Vont karma Hörpu.

Verð að segja að áhugi minn á Hörpu er nú ekki meiri en svo að ég missti af öllu þessu umstangi með tendrun ljósa og væntingar sem fólk hefur talað um hér.  Ég hafði því engar væntingar hvað þá að ég vissi að það ætti að tendra þessi ljós.

Ég skildi ekkert í þessari útsendingu í gær.  Fyrst þessi fáránlegu fíflalæti í niðurtalningunni sem var reyndar illa æft og útsendingin klikkaði oftar en einu sinni.  Og svo flugeldasýningin sem hefur örugglega verið flott, en var klippt á í miðju kafi, þegar búið var að segja manni að það yrði rúsína í pylsuendanum, og ég beið spennt eftir síðasta flugeldinum sem alltaf er sá flottasti.  Nei þá kom gamalt myndband af AC/ DC?  Lá þeim svona mikið á að komast í jammið starfsmenn að hætt var í miðjum klíðum?

En aftur að Hörpu og ljósadýrðinni.  Ég hafði sem sagt ekki hugmynd um að það ætti að tendra ljós, og skildi því ekki hvað var alltaf verið að sýna Hörpu og einhver blikkandi smáljós. 

Mín skoðun er sú að Harpa hafi vont karma.  Hver vandræðagangurinn eftir annan hafa elt bæði hús og starfsfólk. 

Fyrst fannst fólki bruðl að halda áfram með byggingu hússins eftir hrun.  Og mörgum fannst þar á meðal mér að það hefði mátt nota peningana í eitthvað þarfara en þessa kirkju elítunnar í Reykjavík.

Síðan kom í ljós að póstar pössuðu ekki og varð að rífa niður hluta hússins.  Þá kom í ljós að byggingin er meira og minna ryðguð. 

Svo hefur kviknað tvisvar sinnum í.  Reiði vegna bílastæða, reiði hljómlistarmanna vegna ráðsemi stjórnar í sambandi við tæknimál og hljómlistagræjur.  Reiði þeirra sömu vegna óréttlátra krafa um hvernig beri að greiða fyrir húsið og að ekki  megi selja sínar vörur þar inni. 

Allt þetta ber hrein merki þess að þarna er fólk að störfum sem ekki ræður við almannatengsl.  Fólk sem hefur verið ráðið þarna út af klíkuskap en ekki hæfni.  Hroki og yfirgangur er oft það sem einkennir slíkt fólk.

Þess vegna kom mér ekkert á óvart að fólk yrði fyrir vonbrigðum með ljósadýrðina sem átti eftir því sem fram hefur komið að ríkja þarna, endapunktur menningarnætur og ég veit ekki hvað. 

Það hlýtur að vera erfitt að floppa svona gjörsamlega frammi fyrir alþjóð í beinni útsendingu.  Ég sendi því þeim sem að þessu mannvirki hafa staðið og borið hita og þunga af þessu öllu saman mínar innilegustu samúðarkveðjur.  Eina sem ég vona er að þið hafið lært eitthvað af þessu.  Og hugsið ykkur um næst þegar ykkur verður trúað fyrir svona hlutum að allt kapp er best með forsjá, og að enginn kemst lengra en þangað sem honum er leyft að fara.  Það þýðir ekki að vaða yfir þá sem eiga að fylla húsið af list sinni, hrekja burtu fleiri listamenn með snobberíi.

En ef karma Hörpu verður ekki breytt með nýrri hugsun, umburðarlyndi og hógværð, verður þetta hús aldrei annað en það sem hún sýnist í mínum augum ryðhrúga til merkis um græðgi, bruðl og dansandi gullkálf og hananú! 


mbl.is Glerhjúpur Hörpu tendraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þeir sem ábyrgðina á þessum skandal bera þurfa ekki að bera kostnaðinn eða þá "hámenningarliðið" sem húsið er byggt fyrir. Kostnaðinn og reksturinn mun almenningur í landinu bera, fólk sem að stærstum hluta mun aldrei eiga erindi í þetta hús.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.8.2011 kl. 12:38

2 Smámynd: Kidda

Er algjörlega sammála þér með Hörpuna. Það sem ég hef séð af myndum frá ljósashowinu er ekkert flott. Það hefði verið hægt að gera margt fyrir aurinn sem fór í þessa forljótu byggingu.

Kidda, 21.8.2011 kl. 12:39

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að mínum dómi er þetta álíka flopp og Landeyjahöfn.  Nema ég hef það á tilfinningunni að andstaðan við byggingu þessa húss hafi verið meiri hjá almenningi en bygging Landeyjahafnar.  Það voru einungis einhverjir "snobbarar" og "menningarelítan" sem vildu þetta hús og sennilega verður raunin sú að þessir aðilar verða þeir einu sem fá inni í þessu húsi en við skattgreiðendur (snobbararnir og menningarelítan greiða litla sem enga skatta).

Jóhann Elíasson, 21.8.2011 kl. 12:41

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég var lögst uppí að lesa en bóndinn var að horfa, hann var svo gáttaður á þessu að ég varð að fara fram að sjá, þetta var bara ekkert :( 

Ásdís Sigurðardóttir, 21.8.2011 kl. 12:56

5 identicon

Heil og sæl Ásthildur Cesil - og aðrir góðir gestir, þínir !

Ásthildur !

Nákvæmlega; á þessa vegu, hefi ég hugsað - og huga að enn, gagnvart þessum yfirgengilega kumbalda, suður við Reykjavíkur höfn, frá öndverðu.

Hafði starx í upphafi; illan bifur á þessarri framkvæmd, miðað við þær kringum stæður, sem þá þegar voru orðnar, hér í landinu - svo; ekki sé talað um, eftir Haustið 2008.

Tek undir; með ykkur - nema lítilsháttar fyrirvara set ég, við ályktun hins mæta Stýrimanns; Jóhanns, um Landeyjahöfn, Þar; hefðu hlutir betur farið, hefði verið hlustað á tillögur og rök Rangæinga og Eyverja, áður en sú framkvæmd fór á fullt, með fulltingi Reykvízkra reiknistokka Alfræðinga, gott fólk.

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 13:48

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Harpan, þessi eina bygging, kostaði meira en fékkst fyrir Landsbankann þegar ríkið einkavæddi hann. Og dýr reyndist sá banki allur.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2011 kl. 13:50

7 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Eftir nokkur ár verða glerin í Hörpunni orðin mött af sjáfarseltu- og járnið einnig ryðgað- þá verður lítil prýði af þessu- þarna virðast aðeins fáir meðalmenn komast inn- se enga stórviðburði- því miður- hvar er menninngin sem átti að LYFTA OKKUR Á HÆRRA PLAN   og syna okkur frægt listafólk '  þarna smæla bara ráðríkar kellingar og allt er í upplausn eins og húsið sjálft- vildi ekki vera þar inni þegar það hrynur !

Erla Magna Alexandersdóttir, 21.8.2011 kl. 13:51

8 identicon

Ég er bara alls ekki sammála með Hörpuna.  Það er magnað að þessi bygging, þó of dýr sé, hafi verið kláruð við þessar erfiðu aðstæður sem nú ríkja.  Þó hafi hún verið allt of dýr, en lítið við því að gera núna.  Hún er stórglæsileg og Eldborgarsalurinn er ótrúlegur.  Ég hvet ykkur sem rakka þetta hús í spað að kíkja inn í þetta glæsilega hús og fara á tónleika með Sinfó eða öðrum tónlistarmönnum.  Og í guðanna bænum, hættiði að gera lítið úr íslenskum listamönnum og kalla þá snobbhænur og elítu!  Hins vegar var varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum með ljósasjóvið, get ekki viðurkennt annað! Og að RÚV hafi klippt á flugeldasýninguna þegar hún var rétt hálfnuð er alveg fáránlegt!

Skúli (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 14:41

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er að halda því til haga að í grein í sumar setti Þröstur Ólafsson það fram að 40% af kostnaði vegna Hörpu hafi fengist í gegnum Icesave og hef ég ekki séð þessu mótmælt.

Þetta þýðir að innifalið í þessum kostnaði eru fjármunir, sem fengnir voru með skrumi út úr breskum og hollenskum líknarsjóðum, ellilífeyrisþegum og sveitarsjóðum. 

"Tær viðskiptasnilld" var einkunnin sem bankastjórinn gaf þessu. 

Hægt var að ná fram öllum sjálfsögðum markmiðum íslensks listafólks með margfalt minni fjárútlátum og þess vegna hefði átt að vera búið að reisa hús af þessu tagi fyrir löngu. 

Í staðinn verður íslenskum listamönnum legið á hálsi fyrir að vera baggi á þjóðinni. 

Ómar Ragnarsson, 21.8.2011 kl. 15:08

10 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Harpa =Riðhrúa..Áthildur settu Pípí í stofufangelsi ég verð fyrir Vestan 24-28 Ágúst,vantar í matinn..

Vilhjálmur Stefánsson, 21.8.2011 kl. 15:49

11 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég hef auðvita aldrei komið inn í þessa Hörpu, þar sem ég reyni að jöfnu að velja mínum skrefum gagn.  Þar gæti þó verið dýrð einhverjum til handa, en ekki trúi ég að þar sé afl og steðji til smíða á íslandssögu framtíðarinnar. 

Allir þurfa þó skjól fyrir sitt næði og ég hef alltaf þurft að smíða mitt sjálfur án aðstoðar. 

Samt er ég á því að fyrst við höfum efni á að byggja kirkjur að þá höfum við efni á því að smíða hljómlista hús til að þakka góðu fólki.  En það er ekki alveg sama hvað hlutirnir kosta og þeir þurfa að vera sniðnir að aðstæðum, með hagkvæmni að marki. 

Gler er vissulega merkilegt efni en það einangrar illa og óhreint er það ekkert sérstaklega merkilegt. Íbúar á landsbyggðinni vita að jafnvel þó þeir búi kílómeter frá sjó þá þarf að þvo seltunna af gluggunum sem kannski eru fjórir eða sex.  En þegar hús er smíðað úr gleri og járni, skyldi þá húsvörðurinn þvo glugganna og pensla yfir ryðblettina?       

Hrólfur Þ Hraundal, 21.8.2011 kl. 17:27

12 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Sæl Ásthildur mín!  Mér var eins farið og þér,með allar þessar væntingar um ehv. tilkomumikið,sem varð svona endasleppt.  Ómar ætti ég(ofl.),að minnkast mín fyrir fjármögnun þessarar hallar,vegna ummæla Þrastar Ólafssonar,að 40% hafi komið frá Icesave?   Fagna!!!!! rífa út af reikningum líknar,elli og sveitasjóðum útlendinga,  Þú veist vel ef þú vilt vita,að þeir hafa þegar fengið greitt,úr tryggingasjóði sem L.Í. var skilt að greiða í. Varðandi Hörpu,mér finnst hún tilkomu mikil er ég keyri fram hjá henni. Ég var efins um áframhald eftir að grunnurinn var kominn,þar spiluðu peningamál inn í,eftir að hrunið varð staðreynd. 

Helga Kristjánsdóttir, 21.8.2011 kl. 17:57

13 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það er hughreystandi og virkilega skakandi að vita að bygging Hörpunnar hafi að fjörutíu hundraðshlutum verið fjármagnað með strandhöggi í Englandi og Hollandi.

Verður þá Icesave þífið aldrei endurgreitt?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.8.2011 kl. 19:00

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir innlitið öll.  Vilhjálmur ég læsi Pípí inni þessa daga

Skúli, er Harpa fullbyggð?  Ég held ekki.  Nú taka við endalausar viðgerðir og gluggaþvottar og ég veit ekki hvað. Þetta hús á eftir að kosta þjóðina annað eins og nú þegar hefur verið veitt í byggingu hennar.  Þetta hús er byggt á sandi. 

Ég var ekki að gera lítið úr listamönnum, ég var einmitt að segja að í þessu húsi er sorterað úr hverjir eru listamenn og hverjir ekki.  Listinn er veginn og metinn og snobbið verið sett ofan á.  Ég er viss um að til dæmis Frans List hefur verið rokkari síns tíma, og allir vínarvalsarnir og fallegu lögin verið dæmd sem lágmenning á þeim tímum.  Það er nefnilega ekki hægt að setja stimpil á list. 

Þú blottar þig svolítið þegar þú segir; Ég hvet ykkur sem rakka þetta hús í spað að kíkja inn í þetta glæsilega hús og fara á tónleika með Sinfó eða öðrum tónlistarmönnum. 

Málið er einmitt þetta í hnotskurn Simfóníuhljómsveitin er sett í forgang, hinir úti í kuldanum.  Átti þetta ekki að vera tónlistarhús FYRIR ALLA?  Hélt það.

Ómar ég er sammála þessu;

Hægt var að ná fram öllum sjálfsögðum markmiðum íslensks listafólks með margfalt minni fjárútlátum og þess vegna hefði átt að vera búið að reisa hús af þessu tagi fyrir löngu. 

Fyrir nú utan að hefði hófs verið gætt í byggingunni hefði ef til vill verið hægt að leggja meira í kostnað við að byggja upp tónlistarmenn framtíðarinnar, því eins og við munum var verið að skera niður í tónlistarskólum landsins.  Þetta ber því allt að sama brunni, bruðl, hroki og vitleysisgangur.

Axel ég bara vona að Icesave verði aldrei greitt af okkur almenningi í þessu landi.  Þeir greiða sem það ber.  Það eru þeir sem stofnuðu til þessara skulda en sitja nú í vellystingum praktuglega sumir meira að segja með diplómatapassa frá Íslenska ríkinu, boðsgestir á opnunarhátíð Hörpu eins og Björgúlfur eldri.  Þvílík reisn og þvílík yfirsýn á íslenskan almenning í þessu landi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.8.2011 kl. 20:10

15 Smámynd: Dexter Morgan

Harpann og allur hennar ljómi, sloknaði endanlega í gærkvöldi. Maður var svo sem á því að gefa þessu séns, af því að þetta var nú komið til að vera. En þessi "bilaða jólasería" sem tendruð var í gærkvöldi eftir að einn virtasti listamaður í seinni tíð var keyptur til að "hanna" ljósadýrðina, gerði útslagið.

HARPANN er PRUMP, prump þeirra ríku, merkilegu, snobbara, listaelítunar og annara sem endilega vilja tilheyra svokölluðu þotuliði.

Það versta við þetta er þó það, að VIÐ, hin, þurfum að þola prumpufýluna og eins og venjulega, borga brúsann.

Dexter Morgan, 21.8.2011 kl. 23:08

16 identicon

Ég meina, er hægt að hugsa sér eitthvað frumlegra en svona random blikkljós í gluggum? Þetta var glæsilegt.

Og þessi bygging er rosalega modern og flott, og lítur út eins og pappakassi sem búið er að sparka duglega í.

En að staðsetja þetta risavaxna glerhýsi niðrí fjöru í einu vindasamasta landi heims er þó mesta snilldin. Það mun tryggja gósentíð hjá gluggaþvottamönnum um ókomin ár sem munu hafa nóg að gera við að skola sjávarsalt og gúanó af óteljandi gluggum.

http://www.dv.is/frettir/2011/2/3/28-milljonir-i-gluggathvott-medan-er-skorid-nidur-i-tonlistarnami/

Baðvörður (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 23:27

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Dexter ég vona bara að með þessu slokneríi verði sinnaskipti með snopperíið bruðlið og fánýtið.  Ef svo verður þá má sætta sig við kostnaðin.  Annars ekki.  Nú verður þetta fólk að fara að skilja að Gullkálfurinn var ekki til að dansa í kring um, heldur til að bræða og gera úr fjármagn sem myndi duga öllum til góðs. 

Það er alveg komið nóg af þessari vitleysu og hrunadansi. Við einfaldlega viljum ekki sætta okkur við þetta lengur.  Fólk í forgang, það á að verða mottóið okkar.  Bara að þessi forgangshópur fari að skilja það.  Annars er bara ekkert eftir nema upplausn eins og er að breiðast út núna nákvæmlega um allan heimin, þar sem fólk hafnar því að sumir geti dansað á rósum, meðan við hin tiplum í kring um þyrna og eld.  Það bara gengur ekki upp lengur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.8.2011 kl. 23:36

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega Baðvörður, gluggaþvottur til eilífðar.  Í San Fransisco er brú, hún er máluð allt árið alla tíð.  Málararnir byrja á öðrum endanum og mála hana út í hinn endann, þegar því er lokið er komin tími til að byrja aftur á byrjunarreit.  ég held að þetta gluggaþvottadæmi sé ennþá verra en máleríið á brúnni í San Fransico sem reyndar er milljónasamfélag, ekki bara þrjúhundruð þúsund eða minna( þar sem margir eru flúnir til Noregs).  Það verður því þungur baggi á mér og mínum og okkur öllum að borga í þessa hít.  Best væri að ryðhrúgan fengi bara að ryðga í friði eins og hvert annað tákn um tímans tönn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.8.2011 kl. 23:42

19 identicon

Kolsvart karma. Harpa hefur verið vondur miðaldakastali í síðasta lífi.

Gorgeir (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 08:35

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm örugglega Gorgeir.  Ef þetta á að vera skot, þá geigar það.  Tek ekki svona nærri mér.  Held að fólk almennt hafi gert sér grein fyrir hvað ég er að meina, þó ég hafi ekki notað rétt hugtak. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 09:53

21 identicon

Líður ykkur ekki öllum vel núna..??, búin að velta ykkur upp úr neikvæðni dauðans..??, nú er bara Ásthildur, að fara að blogga hvernig við öll getum framið hóp sjálfsmorð, kannski í beinni á RÚV.

Helgi Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 10:16

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já er það já Helgi Rúnar.  Má ekki gagnrýna það sem miður fer?  Og nú hefur komið í ljós að það eru ekki bara þessir skandalar sem ég hef talið upp hér að framan í boði heldur líka 150 manna lúxusveisla í boði almennings á skipi úti fyrir herlegheitunum með pr trikki frá forstjóranum.

Það er gerður greinamunur á vandlætingu og gagnrýni og neikvæðni dauðans.  En auðvitað má ekki hrófla við góðkunningum almennings, þeir standa alltaf upp úr ekki satt?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 10:59

23 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það kemur alltaf betur og betur í ljós fyrir hverja rekstraraðilar hússins telja það vera byggt. Almenningur má síðan fljóta með á "3. farrými" til að halda niðri kostnaðinum fyrir elítuna í bestu sætunum, það sem þá vantar upp á er sótt í vasa skattgreiðenda. Það verða því miður engar "léttgreiðslur", óttast ég.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.8.2011 kl. 12:20

24 identicon

Það er illur andi yfir þessu húsi.

Það er að stórum hluta byggt fyrir stolið ICESAVE fé og afgangurinn er kreistur út úr fórnarlömbum hrunsins.
Húsið er tákn fyrir hroka og mannfyrirlitningu.

Jónsi (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 12:39

25 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Satt og rétt Axel, þetta kemur alltaf betur og betur í ljós.

Takk fyrir innlitið Jónsi, já það er betra orð yfir þetta illur andi, sem skapast af hroka og mannfyrirlitningu.  Það getur ekki farið öðruvísi þegar svona er haldið á málum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.8.2011 kl. 16:03

26 Smámynd: Jens Guð

  Ég kvitta undir bloggfærsluna og held að Axel hitti naglann á höfuðið.

Jens Guð, 23.8.2011 kl. 01:00

27 identicon

Vá, þvílík neikvæðni í einni konu, sem býr svo langt frá borginni eins og það gæti hugsast, eða ertu ekki ennþá á Ísafirði, hefur þú komið inn í Hörpu, hefur þú setið í stóra salnum of fyllst af lotningu yfir þeim tónum sem koma eins og af himni ofan, það er meira segja hægt að fara og ná að slaka á þó fólk sé allt um kring vita megin í þessu fallega húsi, ég er félagsfælin og fór þangað á tónleika, til að kúpla mig út fór ég og horfði á sjóinn, á vitann, fuglana, og þó svo að fullt væri af fólki í húsinu þá var friður þarna.  Við þurfum ekkert að óttast Hörpu (engin greinir) hún er tignarleg í henni speglast sjórinn, fjöllinn og borgin. Eina slæma karmað sem ég hef fundið fyrir þegar kemur að henni Hörpu okkar landsmanna, er þeirra sem hér skrifa. ( nema einn, flott Karma þar)

Þetta hús verður jafnfrægt og t.d tónlistarhúsið í Ástralíu, þegar kreppan er búin og fólk búið að finna jafnvægið aftur, mun Íslands Harpa fylla jafnvel þá sem mest voru á móti henni stolt í hjarta. Eflaust eru þeir sem höfðu vinnu við að byggja þetta hús, ánægðir með sitt á þessum síðustu og verstu. Hananú ;)

Tuð (IP-tala skráð) 23.8.2011 kl. 01:40

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jaso Tuð! ég má sem sagt ekki gagnrýna þetta hús og það sem þar gerist af því að ég bý á Ísafirði.  Má ég benda þér á að ég þarf að borga af þessu húsi jafnmikið og þú ef ekki meira.  Svo ég gagnrýni það bara alveg eins og ég vil. 

Það getur vel verið að ég skoði húsið einhverntímann ef ég hangi nógu lengi í Reykjavík til að hafa tíma til þess.  En eins og er, þá dvel ég aldrei lengur en ég nauðsynlega þarf í Reykjavík.  Þó þetta sé mín höfuðborg jafnt og þín.   Þá líður mér bara ekki vel þar nema innan húss hjá ættingjum og vinum.

Ég held að þú hafir rangt fyrir þér með að þetta hús verði stolt íslendinga einhverntímann, gott reyndar að menn eru ánægðir með verk sín, og ekkert um að að segja. En ryð hefur þá eiginleika að halda áfram að gera sitt eyðileggingarstarf,  og ef það er byrjað í svona miklum mæli eins og sagt er, þá stendur þetta hús ekki í eihverja áratugi, því máttu trúa.  Meira að segja Egill Helgason viiðurkennir að efni Hörpu sér forgengilegt.

Og svo er það gluggaþvotturinn.  Ég hef minnst á það áður, það mun sjást illa í ljósadýrðina ef gluggar eru ekki þvegnir reglulega þegar sjórinn fer að leika um þá í vetrarveðrum.  Ég búandi á Ísafirði eins og þú bendir réttilega á, þekki vel hve langt saltið nær í vetrarveðrum. 

Það er samt gaman að fá svona komment, einhversstaðar hef ég komið við viðkvæman blett.  Og takk fyrir innlitið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.8.2011 kl. 08:18

29 Smámynd: Pétur Kristinsson

Kannski mun harpan líta út eins og bræðsluhúsið á borgarfirði eystra eftir nokkur ár.

Pétur Kristinsson, 23.8.2011 kl. 08:43

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hef reyndar ekki séð þá byggingu en það er aldrei að vita Pétur minn. Takk fyrir innlitið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.8.2011 kl. 09:01

31 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Tuð, óperuhúsið í Sydney, sem ég geri ráð fyrir að þú eigir við, er ekki frægt fyrir það sem fram fer þar innandyra. Húsið er fyrst og fremst frægt fyrir arkitektúrinn, glæsilegt og frumlegt útlit. 

Harpa verður aldrei fræg fyrir útlitið, nema þá í neikvæðum skilningi.

Engin biluð jólasería þarna á ferðinni.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.8.2011 kl. 18:58

32 Smámynd: Ragnheiður

Ég fór þarna og heillaðist alveg af innviðum þessa húss, ég er ekkert sérlega lukkuleg með útlitið á henni. Leiðist alltaf svona glerhallir.

En hljómburðurinn og Eldborgarsalurinn eru snilld

Ragnheiður , 24.8.2011 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 2020864

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband