Opin bréf til yfirvalda um fíkniefnamál frá árinu 1998. n

Svona mál eru alltaf erfið.  Það er skiljanlegt að fólk sem ekki þekkir til svona mála skilji ekki alvöruna í þeim.  Ég hef skrifað margar greinar um svona mál gegnum tíðina, af þeirri reynslu sem ég bý að.

Árið 1998 skrifaði ég opið bréf til dóms- heilbrigðis- félagslmálayfirvalda og annara sem málið varðar eftirfarandi bréf.  Það er auðvitað barn síns tíma, en það sýnir í hnotskurn ákveðin vandamál, það má bera það saman við daginn í dag og skoða hvað hefur áunnist, og hvað er ennþá í sömu sporum.

 

"Opið bréf til dómsmála- heilbrigðis – félagsyfirvalda og annara sem málið varða.

Í fréttum um daginn kom fram að yfirvöld höfðu sett sér það takmark að gera Ísland fíkniefnalaust fyrir árið 2002.  Þetta er í sjálfu sér gott takmark.  Þar var rætt um að leggja aðaláherslu á forvarnir sem líka er nauðsynlegt, en það er ein stór brotalöm þarna í planinu, sem ég ætla að benda á og það eru gleymdu börnin hennar EVU. Ef yfirvöld vilja virkilega ná árangri í vörnumn gegn fíkniefnaneyslu, þá þarf að byrja að hreinsa til þar. Endurskoða dómskerfið og fangelsismálin. Stór orð en ég skal útskýra við hvað ég á.

Við eigum núna margt ungt fólk í hringsás kerfisins – fíkniefnaneysla – afbrot – út á götuna – aftur í sama farið.  Engar úrlausnir – engin hjálp.  Hvar endar þetta?

Í fyrsta lagi vantar skilgreiningu á hvað er fíkill og hvað er glæpamaður.  Fíklarnir eiga ekki að fara í fangelsin innan um glæpamenn.  Þeir eiga að fara á sérstaka stofnun, eða vera sér og fá meðferð í samræmi við sýki sína.  Þeir eiga að fá sálfræðiaðstoð, heimsókn frá félagsfræðingum og læknum.

Einu sinni voru fangelsin koölluð betrunarvist, þá hefur einhver hugsun leynst um að það ætti að bæta einstaklinginn í vistinni, í dag er þetta geymslustaður, sem skilar af sér einstaklingi fullum af hatri út í kerfið og lögin. Það er ekki við starfsmann fangelsisins að sakast – það er stefnumótun- stefnuleysi dómsmálaráðuneytis og ríkisstjórnar og áhugaleysi þeirra á þessum hópi fólks að sakast.  Hvar er t.d. félags- og heilbrigðiskerfið í þessari hringrás?

 

Þarna er töluverður hópur ungs fólks, sístækkandi, sem er nánast utan við lög og rétt.  Þau eru búin að koma sér upp sínum eigin samskiptareglum og samtryggingu og er kannske meira og minna stjórnað af glæpamönnum sem EIGA þau, þ.e. sjá þeim fyrir eitrinu og Lána þeim peninga.

Greiðslan jafnvel innifalin í að sitja inni fyrir bossinn.  Höfum við efni á þessu?  Er þetta það sem við viljum fyrir unga fólkið okkar?  Það er oftast besta fólk sem lendir svona undir,  listrænar veikgeðja manneskjur sem eru löngu búnar að missa sjónar á framtíðinni og lifa bara í núinu.

Eins og ég sagði áðan þá lendir þetta fólk fyrr eða síðar í að brjóta af sér til að fjármagna sjúklega neyslu.  Hvernig tekur kerfið við þeim?  Ég fullyrði að oft fái þau ekki sömu „hanteringar“ og svokallaðir hvítflibbaskúrkar.  I fyrsta lagi eru þau oft talin annarsflokks þegnar ‚ sumum finnst þeir geta farið með þessa einstaklinga að eigin geðþótta – bæði í lögreglunni og innan fangelsins.  Ég skil þetta að vissu leyti – þetta fólk er oft erfitt og uppreisnargjarnt, fullt af hatri út í kerfi sem er þeim óvinveitt og afvísandi – á endanum gefast menn upp á að vera að reyna að púkka upp á það.  Hvernig líður til dæmis fangaverði sem vinnur innan um allskonar fólk daglega, fær hann áfallahjállp og menntun til að takast á við þennan harða heim, ég veit að flestir fangaverðir eru góðir menn og vilja vel, en ég er líka viss um að innan um eru menn sem vinna þarna af öðrum ástæðum.  Hvaða kröfur eru gerðar í starfslýsingu fangavarða, og hvaða skilyrði þarf að uppfylla og hvaða menntun? Hvernig er því svo fylgt eftir.  Þessir enn hafa ekki svo litla ábyrgð, því stundum þarf svo lítið til að gera svo mikið.  Smá alúð og skilningur.  Hvað með lögregluna sem mest lendir í að slásdt við þennan hóp, fá þeir andleag uppörfun eða kennslu um einkenni sjúkdómsins og afleiðingar eða eru þeir einungis þreyttir og leiðir á að vera alltaf að berjast við sama fólkið endalaust, meðhöndla það samkvæmt því?

Ef dómsmálaráðherra virkilega vill minnka eiturlyfjaneyslu ungs fólks, þarf að taka til hendinni og það núna strax.  Þetta gengur ekki lengur.  Og með ungu fólki er átt við alveg upp úr margir komnir yfir fertugt.

Við þurfum að viðurkenna að þetta fólk er orðið veikt og þarf umhyggju og hjálp en ekki fyrirlitningu og útilokun.

Það þarf að hafa það í sérstökum stofnunum, þar sem fram fer afvötnun, dagleg vinna með sálfræðingum og læknum.  Síðan þarf aðstoð félagsfræðinga til að vita rétt sinn í kerfinu utan múranna og eftir vist, jafnvel athvarf sem það getur farið í meðan það er að koma sér fyrir. Það þarf að koma til móts við þessar manneskjur og „mótívera“ þær til að hætta ef þær eru ekki á þeim buxunum.  Ég veit að innan sumra fangelsa er vinna og skóli hægt er að fá 38 daga dregna frá refsivist til að fara í meðferð, til eru athvörf sem sumir komast í á eftir, en ég hef grun um að þetta sé allt of handahófskennt og ómarkvisst og enginn metnaður og sjálfsagt engir peningar. Það er heldur enginn þrýstihópur bak við þetta fólk, einungis örþreyttir sálartættir foreldrar, sem jafnvel anda léttar þegar unginn er komin inn fyrir múra. Hann gerir þá ekkert af sér á meðan.  Er þetta það sem við viljum? Og hver verður næstur, ert það þú lesandi góður?

Annað sem ég vil minnast á, ef svo þetta fólk finnur tilganginn í lífinu með ást eða einhverju öðru uppbyggjandi og vill snúa af brautinn vondu, þá hefst önnur þrautarganga, skilningsleysis og tillitsleysis og þröngsýnis steindauðs kerfiis sem engan sveigjanleika hefur til að takast á við þarfir þessa ólánsama fólks, sem finnur að flest sund eru lokuð.

Ég hef sagt að áður og ég segi það enn, og ég skal segja það þar til einhver rumskar, þetta gengur ekki.  Tökum okkur tak og hjálpum þessu unga fólki upp úr kviksandinum.  Ekki tala um fjárvöntun.  Ég held að við komum til með að spara peninga ef okkur tekst að fækka í þessum hópi það eru ekki bara krakkarnir, það eru heilu fjölskyldurnar í sárum, veikar af áhyggjum, þunglyndi sektarkennd og ég veit ekki hvað.,

 

Ég sem þegn þessa lands geri kröfu um nýja uppbyggingu og stefnumótun í þessum geira.  Stefnumótun sem inniber samstarf lögreglu, fangelsismálastofnunar, dómara, félags- og heilbrigðisráðuneytis og jafnvel aðstandenda þessa fólks.

Ég er sannfærð um að innan bæði fangelsis og lögreglu eru aðilar sem myndu fagna stefnumótun í þessum málum og myndu vilja setjast niður með stjórnvöldum og fara yfir þau.  Fólk sem hefur þekkningu á vandamálinu og samúð með þessum einstaklingum, fólk sem hefur brjóstvit og hjartagæsku til að vinna að þessu máli þannig að við getum farið að sjá árangur fljótlega.  Þannig að þetta blessaða fólk geti séð smá vonarglætu vaknað til vinuntar um að þau eru manneskjur með réttindi samkvæmt stjórnarskrá en ekki reköld í mannskæðum ólgusjó."

Svo mörg voru þau orð. En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að lágmarka það tjón sem hlýst af fíkniefnavandamálum sífellt stækkandi hóps ungs fólks.

Margrét Tryggvadóttir tekur svo djúpt í árina að fíkniefnastríðið sé tapað. http://www.dv.is/frettir/2012/11/15/margret-stridid-gegn-fikniefnum-tapad/

Það er það að einhverju leyti rétt hjá henni stjórnvöld sváfu á verðinum öll þessi ár, og heimurinn hefur sífellt harðnað og orðið ofbeldisfyllri.  Ég tek undir það með Margréti að það þarf róttækar breytingar.

Ég er á því að vægari efni verði gefin frjáls, og harðari efni verði afhent í heilsugæslustöðum og apótekum.  Það mun taka glæpin af þeim sem hafa ánetjast og verða þar af leiðandi glæpamenn áður en þeir hafa gert nokkuð annað af sér.  Enda eru bönn alltaf undirrót neðanjarðarstarfssemi, þar sem glæpamenn maka krókinn.


mbl.is Stúlkurnar í áfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Sammála með að það á að lögleiða fýkniefni.

En uppeldi er alltaf á ábyrgð foreldrans. Hann á að vera góð fyrirmynd. Foreldrinn á að setja reglur. Það er ekki rétt að ætlast til þess að "kerfið" á að ala krakka upp fyrir mann.

Frá upphafi þurfa krakkar aga, aðhald og leiðbeinandi tilmæli. Hrós og umhyggju. Ef þetta er gert á nægilega markvissan hátt þá leiðist ekkert barn í fýkniefni.

Svo á að sjálfsögðu aldrei að drekka, reykja og hvað þá meira fyrir framan barnið. Krakkar líta upp til foreldra sinna og herma eftir.

Það er tími til kominn að foreldrar taki ábyrgð. Ekki benda bara á "kerfið"... það er nær að líta í sinn eigin barm.

Sleggjan og Hvellurinn, 15.11.2012 kl. 21:05

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er alveg sammála því Sleggjan og Hvellurinn að við berum sjálf ábyrgð á börnunum okkar.   Það sem hér er um að ræða, þegar það samband hefur rofnað illilega.  Það gerist á bestu heimilum.  Ég þekki alveg hve varnarlausir foreldrar eru þegar barnið er komið út á glæpabrautina, búið að gera það að glæpamanni fyrst með því að það hefur fallið fyrir eiturlyfjum, og síðan er haldið áfram.  Öll bönn bera í sér neðanjarðarhagkerfi sem vaxa og dafna í réttu hlutfalli við alvarleika bannsins.  Það er vitað mál.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.11.2012 kl. 21:12

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

nkl, brilljant

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 15.11.2012 kl. 22:22

4 Smámynd: Viðar Friðgeirsson

Sæl Ásthildur.

Margt hef ég nú lesið eftir þig, stundum sammála, stundum ósammála, en þetta bréf þitt slær allt út. Eins og talað út úr minu hjarta. Sammála hverju einasta orði.

Það er ekki nóg með að stjórnvöld og þjóðfélagið allt hafi algjörlega brugðist þessu óhamingjufólki og eins og þú segir "stimplað" sem annars flokks þjóðfélagsþegna og vandræðafólk, heldur hafa stjórnvöld beinlínis stuðlað að því að það verði það áfram í stað þess að reyna að hjálpa því til að verða nýtir einstaklingar. Það eru til enn svartari dæmi.

Dæmi: Unglingur/ungur maður lendir á refilstigum, er gómaður með eiturlyf til neyslu eða sölu, hlýtur dóm, sekt/ fangelsisvist, OG ER SÍÐAN SLEPPT af því að það er ekki hægt að láta hann taka út dóminn. (fangelsin yfirfull) Síðan líða árin, 1, 2, 3, 4, aldrei fyrnist dómurinn. Á þessum tíma sem líður snýr einstaklingurinn við dæminu, hættir í ruglinu og snýr af þessari braut glötunar. Er komin í góða vinnu, jafnvel búinn að stofna fjölskyldu, en þá, allt í einu uppgötvar yfirvaldið að þarna er ennþá einstaklingur sem á skuld að gjalda. Þá byrtist lögreglan með tilkynningu um að nú sé röðin komin að þér. Þú eigir að mæta hjá fangelsismálastofnun til að taka út þinn dóm, alveg sama hvað!

Einstaklingurinn hrifinn burt úr sínu umhverfi, stungið í steininn til að afplána gamlan dóm fyrir bernskubrot. Lífið tekur kúvendingu. 

Einstaklingurinn allt í einu kominn innan um gamla kunningja og allt vaðandi í eiturlyfjum INNAN MÚRA FANGELSISINS.

Hvað skeður í "betrunarvistinni"?  Jú, hann fellur aftur, kemur síðan út og orðinn forfallinn fíkniefnaneytandi á ný. Þetta er raunsönn lýsing á raunverulegum atburðum. 

Af hverju er ekki hægt að taka tillit til gjörbreyttra aðstæðna hjá hinum seka og breyta dómum í skilorð ef ljóst er að viðkomandi hefur bætt ráð sitt og mörg ár eru liðin frá dómi án þess að hann hafi komist í kast við lög? Mér finnst þetta brjálað, að taka mann úr góðri vinnu og jafnvel frá fjölskyldu, mann sem sýnilega hefur bætt ráð sitt UTAN VEGGJA FANGELSIS, stinga honum í Steinin til að afplána gamla dóma sem ættu í raun að vera fyrndir fyrir löngu og gera þá að fíknienaneytendum á ný, þar sem ekki virðist geta né vilji til að halda fíkniefnum utan fangelsa. Það er á allra vitorði að innan veggja þeirra er allt vaðandi í fíkniefnum. Þessu verður að breyta, ekki síst vegna þess að á meðan þessi einstaklingur teppir pláss í yfirsetnum fangelsum landsins gengur einhver stórhættulegur glæpamaður laus og bíður þess að hægt verði að stinga honum inn, þar sem hann á heima, en hinn ekki...lengur. Þetta er geggjuð veröld. Fíkniefnalaust Ísland hvað?

Það sem hinsvegar Sleggjan hefur hér til málanna að leggja finnst mér eins og annað sem frá henni kemur algjört bull, en það er bara mín skoðun. 

"Frá upphafi þurfa krakkar aga, aðhald og leiðbeinandi tilmæli. Hrós og umhyggju. Ef þetta er gert á nægilega markvissan hátt þá leiðist ekkert barn í fýkniefni."

Þvílíkt bull. Hversu mörg tilfelli þekkjum við ekki um að börn frá góðum heimilum hafa leiðst út á þessa vafasömu braut. Er Sleggjan að meina að aðeins börn sem búa við slæmar heimilisaðstæður leiðist út í fíkniefnaneyslu?

Viðar Friðgeirsson, 15.11.2012 kl. 22:47

5 identicon

Fólk framtíðarinnar á eftir að horfa á eiturlyfjastríðið sem einn mesta fáránleika mannkynssögunnar

DoctorE (IP-tala skráð) 15.11.2012 kl. 22:49

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta innlegg Viðar minn, þetta er nákvæmlega það sem gerist og hefur gerst alltof oft, meira að segja var minn drengur tekinn úr eftirmeðferð til að setja hann í fangelsi eftir svona margra mánaða eftirdóm.

Ég vona að þetta sé liðin tíð, en óttast að svo sé ekki.  Hér þarf virkilega að skoða málin, og á hvaða leið við erum.  Hvenær er réttlætanlegt að "sleppa" viðkomandi við refsingu ef hann er komin á rétta braut.  Mig hefur oft sviðið gegnum áratugi svona hjartaleysi yfirvalda.  Þeir eru næsti óvinur foreldranna við glæpahyskið.  Svo sorglegt sem það er.

En það þarf endalaust að hamra á þessum málum.  Það versta er að þegar ég opinbera þau gögn sem ég hef, verð ég svo sorgmædd og reið að það tekur smátíma að ná mér aftur upp á strikið.

Vonandi fer þessu að linna og menn átti sig á því að hér er oft verið að taka algjörlega kolvitlausts á málum og það eru margir sem hafa tekið sitt eigið líf, einmitt vegna þess að þeir sáu ekkert framundan, enga von bara áfram sama hjakkið, vegna þess að þau hafa ekki fengið neitt í hendi frá þeim sem samkvæmt stjórnarskrá ættu að aðstoða, en svo sannarlega gera ekki.... oftast nær. 

Það vona ég DoctorE.  Þessi stefna felur ekkert annað í sér en eyðileggingu og skemmd langt út fyrir laga rammans.  Nú þarf að hugsa upp á nýtt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.11.2012 kl. 23:25

7 Smámynd: Jens Guð

  Sleggjan og Hvellurinn, uppskrift þín er ágæt svo langt sem hún nær.  Málið er að sum börn sem fá sama uppeldi og búa við sömu aðstæður fara ekki alltaf sömu leið.  Þar geta spilað inn í geðræn vandamál og sjúkdómar á borð við vímuefnafíkn.  Sum systkini meðtaka gott uppeldi og verða góðir og nýtir samfélagsþegnar.  Eitt barn í systkinahópi getur hinsvegar vegna geðrænna vandamála og fíknar farið aðra leið.  Í því tilfelli hefur gott uppeldi ekkert að segja.  Veröld viðkomandi er brengluð,  uppfull af ranghugmyndum og allt annað en heilbrigð skynsemi ræður för.  Þannig dæmi stendur mér nærri.    

Jens Guð, 16.11.2012 kl. 00:59

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jens þannig getur þetta einmitt verið, og foreldrar standa varnarlaus gegn slíkri vá.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.11.2012 kl. 01:22

9 Smámynd: Jack Daniel's

Vandamálið er þegar eftirmeðferð líkur því þá tekur ekkert við nema fara í gamla félagsskapinn, gamla umhverfið og gömlu neysluna aftur.
Ef einhver vilji væri fyrir hendi hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum, þá væri hægt að koma þessu fólki út í lífið hægt og rólega með markvissri endurhæfingu rétt eins og hjá manneskju sem hefur slasast alvarlega líkamlega.
Það þarf að vera staður sem viðkomandi getur farið á yfir daginn þar sem fólk er þjálfað til að takast á við daglegt amstur, gæti fengið starfsþjálfun og jafnvel vinnu upp úr því.

En nei.  Því er hennt út í hringiðu lífsins og sagt að bjarga sér.
Það er ekki gert við manneskju sem hefur örkumlast eftir slys þegar hún losnar af sjúkrahúsi.

Jack Daniel's, 16.11.2012 kl. 05:14

10 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

ef uppeldið sé rétt gert þá á samband foreldra og barna ekki að þurfa að "rifna illilega"

það rifnar ekki uppúr þurru

eitthvað hefur uppeldið brugðist og þar eiga foreldrar alla sökina.... ekki embættismennirnir eða ráðherrarnir

Sleggjan og Hvellurinn, 16.11.2012 kl. 11:43

11 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

viðar

"Er Sleggjan að meina að aðeins börn sem búa við slæmar heimilisaðstæður leiðist út í fíkniefnaneyslu? "

nei ég er ekki að segja það.

Sum heimili eru góð á pappír. Mamman og pabbin vel menntuð og búa í stóru heimili í Garðabæ. Gott heimli ekkis satt?

en ef barnið er vanrækt, ekki sýnt umhyggju eða aga.. og bara almennt hirðuleysi.

svona krakkar geta leiðst útí fíkniefni.

en ef uppeldið rétt þá gerist það ekki

það geta vissulega verið undartekningar þegar við erum að tala um geðræn vandamál. en það þarf þá að taka á þessu aðeins öðvísi... en foreldrar eiga að sýna forystu í því. og bera ábyrgð á því. Ekki embættismenn útí bæ.

hvells

Sleggjan og Hvellurinn, 16.11.2012 kl. 11:51

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvells það er engin að tala um að foreldrar eigi ekki að bara ábyrgð á börnunum sínum.  Þau eiga auðvitað fyrst og fremst að leiðbeina þeim og vernda.  En þetta er bara ekki svona einfalt alltaf. Áttu börn?  Sem betur fer er oftast allt í lagi, en þessi aukna neysla ungmenna segir okkur ákveðna sögu, hún er ekki sú endilega að foreldrar hafi sofnað á verðinum, séu verri foreldrar en áður, heldur segir þetta sögu um meiri dreyfingu eiturlyfja, meiri markaðssetningu þeirra og meira úrval.  Þegar allt er komið í hönk með ungmenni verður að vera einhversstaðar pláss fyrir þau til að komast af þeirri braut, það verður ekki gert inn á heimili foreldra.  Það verður einungis gert markvisst með meðhöndlun fólks sem þekkir vandamálin.  Þarna vil ég sjá lokaða meðferðarstofnun sem fólki er fært að komast inn í til að komast upp úr neyslu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.11.2012 kl. 15:36

13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég er sammála Ásthildi, a.m.k. miðað við ástandið í dag.  Það á að taka þetta unga fólk úr umferð við fyrsta brot og setja á lokaða meðferðarstofnun nógu lengi til þess að afeitra það.   Mistökin eru að afsaka fyrsta brotið, vegna æsku og/eða eitthvað, og safna síðan ítrekuðum brotum í einn sakapott sem dugir fyrir X-langri dvöl á Hrauninu.

Vandinn er svo líklega mestur að finna hvað tekur við í framhaldinu, en allir þessir opinberu launuðu fræðingar mega alveg vinna fyrir kaupinu sínu og finna raunhæfar lausnir.

Það er alveg ástæðulaust að skella skuldinni á foreldrana; það er sama hvert veganestið er að heiman því flestir vita að umhverfið ræður meiru en uppeldið á viðkvæma aldrinum.  Unglingarnir þurfa sjálfir að vera nógu sterkir að eðlisfari til þess að standast freistingar sem dópsalar veifa - svo og þrýsting vinahópsins.

Við þekkjum eflaust öll einhvern sem var alinn upp við slæmar heimilisaðstæður vegna fíknar foreldra en hafði nógu "sterk bein" til þess að skapa sér farsælt líf.

Kolbrún Hilmars, 16.11.2012 kl. 16:28

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Kolbrún, þetta er dálítið spurning um mótstöðu einstaklingsins.  Og því miður er alltof mikið um að unglingar láti freistast, og þetta versnar en ekki batnar, svo eitthvað róttækt þarf að gera.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.11.2012 kl. 16:41

15 Smámynd: Sólbjörg

Ef öll gæfa fólks væri tryggð með umhyggjusemi og ást foreldranna væri fíkniefnavandinn í heiminum ekki svona mikill, því flestir foreldrar vilja allt fyrir börnin sín gera en það hjálpar ekki alltaf. Margir sem leyðast út í neyslu hafa aldrei fengið greiningu eða hjálp við sínum vandamálum eða fötlun. Yfirleitt er vandinn augljós strax í barnæsku og kemur fram í erfiðleikum í skólanámi eða annan hátt félagslega. Mörg börn, unglingar ráða ekki við kröfur skólans og samfélagsins en með þeirri þekkingu sem er til staðar í dag og vilja er hægt að hjálpa mörgum. Áður fengu vandamál einfalda greiningu; "Hann er tossi", eða "Hann gæti þetta ef hann bara nennti að læra." Achberger eða einhverfir voru taldir skrýtnir. Staðreyndin er að margir leiðast út í neyslu sem eina úræðið við kvíða, vanlíðan, andlegum veikindum og vanhæfni. Það er kallað "selfmedication" því viðkomandi hefur enga lausn og reynir að láta sér líða betur með áfengi eða dópi, þó það gerir bara illt verra. Dæmum ekki í fljótfærni allra síst foreldranna.

Sólbjörg, 16.11.2012 kl. 16:59

16 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ekki kenna aukinni neyslu um.

Unglingar hafa minnka neysluna gríðarlega seinustu ár. Það var miklu verra fyrir 10-20árum.

Svo erum við langt undir meðaltali í öllum vímuefnum

http://www.espad.org/iceland#

Sleggjan og Hvellurinn, 16.11.2012 kl. 17:04

17 Smámynd: Sólbjörg

Á meðfygjandi tengli er grein um self-medication sem ég skrifa um í athugasemd minni.

http://www.reuters.com/article/2011/08/04/us-self-medication-anxiety-idUSTRE77319C20110804 "Self-medication of anxiety tied to later drug abuse".

Ef fíkniefna vandamál margra er skoðuð út frá þessum sjónarhóli er kannski hægt að hjálpa fleirum og fyrr á lífsleiðinni.

Sólbjörg, 16.11.2012 kl. 17:25

18 Smámynd: Jack Daniel's

Ég les hérna ótrúlega mikla sleggjudóma frá einum aðila.
Ætli sá aðili eigi börn?
Ég held ekki því alhæfingarnar eru með þeim hætti að maður hristir bara hausinn.

Það að kenna bara um foreldrum og uppeldi er hreinræktuð heimska.

Jack Daniel's, 16.11.2012 kl. 20:58

19 Smámynd: Jens Guð

  Sleggjan og hvellurinn,  þú gerir alltaf ráð fyrir því í þínum málflutningi að börn séu heilbrigð.  Heilbrigt barn sem elst upp við gott atlæti og góð gildi er ekkert vandamál.  Vandamálið er að sum börn eru veik.  Ég er að tala um andleg veikindi.  Þannig veikindi eru alveg jafn mikil veikindi og í því tilfelli þegar barn er með MS sjúkdóm eða með hvítblæði.  Það hefur ekkert með uppeldi að gera.  Barn með geðklofa og eða vímufíkn er jafn veikt og barn með MS sjúkdóm eða hvítblæði.  Það skiptir engu máli hvaða atlæti veika barnið býr við í uppeldi.  Barnið er veikt.  Í tilfelli geðklofa og vímufíknar reynir á embættismenn sem hafa með þennan málaflokk að gera.  Sumir embættismenn hafa skilning og vilja til að leita bestu leiða.  Aðrir hafa ekki sama skilning eða vilja til að afgreiða vandamálið á besta veg. 

Jens Guð, 17.11.2012 kl. 01:00

20 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

jens

ef þú hefðir lesið kommentin mín þá hefðir þú getað sparað þér tíma

"það geta vissulega verið undartekningar þegar við erum að tala um geðræn vandamál. en það þarf þá að taka á þessu aðeins öðvísi... en foreldrar eiga að sýna forystu í því. og bera ábyrgð á því. Ekki embættismenn útí bæ."

hvells

Sleggjan og Hvellurinn, 17.11.2012 kl. 03:22

21 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

annars er mikil hneigð hjá foreldrum að reyna að kenna öllum örðum um en sér sjálfum þegar kemru að uppeldi.

Kennum "kerfinu" um... "kerfið" á að ala krakkann minn upp.

Kennum embættisamnninum, löggunni, dómaranum sem dæmdi krakkann, kennum seinagang í réttarkerfinu um, kennum heilbrigðisráðherranum um, bara einhverjum allt örðum en mér sjálfum.

mannfólk er mjög gjarnt á að lifa í sjálfsblekkingum

Sleggjan og Hvellurinn, 17.11.2012 kl. 03:25

22 identicon

Ég viðurkenni það að ég hef reynt að líta jákvætt á það, og vera kannski sammála því sem Sleggjan og/eða Hvellurinn leggur fram, en það er ekki hægt. Viðkomandi er á villigötum og þarfnast aðstoðar. Aðstoðina getur hann/hún fengið því að horfa betur í kringum sig og meta skoðanir annara. Það gengur bara næst.

Halldóra Hilmars (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 11:42

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll fyrir innlitið og góð innlegg.  Já ég er sammála ykkur Kela, Jens Halldóru og fleirum, Sleggjan er ekki alveg að ná þessu, sennilega annað hvort barnlaus, eða ungur að árum. 

Það er einfaldlega ekki hægt að segja að það fólk sem lendir á villigötum sé eingöngu fólk sem kemur frá ástlausum og erfiðum heimilum.  Það er alltof mikil einföldun, og jafnvel þó svo væri þá væri það enginn afsökun fyrir því að hið opinbera þurfi ekki að taka sér tak og gera eitthvað til að bjarga þessum hópi fólks. 

Það er einfaldlega að verða mjög aðkallandi, þetta bréf sem ég set hér fram í upphafi er skrifað árið 1998, Segi og skrifa 1998, Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, en afar lítið gerst í þessum málum því  miður. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.11.2012 kl. 13:12

24 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hér um eitt alvarlegasta samfélagsmeinið í dag. Hvernig er unnt að forða ungdómnum frá eiturlyfjum og verða þeim að bráð? Gott uppeldi á að geta komið í veg fyrir eiturlyfjaneyslu. En hvernig stuðlum við að góðu uppeldi?

Fullyrt er með góðum rökum að uppeldið sé samvinna heimilis og skóla. Því miður eru ekki allir foreldrar inni á þessu, hafa kannski misst tökin á þessu og varpa uppeldishlutverki sínu alfarið á skólana. Jón á Reykjum fullyrti eitt sinn að sumir foreldrar telji að börnin eigi að vera alin upp af skólunum og lögreglunni. Nokkuð til í því.

Þegar Framsóknarflokkurinn setti fram á sínum tíma að stefna skyldi að fíkniefnalausu Íslandi um aldamótin 2000 var lítið sem fylgdi þeim áformum annað en að afla atkvæða. Þetta var því miður eins og hvert annað pólitískt slagorð. Í raun þarf að styðja mun betur við bakið á foreldrum og skólum hvað þessi mál varða. Þá þarf að koma að greiningu mun fyrr hvort t.d. einhver einstaklingur þurfi sérmeðferðar, m.a. vegna einhæfu, Asperberheileinkenna, geðveiki eða einhverrar annarar andlegrar fötlunar. Þessir einstaklingar þurfa að fá mun meiri aðhlynningar m.a. í sérskólum sem venjulegir grunnskólar geta yfirleitt ekki sinnt, séu slíkir nemendur of margir.

Um þessi mál má ræða nánast endalaust en vonandi á sem best vitrænum nótum án fordóma.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 17.11.2012 kl. 14:53

25 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

ég get tekið undir það sem Guðjón segir.

Loksins eitthvað vitrænt innlegg hér í umræðuna.

"ón á Reykjum fullyrti eitt sinn að sumir foreldrar telji að börnin eigi að vera alin upp af skólunum og lögreglunni. Nokkuð til í því."

staðreynd

Sleggjan og Hvellurinn, 17.11.2012 kl. 15:53

26 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Foreldrar hafa misst tökin þegar barn þeirra fremur sitt fyrsta lögbrot.  Þá eru börnin ekki lengur á þeirra ábyrgð heldur kerfisins.  Þess vegna er svo mikilvægt að "kerfið" bregðist rétt við.

Foreldri sem á barn á glæpabraut hugsar ekki um lögbrot þess.  Því þykir jafnvænt um barnið  sitt og áður.  En foreldrið stjórnar ekki lengur atburðarásinni - það finnur sig vanmáttugt.  Jafnvel gagnvart barninu og hegðun þess.

Viðkomandi eiga alla mína samúð.

Kolbrún Hilmars, 17.11.2012 kl. 15:56

27 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

"Loksins eitthvað vitrænt inn í umræðuna" segir þú Sleggja og Hvellur, þetta er afar illa sagt, en af því það hljómar við þitt álit þá er það eina vitræna. Þetta er illa sagt fyrir þá foreldra sem hafa misst börnin sín í óreglu.  Og það er nefnilega svo skrýtið og ef til vill hefur þú skýringu á því á reiðum höndum, af hverju verður eitt barn af fleirum svona illa úti?  Ertu ef til vill að segja að foreldar mismuni börnum sínum í uppeldi, segir rétt si sona, já þessu barni ætla ég að fórna á altari neyslunnar með því að vera honum ömurlegt foreldri?  Þú vilt ef til vill svara mér þessu?

Svo hefurðu ekki svarað ítrekaðri spurningu hér; átt þú börn?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.11.2012 kl. 16:57

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið rétt Kolbrún, þetta er nefnilega alltof oft komið úr höndum foreldra.  Og þeir geta ekkert annað gert en að horfa á og geta ekki bjargað barninu sínu eða varið það fyrir umhverfinu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.11.2012 kl. 16:59

29 Smámynd: Jack Daniel's

Fylgist með DV á mánudaginn....

Jack Daniel's, 17.11.2012 kl. 20:47

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Eitthvað spennandi þar Keli minn.  Já ég geri það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.11.2012 kl. 22:21

31 Smámynd: Jens Guð

  Sleggjan og hvellurinn,  þegar vandamálið snýr að unglingi með geðrænan sjúkdóm er ekki lengur um að ræða einkamál innan fjölskyldu.  Við,  Íslendingar,  búum blessunarlega við félagslegt heilbrigðiskerfi sem á að standa öllum opið.  Alveg á sama hátt og þegar barn greinist með MS sjúkdóm eða hvítblæði.  Við erum samfélag og lausn á veikindum fólks nær út fyrir fjölskylduna.  Við borgum hlutfallslega háa skatta til að standa undir góðu heilbrigðiskerfi.  Það er sátt um það í þjóðfélaginu að mestu óháð stjórnmálaviðhorfum að öðru leyti.

  Engu að síður er heilbrigðiskerfið ekki fullkomið.  Þar eru brotalamir.  Margar ákvarðanir velta á ákvörðunum einstaklinga sem eru misjafnlega skilningsríkir á vandamál einstaklinga.  Einstaklingur með geðræn vandamál getur lent fyrir utan "kerfið".  Hann er orðinn það gamall þegar vandamálið kemur upp að hann er sjálfráður samkvæmt lögum.  Það er sam hvort leitað er til Landlæknisembættis,  Borgarlæknis,  geðdeildar Landsspítala,  Heilbrigðisþjónustu höfuðborgarsvæðis eða annarra.  Viðkomandi þarf að fremja það gróft afbrot að dómari krefjist úrskurðar geðlæknis á heilbrigði hans.  Án sliks afbrots eru allar dyr lokaðar - á meðan sjúklingurinn hafnar allri samvinnu og afneitar sínum sjúkdómi.  

Jens Guð, 17.11.2012 kl. 23:36

32 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt Jens.  Það þarf að grípa inn í miklu fyrr en gert er. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 01:53

33 Smámynd: Sólbjörg

Það þarf að byrja forvarnir og veita hjálp strax í lægri stigum grunnskóla, hætta að láta eins og það liggi ekkert að baki þess að 25% drengja hér á landi geti ekki lesið sér til gagns. Það þarf mikinn stuðning og leysa þann vanda sem hrjáir viðkomandi barn sem gengur ekki vel í skóla eða líður illa. Hvort sem það er lesblinda, athyglisbrestur, kvíði, þráhyggja eða annað. Nær allir sem sitja í fangelsum hér og erlendis hafa átt brösótta skólagöngu í einhverri mynd. Þeir fáu sem höfðu glæsta skólagöngu reyndust þá hafa geðræn vandamál eða brotin heimili í einhverri mynd -stundum fer þetta allt saman ásamt sorglegri vankunnáttu eða afneitun þeirra sem eiga að bregðast við og vinna saman að því að hjálpa börnum.

Reynsla annarra þjóða sýnir góðan árangur þegar forvarnir gegn fíkniefnaneyslu og glæpum hafa skólagönguna sem útgangspunkt.

Guðón S. Jensson, held að þú eigir við fötlunina einhverfu þegar þú skrifar einhæfa í athugasemd nr. 24.

Sólbjörg, 18.11.2012 kl. 08:30

34 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ótrúleg einföldun að ætla að þetta sé aðallega vandamál foreldra.  Það eru auðvitað satt að sumir foreldrar mættu huga betur að líðan barnanna sinna, en það segir bara ekki alla söguna.  Það eru svo mörg dæmi um að mjög hæfir einstaklingar hafi komið vel út úr erfiðu heimili. 

Það má heldur ekki gleyma hlut þeirra sem hafa lifibrauð af því að koma unglingunum í neyslu.  Þar liggur skepna í leyni til að tæla unglinga.  Það má alveg segja að börn sem eru ekki í andlegu jafnvægi af einhverjum orsökum leiðist frekar út í neyslu.  En það er alls ekki algilt, og ást og umhyggja margra foreldra hefur ekki getað varið börnin þeirra. 

Og ég vil að þeir sem tala svona skilji að það er eitt vandamálið í þessu, sjálfsásökun foreldra barna sem hafa lent á galeiðunni.  Hvar brást ég er hugsunin.  Það er því óþarfi að bæta ofan á þá sjálfsásökun, foreldrum líður nógu illa samt.  Ég tel að fólk sem svona talar eigi ekki börn sjálft, og telji sig því geta fundið þar sökudólg.  Sem er einfaldlega rangt.  Það þarf ekki nema að benda á Thelmu Ásdísardóttir til að sýna manneskju sem stóð upp úr gegnheil manneskja þrátt fyrir skelfilegt uppeldi.  Og það eru margir slíkir þarna úti sem hafa einmitt orðið baráttufólk vegna harðræðis í uppeldi.  Ekki er ég að mæla slíku bót, bara benda á að hver einstaklingur hefur það efni í sér að standa sig hvernig sem allt veltur.  Og svo eru aðrir sem falla í freistni þrátt fyrir ást og umhyggju foreldra. 

Þetta vandamál er einfaldlega miklu dýpra og alvarlegra en svo að hægt sér að kenna foreldrum um alfarið. Þó auðvitað eigi þeir að hugsa sinn gang um hvað má betur fara í uppeldi.

Þetta með að foreldrar ætlist til að skólinn ali upp börnin er ekki rétt að mínu mati.  Það getur hafa verið svo, en í dag er miklu meira samband milli foreldra og skóla.  Ég veit það vegna þess að ég er með ungling í 10 bekk, og þar er virkt foreldrafélag, og góð samvinna milli foreldra og skólayfirvalda, m.a. með punktakerfi þar sem fylgslt er með börnunum, vikulega sent heim til foreldra hvernig barnið er að standa sig á öllum sviðum.  Það eru einfaldlega aðrir tímar í dag og betur haldið utan um skólagöngu. 

Og það eru ekki bara fatlaðir sem lenda í þessu.  Það hefur sýnt sig þegar skoðaðar eru tölur um unglinga sem hafa lent illa í þessu, óheppilegur félagsskapur er afar algengt, þ.e. eldri menn sem tæla ungar stúlkur til fylgilags og eiturlyfjagjöfum.  Unglingar sem eru orðnir 13 ára og eldri, láta ekki foreldrana vaka yfir sér, þeim finnst þau vera orðin fullorðin og mörg þeirra vilja ekki of mikil afskipti foreldra.  Og það veldur pirringi á heimilinu.  Sem betur fer ekki í mínu tilfelli, en ég þekki þetta samt og veit alveg hvernig þetta gengur fyrir sig hjá mörgum.

Get upplýst um það hér að ég gerði skurk fyrir mörgum árum síðan, með að fara inn á heimili þar sem ég vissi að unglingar voru að byrja í neyslu, var þar í samvinnu við son minn og lögregluþjón.  All flestir foreldrarnir sem ég ræddi við brugðust afar vel við, það voru sárafáir sem trúðu mér ekki.  Seinna hafa sum þessara barna komið til mín og þakkað mér fyrir að hafa forðað þeim fá þessu lífi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband