Það er þessi hárfína lína milli kærleiks og örvæntingar, sem við verðum að læra að feta.

   

Þau bréf sem ég set hér inn núna verða sennilega seinustu bréfin í þessum dúr í bili allaveg.   Ég er á báðum áttum með það, en ég held að það sé nauðsynlegt til að þið getið skilið þá angist og hugarheim foreldris sem á við að glíma barnið sitt í helgreipum.  Þrátt fyrir allt, þá reis sonur minn upp, tók sig á og átti nokkur yndisleg ár með fjölskyldunni.  Eignaðist litla Sigurjón Dag og ástina.  Fyrir mér var það kraftaverk sem ég er þakklát fyrir í dag.  Hann er í mínum augum hetja að geta gert þetta.

Fyrst honum tókst það þá er það alveg víst að enginn er vonlaus.  Ég skrifaði honum nánast á hverjum degi í fangelsinu og oft þegar hann var í meðferð.  Stundum bara einhverjar fréttir af veðri eða brandara, stundum hugvekjur um framtíðina.  En aðallega til að hann vissi að þarna úti væru manneskjur sem elskuðu hann og hefðu af honum áhyggjur. 

Þetta vil ég benda foreldrum á.  Það skiptir þau máli að finna að þau standa ekki ein.  Þó maður hafni fíklinum, þá verður maður að elska barnið sitt.  Það verður að gera skil þar á milli.  Ég veit að það er erfitt á allan hátt að hafa langt leiddan fíkil inn á heimilinu.  Þar koma upp allskonar erfið samskiptavandamál sem enginn vil í raun tala um.  En það verður að opna á það.  Alltof margir foreldrar þjást einmitt vegna þagnarinnar.  Og allof margir gera sér ekki grein fyrir því tilfinningaástandi sem verður kring um þessar helsjúku en oftast yndislegu manneskjur. 

Því birti ég þessi bréf.  En ég bið ykkur samt að muna drenginn minn sem þann ljúfling sem hann alltaf var.  Sá sem alltaf var tilbúinn til að hjálpa öðrum og gaf af sjálfum sér endalaust.  Þau eru mörg þarna úti sem fá ekki tækifærin sín, vegna þess að þau eru föst í kóngulóarvef óvinsins andlitslausa.  Elskulegi fallegi drengurinn minn með hjartað úr skíra gulli, setti allaf alla aðra fyrir framan sig.  Bað aldrei um neitt sjálfum sér til handa, en var alltaf tilbúinn til að hjálpa.

Ættingi minn segir að ég verði að muna hann allan, bæði galla og kosti, öðru vísi nái ég ekki að losna við sorgina.  Ég segi að ég muni ekkert nema það góða í kring um hann.  Mér sé nóg að lesa allt það sem var í þeim bréfum sem ég sendi honum.  Og geymdi. 

Ef okkar samskipti geta orðið til að breyta einhverju til betri vegs, þá er ekki til einskis barist. 

 

 

   


                                                                                                                                Ísafirði, 30 október 2002

    

            

    Elsku Júlli minn.

  

                                Ég veit að þú varst pirraður þegar þú fórst, og að þú ert ekki í jafnvægi. 

Þú þarft ekki að vera leiður yfir því. 

‘Eg vona að þú standir þig í meðferðinni.  Þú ert ekki að gera þetta fyrir mig eða neinn annan, þú ert fyrst og fremst að gera það fyrir sjálfan þig.  Og síðan litla son þinn sem þarfnast pabba síns svo mikið.  Þú ert sá maður sem getur bjargað honum til betra lífs.  Það er afskaplega erfitt fyrir mig að gera það sem gera þarf.  Ég get bara reynt að vera til staðar fyrir hann.  Ef þér tekst að komast í gegn um meðferð og komast í samfélag manna, geta unnið og verið sjálfstæður, þá er hægðarleikur fyrir þig að sjá fyrir honum.  

Hann hágrét á leiðinni heim eftir að þú fórst.   Honum þykir mjög vænt um þig.  Hins vegar getur þú ekki haldið góðu sambandi við hann og verið honum sú stytta sem hann þarf, nema að þú takir þig á og haldir þig við meðferð og að komast frá deyfilyfjum og slíku.  Hann fer að komast á skólaaldur og þá kemur öðruvísi afstaða gagnvart foreldrum, þau heyra ýmislegt í skólanum sem fjölskyldan getur ekki varið barnið fyrir og þá koma upp allskonar erfiðleikar, sem erfitt er að eiga við. 

Þess vegna er svo mikilvægt að vera í lagi fyrir barnið sitt þegar þar að kemur.  Mér er sagt að afreitruninn sé það versta svo kemur eftirmeðferð, þar sem uppbygginginn byrjar og þá fer fólki að líða mikið betur. 

Þú hefur aldrei komist svo langt í meðferðinni að upplifa að vera að öllu leyti laus við eitrið.  Núna ætla ég að vona að svo verði.  Það var í upphafi tilgangur minn með sviptingunni.  Að geta séð til þess að þú værir allann tímann.  Og að þú yrðir byggður upp og þér hjálpað til að takast á við lífið aftur. 

Menn sem hafa sukkað svona lengi, eru löngu komnir út úr því sem samfélagið ætlast til af þeim.  Og þess vegna þarf að kenna þeim að lifa í því samfélagi sem mannleg samskipti bjóða upp á. 

                

                Ég talaði við Snjólaugu í gær.  Hún ætlar að hjálpa mér að reyna að fá fangelsismálastofnun til að fallast á að meðferðinn sé skilgreind sem afplánun. 

Ég ætla líka að fá sýslumanninn og Hallgrím í lið með mér.  Þau voru öll búinn að lofa því að hjálpa mér.  Lögreglan hérna líka.  Ég mun fara strax að vinna í þessu, svo það komist á hreint.  En þú verður líka að sýna að þú standir við þitt.  Það getur enginn hjálpað þér ef þú vinnur ekki með og stendur við þitt. 

Ef allt gengur vel, þá munt þú ekki þurfa að fara í fangelsi, en það er komið undir þér sjálfum.  Þú verður að sýna að þú vinnir raunverulega með þeim sem eru að hjálpa þér.  Það er nefnilega satt sem Hallgrímur sagði, að þú hefur allt of lengi verið of verndaður, og ekki þurft að takast á við nema hluta af  lifnaði þínum.  Þú hefur alltaf átt skjól og getað fengið pening og aðstoð.  Ef þú klikkar núna, þá er ég ansi hrædd um að það skjól og aðstoð verði ekki lengur til staðar.  Þá verður þú algjörlega á eigin ábyrgð.  Þetta eru hörð orð Júlli minn, en þú skalt samt taka þau alvarlega. 

Þér er engin greiði gerður með því að ganga endalaust undir þér ef þú sýnir ekki sjálfur framtak til að hjálpa þér.  Þá er ekki hægt að hjálpa þér, þú verður að gera það sjálfur. 

 Ef hinsvegar þú stendur við þitt, þá standa þér allar dyr opnar.   Ég segi fyrir mig að ég get ekki tekist á við þetta aftur, að þú strjúkir og farir á götuna og leggist í innbrot og vergang.  Þá mun ég afskrifa þig endanlega.  Ég verð að hugsa um mitt líf og fjölskylduna.  Það eru takmörk fyrir því hvað fólk er tilbúið að leggja á sig meira að segja fyrir barnið sitt.  Mér þykir auðvitað mjög vænt um þig, og hef reynt allt sem ég hef getað til að reyna að hjálpa þér.  Það getur vel verið að þér hafi ekki fundist það mikið eða merkilegt.  En ég hef allavega gert allt sem ég hafði vit til að gera og hélt að myndi hjálpa þér. 

Ef þú metur það ekki meira en svo að þú klúðrir þessu tækifæri, þá get ég ekki séð að ég geti gert meira.  Og það sem verra er að það munu lokast allar dyr hjá fjölskyldunni.  Þá verður þú algjörlega einn á báti.  Svo þú sérð að í þetta skipti hefur þú allt að vinna eða öllu að tapa.  Ég mun biðja fyrir þér og gera allt til að hjálpa þér á meðan þú heldur þig á braut meðferðarinnar, og sýnir fram á að þú viljir láta hjálpa þér.Með bestu óskum um góðan bata elsku barnið mitt.  

                                                                Mamma.

(Eins og áður hefur komið fram var hann svo tekinn úr meðferðinni og settur tinn í fangelsi.  Svo það reyndi aldrei á að hann stæði sig í það skiptið). 

 

 

                                                                                                  Ísafirði 15. janúar 2003. 

 

Hæ elskan.

 

                Þakka þér fyrir síðast.  Ég vona að þér líði vel, eða eins vel og hægt er miðað við aðstæður. 

‘Ulfur litli var alveg ákveðinn í gær, hann vildi sofa heima hjá ömmu og afa.  Það var ekkert mál.  Hann var mjög góður á leiðinni heim, svaf heilmikið, og spjallaði svo á milli. 

Við vöknuðum hress í morgun og ég fór með hann á leikskólann. 

Hann bað ömmu að sitja hjá sér smástund.  Það er kominn tölva á leikskólann, og hann er mjög spenntur að komast í hana. 

Hann er fljótur að læra á svoleiðis græjur. 

Það er kominn snjór ekki mikill en samt svona til að hylja jörð.  Það á að rigna aftur eftir helgina. 

Pabbi þinn hafði mestar áhyggjur af veðrinu þegar við fórum heim, því það var sagt í fréttum að það væri éljagangur á Vestfjörðum, en það kom ekki eitt einasta snjókorn á leiðinni.  Enda eins gott, við vorum með fullan bíl af dóti.  Bæði inni og á pallinum. 

Ég er kominn með vottorðin, ég ætla að fara með þau á Skóla- og fjölskylduskrifstofuna á morgunn.  Héðan er sem sagt allt gott að frétta, og okkur líður vel. 

Við pabbi erum stolt af því hvað þér gengur vel, og vonum að þú sért ákveðinn í að halda því striki, því ef þú tekur eitthvað í þig, þá er alveg öruggt að þú getur gert það sem þú vilt. 

Þú hættir þá ekki fyrr en þú hefur náð því marki.  Þú hefur alltaf verið svona, en það er bara svo sjaldan sem þú vilt eitthvað, og oftast hefur það verið rangir hlutir sem þú vilt. 

En núna loksins ertu kominn á góða braut, og ég vil endilega að þú fáir  tækifæri til að halda því til streitu og ljúka þeirri vinnu af. 

Vertu bless í bili ljósið mitt kveðja mamma.

(það var svo ekki tekið neitt mark á vottorðum hjá Fangelsismálasfonun.  Þau eru bara fyrir aðra).

 
 
 Elsku Júlli  minn. Mér skilst á pabba þínum, að þú hafir orðið reiður og ekki viljað tala við hann í gær.  Þegar hann reyndi að tala við þig.  Ég vil að þú vitir að við elskum þig bæði mjög mikið.  Pabbi þinn líka.  Við elskum drenginn okkar.  En það er fíknin og sá maður sem blasir við þegar þú ert í neyslu, sem erfitt er að þola.  Pabbi þinn reyndar með styttri kveikjuþráð þar en ég.   Þú verður líka að skilja, að þegar þú ert í neyslu, þá er ekki auðvelt að hafa þig inn á heimilinu.  Núna síðast tók út yfir allt.  Því þú varst snuðrandi í hverju skúmaskoti, og tókst það sem þú vildir.  Það var erfitt.  Mest sé ég eftir Rafhjartanu sem Ingi Þór gaf még í afmælisgjöf.  Ég vona að þú hafir ekki fargað því, og getir skilað því aftur til mín.Samt eru munir og peningar bara dót.  Og mestu skiptir ef þú nærð heilsunni aftur, og kemst á þann stað að geta lifað með okkur í fjölskyldunni.  Það yrði okkar besta gjöf.   Við viljum styðja við bakið á þér, og hjálpa þér eins og við getum.  En við ætlum ekki að vera meðvirk, og láta þig, og fíkn þína stjórna lífi okkar lengur.  Hún er búin að gera það alltof lengi.  Ég vona að þú skiljir það.  Við höfnum þér alls ekki, þvert á móti, viljum við allt gera til að hjálpa þér.  En ekki að snúa lífinu á hvolf.   Þetta er samt ekki eingöngu okkar ákvörðun.  Heldur segja þau á Félagsmálastofnuninni, að drengurinn okkar allra, þurfi frið til að aðlagast okkur og heimilinu.  Þau segja að þó þú sért kominn úr meðferð, fullur af vonum um að vera hættur, þá sé það ekkert garantí, og enginn geti með sanni fullyrt að þú fallir ekki aftur.   Úlfur litli er í stór hættu, vegna þess að það er alltaf verið að tæta hann sundur.  Foreldrar hans að falla, hætta í meðferð og slíkt.  Þú munt auðvitað alltaf vera velkominn inn á heimilið og getur borðað með okkur, og slíkt.  En þú verður að undirbúa þig undir að búa annarsstaðar.  Þú hefur líka gott að þeim þroska sem kemur með því að læra að vera sjálfstæður og búa einn.  Við pabbi þinn munum útbúa heimili fyrir þig.  Annað hvort fá íbúð hjá bænum, eða bjarga því á einhvern hátt annann.  Það getur verið spennandi líka, að vera í sínu eigin heimili.    Elsku Júlli minn, við erum bæði skíthrædd um að meðferðin sem þú fórst í, sé ekki til að ná þér raunverulega upp, heldur meira svona til að friða okkur.  Ég vona að það sé ekki reyndin. Og svo sannarlega vona ég að þú náir þér á strik.  En nú er komið að þér að sanna það fyrir okkur öllum.  Ég vona líka að þú sért viðbúin því, þegar þú kemur heim, að þurfa að standa á eigin fótum.  Með aðstoð okkar auðvitað.  En mest þarftu að standa á þínum eigin fótum.  Það er líka það eina raunhæfa leiðin þín til bata.  Þú ert í eðli þínu sjálfstæður, og hefur alltaf viljað fara þínar leiðir þess vegna hlýtur að vera erfitt að vera alltaf upp á aðra kominn.  Nú þegar þú hefur náð þér á strik aftur, tekur við tímabil þar sem þú lærir að standa á eigin fótum.   Ég er búin að vera að ganga til sálfræðings, aðstæður mínar, hafa verið þannig að ég get ekki tekið mikið meiri áföllum í lífinu, án þess að veikjast.  Þetta er komið nóg.  Þar kemur margt til Júlli minn, ég er ekki að kenna þér um neitt í því sambandi. 

Það breytir samt ekki því að ég og  pabbi þinn elskum þig , og við munum standa við hlið þér, þú verður alltaf barnið okkar, hvað sem tautar og raular.  En það er kominn tími til að ýta unganum út úr hreiðrinu.  Og það er nákvæmlega það sem við erum að gera.  Ýta þér út úr hreiðrinu, til að þú getir tekið flugið sjálfur, einn og áháður, þegar sá tími kemur.

 (Hér byrjaði hans raunverulega uppbygging upp á nýtt og besta tímabilið í lífi hans.  Hann var á Hlaðgerðarkoti í nokkrar vikur, og fékk síðan vinnu í eldhúsinu þar að kokka.  En hann var alltaf  góður kokkur.  Elsku drengurinn minn. og eftir þetta fæddist honum seinni sonurinn yndislegi Sigurjón Dagur.)    Við foreldrar megum aldrei gefast upp.  En við megum heldur ekki láta fíkilinn eyðileggja líf okkar og heilsu.  Það er þarna mjó lína sem þarf að feta.  Sú mjóa lína skilur að kærleikan annars vegar og örvæntinguna hins vegar.   Þessi pistill var skrifaður um þetta leyti, því miður vantar ártalið en það eru svona fimm ár síðan.  

Göngum til góðs – fyrir alla.

 

Fíkniefnaheimurinn er dimmur dalur, og alltof fáir gera sér grein fyrir hversu illur. 

Þar finnst mér ekki hafa verið lagðar réttar áherslur. 

Það er alltaf verið að eltast við þá sem eru neðst í þrepinu, og þeir meðhöndlaðir sem glæpamenn, þegar þeir eru í raun fórnarlömb.  Oft hjálparvana og sjúkir. 

Það er augljóst að það eru þeir sem brjótast inn og stela lyfjum og eignum annara til að fjármagna neyslu.  Á meðan menn hugsa þessi mál ekki í samhengi þá munum við aldrei getað náð tökum á vandanum. 

Það þarf að einhenda sér í að ná þeim sem stjórna þessu spili. 

Ná til þeirra sem eru efst í skalanum.  Alla vega ef menn vilja ná árangri. ‘

I mörgum löndum eru lögreglumenn hættir að elta ólar við smákóð sem eru með 0,eitthvað grömm í vasanum, rétta yfir þeim og stinga þeim inn, og yfirfylla fangelsin, það veldur bara meiri kvöl og fleiri innbrotum. 

 Þessir menn þurfa hjálp og meðferð en ekki fangelsi.  Sem betur fer er skilningur að aukast á þessu, og yfirvöld aðeins farinn að hugsa málin upp á nýtt. 

 

              Orka lögreglunnar á að fara í að finna þá sem fjármagna og stjórna innflutningi á eitrinu.

Eftir því sem tíminn líður verður erfiðara að eiga við vandamálin. En þarf það að vera svo? Þurfum við að búa við þetta í svona miklum mæli í okkar litla landi.

‘Eg hef sagt það áður og segi það enn, neytendur götunnar eiga ekkert erindi í fangelsi, þeir eiga að dæmast inn á stofnanir sem aðstoða þá við að komast út úr vítahringnum.

Þar þyrftu að vera geðlæknar, félagsfræðingar og hjúkrunarfólk sem þekkir til vandans.  Auk þess þarf að hlú að þeim meðferðarheimilum sem þegar eru starfandi. 

 Hversvegna er svo lítið hugað að þessu. 

Kring um hvern fíkniefnaneytanda er stór hópur fólks;  foreldrar, systkini, afar, ömmur og aðrir nákomnir, sem þjást og geta voða lítið gert. 

Það er líka erfitt að fá nein svör um hvað hægt sé að gera og hvert á að leita.  Það er enginn opinber aðili sem maður getur snúið sér til. 

Hver vísar á annann. 

Þetta hef ég sjálf upplifað. 

Maður hrópar út í tómið og fær loðin eða enginn svör. 

Á endanum verður maður svo brotinn og þreklaus að það má líkja við druknandi mann.  

Hafa menn gert sér grein fyrir hver dýrt þetta er,  allir peningarnir sem fara í lögreglurannróknir, eignatjón, jafnvel limlestingar og dráp. 

Ekki mun þetta batna ef ekkert er að gert. 

Það er líka hræðilega dýrt þegar menn sjá enga leið út úr ógöngunum aðra en að taka sitt eigið líf. 

Við verðum að skilgreina hvað eru glæpamenn og hvað eru fórnarlömb, og vinna okkur út úr vandanum samkvæmt því. 

 

             Hluti af vandamálinu er að foreldrar veigra sér við að segja til barnsins síns, vegna þess að þau vita að það varðar fangelsi og þungum sektum. 

Ef þetta ber á góma á heimilinu,  þá kemur unglingurinn oft inn sektarkennd hjá foreldrinu.  

Ef þú segir til mín, þá lendi ég í þessu og þessu. 

Svo einfaldasta leiðinn er að þegja og borga. 

Ef menn hættu að eltast við þetta neðsta þrep stigans, sem gerir ekkert,  nema auka eftirspurnina og auka markaðinn fyrir salana, þá væri þessu kaleikur tekinn frá fólki, og orka löggjafans færi í að eltast við hina raunverulegu glæpamenn.  

‘Eg er reyndar komin á þá skoðun að það sé rétt að leyfa notkun á vægari efnum eins og hassi. 

Þá myndi hrynja ansi mikið utan af glæpamönnunum.  Það er eins með fíkniefni og vín og sigarettur, það er ákveðinn hópur sem ánetjast og aðrir ekki. 

Það geta hvort sem er allir nálgast efnin, en með því að banna þau, er skapaður kjörinn gróðavegur fyrir óprúttna aðila að nota sér neyð annarra.  

Svo er önnur vá sem er líka til staðar, en það er svokallað læknadóp,  sem í síauknum mæli er í umferð, og  fólk er farið að nota meira vegna þess að það er ekki á bannlista lögreglunnar, en er ávísað af læknum og öðrum sem hafa aðstöðu til að komast yfir þau og selja öðrum. 

 

             Mér lýst vel á að fólk sé að stofna samtök gegn handrukkurum, en það er bara hluti af vandamálinu, og við þurfum að taka á málinu í heild sinni og stofna þrýstihóp sem getur unnið að því að veita yfirvöldum aðhald og hvetja til að þessi mál séu tekinn föstum tökum.  

              Með kveðju   Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

 

Mín kæru, ég er reyndar alveg búin eftir þessar yfirlýsingar.  Ég vona að ég sé að gera rétt með þessu.  En það er ekki hægt að þola þetta ástand öllu lengur.  Og hver og einn einasti sem fer er of dýrmætur.  Ég veit að það er víða pottur brotinn, og margir sem eiga við hugsunarleysi og sárt að binda.  En ofan á þá neyð bætist hjá þessum hópi fyrirlitning, skeytingaleysi og hrein mannvonska oft á tíðum sem er algjörlega óþolandi. 

Ég þekki þó nokkra sem hafa lent í þessum kóngulóarvef.  Þau eru öll ljúflingar.  Þau eiga flest samt eitt sameiginlegt, þau hafa þurft að horfast í augu við höfnun og fyrirlitningu.  Þau bera þess merki.  Þess vegna hafa þau skapað sér sinn eigin heim, þar sem þau reyna að standa saman.  Þetta verður svo til þess að þau fjarlægjast okkur hin.  Og þau skapa sér eigin reglur og viðmiðanir.  Þetta á ekki að þurfa að vera svona.  Þau þurfa að læra að lifa í okkar veröld og vera hluti af samfélaginu.  Hér þarf að rannsaka á hvern hátt er hægt að breyta þessu. 

Drengurinn minn þurfti svo sannarlega að ganga þrautargönguna alveg niður í svaðið.  En honum tókst líka að vinna sig til baka.  Hann vildi ekki flýja af hólmi heldur tókst á við líf sitt í heimabyggð, og vann úr því sem misfarist hafði.  Hann nýtti það sem eftir var af hans allof stutta lífi til að vera til staðar fyrir aðra sem áttu bágt.  Ég er alltaf að heyra frá fleiri sem bera honum fallega sögu.  Og margir sem hafa fengið lítinn fisk í lófa til gæfu og hughreystingar.  Eða boð um aðstoð eða bara vænt um þykju sem hann var svo ríkur af þrátt fyrir allt. 

Þessi öðruvísi börn okkar eru erfið oft á tíðum.  En þau geta líka gefið okkur frið og hamingju, kennt okkur að meta lífið öðruvísi.  Því má ekki gleyma. 

Eitt sem samt alveg víst, við sjálf getum gert heilmikið með því að vera til fyrir þau og elska þau og það sem mest er um vert láta þau vita af því að við elskum þau.   Kærleikurinn getur yfirunnið allt.  Heart

Júlli og Úlfur.

c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_cesil_img_3810_293710

Megi allir góðir vættir vaka með okkur öllum og vernda.  ég veit að elskulegi sonur minn hefur nú verið kallaður til starfa á öðrum vettvangi til að hjálpa þeim sem á eftir honum koma.   Það var alltaf hans fyrsta hugsun að vernda þá sem hann taldi að myndu reyna að feta þá braut sem hann fór.  Engum vildi hann að upplifa það. 

Og engu foreldri vil ég svo illt að þurfa að ganga þessa braut, hún er erfið og skilur eftir sig ör í sálinni.  Ekki vegna barnanna sjálfra, heldur vegna ástandsins, skilningsleysisins og hörkunnar hjá þeim sem ráða þessum málum og þess dimma og ömurlega undirheims sem hefur þrifist í skjóli okkar velferðarþjóðfélags.  Það þarf átak til að koma því til skila að þetta bara gengur ekki lengur árið 2009. 

En ég ætla að týna brotin saman af sjálfri mér og fara í göngutúr.  Eigið góðan dag mín kæru. Heart              


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Bergur Guðjónsson

Sæl Ásthildur mín.

Langaði til að votta þér minnar dýpstu samúðar.
Megi Guð vernda ykkur fjölskylduna alltaf.

Vinar og kærleikskveðja
Arnar Bergur Guðjónsson

Arnar Bergur Guðjónsson, 16.10.2009 kl. 13:18

2 Smámynd: .

Ég sit hér orðlaus eftir lestur, tárin leka og um leið dáist ég að þér, duglega kona.  Sá á myndum hjá þér að hann hefur verið líkur þér í sjón.  Mér finnst myndin hér að ofan táknræn hjá þér .... það er birta í henni sem lýsir þér við sporin þín á næstunni.  Og eins og þú sagðir Júlla þínum svo réttilega... það er bara ein leið af botninum ... upp.  Knús til þín, vestfirska duglega kona.

., 16.10.2009 kl. 13:23

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 16.10.2009 kl. 14:02

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Samúðarkveðjur til þín, sem gerðir allt sem í mannlegu valdi stóð til þess að bjarga syni þínum úr eiturlyfjum.  Mikið er hugrekki þitt að deila þessum erfiðu tímum.

Kærleikskveðja og ljós.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 16.10.2009 kl. 14:38

5 identicon

Þessi lesning fær fólk til að hugsa.  Það eru um 2000 manns sem kíkja á síðuna þína á hverjum einasta degi.  Eftir þessa lesningu fær maður að kíkja inní þennan heim sem er mörgum lokaður.  Veistu, að þú ert að fræða, hjálpa og opna augu fólks með þessum skrifum.  Er það ekki nákvæmlega það sem þú ætlaðir þér að gera?  Ekki gleyma að hugsa um sjálfan þig.  Fáðu þér gott að borða í kvöld.....þú átt það skilið.

Berglind (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 15:06

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Kem við daglega hjá þér elskan mín

Ásdís Sigurðardóttir, 16.10.2009 kl. 16:43

7 Smámynd: ThoR-E

Þetta á án efa eftir að hjálpa öðrum foreldrum. Tel að þú sért að gera rétt með þessu. :)

Því sumir foreldrar sem sonur þeirra eða dóttir lendir í fíkniefnum, vita jafnvel ekkert hvað þau eiga að gera.

Kær kveðja

ThoR-E, 16.10.2009 kl. 17:06

8 identicon

Dísa (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 18:47

9 identicon

Þessi bréf sem þú sýnir hérna á blogginu verða vonandi til þess að augun fari að opnast hjá þeim sem eru í aðstöðunni til að breyta.

Þakka guði fyrir að hafa kynnst þér elsku Cesil mín, þú hefur hjálpað mér mikið í gegn um árin.

Knús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 18:50

10 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mín kæra. Mig tekur í hjartað að lesa þetta

Hrönn Sigurðardóttir, 16.10.2009 kl. 19:00

11 Smámynd:

, 16.10.2009 kl. 20:38

12 Smámynd: Valdís Skúladóttir

Votta þér og fjölskyld  þinni.

Mínar innilegustu samúð vegna ykkar ástkæra Júlla

        Kærleikskveðjur.Vallý

Valdís Skúladóttir, 16.10.2009 kl. 20:53

13 identicon

Það er enginn vonlaus svo mikið veit ég.Á meðan það er líf er von.Í minni vinnu á dagsetrinu sé ég fólk sem samfélagið og fræðingar DÆMDU VONLAUS ,RÍSA UPP og verða heilbrigð.Ekki margir en ALLIR EIGA VON.Takk fyrir hlý orð á mínu bloggi .Guð styrki þig og þína .

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 20:58

14 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 16.10.2009 kl. 21:21

15 Smámynd: IGG

IGG , 17.10.2009 kl. 00:09

16 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ér samála Birnu Dís, það er enginn vonlaus.  Það hef ég séð í starfi mínu sem afgreiðslukona á bar við Laugaveginn undanfarin 12 ár.  Fólk sem ég hélt að væri á síðasta snúningi, hefur snúið algjörlega við blaðinu og hætt allri neyslu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.10.2009 kl. 00:30

17 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Þetta eru falleg bréf sem þú sendir syni þínum, sönn, heiðarleg og skrifuð af móðurást.  Hann hefur ekki getað átt betri að en ykkur foreldrana, það les maður út úr skrifum þínum og sér.  Sorglegt að ekki skyldi fara betur. Blessuð sé minning hans og gangi ykkur vel að vinna úr sorginni og söknuðinum

Katrín Linda Óskarsdóttir, 17.10.2009 kl. 01:46

18 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku Ásthildur mín, eftir þennan lestur græt ég bara, en haltu bara áfram eins lengi og þú treystir þér, það er nauðsynlegt að vekja allt samfélagið til umhugsunar um hvað get ég gert, við getum nefnilega helling.

Myndin sem þú setur inn er stórkostleg og ég veit að guð vakir yfir okkur öllum, við verðum bara að biðja til hans, ekkert kemur að sjálfu sér.

Sendi þér ljós elsku vinkona
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.10.2009 kl. 09:47

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir hlý orð og huggun.

Ég viðurkenni að ég gekk dálítið nærri sjálfri mér í gær með þessum bréfum.  þau er svo sár og rífa upp.  En mér finnst að það þurfi að skera í kýlin sem hafa bólgnað og stækkað þessi yfir 20 ár sem ég hef þurft að berjast fyrir syni mínum.  Og svo sannarlega finnst mér lítið hafa gerst í því að taka á þeim málum og skoða stefnu stjórnvalda í þessum hrikalega stóra máli.  Ég er líka steinhissa á áhugaleysi og hroka yfirvalda gagnvart þessum hópi og aðstandendum þeirra.  Það virðist vera að stjórnvöldum finnist það bara allt í lagi að fleiri manns annað hvort taki sitt eigið líf eða deyji ótímabærum dauða af of stórum skömmtum eða bara af því að líkamin gefur sig.  Það finnst mér svo sannarlega einkennilegur hugsunarháttur, fólk sem fer í kirkju í upphafi hverrar þingsetningar, til að undirstrika kristilegt hugarfar sitt.  Í  mínum eyrum hljómar það falskt.  Það heitir á mínu máli að setja eitt og gera annað.  Sagði ekki Jesú Það sem þér gjörið mínum minnsta bróður það gjörið þér mér.   Eða eitthvað álíka?

Aftur innilega takk

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2009 kl. 10:42

20 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Ég get bara sagt "Tú ert hetja"

Tú ert mín hetja kæra Ásthildur.Ég kem vid  hjá tér á hverjum degi les greinarnar tínar og staldra adeins lengur vid.

Svona lestur er tingri en tárum taki  elsku vina,tú er bara ad opna augun mín fyrir svo mörgu .Já fyrir tví ad almenningur vill heyra sögur okkar.Tad er kraftaverk í mínum augum.

Eittt stórt fadmlag til tín fyrir fórnfísina sem er tung tad veit ég.

Kvedja

Gudrún.

Gudrún Hauksdótttir, 17.10.2009 kl. 15:56

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Guðrún mín.  Já þau rífa sárin.  En ef þau geta bjargað einhverjum öðrum frá örlögum sonar míns og mín, þá er það þess virði að rífa í og takast á.  Því hér þarf virkilega að takast á. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.10.2009 kl. 16:27

22 identicon

Hæ elsku Ásthildur mín.... vá... sjaldan eða aldrei hef ég lesið neitt jafn átakanlegt og þessi ótrúlegu skrif þín síðustu daga. Það er ótrúlegt að sitja hér og lesa eitthvað sem maður upplifir sjálfur en getur engan vegin komið orðum að. Það er svo satt hjá þér að fólk sem ekki hefur þurft að ganga þennan ömurlega veg getur ekki sett sig í spor okkar sem þess þurfum.... ég er líka viss um að viðhorf margra um málefni fíkla eru oft sögð af þekkingarleysi frekar en illsku. Því skiptir svo miklu að við tjáum okkur og tölum um þessi mál opinberlega. Þú ert mjög hugrökk kona Ásthildur mín, að lofa okkur að lesa allt sem þú hefur sett hér inn er einstakt, takk fyrir það. Fyrir mig er reglulega læknandi að lesa þetta, nú veit ég að ég er að gera rétt, þó oft sé það vissulega erfiðara en tárum tekur. Að þurfa að taka þær ömurlegu ákvarðanir sem við þurfum oft að taka, á engin að ganga í gegnum. Ég hef reynt að aðgreina barnið mitt, sem ég elska meir en allt, frá fíklinum, það er eina leiðin til að komast í gegnum þetta ferli. Ég hugga mig við að margar þær ákvarðanir sem ég hef þurft að taka hjálpa henni vonandi á endanum.. það sefar sorgina í hjartanu. Að eiga barn í neyslu er gífurlegt sorgarferli, að þurfa svo að horfa upp á hver staða þessara einstaklinga í þessu velferðarþjóðfélagi er eikur sorgina enn frekar, eins og það sé ekki komið nóg...

Elsku hjartans Ásthildur mín, takk fyrir að vera málsvari þessara einstaklinga, takk fyrir að halda á lofti umræðunni og láta þér annt um þau öll, takk fyrir fallegu kveðjurnar til skottunar minnar, hún hefur fengið þær og þykir MJÖG vænt um þær.

Ég seigi það enn og aftur.... ÞÚ ERT EINSTÖK !!!

Knús á þig elskan og alla hina í KÆRLEIKSKÚLU 

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 18:26

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Elísabet mín.  Þú ert svo sannarlega það besta sem Viktoría á.  Svo dugleg fyrir hana, og þarft sjálf að berjast við sjúkdóma.  Knús á þig elskuleg mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.10.2009 kl. 10:25

24 identicon

Sæl kæra Ásthildur. Takk fyrir þessi bréf sem þú deilir með okkur. Það er örugglega ömurlegt að upplifa þau og skrá þau hér, rifja upp þessi erfiðu skref en hvert einasta bréf er fullt af ást og von syni þínum til handa. Von um betra líf þegar þessari eða hinni ferð hans er lokið. Það er svo ömurlegt að þurfa svo að horfa á eftir barninu sínu, það er eitthvað sem ekkert foreldri á að þurfa að upplifa.

Við Steini minn fylgjumst þakklát með syni okkar 28 ára, lausum úr sinni neyslu. Hann býr hér í nágrenni við okkur, er einstæður faðir með sex ára son sinn og stendur sig eins og hetja. Afi og amma hjálpa til með því að gæta drengsins þegar pabbi er að vinna og hann er ekki í skólanum. Nú er hann kominn með kærustu og allt gengur svo vel. Hann er meðvitaður um sína heilsu, sinnir íþróttum og sækir fundi. Ég á ekki orð til að lýsa því hversu þakklátur maður er. Í sumar hefur hann séð á eftir þrem félögum/vinum sem hann var með í neyslu. Það hefur tekið á hann og okkur hin að fylgja þeim-horfa upp á sorgina og óréttlætið að unga fólkið okkar skuli fara svona.

 Gangi ykkur vel Ásthildur mín að vinna ykkur út úr sorginni. Blessuð sé minningin um Júlla ykkar.

Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 11:26

25 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir elsku Dísa mín.  Og það er gott að vita af ykkur Steina einhversstaðar í hjartanu.  Þið eruð frábær.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.10.2009 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 2020843

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband