Grænir puttar og heitar hendur.

Jæja þá er best að koma sér upp í gróðurhús og halda áfram að sá og fjölga plöntunum mínum.  Ég hef svolitlar áhyggjur af honum Botta mínum, hef verið að spá í hvernig ég geti komið honum á réttan kjöl þó ekki væri annað.  Hef reynt að láta mér detta eitthvað í hug, patentlausn svo sem eins og einhverskonar grindur til að styðja við hann, en þá gæti hann illa synt en snéri þó rétt.  Ég er mikið að spá í hvort ég geti læknað hann með hugarorku eða handaryfirlagningu.  Ætla að prófa.  Veit samt ekki hvort svoleiðis dugir á litla fiska.  En það sakar engann að reyna.

Veðrið er hið ágætasta.  það er verið að plana að fara í ferðalag inn í Reykjanes á helginni.  Kajakklúbburinn og hafa það notalegt þar.  Við hjónin ætlum með og höfum auðvitað stubbinn okkar með líka.  Reykjanes er algjör paradís.  Allt þetta heitavatn og friður ríkir. 

Sum sé nú er um að gera að grufla svolitið í mold og plöntum.  Það er rosalega gott fyrir sálina. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggvinir og gestabók.

Ég er algjör nýgræðingur i þessari veröld.  Og á auðvitað margt eftir að læra.  En mér líður ljómandi vel hérna.  Margt gott fólk sem vill vera vinir mínir, og gleðja mig.  Mannskepnan er þannig, hún þarf alltaf hlýju og góðar hugsanir til að líða vel.  Það er líka þess vegna sem ég reyni að gefa slíkt frá sjálfri mér eins og ég get og er manneskja til.  Það er svo óendanlega mikils virði.  En kostar ekki neitt. 

Ég var að kíkja í gestabókina mína og þar eru nokkrir vinir mínir sem hafa kíkt við og sagt falleg orð.  Ég kann ekki alveg að svara til baka, svo ég segir bara mín elskuleg, orð ykkar glöddu mig og ég mun bera þau innra með mér í allan dag og örugglega lengur, og þau munu bera mig á vængjum léttleikans í dag.  Og ég ætla að bera þau áfram með því að brosa og vera góð við alla sem ég mæti.

Takk fyrir að hugsa til mín og gefa mér perlur, Perlur hjartans fölna ekki, detta ekki af, eða týnast, þær fara alveg inn í hjartað og hugann og geymast þar, og gefa manni jákvæða áru og hvetja til að vera góð manneskja. 

Langar að deila með ykkur smáljóði.

Ég hugsa oft er herðir frost,

hel dimm nóttin nálgast oss

Með skammdegi og skugga

Er skylda okkar að hugga.

Þann sem ekki á neinn að.

einskis barn, við skiljum það

að þá er þörfin brýna

að þekkja vitjun sína.

Með kærleikann sem leiðarljós

Lifir best vor sálarrós.

það blómið blítt sem dafnar

og birtu andans safnar.

Allt sem innra áttu nú

elsku þína og von og trú

vert er gaum að gefa

grát og sorgir sefa.

 

Dreyfðu ást um byggð og ból

Þá bestu áttu gleði jól.

Gott er lífið sitt á því að byggja.

Að sá sem gefur öðrum, allt mun þiggja.

Eigiði góðan dag öll. 

 

 


Nafnið mitt, gott veður og fiskur á hvolfi.

Já það er sól og blíða hér á Ísafirði, en ekkert rosalega mikil mengun sem betur fer.  Hér ættu allir að geta labbað heim úr vinnunni án þess að eiga á hættu að detta niður dauðir. 

En ég notaði tækifærið og tók mynd af legsteininum hans afa míns, liður í að reyna að fá nafnið mitt leiðrétt.  Með þessari mynd ætla ég að senda Hagtofunni bréf og fá leiðréttingu á þessari fáránlegu stafsetningu. 

'Eg er með heilmiklar áhyggjur af einum fiskinum mínum, hann er búin að vera veikur lengi.  Ég setti hann í bala og læt hann hafa heitt vatn a.m.k. tvisvar á dag.  Honum finnst gott að fara í hlýjuna og syndir alltaf þangað sem ég helli heita vatninu niður í balan hans.  En þessi elska syndir á hvolfi.  Ég veit ekki hvað ég á að gera.  Þetta er Koj hann er með sár á síðunni, en hann var orðin veikur áður en hann fékk sárið.  Slasaðist þegar verið var að ná honum upp úr fiskatjörninni.  Er einhver hér sem getur ráðlagt mér hvað er best að gera.  Þeir hafa dáið nokkrir í vetur.  Sumir segja að þeir séu einfaldlega of gamlir, en aðrir segja mér að koj geti orðið nokkra tugi ára gamlir.  Þeir eru sennilega um 10 ára þessir.  Þá datt mér í hug að af einhverjum orsökum hefði Permasect komist í vatnið, en þá hefðu þeir allir átt að deyja.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Allt það góða sem þú vilt að aðrir gjöri þér.

Hafið þið lent í því að vera nákvæmlega sá aðili sem hefur það í hendi sér að laga allt og gera gott úr öllu í kring um ykkur. 

Og þegar sú aðstaða kemur upp, að þið vitið að þið eruð nákvæmlega rétta manneskjan á rétta staðnum, sem getur bjargað málunum.  En það krefst þess að þið takið rétta ákvörðun, og standið sterk og þurfið að sannfæra fullt af fólki um að þetta sér rétta ákvörðunin.  En vitið jafnframt að allt getur brugðist til beggja vona.

Og finna svo að allt hefur farið á þann besta veg sem til er. 

Þannig hafa tveir síðustu dagarnir verið hjá mér.  Mér líður vel inn í mér, því þannig fór það núna hjá mér. 

En ég nýtti mér líka andlega leiðsögn.  Kallaði fram allt það góða og virkjaði það afl sem okkur býðst, ef við bara viljum biðja um það, og leyfa því að hjálpa okkur.

Þess vegna líður mér vel nákvæmlega núna.  Ég stend uppi sem sigurvegari, fyrir mér sjálfri, og sennilega flestum sem hlut eiga að máli.  Ég er stolt af sjálfri mér og finn að ég gerði það eina rétta, og það sem mér bar. 

Vonandi kemur eitthvað gott út úr því.  Og já örugglega.  Það er þessi tilfinnig um að hafa breytt rétt, og þessi yndislega tilfinnig inn í mér að það virkaði allt saman rétt.  Kærleikurinn og réttlæti náðu fram að ganga og nú sit ég og mér líður svo vel, af því að allt það góða sem maður gerir kemur til manns tífalt til baka. 

Við erum stundum skrýtnar manneskjurnar.  Harðasti töffari getur verið viðkvæmasta blómið, en töffaragangurinn er vörnin hans.  Og svo er það,  að sá sem maður heldur að sé viðkvæmastur reynist þegar allt kemur til alls, sá sterkasti í hópnum.   Þannig komum við sjálfum okkur og öðrum sífellt á óvart.  Þegar við náum að virkja þann kraft sem í okkur býr.  Og þorum líka að tala um hann og deila honum með öðrum.  Í dag var ég sigurvegari, og þegar ég fer í holuna mína(rúmið), þá er það með gleði í hjartanu og sálinni.  Gleði þess sem veit að hann hefur með æðri hjálp og samvinnu góðs fólks gert eitthvað gott. 


Að gefa líf.

Ég var að koma ofan úr gróðurhúsi.  Þar eru sumarblómin að gæjast upp úr moldinni, græn og hlakka örugglega til að verða stór og falleg blóm sem fólk vill setja í garðana sína.  Bíða þess að verða prikluð í stærri potta og fá tækifæri til að vaxa og dafna.  Ég var líka að taka græðlinga og stinga í mold.  Valdi fallegustu einstaklingana frá því í fyrra til að nota í nýjar plöntur, þetta er auðvitað ekki rasismi af því að um fánu er að ræða en ekki menn hehe...

En það er ótrúlega gefandi að fást við að græða upp og gefa líf.  Maður reynir líka að hlú að þeim plöntum sem eiga bágt eftir veturinn.  Þau eru tekin upp úr gömlu pottunum og fá nýja mold og eru snyrt og fá svo gott atlæti.  Þau sem ekki hafa almennilega náð sér eru sett á hitaborð með lýsingu og smá kærleikshjal svo þau drífi sig nú að vaxa.  Já það er nefnilega heilmikil sálfræði í umönnun plantna.  Alveg eins og dýra og manna.  Það er sagt að plöntur finni til, og hafi tilfinningar. 

Ég las einu sinni um plöntur sem komu upp um morðingja í BNA það var bara ekki tekið mark á vitnisburðinum.  En það voru gerðar rannsóknir á þessu.  Það var sett ofbeldi á svið i herbergi þar sem voru nokkar plöntur.  Síðan voru þeir með einhver mælitæki sem mældu spennu í plöntunum.  Í hvert sinn sem hinn meinti ofbeldismaður kom inn í herbergið sýndi mælirinn þessa spennu, en ekki ef einhver annar kom inn.  Svo að það eru fleiri Silent Witness til en ómálga börn eða dýr. 

Það er líka sagt að grænmeti æpi þegar það er skorið, það er bara á svo hárri tíðni að við heyrum það ekki.  Ekki frekar en óp maðksins þegar hann er þræddur upp á öngul.  En sagt er að hundar heyri þá tíðni.  Hvað svo sem satt er í þessu, þá er ýmislegt sem við skiljum ekki og vitum ekki, þó við þykjumst nú vita ýmislegt. 

Og þeir sem segja að plöntur geti ekki hreyft sig eru á algjörum villigötum.  Því þær geta það.  Þær geta snúið blöðum sínum í birtuna.  Og þegar maður snýr þeim á annan veg, líður ekki langur tími uns yfirborð blaðanna snýr aftur út í birtuna.

Ég heyrði líka af bandarískri tilraun í skóla, þar sem börn voru með plöntur.  Einn hópurinn talaði fallega og vel til þeirra, en annar formælti þeim.  Sagt var að þær plöntur sem fallega var talað til hafi dafnað betur en hinar.  Þetta getur alveg verið satt. Því það er svo margt milli himins og jarðar sem er til hliðar við okkar daglegu skynjun.  En það má helst ekki ræða það.  Og mjög svo auðvelt að rakka það niður og gera grín. 

Í gamla daga var harðlega bannað að tala um skyggnigáfu, og börn sem voru þannig voru lamin ef þau minntust á að sjá eitthvað sem aðrir sáu ekki.  Þetta hefur örugglega verið einn angi af þeirri hræðslu sem háir mannskepnunni.  Best að tala sem minnst um það sem maður skilur ekki. 

En maður á ef til vill eftir að ræða meira um þetta efni seinna.  Það er skyggni og álfa og huldufólk.  en að mínu mati þá er þetta allt saman raunverulegt og allt í kring um okkur.


Lokun iðjuþjálfunar geðdeildar Landspítalans.

Iðjuþjálfun Geðdeildar Landspítalans.

Er að loka.  Hvers vegna ?? Jú það fæst ekki starfsfólk hvers vegna ?? Jú vegna þess að kaupið er of lágt.

Er þetta focking hægt.  Ég bara spyr. Á tímum ofureftirlauna ráðamanna og ofmönnum sendiráðsfulltrúa, á tímum dýrra sendiráðsbygginga út um allan heim, þar sem flottræfils háttur Íslands er aðhlátursefni þjóða.  Bruðls til að komast inn í öryggisráðið og bara allskonar peningaausturs.

Ættum við ekki aðeins að líta okkur nær.

Hvað er svo þessi iðjuþjálfun ? Jú hún er til bjargar fólki sem er með geðraskanir og aðra slíka sjúkdóma, stofnun sem hjálpar þeim aftur út í lífið.  Lokun setur fullt af fólki út úr daglegu lífi utan stofnana. 

Er þetta hægt.  Er þetta það sem við viljum ?

Nei kæru samlandar. Þetta er ekki það sem við viljum.  En gerum við eitthvað í því ? Ónei það er varla fréttaefni nema í útvarpinu.

Maður verður orðlaus af undrun við að sjá hve sofandi ráðamenn eru gagnvart þeim sem minna mega sín.  Og ég segi bara skammist þið ykkar. Og gjörið svo vel að hækka launin við iðjuþjálfarana svo stofnunin fái fólk til starfa. Það vantar u.þ.b. þrjú störf.  Mér heyrist á öllu að starfsfólkið sem þarna er, sé algjörlega frábært, en yfirkeyrt af vinnu og lágum launum.

Hvar er nú ríka þjóðin Ísland sem grobbar sig af að vera með ríkustu þjóðum heims.  

Og svo má spyrja hvar ætla þessir menn að fá pening til að reka margfrægt hátæknisjúkrahús, ef þeir hafa ekki efni á að sinna þeim sem fyrir eru.  Svei bara. Angry


Jæja stelpur mínar þá er það næsta mál á dagskrá ! Kom svo...

Elskulegu, glæsilegu, blóðheitu, íslensku konur, þið lögðuð upp í orustu með þó nokkur merarhjörtu í buxum með bindi, sem eru í lykilstöðum í þjóðfélaginu og unnu góðan sigur, til hamingju með það.

 

En ég hefði viljað sjá önnur mál þarna á oddinum, svo sem eins og;

Lækkun okurvaxta og þjónustugjalda bankanna, afnám vöru-  og aðflutningsgjalda ríkisins, lækkun skatta og hækkun skattleysismarka, nú eða  ósk um betri aðbúnað örykja og aldraðra, þyngingu á dómum í nauðgunar, barnaníðs og heimilisofbeldismálum, eða ósk um stofnun lokaðrar meðferðarstofnunar fyrir langt leidda fíkla, eða bara aðstoð við Birgisstúlkur og Breiðuvíkurdrengi..... en   þið unnuð glæsilegan sigur og sýnduð að þetta er hægt.  Svo hvað á að taka fyrir næst ?


Jæja

Þá er það hin hliðin á stóra klámmálinu.

Ég hef haldið mig til hés í þessu máli.  Minnir mig óþægilega á aðra æsingaherferð sem var að vísu á allt öðrum forsendum en múgæsing samt.

Ég óttast þessar múgæsingar, fólk hrífst með einhverju og bylgjan fer af stað.  Menn æsa hvern annan upp og það er erfitt að standa gegn flóðbylgjunni.  Þegar svo æsingurinn rennur af fólki þá óttast ég í þessu tilfelli  að hér hafi menn unnið orustuna en tapað stríðinu. 

Vonandi er það rangt mat hjá mér.  En einhvernveginn býður mér í grun að hér hafi verið farið offari og við eigum eftir að sjá ýmiskonar eftirfylgni af þessu máli. 

Hér meðfylgjandi er til dæmis ein hliðin.  Önnur er áróður klámkónganna sem byrjaður er um hvaladráp og mun sömu aðferðum verða beitt þar og við sáum hér.  Það er víst.

Við ættum alltaf að skoða endinn í upphafi og gera okkur grein fyrir hvaða beygju leikurinn getur tekið.  Sú beygja getur tekið óvænta stefnu, sem enginn sér fyrir.

En við skulum vona að ég sé bara að sjá ofsjónum og þetta verði allt í gúddý.  En samt...............


mbl.is Klámframleiðendur ætla að leita lögfræðiaðstoðar vegna fjárhagslegs tjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem mig dreymdi um í sambandi við mína reynslu...

Var að hér yrði sett upp ráðstefna um fíkla og meðferðarúrræði.  Stór ráðstefna þar sem allir leggðu hönd á plóg, Lögregla, fangelsisstofnun, dómarar, geðlæknar, sálfræðingar, félagsmálayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, meðferðaraðilar, aðstandendur og fíklarnir sjálfir.  Allt þetta fólk býr yfir ákveðinni reynslu og þekkingu, en hún er ekki samræmd.  Þannig horfir lögreglan upp á þjáningu fíkilsins í fangelsinu, og læknirinn jafnvel neitar að gefa lyf.  Það hefur komið fyrir í mínu tilfelli.  Auðvitað eiga læknar að vita að það þarf að trappa niður einstakling sem er nær dauða en lífi af neyslu.  En meðan hann horfir ekki upp á það, og er þar að auki fullur fordóma yfir "dópistanum" þá setur hann sig ekki í þau spor.  Það er svo margt svona sem þarf að tala um milli fagaðila.  Til þess að árangur náist í fíkniefnafrumskóginum. 

Sú stefna sem viðgengist hefur þessi yfir 20 ár skilar engu.  Að vísu hefur Fangelsismálastofnun farið meira inn á meðferðarfasa, en alls ekki nóg að mínu mati.  Sumt fólk á bara alls ekkert heima innan fangelsisveggja heldur í lokuðum meðferðarstofnunum, þar sem það er mótiverað til að hætta.  Og fær ekki að fara út, fyrr en það getur nokkurn veginn staðið á eigin fótum.  Og þá þurfa félagsmálayfirvöld að taka við og styðja þau fyrstu skrefin út í lífið.

Það er nefnilega ótrúlegur heimur þarna úti.  Sem við þekkjum ekki.  Og fíkill sem hefur verið mörg ár í neyslu hann þekkir ekki okkar heim.  Hann þekkir bara þann heim sem hann hefur dvalið í.  Og þar er margt ólíkt, eins og tildæmis eignarhald, þarna niðri er ekkert slíkt, þú bara átt það sem er þér næst.  Hvort það er flík eða peningur.  Þau hafa líka ákveðna samtryggingu, bjarga hvort öðru þegar allt um þrýtur.  Þannig að þegar svo einstaklingurinn þarf að fara að lifa eins og við, þ.e. vinna, borga skuldir og taka lán, þá kann hann ekkert á slíkt.  Bara þau skref geta verið óyfirstíganleg.  Svo kjarkurinn fer og allt fer í sama farið.

Fyrir utan að skilaboðin sem hann hefur fengið allan dóptímann er að hann sé óalandi og óferjandi fyrirlitinn og smáður.  Hann lýtur ekki sömu lögmálum og aðrir menn.  Þetta finna fíklarnir og smám saman brotnar algjörlega niður sjálfstraustið og í staðin kemur sjáflsfyrirlitning og kæruleysi um eigin hag og líðan. 

Þegar svo fíkill kemst yfir fyrsta hjallan þ.e. að losna við eitrið úr líkamanum, þá byrjar stríð númer tvö, að fóta sig í mannlegu samfélagi.  Vantraust og útskúfun er það sem hann finnur.  Auk þess að gömlu félagarnir reyna allt til að koma honum aftur á sömu braut.  Þeir vilja nefnilega ekki að neinn fari.

Annað er þegar menn hafa afplánað fangelsisvist þeir fara út, og hvað tekur við?  Hver ætli bíði á næsta horni til að "lána" honum pening.  Ef hann er ekki þegar stórskuldugur þegar hann kemur út, vegna kaupa á fíkniefnum innan veggja fangelsisins.  Það skyldi þó ekki vera sölumaður dauðans.  Ætli það sé nú ekki þannig oft og tíðum. 

Nei það er í mörg horn að líta.  Og margt sem þarf að huga að.  Ef við ætlum að ná einhverjum tökum á þessum hræðilega vanda.  Sem fer síversnandi vegna ráðaleysis. 

Og aldrei nást þeir sem fjármagna innflutning.  Hvar eru þeir ??  Hvítflibbarnir sem stjórna öllu þessu ferli.  Þeir sem skipuleggja og græða.  Sölumenn dauðans, óvinurinn andlitslausi.  Jú hann hefur það fínt. 


Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Feb. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 12
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 2023476

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband