Hégómi, spilling og valdníðsla.

Hégómi er sjálfskaparvíti.  Við erum auðvitað öll meira og minna hégómleg og sjálflæg.  En sumir eru verr haldnir en aðrir.  Þeir taka sjálfa sig of alvarlega og telja að þeir séu ómissandi og þeirra verk séu þau einu réttu.  Þá er ekki hlustað á einn eða neinn, og öllu sem aðrir segja mótmælt og komið með fyrirslætti um að fólkinu sé ekki sjálfrátt, það viti ekki hvað það er að tala um, eða misskilji málefnið. 

Það er slæmt þegar hæstráðendur þjóðar, eru svo hégómlegir að ætla að þeir einir hafi rétt fyrir sér, og þó marg sé búið að benda þeim á að það séu aðrir fletir á vandamálum, þá er slegið á allt slíkt.  Verst er að þessir aðilar starfa í umboði þeirra sem þeir eru að neita að hlusta á.  (Lesist þjóðarinnar)

Svo kárnar ennþá dæmið þegar áhangendur og trúfélagar endurtaka bullið og hræra ennþá meira í óvissunni.  Sérstaklega í ljósi þess að hinum almennu sauðum er fyrirmunað að skilja hvers vegna má ekki endurskoða hlutina.  Allt keyrt áfram og ekki hlustað á neinn.

Hér höfum við dæmi um slíkt, við erum að ganga í gegnum það nákvæmlega núna og vitum ekki hvers vegna forsvarsmenn þjóðarinnar bera hag óvinanna meira fyrir brjósti en hag samlanda sinna, þjóðarinnar sem kaus þá til setu á Alþingi. 

Eitt er að hafa sannfæringu, en annað er að leyfa öðrum skoðunum að komast að, og skoða málin, þegar fólk sem þekkir vel til bendir á annað.  Þá á ekki að blása það af.  Þá fer fólk að gruna að hér sé  ekki almannaheill hafður að leiðarljósi heldur einhverjir sérhagsmunir eða loforð um eitthvað betra fyrir þá sjálfa sem þannig haga sér.

Fyrir utan þetta nýja dæmi má svo sem benda á fleiri.  Til dæmis afhendingu stjórnvalda á sjávarauðlind þjóðarinnar  til vina og vandamanna og mömmu og pabba.  Gjörð sem rústaði landsbyggðinni, og var svipuð eignatilfærsla og nú er að eiga sér stað, bara þá fluttist gróðinn frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og síðan til útlanda.  Sú blóðtaka er ennþá að naga venjulegt fólk sem hafði lifibrauð sitt af fiski og fiskvinnslu.  Þetta hefur ekki verið leiðrétt, þó allt segi að þetta var óhappaverk og þjónaði engum tilgangi öðrum en að færa sérstaklingum þjóðarauð á silfurfati. 

Þetta á líka við um landbúnað, þegar sláturleyfishöfum var gefin rétturinn til að slátra kindunum.  Sláturhúsin voru sett á hausinn hvert á fætur öðru, uns örfá voru eftir í landinu, og nú aka menn dýrum landshorna á milli við ömurlegar aðstæður til að aflífa þau.  Það má nefnilega ekki hrófla við þessum vinum valdsins.  Þeir verða rétt eins og L.Í.Ú. að hafa réttin til að slátra, bændur mega svo náðarsamlegast taka til sín 200 kg. af kjöti til eigin nota og sölu.  Ef þeir þurfa meira verða þeir að kaupa það fullu verði.  Og svo er verið að tala um að kjöt sé dýrt.  Hver skyldi nú halda uppi verðinu?  Ekki er það bóndinn sem fær smánarlega lítið fyrir sinn snúð.  Og ekki veit ég til þess að nokkur maður hafi dáið af völdum heimaslátrunar. 

Og á meðan dýraverndarmenn eru að ærast og sakfella mann fyrir að skjóta eina og eina kind út um fjárhúsgluggann, þá er þeim alveg sama þó kindum sé smalað upp í tveggja hæða flutningabíl, með aftaní vagni upp á tvær hæðir, aka svo blessuðum skepnunum fleiri klukkutíma landshorna á milli, farandi með skítaklepra og hland yfir fleiri sauðfjárvarnaveikigirðingar.  Er ekki heilmikill tvískinnungur í þessu.  Sérstaklega í ljósi þess að ef ein rolla þvælist yfir sauðfjárveikivarnargirðingu verður að aflífa hana strax. 

Rétt eins og það er tvískinnungur í því að taka veiðiréttinn af fólkinu í landinu og færa hann til vildarmanna, leyfa veðsetningu á honum til að bjarga bönkunum.  En segjast vera að vernda sjálfstæði landsmanna.  

Rétt eins og að neita að viðurkenna að menn hafi gert mistök með því að senda vin sinn, sem reyndist allsendis óhæfur til að semja um fjöregg þjóðarinnar, og vera svo hégómlegir að neita að horfa til þeirra sem benda á aðrar lausnir.  Eins og þeim sé alveg sama hvernig þjóðarskútan veltur, bara ef þeir komast upp með málið eins og þeir byrjuðu á því. 

Sennilega er þó verra fólkið sem heldur netinu utan um slíka ráðamenn, þýlyndi og aðdáun á valdi hlýtur að varða þeirra veg, ef þeir hafa enga aðra ástæðu en að halda með sínu liði hvað sem það kostar. 

Er ekki komin tími til að rippa þetta upp.  Taka á spillingunni og sérhagsmunagæslunni.  Við höfum ekki efni á henni.  Við ættum að hafa nóg fyrir alla að bíta og brenna, en ráðamenn, allir sem hafa verið undanfarna áratugi hafa að leiðarljósi að hygla sjálfum sér og vinum og vandamönnum á kostnað hinna.   Og það sem verra er komast endalaust upp með það af því að fólk bara lætur traðka á sér.  Virðist ekki skilja mun á því hvað menn lofa fyrir kosningar og hvað þeir svo efna eftir þær.  Og kjósa því bara sitt fólk áfram hvað sem tautar og raular.  Og ver þá endalaust í ræðum og riti.  Það er afar sorglegt svo ekki sé meira sagt. 

safe_image

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kidda

Eins og ævinlega, frábær pistill mín kæra.

Knús i kærleikskúluna

Kidda, 11.1.2010 kl. 12:11

2 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Frábær pistill, ég held ég sé bara sammála öllu í honum.  Dáðist sérstaklega að nýju orði sem ég rakst á: sérstaklingar, það á svo sannarlega vel við marga af toppum þessa lands, hvort sem er í stjórnmálum eða viðskiptum.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 11.1.2010 kl. 13:51

3 identicon

Gott hjá þér Ásthildur,en segðu mér hefur þú og þitt fólk hreina samvisku ganvart því að hafa ekki þegið arð úr sameiginlegri auðlynd allra landsmanna öðrum fremur.Hefur þú haft einhvern hag af því peningalega að vera dóttir stórútgerðarmanns  á vestfjörðum,ef svo er er þessi grein þín í hæsta máta hræsni.Það hafa margir velt þessu fyrir sér.Kv Björn Birgisson

Björn Birgisson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 15:38

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Óskaplega átt þú bágt Björn minn.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2010 kl. 16:21

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Björn þetta er nú með því neyðarlegasta rökþroti sem ég hef séð.  Ég á sem sagt að fá upplýsingar um hvað pabbi þinn hefur aðhafst um ævina svo ég geti vitað hverjar þínar skoðanir eru?

Annars skal ég segja þér dálitla sögu.  Hún er um ungan mann ekki orðin 16 ára sem kemur norðan úr Fljótavík, allslaus og blankur.  Hann og bróðir hans berjast upp úr fátæktinni með því að fara að vinna í fiski og fikra sig svo áfram til að kaupa sér bát.  Í þá daga var nóg að eignast bát og menn gátu farið og sótt sér björg í sjó.  Þetta  var fyrir þá tíð að útgerðarmönnum var gefinn fiskurinn í sjónum.  Þessir harðduglegu menn unnu sig svo upp í að setja á stofn útgerðarfélag ásamt skipstjóra sínum, og upp í frystitogarann Júlíus Geirmundsson.  Þarna voru þrír aðilar jafn réttháir.  Þegar svo ekki fór saman álit þessa manns og hinna tveggja, ákvað hann að selja sig út úr fyrirtækinu.  Þeir sem buðu í það voru hinir tveir eigendurnir, en þeir létu hann ekki vita hverjir buðu.  Hann sagði mér hlæjandi að ef hann hefði vitað að þetta voru meðeigendur hans hefði hann slegið af upphæðinni.  Hann er og var fullsæmdur af þessu ævistarfi sínu.  Og hefur ekkert með það að gera sem nú tíðkast, í dag kemst engin nýliðun að, og það er miður.  Þú getur því borið saman epli og appelsínur fyrir mér. 

Þessi maður fór aldrei með fé burt úr sínu bæjarfélagi, og tapaði svo mestu af því í bankahruninu, þú hlýtur að gleðjast við að heyra það.  Vegna þess að mér heyrist að þér finnist þetta illa fengið fé.

Hvað gerði pabbi þinn annars?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2010 kl. 16:37

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigrún mín þetta orð kom bara svona upp í hugann, og ég hugsaði af hverju ekki

Takk og knús Kidda mín.

Jón Steinar ég hef svo sem heyrt þetta áður.  Það er eins og ég megi ekki hafa skoðanir á hlutunum vegna þess að faðir minn var útgerðarmaður.  Það er eins gott að fólk geri grein fyrir stöðu foreldra sinna áður en það hefur leyfi til að hafa skoðun. 

Ég er afar stolt af föður mínum og hans ævistarfi.  En ég er algjörlega á móti því að kvóti gangi kaupum og sölum og sérstaklega er mér illa við að menn geti veðsett óveiddan fiskinn í sjónum. 

Aðalmálið er auðvitað að menn spila eftir þeim reglum sem eru settar.  Það er sjálft regluverkið sem ég er að gagnrýna.  Það er stjórnvalda að breyta þessu arfavitlausa kerfi svo það standist réttlætiskröfur.  Það hefur hingað til ekki verið til umræðu hjá undanförnum ríkisstjórnum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2010 kl. 16:43

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Er að fara að passa les betur í kvöld eða nótt þess vegna.

Helga Kristjánsdóttir, 11.1.2010 kl. 17:43

8 identicon

Sæl Ásthildur.

Einginhún er  spurning er svo fáránleg að hún þurfi ekki svara við.Þakka þér fyrir söguna og ég veit að hún er sönn.Hún er líka gott innlegg í umræðuna um það hvað skaðræðisvaldurinn Gróa á leiti er andstyggileg.Ég er líka afar stoltur af því að hafa verið málkunnugur föður þínum.Ég vona að þessi spurning mín og svarið þitt eiði ákveðnum fordómum.Faðir minn var höfðingi alveg eins og faðir þinn og þrælduglegur.Hann var brautriðjandi á sviði vöruflutninga ánorðurlandi.Hann var einng sjómaður á síðutogurunm og lagði sitt að mörkum til að koma sjávarútveginum í það horf það sem hann er í dag með sínum þrældómi,og hann mundi snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hvernig braskað væri með auðlindir okkar í dag.Ég hef líka lagt mitt að mörkum til sjávarútvegsins var samanlagt 20 ár á sjó fyrir heldur ríari hlut en braskarnir.Faðir minn hét Birgir Runólfsson og var vöruflutningabílstjóri í u.m.b 25 ár.Kiddi Muggs vissi hver hann var.Við erum sammála um að þjóðin á fiskauðlindina.Berðu kveðju mína til föður þíns.Kv Björn Birgisson

Björn Birgisson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 20:13

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það geri ég með gleið Björn og þú skilar kveðju til konu þinnar dóttur og tveggja sona sem ég kynntist ágætlega m.a. gegnum Litla leikklúbbinn og leiklist í skólanum hér. 

Já vissulega hefur verið farið ránshendi um auðlindir okkar og þess vegna verðum við að gæta þess að ekki verði gert meira af því að afhenda grósserum og græðgirpungum auðlindirnar.  Þar þurfum við að feta mjóa stíginn og stíga varlega til jarðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2010 kl. 20:24

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Pabbi var nú líkaútgerðarmaður og raunar hver sá sem vann fyrir sér og sínum á eigin bát.  Ég vona að það geri mínar pólitísku skoðanir ekki ómarktækar.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2010 kl. 21:24

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það skal þó virðast við Björn að draga í land. Það eru margir reiðir í dag, en við verðum að reyna að passa að taka það ekki út á saklausu fólki.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2010 kl. 21:28

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm það er virðingarvert að kunna að biðjast afsökunar.  Ég met það og virði.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.1.2010 kl. 22:23

13 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Við lesturinn er ég komin með fortíðarþrá. Horfi á bátana sigla fyrir oddan á Þingeyri,menn að giska á hversu mikill afli er um borð,réðu af því hversu djúpt þeir ristu. Hef aldrei skilið hversvegna var leyft að framselja kvóta,man hvað mér fannst dapurlegt að heyra um sölu Guggunnar og veiðiheimildirnar með.(er .eg að fara með rétt mál?).  En ég náði að fara einn túr á bátnum,sem fóstur bróðir minn var skipstjóri á,Leifur Þorbergsson (Lobbi) þriggja daga útilega,var sjóveik,en þetta var hrikalega gaman.   Oh! sjómennskan!       Byggðalögin lifðu á þeim "gula",nokkrar ferðir voru farnar til Englands ,eftir að stærri skip komu til sögunnar.   Samskipti við Breta ´hafa alltaf verið þó nokkur,en nú eru þau í uppnámi,ég bara trúi statt og stöðugt að því´fari að linna,endi á farsælan hátt.Kveðja,vestur.

Helga Kristjánsdóttir, 12.1.2010 kl. 01:45

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þegar þú nefnir það ´Helga mín  þetta með að giska á aflann eftir því hve djúpt báturinn lá í sjónum er minnistætt.  Guggan var í eigu annara bræðra, hún var seld til Samherja og þeir lofuðu að hún yrði alltaf gul og legði upp frá Ísafirði.  Það reyndist auðvitað lygi tóm með löndunina.  Minn faðir átti einn þriðja í Júlíusi Geirmundssyni sem reyndar var afi minn.  Þeir áttu líka lengi vel annan togara Guðrúnu Jónsdóttur sem var amma mín.  Júlíus er ennþá gerður út frá Ísafirði eða Hnífsdal og flytur ísfirðingum björg í bú.  Ég trúi því að það hafi verið gaman að fara sjóferð.  Kveðja til þín líka Helga mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.1.2010 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband