22.8.2011 | 17:08
Safariferð til Keldudals og matur í Tjöruhúsi.
Ég fór með vinnufélögum mínum fyrrverandi í ansi skemmtilega ferð í gær, dagsferð og grill í Keldudal í Dýrafirði.
Þetta var fróðleg ferð og dálítið óhugnanleg á köflum.
Ekið er gegnum Þingeyri og út fyrir Haukadal, svið Gísla Súrssonar, og yfir ófæru sem er all ófrýnileg til Keldudals.
Vegurinn er torfarinn slóði, hér áður var gengið fjaran, en háls einn gengur út í fjörðin, svo ekki er hægt að fara fyrir hann á fjöru, heldur var sett vað sem menn hífðu sig upp á hann til að komast leiðar sinnar, það hefur verið þrekvirki þegar þurfti að bera byrðar heim, þar sem ekki er gott að komast að frá sjó.
Við komumst samt klakklaust á leiðarenda, og fórum að leita að góðum stað til að grilla á.
Besti staðurinn reyndist vera í skjóli við Hraunskirkju, sem er gömul kirkja byggð á annari árið 1880. Hefur þarna staðið af sér öll veður og er í sjálfu sér afskaplega merkileg, var afhelguð, en hefur síðan fengið að þjóna fólki við ýmsar athafnir. Er í eigu Þjóðminjasafns Íslands.
Þær leynast víða perlurnar.
Fararstjórinn okkar var Gunnhildur Elíasdóttir. En hún er bæði fædd og uppalin til unglingsára hér í dalnum, og gat frætt okkur vel um búskaparhætti og dugnað fólks á þessu harðbýla en fallega svæði. Að vísu ekki mjög harðbýlt þannig, því dalurinn teygir sig langt iðagrænn og miklar sláttur, en vegna samgangna illbúandi.
Forláta gamlir munir eru þarna. Handverk liðinnar tíðar, sem ber fólki sveitarinnar fagurt merki.
Gunnhildur heklaði þennan altarisdúk, hún er eins og hennar ætt öll sömul sannkölluð handverkskona.
Hér les hún ljóð um kirkjuna eftir föður sinn Elías Michael Vagn Þórarinsson frá Hrauni í Keldudal, og það var dýrt kveðið. Það stóð til að rífa kirkjuna, en heimamenn gátu komið í veg fyrir það, og nú stendur þessi fagri minnisvarði sveitungum til heiðurs. Þó allir séu fluttir burtu.
Predikunnarstóllinn vakti greinilega mesta athygli okkar fólks.
Svo og gamla kirkjuklukkan. Sem er annað hvort gömul skipsklukka eða upprunalega kirkjuklukka. En hún hefur fögur hljóð. Við fengum að heyra það.
En þá var að huga að veraldlegum hlutum eins og að fá sér að borða.
Það var ósköp notalegt að vera í skjóli kirkjunnar, því það var dálítill vindur þó ekki væri kalt.
Hér er gamall kirkjugarður, og hér eru stórar sögur og sumar all hrikalegar.
Eins og sagan um hana Gunnhildi Sumarliðadóttur. Hún varð ófrísk og sagan segir að faðirinn hafi ekki viljað gangast við barninu. Bræður Gunnhildar en þau bjuggu á Sveinseyri, þurftu að fara yfir fjörðin til að heyja, hún fékk að fara með, en var þá barnshafandi. Sagt er að þegar þau voru á heimleið fór veður versnandi, og þegar þau voru komin í fjöruborðið valt báturinn, bræðurnir huguðu fyrst að heyinu, en fóru svo að svipast um eftir systur sinni. Hún fannst svo í fjörunni og þeim sýndist hún látinn, báru hana heim í skemmu. En hún rankaði við sér, og urðu þeir þá svo hræddir að þeir gengu frá henni, héldu að hún væri draugur.
Nema að svo gerist það að eftir jarðarförina fer hún að ganga aftur í ljósum logum um sveitina. Þessu er reyndar lýst í kvæði eftir Elías. Hún vitjaði hans þegar kona hans bar barn undir belti og vildi að barnið bæri nafn hennar. Og það var gert, og er það sú sama Gunnhildur sem var fararstjóri okkar þessa ferð. Ég ætla að láta ljóðið fylgja, því það er svo magnað.
Septembermyrkrið er svart og napurt
Sumri er brugðið, fólkip dapurt,
Á Brimnesi og Hálsum brotnar aldan
Blakta stráin við norðankaldann.
Við Sveinseyrarkambinn er súgur þungur
Svarrandi sleikja hann löðurtungur.
Dagsbirtan kafnar í kvöldsins grána
Kembir brimsjórinn Oddatána.
Bóndinn á Eyri er aldurhniginn
Eitthvað finnst honum vindleg skýin,
Hann eirðarlaus reikar og yfir fjörðinn
Augunum starir, en sjór og jörðin
Renna saman í rökkurmóðu
Regnskýjabólstrarnir upp sér hlóðu.
Skyldi ekki báturinn bráðum lenda
Þessir bölvuðu flutningar taka enda.
En hvað er að tala, það telst nokkur vandi
Þegar tún eru varla ljáberandi,
En úthaginn nálega yfirsetinn
Og ekkert sem getur jafnað metin.
Þeir höfðu því slegið handan fjarðar
Og heyskapinn, þennan gróður jarðar
Bundið og flutt til bjargar knúðir
Borið á skip við Helluflúðir.
Já, bræðurnir fóru í bítið í morgun
Að binda restina og inna borgun
Af höndum, fyrir það hey sem náðist
En hins ber að geta sem áður láðist:
Að með þeim hún Gunnhildur fékk að fara
Og fyrir það ætlaði hann að svara.
Því henni var erindið mjög í muna
Og meira en fólkið skyldi gruna.
Hann leyndist nú ekki sá ljóðurinn arni
Að líklega átti hún von á barni.
Sinn verðandi barnsföður vildi hitta
Og við hann í eitt skipti reikninginn kvitta.
Ef þráaðist hann yrði þungt í sinni
Þekki ég skapið í Gunnhildi minni.
Í Alviðru hafði sá vistina valda
Og vænti sér ríflegra endurgjalda.
Að setjast í búið mun beinlínis kætann
Af barnsaldri þó væri heimasætan.
En hvað sem því líður er löng orðin biðin
Hún leggst eins og mara á sálarfriðinn.
Eitt er þó víst að eitthvað tefur
Um sig í hjartanu myrkrið grefur.
Vaxandi brimhljóð til bæjar greinist
Bak við það óttinn og hættan leynist.
Að lenda með háfermi heys í slíku
Er hæpið að treysta, og því um líku.
Er betra að sinna á björtum degi
Svo bátur og mannafl duga megi.
Og fólkið á Sveinseyri situr og bíður
Samræður hljóðna en tíminn líður.
Þekjan á bænum er stormhviðum strokin
Það er stigið um hlaðið í vökulokin.
Hér voru þeir mættir bræður báðir
Blautir og kaldir, soltnir og hrjáðir.
Örþreyttir menn frá önn og striti,
Óskadraumurinn hvíld og biti.
Vel er að brimið ei varð til saka
En var ekki Gunnhildur komin til baka?
Spurningin féll líkt og högg frá hendi
Heimilisfólkið þeim bræðrum sendi-
-augnatillit sem andsvara krafðist,
En eitthvað fyrir þeim báðum vafðist.
Að lokum kom svarið nú seig á þorið
Menn sáu að hér hafði slys að borið.
Báturinn hjá okkur fór með flötu
Féllu brotsjóar upp í götu.
Gunnhildur sat upp við sátuhlaðann
Við sáum það eitt, hún var farin þaðan
Og héldum að heim þá hefði hún gengið,
Hita og hvíld eftir volkið fengið.
Við sinntum því einu að bjarga í bili
Bátnum og halda á réttum kili.
Þeir fóru um nóttina líksins að leita
Lagðist á hugina sorg og þreyta,
Með fjörunni gengu þeir gripnir kvíða
Geigþungt er myrkrið við að stríða.
Í Bótinni hafðana borið að landi
Biksvarta hárið var orpið sandi.
Þar lá hún og starði opnum augum
Annarleg, fögur, með köldum taugum.
Til naustsins þeir báru líkið og lögðu
Á líkfjöl, en fátt hvor við annan sögðu.
Þá slokknaði ljóstýran allt í einu
Eins og nú væri fátt á hreinu.
Til bæjar þá annar bróðirinn gengur
Að bjarga við ljósinu, óttans strengu
Bærðist hjá hinum sem beið hjá henni
Bogaði svitinn af fölu enni.
Þá reis hún upp það var reginkraftur
Hver ræður þessu, hún gengur aftur.
Hann greip þá exi og gekk til hennar
Ganga um þetta sögur tvennar.
En líkið þá niður seig að seti
Sem hún í bili undan léti.
Að Hrauni skyldi nú Gunnhildi grafa
Það gat ekki leikið á neinum vafa.
En kirkjusókn þangað Eyrarmenn áttu
Og embættisverka þar krefjast máttu.
Þeir lögðu af stað í logni og blíðu
Og lentu í dalnum í veðri fríðu.
Já, kistuna skyldi til kirkju bera
En karlmenn einir það máttu gera.
Um hálfnaða leið var sem heljarþungi
Í hendurnar sigi, en kaldur drungi
Bugaði alla, þeir báru sig miður,
Best var að setja kistuna niður.
Þeir hvíldust um stund og úr limum líður
En líksins í Hraunsgarði gröfin bíður.
Er kistuna aftur í hendur þeir hefja
Hugsuðu: Númá ei lengur tefja.
Þeim brá, hún var létt eins og léki á vafa
Að lægi þar nokkur sem þyrfti að grafa.
Í Hrauni sjá menn að upp holtin hendist
Og heim yfir túnið sem örskot sendist.
Konu í líkhjúpi, kræfan anda,
Kuldi frá henni þeim virðist standa.
Inn yfir garðsvegginn kona sú hverfur
En klukknahljómurinn eyrun sverfur.
Vaxa í skuggunum vofur bleikar
Varið þið ykkur, Gunnhildur reikar.
Áratugir og aldir renna
Atvikin mark sitt í hugann brenna.
Í Hraunsgarði liggur hún loks í friði
Leiktjöldin fallin kyrrt á sviði.
Græðlingskvistur á gröfinni stendur
Gróðursettu hann vinahendur.
Höfundur: Elías Mikael Vagn Þórarinsson
Hrauni Keldudal Dýrafirði.
Við urðum Gunnhildar ekki vör, enda hafði verið settur kross á leiði hennar nýlega. Og ef til vill hefur hún bara fagnað fjölmenninu.
Hraunshúsið hefur mátt muna sinn fífil fegri, aðeins lengra niðurfrá var svo annar Hraunbær en af honum var ekkert eftir nema grunnurinn og hluti strompsins, í því húsi fæddist Gunnhildur fararstjóri. En hér er mikið veðravíti á vetrum.
Rútubílstjórinn Elías Sveinsson og hans elskulega kona.
Fólk gerði sér gott að matnum og félagskapnum.
Hér les Gunnhildur upp hið magnþrungna ljóð um Gunnhildi Sumarliðadóttur.
Við skoðuðum svo sumarbústað sem er rétt þarna hjá. Fólkið sem hann á hefur plantað hér ýmsum áhugaverðum trjám, sá ekki betur en hér væru nokkrar steinbjarkir m.a.
Átta mig ekki alveg á þessari plöntu, það væri gott að fá nafn yfir hana. Kannast samt við ættina, en kem henni ekki fyrirmig.
Þessi horfir svo hraukfránum augum yfir landið og gætir þess örugglega.
Svo var slegið á létta strengi eins og okkar er von og vísa.
Margt að ræða og margir brandarar sem fuku.
Þegar hér var komið sögu var farið að rigna, svona léttum úða lóðréttum, þó var hlýtt.
Man ekki nafnið á fjallinu en tignarlegt er það með sinn gráa trefil.
Skemmtilega staðsettur bátur.
Fjölskyldan bjó svo hér uns þau þurftu að flytja þegar barnamegðin þurfti að fara í skóla. Þá var flutt í Haukadal þar sem var skóli og félagsheimili og sannkölluð menning.
Gunnhildur sagði mér að vinnukona á bænum hefði fundið þennan stein upp í fjalli, og komið með hann heim í svuntu sinni. Í fyrsta lagi hefur svuntan verið úr ansi sterku efni og svo er líka spurning hvort vinnukonan hafi ekki líka verið að tröllakyni. En þessi steinn var notaður til að gefa hundunum mat.
Hér eru svo bændurnir í ferðinni að skoða fornfálegt vinnutæki.
Ég lýk svo þessari dulúðugu sögu á ævintýraskipinu, ef til vill er þetta hinn eini og sanni Hollendingurinn fljúgandi, hver veit. Í íslenskum sveitum getur allt gerst.
Og innilega takk fyrir mig kæru vinnufélagar og eiginkonur. Þetta var frábær ferð.
Vinur okkar fjölskyldunnar Stefan Abright bauð okkur að borða í Tjöruhúsinu hjá Magga Hauks. Þessi staður er löngu orðin heimsfrægur og þangað flykkjast útlendingar allstaðar að úr heiminum og svo ísfirðingar sem vel kunna að meta þennan dýrðarstað. Og nýveiddan fiskinn sem þar er boðið upp á.
Það var yfirfullt út úr dyrum, en allir þolinmóðir og glaðir.
Takk fyrir matinn Stefan minn.
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
- prakkarinn
- katrinsnaeholm
- jensgud
- matthildurh
- jenfo
- kiddat
- hronnsig
- katlaa
- katagunn
- kolbrunb
- joiragnars
- birgitta
- holi
- rs1600
- ktomm
- heidathord
- vestfirdir
- steina
- laufeywaage
- maggadora
- lehamzdr
- icekeiko
- isdrottningin
- skaftie
- hneta
- hross
- amman
- johanneliasson
- helgamagg
- zeriaph
- olafia
- jogamagg
- tigercopper
- ellasprella
- zumann
- estro
- sjos
- gmaria
- gudr
- ktedd
- salvor
- bertha
- solisasta
- meistarinn
- baenamaer
- sirrycoach
- annalilja
- komediuleikhusid
- tildators
- hector
- bene
- skelfingmodur
- fifudalur
- xfakureyri
- madddy
- siggith
- antonia
- elina
- rosaadalsteinsdottir
- framtid
- annaragna
- sirri
- thjodarsalin
- bestalitla
- helgatho
- jyderupdrottningin
- hallaj
- ingistef
- gudruntora
- zunzilla
- sisvet
- aevark
- bostoninga
- ace
- drengur
- robbitomm
- faktor
- disag
- ffreykjavik
- ma
- rannveigh
- igg
- robertb
- sgisla
- rafng
- helgi-sigmunds
- lotta
- fullvalda
- heimssyn
- naflaskodun
- johannesthor
- jeg
- huxa
- sigrunzanz
- jodua
- tryggvigunnarhansen
- minos
- saemi7
- blossom
- ansigu
- skagstrendingur
- beggo3
- h2o
- westurfari
- ammadagny
- bjartsynisflokkurinn
- elfarlogi
- esig
- sunna2
- frjalslyndir
- gudlaugbjork
- gp
- hreinn23
- guki
- gustafskulason
- harhar33
- diva73
- huldagar
- kliddi
- axelma
- keli
- bassinn
- jonvalurjensson
- josefsmari
- kuldaboli
- kiddatomm
- ksh
- kristjan9
- mio
- omnivore
- sumri
- samstada-thjodar
- fullveldi
- nafar
- stjornlagathing
- sattekkisatt
- athena
- tikin
- vallyskulad
- vest1
- totibald
- tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 2022143
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl og takk fyrir síðast.
Þær eru margar leyniperlurnar okkar hér á landi.
Þakka þér fyrir þessa fínu ferðasögu.
Kveðja,
I.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 19:58
Þessi vegur er einn af örfáum vegum sem við höfum ekki farið, það er lofthræðslan í mér sem hefur alltaf stoppað það. Fóru þið hringinn eða bara að bænum? Höfum gert eina tilraun en .................
Takk fyrir að sýna mér þessa perlu, kannski ég fari næst þegar við förum vestur.
Knús í kúlu
Kidda, 22.8.2011 kl. 20:16
Gleymdi að minnast á þetta magnaða ljóð, það er meiriháttar.
Kidda, 22.8.2011 kl. 20:18
Eins og alltaf gaman að vera fluga á vegg hjá þér. Var þetta ekki Jónas okkar sem brá þarna fyrir á nokkrum myndum?
Dísa (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 21:28
Takk sömuleiðis Ingibjörg mín.
Við fórum bara í Keldudal og svo aftur til baka Kidda mín. En þetta er allt í lagi að fara að sumri til. Já ljóðið er flott.
Mikið rétt Dísa mín þetta var hann Jónas okkar og hans ekta kvinna sem voru með í för.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 21:50
Takk ljúfust fyrir yndislegar myndir og ljóð
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.8.2011 kl. 22:31
Takk Milla mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 23:03
Skrítið að hafa aldrei farið lengra en í Haukadal,þrátt fyrir að búa þarna öll bernsku árin. Mig minnir að Élías hafi rutt veg alla leið út í Svalvoga,það þótti fréttnæmt þetta einkaframtak. Takk fyrir myndir og ljóð.
Helga Kristjánsdóttir, 23.8.2011 kl. 11:54
Já Elíasi Kjaran var ekki fisjað saman. Við fórum allan hringin fyrir nokkrum árum, þetta er hrikaleg leið en afskaplega skemmtileg.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.8.2011 kl. 12:23
Þetta er magnað ljóð!
Hrönn Sigurðardóttir, 24.8.2011 kl. 14:57
Já og frábært að fá það lesið einmitt þarna.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2011 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.