3.6.2012 | 10:57
Úr gullkistu Frjálslyndaflokksins.
Ég er að lesa Gullkistuna, blað sem Frjálslyndi flokkurinn gefur út. Frjálslyndi flokkurinn er sá flokkur sem hvað mest og best hefur barist fyrir réttlátri fiskveiðistefnu og hefur leiðsögn gamla skipstjórans og aflaklóarinnar Guðjóns Arnars verið kjölfestan í þeirri baráttu.
Í blaðinu þennan sjómannadaginn er grein eftir Ólaf Sigurðsson matvælafræðing sem heitir: Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.
Mig langar til að birta hana hér (án leyfis) til heiðurs sjómönnunum okkar og þorpunum allt kring um landið.
Lífsbjörg þorpanna var rænt frá okkur.
Við leikfélagarnir vorum 11 eða 12 ára þegar við byrjuðum að vinna á bryggjunni í Hafnarfirði. Lægsti taxti fyrir 16 ára og yngri var 80% af fullorðinslaunum. Náðu hátt í launin hans pabba í bankanum. Strákarnir í Vesturbænum voru hörkuduglegir, þó við værum bara krakkar. Unnið var til sjö og frameftir á laugardögm. Við þvoðum lestarborðin, klampana, steisklampa og fl. sem aftur fór í lestina nýþvegið eftir löndun. Þetta var alltaf svona á sumrin en skóli á veturna.
Oft fengum við vinnu um páska og í jólafríum, alltaf var gott að fá aur. Í bænum sást varla fólk á ferli, allir að vinna í Bæjarútgerðinni. Í hádegi og kvöldin flykktust konurnar í stígvélunum og hvítu jökkunum heim til að elda og svo til baka. Á sunnudögum var þrjúbíó og Bæjarbíó. Lífið var einfalt en vinnan gaf okkur margt og árin liðu.
Við bræðurnir fórum með launaumslögin til mömmu á föstudögum, ekki þurfti ég pening þangað til ég fór til tannlæknis í Reykjavík. Þetta var í þá tíð að unglilngar fengu falskar tennur í fermingargjöf.
Svo gerðist eitthvað, aflinn minnkaði, togarinn Maí varð þungur í rekstri og deilur stóðu um Bæjarútgerðina. Las svo í blaðinu að búið væri að selja togarann norður, það var alvarlegt fannst mér, unglingnum. Það flaug um bæinn að bæjarfulltrúarnir væru svo vitlausir að láta veiðarfærin með án þess að verðleggja þau. Manni fannst eitthvað vera að þessu öllu. Maður hafði alltaf haldið að þetta væri það sem bjargaði Íslandi og okkur frá fátæktinni. Þetta var í þá tíð þegar allt var nýtt, og engu hent og helst aldrei tekið lán, enginn peningur til. Epli voru að vísu aðeins um jólin og margt útlenskt okkur framandi.
Síðan komu nýjar veiðireglur og Maí fékk kvótann, sem hafnfirðingar höfðu unnið fyrir, Bæjarútgerðin var að líða undir lok. Fiskvinnslan var ekki svipur hjá sjón eftir að Bæjarútgerðin hætti. Ég ímynda mér að mörg sjávarplássin hafi lent í því sama, að missa fiskvinnsluna frá sér. Sums staðar er enn vinnsla í landi en nægir oft varla til að það sé lífvænlegt í mörgum plássum.
Mér gremst að til sé kvótakerfi, þar sem hægt er að taka af þorpunum aldagamlan rétt til að geta lifað í plássinu, í nafni hagræðingar í vinnslu. Svo var okkur í Hafnarnfirði boðið upp á stækkað álaver í staðinn. Nú ætla bæjarfulltrúarnir enn og aftur að hafa vit fyrir okkur, eftir að hafa selt kvótana frá þorpinu, fyrir einskis verð loforð um að vinnslan fari ekki.
Björginni hefur verið rænt frá þropunum, með hjálp bæjarstjórnar, ríkisstjórnar og að frumkvæði útvegsmanna. Álver duga okkur ekki. Samfélagslegt tjón er ekki metið, því það er ekki verið að reikna svoleiðis hluti. Sagði ekki forsætisráðherra Davíð Oddsson á sinni valdatíð, að það þyrfti að aðstoða fólk í fámennum byggðalögum að flytjast suður?
Ég veit ekki hvernig þetta gerðist að við hættum að hugsa um hvað hélt byggðinni uppi umhverfis landið, kannski að spilltir stjórnendur hafi skipt með sér gæðunum. Framsóknarmenn áttu landbúnaðinn og sjálfstæðismenn fiskinn og gráðugir einkahagsmunir réðu för. 'Eg veit að himnarnir hrynja ekki ef útgerðarmenn verða að borga gjald af auðlindinni. Veit líka að fólkið sem býr í fámennum sveitarfélögum umhverfis landið verður ekki í vandræðum með að veiða og vinna fisk eins og áður. Við kunnum þetta og getum alveg bjargað okkur, bara ef vil fáum það án þess að björginni verði stolið frá okkur aftur.
Til hamingju með daginn sjómenn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.6.2012 | 21:42
Viðtalið í Fréttatímanum.
Ég er afskaplega ánægð með viðtalið við Sigríði Dögg um Júlla minn og Jóhönnu í Fréttatímanum, blað sem ég hafði ekki lesið, en fékk þær upplýsingar að það kæmi á hverjum föstudagsmorgni á N1 á Ísafirði, en væri algjörlega búið um hádegið. Ég hafði því smáfyrirvara á og bað starfsmennina að geyma eitt eintak fyrir mig, og það var nákvæmlega þannig að þegar ég kom var ekkert eintak eftir, Ó ég bað um að þið geymduð eitt eintak fyrir mig sagði ég, já sagði stúlkan í afgreiðslunni og brosti það er hér og hún rétti mér eintak. Takk ljúfan.
Ég vona bara að þetta opni einhverjar gáttir til skilnings um hvað er að gerast.
Ein vinkona Jóhönnu hringdi í mig í dag til að þakka mér fyrir greinina, og sagði mér að hún hefði reynt að styðja við bakið á henni í súru og sætu. Og hún hafði einmitt bjargað henni kvöldið áður þegar hún missti meðvitund, var flutt á spítala og þegar vinkonan ætlaði að heimsækja hana daginn eftir, þá var hún farin út af spítalanum. Hún varð afar undrandi og spurði: Eruð þið ekki að djóka í mér? Vona að ég megi segja þetta umbúðarlaust. Nei hún var farin út af spítalanum. Og þar sem hún átti ekki í nein hús að venda, fór hún til fólks sem hún þekkti úr neyslu. Þannig bara gerðist það hræðilega.
Ef hún hefði fengið að fara í vistun þar sem hlúð hefði verið að henni og henni hálpað, hefði hún ef til vill getað komist upp úr þessu, því hún var bæði hrein og glöð þegar hún kom frá Sólheimum. En nei enn og aftur var henni kastað fyrir úlfana. Segi og skrifa. Svona getur alveg gert mann brjálaðan. Hvers á þetta blessaða fólk að gjalda að kerfið svo gjörsamlega hendir þeim beint út í dauðann.
Af hverju er ekki einhver stofnun sem tekur við konum, rétt eins og körlum þegar þau koma úr afplánun? Af hverju eiga þær bara að fá að vera á götunni og kastað út í það líf aftur og aftur, allt rifið burt?
Bæði Jóhanna og Júlli minn vildu hætta þessu lífi, en kerfið hafnaði þeim, og drap þau, það var nefnilega ekki óvinurinn andlitslausi sem drap þau, því þau vildu komast burt, það var kerfið sem drap þau. Fyrirlitning bókstafsins og óþolinmæði kerfisins sem á endanum drap þau, eins og svo marga aðra. Þessu þarf að linna og það þarf að þvinga kerfið þá á ég við íslenska ráðamenn sem setja lög um fangelsismál og félagsmál, ásamt mörgu öðru, til að gjörbreyta afstöðu sinni til fíkla og hvað það snýst um.
Ég vona að ég særi engan með þessari færslu, en stundum þarf bara að segja napran sannleikan til að fá fólk til að sjá á hversu þvílíkri rangri leið við erum. Og þetta ætti í raun og veru að vera eitt af næstu kosningaloforðum, því slíkur er fjöldi aðstandenda sem eru í sárum vegna aðstæðna í fjölskyldum. Það er nefnilega alrangt að þetta sé einkamál dómskerfis og félagsmála eða lögreglu, þetta er líka mál fjölskyldna og heilbrigðisstofnana og svo margra annara stofnana og einstaklinga.
Ég fæ ekki mitt fólk til baka, en svo sannarlega vil ég leggja mitt af mörkum til að aðrir foreldrar lendi ekki í því sama og við ástvinir Júlla míns og Jóhönnu, það er komið alveg nóg.
http://www.frettatiminn.is/tolublod/1_juni_2012 Hér er viðtalið. Og ég sé að þetta blað er bara mjög gott og yfirgripsmikið.
Svo lofaði ég einum viðskiptavini mínum að tilkynna að ég hef opnað garðplöntustöðina mína, hún verður opin sem hér segir:
Miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga frá 14.00- til 18.00
Laugardaga og sunnudaga frá 14.00 til 16.00.
lokað á mánudögum og þriðjudögum.
Hún hafði nefnilega áhyggjur af því að fáir vissu um opnunina, og svo er um marga fleiri, þessar elskur bera minn hag fyrir brjósti. En ég verð þarna sjálf og gef líka góð ráð og svara spurningum sem upp verða bornar, og allir velkomnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
28.5.2012 | 15:57
Júlli og Jóhanna - hvunndagshetjur.
Ég var í viðtali áðan við blaðakonu um málefni Júlla og Jóhönnu. Ég hef geymt ýmis skjöl og bréf frá viðureign minni og þeirra við kerfið, og vil sjá breytingar á umfjöllun um þennan málaflokk og þær persónur sem berjast þarna við að fá að vera til. Hef reyndar hugsað um að gefa út á bók upplifun mína af samlífinu með þessum elskum, svona til að gefa innsýn inn í aðstæður aðstandenda þeirra sem lenda utangarðs, það vill nefnilega gleymast að þar eru ástvinir og vinir.
Ég hef geymt ýmis skjöl og bréf frá þessum tíma og vil opna augu fólks fyrir því hve víðtæk og erfið þessi mál eru bæði því fólki sem ánetjast og svo aðstandendum og vinum.
Þessi blaðakona er frá Ísafirði og þekkti Júlla minn, og ekki sakar það.
Svo er hér upptaka af diski sem kemur út í sumar frá Þorsteini Hauki Þorsteinssyni. En hann hefur samið lag við saknaðarljóð mitt um Júlla minn.
http://www.youtube.com/watch?v=Oxy7ZHZLIyg
En nú þarf ég að fara upp á lóð og sinna blómum. Eigið góðan dag.
Lagið heitir Júlli Tomm hinsta kveðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.5.2012 | 23:52
Tvö bréf.
Var búin að skrifa minningargrein um Jóhönnu mína en hef ekki birt hana enn.
En ég hef ákveðið að nota sorgarsögu barnanna minna til að vekja fólk til umhugsunar um hvernig kerfið hefur malað þau undir sér, meðan hægt hefði verið að bjarga þeim.
Á morgun á ég von á blaðamanni til mín til að ræða um þessi mál.
En ég ætla að birta eitt tiltekið mál hér núna, en ég hef hugsað mér að skrifa sögu þeirra og vonandi gefa út, til að fólk átti sig á því hvað er í raun og veru í gangi með þessi öðruvísi börn okkar.
Sumt af þessu er trúnaðarmál, en þar sem þau eru bæði dáin, ætla ég einfaldlega ekki að huga að því frekar. Reyndar er lögfræðingurinn einni dáinn.
Lögfræðingur minn á þessum tíma, sem hjálpaði mér ótrúlega mikið Jón Oddsson sótti um að hún yrði ekki sett í fangelsi heldur fengi að afplána sína refsingu á annan hátt. Hér er bréf frá Heilsugæslustöðinni á Ísafirði um þetta mál.
2.júní skrifaði Jón Oddsson bréf fyrir mína hönd um frest á refsingu Jóhönnu. Svarbréf fangelsismálastofnunar er hér eftir bréf sem við sendum frá sálfræðingi sem við fengum til að gera úttekt á ástandinu.
Ísafjörður 13.08.97
Jóhanna Rut Birgisdóttir kom á stofu til undirritaðs í tengslum við fyrirhugaða afplánun 15. mánaðar fangelsisdóms sem hefst föstudaginn 15. ágúst n.k. Jóhanna kemur ásamt tengdamóður sinni Ásthildi Cesil Þórðardóttir kt. 110944 4469, sem jafnframt er ábyrgðaraðili gagnvart Barnaverndarnefnd Ísafjarðarbæjar um að Jóhanna og eiginmaður hennar, Júlíus Kristján Thomassen, sonur Ásthildar, sinni foresldraskyldum sínum gagnvart 6 mánaða gömlu barni þeirra, Þórði Alexander Úlfi Júlíussyni en þau búa á heimili Ásthildar.
Jóhanna Rut lýsir skoðun sinni á fyrirhugaðri afplánun á þá leið að ef af verður bitni hún aðallega á nokkra mánaða gömlum syni hennar, Þórði Alexander Úlfi og jafnframt á hjónabandi hennar og Júlíusar K. Thomassen.
Rökin eru einkum sú að það rask sem fylgir fangelsisvist og hugsanlegri fjarveru barnsins við móður vegna fangelsisvistunar, geti haft óæskileg áhrif á þroska barnsins og á eðlileg tengslamyndun barnsins við foreldra. Enn fremur að það góða samband og samvinna sem myndast hefur milli foreldra barnsins um barnauppeldið, sé stefnt í hættu og að líkur aukist verulega á því að fíkniefnaneysla hjá föður geti fylgt í kjölfarið vegna þeirrar röskunar sem fangelsisvist móður fylgir, ef af verður, en undanfarna 10 mánuði hefur Júlísus ekki neytt fíkniefna og helgað sig uppeldisstörfunum og að rækta gott samband við eiginkonuna. Jóhanna Rut hefur ekki neytt fíkniefna síðan í fyrra sumar og er staðráðin í að standa undir þeim foreldraskyldum sem á hana eru lagðar. Ábyrgðaraðili votta þessa frásögn.
Undirritaður lýsir sig sammála því sem að ofan greinir og telur að sú röskun sem fangelsisvist móður hefði óhjákvæmilega í för með sér, geti haft óæskileg áhrif á þroska barnsins og dregið úr eðlilegri tengslamyndun við foreldra. Í þessu sambandi telur undirritaður að heppilegast sé að hið góða samband móður, föður og barns sem skapast hefur, sé ekki stefnt í hættu með einhliða fangelsisvistun móður. SLíkt myndi óhjákvæmilega mest bitna á saklausu barninu.
Undirritað af sálfræðingi.
3. júlí 1997.
Með bréfi, dags. 20. júní 2997, fóruð þér þess á leit fyrir hönd skjólstæðings yðar Jóhönnu Rutar Birgisdóttur, að fyrirhugaðri afplánun hennar á 15 mán. tildæmdri refsingu með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 29. maí 1997, sem hefjast átti þann 28. júlí sl. yrði frestað til 1. óktóber 1997. Vísið þér í þessu sambandi til brýnna aðstæðna hennar vegna umönnunar sveinbarns hennar.
Samkvæmt 3. grein reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma er fangelsismálastofnun heimilt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, að veita frest á að hefja afplánun. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að afplánun hefjist streax er dómur verður fullnustuhæfur.
Í verklagsreglum fangelsismálastofnunar segir að í þeim tilvikum er frestur á afplánun er veittur skuli aðeins veita dómþolu skamma fresti og er þá átt við viku eða hálfan mánuð í senn. Mánaðarfrestir sem tíðkuðust hér áður fyrr eru aflagðir. Er þetta liður í þeirri stefnumörknu fangelsismálastofnunar að hraða allri refsifullnustu.
Í 2. gr. 3. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma nr. 29/1993 segir að við ákvörðun á því hvort að veita skuli frest á afplánun skuli m.a. taka mið af alvarleika afbrots dómþola, sakarferli og öðru sem máli skiptir. Skjólstæðingur yðar hefu alls 5. sinnum frá árinu 1990 verið dæmd til refsivistar fyrir auðgunarbrot. Hún hefur þrívegis afplánað refsivist, nú síðast frá 25. október 1994 til 22. desember 1995, en þá var henni veitt skilorðsbundin reynslulausn í 2 ár. Með ofangreindum dómi Hæstarréttar voru þessar eftirstöðvar dæmdar upp og var skjólstæðingur yðar dæmd í 15 mánaða fangelsi fyrir auðgunarbrot.
Eins og fram kemur í bréfi yðar fæddi skjólstæðingur yðar barn 8. mars 1997 og nýtur hún aðstoðar tengdamóður sinnar og væntanlega einnig barnsföður við umönnun barnsins. Fullkunnugt er um gildi samvista milli móður og ungabarns en engu að síður er eigi unnt að fallast á umbeðin frest með vísan til framkvæmdar. Vegna aðstæðna skjólstæðings yðar er hins vegart veittur frestur til 1. ágúst 1997 en þá skal afplánun hefjast.
Þessari úttekt var ekki svarað frekar. Fangelsismálastofnun var búin að gera sitt..... eða þannig.
Sem sagt ekki tekið tillit til neins nema lagabókstafsins. Á þessum tíma voru þau bæði hætt afbrotum og fannst þau eiga framtíðina fyrir sér með lítið barn, ástina og vonina um betri tíma. En ónei, ekkert tilliti tekið til þess. Það skyldi ganga fyrir að lagabókstafnum yrði fullnustað.
Hér vantar eitthvað inn í. Eitthvað mannlegt sem segði þessu hjartalausa lagabókstafsfólki að ef til vill væri mikilvægara að bjarga mannslífi en að hengja sig í þurra lagabókstafi.
Þess vegna ágætu lagabókstafsverðir er dauði þessa fólks bein afleiðing af ykkar og yfirvalda hjartalausu ákvarðana. Þið getið ekki veitt mínu fólki lífið aftur, en þið getið ef þið hafið einhverjar hjartataug, breytt þessu kerfi þannig að það sé tekið tillit til aðstæðna og skoðað hvort það sé ef til vill affarasælla að sjá í gegnum fingur við fíkla, ef það má verða til þess að þau verði nýtir þjóðfélagsþegnar, þegar þau hafa sýnt að þau eru á réttri leið. Að það sé ef til vill einhver ástæða til að hugsa að það sé ef til vill betra að taka hjartað á þetta og gefa smá sjens.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.5.2012 | 15:47
Smá músasaga.
Skemmtileg músasaga. Það hefur verið sagt að mýs séu skynsömustu dýrin, ekki veit ég það, en það eru samt margar skemmtilega sögur til um þessar elskur.
Í hænsnakofanum mínum eru tvær mýs, þær búa inn í veggnum, og skjótast alltaf þangað inn þegar mig ber að dyrum. Eru örugglega feimnar.
Eitt sinn er ég kom inn hafði ein hænan náð í aðra músina og var að goggast í hana, músin lá eins og dauð á bakinu með allar lappir upp í loftið. Svona hreyfingarlaus missti hænan strax áhugann á henni. Ég var að hugsa hvort það gæti verið að...... Það sást nefnilega ekkert á henni.
Hugsaði með mér að láta hana eiga sig.
Þegar ég kom í kofan daginn eftir var enginn mús dauð á gólfinu. Þá vissi ég hvað hafði gerst. Hún hafði nefnilega þóst vera dauð til að bjarga sér.
Enda eru þær báðar ennþá þarna að skjótast. Þetta var snilldar bragð hjá mýslu. Segið svo að dýrin hugsi ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.5.2012 | 14:41
Skriftir.
Jamm, stundum líður mér þannig að ég þarf að koma ýmsu frá mér sem ég er að burðast með. Sumt af því er ef til vill særandi fyrir einhverja, af því að ég geri mér grein fyrir því, líður mér illa.
Ég er í meyjarmerkinu sem er afar erfitt merki hvað tilfinningar varðar, meyjan er afskaplega raunsæ en tilfinninganæm og stutt í sjálfsásakanir. Þannig er ég. Ég er líka að spá í hvort ég sé ekki líka ADHD og með einhverfueinkenni, ég er ekki að grínast.
Það sem hefur bjargað mér gegnum tíðina eftir að ég fullorðnaðist er sennilega að kynnast Litla Leikklúbbnum og fara á fjölmörg leiklistarnámskeið bæði hér heima og á norðurlöndunum. Einnig að starfa með sálarrannsóknarfélaginu sem ég stofnaði reyndar sjálf með Völu Báru frænku minni sem nú er látinn, og allskonar andlegur stuðningur svo sem bænastundir með góðu fólki og kærleiksræktandi fólki.
Það hefur opnað mér sýn inn í annan og verðugri heim. En ekki síst að fá að alast upp með afa mínum sem var einn skyggnasti maður hér á landi, og fá sögurnar hans beint í æð, þegar við vorum tvö heima og amma á fundum, hann sagði mér allar sínar fallegu sögur um annan heim og hvernig hann fékk andlega leiðsögn alla sína tíð.
En nóg um það, þetta á jú að vera skriftir mínar.
Það sem mér þykir óskaplega vænt um er hvað fólk er yfirleitt gott við mig, hlýleg orð, faðmlög og hamhyggð allstaðar. Ég hugsa að ég hljóti að hafa fæðst undir heillastjörnu að fá allt þetta yndislega fólk til að vera mér svona gott.
Stundum langar mig reyndar til að öskra, þegar ég hugsa um það sem er að gerast hjá mér, húsið mitt og öll uppbygging og vinna í hættu vegna þess að eitthvað fólk úr Reykjavík ákvað að hér ætti að styrkja byggðina og það yrði gert með því að byggja risasnjó-skriðu- og aurskriðu varnargarð fyrir ofan mig, þó að aldrei hafi hér fallið slík flóð í mannaminnum.
Nýjasta nýtt í þessu er að það var ákveðið að byggja hér öldrunarheimili, sem er hið besta mál, nema að sú bygging þarf endilega að verða reist á gróðurreit sem ég er búin að vera að planta í síðastliðinn 30 ár eða svo. Þó sléttlendi og gras sé allstaðar í kring, þá þarf þessi bygging endilega að vera einmitt þarna.
Og ég nenni ekki að berjast í slíku lengur. Ég fékk því framgengt á sínum tíma að göngustíður sem var lagður fyrir neðan Sætúnið tæki á sig smá boga til að bjarga trjágerði sem ég og íbúar hverfisins höfðum gróðursett fyrir mörgum árum síðan og eru orðin stór og falleg tré. Það átti auðvitað að leggja hann beina línu og trén voru fyrir. En ég mun berjast til síðasta blóðdropa fyrir að halda húsinu mínu og lóðinni í kring og gróðursetningu okkar Ella í yfir 30 ár þar fyrir ofan.
Ég hef unnið hörðum höndum upp í garðplöntusölunni til að hafa allt klárt fyrir sölu, ég ætla að reyna að opna söluna næsta laugardag, ég verð víst ekki tilbúin fyrr. Því það hefur ýmislegt komið upp á. En ég hef engar áhyggjur af því svo sem.
Nema að ég hef lofað aðilum plöntum og sumt af því klikkaði í spírun, og mér er illa við að svíkja það sem ég hef lofað. Ég ákvað því að sækja þær plöntur sem við vantaði upp á suður. Hringdi í Garðheima, og Ellert blessaður bendi mér á að það væri miklu betra að sækja þær bara beint til Ingibjargar og Hilmars í Hveragerði.
Það var auðvitað þjóðráð. Ég ákvað þá að fara smá rúnt og sækja plönturnar. En málið er það að ég á allavega tvær yndislegar fjölskyldur að vinum þarna. Og ég hafði áhyggjur af því að fara þangað án þess að láta vita af mér. Önnur fjölskyldan er sem sagt skólasystir mín úr garðyrkjuskólanum og hennar fjölskylda líka með gróðrarstöð, hin er líka með garðyrkjustöð, og ég hef í mínum aumingjaskap misst af þeim. Yndælis fólk.
En sem sagt þar sem ég var svo hryllilega tímabundinn ákvað ég að fara um morguninn beint til Hveragerðis taka plönturnar og fara beint heim aftur. Ég lagði af stað í gær morgun kl. sex, var komin í Hveragerði um hálftólf, vegirnir eru orðnir svo góðir í dag, að þetta er ekki erfitt, en einnig er það svo að ekki þarf að fara inn í Reykjavík til að komast austur. Þegar búið var að hlaða bílinn minn, var svo lagt af stað aftur, og komin heim kl. hálf níu í gærkveldi. Nú kvelst ég af samviskubiti yfir að hafa ekki heilsað upp á þessa vini mína. En Ingibjörg er auðvitað yndæl, mamma hennar og mamma mín voru skólasystur og vinkonur.
Í fyrradag kom Úlfurinn minn inn til mín og sagði mér að allir ofnar í húsinu væru orðnir kaldir. Og svo fór heitavatnið líka. Það var orðið kalt í húsin í morgun. Og mér er illt í hnénu og ekki gerði kuldinn það betra
Ég hugsaði með mér að svona gæti þetta ekki gengið. Svo ég hringdi í Rolando minn og hann kom eins og skot, reddaði rafvirkja til að koma hita á húsið, en þá kom í ljós að kjallarinn var umflotinn vatni sem ég hafði ekki tekið eftir. Það þurfti því að losa stíflu sem hann gerði þessi elska. Mitt í þessu öllu kom svo þýsk vinkona mín inn úr dyrunum, var að koma í sumarhúsið sitt og ákvað að koma mér á óvart sem hún og gerði þessi elska.
Hún krafðist svo að hjálpa mér að losa bílinn sem var hlaðin plöntum. Stíflan er farin og bara eftir að þrífa kjallarann. Hitinn komin á.
Hjá mér er búin að vera músagangur, hún poppaði upp úr skúffum þegar ég opna óvænt, en loksins náðu kisurnar greyinu og tóku af henni hausinn. Svo nú er það vandamál úr sögunni.
Svona fyrir utan sorgina, reiðina yfir því sem er að gerast kring um mig hjá bænum, samviskubitið yfir að heilsa ekki upp á mína elskulegu vini í Hveragerði, þá hef ég það bara þokkalegt.
En það er líka gott að koma þessu bara frá sér. Það þarf enginn að lesa þetta, það er bara sett hér inn til að losa um stífluna sem er inn í mér. Svona eins og þegar maður stendur upp á hól og öskrar af öllum lífs og sálarkröftum, til að koma lagi á systemið.
En ef til vill á ég ekki skilið mína góðu vini og allt þetta góða fólk í kring um mig. En ég er samt alveg innilega þakklát fyrir ykkur öll
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.5.2012 | 21:36
Júróvisjón í öðru ljósi.
Ég var í Svíþjóð frá 1962-3 í lýðháskóla eina og það er kallað. Þegar Júróvisjónkeppnin fór fram langaði mig mikið til að fylgjast með, og það varð úr að ég fékk að vera í heimsókn hjá Husmor yfirkennaranum mínum í þeirri deild sem ég var. Ég man að ég hjólaði heim til hennar um langan veg til að fá að fylgjast með. Mig minnir að það hafi verið einmitt þá sem Dansevisa hin danska vann. Þá voru ekki margir þátttakendur. Seinna var ég að vinna á elliheimili í Glasgow sennilega 1965, og svona með smá lempni fékk ég að fylgjast með keppninni þá inn á dagstofu ellibelgjanna, alein því allir hinir voru farnir að sofa... eða höfðu ekki áhuga. Man ekki hvaða lag vann sennilega bretar. En ég man í bæði þessi skipti var the sovét uninon með og þar voru einhverjir óperusöngvarar sköllóttir og ljótir að mati unglings.
Svo varð breyting á þegar USSR skiptist upp og ótal smáríki urðu til, og öll austur Evrópa. Og þegar ég horfi á keppnina í dag, þá er bara himin og haf frá þessum fyrstu bernskuárum austursins. Og ég fullyrði að þarna hafi einmitt orðið rosalega flott breyting á. Hún hefur gerst svona lítið í einu, en svo núna eru flestir farnir að syngja á ensku, og mörg austurevrópulönd leggja fram rokkhljómsveitir og jafnvel hipphopptónlist.
Þarna hefur átt sér stað ótrúleg breyting á músiksmekk, og þar af leiðandi hefur austurEvrópa tileinkað sér vestræna músikstefnu, þannig að allt í einu eiga þau lönd aftur von um sigur sem eru ekki endilega austurevrópsk eða þannig.
AusturEvrópa hefur sem sagt samlagað sig vestur Evrópskri lagahefð. Þetta er gott dæmi um samruna, sem er ekki þvingaður, bara spurnig um áhuga unga fólksins okkar um samEvrópska hefð og væntingar.
ESB mætti taka þessa tækni upp og skilja að þvinguð aðild er ekki endilega það sem er heppilegt, heldur að leyfa þjóðum að aðlaga sig að þvi sem þau vilja. Þessi stefna Esb að þvinga þjóðir í einhvern ramma er einfaldlega röng og mun aldrei ganga upp.
Frjáls vilji er það sem mun alltaf vera affærasælast, bæði sem þjóðir og einstaklingar.
Og á endanum munum við sem erum að reyna að hrópa okkur hás um frelsi einstaklingsins og réttlæti handa öllum- lýðræðið sigrar, því réttlætið mun alltaf sigra að lokum.
Og nú vil ég koma hér að undirskriftarlista um að frú Jóhanna fari á fund forseta og lýsi vilja til að fram fari kosningar hið allra fyrsta. http://kjosendur.is/ Hvet fólk sem vill breyta að skrifa undir. Þetta er orðið bara gott.
Svo bara góða nótt elskurnar og sofið rótt, því það er nákvæmlega það sem við þurfum, að vera í sjálfsfriði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.5.2012 | 11:05
Má ekki sega að reynt hafi verið til þrautar í þetta sinn?
Ég held að það hafi verið rétt hjá Hreyfingunni að láta reyna á að ríkisstjórnin stæði við kosningaloforð sín. Nú er útséð um það, svo það er ekki eftir neinu að bíða.
"Það er skoðun okkar að þær smáskammtalækningar sem ráðist hefur verið í muni aldrei duga til að rétta stöðu þeirra heimila sem urðu fyrir forsendubresti við hrunið; þær eru kostnaðarsamar og fela í sér óréttlæti sem ekki er hægt að una við. Að okkar mati er nauðsynlegt að ráðast að rót vandans, leiðrétta lánin, afnema verðtrygginguna og skapa neytendavænt lánaumhverfi. Öðruvísi næst aldrei varanlegur árangur og hvorki sátt né réttlæti.
Þetta er niðurstaðan. Og hún er skýr, Hreyfingin hefur gefist upp á að reyna að koma fram sínum kosningaloforðum með því að fá ríkisstjórnina að því borði sem hún sjálf lagði hvað mesta áherslu á fyrir kosningar. Það er lýðnum ljóst núna að Jóhanna og Steingrímur hafa hreinlega engan áhuga á því að hjálpa heimilum landsins, þeirra hugur er allur hjá fjármálageiranum. Þá vitum við það, það hefur komið skýrara í ljós en þau sjálf vildu eflaust. Svart á hvítu, hvitt og klárt. Norræn velferðarstjórn hvað!
Lilja Móses lýsir því yfir að það þurfi kosningar strax.
Þá ætti ekki að vera nein bið á því að leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórnina.
Það er eiginlega lýsandi fyrir stjórnina þegar Steingrímur neitar því að viðræðum hafi verið slitið, þó allir þingmenn Hreyfingarinnar hafi verið með sameiginlega yfirlýsingu um að ekkert samkomulag hafi náðst. Hvað vill hann? heldur hann ef til vill að allir séu eins og hann, að það sé ekki orð að marka það sem fólk segir? Jú margur heldur mig sig. Það sannast hér.
Við ættum ef til vill að kjósa til alþingis samhliða forsetakosningum svona til að spara
![]() |
Ekkert samkomulag um stuðning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.5.2012 | 23:56
Það er þetta með "fræga fólkið"
Það er mikið búið að ræða komu Manfred Mann earth band til Íslands, að vísu var Manfred víst ekki með, en einhverjir félagar hans. Ég hef reyndar hitt þann ágæta mann og rætt við hann. Og reyndar fleiri slíka.
Ég var í Glasgow árin frá 1964-6 með hléum. Það var reyndar söguleg ferð, sem ég segi ef til vill síðar. En svo kom ég heim smátíma og þegar ég fór aftur hafði ég með mér forláta Hagströmgítar sem ég átti. Á flugstöðinni voru þá Kinks að fara heim eftir tónleika í Reykjavík. Þeir tóku eftir stelpunni með gítarinn og fóru að spyrja mig út úr. Þeir voru svo í sömu flugvél og ég, og þar sendu þeir einn breta til mín til að "kynna" mig fyrir Kinks. Ég fór auðvitað og talaði við þá mest alla ferðina, fékk meira að segja eiginhandaráritun þeirra allra, sennilega búin að týna henni. En þeir gerðu meira voru að fara að túra til Frakklands og buðu mér að koma með. Ég hugsaði nú með mér að það væri ef til vill ekki gítarfærni mín sem þar spilaði undir, og afþakkaði gott boð.
Ég átti góðan við í Glasgow sem var leikari og hafði aðgang að stúdíói sjónvarpsins, en þar fóru fram hljómleikar ýmissa frægra hljómsveita. Og ég fékk stundum að fara. Hlustaði þannig til dæmis á Lulu, og Sandy Shaw, mig langaði aðeins að ræða við hana og var það auðsótt mál. Hitti hana í búningsklefanum í hléi og við áttum ágætis viðræður, hún sagði mér m.a. að Hollies vinir hennar væru að túra á Íslandi, og ég kenndi henni að segja góðan dag á íslensku.
En aftur að Manfred Mann. Þegar ég var þarna úti var ég sem aupair. En til að drýgja tekjurnar fór ég að vinna í klúbbi sem kallaðist La Phonograf. Við vorum nokkur sem unnu þarna saman, og skiptumst á að vera í fatamóttökunni, selja kók og aðra drykki og vera plötusnúðar. Þá var alltaf gefið tipps og það voru einu launin sem við fengum. Eftir kvöldið skiptum við svo milli okkar því sem hafði komið inn, og var það oftast helmingi meira en vasapeningarnir sem ég fékk sem aupair.
En eitt kvöldið var okkur sagt að Manfred Mann og hljómsveit hefði boðað komu sína. Við vorum nokkuð spennt, þetta kvöld var ég plötusnúður. Það leið og beið og ekki kom hljómsveitin. Loks var okkur sagt að það væri þvílík þvaga fyrir utan og það væri verið að bjarga strákunum undan æstum konum. Það þurfti að vera meðlimur til að komast inn í þennan klúbb. Loks var tekið það ráð að lauma þeim inn um neyðarútganginn. Þegar Manfred Mann kom inn voru dömurnar búnar að rífa af honum alla gylltu hnappana á jakkanum hans. Hann tók þessu bara vel og við áttum ágætt spjall við diskótekið.
Sem sagt frægt fólk er bara rétt eins og við hin, og góðir listamenn hafa þetta umburðarlyndi og samkennd sem gerir þá hæfa til að deila list sinni til annara.
En svona var þetta og það var bara ævintýri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2012 | 12:20
Síðasta útspil ríkisstjórnar?
Mér finnst raunar jákvætt að Hreyfingin skuli reyna að lappa upp á leifarnar af ríkisstjórninni, með því að gefa þeim kost á lengri setu gegn ákveðnum málum eins og skuldavanda heimilanna, afnámi gjaldeyrishafta og lýðræðisumbóta, þar er líka tillaga sem þau hafa unnið um sjávarútvegsmál og fleira sem er í hag þjóðarinnar. Þetta sýnir þroskaða pólitík sem ég tel þau yfirleitt standa fyrir.
Málið er þó að þarna þarf að stíga varlega til jarðar. Ef illa tekst til, getur það orðið banabiti nýs framboðs. Það er sennilega orðið of seint að bjarga einhverju af þessum tætingi sem kallast ríkisstjórn. Hver höndin upp á móti annari og hatur og illindi setja mark sitt á allt samstarf, og þessi illindi eru mest undan ryfjum forstætisráðherrans og altmúligráðherrans.
Þetta síðast útspil þeirra skötuhjúa með að taka Guðmund inn og gera hann að einskonar ráðherra yfir atvinnumálunum sýnir í hvaða hjólför þau eru komin.
Nú eru allt í einu til fullt af peningum, en þeir peningar eru reyndar sýnd veiði en ekki gefinn. Að heyra forsætisráðherra segja að auðvitað kæmu fleiri að þessu borði, því þetta væru svo góðar tillögur.
Nú er ágætt að hrökkva allt í einu í gang með gylliboðum. En einhvernveginn sýnist mér að þetta líti vel út á blaði, en sé ekki beint til framkvæmda. Þetta var nú líka allt heldur loðið. Hvað er til dæmis grænt hagkerfi?
Og til hvers á að nota peningana? Jú það á að efla ferðaþjónustu, skapandi greinar? hvað sem það nú þýðir, efla vísindasjóði og menntun, flýta Dýrafjarðar- og Norðfjarðargöngum.
Nú er ég ekki á móti þessum framfaramálum síður en svo, en afsakið að mínu mati er hér allt á eina bókina lært. Þetta er eins og með snjóflóðavarnirnar hér fyrir ofan mig, það átti að skapa tímabundinn störf verktaka, a la pissa í skóinn sinn.
Nú þegar er ferðaþjónusta í fullum gangi og meira að segja farið að hafa áhyggjur af náttúruperlum landsins, að það sé jafnvel orðið og mikill átroðningur nú þegar. Hvert á þá að beina þessari nýju stefnu?
Hvað er það sem nefnist skapandi greinar?
Meðan öllu skólastarfi er haldið í herkví niðurskurðar á að auka vísindamenntun, hvernig væri að byrja á byrjuninni. Ef upphaf skólagöngu er ábótavant verða engir vísindaspekulantar til, á þá að flytja þá inn? Segi svona.
Það var aumkvunarvert að hlusta á Dag í kastljósinu eins og þroskur á þurru landi, reyna að koma einhverju viti í þetta með allskonar froðusnakki.
Ég vil sjá nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég hallast til dæmis að því að framlag Hreyfingarinnar til þess máls sé merkileg og góð. Ég vona að þau gefi ekki afslátt af sinni sannfæringu í því máli. Eða hvernig væri nú að nota þessa peninga til að kaupa kvótann af útgerðarmönnum, til að endurleigja þeim hann, það væri eitthvert vit í því.
Án þess að ég hafi hugmynd um það, þá hef ég grun um að ástandið sé svona, því menn vilja ekki hleypa Framsókn og Sjálfstæðismönnum aftur að kjötkötlunum. Ég skil það svo sem vel. Það hefur ekki gleymst allt sem þá gerðist með vinavæðingu og klíkuskap.
Málið er að þessi stjórnvöld eru bara ekkert skárri með það, en miklu verri verkstjórar.
Þetta útspil segir mér bara að þau eru virkilega farin að óttast um sinn hag Jóhanna og Steingrímur, með ESB hangandi út um gluggann og orðíð þvílíkt vandræðamál að það er ekki einu sinni nefnt lengur. Sennilega gengur ekki alveg nógu vel að tjónka við Hreyfinguna, sem vill koma sínum málum áfram eins og skuldavanda heimilanna, og sínu sjávarútvegfrumvarpi, en á því hefur Jóhanna engann áhuga, það hefði Hreyfingunni átt að vera ljóst strax um áramótin, þegar þau fengu engin trúverðug svör. Enda verður að segjast eins og er að forsætisráðherrann lofar og lofar, en það kemur aldrei neitt út úr því. Hvernig ætlar Hreyfingin þá að treysta því að ef þau verja ríkisstjórnina falli að hún framkvæmi loforð sín? Þar stendur ekki steinn yfir steini.
Ég hallast að því að nú séu öll sund að lokast og þá er gripið til þessa ráðs, gamla Ísland með stórkostlegum kosningaloforðum, til að fólk gleypi við og fyrirgefi úrræðaleysið s.l. þrjú ár. En... þetta er of handahófskennt of almennt orðað og of seint.
![]() |
Skuldamálin að fara að skýrast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
prakkarinn
-
katrinsnaeholm
-
jensgud
-
matthildurh
-
jenfo
-
kiddat
-
hronnsig
-
katlaa
-
katagunn
-
kolbrunb
-
joiragnars
-
birgitta
-
holi
-
rs1600
-
ktomm
-
heidathord
-
vestfirdir
-
steina
-
laufeywaage
-
maggadora
-
lehamzdr
-
icekeiko
-
isdrottningin
-
skaftie
-
hneta
-
hross
-
amman
-
johanneliasson
-
helgamagg
-
zeriaph
-
olafia
-
jogamagg
-
tigercopper
-
ellasprella
-
zumann
-
estro
-
sjos
-
gmaria
-
gudr
-
ktedd
-
salvor
-
bertha
-
solisasta
-
meistarinn
-
baenamaer
-
sirrycoach
-
annalilja
-
komediuleikhusid
-
tildators
-
hector
-
bene
-
skelfingmodur
-
fifudalur
-
xfakureyri
-
madddy
-
siggith
-
antonia
-
elina
-
rosaadalsteinsdottir
-
framtid
-
annaragna
-
sirri
-
thjodarsalin
-
bestalitla
-
helgatho
-
jyderupdrottningin
-
hallaj
-
ingistef
-
gudruntora
-
zunzilla
-
sisvet
-
aevark
-
bostoninga
-
ace
-
drengur
-
robbitomm
-
faktor
-
disag
-
ffreykjavik
-
ma
-
rannveigh
-
igg
-
robertb
-
sgisla
-
rafng
-
helgi-sigmunds
-
lotta
-
fullvalda
-
heimssyn
-
naflaskodun
-
johannesthor
-
jeg
-
huxa
-
sigrunzanz
-
jodua
-
tryggvigunnarhansen
-
minos
-
saemi7
-
blossom
-
ansigu
-
skagstrendingur
-
beggo3
-
h2o
-
westurfari
-
ammadagny
-
bjartsynisflokkurinn
-
elfarlogi
-
esig
-
sunna2
-
frjalslyndir
-
gudlaugbjork
-
gp
-
hreinn23
-
guki
-
gustafskulason
-
harhar33
-
diva73
-
huldagar
-
kliddi
-
axelma
-
keli
-
bassinn
-
jonvalurjensson
-
josefsmari
-
kuldaboli
-
kiddatomm
-
ksh
-
kristjan9
-
mio
-
omnivore
-
sumri
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
nafar
-
stjornlagathing
-
sattekkisatt
-
athena
-
tikin
-
vallyskulad
-
vest1
-
totibald
-
tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 9
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 2023363
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar