Vont veður og ég á enn eina Mexicoferðina upp í erminni.

Enn og aftur blæs og hvæs kuldaboli og frú fönn hristir kjólinn sinn hvíta svo snjórinn nær mér upp á læri þegar ég horfi út um dyrnar hjá mér.  Þess vegna ákvað ég að fara ekkert út fyrir hússins dyr í dag, var búin að gefa hænunum nógan mat og drykk í fyrradag svo þeim er ekkert vant sem betur fer.  Ég býð ekki í að hafa þurft að ösla snjóinn upp að mitti upp á lóð.  En svona er lífið, það hefur sínar skemmtilegu hliðar, en svo þarf líka að takast á við náttúruna og allt þar í kring.

En þá datt mér í hug að setja hér inn einn eina ferðasöguna, ég á upp í erminni aðra ferð um Mexico, í þetta skiptið förum við upp í fjöllinn, til Gopper Canyon og alla leið upp í Creel.

Ferðin til Mexico.

Lögðum af stað frá Ísafirði um hálf tólf 2. janúar 2002.  Veður var gott og færið eins og best gerist á sumardegi.  Gistum hjá Bjössa og Raquel, um nóttina.  Notuðum daginn eftir til að útrétta í borginni, en áttum að vera mætt út á flugvelli um þrjúleitið.  Vorum tímanlega og höfðum það notalegt þangað til kallað var út í vél.  Flugum til New york,  vorum þar um kl.  17.00 staðartíma. 

Fengum okkur hótel á flugvellinum völdum Ramada inn.  Það er alveg með ólíkindum hvað ameríkanar eru miklir dónar í þjónustustörfum, jafnvel í móttöku á hótelum geta þeir látið manni finnast að maður sé skíturinn undir skónum á þeim.

 En við vorum tékkuð inn og lögðum ríka áherslu á að við yrðum vakinn snemma þar sem vélin átti að fara um 9 leitið morguninn eftir, og við þurftum að vera kominn út á völl þremur tímum áður.  Margspurðum hvort skutlan væri ekki örugglega á förum, jú jú, hún kemur reglulega á tuttugu mínútna fresti, var svarið, en það var annað sem ekki var sagt sem síðar kom í ljós. 

Nefnilega það að maður komst ekki með hvaða skutlu sem var, því það var sorterað inn í þær, eftir því hvaða flugfélag var um að ræða.  Við komum okkur tímanlega niður um morguninn, og byrjuðum að bíða, þegar fyrsta skutlan kom var handstýrt inn í hana og okkur sagt að við kæmumst í næstu, þegar hún svo kom fórum við inn, en var vísað út aftur vegna þess að hún var bara fyrir Delta farþega en við vorum með American Airline. 

Ég varð öskureið og helti mér yfir starfsmenn hótelsins sem þarna voru að verki, en það er alveg einstakt þegar óþægileg mál koma upp hjá fólki í þónustugeiranum þarna Vestra þá verða þeir skyndilega heyrnarlausir og sjónlausir.  Þeir dusta bara rykkorn af jakkalafinu og snúa sér að einhverjum örðum. 

Ég sagði við Elías að við skyldum bara taka leigubíl, heldur en að missa af fluginu.  En ég ætla aldrei að gista aftur á Ramada inn hóteli.  Þegar út á flugvöll kom sagði bílstjórinn okkur hvar við ættum að fara í röðina, engin smáröð um hundrað metra löng, þegar við loksins komumst að þar sem sýna átti miðana, vorum við í vitlausri röð, áttum að vera hinum megin við götuna, af hverju þurfa ameríkanar að flækja alla hluti svona mikið. 

Við hlupum yfir götuna, sem betur fer vorum við ekki með mikinn farangur, og höfðum farið tímanlega, svo við náðum fluginu.  Það er líka alveg stórfurðulegt hvað miðameríkubúar ferðast með mikinn farangur.  Það eru ekki ein eða tvær töskur, það er heilt bretti með allskonar töskum, og svo pinklar í handfarangri, sumar kerlurnar eru með þjónustustúlkur meðferðis til að sjá um allt dótið, þær eru sem sagt í verslunarferðum til Bandaríkjana.

Við lentum í Mexico sity um eitt þar var 27°hiti og lsól.  Fengum hótel í gamla miðbænum. Völdum Holliday inn.  Allt var skreytt og fallegt enda jólinn ennþá. Á flugvellinum er passað upp á farþega, þar er hægt að fá upplýsingar um hótel, verð og gæði, og svo greiðir þú fyrir leigubílinn þar, þegar maður kemur út úr byggingunni standa verðir sem vísa manni á leigubílana, þeir aka manni þangað sem maður ætlar, en verða að skila inn miða áður en þeir fara út af svæðinu.  Þetta er öryggisatriði, vegna þess að mikið hefur verið um að fólki hafi verið rænt af leigubílstjórum, enda eru allstaðar uppi auglýsingar, takið aðeins leigubíla sem eru merktir. 

Bílamergðin og menguninn var gríðarleg það tók yfir klukkutíma að komast á hótelið. 

3-image001

Hef setta þessa inn áður, frá seinni heimsókn minni til Mexicosity.

Copper canionferd. 001

Á Zocalotorgi, dagur vitringana, kring um 6. nóv. þá ganga virtinarnir um og gefa börnum gjafir. Þarna var mikið um að vera á torginu við forsetahöllina.

Holliday Inn er rétt hjá Zocalotorgi, þar sem forsetahöllinn er. Þar var greinilega í uppsiglingu mikil hátíð.  Indíjánar Astekar að dansa og búnir að koma sér fyrir með allskonar varning sem þeir gera sjálfir.  Þeir eru glæsilegir í týgraskýlunum sínum með fjaðraskúfana og fótböndin. 

Copper canionferd.1

Glæsilegir Astekar, grimmustu indíjánarnir en það er bara eitthvað við þá.

Á morgun ætlum við að fara kl. 9 og skoða pýramídana.  Klukkan sex heyrðist allt í einu öðruvísi músikk en trommutaktur indíjánanna, út úr forsetahöllinni komu hermenn með lúðraþyt og trumbuslætti, þeir fóru í beinum röðum, og nokkrir dátar eftir þeim, umkringdu gríðarháa flaggstöng á miðju torginu með þeirm stærsta fána sem ég hef séð á ævi minni,  svo var fáninn dreginn niður, einnig stór fáni sem blakti á höllinni.  Tilkomumikil sjón.  Ég komst að því að fáninn er svo dreginn aftur að hún kl. 19.00, þetta er endurtekið kl. 6 að morgni, virðingarvottur við fánan.  Hann er dreginn niður kl. sex og kl. átján, og dreginn að húni aftur klukkutíma síðar.  Alltaf með þessum serimoníum. 

 Copper canionferd. 

Hinn risastóri fáni dreginn niður af hermönnum.

Copper canionferd.

Fánin borin inn fyrir nóttina.

                Pýramídarnir voru tilkomumiklir.  Stærstir eru sólhofið og mánahofið.  Mikið hefur verið lagt í þessar byggingar, steinum hlaðið upp, og svo múrað yfir, og málað með litum sem ennþá eru til staðar, þrátt fyrir háan aldur.  Þarna voru vatnslagnir, niðurföll, klósett og böð.  Mikil ráðgáta er um það hvað varð svo um fólkið sem þarna bjó.  Um 127.000 manns hvarf sporlaust, ekki fannst tangur eða tetur af því. 

                Á leiðinni að pýramídunum fórum við á búgarð, þar sem gerðar voru styttur úr steinum og beini, ofnir dúkar, þetta var eiginlega listagallerí.  Stytturnar voru af indíánum, eða goð þeirra, vopn og verjur.  Sumar voru handgerðar aðrar gerðar í vélum.  Þessar handgerðu voru miklu dýrara auðvitað, enda sumar hverjar mikil listaverk.  Mikið er af fallegum steinum þarna í kring, hrafntinna granít margar tegundir.  Við keyptum styttu af einum stríðsguðinum þeirra, hún kostaði 17.000.- ísl. Kr.  Handgerð, þær þekkjast vel úr vegna þess að flestar eru þær unnar úr fleiri en einni tegund af grjóti, gjarnar silfur og aðrir góðmálmar með.

                Mexico sity önnur stærsta borg í heimi, liggur hátt upp í fjöllum, það er fjallahringur á þrjá vegu, og mikil mengun er í borginni, vegna legu hennar. 

Í mexico sity búa um 21.500.000 manns, auk þess eru skipulagslausar kofabyggingar kring um borgina, þar sem fólk hefur sest að í leyfisleysi. 

Þar er áætlað að búi um 4 milljónir manna.  Þetta fólk greiðir enga skatta og skildur til samfélagsins, eru  mest innflytjendur sunnar úr álfunni, fólk sem er m.a. á leiðinni til Bandaríkjana.  Þarna er ekkert rafmagn, og engar götur fólkið fær vatn tvisvar í viku frá hinu opinbera. 

Sumir ganga um 7km á hverjum degi með söluvarning á bakinu til að selja varning í miðborginni.  Aðallega indíjánar og örsnautt fólk. 

Það eru steinsteypubyggingar upp allar hlíðar, og utan við miðborgina er umhverfið illa skipulagt og mikið drasl. 

Mörg svæði í miðborginni eru samt falleg og göngugötur og garðar. 

I miðju íbúðahverfi er svo kannski indíjánahof Asteka eða Maja.  Við skoðuðum eitt slíkt Asteka Major  mikið hefur varðveist af þessum minjum og er það vel.  Það setur samt að manni óhug því grimmdin hefur verið mikil meðal ættbálkanna.  Mikið um blóðfórnir og dráp. 

Aðaltorgið Zocalo  var hellulagt 1950, torgið er gríðarlega stórt og þar er aðalsamkomustaður fólksins þegar útihátíðar eru haldnar.  Nú er samt rætt um að byggja það upp aftur með trjám, gosbrunnum grasi og bekkjum.  Við torgið stendur sem áður sagði forsetahöllinn National Palace og ein skrautlegasta kaþólikka kirkjan í heimi Metropilitan Cathedral byrjað var á byggingu hennar 1567 það tók 250 ár að byggja hana. 

Það eru 3 aðal byggingarstílar Gotneskur – Barokk og Neoclassical.  Þrjár miklar bjöllur eru í turnum hennar og glymja þær út á torgið í tíma og ótíma.  Sú í miðið er sögð vera sú sem father Miquel Hidalgo hringdi í Dolorey Gucanjuato til að hleypa af stað sjálfstæðisbaráttu Mexicana. 

Einn frægasti staður í Borginni er Buena Vista market.  Eða torg hinna þriggja alda.  Þar er astekahof, og katólsk kirkja við hliðina, þar sem grjótið úr hofinu var notað við byggingu hennar, og svo nýjasta tímabilið nýlegt hverfi sem er sjálfu sér nóg um alla hluti, meira að segja sjúkrahús.  Þarna hrundu miklar byggingar í jarðskjálfranum. 

Sagan segir að indíjánahöfðinginn Juan Diego sem tók katólska trú sótti kirkjuna á hverjum degi hann varð að ganga yfir 14 km á dag til að komast í kirkjuna.  Eitt sinn er hann var á leiðinni birtist honum kona ein hún talaði til hans málýsku indíjána sem var bönnuð á þessum tíma, hann staldraði við og hlustaði á orð hennar, hún bað um að hann léti byggja katólska kirkju á þessum stað. 

Hann kom að máli við kardinála sinn, en sá sagði að hann yrði að fá sönnun fyrir sýn þessari, áður en hann gæti lagt málið fyrir páfadóm. 

Daginn eftir birtist konan Diego aftur hann sagði hvað kardinálanum og honum hefði farið á milli, þá rétti stúlkan fram rósir, sem voru ekki til í Mexicó á þessum tíma og bað hann fara með þetta sem sönnun. 

Þegar Diego opnaði skykkju sína til að taka rósina fram, þá var engin rós heldur ígreypt mynd af stúlkunni. 

Enn þann dag í dag er þessi mynd mikið umdeild og hefur verið rannsökuð af færustu sérfræðingum, því þegar hún var stækkuð upp kom í ljós að í augum hennar er hægt að sjá marga menn, þar fremstan sjálfan Diego. 

Þessar myndir eru eins og ljósmyndir og á þessum tíma hefði ekki verið hægt að gera slíkt með þeirri tækni sem þá var. 

Þessi stúlka var kölluð mærinn frá Guadalupe, eða bara Guadalupe.  Hún er eitt helsta átrúnaðargoð indíjána í Mexico, og reyndar mexícóa sjálfra. 

Ég hef reyndar skoðað þetta málverk, það er geymt í kirkju Guadalajara í samnefndri borg, og það er alveg merkilegt að sjá speglunina í augum hennar.

Þarna í miðborginni er líka Mariotttorgið þar sem tónlistarmennirnir standa í löngum bunum og bíða eftir að fá að spila fyrir mann.  Þeir eru allir uppáklæddir í einkennisbúninga Marriotta, svört föt með borðum og skrautlegar skyrtur og sombreros með klúta um hálsin.

 

                Pýramídarnir í Teotihuacan eru stórkostlegir.  Þarna er heil borg sem er bara pýramidar, breiðstræti liggur út frá aðalbyggingunum dauðastrætið,  þetta er alveg stórkostlegt.  Þarna bjuggu um 200.000 manns um 500 fyrir krist fram á áttundur öld.  Svo hvarf fólkið og engin veit hvað af því varð.  Astekar komu svo seinna og settust þarna að. Stærst eru Sólhofið 210 fet að ummáli og Mánahofið. 

Hef reyndar rætt um þessar byggingar áður, en alltaf gaman að koma aftur.

1-image003

Mánahofið.

                Það var virkilega gaman að ganga um Zocalo torgið því þarna iðaði allt af lífi, þrettándinn var í nánd og það er merkilegur tími hér í Mexicó, þá leika vitringarnir þrír aðalhlutverkið, þeir fara um allt og kaupa gjafir fyrir börnin.  Þarna var líka góði gamli jólasveinninn, þó hann væri dálítið ankannalegur í sínum rauða þykka búningi með skeggið í 27°hita.  Eftirvænting barnanna er allstaðar sú sama.  Þarna ægði saman allskonar fólki, ríkum jafnt sem fátækum.  Indíjánarnir með söluvörurnar sínar, og raunar allskonar sölufolk. 

Sumir mættu með pott og steikarplötu og svo voru seldar tortíllur með ýmsu meðlæti, eða ristaðar hnetur, allt frá skrúfum upp í fínustu listaverk. 

Dans astekanna dunaði alla dagana fram á nótt, maður sofnaði með trumbur þeirra glymjandi í eyrum, það truflaði ekki neitt, það var á einhvern hátt heillandi eins og seiður frá fornu fari.  Hótelin hérna eru góð og veitingasalir eins og best gerist.  Þú getur fengið hvað sem hugurinn girnist.  Og þjónustan er góð.  AÐ vísu þarf að gefa þjórfé hér, kring um 10 til 15%, manni finnst þetta hálf leiðigjarnt af því að maður er ekki vanur því.  Aðalmerki Mexico sity finnst mér samt vera grænu bjöllurnar leigubílarnir sem smjúga allstaðar, það er mígrútur af þeim, og setja þeir merki sitt á borgina. 

                Við fórum frá Mexico sity um hádegið áleiðis til Guadalajara, fórum með leigubíl frá hótelinu, það kostaði um 90 pesó á Central du Norte, rútubílastöðina.  Tókum rútu frá ETN en það er um margar stöðvar að velja.  Við vorum sjö tíma í rútunni frá Mexico til Guadalajara.  Rúturnar eru búnar allskonar þægindum, stórt bil á milli sæta, sjónvarp er í þeim öllum og klósett.  Einnig fóteskemill.  Það fór vel um okkur. 

Strax og komið var niður úr fjöllunum voru endalausar breiður af ökrum sumir með sinu, aðrir nýplægðir, enn aðrir iðagrænir af grasi eða káli og fólk að vinna.  Það var verið að slá gras og sumstaðar meira að segja heyrúllur og baggar.  Í rútunni sem var loftkæld voru sýndar 3 myndir á leiðinni. 

Ekkert var stoppað fyrr en í Guadalajara.  Þetta er önnur stærsta borgin í Mexico.  Virðist nýlegri.  Í miðbænum eru nokkur gömul hús.  Guadalajaratorg virðist vera aðaltorgið, en það eru nokkur saman ráðhústorgið með bækistöðvar lögreglu og yfirvalda, og nokkur fleiri, öll tengd með göngugötum.  Græn borg Guadalajara.

  Eftir stressið í Mexícosity var öllu rólegra yfirbragð á fólkinu hér.  Það sat á torginu eða rambaði um kring í hlýju og notalegu veðri.  Við höfðum komið um 5 leytið fórum á hótel International, komum dótinu okkar þar inn og fórum svo að skoða borgina.  Fengum okkur að borða á kínveskum matsölustað, og reikuðum um þessa fallegu borg meðan milt húmið féll á.  Kannski verðum við eina nótt í viðbót.

                Héraðið kring um Guadalajara er aðal Tequilahéraðið, nú eru þeir búnir að fá einkarétt á nafninu, en nafnið kemur frá Tequilahéraðinu.  Tequila er unnið úr kaktus sem kallast Agave, hann verður nokkuð stór, skafið er innan úr miðjunni á honum og safi sem þar myndast er notaður í Tequila.  Þessi görótti drykkur er misjafn að gæðum, hægt er að fá hroða sem kostar ekki neitt, en svo er hægt að fá flösku sem kostar fleiri tuga þúsund krónur.  Besta tequilað er 100% agave, en það getur verið mismundandi mikið af plöntusafanum í því.  Þá er blandað saman við spíra. 

IMG_7000

Ein slík er Tres mujeres, 100% agave, eðalvín, helt að maður geti ekki keypt það utan Mexico, rétt eins og sumt skoskt viskey er ekki flutt út frá Scotlandi.

                Það er ekkert mál að ferðast hérna, bæði á flugvöllum og rútubílastöðum eru upplýsingar og hægt að panta hótel og fá ráðgjöf um verð og gæði, leigubílar á þessum stöðum eru greinilega merktir og uppi skilti um að taka aldrei leigubíla sem eru ómerktir.  Bílana greiðir maður fyrir fram á stoppistöðunum.  Fólkið hér er mjög vinalegt og elskulegt. Öfugt við Bandaríkjamenn, þeir kunna ekki að þjóna eru jafnvel ruddalegir ef þú er með eitthvað múður.  Heyra ekki í þér ef þú reynir að kvarta eða þykjast ekki skilja.

                Við verðum eina nótt í viðbót.  Eftir þjark og leit fundum við út hvar hægt væri að fá upplýsingar um rúturnar.  Förum í morgun kl. 11.30 áleiðis til Mazaltán.  Fyrst var okkur sagt að rútan væri á 6 tíma fresti, en svo kom í ljós að þær ganga á klukkutíma fresti.  Málið er með Mexócóana að þeir segja þér bara hvað sem er, þeir vilja gera allt fyrir þig og ef þú spyrð um eitthvað og þeir vita ekki svarið, þá segja þeir einfaldlega eitthvað, heldur en að segjast ekki vita það. 

Ferðin kostar 540 pesos.  Gátum keypt miða í miðbænum.  Vorum svo heppin að hitta enskumælandi mann einmitt frá Mazatlan.  Sjóara sem hjálpaði okkur mikið, fann meira að segja símanúmerið hennar Kristínar systur Ella.  En ég hafði týnt því.  Buðum honum upp á bjór og í þegar við kvöddumst fór hann að tala um að hann væri fátækur og væri í vandræðum og bað okkur um 20 pesos, við gátum ekki annað en brosað og hann fékk 30 pesos í vasann.   

                Mazatlan er meiri ferðamannastaður en hinar tvær borgirnar.  Við erum rétt hjá ströndinni okkur er sagt að hér séu mikið færri ferðamenn en venjulega út af 11. September.  Hér séu mest Ameríkanar og Canadamenn. 

                Það var mikið skemmtilegra landslag á leiðinni frá Guadalajara til Mazatlan.  Fallegt miklu villtara, fjöll skógar, vötn og ár.  Auðvitað þess vegna harðbýlla.  Vorum 6 tíma í rútunni og sáum 3 myndir, létum fara vel um okkur.  Hér kunna allir meira og minna ensku og matseðlarnir allastaðar bæði á ensku og Mexócósku.  En á því var misbrestur bæði í Mexicósity og Guadalajara.  Ég fékk mér gleraugu með skyggðu gleri, þau kostuðu innan við 5000 kr. umgjörðin aðeins 35 dollara.  Annars er verðlag orðið hærra hér en var. Kristín systir Ella segir að fólk haldi að sér höndum í framkvæmdum af ótta við ástandið, Hvað verður?  Hækkar dollarinn og öll aðföng.  Hér er atvinnuleysi mikið og glæpir tíðir. 

                Forsetinn hélt sína áramótaræðu og þar lagði hann áherslu á að allir tækju höndum saman um að gera landið betra.  Hann vill leggja áherslu á menntun, heilbrigðismál og efnahagsmál.  Á morgun förum við í smáferðalag í Copper Canyon sem er ¼ sinnum dýpra en Grand canyon í Bandaríkjunum. Farið verður til bæjarins Los Motches í Chihuahua héraði.

                Copper Canyon er í miðju sögufrægu Sierra Madre mountains í norðvestur Mexícó, Chihuahuahéraði. Þar vaxa grenitré og furur þar snjóar í fjöllinn.  Að vísu hafði snjóað í fjöll niður við Mazatlan í gær, það var 2ft snjór upp í Coppola smábæ hátt upp í fjöllunum.  Járnbraut upp í fjöllinn gerir ferðamönnum kleyft að heimsækja hina innfæddu smáu fótfráu indíjána Tarahumara.  Paramuri (The people of the swiftly running feet)  Þeir búa í hellum og þvílíkum frumstæðum húsum, eins og þeir hafa búið síðastliðinn 400 ár.  Hjá þeir er hægt að kaupa heimagerðar fiðlur furunálakörfur ofin belti og furubarkarkörfur.

Copper canionferd. 0011

 (Carvings.

Chihuahua el Pacifico Railroad var fullgert 1961, hún sýndi umheiminum síðustu undur og leyndarmál Mexico.  Járnbrautin er ein af verkfræðilegum (enginering) furðum veraldar með 86 jarðgöng og 37 brýr á sinni 406mílna leið.  Tvennt annað er merkilegt við lestina, þar sem hún fer slaufu í El Lazo, utan við Creel, og 180° beygju inn í berggöngum við Temporis.  Það tók 90 ára og 90.000.000.- að fullgera brautina.  Readers Digest kalla hana “The most dramatic train ride in Western hemisplore.  Júlí 1999 voru gerðar endurbætur á lestum brautarstöðvarinnar og farþegarýmum.  Það eru einungis einir lestarteinar, nema á tveimur stöðum á leiðinni þar sem lestarnar geta mæst, en þær eru tvær sem fara fram og til baka.

                Við komum til Los Motches um kl. eitt um nóttina, það var kallt, og mikil þoka.  Lestin átti ekki að fara fyrr en kl. sex, svo við ákváðum að bíða á rútustöðinni uns tími væri til að kalla á leigubíl og komast upp á járnbrautarstöð.  Við hugðum þegar klukkan var orðin hálf fimm, að tími væri til að koma sér, enda vissum við ekki hve langan tíma tæki að komast á lestarstöðina.  Þegar þangað kom var allt harðlokað og læst, en nokkrir innfæddir ferðalangar lágu fyrir framan aðalinngang vafðir inn í teppi og sváfu í kuldanum og rakanum.  Loks var stöðin opnuð um fimmleytið, og það var gott að komast inn í hlýjuna. Lestin fór svo af stað kl. 6.  Það var túristalestin, svo fór önnur kl. 7 sem var lókal, fyrir heimamenn.

                Í rökkrinu, þegar dagsbirtan var rétt að byrja að þrengja sér að nóttinni, var hægt að grilla í lítil hús sum múrsteinshús með timburverki, á patíói framan við húsinn var ljós, og fólk byrjað að fara á stjá, sumstaðar var eldur úti á hlaði og í kring um hann nokkrir menn að orna sér og sennilega að fá sér árbít.  Nóttin er köld, og smátt og smátt stígur eldrauð sólin upp í austri og kastar gylltum logum yfir landslagið hægra megin í lestinni, og saman renna landslag himinn, ský og sól. Hinum megin við lestina er ennþá dimmblátt af nóttu.  Landslagið hrikalega fallegt og verður enn fegurra eftir því sem lestinn þokast hætta upp í fjöllinn.  Mikið útsýni til allra átta, fjöllinn tilsýndar, blómstrandi runnar og blómstrandi tré klæða landið eftir því sem ofar dregur breytist gróðurinn og þegar nálgast 500 ft. eru kominn barrtré, furur, sýpris, thuja og þöll.  Mér sýndist ég líka sjá eikartré og norænni lauftré.

Copper canionferd. 009

Lestin silast áfram hærra og hærra lengra og lengra upp í fjöllin.

 Ein brúinn á leiðinn var í 16ft hæð, þar fórum við fram hjá þorpi sem heitir Caliente, sem bendir til að heitt vatn sé þar að finna.  Þar sem lestin stoppar á leiðinni í þorpum og bæjum koma indíjánakonur á öllum aldri og bjóða fléttaðar körfur og annað til sölu. 

Copper canionferd. 012

Indjánakonur að selja heimagerðar vörur.

Þær sitja á brautarpöllunum og flétta körfurnar sínar úr laufum tvílitar grænar og brúnar mjög fallegar en ég kemst að því seinna að það eru furunálar og pálmablöð.  Einnig búa indíjánarnir til hálsfestar trommur belti litla gítara og skera út úr viði allskonar fígúrur.  Allt mjög fallegt. 

Copper canionferd. 0062

Þeir smíða allt mögulegt hér er verið að smíða fiðlu. 

Í lestinni er matsalur og bar.  Við fengum okkur mat um 11 leytið Ég fékk mér rauðvín með matnum, en Elli bór og Kristín kók.  Elli gleymdi að kaupa filmu í myndavélina, svo við gátum ekki tekið myndir á leiðinni, vonandi fáum við filmu í Creel. 

Komum þangað um 5,30 og vorum þá búin að vera á ferð fré 8 kvöldið áður.  Fyrst ók Jaime maður Kristínar okkur út á rútubílastöð, þá rúta til Los Mochios þar biðum við á brautarstöðinni frá 1.00 til 4.30 þá tókum við leigubíl út á lestarstöð en maður ætlaði að koma þangað um það leyti með miðana fyrir okkur með lestinni og hótelinu.  Þegar við komum þangað í niðaþoku og kulda var stöðin lokuð en nokkrir indíjánar lágu fyrir utan sveipaðir teppum og sváfu.  Svo fóru fleira að tínast að , þeir töluðu málísku indíjána, við vorum feginn þegar maðurinn kom með miðana okkar, loks var svo stöðin opnuð. Lestin fór svo kl. sex og það var gott að kúra sig niður í sætið og fá sér blund.

Kl. 17.30 komum við svo til Creel þar beið okkar bíll frá hótelinu og ók okkur þangað, pilturinn sá sýndi okkur herbergið og kveikti upp í arni og á gasofni, því næst fórum við á veitingastað hótelsins og fengum okkar að borða, þegar við komum aftur á herbergið var orði notalega hlýtt.

                Elli bætti nokkrum kuppum á eldinn og þar var notalega hlýtt í herberginu, gott að kúra sig niður í rúm og sofna von bráðar.

                Vöknuðum snemma fórum á fætur um 7.30, hanar gala um allt og sólin skín.  Elli fór í göngutúr en við Kristín erum að klæða okkur of fara í bað.  Kristín var með höfuðverk í nótt, hún var að spá í hvort það væri vegna hæðarinnar en við erum hér í 2.336 metra hæð.

Fórum í bæinn þetta er um 2000 manna bær snyrtilegur á Mexócóska vísu. 

Copper canionferd. 0102

Snyrtilegu bær.

Þegar við komum niður á torg kom til okkar maður Rafael og bauð okkur aðstoð.

 Við ætluðum ekki að hlusta á henn en hann vildi sýna okkur myndir og kynna ferðir, þar sem hótelið býður upp á sömu ferðir en aðeins með 6 manns að lágmarki og við vorum bara þrjú, ákváðum við að fá hann til að liðsinna okkur.  4 tíma ferð kostaði 500 pesos, hann fór á einkabíl þar sem hann er með eigið fyrirtæki. 

Fyrst fórum við í heimsókn til Indíjána sem búa í hellum, þeir eru feimnir en í einum hellinum býr fjölskylda sem leyfir fólki að koma í heimsókn.  Hellirinn er kallaður Sebastianhellir, eftir þeim sem þar bjó fyrstur. 

Copper canionferd. 0051

Elshúsið í hellinum.  Þau verða að láta dýrin sofa inni á nóttunni svo þau verði ekki étin af villidýrum.

Við fengum að skoða eldhúsið lítill hellir inn af þeim stóra, þar var á gólfinu allt til matargerðar steinn með holu sem kornið var malað á gömul hakkavél eldstó og koppar og kyrnur allskonar, þarna var líka flet, þar sem fólkið svaf sennilega allir saman, húsbóndinn og tvær konur og lítil hnáta. 

Copper canionferd. 0052

Matarílát og annað eldhúsdót.

Annað fólk sá ég ekki í þeim helli.  Í stóra hellinum var aðalviðverustaður fólksins þar voru konurnar búnar að raða upp tágarkörfum índíjánadúkkum talnaböndum og ýmsum föndurvörum. 

Copper canionferd. 005

Okkur sýndar heimagerðar vörur, Rafel horfir á.

Rafael sagði okkur að þau rækju öll dýrinn sín inn í hellin á kvöldinn því úti væru hættuleg dýr púmur, sem þau kalla fjallaljón, skröltormar og ýmis önnur.  Þau voru með geitur og hænsni. 

Svæðið er afgirt og er stórt og mikið það kostar ferðamenn 10 – 15 pesos að fara inn á þau, en þau eru nokkur þarna. Eru peningarnir notaðir til að gefa þeim matargjafir vikulega, þeir vilja ekki vinna hjá öðrum, en flestir eiga einhver húsdýr  fiðurfé kindur geitur svín hesta og asna, á einum stað sá ég t.d. strúta.  Þeir  stunda auk þess akuryrkju. 

Copper canionferd. 006

Svæðið er afgirt, og verndarsvæði.

10% indíjánanna búa í hellum aðrið í illa byggðjum timburkofum, sem handa saman af gömlum vana.  Þarna er kallt á veturna, og á þessum tíma er venjulega snjór, en ekki núna. 

Tarahumara indíjánar eru yfirleitt erfættir og ef þeir eru í skóm, þá eru það bandaskór búnir til úr bíldekkjum og leðurreimum. 

Sum börnin voru í plastsandölum.  Fæturnir á þeim eru eins og úr fílaskinni.  Enda virðist þeim ekki verða kalt. 

Fyrir nokkrum árum fór frostið þarna yfir 21° mínus, þá dóu mörg börn.

Þessi ættflokkur er ekki nema um 45.000 manns. Börn á skólaaldri eru í heimavistaskóla í nágrenninu en koma heim á helgum.  Allstaðar sá maður konurnar vera að þvo þvott, í hverjum læk og vatni.  Svo var þvotturinn hengdur til þerris þar sem hægt var á girðingu eða steina. 

Copper canionferd. 0041

Að þvo þvott 

Þarna eru sérkennilegar steinmyndanir eitt sérkennið kallast sveppaballettinn, þar eru steinar í hringlaga þyrpingu allir eins og sveppir í laginu með annan stein ofan á hinum eins og sveppur.  Á öðrum stað gat að líta risafroska sitjandi í hring eins og þeir væru á fundi. 

Copper canionferd. 0111

Sveppaballettin.

Copper canionferd. 011

Froskafundur.

Copper canionferd. 0031

Fíllinn.

 Á öðrum stað við veginn stóð stór og stæðilegur fíll, með haus og hala og allt tilheyrandi.  Ótrúlega fallegt. 

Þetta land indíjánanna kallast San Ignacio.  Eins og áður segði er landslagið stórkostlegt með klettum trjám og sandflákum.  Meðan við skoðuðum þetta náttúruundur komu lítil börn hlaupandi sex til átta ára, ein litla stúlkan bar á bakinu 3ja mánaða gamalt systkini, það var hor í nefi og biðjandi augu að selja dúkkur heimagerðar.  Við Kristín keyptum sitt hvora og fáfum þeim nokkur peso.

  Copper canionferd. 004

Blessuð börnin vilja fá sitt.

Því næst fórum við að skoða Lao de Arareco stórf fallegt vatn, á leiðinni sáum við fjölda indíjána sitja og bíða, konur börn og menn, Rafaeil fór að grenslast um eftir hverju þau væru að bíða, en hann talar mál þeirra, kom í ljós að þau voru að bíða eftir matargjöfum.  

Copper canionferd. 007

Beðið eftir matargjöfum.

Því næst var haldið að vatnsfalli sem heitir Cusarare (Þar sem örnin býr)  Við þurftum að ganga 1.5 k. leið að fossinum lítil stúlka fór með okkur að beiðni Rafaeil, hann þorði ekki að skilja bílinn eftir yfirgefinn til að fara með okkur. 

Copper canionferd. 003

Lítil indíjánastúlka vísar okkur veginn.

Gönguleiðin var falleg upp árgil, þarna sáum við yfir ána geitahjörð með litla stúlku sem gætti þeirra, konur að þvo í ánni.  Aníta litla vissi ekki hve gömul hún var, en við giskuðum á að hún væir 7 ára.  Rafael sagði að þau vissu aldrei hvað þau væru gömul, þá hljóta þau að vera  skráð í kirkjubækur því indíjánar eru hér allir kaþólskir, síðan Guadalupe kom til sögunnar.

                Síðan fórum við í lítið indíjánaþorp sem ber sama nafn og fossinn Cusarare.  Þarna skoðuðum við indíjánakirkju sem er mjög falleg, frá 1700, hún er hrá að innan, bjálkar í gólfi og lofti, hlaðinn úr steini, inni eru veggir málaðir hvítir með rauðleitu munstri, en uppskriftin af þeim lit er leyndarmál indíjána.

Copper canionferd. 0071

Litirnir eru leyndarmál indíjánana.

  Ennþá koma á óvart formfallegir steinar, á einum stað blasti við á hæð einni steinar hver ofan á öðrum sem mynduðu einskonar hatt, enda kallast fyrirbærið Sombrero.

Copper canionferd. 002-2

Sombrero.

Copper canionferd. 0101

Hér er ekki svarthöfði heldur hvíthöfði, en engu tilkomu minni hehehe.

Copper canionferd. 014

Cusarare, uppi eru oft ísilegt, en fyrir neðan vaxa pálmar og skrautjurtir, um2000 metrar upp.

  Eftir þessa skemmtilegu ferð var ekið heim til Creel á hótelið..Rafael bauðst til að fara með okkur aðra ferð á morgun og munum við þiggja það.  Þar sem það er miklu skemmtilegar að upplifa svona staði með manni sem þekkir til.  Við ætlum að leggja af stað kl. 11.

                Rafael rekur sína eigin ferðaskrifstofu, hann vann fyrir sér á hóteli í Guadalajara sem söngvari og gítarleikari, meðan hann safnaði sér fyrir húsi og bílnum góða, þá fór hann heim og stofnaði ferðaskrifstofunna sína.  Hann vinnur bara einn og er mjög skemmtilegur og þekkir allt þar sem hann er fæddur þarna og uppalinn. 

Copper canionferd. 008

Listagallerí.

Copper canionferd. 0072

Hamborgarastaðurinn í plássinu. 

Copper canionferd. 0092

Creel miðbær.

                Seinna um daginn fórum við og skoðuðum bæinn fórum á safn og fengum okkur að borða og bjórkrús.  Fórum því næst í búð og keyptum Tequila, bjór og kex og röltum heim á hótel, meðan rökkrið féll mjúklega á.  Leigðum okkur vídeómynd um kvöldið og slökuðum á eftir frábæran dag.

Copper canionferd. 0141

Kvöldsól.

                Vöknuðum um 7.30 við Elli erum enn á Íslenska tímanum en hann er 6 tímum á undan.  Fórum niður í bæ til að fá morgunverð.  Hittum Rafael um 11leytið og lögðum af stað til Rio Urique, falleg á, í einum dalnum.  Fórum upp í fjöllin og niður í dali allt var ægifagurt landslag með skógivöxnum hlíðum og svo risu klettar skyndilega upp úr gróðrinum eins og risastórir kastalar. Þvílík fegurð.

Copper canionferd. 010

Eins og kastali í Evrópu, en eru bara klettar, ef til vill álfabústaðir.

  Á einum stað stoppaði Rafael bílinn og bauð okkur að ganga smá spöl, svona til að viðra okkur og skoða okkur betur um. Því næst ók hann niður að brú yfir Urique ána.  Þar var stoppað og við gátum gengið niður að ánni en hún rennur í djúpu gili.

Copper canionferd. 0061

Þennan mann hittum við á leiðinni, hann var að fara milli staða, en hér í sveitinni ganga menn allar sínar ferðir, enda kallaðir menn hinna hlaupandi fóta.

  Á heimleiðinni ók Rafael okkur í sal munkanna sem er á landi indíjánanna.  Þar þurfti að borga 15 pesó til að komast inn.  Við hossuðumst í gegnum einskonar vegslóða lengi lengi, á leiðinni vorum við að hugsa hvort þessir múnkar væru lifandi eða úr grjóti, vissum ekki hvað beið okkar. 

Copper canionferd. 002-3

Dalur munkanna.

En svo blasti dalur munkanna við okkur, því lík fegurð, Rafael sagði að staðurinn væri segulmagnaður, því þarna hefði lent geimskip.  Þarna eru háir klettadrangar, afrúnnaðir og eins og manneskjur í laginu, eitt par stóð þar fyrir miðju í keleríi.  Þeir voru með grænar gular og rauðar skóflir svona til að auka ennþá meir á fegurðina og tilkomuna. 

Copper canionferd. 002-1

Kelerí.

Copper canionferd. 011

Konungarnir í skóginum.

Á einum stað óx tré beint út úr einum klettinum.   Þetta var dásamleg upplifun.  Vorum komin á hótelið um kl. 16.00, fórum niður í bæ til að borða.  Kristín og Elli fengu sér nautasteik en ég súpu og Túnfisksalad.  Fórum því næst í safn þar sem voru 500 milljón ára gamlir steingerfingar og mammútar.  Skeljar og margt áhugavert.  Vorum komin heim á hótel um sjö leytið.  Og höfðum leigt okkur vídeóspólu.  Ætlum að aka með Rafael til Divisadero á morgun og taka lestina þaðan.

                Vöknuðum fyrir átta, fengum okkur morgunmat á hótelinu.  Kl. 9.00 kom Rafael eins og áætlað var.  Taskan mín er orðin æði þung af grjóti og gömlu straujárni sem teiknað er á listaverk.  Við höfðum farið í litla búð í bænum daginn áður og keypt okkur minjagripi, litlar indíjánatrommur sem eigandinn hafði teiknað andlit á.   Kristín keypti trommu með litlum indíjánadreng, en ég með gömlum manni.  Fallegar myndir. 

Við sáum víða þessar trommur teiknaðar af sama myndlistarmanni.  Fórum til Divisadero, fallegt útsýni víða. 

Stoppuðum á leiðinni á gömlum flugvelli sem eiturlyfjabarónar höfðu notað til að lenda á og flytja eiturlyf til Bandaríkjana, fyrir átta árum eyðilögðu svo stjórnvöld þennan flugvöll, þannig að ekki var hægt að lenda á honum.  EN það sást ennþá hvernig hann hafði verið ruddur. 

Nú er þarna gott útsýni yfir Hoduros dalinn og mikil fjallasýn og fögur.  Við fórum á þrjá slíka útsýnisstaði yfir fjölinn og dalina til Divisadero. 

Þar kvöddum við Rafael, til að bíða eftir lestinni, ef maður ætlaði að fara akandi þá yrði það um 20 klst. ferð, en lestin er sjö. Það er vegna þess að vegurinn liggur allur í hlykkjum og krókum, en lestinn fer beint yfir gilin og gegnum fjöllin. 

 Indíjánarnir búa niður í dölunum, og klifra upp 1000 metra á hverjum degi til að selja vörur sínar, þ.e. konurnar, börnin koma með, karlarnir koma líka en þeir bera ekki neitt og sitja gjarnan saman og fylgjast með.  Þær koma svo dóti sínu fyrir á ákveðnum stöðum raða í kring um sig og svo sitja þær rólegar og flétta og búa til dót. Aldrei fellur þeim verk úr hendi. 

Börnin ganga sjálfala og ekki er hræðsla um að þau detti niður háa klettaveggina.  Á einum stað skagar klettur einn beint fram og hengiflugið niður er um 1000 metrar upp á þessum kletti er stærðar steinflaga sem hægt er að gjugga sér á, þarna sagði Rafael að ungir menn færu fram á og rugguðu sér á honum, og til að sýna þetta gekk hann fram á klettinn í blankskónum og gjuggaði sér, sagðist vera vanur að gera þett sem ungur drengur. 

Börnin koma til þín með útréttan lítin lófa og biðja um pesó, og það er erfitt að standast þau. 

Eins og áður sagði eru flestir indíjánarnir berfættir, en þeir sem eru í skóm eru í botni úr bíldekki með leðurreimar upp eftir kálfanum.  Konurnar eru allar í einhverskonar mussum og víðum skrautlegum pilsum með skuplur og teppi sveipað um axlir, þær bera kornabörnin í teppi sem þær binda á bakinu yfir aðra öxlina.  Þær eru þögular og alvörugefnar, þeim stekkur ekki bros. 

Copper canionferd. 0103

Fínar og vel klæddar índíjánakonur.

Mikið virðist vera lagt upp úr menningu indíjána á þessu svæði.  Allar myndir og umgjörð en sjálfir eru þeir bara þarna, stoltir þögulir og utanveltu við þetta allt saman.

Eins og áður sagði eru Tamahara indíjánar aðeins um 45.000 manns þeir tala sína eigin tungu, hafa skóla þar sem kennt er á þeirra eigin máli en æskan vill bara tala spænsku, svo líklega deyr tunga þeirra út ef ekki verður breyting á afstöðu þeirra. 

 Skólarnir eru heimavistarskólar þau mæta á mánudögum og fara heim á föstudögum.  Land þeirra er girt af og ef menn vilja komast þangað inn að skoða þær náttúruperlur sem þar eru þarf að greiða fyrir það 10 til 15 pesó.  Þeir peningar eru svo notaðir til að gefa þeim mat lyf og annað sem ríkisstjórnin gerir fyrir þá.  Þetta er fallegt lágvaxið og stolt fólk. 

Þeir kalla hvíta fólkið Apaches, eða fólkið með kóngulóavef í augunum og heilanum.  Af því þeir sjá ekkert og vita ekkert.  Tarahamara heilsar þér með kveðjunni Kvira- Bá, halló og strjúka lófanum mjúklega við lófa þess sem heilsað er, kveðjan er Abigsi- Bá, og þá veifa þeir lítillega með hendinni.

                Lestin brunar aftur heim á leið.  Þessi lestarbraut er eins og áður sagði einstæð í hinum vestræna heimi.  Ekki er hægt að fá að vita hvenær lestin kemur eða fer, nema svona um það bil.  Og til að vita það þarf að hringja til Chahuahua.  Á leiðinn upp þarf lestinn að stoppa í sumum þorpum og bíða eftir lestinni á leið niður, vegna þess að þar eru bara einfaldir teinar.  Á einni slíkri stöð biðum við í klukkutíma á leiðini upp.  Á leiðinni niður þurfum við líka að stoppa og fara út á aukateina til að hleypa lest fram hjá. 

Copper canionferd. 0081

Hér þurftum við að bíða í klst. eftir að lestin kæmi upp, því það er ekki hægt að mætast annarsstðar, þetta eru gamlir lestarvagnar sem hafa dagað hér uppi og hugvitsamir tekið sér bólfestu í þeim.

Copper canionferd. 0082

Og svo kom lestin hlaðin af ferðamönnum frá Kanada og Bandaríkjunum með húsvagnana sína.

Leiðinn er alveg hrikalega á köflum maður horfið beint niður í hyldýpið, svo maður grípur andan á lofti.  Lestinn fer ekki hratt, mest um 60 k. á klst. Mikið hefur verið lagt í sporið því fallegar hleðslur eru á mörgum stöðum þar sem hætta er á grjóthruni einni fallegar hleðslur inn í gangnamunnana. Á einum stað fer lestin í hring inn í fjallinu, maður fer inn á einum stað og kemur út á svipuðum stað neðar í fjallinu, þetta er alveg ótrúlegt.  Þessi ferð svíkur engan það er óhætt að segja. 

Copper canionferd. 0012

Kopper Canyon í öllu sínu veldi.

Í Creel vorum við í 2336 metra hæð yfir sjávamáli, bæði Elías og Kristín fundu fyrir hæðinni í höfðinu.  Einu áhyggjur mínar af hausverk var of mikið Tequila.  Við erum nú komin niður úr fjöllunum, ökum í myrkrinu verðum komin til Los moches um níu leytið. 

Þá býður rútuferð í 7 tíma.  Fengum okkur hamborgara í matarvagninum og söddum hungrið meðan myrkrið seig yfir fjöll og dali.  Lestin er um 9. Kl.st frá Dicevadero er í bíl er það um 14 tímar þar sem mótórvegurinn liggur um miklu lengri leið.

                Mazatlan er borg í Sinalóafylki, íbúafjöldi er um 400.000 manns.  Borgarbúar lifa mest á ferðamennsku og sjávarútvegi.  Þar er mikil rækjuveiði, og rækju- og ostruveiðitíminn er núna á veturna.  Rétt hjá þar sem við búum er margra kílómetra löng sandströnd mjög hrein og skemmtileg. Þar er hægt að fara í seglbát, tvíbytnu, láta draga sig upp í fallhlíf og ýmislegt þvílíkt.  Sölumenn ganga um og selja vörur sínar sólgleraugu, teppi handklæði kjóla slæður og alls konar glingur.Við erum á ströndinni á hverjum degi. Í dag fórum við snemma á ströndina því við ætlum út úr bænum kl. eitt.

Copper canionferd. 0121

Notalegt á ströndinni.

Copper canionferd. 0122

Ostrur beint úr hafinu, þeir koma syngjandi upp úr sjónum um 10 leytið með fullan poka af ostrum og svo getur maður fengið sé bita fyrri 2 peso. Þær eru lifandi þegar þær fara upp í mann, nema þeir hella sítrínusafa yfir þær. Þetta er algjört sælgæti. 

                Fórum til Villa Union þar er veitingastaður mjögvinsæll sjávarréttastaður El Cuchupetas, fengum okkur forrétt humar grillaðan í osti mjög góðan, síðan djúpsteiktan fisk, líkan ýsu á bragðið og svo rækjur, sem eru soðnar og síðan settar út í sólbað.  Jaime eiginmaður Kristínar bauð okkur í þessa matarferð. 

Á leiðinni heim komum við við í bæ sem heitir Rosario, þar skoðuðum við safn Lolu Beldrán mexícóskrar söngdívu, þetta var heimabær hennar.  Safnið var í húsi hennar en hún er nýdáin.  Þarna var líka safn um námur en hér er mikið um gull silfur kopar og allskonar málma.  Vorum komin heim um sexleytið.

                Húsin í götunum hérna standa hlið við hlið, vegg í vegg.  Bakatil eru patíóin samverustaður fólksins, framantil er smá forgarður. Ekkert hús er eins, en flest svipuð. Menn eiga gangstéttina fyrir framan húsin sín, og alveg út á götu er þeirra ábyrgð.  Þess vegna eru gangstéttirnar allavega, misjöfn hæð halli.   Sumar hellulagðar sumar flísalagðar aðrar steyptar.  Þar sem ekki er hús er engin gangstétt.

                Hér er allt á fullu í undirbúningi undir Karnival sem verður 7 – 15. febrúar  Það er byrjað að skreyta miðbæinn og smíða pall á aðaltorginu, setja upp skrautljós meðfram aðalgötunni sem liggur meðfram ströndinni.   Búið er að velja Karnivaldrottninguna og hún verður krýnd í byrjun veislunnar.

                Í sveitinni kring um borgina er ræktað Mangó, plómur maís og fleiri ávextir.  Hér er mikið borðað maís og baunir alls konar.  Helstu dýr eru Stór köttur púma, Degrillo hreindýr, villisvín Jabali, Tarantula Scorpion snákar kanínur hérar fasanar ernir fálkar mýs uglur, pardusdýr.

                Samgöngur í Mexico eru mestmegnis rútur og flugvélar, það kostar 12.000.- isl. Að fljúga frá Mexico sity til Mazatlan, fram og til baka klukkutíma flug. 

Rútur eru ódýrari en tekur um 16 tíma, en þar eru þægindi og góð sæti, maður sér líka meira af landinu. Mörg rútufyrirtæki keppa um að farþega, ETN, Tap, Elite svo eitthvað sé nefnt, maður þarf sjaldan að bíða eftir rútu, því alltaf er einhver að fara af stað.  

Bílar eru ekki góður kostur sumstaðar, því mikið er um mannrán og ræningja á vegum úti, maður sér her og lögreglu víða standa vörð, til að fylgjast með.  Sumstaðar þora heimamenn ekki einu sinni að stoppa og fara út úr bílunum.  Strætóar ganga innanbæjar en svo eru um 5 tegundir af leigubílum Túrista leigubílar, opnir með blæju svokallaðir Pulmonia, eða lungnabólga, bílar innan bæjar sem tína fólk upp á ákveðnum stöðum og safna í bílana. Svo eru merktu bílarnir á rútustöðinni og flugvellinum. 

Indíjánarnir í Mazatlan eru frá suðurhluta Mexico Koras Nayarit.  Þeir vinna ekki bara betla, þeir þiggja ekki vinnu sé þeim boðin hún.

                Götutrén í Mazatlan eru pálmar og fícus benjamínus sem eru klippt til og eru sitt með hverju formi, eftir því hvað húseigendum finnst fallegt.  Húseigendur sjá sjálfir um að klippa trén eða hafa garðyrkjumann til að sjá um það.  Sumir klippa í kúlur eða ferninga, sumir gera hús með risi dyrum og gluggum úr sínum fícusum.  Blómin í görðunum eru stofuplönturnar okkar jólastjarna, kólus ástareldur og slíkt.  Hér fást stjúpur í gróðrarstöðvum en þær eru teygðar og úr sér vaxnar.  Hér er líka töluvert algengt hengitópakshorn.  Ekki er hægt að rækta hér túlípana, en hægt að kaupa þá rérræktaða í pottum. 

Á morgun munum við taka rútuna kl. 18.00 til Mexico sity við verðum þar um kl. 9.00 um morguninn 30.1.2002.  Við ætlum að gista á Holliday Inn og dóla okkur í miðbnum, fara og skoða Andropolochiasafnið. 

Klukkan 6 síðdegis lögðum við af stað til Mexícó sity búinn að kveðja Kristínu Jaime og fjöldkyldu alltaf sárt að kveðja.  Við áttum skemmtilegan síðasta dag í Mazatlan fórum á ströndina til kl. 2 fórum með Kristínu í Sam´s club verslunarmiðstöð þar sem maður þarf meðlimakort til að versla, keyptum spænskar myndir fyrir El Salvador fjöldkylduna okkar, fórum svo í Comercial sem er önnur verslunarmiðstöð og keyptum Maceca maísmjöl fyrir þau líka til að þau geti bakað tortillur heima á Ísafirði.  Vorum 16 tíma í rútunni þetta var lúxus rúta með fáum sætum 2x1 það var nóg pláss fyrir alla sýndar tvær myndir á leiðinni og svo reyndu allir að sofa.  Tímamunur á Miexico sity og Mazatlan er 1 klst. svo klukkan var um 9.30 þegar við komum til Mexicó.  Tókum taxa og tékkuðum okkur inn á Holliday Inn.  Fórum síðan út og reikuðum um Zocalotorgið. Fórum á Andropopoces safnið, stórkostlegt safn um indíjána og líf þeirra og störf og list.  Á leiðinni á hótelið tókum við leigubíl við höfðum tekið græna bjöllu á safnið, hann hafði kostað 50 pesó, og var frekar mikið en mikil örtröð var á vegunum eins og  venjulega. 

Bílstjórinn í bílnum á leiðinni heim var voða kammó og þóttist vera voða vinalegur, en allt í einu tók Elli eftir að hann var að fikta við mælinn, þetta er ekki rétt sagði hann strax við bílstjórann, jú jú sagði sá það er svo mikil umferð, þá var mælirinn komin í 120 peso.  Elli varð reiður og skipaði bílstjóranum að stöðva strax bílinn, enda vorum við komin það nálægt hótelinu að við rötuðum heim, við slengdum í hann 100 pesó og rukum út úr bílnum. Elli var reiður lengi á eftir fyrir að láta mannfjandann leika svona á sig. 

Við eyddum svo deginum í að skoða mannlífið og sjá Astekana dansa.  Keyptum mynd fyrir Raquel og Bjössa og plakat fyrir Júlla Fórum snemma að sofa erfiður dagur á morgun.

                Vöknuðum fyrir kl. sjö. Vorum búin að ákveða að borða morgunmat  í flugstöðinni.  Tókum leigubíl á flugvöllinn tímanlega vorum kominn þangað upp úr átta. 

Af einhverjum ástæðum var ég skeftist á að láta neitt sem skipti máli vera í stóru ferðatöskunni.  Var hrædd um að eitthvað færi úrskeiðis.  Var auk þess með baunapottinn og hrísgrjónapott sem ég hafði keypt í Mazatlan í annarri handtösku.  Elli fékk sér ommilettu og kaffi í flugstöðinni.  Ég gat ekki komið neinu niður.  Hafði borðað eina af brauðsneiðunum sem ég hafði smurt í Mazatlan.  Fékk mér Tequila og bjór. 

Vélin fór í loftið kl. 11.00  Kom á daginn að við áttum að millilenda í Washington DC.  Þegar þangað kom var þoka og vélinni seinkaði þess vegna um 2 tíma, það þýddi að við myndum missa af flugleiðavélinni heim.  Ég fór að athuga málið, og vorum við send frá A til Ö eins og alltaf þarna í Bandaríkjunum, ég vildi vita hvort eitthvað væri hægt að gera til að flýta för okkar.  En ekkert gekk.  Svo það var ekki annað en að bíða og taka vélina tveim tímum seinna en áætlað var. 

Við urðum því að gista í Boston, stúlkan í Wasington lofaði að bóka okkur með vélinni daginn eftir til Keflavíkur, sem hún og gerði.  En fjandi var svekkjandi að sjá flugleiðavélina á vellinum þegar við lentum í Boston, við hlupum inn og létum athuga hvort enn væri hægt að komast um borð en því miður var rétt búið að loka henni.  Þá var að athuga með farangurinn, og viti menn, taskan hafði orðið eftir í Washington DC.  Ég fór strax niður í týndan farangur og mér var lofað að taskan yrði komin í tæka tíð.  Okkur samdist að flugfélagið léti hana bara beint í Flugleiðavélina daginn eftir.  Vonandi kemur hún.

                Við hringdum á hótel frá flugvellinum sem var með skutlu, þetta var hótel rétt hjá flugvellinum Anchors Inn.  Skutlan náði í okkur von bráðar og þetta reyndist ágætis hótel, hreinlegt og þægilegt ódýrt. Kostaði 56 dollara.  Meira að segja vínbúð í næsta húsi svo við gátum fengið okkur öl eftir allt umstangið.  Þá er að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.  Fáum við töskuna okkar.  Vélin fer ekki fyrr en kl. 20.30 annað kvöld svo við getum aðeins kannað staðinn.

                Sváfum út og gerðum okkur klár, fengum að geyma farangurinn okkar á hótelinu og tókum undergrándina niður í miðbæ.  Þarna var ískallt, það var slabb á götunum og kalsa rigning. Þarna niður í miðbæ Boston er ein elsta verslunarmiðstöð Ameríku.  Nokkrar byggingar hlið við lið sem hægt er að komast á milli, en göngugötur tengja húsin, áreiðanlega gott á sumrin.  Núna var þetta frekar kallt. 

 Okkur var boðið að fara klukkutíma hring um Boston í rútu og sjá allt sem markvert væri, en við nenntum því ekki vegna veðursins, fórum inn á Cheers Staupastein, þar var allt eins og í þáttunum, og myndir af  Celsey Graham og félögum upp um alla veggi, samt eru þættirnir ekki teknir upp þarna heldur í Californíu. En verðlagið er þannig að halda mætti að sálfræðingurinn frægi þjónaði til borðs því eitt rauðvínsglas kostaði 5 dollara.  Við tókum lestina til baka til Wonderland og tókum leigubíl á hótelið og fórum því næst út á flugvöll, vorum þar að dóla okkur þangað til tími var til að fara út í vélina.  Það er alltaf eins og að koma heim, þegar maður gengur inn í vélina og fær kveðjuna verið velkomin um borð.  Þá er maður kominn heim.   

Mynd Mexico_Guadalajara 001

Abigsi Bá!

Og svo að lokum raunveruleikinn hér á Ísafirði nú undir kvöldið.

IMG_6994

Verð að fara út á morgun, en það er á morgun.

IMG_6995

Annars ætlar Úlfurinn að moka fyrir ömmu sína á morgun.

IMG_6996

Já svona er þetta bara. Nú er James Bond að verða búinn og þá kemur Hercule Poiroit og ég ætla að horfa á hann. Hef alltaf gaman af Agötu Christie.

Eigið góða nótt elskurnar. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Kæra Ásthildur. Það gleður mig að heyra frá þér. Eg var satt að segja hálf áhyggjufullur um að þú lentir í einhverjum snjóflóðum. Svo sekkur maður sér bara oní ferðasöguna og bregður sér til Mexicao!!. Þessi heimur væri betri ef hann ætti fleiri eins og þig.

Björn Emilsson, 18.11.2012 kl. 03:07

2 Smámynd: Kidda

Mikið er ég sammála Birni, heimurinn væri svo miklu betri ef hann ætti fleiri eins og þig mín kæra.

ÞAð er alltaf jafngaman að fara með þér í ferðalög á framandi staði, takk fyrir mig.

Það hefur snjóað ansi mikið hjá ykkur fyrir vestan sé ég, gott að Úlfur ætli að moka fyrir ömmu sína.

Kidda, 18.11.2012 kl. 10:35

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Flott hjá þér Ásthildur. Guðríður Þorbjarna hefði verið hrifin að hafa þig sem ferðafélaga. Ertu enn þarna innfrá undir brekkunum.

Valdimar Samúelsson, 18.11.2012 kl. 10:43

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Emil, ég er eins og blóm í eggi inn í snjóhól, eina sem mig kvíður dálítið fyrir er að ösla snjóinn niður á götu til að komast í búð.  En Drengurinn ætlar að moka fyrir ömmu sína.

Takk Kidda mín.  Já það hefur snjóað.  Vona að þýskir vinir mínir sem voru að koma vestur í gær hafi komist klakklaust yfir Súðavíkurhlíðina meðan hún var opin í gær. 

Takk Valdimar mín er ánægjan.  Já það hefði verið gaman að ferðast með Guðríði, en minn elskulegi er líka betri en enginn sko.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 12:49

5 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

þeir eru harðir Vesfirðingar,farðu samt varlega. Láttu heyra meir frá þér úr Snjónum þarna.það er svoldið gaman að vera áhorfandi núnna því maður ólst upp við Snjóþigsli og ófærð.það telst til nátturuhamfara að sjá snjó hér í Eyjum..

Vilhjálmur Stefánsson, 18.11.2012 kl. 13:13

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vilhjálmur minn já ég fer varlega.  Hló að síðustu setningunni hjá þér

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 13:27

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér hlýnaði verulega við þetta. Dalur munkanna er greinilega algjört æði og þessi hvítklettur flottur, hefði sko alveg viljað vera þarna.  Annars er blíða hér, snjólaust og kalt, sól í dag.  Kær kveðja í vestrið og vonandi lokist þið ekki inni 

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2012 kl. 16:37

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ásdís mín, nei ég held að við lokumst ekki inni.  Þetta er bara spurning um að fara í galla og skríða niður á götu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 17:17

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Nákvæmlega, man eftir að hafa gert slíkt fyrir allt of löngu síðan

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2012 kl. 17:41

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 18:55

11 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Ótrúlegt hvað þú ert dugleg að skrifa og hvað þú skrifar lifandi frásagnir, á nú eftir að lesa þetta aðeins betur og allar myndirnar eru frábærar....sér í lagi ,,kelerískletturinn"  og svo hamborgarastaðurinn...ekki margir minni en þessi...hvernig smökkuðust þeir svo þarna ?

Má ég deila klettamyndinni á FB hjá mér ? Tókstu myndirnar sjálf ? 

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 18.11.2012 kl. 19:13

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Hjördís mín, já þú mátt deila myndinni, já ég tók þessar myndir sjálf.  En ég smakkaði ekki hamborgarana þarna, lagði ekki í það.  Maður veit aldrei. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 19:38

13 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Ok takk...og ég næstum skil þig vel að hafa ekki lagt í að smakka...:o

Hvar í Mexícó eru þessir krúttuðu klettar ? Skemmtilegra að það fylgi með.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 18.11.2012 kl. 19:41

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Upp í Copper Canyon eða Thehuahua upp í fjöllunum í norður Mexico.  Þeir eru á verndarsvæði Indíjána, þar sem þarf að sækja um að komast inn.  Rafael er indíjáni frá þessu svæði og þess vegna öllum hnútum kunnugur, og talar auk þess mál þeirra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 20:57

15 identicon

Þetta hugarfar líkar mér, að fara í sól og hita þegar allt fer á kaf . Takk fyrir skemmtilegt ferðalag .

Dísa (IP-tala skráð) 18.11.2012 kl. 22:50

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Dísa mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 2020894

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband