Uni:
Ég veit ekkert hvar eða hvernig þú snertir sjálfa þig ÁSTHILDUR, þú verður bara að eiga það við þig.
16.2.2012 | 20:55
Þessi hluti átti að koma á undan.
Ferðasaga Cecilar
Flugum um hálf níu um morguninn frá Keflavík til Boston. Þar tók á móti okkur í útlendingaeftirlitinu ung hress suðurríkjadama. Heilsaði hún okkur brosandi og með kostum og kynjum, sagðist hafa verið á Íslandi, í Reykjavík og víðar. Spurði hvort Ísafjörður væri nálægt Akureyri.
Það var knappur tími til að ná í farangur okkar og setja hana í framhaldsflug til Mexícócity, en við vorum fullvissuð um að taskann færi alla leið. Það hafði verið klukkutíma seinkun hjá Icelandair svo við höfðum bara einn og hálfan tíma til að koma okkur gegnum útlendingaeftirlitið, fara á annan terminal og ná vélinni til Chicago. Þar þurftum við að bíða lengur, fengum okkur brauðsneið og djús, og reyndum að láta fara vel um okkur. Flugið til Mexicócity tekur fjóra og hálfan tíma. Stúlkan í eftirlitinu í Chicago spurði hvaðan við værum og hrópaði upp yfir sig Íslendingar þá hef ég aldrei séð fyrr.
Úti í Ameríku er geðveikislegt eftirlit, maður þarf að fara úr skónum og allt gegnum lýst, var samt feginn að sleppa við það sem sumir þurftu að ganga í gegnum, að láta taka af sér fingraför og mynd í bak og fyrir.
Lentum í Mexícó um kl. 6 að staðartíma, vorum þá búin að græða 7 tíma. Þá kom í ljós það sem ég reyndar hafði óttast að taskan okkar hafði ekki skilað sér. Það er samt mikill munur að koma frá Bandaríkjunum til Mexícó, fólkið hér er miklu brosmildara og kurteislegra en í B.N.A.
Þegar maður kemur inn í Mexícó, er tollaeftirlitið þannig að þú ýtir á hnapp, ef það kemur grænt þá ferðu í gegn óáreitt, ef það kemur rautt, ferðu í skoðun. Við fengum rautt í þetta sinn. Tollarinn bara brosti og spurði hvaðan við kæmum meðan hann grautaði smávegis í handtöskunni minni. AHA Íslendingar, ég dáist svo mikið að víkingunum sagði hann og benti okkur á að fara bara í gegn.
Á flugvellinum er það svo í Mexícó að þú pantar leigubíl inn á vellinum og segir hvert þú ætlar og greiðir fyrir hann þar. Þetta er öryggisráðstöfun, vegna þess hve tíð rán höfðu verið á túristum, þar áður. Við ætluðum niður á Holliday inn við Zocalotorg. Það fyrsta sem maður tekur eftir í Mexócó á flugvöllum og rútubílatöðum er að þar er engin klukka. Þeim gengur illa að aðaga sig að Gregoriska tímatalinu. Enda lítið stressaðir. Þar sem klukkann eltir þá, en ekki þeir klukkuna eins og á Vesturlöndum.
Við fengum staðfest að taskan okkar yrði send á hótelið þegar hún kæmi í leitirnar. Mágkona mín kom frá Mazatlán hún ætlaði eð vera með okkur í þessari ferð.
Þegar við komum upp á Zocalotorgið iðaði það allt af lífi, börn með blöðrur og lúðrasveitir og söngur. I dag er 9. janúar dagur Guadalupe. Maríu Mey indíána í Mexícó og víðar. Zocaló er stórt torg í miðri Mexícóborg, við það stendur forsetahöllin og hæstiréttur, og dómkirkjan. Þar safnast fólk saman til allskonar hátíðabrigða, og þar dansa Aztekarnir í sínum glæsilegu búningum. Stór fáni er á miðju torginu, um 30 metra há stöng, og fáninn stór eftir því. Mexicócity var upphaflega höfuðborg Azteka.
Zocalo torg, forsetahöllinn sést þarna og fáninn stóri. Tekið ofan af Holliday inn.
Við byrjuðum á að fara og versla inn það nauðsynlegasta til skiptanna, vegna töskuhvarfsins, og fórum svo og fengum okkur góðan Brunch. Vorum 3 daga í borginni og svo var lagt af stað með rútu til Chapas. Taskan kom í leitirnar síðasta daginn í borginni, og vorum við harla feginn.
Áður en við fórum suðreftir, fórum við og skoðuðum pýramídana í Teothihuacan, þarna eru margar stórkostlegar byggingar. Sól og mána pýramídar sitt við hvorn enda dauðagötunnar og byggingarnar meðfram henni, og þar eru margar byggingar ennþá huldar gróðri og jarðvegi.En þarna má sjá bæði tilhöggnar og málaðara myndir og þeir hafa skreytt náttúrulegu steinanna sem þeir hlóðu úr með mynstri úr minni steinum. Svo hafa þeir múrað yfir og málað. Vatnsleiðslur og skolp, og þarna mátti sjá leifar af saunabaði og klósetti. Menningin hefur svo sannarlega risið hátt á þessum tímum. Þarna var sagt að hefðu búið ættbálkur um 94.000 manns og þau hurfu skyndilega og enginn vissi hvað af þeim varð.
Mánapýramídinn. Þar sem fólkið gengur er dauðagatan.
Hér sést vel hvernig þeir skeyttu steinanna. Og inni sést hvernig þeir múrhúðuðu steinana. Þarna sést líka útskurður mynd af dreka.
Við skoðuðum líka Azteca hof í borginnin rétt hjá torginu. Svolítið óhugnanlegt var að skoða fórnaraltarið og hvernig þeir hafa lagt frárennsli fyrir blóðið.
Síðasta kvöldið fengum við okkur að borða á veitingastaðnum á Holliday inn. Veitingastaðurinn er upp á 6. hæð þar er hægt að sitja úti og horfa yfir Zocalotorg, en í ár er frekar kallt í borginni, svo við sátum inni, en það var notalegt að sitja með góðan mat, Mexícóst Irish coffee og Tequila og hlusta á taktfastar trommur Aztekana, þar sem þeir dansa og nota fámennið til að æfa unglingana í dansinum, úti á torginu.
Flugvöllur Mexícóborgar er mjög nálægt borginni, yfirvöld vilja færa hann lengra burtu en bændur og umhvefissinnar berjast gegn því. Þeir segja að allt of stórt ræktarland fari undir völlinn og akveg að honum. Þeir segja að lifibrauð þeirra sé í hættu verði flugvöllurinn færður.
Daginn eftir lögðum við af stað til Tuxtla. Það er um 13 tíma akstur, en rúturnar eru þægilegar og á leiðinni eru sýndar kvikmyndir. Vorum fyrr á ferðinn en við ætluðum vorum í Tuxtla um 6 leytið um morguninn, en rútan til Bendingo fer ekki fyrri en kl. 9.00 Settumst niður á litla kaffistofu og fengum okkur kaffi. Á kaffistofunni hittum við tvær ísraelskar stúlkur, þær sögðu okkur að upp í fjöllunum væri gljúfur sem væri mjög frægt. Við ákváðum að taka leigubíl og skoða það. Gljúfrið gengur þvert í gegnum fjall sem er 1200 metra hátt, það er hægt að sigla í gegn um skarðið, eða aka upp fjöllinn og skoða að ofan frá. Það er hægt að stoppa á nokkrum stöðum, en við höfðum bara tíma fyrir tvo fyrstu 600 metra hæð og 900 metra. Það var ótrúlegt að horfa niður þráðbeinan klettavegginn og sjá 900 metrum neðar silfurband árinnar, að vísu var dálítið móða og úði vegna þess hve snemma við vorum, og sólin ekki búin að bræða sig gegnum dögg næturinnar, en við því var ekkert að gera, því rútan fór kl. 9.00. Í bænum Tuxtla búa um 850 þúsund manns og er hann með stærri bæjum í Shapas. Gegnum bæinn rennur áin Rio Sabinal, fyrri nokkrum vikum hafði hún flotið yfir bakka sína og umflotið stóran hluta bæjarins. Við sáum sumstaðar stóra reykjastróka líða upp úr jarðveginum, við spurðum hvað þetta væri, bílstjórinn sagði að þetta væru ofnar, sem grafnir eru í jörðina, þéttir innan með jarðsteinum og leir, til að baka brauð.
Bílstjórinn ráðlagði okkur að stoppa í San Kristobel, þar sem er hellir einn mikill með allskonar náttúrumyndnum. Grutas Del Pancho nueve. Hann sagði líka að við skyldum passa okkur á leigubílstjórum. Lagði á við okkur að skrifa niður merki sem alltaf er á hlið bílanna og skrá líka niður nafn bílstjóranna, þeir gæru verið varasamir.
Sab Kristobel er bær, það búa um 27.000 manns bærin er í 2667 metra hæð. Við fórum yfir 3000 metra hæð á leiðinni, og vorum skýjum ofar. Þarna er landslagið hæðótt og hrikalegt en mjög fallegt, hæðirnar eru þaktar með frekar lágvöxnum gróðri og mikið var um að menn höfðu rutt gróðri burtu og þarna var ræktaður maís í stórum stíl. Enda maís aðalútflutningsvara Chapasbúa.
Horft yfir Tuxtla.
Hér sést inn í hellinn góða.
Við tókum leigubíl í San Kristobel upp í fjöllinn til að skoða Hellinn. Hann var stórkostlegur. Lítil indíjánastúlka leiðbeindi okkur um hellinn með vasaljós og sýndi okkur hellamyndirnar. Sem höfðu myndast í mjúku berginu við ágang vatns. Á þessum slóðum hafði brotist út stríð fyrir fjórum árum milli ensku rétttrúnaðarkirkjunnar og kaþólikka og 45 manns indíjánar voru drepnir þar sem þeir sátu og báðust fyrir í einni kirkjunni.
Í skólanum er það svo að börnin eru aðgreind eftir því hvor trú þeirra er. Svo eru mormónar einnig að hasla sér völl. Trúmál þarna eru mikið vandamál, vegna þessa stríðs á milli trúarbragða.
Indíjánarnir upp í fjöllunum eru með sína siði og reglur enn þann dag í dag. Þarna í Chapas eru kindur friðhelgar, það má ekki drepa þær eða skaða á neinn hátt, það eina sem menn mega hafa not af þeim er ullin. Enda vefa konurnar mikið og sauma út. Þær vinna en karlarnir hafa það náðugt. Algengt er að menn fastni sér stúlkubörn þegar þær eru fimm til sex ára. Þá koma þeir með geitur asna og heimabrugg og velja sér telpu. Hún elst svo upp á heimili foreldra sinna, uns hún er gjafvaxta fimmtán sextán ára, þá kemur brúðguminn, kvænist henni og tekur hana inn á sitt heimil, hann á gjarnan fjórar til sex eiginkonur, sem vinna fyrir heimilinu. Börnin eru líka mörg. Aðal fæða þeirra eru tortillur búnar til úr maís, og svo ávextir sem eru ræktaðir heima. Einnig eru flest heimili með hænur, geitur og kalkúna. Stærri býli eru svo með hesta og asna. Tvennskonar kýr eru ræktaðar önnur tegundin vegna kjötsins og hin til að mjólka. Í San Kristobel De la Casas fór bílstjórinn með okkur í heimsókn til fjölskyldu, eiginkonurnar voru fjórar, en einnig systir einnar eiginkonunnar og ein frænka, þær fimm áttu með manninum 15 börn. þrjár kvennanna voru heima, ein að baka tortíllur og önnur að vefa sú þriðja var með ungabarn í sjali á bakinu. Við vorum látin máta okkur í hátíðabúning ættbálkins og hr. Cesil var svolítið broslegur í skrautlegri treyju með stóran hatt með mörgum skrautborðum. Við vorum líka flottar ég og mágkona mín, í vaðmálspilsum skrautlegum mussum með borða og fallega ofið sjal. Allt heimagert og fallega unnið. Svo var tekin mynd að herlegheitunum. Við þáðum líka tortillur sem voru bakaðar við frumstæðustu aðstæður og heimabrugg. Mjög skemmtilegt. Framhlið hússins var mjög flott múruð og máluð, en bakhliðinn nokkurs konar patíó sem er reist úr timbri, og hlaðið með efni sem þeir gera úr taði, síðan er torf og leir sett í rifurnar, Við komumst svo að því að framliðin er byggð eins bara múrað yfir með leir og svo málað yfir. Patíóið var aðeins einföld grind með plasti yfir sem var vinnustaður hannyrðakvennanna, og svo var óþéttur timburkofi sem var eldhúsið. Engin borð eða stólar, utan nokkrir tréstólar sem eru eins og smábarnastólar, en einu sætinn, hinir sitja bara á gólfinu. Þetta var samt fjölskylda sem átti nóg, og var í fínu hverfi.
Eldhúsið og tortillagetð.
Hér er ein eiginkonan að vefa. Og verk hennar hanga uppi allt í kring.
Týpiskur búningur fyrir indíána konur í Chapas. Pilsin eru með mismundandi mynstri eftir því hvaða ættbálkur á í hlut. Þær vefa pilsin sjálfar, og sauma búningana. Teppið er algengt höfuðfat og er líka notað sem brúðarslör.
Í þessum bæ var katólsk kirkja á miðju torginu. Þar var dýrðlingunum raðað með fram öllum veggjum kirkjunnar. Gólfið var þakið með furunálun, það gera indíjánar þessa héraðs, þegar þeir halda veislur, svo sem giftingar eða fermingar. Víða á kirkjugólfinu sátu manneskjur með kerti fyrir framan sig og sumir voru með hænur, flestir voru með kókflöskur og brauðkollu sér við hlið. Þetta voru heilarar, sem læknuðu fólk sem til þeirra leitaði. Ég lét tilleiðast og fékk einn indíjánan til að lækna mig. Með kertum ekki hænum. Því þegar sjúkdómurinn hefur verið yfirfærður í hænugreyið þá er hún snúinn úr... Þau voru treg til að taka mig að sér, feiminn við þessa hvítu kerlingu, og hafa sennilega fundið af henni nornalyktina. En loks var einn sem þorði. Hann sagði okkur að sjúkdómar byrja allir í vitundinni, og ef maður gerir ekkert í því, þá fer sjúkdómurinn úr í líkamann. En svei mér þá mér snarbatnaði sár verkur sem ég hafði verið með í bakinu.
Í kirkjunni er messað einusinni í viku og presturinn kemur frá næsta þorpi. Okkur var sagt seinna að Páfinn hefði komið þarna í heimsókn og hefði fengið svipaða meðhöndlun og ég. Hann hefði verið spurður afhverju þetta væri látið viðgangast, og hann svaraði; Við megum ekki taka allt frá indíjánunum.
Kirkjan í baksýn og markaður á aðaltorgi San Kristobel.
Þarna sést ein kona að vinna tóg. Handavinna hennar hangir þarna uppi.
Það sem vakti athygli sértsaklega er hvað hvítu fötin eru hvít þarna, þar sem aðstaðan til þvotta er afskaplega bágborin. E indíjánakonurnar þvo mikið, þær byrja daginn á að þvo, og svo er þvotturinn hengdur til þessir á girðingar, limgerði, eða bara hvað sem er. Aðal tækið sem er notað til að þvo þvotta fyrir utan lækjarsprænur, polla eða móbrúnar ár er .... já það eru nefnilega HJOLBÖRUR. Á einum stað sáum við um 7 konur allr í röð að þvo í hjólbörunum sínum hlið við hlið, sumar gamlar ryðgaðar, og aðrar flúnku nýjar. Hugisð ykkur hjólbörur eru kostagripur, svo er hægt að fara með þvottinn í þeim til að hengja upp, skreppa í bæinn og kaupa inn, hafa barnið í þeim og svo getur maður lánað bóndanum þær er hann þarf að fara í gegningar. Annars ganga allar konur í Mexóco með börn sín í fanginu eða í teppi á bakinu. Enginn er með kerru eða vagn.
Frá San Kristobel fórum við svo áleiðis til Palengue, en þar ætlum við að skoða Pýramída Maja. Meira um það seinna.
Reynar erum við búin að skoða maya Pýramídana í Palenque. En áfram skal haldið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2012 | 20:34
Það er orðið langt síðan ég bauð ykkur í ferðalag. Ætla að bjóða ykkur stutta ferð til Guatemala.
Það vantar bæði framan á og aftan við söguna en ég bæti örugglega úr því síðar. Þetta er ferð mín með Ella og mágkonu minni sem býr í Mexico.
Frá Palenque til Guatemala. Við lögðum af stað kl. 6 um kvöldið til Palenque. Vorum kominn þangað um miðnæturbil, tókum leigubíl og báðum hann að aka okkur á gott hótel í miðbænum. Þetta var sæmilegt hótel, en við ákáðum að vera þar aðeins eina nótt, vorum reyndar ekki viss hvort við ætluðum að dvelja lengur.
Vöknuðum snemma og fengum okkur morgunmat. Fórum á nokkra matsölustaði, en hvergi fékkst bjór svo Cesilína varð að láta sér nægja að vatn með matnum, þvílíkir púrítanar. Vorum búin að ákveða að halda áfram að landamærunum.
Við tókum leigubíl upp að Mayarústunum. Þær voru stórkostlegar miklu öðruvísi en í Teotihuacan. Svæðið hefur verið skannað með infra rauðu ljósi og þar sést að um 1500 byggingar eru á svæðinu, en einungis 5% þeirra eru á yfirborðinu, sumar eru faldar í frumskóginum, aðrar undir jarðvegi. Þarna voru listamenn með verk sín, áteiknaðar fjaðrir, og leðurmyndir. Auk allskonar hálsmena og armbanda. Eyddum góðum hluta dagsins að reika þarna um og skoða.
Frá rústunum í Palenque Þetta er drottningarhofið.
Glæsilegar byggingar.
Og svo allt öðruvísin en í Teotihuacan.
Við ákváðum að fara ekki að landamærunum þennan dag, fórum og fengum okkur annað hótel, gott hótel með sundlaug og alles sem nefnist Casa inn.
Skruppum í laugina og fórum svo í miðbæinn. Þar sem hótelið er aðeins fyrir utan miðbæin, fengum við okkur leigubíl. Mágkona mín, lummaðist við að skrifa niður númer bílsins og nafn leigubílstjórans, vegna aðvarana bílstjórans í San Cristobal. Ég bað hana að fá nafnið á hótelinu og heimilisfangið svo við kæmumst nú aftur þangað um kvöldið. leigubílstjórinn skrifaði þetta samviskulega niður á gulan miða, sem mágkona mín passaði upp á, sem betur fer. Svo röltum við um í bænum, og fengum okkur bjór og Tequila eins og gengur, vorum að vandræðast yfir því að hr. Cesil hefði gleymt myndavélinni upp á hóteli. Ég keypti mér teppi til að hafa í rútunni, það er gott ef maður ætlar að leggja sig, því þeir erum alltaf með loftkælinguna á fullu.
Flottar í rútunni.
Þegar við ætluðum heim á hótel, gengum við aðeins áleiðis og veifuðum næsta leigubíl, hann opnaði rúðuna og við sáum að hann er með farþega, hann stoppaði og sagði þið eruð fólkið með myndavélina. Nei nei sagði hr. Cesil við gleymdum henni á hótelinu. Nei sagði maðurinn þið eruð fólkið sem gleymdi vélinni í framsætinu hjá mér, ég þekki gula miðan sem Senjora heldur á. En ég þarf að fara með þessa farþega, og kem síðan aftur. Ég fór með myndavélina niður á stöð, og við verðum að sækja hana þangað, bíðið bara. Og við gerðum það. Kom svo ekki gæinn ók okkur niður á stöð, og þar var digitalmyndavélin með öllum myndunum sem við vorum búin að taka á ferðalaginu. Og án hennar hefð þessi saga nú verið heldur litlaus.
Hér sjáum við hinn heiðarlega bílstjóra.
Við vorum búin að kaupa miða til Guatemala, fórum með sendiferðabíl, sem sótti okkur upp á hótel um 6.20. Hann tók okkur til landamæranna. Létt rigning var eða súld. Við ókum gegnum lítil þorp, þar sem börnin þustu út á götuna með lófan á lofti Peso Peso..., grísir, hænur, endur og kalkúnar vöppuðu um moldarhlað. Húsin timburkofar eða hlaðin hús. Göturnar bara leir og drulla eins og allt í kring um húsin. Landslagið var fallegt háir hólar grænir upp í topp. Við stoppuðum á bóndabæ til að borða morgunverð, þar var farið inn í skógin til að borða.
Morgunverður í skóginum.
Þarna voru fleiri túristar á ferð, mest bar á ítölum og bandaríkjamönnum. Loks komum við að landamærunum þau eru við fljótið Rio Usumacinta. Þar voru hermenn í dálitlu skýli og skoðuðu þeir farangur okkar og passana. Svo var haldið út í langan mjóan bát, og haldið á fljótið. Það var um klukkutíma sigling. Siglt var upp með fljótinu, fljótið var kolbrúnt, og í því voru allskonar hringsog og boðar. Gróður og frumskógur til beggja handa.
Landamæra stöðin í Beten.
Klár í bátana.
Komin um borð Norðmaður þarna fremst. Hr. Cesil þessi myndarlegi við hliðina á skippernum.
Þegar við komum til Guatemale virtist það vera í miðju einskisins. Aðeins sáum við einn ungan pilt sem bauð okkur velkomin. Nokkrar litlar telpur svona sjö átta ára sátu niður við fljótið og þvoðu þvott og vöskuðu upp leirtau upp úr brúnleitu fljótinu, þvott og leirtau báru þær svo á höfðinu uppeftir aftur. Þegar við komum upp á bakkan blasti við býli, þar sem bóndinn lá í hengikoju, á patíóinu var einhverskonar veitingastaður, nokkur timburborð og stólar. Ein gömul rúta var þarna, og tveir menn sem buðu okkur að skipta Pesóum fyrir Guatemalamyntina Cien Quetzales heitir hún. Við þurftum að bíða í þrjá tíma þarna út í miðjunni á engu eins og mágkona mín kallaði þennan stað. Það var verið að bíða eftir næsta hópi. Loks var svo haldið af stað á gömlu rútunni sem við höfðum haldið að væri aflóga rúta, sem notuð væri sem skrifstofa. Fyrst var stoppað við landamæraeftirlit, þar þurftum við að borga 10 dollara til að fá vísa. Hörkulegar dömur sem tóku ekki neinar mótbárur gildar, og heldur ekki Pesos. Bara dollara takk.
Í miðjunni á engu.
Svo var haldið af stað til Flores. Vegurinn var eins og tíu Þorskafjarðarheiðar. Þess ber að geta hér, að um alla Mexócó og Guatemale, eru með reglulegu millibili hraðahindranir, í Mexícó norðantil eru malbikaðar hindranir, en sunnar þar sem eru bara malarvegir og í Guatemala voru hraðahindranirnar gerðar úr því sem tiltækt var, trjábolum eða bara grafinn skurður í veginn.
Fyrst var ekið í gegnum frumskóg, síðan tók við lægri gróður og akurlendi, skrýtið að sjá stofuplönturnar okkar sem villigróður í skóginum. Lítil þorp með timburkofum, og svo flottum húsum inn á milli. Þarna voru líka börn, hænur, kalkúnar, svín, nautgripir og geitur á vappi umhverfis híbýli manna.
Í einu þorpinu kom lítill ellefu ára snáði upp í strætóinn. Hann var að fara í kaupstaðinn að kaupa 3nagla klukkutíma ferðalag. Minn var uppáklæddur í fínni skyrtu, pressuðum buxum og blankskóm. Hann sagði okkur að hann væri þrjá tíma í skólanum, og svo væri hann að hjálpa pabba sínum sem var smiður og verktaki. Þeir voru að smíða hurðir, sagði hann hreykinn og voru á undan áætlun. bærinn reyndist vera þorp með lítilli verslunargötu.
Á leið í kaupstaðinn að kaupa 3nagla.
Naglakaupstaðurinn.
Loks komum við til Flores. Fórum á gott gistihús og ætlum til Tíkall á morgun sem er Majahof. Gista hér aðra nótt og fara svo til Belize.
Okkur var sagt að Best væri að fara snemma og vera í Tíkall við sólarupprás, þá myndi maður heyra í dýrum skógarins. Við vöknuðum því kl. fjögur til að vera ferðbúin kl. fimm. Rútan kom náttúrulega ekki fyrr en kl. hálf sex, og það er klukkutíma akstur upp í regnskóginn, svo það var ljóst að ekki myndum við heyra mikið af náttúrulegum dýrahljóðum.
Þegar við komum til Tíkall voru þar veitingastaðir svona frekar frumstæðir, sem sagt einhvers skonar skúrar með tjaldyfirbreiðslum og langborðum. Ekki var mikið lagt í borðbúnað, og voru bollar og undirskálar sitt af hvorri gerð, sumir bollarnir skörðóttir, og meira að segja þegar við fengum okkur ávaxtasafa þá var ljóst að rörið sem fylgdi hafði verið vaskað upp og endurnotað. En maður lætur nú ekki svona smámuni á sig fá.
Byggingar við Grand Plaza, og Cesil þarna í forgrunni.
Hið glæsilega hof Stóra Jagúarsins.
Rústirnar í Tíkall voru alveg meiri háttar. Byrjuðum á að skoða the Great Plaza Þar sem hof I og II standa hvort á móti öðru eins og tveir risar. Hof I er talið kennileiti Tíkall þekkt sem Temble of the Giant Jagúar. Hofið sem er týpiskt Mayahof var byggt um það bil Anno Domino 700. hæð þess er um 145 fet, þar sem það gnæfir yfir stóra torginu. Beint á móti hofi I stendur hof II. Temple of the Masks. Hæð þess er um það bil 125 fet. Byggt á sama tíma. Talið er að Mayar hafi komið þarna fyrir um það bil tvöþúsund og fimm hundruð árum að minnsta kosti. Svæðið sem þeir byggðu á var stórt og margar veglegar byggingar standa upp úr frumskóginum og má sjá enn þann dag í dag. Margar byggingar eru samt huldar bæði skógi og jarðvegi. Flestar byggingarnar voru byggðar frá 550 til 900 A.D. Um 3000 byggingar bæði stórar og smára hafa fundist á svæðinu, en erfitt er að halda þessu við og grafa upp, því skógurinn eirir engu. Athygli vekur steinar líkt og grafsteinar útskornir og með hringlaga stein fyrir framan. Mikið er af þeim þarna. Sumstaðar inn í skóginum má sjá leifar að slíku, þar sem gróðurinn hefur lagst yfir steinana og njörvað þá niður, eða sprengt sér leið gegnum þá. Mjög merkilegur staður og gaman að ganga þarna um og skoða. Ekki spillti fyrir að hitta fyrir ættingja mína sem sveifluðu sér kátir í trjátoppunum.
Við fórum svo til baka til Flores um eftirmiðdaginn, fórum í sturtu og gengum í bæinn og fengum okkur bjór. Fólkið hér er afar vingjarnlegt og elskulegt. Hér er fólkið fallegra en í Mexícó, fíngerðara. Indíjánarnir eru þó svipaðir.
Gengið um í frumskóginum að skoða minjar.
Hótelið sem við gistum á heitir Beten. Svæðið í heild heitir Beten, hér eru ekki héruð, heldur eru nokkrar borgir í samstarfi. Floresbær er eyja með 9000 íbúum. Höfuðstaður borgarkjarnanna heitir líka Beten. Í þessu bæjasamfélagi eru 12 bæir.
Svarti kristur er upprunnin í Beten. Þegar við vorum þarna var Karnival í gangi, til heiðurs Svarta Kristi. Við vorum þarna síðasta dag Karnivalsins, og þá var skotið upp flugeldum, og mikið um dýrðir.
Hótel Beten.
Horft út yfir vatnið í ljósaskiptunum frá hótelsvölunum.
Fiskur úr vatninu. Hann bragðaðist vel.
Við fengum okkur ljúfengan kvöldverð á hótelinu, fengum okkur fisk úr vatninu sem umlykur Flores, auðvitað skolað niður með eðalrauðvíni, og herlegheitin á hlægilegu verði.
Við fórum samt snemma í háttinn því rútan átti að koma klukkan fimm um morguninn til að ná í okkur og fara áleiðis til Belize.
Hún kom 5.30 latin tímatal, til að ná í okkur. Okkur hafði verið lofað lúxusrútu, en þetta sem kom var nú samt einhver endemis garmur. Það er tveggja tíma akstur að landamærunum, og annað eins til Höfuðborgarinnar Belíze. En við ætluðum ekki að stoppa þar heldur fara út á eyju sem heitir Kaye Caulker.
Segi meira seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.2.2012 | 23:07
Ég fór inn á síðuna hans Guðbjörns Guðbjörnssonar þar sem hann ræðir um opinbera starfsmenn þeim til stuðnings og svaraði þar og fékk þetta skemmtilega innlegg til mín:
Ó kom ég við einhvern viðkvæman blett UNI,.....
Uni:
Ég veit ekkert hvar eða hvernig þú snertir sjálfa þig ÁSTHILDUR, þú verður bara að eiga það við þig.
Ég:
....ég bendi þér vinsamlegast á að hér ríkir málfrelsi ennþá hvað sem netlöggunni dettur í hug að gera næst.
Uni:
Það er þér og þínum líkt að verjast (í mjög víðri merkingu) réttmætum leiðréttingum á kjaftæðinu, vænissýkinni og yfirlætisstælunum með því að setjast í fórnarlambs og fósturstellingu.
Alveg er mér sama hverju þú ælir út úr þér. Gangi þér vel með það.
Ég.
....ég er ekki á mála hjá neinum eða læt einhverja tæla mig út í eitthvað sem ég vil ekki eða skil ekki.
UNi:
Án efa kyndir og kitlar það minnimáttarkenndina sem fnæsir bakvið málþvogl þitt að telja þig vera hluti af einhverjum stærri samtökum áróðurs, fyrirlitningar og xenofóbíu, ekki efast ég um að þú ert sjálfviljug í þeim sóðaklúbbi, en þú ert á mála fyrir meistara þeirra hina ömurlegu sjálftökustétt og gamla yfirvald Íslands sem hrundi. Þú ert fortíðin sem sáir í akur óvinar síns og klappar sjálfri þér á bakið fyrir eign snilli.
Ég:
Ég er svo ekki í boði L.Í.Ú. ´styrki reyndar Heimsýn, það geri ég vegna þess að mér er sama hvaðan gott kemur.
Uni:
Heimsýn er í boði LÍÚ, þú og þinn áróður er í boði LÍÚ, xD, afturhaldskommatitta og þjóðernisfasista. Skólps samfélagsins. Hafi nokkru sinni eitthvað komið gott úr þeirri hirð þá hefur það runnið samstundis undir rassinn á þeim sjálfum. Þú ert sú síðasta sem yfirboðurum þínum er annt um.
Ég:
....og ég tel þá vera að vinna heimavinnuna sína ásamt Vinstrivaktinni og fleiri slíkum samtökum sem berjast fyrir frelsi íslendinga.
Uni:
Enginn sem kemur nálægt Heimsýn berst fyrir frelsi Íslendinga, þeir berjast fyrir eigin þröngu hagsmunum og nota nytsama hálfvita sem fótgönguliða, mata í þá kjaftæði og torf, deila og drottna á meðan þú og aðrir stuðningsmenn þeirra halda ekki hlandi yfir áróðrinum. Aldrei hefur LÍÚ barist fyrir frelsi Íslendinga, aldrei hafa íhaldsklíkurnar barist fyrir frelsi Íslendinga, aldrei hafa stalínistar barist fyrir frelsi Íslendinga, aldrei hafa jaðarhópar nokkru sinni barist fyrir hagsmunum heildarinnar aðeins sínum þröngu og vafasömu hagsmunum.
Ég:
...Svo hef ég aldrei borið neina hlutleysisgrímu. Ég hef alltaf sagt það sem mér finnst hreint út.
Uni:
Þú segir bara það sem þér er sagt að segja. Þú hefur ekki rænu á öðru.
Tilvitnunum lýkur.
Hahahaha....
Já svona er þetta þar á bænum. Og ég segi nú bara ef Guðbjörn ætlar að fá atkvæði út á svona máltilbúnað þá hefur hann ekki erindi sem erfiði.
Mér finnst þetta svo skondið, hvernig fólk getur hrapað að ályktunum til að verja málstað sinn og fer svo ofan í skotfgröf sem það kemst hreinlega ekki upp úr.
Þeir sem þekkja mig vita hversu arfavitlaus þessi svör þessa Una er.
Já þeir leynast víða brandararnir ekki satt?
Og ég segi bara góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2012 | 15:15
Aðeins ein lyfta er á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði og bilaði hún í síðustu viku, einmitt þegar að kona þurfti að komast í keisaraskurð, eftir fimmtán klukkustunda hríðir. Matthildur Valdimarsdóttir, konan sem um er rætt, og segir hún afar óheppilegt að lyftan skyldi hafa bilað einmitt þegar hún þurfti að komast niður á skurðdeild. Hún gat þó með herkjum gengið á milli hæða og komst niður á næstu hæð þar sem aðgerðin var framkvæmd. Þegar keisaraskurðinum var lokið og móðirin þurfti að komast upp til nýfæddrar dóttur sinnar sem þar beið, þá var lyftan enn biluð. Kalla þurfti út sjúkraflutningamenn til að bera hina nýbökuðu móður á milli hæða. Matthildur segir mildi að ástand hennar hafi ekki verið alvarlegra. Hún þakkar starfsfólki Fjórðungssjúkrahússins þeirra viðbrögð og segir þau hafa gert allt til að létta henni lífið undir þeim kringumstæðum sem sköpuðust.
Í fréttum svæðisútvarpsins á Ísafirði í síðustu viku kom fram að ný lyfta sem tengja á skurðdeild við legudeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði, hafi verið á hafnarbakkanum á Ísafirði í um átta mánuði. Leifur Benediktsson deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu sagði í samtali við svæðisútvarpið, að til stæði að setja hana upp í sumar. Eftir á að byggja utan um lyftuna. Leifur segir hönnun langt komna en kostnað ekki liggja fyrir.
Þröstur Óskarsson framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar segir ekkert nýtt í kortunum síðan í síðustu viku, segir hann Leif Benediktsson væntanlegan til Ísafjarðar innan tíðar og þá ættu málin að skýrast. Þröstur segir það miður að einungis sé ein lyfta í húsinu.
annska@bb.is
Já svona var það þann 14 febrúar árið 2007. Matthildur tengdadóttir mín var komin niður á spítala kvöldið áður og ég sem mátti vera viðstödd ásamt syni mínum Inga Þór. Eftir 15 klst. hríðir sem okkur fannst óendalega lengi að líka, ákvað læknirinn að gera á henni keisaraskurð. Það voru tendar í hana allar leiðslur og gert klárt til að fara með hana eina hæð niður á skurðsstofuna. En svo kom í ljós að lyftan var biluð, og þessi elska þurfti að labba sig niður stigan, með sínar leiðslur og hríðarverki.
Litla stúlkan mín kom svo í heiminn morguninn þann 14. febrúar á Valentínusardaginn. Ljósmóðirn heitir Ásthildur og amman heitir líka Ásthildur, pabbi hennar og mamma voru ástfangin svo það var allt fullt af ást þegar þessi litla prinsessa fæddist.
Og hún er hverrar sekúndu virði af þessum biðtíma, því hún er yndisleg.
Og ég er viss um að þetta varð til þess að nýja lyftan komst í gagnið.
Ég tók þessa mynd þegar sjúkraliðarnir báru hana aftur upp á sjúkrastofuna. Það var mikill léttir.
Hér er hún svo þessi fallega hnáta hennar ömmu sín
Innilega til hamingju með afmælið elsku Evíta Cesil mín.
Þið eruð eiginlega alltof langt í burtu frá mér. Risaknús til ykkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2012 | 14:36
![]() |
Átti ekki að heyrast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2012 | 21:06
Þessar tvær uppákomur á alþingi núna sýna að ríkisstjórnin er að missa tökin á sjálfum sér. Ástandið er orðið það svakalegt að þeir eru að gefast upp. Enda er þessi ríkisstjórn tæknilega fallinn, það á bara eftir að gefa út dánarvottorðið.
Þeir skilja þetta Össur og Steingrímur, þó Jóhanna sjái það ekki. Hún hefur víst ekki mikið pólitískt nef, aðallega ráðasemi, og ætlar að verða þarna til 100 ára aldurs. Þegar Össur hefur sagt það hreint út að það þurfi að skipta um yfirstjórn flokksins þá segir það sína sögu. Þegar Árni Páll og Sighvatur Björgvinsson eru spurði hvort skipta þurfi um formann og þeir vilja ekki svara, þá má segja að þögn sé sama og samþykki. Hver einast einstaklingur sem fengi slík viðbrögð frá sínum nánustu samstarfsmönnum myndi sjá að tíminn væri komin til að hverfa af vettvangi með reisn. En ekki okkar manneskja. Hún ætlar að vera áfram fram til 100 ára. sem sagt 30 ár í viðbót.
Samfylkingarfólki finnst það fyndið að Steingrímur skyldi missa algjörlega stjórn á skapi sínu við saklausri fyrirspurn frá Sigmundi Davíð, já það er af því Sigmundur er svona og svona....
Þá er semsagt allt í lagi að ráðherra sem gegnir þremur ráðherraembættum skeyti þannig skapi sínu á alþingismanni. Þetta eru nú aldeilis flottar fyrirmyndir.
Þegar Steingrímur fór úr pontu kallaði Sigmundur Davíð úr þingsal. Ekki heyrðist greinilega í vefútsendingu Alþingis hvað Sigmundur kallaði. Hins vegar er ljóst að Steingrímur brást illa við: Æ, þegiðu" var svarið og bað Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, þingmenn um að gæta orða sinna.
Af hverju drullast þú ekki til að segja landráð," sagði Steingrímur svo eftir að hann var sestur aftur í sætið sitt.
http://visir.is/steingrimur-vid-sigmund-david--ae,-thegidu/article/2012120219636
Eða Össur í sínu svari til Vigdísar Hauksdóttur sem er jafnvel ennþá merkilegra.
"Vigdís spurði meðal annars út í það hvernig stæði á því að utanríkisráðuneytið hafi samið við stækkunardeild ESB um að opna hér Evrópustofu.
Í svari Össurar segir að fyrirspurnin sé á misskilningi byggð og hana hefði mátt uppræta með því að leita til Evrópustofu. Rangt sé að ráðuneytið hafi samið við einn eða neinn um Evrópustofu og slíkri ósk var aldrei komið á framfæri við ESB, hvorki formlega né óformlega og er svo vísað í ofangreinda tilvitnun í Íslandsklukkuna. Allt frumkvæði hafi komið frá Brussel eins og ýmislegt gott sem eflt hefur hag Íslands.
Hér annað hvort lýgur Össur eða Björn Bjarnason, því hann segir í pistli sem hann ritaði þegar hann fór sérstaka ferð til Brussel og Berlín til að ræða við ráðamenn ESB um ferlið.
Svona er hans útfærsla á þessu:
"Ríkisstjórn Íslands taldi nauðsynlegt að auka þekkingu Íslendinga á Evrópusambandinu. Hún sneri sér til stækkunardeildar Evrópusambandsins með tilmæli um að þetta yrði gert. Stækkunardeildin samþykkti að verða við tilmælunum og ákvað að verja 1,4 milljónum evra (nú um 220 m. ISK) á tveimur árum til þessa verkefnis. Var kynningarstarfið sett í útboð. Í ágúst 2011 var kynnt að tilboði Media Consulta í Berlín hefði verið tekið og á Íslandi yrði Athygli almannatengsl framkvæmdaraðili. Innan tíðar verður kynningarskrifstofa ESB opnuð í hjarta Reykjavíkur undir þessum formerkjum.
Þegar ég hafði á orði í Berlín að einhverjir á Íslandi teldu að með því að stofna til kynningarstarfs af þessu tagi bryti Evrópusambandið gegn íslenskum lögum var mér snarlega bent á að þetta væri gert að tilmælum ríkisstjórnar Íslands. Hún hefði snúið sér til ESB og farið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún tæki að sér að fræða Íslendinga um ESB. Vissu íslensk stjórnvöld ekki hvað væri heimilt eða óheimilt í þessu tilliti væri það vandamál annarra en þeirra sem hefðu tekið að sér að framkvæma verkefnið á grundvelli útboðs í krafti samnings milli ríkisstjórnarinnar og ESB."
Ég fyrir mitt leyti trúi frekar Birni Bjarnasyni, því það vill svo til að Össur hefur ekki sagt allan sannleikann um ESB umsóknina hingað, til réttara sagt aðlögunarferlið og er sífellt að fara undan í flæmingi. En dæmi hver fyrir sig.
Það er líka ljóst eftir skoðanakannanir í Fréttablaðinu að meirihluti íslendinga vill kosningar í vor. Það er erfitt veit ég fyrir ríkisstjórnarflokka sem eru með allt niður um sig, og hafa ekki komin neinu í verk til að bjarga heimilum landsins.
En fólkið í landinu svona fyrir utan hörðustu stuðningsmenn stjórarinnar vilja kosningar. Nú hafa komið fram nokkur ný framboð og sum þeirra lofa góðu eins og Samstaða og Breiðfylkingin. Nú þarf þjóðin að vanda sig til verks, lesa sér til um hvað er í boði. Og bera saman orð og efndir stjórnmálamanna hingað til. Hverjir hafa svikið öll sín sjónarmið, hverjir hafa sagt sig frá titlum og togum vegna þess að þeim líkar ekki hve frjálslega er farið með það sem fólki var lofað. Alla vega einn þingmaður hefur beðið kjósendur sína afsökunar á því að hafa ginnt þá til að kjósa flokkinn sem hann fór fyrir.
Atkvæði er hverjum manni heilagur réttur, en um leið hvílir sú skylda á greiðandanum að hann standi undir ábyrgð og láti ekki loforð um gull og græna skóga plata sig til að gefa atkvæði sitt, heldur virkilega reyna að setja sig inn í hvað er best fyrir þessa þjóð. Og þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við munum fá að sjá breytingar og Nýtt Ísland rísa.
ÁFRAM NÝTT ÍSLAND.
Áfram Nýtt Ísland, við ýtum úr vör,
á úfinn og kólgandi marinn.
Með hugsjónir góðar, er hafin sú för
og heilagur rétturinn varinn.
Þegnarnir uppskera eins og þeir sá.
Þetta er alla að kyrkja.
Nú þurfum við atkvæð´ og þau ekki fá
því við viljum mannauðin virkja.
Því réttum við fram okkar hjálpandi hönd,
heitstrengjum - ykkar er valið.
Og biðjum að fljótlega bresti þau bönd
Sem brýnt hafa okkur og kvalið.
Áfram Nýtt Ísland, við siglum þann sjó
Sem samhugur einn getur bundið.
Og finnum þá gleði í hjarta- og fró,
Sem friðþæging ein getur fundið.
![]() |
Æ, þegiðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
13.2.2012 | 13:04
Það hefur glumið í útvarpinu og annarsstaðar að Blár Ópal hafi sigrað í keppninni.
http://www.dv.is/frettir/2012/2/12/blar-opal-burstadi-simakosninguna/
Hverslags fréttamennska er þetta eiginlega. Þetta hefur verið í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum á ruv bæði í sjónvarpinu og útvarpinu. Ég á ekki orð, og svo er látið liggja að því að dómnefndin hafi framið eitthvað óskaplegt og þess vegna séu nöfn þeirra ekki birt. Væntanlega svo hægt verði að segja að þau hafi ekki haft nógan þroska til að velja.
Málið er að lagið Mundu eftir mér vann. Punktur Basta.
Sérstaklega er þetta skammarlegt af starfsmönnum ríkisútvarpsins að tala svona. Því þetta var á þeirra vegum. Það er engu líkara en að einhverjir þar innanhúss hafi verið hlutdrægir.
En ég segi nú bara hvaða áhrif hefur svona á þessa ungu glæsilegu konu. Hún er ekki vön að vera milli tannanna á fólki og þetta er illa gert og ljótt gagnvart henni.
Auk þess er mér vel kunnugt um hverjir voru aðalkjósendur Blás Ópals. Ég veit það vegna þess að ég fékk það beint í æð. Það voru ungar stúlkur á aldrinum 10 - 15 ára. sem tóku sig saman, júrópartý og samband á Fésinu. Þó ég sé ekki að segja að þeirra atkvæði séu minna virði en dómnefndarinnar, þá er það bara svo að stundum grípur sig svona hópæsingur að láta sitt lið vinna, og þá er ekki endilega verið að spá í gæði lagsins heldur stundar hrifning á glæsilegum flutningsmönnum.
Ég er ekki að segja að það hafi verið eingöngu táningar sem studdu drengina, þeir voru flottir og komu ágætlega fram. En svona samanburður er bara ekki í lagi að mínu mati.
Að velta sér upp úr einhverjum atkvæðum og láta liggja að því að þeir hefðu frekar átt að fara er vont fyrir það fólk sem sigraði keppnina og veitir ekki af öllum okkar stuðningi. Enda vel að þeim sigri komin.
Þess vegna segi ég bara áfram Greta, Jónsi og félagar. Þið eruð vel að sigrinum komin og eigið stuðning þjóðarinnar skilinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.2.2012 | 22:54
Ég er afar sátt við að senda þetta lag í keppnina. Ég kaus að vísu hrútspungana nokkrum sinnum eins og unglingur Hefði verið gaman að senda "eitthvað íslenskt og gott". En þetta lag er frábært og ég vona að Gréta verði í sínu pússi sem hún var í í kvöld og á fyrra kvöldinu, falleg norræn og í upphluts- hvað sem það heitir á tæknimáli. Þau eru bæði flott og ég er viss um að þeim á eftir að ganga vel þarna úti. Bæði svo ljúf og náttúrleg. Til hamingju með þetta flotta lag.
![]() |
Jónsi og Greta til Bakú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.2.2012 | 14:30
![]() |
Óttast uppsögn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
10.2.2012 | 13:31
![]() |
Skart stöðvað á leið úr landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar