Umburðarlyndi og kærleikur er allt sem þarf.

Það getur vel verið að þeir sem lesa það sem ég skrifa um elskulegan son minn haldi að ég sé í bullandi afneitun, eða hatursfull.
Það er bara einfaldlega ekki þannig.  Ég held að ég og sonur minn hofum gert ákveðið samkomulag, áður en hann fæddist, til að taka á ákveðnu vandamáli, sem reyndar var ekki mikið vandamál þá, en varð það síðar.  Það er að segja fíkniefnavandamál.

Þessi elskulegi sonur minn, held ég að hafi beinlínis fæðst til þess að vekja fólk til umhugsunar um vandamál sem voru um það bil að verða til um það leyti sem hann fæddist.

Ég man að stundum hvarflaði að mér að best væri að kyrkja afkvæmið mitt, af því að ég einhvernveginn skynjaði að það ætti eftir að vekja mér meiri sorg en ég gæti afborið.  En þar sem ég get ekki gert flugu mein, þá gerði ég ekkert slíkt enda elskaði ég þetta barn, eins og ég hef gert við öll börnin mín og barnabörn. 

Þetta er eitthvað sem við ákváðum í sameiningu, löngu áður en hann fæddist. 

Málið er að drengurinn minn fæddist inn í þetta líf til að skipta sköpum, þess vegna valdi hann manneskju sem hann vissi að myndi þora og berjast.

Fólk hefur undrast hvað ég hef getað opnað mig fyrir vandamálinu.  Og spurt hvernig hefurðu styrk til að tala svona.

Málið er að ég myndi aldrei hafa getað það, nema af því að þessum elskulega syni mínum tókst að ná sér upp úr þessu helvíti.  Honum tókst það þrátt fyrir hve djúpt hann var sokkinn og þegar öll sund virtust lokuð, tókst honum að vinna sig út úr myrkrinu.

Mér tókst að koma honum inn í Krýsuvík í langtíma meðferð, það kostaði mig í raun og veru sálaró mína, svo ég þurfti að fá róandi lyf, sem ég er ennþá á, og það var vegna þess að sumt af því fólki sem um þessi mál hafa að gera tók út á mér sinn persónulega frama, þegar þeir héldu að þeirra eiginn trúverðugleiki væri í hættu. 

En það var í fyrsta skipti sem sonur minn reis upp: mamma þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem ég upplifi að ég get verið edrú, horft á sólina koma upp, fundi ilminn af gróðri og bara  fundið tilfinningu fyrir öllu því góða sem er til.  'Eg var búin að gleyma þessu öllu í vímunni. 

Þegar hann kom svo út átti hann yndislegan tíma, stundaði AA fundi og fann þar ástina á ný.  Átti með henni yndislegan tíma ástar og friðsældar, fékk að fylgjast með hvernig yngri sonur hans óx í móðurkviði og fékk að vera viðstaddur fæðingu hans.  Hann elskað báða syni sína og ekki bara þá,heldur öll hin barnabörnin mín, tók þau með í fjöruferðir, veiðiferðir, fjallaferðir og öll þessi yndislegu barnabörn mín elskuðu hann.   

Hann vann sig út úr þessari eymd með sóma.  Og ég gleymi aldrei björtu augunum hans þegar hann tilkynnti mér; Mamma, í dag hef ég hreint sakarvottorð.  Þetta var honum svo mikils virði. 

Ekki bara það, hann náði að sættast við bæjarbúa, með sinni einlægni, og hann var alltaf boðin og búin til að hjálpa fólki, og það voru ófáir lófar sem hann laumaði steinfiski í, svona steinfiskum sem hann bjó til. 

En það var alltaf eins og sonur minn væri alltaf að flýta sér að lifa lífinu.  Það var alltaf eins og hann væri að keppa við tímann til að ná því sem hann vildi ná.

Brottför hans var skyndileg, og skyldi eftir hjá mér bæðí sorg, reiði og spurningu um af hverju?

Í dag veit ég að hans tími var einfaldlega komin, við ætlum okkur ákveðin tíma til að dvelja hér á þessari jörð, og þegar tíminn er kominn þá förum við.  Hans var vænst annarsstaðar, og ég hef fengið ótal kveður frá honum og hann hefur haft áhyggjur af mér þessi elska.  En ég veit að hann valdi einmitt þessa móður sem hefur þá trú og uppeldi að vita að lífið heldur áfram.  Og ég veit einnig að það sem ég er að gera með því að segja hans sögu í þeirri mestu niðurlægingu sem nokkur manneskja getur átt, er liður í að koma því á framfæri ,að þetta gengur ekki lengur. Og hann sá til þess að móðir hans fengið annan son til að annast, son hans barnabarnið minn.

Sonur minn, sem svo sannarlega var svo djúpt sokkinn að hann var algjörlega á botninum, vildi koma þeim skilaboðum á framfæri að það er allt hægt í þessum málum.  Það sem þarf er endalaus kærleikur og samstaða ættingja.  Við getum afneitað fíkninni, en við þurfum að elska fíkilinn, og við verðum að standa með honum gagnvart kerfinu og glæpamönnunum. 

Ég er alltaf að sjá það betur og betur, að þessi elskulegi sonur minn fórnaði sjálfum sér til að bjarga öðrum.  Honum tókst að hafa sig upp úr eymdinni, honum tókst að sættast við samfélagið á Ísafirði og þegar hann fór, þá voru margir sem sýndu honum sóma og heiðruðu hann bæði í jarðarförinni og erfidrykkjunni, til að mynda komu flestir lögreglumennirnir sem höfðu haft með hann að segja í jarðarförina honum til heiðurs. 

Eftir að hann dó kom svo í ljós að hann hafði svo sannarlega verið engill í mannsmynd við að hjálpa fólk sem minna mátti sín, og reyndar mörgum fleiri.  það voru ófáir lófar sem hann laumaði steinfiski í, fyrir utan alla þá sem hann sinnti af kærleika og umhyggju, kom mér á óvart, því aldrei talaði hann um það sjálfur, heldur vann sín kærleiksverk í kyrrþey.

Ég get stolt sagt að undir þetta munu taka flestir ísfirðingar. 

En einmitt þess vegna get ég talað um það sem þarf að tala um. Þá niðurlægingu sem fíklar eiga við að etja, og hvernig er komið fram við þá.

Þessu þarf að linna, og ég á þá ósk heitasta að lífshlaup sonar míns verði ekki til einskis, að sú raun sem við höfum gengið í gegnum geti orðið til þess að fólk aðeins hugsi sig um og  fari að sýna  þvi fólki umburðarlyndi sem hefur fallið af hinni breiðu braut.

Umburðarlyndi og kærleikur er allt sem þarf.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Ásthildur fyrir þessa frásögn og innsýn í aðstæður fíknarsjúklinga og aðstandenda þeirra.

Þú ert hugrökk kona og skynsöm með hjartað á réttum stað!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.4.2013 kl. 09:18

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Bjarni.  Það tekur á að skrifa svona, en mér finnst einhvernveginn að við verðum að vekja fólk til umhugsunar um þá sem eru staddir í þeim sporum sem sonur minn var í. Í hjarta sínu eru þau ennþá sömu börnin og þau voru, en lífið hefur verið mörgum erfitt, sérstaklega sú höfnun sem þau finna fyrir.  Sér í lagi hjá þeim sem ættu að hlífa þeim, eins og opinbert kerfi, samtryggingarkerfið okkar allra sem á að gæta þess að enginn falli niður um möskvana, að netið sé það þéttriðið að þar detti enginn niður.

Þau eiga sér fáa málsvara, og foreldrar sem standa í mínum sporum eru oft magnþrota og sjálf veik af áhyggjum og vita oft ekki hvert þau eiga að leita. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2013 kl. 14:08

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Elsku sterka, duglega, góða manneskja... ég sit hér með tárin í augunum eftir þennan lestur.........

Jónína Dúadóttir, 17.4.2013 kl. 14:22

4 Smámynd: Guðlaug Björk Baldursdóttir

Elsku Ásthildur, þetta er eins og talað út úr mínum munni, og held ég akkúrat að okkur veljist þessir englar okkur sterku konunum, sem berjast fyrir lífi þessara barna okkar sem verða fíkniefndjöflinum að bráð. Minn er reyndar bráðum edrú í næstum ár í fyrsta sinn frá 15 ára aldri og eru það lööööööng 15 ár síðan upphafið að þessari martröð hófst.....Takk fyrir þetta Ásthildur.

Guðlaug Björk Baldursdóttir, 17.4.2013 kl. 14:46

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jónína mín

Guðlaun mín, innilega til hamingju með þinn unga.  Það er stór stund þegar sigur næst.  Við verðum bara alltaf að vera á verði, því fíkniefnadjöfullinn bíður oftar en ekki við næsta horn. 

En ég gleðst svo sannarlega með öllum þeim sem ná tökum á sjálfum sér.  Við þurfum öll að taka okkur á og hlú að þeim sem eru þarna niðri, og fagna hverjum þeim sem kemst aftur upp. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2013 kl. 15:03

6 identicon

Ásthildur min, Þú ert frábær kona, og góð . Eg hef fylgst með þinni baráttu og það sem þú skrifar hér er mer mikið umhugsunarefni. Takk fyrir

Disa Guðmundsd (IP-tala skráð) 17.4.2013 kl. 23:37

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir mig Dísa mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.4.2013 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 2021019

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband