Forsetinn neitaði að staðfesta lögin.

Ég er afskaplega ánægð með forseta Íslands í dag.  Ég sendi honum mínar innilegustu þakkir fyrir að standa með þjóð sinni og lýðræðinu.

Ég sé að hér er mörgum heitt í hamsi, og allskonar dómsdagsspár hafa dunið á, reyndar hafa engar af þeim ræst undanfarið, hversu oft og heitt bæði stjórnvöld og þeirra nánustu stuðningsmenn hafa viljað vera láta.  Þá hefur ekkert slíkt gengið eftir.

Mér er illa við sleikjugang, og mér þykir afar leitt að sjá þegar ráðamenn leggjast á fjóra fætur fyrir erlendum ríkisstjórnum missa allt sjálfstraust og bjóða fram rumpinn til rassskellingar.  Ég er sennilega full af þjóðrembu, en ég skammast mín ekkert fyrir hana. 

Ég hef líka rætt mál við margar erlenda vini mína og aðra sem búa í Evrópu, og hef heyrt hvernig þeir aðilar skilja okkar aðstæður og finnst bæði bretar og hollendingar fara offari gegn okkur.  Enda er ég viss um að breska ljónið er bara að öskra hátt, og það stendur ekkert meira þar á bak við, því þeir þora hreinlega ekki að valta yfir smáþjóð, herlausa og varnarlausa.  En það er vegna alþjóðasamfélagsins, sem mun fordæma hverja tilraun til að fara gegn okkur með ofbeldi.  Þess vegna hóta þeir okkur með ESB, því þeir vita sem er að heitasti draumur Samfylkingarinnar er einmitt innganga inn í ESB, og allur málatilbúnaður stjórnvalda með það fyrir augum að skemma ekki fyrir því að þeir komist þar inn.  Málið er hins vegar þannig, og það átta bretar sig ekki á; að 70% íslensku þjóðarinnar er andvíg ESBaðild, þannig að sú hótun hefur ekki þann þunga sem þeir halda.

Ég hef engar áhyggjur af framtíð landsins, jafnvel þó einhverjir fari í fýlu og neiti að greiða veg Íslands.  Við eigum nefnilega marga möguleika aðra en að skríða í fangið á ESB.  Við höfum verið þjóð í yfir 1000 ár, og höfum okkar auðlindir. 

Komi í ljós að norrænu þjóðirnar ætli ekki að standa með okkur þá er gott að fá að vita það hreint og klárt að þeir eru ekki vinaþjóðir og frændþjóðir, heldur dindlar Evrópusambandsins.  Það er þá komin tími fyrir Ísland að leita að vinum annarsstaðar, Canada kemur þar fyrst í hugan, Grænland og Færeyjar, Pólland og eflaust margir fleiri. 

En fyrst og fremst þurfum við að standa saman sem þjóð og fara aða vinna okkur úr út vandanum með þeim meðölum sem við höfum hér heima.  Hlusta á þá sem hafa fram að færa góð ráð til að auka hér tækifæri, opna fyrir meiri aðgang að fiskimiðunum til landsbyggðarinnar.  Og í stað þess að auka álögur og hækka skatta á lítil og meðalstór fyrirtæki, þá þarf að lækka álögur og laða fólk til að hefjast handa við framleiðslu og hugvit.  Ekki persónugera vandann og leggja sitt eigið pólitíska líf að veði eins og stjórnvöld gerðu hér.

Þrátt fyrir frekjulegan grát tvíeykisins um að þau hafi verið að gera svo mikið, sem ég efast ekki um að þau hafi verið að, þá einfaldlega hefur það ekki náð til þjóðarinnar, fólkið í landinu hefur ekki fundið neina aðstoð eða skjaldborg.  Fyrirtæki sem enn lifa berjast í bökkum og horfa fram á ennþá meiri skuldsetningu á nýju ári.  Samdráttur gjaldþrot og hækkun á virðisaukaskatti hafa ekki laðað fólk að til að styðja við þessa svokölluðu velferðarstjórn.  Þau settu allt sitt púður í að ganga frá Icesave.  Ég tel að það mál hafi mátt bíða, uns þau höfðu skoðað mál heimila og fyrirtækja. 

Vegna þess að einmitt áhersla þeirra og áhyggjur virtust fyrst og fremst vera með erlendum aðilum, en ekki íslenskum almenningi.  Þess vegna stóð íslenskur almenningur ekki með stjórnvöldum, sem þó voru þau skástu í stöðunni þegar þau tóku við.

Af hverju var ekki byrjað á réttum enda og skjaldborgin reist?  Nú sitjum við uppi með það að geta ekki gert neitt nema krefjast þess að mynduð verði utanflokka stjórn, ráðnir sérfræðingar til að vinna málin, og pólitíkusarnir sendir heim.

Því miður er það svo þegar allt er skoðað, að þeir hafa allir pólitíkusar misst tiltrúnað fólksins í landinu, sumir meira en aðrir.  En þegar fólk er hætt að treysta öllum forkólfum stjórnmálaflokkana, og ég er þá helst að tala um fjórflokkinn, þá verður að gera eitthvað annað til að tryggja lýðræðið.

Forsetinn okkar lagði sitt af mörkum í morgun.  Nú er það okkar að taka höndum saman um að krefjast framhalds á því og klára dæmið.  Ráða óvilhalt fólk til að stjórna landinu gegnum kreppuna og Icesave og ESB, sem ég vildi helst afturkalla umsókn til.  Senda pólitíkusana heim til að fara yfir sína stöðu og hreinsa spillinguna, klíkuskapinn og valdabröltið burt.  Áður en hægt er að hafa almennar kosningar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér er slétt sama hvort einhverjar "vinaþjóðir" standi með okkur eða ekki. Ég myndi hins vegar telja mikils virði að fá ríkisstjórn sem stendur með þjóðinni.

Sigurður Þórðarson, 5.1.2010 kl. 14:42

2 Smámynd: Kidda

Nú fyrst fer kannski að birta til en vonandi er það eki bara óskhyggjan ein.

Alveg samm´la þessum pistli þínum eins og yfir leitt alltaf að mig minnir

Knús í kærleikskúlu

Kidda, 5.1.2010 kl. 15:22

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já nákvæmlega.  Síðan og ekki síst er fólk reitt stjórnvöldum fyrir að hafa gert nákvæmlega ekki neitt til að frysta eigur útrásarvíkinga. Þeir eru ennþá að leika sér með peningana OKKAR.  Ennþá sitja menn í bönkunum og eyða skjölum um lán og skuldir ríka fólksins meðan þess er krafist að íslenskur almenningur greiði allt sitt 110% að minnsta kosti.  Ekkert hefur verið gert til að stöðva þetta óréttlæti, og meðan fleiri hundruð manns eru að vinna að skýrslum og bréfum vegna ESB, þá er afar takmarkaður mannskapur til að rannsaka hrunið og finna þjófana. 

Sem sagt við höfum ekki geta merkt þennan vilja stjórnvalda til að standa vörð um okkar heill.  Ekki getað fundið vilja þeirra til að byggja upp og skapa hér mannvænlegt líf.  Þess vegna eru börnin okkar og barnabörnin vinir og frændur að flýja af landinu. Og ég kann þeim litlar þakkir fyrir.

Þetta heitir sennilega að byrja á öfugum enda.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2010 kl. 15:23

4 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Já, þrátt fyrir að hótanir berist um að "alþjóðasamfélagið" muni minnka viðskiptin við okkur og lesa út úr þessu þau skilaboð að við viljum ekki standa í skilum með skuldir "okkar," þá held ég að við séum í betri stöðu nú, þökk sé forseta vorum. Ríkisstjórnin á að skýra betur okkar stöðu fyrir alþjóðasamfélaginu, að við viljum borga það sem okkur ber að borga en ekki bera ábyrgðina ein. Enda ekki þjóðin sem orsakaði þessar skuldir.  Við viljum fyrst og fremst vernda sjálfstæði okkar og auðlindir, og það verða aðrar þjóðir bara að skilja.

 Ég hef því tekið gleði mína á ný. Ég tel enda miklar líkur á að Íslendingar hafni þessu, því eins og sagði í viðtalinu á Rúv í dag, þá yrði erfitt fyrir okkur sem þjóð að ætla að fara að endursemja síðar meir ef þjóðin hefur samþykkt skilmálana eins og þeir eru í dag. Því er í reynd orðið mikilvægara en áður að við höfnum þessu núverandi frumvarpi.

Frábær og hvetjandi grein hjá þér Ásthildur, í öllu hræðsluáróðrinum sem dynur nú yfir. 

Bryndís Böðvarsdóttir, 5.1.2010 kl. 15:47

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Bryndís mín.  Já það er komin tími á að við stöndum saman sem þjóð, gegn því ofurvaldi sem erlendir aðilar vilja beita okkur.  Við erum nefnilega fráleitt vinalaus, það á eftir að koma í ljós. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2010 kl. 16:04

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þeir einu sem skýra málstað Íslendinga erlendis eru Indefence í sjálfboðavinnu og þeir fá ekki svo mikið sem smá þakklæti frá stjórnvöldum

Sigurður Þórðarson, 5.1.2010 kl. 17:06

7 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.1.2010 kl. 17:46

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einhvernveginn sér maður þau Jóhönnu og Steingrím með fýlu og hörku svip. Ætli þeim léti nú ekki betur að reyna að brosa gegnum tárin, segja Bless við ESB og taka þjóðina í sátt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2010 kl. 17:48

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Man einhver eftir viðbrögðum breta þegar Íslendingar stækkuðu landhelgina í fjórar mílur?

Þetta minnir mig svolítið á það.........Ég held, svei mér þá að Íslendingar hafi með þessu snúið stöðunni í örlitla sókn í stað endalausrar varnar!

Það er vel.

Hrönn Sigurðardóttir, 5.1.2010 kl. 20:40

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hrönn mín, mér líður vel í dag, finnst einhvernveginn eins og við höfum snúist til varnar, og það er góð tilfinning eftir skömmina sem hefur hrjáð mig undanfarið út af undirlægjuhætti nú um skeið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2010 kl. 00:01

11 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Ég tek heilshugar undir þessa grein sem og athugasemd eiginkonu minnar (Bryndís Böðvarsdóttir), vel gert Ásthildur, ég er sammála hverju orði.

Guðsteinn Haukur Barkarson, 6.1.2010 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 91
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband