  Enda er hún ljúf og góð og virkilega natin við börn sem koma í heimsókn til hennar, til stuðnings og uppbyggingar.  Einsstök kona Stella.

En við fórum sem sagt á föstudagskvöldi, eftir æfingu á Tai Kwon Do hjá Úlfi.  Hann ætlar að taka beltapróf 17. desember, svo það er ekki gott að missa of marga tíma úr.  Það eru um tveggja tíma akstur inn í Heydal í Mjóafirði.  Þar sem þau mæðgin reka ferðaþjónustu.  Þar er heitt vatn sem þau nýta til að hita húsið, svo er þarna sundlaug og heitir pottar.  Þau eru líka með hestaferðir og kajakróðra, gönguferðir um svæðið.  Fuglamerkingar og allskonar fróðleik sem hægt er að sækja inn í Heydal.  Má örugglega segja menningartengd ferðaþjónusta.

En við sem sagt lögðum af stað öll fimm um hálf sjö og vorum komin um hálf níu.  Þar biðu húsráðendur eftir okkur með matinn.  Mjög notalegt. Þau hafa búið vel um sig og matsalurinn sem áður var hlaða er nú skemmtilega innréttaður úr grófum viði og allskonar gamlir hlutir og málverk sem þekja veggi, og uppstoppaðir fuglar. 

IMG_5221

Það var samt Kobbi sem heillaði stelpurnar mest.  Hann getur sagt góðan daginn og halló.  Ég tók eftir að hann heilsaði öllum heimamönnum sem komu inn morguninn eftir með góðan daginn. 

IMG_5228

Þær voru stilltar alla leiðina, og það var gott að bregða sér í sturtu eftir bíltúrinn.

IMG_5229

Þetta var svona prinsessubað.

IMG_5230

Já það er gott að vera í sturtu.

IMG_5231

Svo var dansað með sjónvarpinu.

IMG_5234

Áður en farið var að sofa.

IMG_5235

Við fengum lánaðan bílinn hans langafa, því okkar er of lítill.

IMG_5236

Í matsalnum er hlýtt og notalegt, enda gólfið upphitað með heitu vatni.

IMG_5237

Flottir uppstoppaðir fuglar, þessi smyrill er glæsilegur.

IMG_5238

Girnilegur morgunmatur, heimabakaðar bollur nýkomnar úr ofninum og mikið og gott meðlæti.

IMG_5239

Halló Kobbi!!!

 

Það eru fleiri ungmenni sem njóta umönnunnar Stellu en minn stubbur.  Þarna ríkir friður og gott andrúmsloft, og þeim líður greinilega mjög vel krökkunum þarna.

 

Stella var barnaskólakennari, og þekkir vel inn á ungt fólk.  Enda þykir krökkunum greinilega vænt um hana. 

 IMG_5245

Svo er barnahorn. Þar sem hægt er að lita og föndra. 

IMG_5247

Margir skemmtilegir hlutir sem gaman er að skoða og fuglarnir líka.

IMG_5248

Þarna er líka ýmiss þjóðlegur fróðleikur í bókum og pésum, fyrir þá sem vilja fylgjast með og lesa sér til um staðhætti og líf og störf fólks, einnig bækur um hesta.

IMG_5249

Svo er auðvitað Skuggi, hann heillaði stelpurnar upp úr skónum.

IMG_5255

Taktu mynd amma LoL

IMG_5256

Það var kuldalegt að sjá við heitupottana utandyra, en þeir verða fínir í vor.

IMG_5257

Sundlaugin er aftur á móti inni og hægt að nota hana allt árið.  Sérstaklega þegar búið er að gera búningsklefa það væri líka örugglega fínt svona yfir veturinn að hafa geislahitun yfir borðunum.  En þetta er yndislega náttúrulegt með ávaxatatrjám allt í kring. 

IMG_5258

Hér er reyndar líka stunduð skógrækt og er búið að planta mikið af trjám og margar ólíkar tegundir þar sem trjábóndinn hefur mikinn áhuga á fjölbreytileika, og tegundaúrvali.  Mér líkar það vel, því þannig er ég líka. Við gátum því spjallað um kvæmi og tegundir.  Bróðir Gísla Atli er fyrrverandi skólabróðir minn í Garðyrkjuskólanum, hann vinnur í Reykjavík en mamma hans og bróðir sjá um Heydalinn.

IMG_5260

Þá er bara drýfa sig að afklæða og fara ofan í.

IMG_5261

M mátulega heit segir Hanna Sól.

IMG_5262

Þá er ekkert annað eftir en að pakka niður og leggja af stað heim á leið.  Það hefur snjóað mikið í nótt, og hætt við að vegurinn fari að teppast.   En sem betur fer er ekki mikill vindur. Og snjórinn nýfallinn púðursnjór.

IMG_5270

Þær dunduðu sér við ýmislegt á leiðinni stelpurnar.  Nammið varð að allskonar dóti til að leika sér með.

IMG_5279

Eins og sjá má er hægt að leika sér á ýmsan hátt með nammið.

IMG_5272

Fjöllinn okkar vestfirsku eru eins og tússlitamyndir, en svo tignarleg og flott.

IMG_5274

Þarna sést í Kofra og fjöllinn við Súðavík.

IMG_5275

Hesturinn alltaf jafn glæsilegur.

IMG_5278

Þau spila svo skemmtilega við sjóinn þessi fjöll.

IMG_5283

Hrísið í Hestfirðinum stendur upp úr snjónum eins og ló.  Skemmtilegt að sjá.

IMG_5284

Og álfar og huldar vættir eru að ná sér á strik aftur eftir sprengingar og læti við vegagerð.

IMG_5288

Vigur hin græna orðin hvít.  Og hálf einmana svona yfir veturinn, síðan byggðin lagðist þar af að mestu.  En á sumrin iðar hún af lífi.

IMG_5291

Glöð í bíltúr með ömmu og afa.

IMG_5300

Og aldan leikur sér við kletta í fjörunni.  Fuglinn sigur á öldutoppunum og lætur sjóinn bera sit til og frá eins og að sitja í rússíbana. 

IMG_5302

Í Arnardal fjaran keppir við ljós og skugga.

IMG_5303

Hamarsgatið fyrstu jarðgöndinn, og einmitt í gær var sprengt síðasta haftið í Bolungarvíkurgöngum.  En nú þarf að fá önnur göng til Súðavíkur svo við losnum við þessa hlíð þar sem snjófljóð eru tíð yfir vetrarmánuðina.

IMG_5306

en einmitt í gær var mikil veisla í Bolungarvík, þegar Súðavíkurgöng koma, verður þetta eitt svæði.  Því fyrr því betra.

Stella og Gísli innilega takk fyrir okkur, góðar móttökur og gestrisni. 


Undir svefninn.

ég var að fara yfir myndirnar mínar og sá myndir af syni mínum, sem hann hafði sjálfur sett inn, myndir sem vinkona hans Frída hefur tekið og hann sjálfur líka.

IMG_6614

Ég var að byrja að ganga frá fiskunum hans eftir sýninguna, og það er svo margt fallegt sem liggur eftir hann að ég táraðist.

IMG_6616

Og það sem hann hefur afkastað eftir svona stuttan tíma, eftir að hann fann sig í listinni um steinana.

IMG_6868

Sín fyrstu verk gerði hann hér upp í gróðushúsinu mínu.  Aðstaðan var ekki góð, frekar en gámurinn sem hann var í seinustu mánuðina.

IMG_6870

Hafið þið séð fallegri rós, fyrir utan þessar ekta?

IMG_6873

Því miður hafa tapast margar af rósunum hans.  ég á bara þrjár eftir.

IMG_6874

Og svona verk er lítið eftir af.

IMG_6882

Aðal aðstaðan hans var úti á þessu borði sem pabbi hans smíðaði.

IMG_6886

Og þetta eru tólin sem hann notaði.

IMG_6891

Æ yndið mitt.

IMG_6913

Þetta er nú aðstaðan sem hann vann við, og aldrei voru börnin langt undan.

IMG_6915

Enda var hann eins og barn.  Þau vita sem er, þegar falleg sál er hjá þeim, það fer ekki milli mála.

IMG_6921

En svona er þetta bara.

 

Þó dagsins ljós nú dvíni enn,

 

Og dimmar nætur ríki senn.

 

Þá ljósið skæra sólstöðu mun skína

 

Og skríða inn í undirvitund mína.

 

Þegar ljósin kvikna eitt og eitt

 

allstaðar um bæinn gegnumsneitt.

 

Þá vona ég að höfgur hugur minn

 

huggast láti, inn í mér ég finn,

 

að einhversstaðar hér er huggun mín,

 

hugsunin um soninn minn þar skín.

 

Eins og litrík fögur jólaljós.

 

ljúf og góð sem fögur steinarós.

 

Því eftir lifir falleg listin hans

 

ljúf og góð um ævi þessa manns.

 

 

 

Nú nálgast jólin naum er tíð

 

niður tímans ár og síð

 

Nú sit ég hér og syrgi soninn minn.

 

Samt á svona stundum vel ég finn.

 

Að allir eiga hér sinn stund og stað

 

samningurinn ritaður á blað.

 

Ekkert getum við því gert á ný.

 

Guð einn veit að enginn breytir því,

 

Hvað okkur liggur fyrir enginn veit.

 

Ekki sjáum við þann næsta reit

 

á skákborðinu lífsins leikinn er

 

líklega  það er sem betur fer.

 

Nú set ég stopp á hugans feril hér

 

helgar vættir allar hjálpi mér.

 

Knús á ykkur öll inn í nóttina og megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og vernda. Heart

 


Varð að setja þetta hér inn.

Sá þetta á blogginu hans Jens Guð, og hugsaði með mér hvað þetta fittar nákvæmlega inn í hugleiðinguna mína.  Ætli þetta liggi ekki bara í loftinu.

http://www.youtube.com/watch?v=zz_7m_C_Aqc#watch-main-area

Svo sannarlega þess virði að lesa og íhuga.  Eða hvað finnst ykkur?


Hugleiðing og áskorun til forsetans.

Ég er að hugsa um mannlegan hugsunargang kosti og breyskleika.  Þar kennir ýmissa grasa og margt fer í gegnum kollin á mér.  Það er svo sem ágætt að ég er komin svo langt að geta farið að huga að öðru en sorginni.  Mér finnst ég vera að vakna og vera meira lifandi en í langan tíma.  Þó er framtaksleysið ennþá til staðar.  En smátt og smátt eykst mér orka til að gera hlutina.  Og ég verð glaðari og ánægðari með sjálfa mig, þegar mér eykst þrekið.

 

En nú er ég sem sagt að hugsa um ástandið í samfélaginu okkar og hugleiða út frá því.  Við erum einkennilegt samfélag.  Það hef ég gert mér grein fyrir í langan tíma.  Eða allt frá því að ég fór utan 17 ára gömul í lýðháskóla í Svíþjóð.  Og síðan dvaldi 2 ár í Glasgowborg sem aupair. 

 

Þar uppgötvaði ég að fólk utan Íslands er bara fólk, þeir sem eru duglegir komast áfram, hinir sitja eftir.  Enginn ofan í hvers manns koppi.   Svona heilt yfir.  Auðvitað eru alltaf frávik og ég er ekki að segja að þar ríki ekki afbrýðisemi þess sem minna má sín til þeirra sem fleyta rjómann.  Og ég er heldur ekki að segja að menn komist ekki áfram á óheiðarleika og misnotkun á trausti.  Þetta er bara allt einhvernvegin fjær og utar en hér heima.

 

Við aftur á móti erum í eintómum klíkum.  Og oft kemur það fyrir að haldið er aftur af fólki með mikla hæfileika á einhverju sviði vegna þess að öðrum finnst að þeir eigi ekki skilið að komast að.  Öðrum er lyft upp og fá ótrúlegustu tækifæri af því að þeir þekkja rétta fólkið, eða eru í réttu klíkunni.  Auðvitað eru undantekningar, en þær eru færri ef tilefni gefur til.  Og þeir sem þannig brjótast fram skara oft það mikið fram úr að þeir vekja eftirtekt langt út fyrir litla Ísland. 

 

Þetta leiðir svo til þess að það er ekki endilega færasta fólkið sem situr í bestu stöðunum, eða er í forsvari eða jafnvel bara bestu listamennirnir.  Af því að við viljum einhvernvegin ráða því hverjir sitja þar.  Eða einhverjir vilja ráða.  Það eru mörg dæmi um svona.  Þarf ekki  að leita langt. 

 

Þetta háir held ég líka stjórnvöldum, þegar nýir aðilar komast til valda.  Því þá situr klíkulið frá fyrri ráðamönnum og sjá til þess að hlutirnir gangi eins og þeir vilja.   Hver man ekki eftir skemmtilegu þáttunum bresku „Já ráðherra“  Ansi er ég hrædd um að þar leynist mikill sannleikur falin í spaugi að hætti spaugstofunnar.

 

Þetta er svo sem engum að kenna, heldur er þetta afleiðing af fámenninu og heimóttarskap okkar allra.  Þetta lýsir sér m.a. í því að hér eru kosningar nánast skrípaleikur, því við höfum gefið leyfi til að hér starfi einungis fjórir stjórnmálaflokkar, flokkar sem sitja á gömlum merg, eða nýtt vín á gömlum belgjum.  Okkur dettur ekki í hug að breyta til þó allir fjórir flokkarnir hafi einangrast og eru nánast úr öllum takti við þjóðina.  Það má ekki breyta út af þessu hvað sem tautar og raular.  Þó ný framboð komi og reyni að breyta, þá leggst allt á eitt að rífa niður og liggja yfir hverju smáatriði til að sundra og drepa niður.  Fólkið sem kom inn fullt af hugsjónum og góðum áætlunum um að gera góða hluti er úthrópað sem tækifærissinnar og fábjánar eða ég veit ekki hvað.  Við tökum Lúkasinn á hvert nýtt framboð sem vogar sér að storka fjórflokknum.

 

Og það merkilega er að þetta sama fólk er hundóánægt með ástandið og traust almennings virðist vera ansi lítið á stjórnmálamönnum.  Og  þá hugsa ég, hvað er hægt að gera í málinu. 

 

Ef fólk virkilega vill breytingar, verður það að gefa öðrum tækifæri, gefa þessum fjórum flokkum frí, og þora að taka slaginn með öðrum framboðum.   Í mínum huga er ofarlega bæði Frjálslyndi flokkurinn, þar sem ég var innanbúðar og veit að flestir þar vildu virkilega breyta áherslum.  Og það sést í dag að allt sem við töluðum um hefur annað hvort orðið ljóst að þurfti, eða stjórnvöld hafa tekið það upp á sína arma vegna þess að það var rétta leiðin.   Og síðan Borgarahreyfingin sem var af sama meiði, fólk sem vildi leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið.   Fólk gerir það sér til dundurs að kalla þessa flokka og fólkið sem þar er innanbúðar allskonar nöfnum,  eins og krakkar í sandkassa,  einn er fitubolla annar dvergur. 

 

Meðan við komumst ekki upp úr þessum sandkassa breytist ekki neitt.  Meðan við samþykkjum allt og verjum sem OKKAR FLOKKUR gerir ekki af því að okkur líkar endilega það sem þeir gera, heldur bara af því að þetta er mín klíka.  Þá er enginn hvati til að breyta neinu.   Menn ganga að því vísu að EIGA svo og svo mikið fylgi, og geta raðað sínum mönnum upp í goggunarröð samkvæmt því, og lofað öðrum feitum bitum til að halda þeim góðum.

 

Nú þegar fólk kallar á nýtt Ísland, og krefst : Heiðarleika, virðingar og sanngirni, þá verðum við að skilja það, að það fæst aldrei fram nema við tökum málin í okkar hendur og  þorum að treysta nýjum einstaklingum fyrir fjöregginu.  Við verðum að losna af þessum fjórflokkapólitíska klafa.   Ég er ekki að segja að forystumennirnir séu ekki gott fólk, en vald spillir, og þegar menn gera sér grein fyrir að þeir þurfa ekkert að vanda sig, og það er nánast sama hvernig þeir haga sér, þjóðin nöldrar bara út í horni og að svo er það búið, þá er ekki von til að þeir fari að leggja á sig að gera betur.  Þetta er bara hrákaldur sannleikur.

 

Það var augnablik sem þessir herrar skulfu, og það var þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst.  Þá urðu þeir virkilega hræddir, en bara augnablik.  Því alveg eins og þeir vonuðu, þá var þetta bara enn ein bólan.  Fólk hætti að nenna að mæta, bara örfáir einstaklingar sem virðast vera vakandi og hrópa ennþá í eyðimörkinni.  Hinir hafa sofnað aftur svefninum langa.

 

Ekki af því að ástandið sé orðið betra, og ekki af því að stjórnmálamennirnir hafi tekið sig á, og ekki heldur af því að það sjáist nein merki um iðrun eða sjálfsásökun þeirra um hvað þeir gerðu rangt.  Nei þetta versnar ef eitthvað er.

 

Eitt er líka og það er fréttaflutningur, sem er með ólíkindum.  Það virðist enginn blaðamaður þora eða mega rannsaka eitt eða neitt.  Það er bara vasast í smáatriðum og talað um það sem „má“  ef einhver reynir að opna á einhver mál, þá rísa sérhagsmunagæðingarnir upp til handa og fóta og þessi skal burt.  Við viljum ekki að fólk fari að hugsa um annað en það sem við viljum mata það á.  Það gengur ekki.  Þau gætu farið að rísa upp og breyta þessum hlutfjöllum.   Eins og í frönsku byltingunni. 

 

Ég hef líka velt því fyrir mér hvernig útrásarliðinu líður á sálinni.  Að vísu eru þeir verndaðir í bak og fyrir sumir af einni klíkunni, aðrir af hinni.  Og grátkórar kyrja á víxl um óréttlæti yfir  því af hverju þeirra maður fær á baukinn þegar hinir eru miklu verri.  Og almenningur kyrjar með.   Þá hlýtur það samt að svíða í sálinni að vera orðin ómerkingur og óbótamaður í eigin landi.  Jafnvel þó menn geti sprangað um í útlöndum með öðrum auðkýfingum og þóst menn með mönnum.   Þá vita þeir að ef þeir ætla að nálgast það sem þeir hafa sölsað undir sig hér heima, verða þeir fyrir allskonar aðkasti og leiðindum af afbrýðisömum almenningi, sem auðvitað eiga bara að þegja og þrauka og borga skuldirnar.

 

Ætli þeim líði hótinu betur en þeim sem hefur misst allt sitt vegna útrásarinnar, á einn veginn eða annan? Eini munurinn er sá að þeir hafa það val að skammast sín og koma til baka með ránsfenginn og biðjast afsökunar.  Það er nokkuð ljóst að almenningur sem er almennt séð afskaplega undirgefinn og auðmjúkur þegar valdamenn og auðkýfingar eiga í hlut, munu strax fyrirgefa þeim og bugta sig og beygja í auðmýkt og undirgefni. 

 

Víkingar hvað!

 

Nei þetta er auðvitað orðið ansi langur pistill sem enginn nennir að lesa.  En það er ágætt að setja þetta svona á blað, það hverfur þá ef til vill úr undirmeðvitundinni, því ég satt að segja hef miklar áhyggjur af ástandinu og ekki síst af því að við erum svona þröngsýn og ég geri mér grein fyrir að ástandið mun ekki breytast.  Því fyrr frís í helvíti en fólk hætti að kjósa flokkinn SINN og verja SÍNA MENN, af því þeir eru í sömu klíkunni, heldur en að fólk fylki sér til nýrra afla sem vilja vinna þjóðinni vel.   Meira að segja þingmenn sem hafa svarið eið að því að fylgja sannfæringu sinni sitja frekar heima eða sitja hjá en kjósa með íslenskri þjóð, samkvæmt réttlætishugsun sem það þó hefur stundum. 

 

Og þetta er sama fólkið og er alveg til í að færa einhverjum lokuðum klúbbi fyrirtæki annars á silfurfati, bara af því hann er svo ömurlegur.   Án þess að vilja fá að vita hver hinn aðilinn er, og hvort hann er ekki alveg jafn sökóttur og slæmur. 

 

Hvenær ætlum við að komast upp úr þessu hjólfari?  Eða viljum við ef til vill engar breytingar?  Við höfum nú haft tækifæri til þess í tíu ár að refsa fjórflokknum, sem er hver um sig jafnsekur um ástandið sem er hér í dag.  En við höfum ekki þorað því, og hætt og smánað það fólk sem hefur viljað ganga fram fyrir skjöldu og breyta.   Það þarf nefnilega ekki nema að byrja á kviksögum, þær byrja venjulega í afkimum núverandi flokka, af því að menn eru ennþá dálítið smeykir um að missa stólinn sinn, og við tökum Lúkasinn á það og æpum og skrækjum eins og vitleysingar tökum undir og flytjum söguna áfram.   Og svo endar það með því að enginn, ekki nokkur maður hefur minnstu löngun til að reyna að bjóða sig fram til að laga ástandið.   Til hvers að leggja persónu sína í flórinn bara fyrir hugsjónina um að bæta ástandið?  Þakkirnar sem fólkið fær er bara skítkast.  

 

Ég segi það alveg satt, þetta er ósköp andstyggileg skrif, og eflaust les enginn alveg niður að þessum orðum, en  fyrr en við tökum til í okkar eigin ranni, og tökum leppana frá augunum, reynum að horfa allra átta og láta skynsemina ráða, gerist nákvæmlega ekki neitt.  Ekkert nýtt Ísland, enginn ný hugsun,  engin upprisa lýðræðis.  Og við getum bara sjálfum okkur um kennt.   Þannig er nú það. 

Ef einhver heldur að ég sé að skrifa svona út af vonsku, þá er það einmitt vegna þess að mér þykir vænt um Ísland, fólkið í landinu og framtíðina að ég skrifa þetta núna.  Ég hef virkilegar áhyggjur af þróuninni.  Og hvað gæti hugsanlega tekið við.  Mín ósk er sú að við þyrðum að gefa núverandi flokkum og forystumönnum þeirra frí.  Þau hefðu bara gott af því að vera fjarri stjórnun landsins næstu árin.  Hugsa sinn gang og hreinsa til.  Þá er hægt að koma tvíefld til leiks með ferskar hugmyndir og nýjar áherslur.  Þetta dæmi er ekki að ganga upp.  En til þess að svo megi verða, þurfa að koma fram ný framboð, eða að það fólk sem stendur að Borgarahreyfingunni, Hreyfingunni og Frjálslyndaflokknum taki sig saman og myndi afl sem þarf til að breyta.  Það fólk sem þar er í forsvari hefur ný sjónarmið, heilbrigða sýn á málefni og þarf að vera sterkari rödd.  En það þýðir ekki að tala út og suður, það þarf eina sterka rödd sem heyrist upp úr fjórflokkakórnum.  Skýr skilaboð og stefnumál sem staðið verður við.

c_documents_and_settings_erna_hjaltested_my_documents_blog_isl_faninn_713981 

Og aðeins eitt að lokum: hér er tækifæri til að gera eitthvað.  Set inn skilaboð sem ég var að fá.

Eins og þið hafið kannski séð í fréttum í kvöld þá hrinti InDefence af stað undirskriftasöfnun til að skora á forseta Íslands að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar.

Undirskriftasöfnunin er á www.indefence.is

Það væri frábært ef þið sæuð ykkur fært að dreifa þessum skilaboðum áfram til eins margra og þið getið og hvetja fólk ti lað skrifa undir. Þeim mun fleiri sem skrifa undir þeim mun meiri pressa verður á Ólaf, sem er búinn að setja sér skýr skilyrði með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis þann 2. september sl.

Endilega hfingið í mig ef þið viljið nánari upplýsingar. 6648334

Forsetinn %C3%81sgeir %C3%81sgeirsson og afi

Það er reyndar ekki þessi forseti sem við ætlum að senda áskorun.  En það kemur maður eftir mann.  Sendum Ólafi áskorun um synjum á staðfestingu á Icesavesamningi.   Þ.e. þeir sem eru andvígir þessum samningi.  Sýnum í verki að við getum gert ýmislegt, þó það sé bara í formi áskorunar. Jón Steinar vinur minn benti mér á að setja inn link á áskorunina, hér er hún: http://www.indefence.is/


Hverjir eru Þjóðarhagur?

Ég er dálítið hugsandi yfir þessu Hagadæmi.  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item313352/

Þeir sem kalla sig þjóðarhag ætla ekki að gefast upp við að komast yfir eignir Baugsfeðga.   Og landinn dansar með.  Tökum Lúkasin á þetta sum sé.

Var að hlusta á dægurmálaútvarpið í gær og flestir sem hringdu einn ætla sko ekki að versla í Bónus eða öðrum verslunum Baugsfeðga.  Svo hringdi maður að austan.  'Eg hef aldrei á minni ævi fengið betri kjarabætur en þegar Bónus kom austur sagði hann.

Og ég segi það sama.  Við komu Bónusar á Ísafjörð lækkaði vöruverð um allt að 30 %.  Fyrir Bónus fór fólk vikulega eða hálfsmánaðarlega suður til að versla þar allt sem mátti geyma.  Meira að segja fólk sem básúnaði að við ættum að versla í heimabyggð sást laumast með fullar kerrur af vörum um Bónus í Reykjavík. 

Nú veit ét ekki hverjir það eru sem eru í Þjóðarhag.  Einhverjir hafa sett lágmarksupphæð í dæmið til að vera með.   En málið er að það er leyndarmál hverjir aðalfjármagnararnir eru, og það verður ekki gefið upp.  Hef heyrt töluna 100 hæstu borgarar.    Kannast einhver við svoleiðis vinnubrögð?  Hvað vitið þið kæru kóarar um þá sem ætla sér að reka og stjórna þessum þjóðarhag?  Ég hef heyrt rætt um Finn Ingólfsson og S-hópinn.  Hugnast það almenningi að færa þeim Haga á silfurfati.  Eru þeir eitthvað skárri en Bónusfeðgar?

Alla vera er að mínu mati skítalykt af því af hverju menn ætla ekki að gefa upp hverjig borga mest.  Hvað liggur þar að baki?  Mér er sagt að þessi Guðmundur Franklín hafi verið mikið umhendis Rauðaherinn sem starfræktur var á Þingeyri, þar sem örugglega var eitthvað gruggugt við reksturinn.  Það væri gott að fá upplýst um þá tengingu og hvað gekk á í þeim rekstri og hvernig sá ágæti maður tengdist því.

Málið er að flestir sem koma þarna inn með fé, komast aldrei til að ráða neinu.  Heldur tel ég hér vera á ferðinnni einhverskonar yfirtaka undir yfirskini þjóðarhags, nafnið er fallegt, en hverjir standa að baki og um hvað snýst þetta þegar allt kemur til alls. Erum við ekki allof fljót á okkur að fylgja eftir einhverju sem við höldum að sé eitthvað betra en það sem var?  Bjöllusauðir sem hlaupum eftir bjölluhljómnum án þess að reyna að gera okkur grein fyrir því hvert er verið að leiða okkur.

Ég vil nefnilega frekar hafa Bónus eins og það er, með jafnaðarverði um allt land, og halda mínum kjarabótum, heldur en að þurfa að horfast í augu við að verðið hækki og jafnvel vöruúrval minnki.

Bónus hefur staðið sig vel hér á Ísafirði og ég ætla að láta þá njóta míns stuðnings fyrir það hvað þeir hafa staðið vel að málum hér. 

Grasið er nefnilega ekki alltaf grænna hinu meginn.  Og skúrkarnir eru sérfræðingar í að klæða sig í sauðagæru ef sá gállinn er á þeim.  Þess vegna verða menn að krefjast þess að fá að vita hverjir standa að þessu og fjármagna þjóðarhag. 

 


Frekar kysi ég að þeir frysu úti. Svona er viðhorfið gagnvart fíklum í dag.

Þessi frétt síðan á helginni.  Fór að einhverju leyti fram hjá mér.  En var að lesa bloggið hennar Jónu Kolbrúnar þar sem hún ræðir hvort ekki væri betra að hafa sérstaka stofu sem tekur á móti fíklum.  Sem er ágætis hugmynd, en það var svar á síðunni hennar sem mér blöskraði algjörlega og sýnir í hnotskurn hvernig fólk hugsar.  Það er svona.

Frekar kysi ég að þeir frysu úti en að fá að ganga svona berserksgang þar sem safnast saman veikir og slasaðir og ungir sem gamlir.

Ég segði þetta kannski ekki ef ég ætti son/dóttur sem væri fíkill, en þarna verður að velja hagsmuni "hinna" skjólstæðinga Bráðavaktarinnar fram yfir stjórnlaust fólk sem hagar sér sem bestíur, undir áhrifum eður ei.

Svo er hræsnin líka til staðar, jú hún myndi ef til vill ekki segja þetta ef hún ætti son eða dóttur sem væri fíkill.  En samt sem áður á að taka veikt fólk fram fyrir þessi úrhrök sem best væri að frysu úti frekar en að leita sér hjálpar.

 

Vissulega er vandamál á ferðinni þegar fíklar koma til að fá hjálp, þegar þeir eru í frákasti.  Þeir eru enganveginn í jafnvægi og þarf lítið til að kveikja stórt bál. 

En er þá ekki frekar að finna lausn á vandamálinu en að leggja starfsfólk og sjúklinga í hættu?

Jú hugmyndin hennar Jónu Kolbrúnar er allra umhugsunarverð.  Hvað með að hafa stofu í miðbænum, sem væri þá með vaktmanni til að hjálpa þeim sem þurfa að leita sér hjálpar vegna ofneyslu fíkniefna.

Og ef einhver veður í þeirri villu að fólk sé að gera það að gamni sínu að ánetjast vímuefnum, hvort sem það eru eitur allskonar, alkohól eða sigarettur, þá er það alrangt.  Fólk leiðist út í svona oftast af öðrum, annað hvort óheppilegum félagsskap eða sölumönnum dauðans sem leggja sig í líma við að finna fórnarlömb, meira að segja á skólalóðum til að græða sem mest. 

Þeir sem leiðast oftast út í slíkt eru einstaklingar sem af einhverjum orsökum eru viðkvæmari fyrir en aðrir.  Annað hvort of viðkvæmir, eða hafa orðið útundan í skólanum. 

Það er enginn sem ætlar sér að verða fíkill, sem ekki ræður við neysluna, eða lifa á götunni og verða að leita á náðir heilsugæslustöðva til að fá hjálp við að slá á viðbrögðin sem geta ollið dauða viðkomandi. 

Í málefnum fíkla hefur þjóðfélagið brugðist.  Stjórnvöld hafa brugðist, og allir opinberir aðilar sem eiga að huga að velferð allra í samfélaginu en ekki bara sumra.  Hópurinn fíklar er vandamál að þeirra mati, og sennilega best að þeir frjósi bara úti, þá er maður laus við það vandamál.  Og oftar en ekki endar jú þrautargangan með því að þau deyja, annað hvort af sjúkdómum eða fyrir eigin hendi. 

Það kom í ljós í rannsókn um daginn að helsta dauðaorsök ungra karlmanna er sjálfsvíg.  Ég myndi vilja láta rannsaka þessar tölur nánar og skoða hvaða hópur það er innan þessara ungu manna þarna er.  Það skyldi þó ekki vera að það væru fíklar, fólk sem hefur barist við fíknina mörg ár, út og inn úr fangelsum, sjá ekkert ljós framundan og hreinlega gefast upp á lífinu vegna skilningsleysis, andvaraleysis og bara hreinlega vegna fordóma og vonsku þeirra sem ættu að vera þeim innan handar og hjálpa.  Þá er ég ekki að tala um foreldrana sem oftar en ekki standa og vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við eða hvað þeir eigi að gera hvert að leita. 

Það má örugglega ekki láta sannleikan koma í ljós, því þá yrðu þessi yfirvöld að standa frammi fyrir því að hafa brugðist og látið algjörlega reika á reiðanum gagnvart þeim sem ekki lengur ráða við fíknina.  Fangelsismálayfirvöld þyrftu að fara að skoða hvort það sé réttlætanlegt að stinga fíklum inn á Litla Hraun og láta þá bara þvælast þar, út og inn endalaust.  Og dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið þyrftu að horfast í augu við það að þau hefur ekki gert neitt í því að koma á fót lokaðir meðferðarstofnun til að bjarga þeim sem eru við dauðans dyr, en ekki síst þeim sem ennþá er hægt að snúa til betri vegar.  Þeir hafa nefnilega EKKERT Í FANGELSI AÐ GERA.   Og ég tel þetta ákvæði um að menn fái ekki að koma inn á heilsugæslustöðina nema í fylgd lögreglu stangast algjörlega á við læknaeiða og bara þetta sem fólk kallar á góðum dögum kristilegt siðgæði.

Ef þetta á að vera lausnin.  Þá segi ég hvar erð miskunin og hjálpin sem allir eiga rétt á?  Ef fíkill má ekki koma inn á slysadeild án lögreglufylgdar, þá er ég hrædd um að við sjáum mikla hækkun á dauðsföllum og sjálfsvígum.  Vilja læknar taka ábyrgð á því?

Ef svarið er nei, þá hljóta viðkomandi yfirvöld að gera eitthvað meira í málinu.  Ég krefst þess að það verði sett á stofn einhverskonar stofa eða staður þar sem þetta vesalingsfólk getur leitað til.  Hverskonar þjóðfélag er þetta að verða?  Ég bara spyr. 

Síðan verður að koma á fót lokaðri meðferðarstofnun þar sem fíklar fá inni, og þá aðstoð og hjálp sem þeim ber.  Við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna. 


mbl.is Slagsmál á bráðamóttökunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 2024016

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband