Jarðarför Júlíusar míns.

Drengurinn minn var til foldar borinn í gær.  Athöfnin var afar falleg og hjartnæm.  Ég er barmafull af þakklæti til allra þeirra sem hjálpuðust að við að gera hana þannig.  Allir sem lögðu á sig undirbúning og vinnu frá A til Ö.  Þeir sem bökuðu kökur, hjálpuðu til við að uppvarta, þeir sem lögðu á sig langt og erfitt ferðalag til að fylgja honum, og allir sem mættu og vottuðu honum þannig hinstu virðingu.  Presturinn flutti þessa fallegu ræðu, og Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og Örn Árnason sungu fyrir hann, og Margrét Óskarsdóttir las upp ljóðið mitt.  Þetta fór allt svo fallega fram.  Mér líður svo vel með það.

En af því að það voru margir sem ekki komust, og aðrir sem eru svo langt í burtu en syrgja sárt.   þá ætla ég að setja hér inn myndir af þessari fallegu athöfn.  Ég veit nefnilega að það sárasta er að vera í burtu og geta ekki gert sér í hugalund, fylgt með i huganum, fyrst ekki er hægt að vera á staðnum.  Ég verð samt að viðurkenna að tárin eru byrjuð að renna við að setja þetta hér inn.

IMG_4320

Fyrstu myndirnar tók Halldór Sveinbjörnsson fyrir mig og ég vil segja innilega takk fyrir það.

En þessi mynd er tekinn um kl. ellefu og þá sá systir mín og vinkona að það var enginn kistuskreyting.  Þær ruku því til þessar elskur og gerðu afskaplega fallega skreytingu mest frá garðskálanum það var alveg í anda Júlla míns.  Einnig gerðu þær þessar tvær skreytingar hér fremst, önnur þeirra frá föður hans ömmu og systur frá Danmörku. 

IMG_4325

Það voru spiluð uppáhaldslög Júlla meðan fólkið var að ganga inn, það endaði svo á stairway to heaven, og síðan hófst þessi fallega athöfn.

IMG_4326

Séra Magnús hefur staðið við hlið okkar sem klettur allann þennan dimma tíma. Ég veit ekki hvort allir prestar gera slíkt.  En ég er honum afskaplega þakklát að vera mér innan handar, hann veit vel að ég er ekki kristinn og leyfði mér að blaðra út í eitt um mín hjartans mál og reyndi aldrei að troða neinu að mér. 

IMG_4328

Kirkjukórin söng tvö lög og gerði það afskaplega fallega.  Ó faðir gjör mig lítið ljós og Í bljúgri bæn.

IMG_4330

Hér sjást vel leirfuglarnir sem svo margir ísfirðingar og fleiri hafa gert og settir voru upp sem listaverk. 

IMG_4333

Haukur syngur.  Hann útsetti öll lögin sjálfur, samdi lag við ljóðið mitt og söng svo lag og ljóð sem hann samdi sjálfur og tileinkaði Júlla á geisladiski sem hann hefur gefið út. 

IMG_4334

Og það var sungið með hjartanu, kærleikanum til Júlla míns og af þeirri einlægni sem einkennir þennan frábæra mann.

IMG_4341

Örn söng lag og ljóð sem hann samdi í minningu Júlla og föður síns sem nýlega er látinn, þeir Júlli, Örn og faðir hans voru allir góðir vinir.

Það hljómar svona.

Það er búið að gerast aftur.

Það er búið að taka frá okkur

enn einn af þeim góðu.

Týndu ógæfufólki.

Með hjartað úr skíra gulli.

Spyr engann, bara tekur.

Of stór skammtur

herjar á alla

smitberi sorgar

þetta er sjúkdómur.

sjúkur dómur.

IMG_4343

Þessi yndislegi drengur söng með öllum tilfinningaskalanum.

IMG_4344

Og Margrét las upp ljóðið mitt.  Hún kom meira að segja í vitlausu veðri alla leið frá Þorlákshöfn til að gera það fyrir okkur Júlla.

IMG_4345

Og hún las það inn í öll hjörtu í kirkjunni.

IMG_4346

Moldunin er sár, en um leið er hún tákn um endurnýjun.  Eins og blómið sem fellur að hausti mun vakna í moldu að vori og blómstra jafnvel fegurra.

IMG_4348

Vinir hans báru kistuna úr kirkju.

IMG_4351

Þarna áttu að vera fleiri sem ekki komust.  Og fyrir þá og fleiri hef ég sett þessar myndir inn.

IMG_4352

Það sýnir okkur bara að það kemur allaf maður í mannsstað.

IMG_4354

Úlfur litli stóð sig eins og hetja. Og hér er Ólöf Dagmar, hún þekkti Júlla sem annan föður.

IMG_4357

Kirkjan var full af fólki sem vottaði Júlla mínum virðingu sína. 

IMG_4358

Sorgin er sár.

IMG_2958

Barnsmæður hans báru báðar kistuna ásamt systkinum hans og systkinum mínum.

Myndirnar hér á eftir tók elsklega frænka mín Sunneva Sigurðardóttir, sem var á fullu allan tíman að gera allt mögulegt og jafnvel ómögulegt.  Takk elsku Sunna mín.

IMG_2960

Jóhanna blessunin móðir Úlfs lagði það á sig að koma í jarðarförina.   Og stóð sig með sóma.

IMG_2970

ef til vill finnst einhverju óþægilegt að ég setji svona myndir inn.  En ég held að það sé gott fyrir fólkið sem missti af.  Elsku drengurinn minn hugsaði alltaf fyrst um aðra og svo um sjálfan sig.

IMG_2984

elsku pabbi minn.

IMG_2987

Það hefur stundum runnið í gegnum hugaminn um nokkurn tíma, og áður en Júlli dó setning sem Jesús sagði einu sinni.  Hann sagði Leyfið börnunum að koma til mín bannið þeim það ekki því þeirra er Guðsrsíki.

Börnin löðuðust alltaf að honum. 

IMG_2988

Hvíldu í friði sonurinn bjarti, hlýji og fagri.   Heart

IMG_2995

Það er brosað gegnum tárin, það hefur verið allt að 200 manns sem komu og heiðruðu hann í erfidrykkjunni.  Þar voru líka lögreglumenn sem höfðu haft af honum afskipti.  Ég kem vegna þess að mér þótti alltaf vænt um hann sagði einn, ég hef haft afskipti af honum síðan hann var 14 ára.  En ég gat ekki annað en fylgt honum í dag. 

IMG_3002

Heart

IMG_3005

Heart

IMG_3006

Sunna frænka hans hafði unni upp slidesmyndasýningu sem var sýnd í erfidrykkjunni. Fallegar myndir af góðum dreng.

IMG_3007

Krakkarnir í kúlu.

IMG_3014

Ólöf Hildur les upp ljóðið sitt um Júlla.

IMG_3021

Knúsírófurnar mínar.

IMG_3023

IMG_3026

IMG_3027

Og það voru endalaust af kökum og tertum af öllum gerðum.  Og nóg af öllu þó allt þetta fólk kæmi.

IMG_3032

Úlfur hafði líka gert slidemyndasýningu með aðstoð kennara síns, og við hofðum á það líka.  Virkilega flott hjá snáðanum mínum.

IMG_3033

IMG_3034

IMG_3054

Stoltir feður með frumburði sína.  Systkinabörnin í minni fjölskyldu hafa alltaf verið mjög náin, og góðir vinir.  Við viljum líka að börnin þeirra haldi því áfram.  Þau eiga stuðning hvort hjá öðru og það getur örugglega hjálpað þeim í brjáluðum heimi.  Að eiga hvort annað að. 

En ég er full af þakklæti til ykkar allra sem hafið gert svo mikið og hugsað svo fallega og sent kveðjur og gert svo margt gott og fallegt.

Nú vil ég biðja alla um að sameinast í því að biðja fyrir brotna og öðruvísu fólkinu okkar.  Að þau fái úrræði sem duga.  Lokuð meðferðarstofnun gæti verið byrjunin.  Hún er undirstaðan til að halda áfram og gera betur.  Fangelsi á ekki að vera þar inn í myndinni.

Eigið góðan dag mín kæru.  Og megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur öllum og vernda. Og innilega takk fyrir mig. Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er virkilega falleg lesning. Athöfnin var svo falleg. Júlla hefði örugglega fundist hann ekki eiga svona skilið. Það er bara alls ekki rétt, hann átti allt gott skilið og rúmlega það. Góður drengur er allur. Ég á alltaf eftir að sakna hans og minnast hans í gleði og hlíju:)

Mér þykir mikið vænt um þig elsku Íja mín. Takk fyrir allt.

Sjáumst á eftir. Ég og familíjan ætlum að kíkja í kaffi og hjálpa ykkur með afgangana:)

Sunneva (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 11:07

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 11:19

3 identicon

Ég var við þessa fallegu athöfn.

Það er virkilega flott hjá þér að hafa kjark til að setja bæði myndirnar og skrifin á bloggið til að þeir sem ekki höfðu tök á að koma geti fylgst  náið með úr fjarlægð og veit að það er mikil hjálp í því fyrir alla þá sem ekki gátu komið og þá sérstaklega fyrir pabba Júlla  og ömmu hanns í Danmörku

Góðar kveðjur úr Hrannargötunni  Friggi Jó

Jón Friðrik Jóhannsson ( Friggi Jó ) (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 11:30

4 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Ég samhryggist þér innilega.  Ótrúlega falleg færsla.  Fáir sjúklingar eru jafn illa dæmdir fyrir sjúkdóm sinn og fíklar og alkóhólistar - en þetta fólk býr oftast yfir mikilli lífsreynslu - slæmri oft - en dæmir yfirleitt ekki aðra - hvað þá aðra sjúklinga.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 11.10.2009 kl. 11:50

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Kristín Katla Árnadóttir, 11.10.2009 kl. 11:52

6 Smámynd: Ragnheiður

Yndislegar myndir og ég tárast yfir þeim. Fólk gleður mann svo mikið með að koma, vera með og aðstoða við að kveðja.

Himma fylgdu líka lögreglumenn og fangaverðir, starfsmenn í unglingastarfi. Það var gott

Kær kveðja elskuleg Ía mín

Ragnheiður , 11.10.2009 kl. 12:31

7 identicon

Yndisleg athöfn, þeir sem finnst eitthvað athugavert að burta þessar myndir geta sleppt að skoða þær. Þær gleðja okkur hin og gefur þér frið í hjarta að geta miðlað þeim.

Dísa (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 13:48

8 Smámynd: Fríða Bára Magnúsdóttir

Elsku Ásthildur og fjölskylda. Ég vil senda ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur á þessum erfiðleika tímum. Og þakka þér fyrir að vera svona sterk að geta deilt sorg þinni með okkur sem ekki komust til ykkar. Hugur minn hefur verið hjá ykkur. kv. Fríða Bára

Fríða Bára Magnúsdóttir, 11.10.2009 kl. 13:55

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Elsku vinkona, erfiður dagur er að baki og nú tekur hversdagsleikinn við á ný.  Ég vil segja þér að ég var hjá ykkur í huganum allan daginn og ég vil þakka þér fyrir að deila þessum myndum með okkur, það er gott að fá að fylgja honum alla leið.  Guð blessi Júlla þinn og alla þá sem hafa farið of snemma, megi sem flestir læra að baki hverju barni býr móður með kærleik í hjarta, alveg burtséð frá því hvernig barnið /unglingurinn lifir sínu lífi, ávallt elskum við þau. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2009 kl. 14:10

10 identicon

Kærleikskveðja i kúluna elsku Íja og fjölskylda.

Halla B. Þorkelsson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 14:11

11 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Sendi þér og fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kær kveðja

María Anna Kristjánsdóttir

María Anna P Kristjánsdóttir, 11.10.2009 kl. 14:49

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.10.2009 kl. 15:45

13 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Margfalt knús í kærleikskúlu elsku Ásthildur

Sigrún Jónsdóttir, 11.10.2009 kl. 16:11

14 identicon

Innilegar samúðarkveðjur til þín,  fjölskyldu og vina hans Júlla ykkar.  Megi minningin um góðan dreng lifa og vera okkur öllum lærdómur.  Það má sannarlega draga lærdóm af því sem þið genguð í gegnum.

Auður M

Auður M (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 16:50

15 Smámynd: Laufey B Waage

Ástarþakkir mín kæra

Laufey B Waage, 11.10.2009 kl. 17:58

16 identicon

takk fyrir myndirnar Ásthildur, hefdi gjarnan viljad fylgja Júlla sídustu metrana en thid vorud í huga mínum allann daginn.

Kær kvedja

Ásgeir Ingólfsson

Ásgeir Ingólfs (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 20:30

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur og þennan texta við lag, sem ber nafnið ÁKALL.

Er sorgin slær og syrtir að

við eigum erfitt með að skilja það

hvað ræður lífi og ræður för.

Við ráðgátunni fáum engin svör.

Er falla hin þungu tregatár

og tætt er sálin eins og opið sár.

Frá þjáðum berst hið þögla óp:

Þarf ég að lúta því sem þessi örlög skóp?

Þarf ég að lúta þeim sem þessi örlög skóp?

Við erum fá, - við erum smá, -

í hendi almættisins eins og strá, -

í eilífðinni augnablik, -

við andblæ fjúkum burt sem hismi og ryk.

Ég leita þess sem linar böl

og léttir hugarvíl og sára sálarkvöl:

Hin sanna ást, - hin sanna trú, -

hið sanna hjálpræði, ég hrópa á það nú!

Hið sanna hjálpræði, ég hrópa á það nú!

Drottin gaf, - drottinn tók.

Dómsorð skráir hann í lífsins bók.

Í hans hendi er allt vor ráð,

öll vor tilvera og hjálp og náð.

Ó, alvaldur í hæstu hæð!

Ó, hjálpa þú nú mér í minni smæð !

Ég hrópa á þig og heitt þig bið:

Ó viltu hugga mig og veita sálarfrið !

Ó, vildu hugga mig og veita sálarfrið !

Hrópa á þig, - heitt þig bið,

veit mér líkn og sálarfrið !

Ómar Ragnarsson, 11.10.2009 kl. 21:16

18 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég finn engin orð - vildi bara senda þér og þínum faðmlag.

Þótt fólki finnist ef til vill erfitt að skoða þessar myndir, þá er það ekkert miðað við hvað þið þurfið að ganga í gegnum. Haltu ótrauð áfram þína slóð

Hrönn Sigurðardóttir, 11.10.2009 kl. 21:34

19 Smámynd:

, 11.10.2009 kl. 21:57

20 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Kæra Áshildur Cesil. Votta mínu innilegustu samúð. Hlutverk þeirra sem eru tekin frá okkur sjást ekki með berum augum en eru gífurlega mikilvæg og öllum til hjálpar. Kær kveðja frá einni sem varð snortin af boggfærslunni og bið að allar góðar vættir veri með þér og þínum og gefi þér styrk og stuðning .

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.10.2009 kl. 22:15

21 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Mínar hjartans samúðarkveðjur og dýpsta hluttekning til kjarkmikillar og sórrar manneskju Ásthildar Cesil og allra annarra hlutaðeigandi.

Helgi Jóhann Hauksson, 11.10.2009 kl. 22:46

22 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.10.2009 kl. 22:55

23 Smámynd: Bjarni Kjartansson

 hvernig tekst maður á við lífið?

hvernig sættist maður við óréttlætið?

maður setur hausinn undir sig og heldur fucking áfram.

Þannig hafa allir forfeður og mæður okkar ,,heima" (fyrir vestan) gert.

Baráttan heldur áfram þó svo einn falli.

Sárt er og ekki á móður leggjandi, að kyssa son sinn kaldan ná. 

Mannheimur er slíkur og því er nauðsyn, að berjast gegn sölumönnunum.

Hugur minn er hjá ykkur það veist þú.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 11.10.2009 kl. 23:25

24 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.10.2009 kl. 23:43

25 identicon

Innilegar samúðarkveðjur til þín og ykkar allra.

Rósi og Elwyn.

Rosi Sigurdsson (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 01:13

26 Smámynd: IGG

Elsku kæra Ásthildur, Mér finnst svo óendanlega fallegt hvernig þú nálgast þennan mikla missi og sorg og ég sé ekkert nema kærleik og fegurð í frásögn þinni og myndunum. Megi allt það góða í heimi hér vernda og styrkja ykkur öll, ástvini Júlíusar, og minning um góðan dreng lýsa fram á veginn. Í kærleik og ljósi.

IGG , 12.10.2009 kl. 01:21

27 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég skynja að þetta hefur verið falleg athöfn.

Blessuð sé minning Júlíusar.

Sigurður Þórðarson, 12.10.2009 kl. 01:25

28 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

að eru fallegt orð allt í kring, lífið er fallegt og dauðinn er upprisa þess nýja sem hefur mikla fegurð.

Kærleikur og Ljós til þín og fólksins þíns

Steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.10.2009 kl. 05:43

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.10.2009 kl. 07:03

30 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 07:39

31 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Votta þér innilega samúð mína.  Ég hef heyrt margt fallegt sagt um þennan mann, son þinn. MBkv. baldur

Baldur Kristjánsson, 12.10.2009 kl. 09:28

32 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Elsku vina mín,hugur minn og Gunnars míns er ykkur hjá og elsku Júlla sem friðin loksins fær,frá öllu áreiti og öllu því sem var svo sárt og erfitt, en nú er hann orðinn fagur Engill með silfurvængi og hann mun ykkur vernda og veita sálarfrið og elska ávallt alla tíð

Knús knús til ykkar allra í fagra Kúluhús og megi Guðs englar yfir ykkur vaka,vernda og styrkja.....

Ástarkveðjur frá Lindu,Gunnari og stelpunum.....

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 12.10.2009 kl. 09:29

33 identicon

Kæra Ásthildur

Mig langar að senda þér og ykkur öllum mínar innilegustu samúðarkveðjur.  Ég var við útförina og hún var virkilega falleg.  Ég fann sterkt fyrir Símoni á meðan á athöfninni stóð og ég er viss um að vinirnir hafa nú hist aftur.  Júlli var yndislegur drengur og minning hans mun lifa.

Martha Lilja

Martha Lilja Marthensd. Olsen (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 10:45

34 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Innilegar samúðarkveðjur til þín Ásthildur og fjölskyldu ykkar.

Rut Sumarliðadóttir, 12.10.2009 kl. 10:55

35 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Blessuð sé minningin um hann Júlla þinn.

Kv. Þórdís

Þórdís Einarsdóttir, 12.10.2009 kl. 10:59

36 identicon

Elsku Cesil, takk fyrir að leyfa okkur að fylgja Júlla alla leið. Myndirnar eru svo fallegar og athöfnin hefur verið falleg.

Knús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 11:48

37 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk öll fyrir kveðjurnar.  Þær eru mér ómetanlegar.  Takk fyrir hugvekjuna Dullur minn og Ómar minn fyrir Ákallið.  Takk fyrir að gefa ykkur tíma fyrir mig og okkur hin hér.  Megi allir góðir vættir vaka með ykkur og vernda.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.10.2009 kl. 12:07

38 Smámynd: Jón Arnar

Jón Arnar, 12.10.2009 kl. 12:08

39 identicon

Innilegar samúðarkveðjur.  

Jóhann (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 15:07

40 identicon

Hæ elskan, takk fyrir malið, það var svo gott að heyra frá þér. Mig langaði bara kasta á þig kveðju og seigja þér að fólk seigir að jarðaförin hafi verið ykkur til svo mikils sóma og að það hafi ekki verið hægt að kveðja Júlla á fallegri hátt. Takk fyrir myndirnar, það er gott að sjá þær.

Farðu vel með þig elsku Ásthildur.... knús í Kúlu  

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 19:02

41 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mínar bestu kveðjur, megi allt gott styrkja ykkur.

Haukur Nikulásson, 12.10.2009 kl. 23:16

42 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Mínar innilegustu samúðarkveðjur

Jóna Á. Gísladóttir, 13.10.2009 kl. 00:18

43 identicon

Mínar innilegustu samúðarkveðjur

Guðný H. Jakobsdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 00:46

44 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Mín kæra vina, það er yndislegt að fá innsýn inn í líf þitt og hans Júlla þíns. Þú ert svo aðdáunarverð kona sem svo sannarlega hefur þurft að mæta fleiri brekkum í þínu lífi og svo miklu meiri en  sanngjarnt er.

Þú mátt vera svo stolt af öllum þeim kærleiks og kraftaverkum sem þú hefur afrekað í þínu lífi og ég vil bara þakka þér fyrir að hafa deilt þessu með okkur hér. Þú snertir hjarta hvers þess sem les skrifin þín og myndirnar tala sama máli. Maður situr og grætur með þér og honum hugrakka Úlfi og hann Júlli þinn mun lifa áfram í sonum sínum og í hjörtum allra sem þekktu hann og auk þess mun hann lifa í hjörtum og huga allra sem hafa kynnst honum gegnum skrifin þín.  Ég veit líka að núna þegar allt er yfirstaðið búið að jarða og fólk gengið aftur til verka sinna að þá kemur tómleikinn en jafnframt líka þakklætið fyrir að hafa átt svo yndislegan og hjartanlegan son eins og hann Júlla þinn.

Og ég enda þetta á því sem hún amma mín sagði þegar hún missti fyrst afa og svo tveim árum seinna mömmu mína, Þeir missa sem eiga. Þú og þínir munu vera áfram í öllum mínum bænum bið alla góða vætti að fylgja ykkur og blessa

Hulda Haraldsdóttir, 13.10.2009 kl. 03:46

45 identicon

Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína

sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.

Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,

sem hugsar til þín alla daga sína.



En meðan árin þreyta hjörtu hinna,

sem horfðu eftir þér í sárum trega,

þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,

þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

(Tómas Guðmundsson.)

Elsku Ásthildur.   Ég sendi ykkur öllum mínar hjartans samúðarkveðjur.    Þakka þér fyrir að deila öllu þessu með okkur, það þarf reglulega að minna heiminn á hvað þarf að bæta.  Ég hef hugsað til ykkar síðustu daga.  Ég þekkti Júlla þegar hann var "óþekkur strákur" með glampa í augunum.  Ég hef ekki séð hann síðan ég var á Ísafirði í gamla daga, utan þess ég sá honum bregða fyrir einu sinni þar fyrir nokkrum árum.  Megi allar góðar vættir vernda ykkur og styðja.  Kær kveðja Sabba 

Salbjörg Engilbertsdóttir (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 08:43

46 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk öll fyrir hvatningu og hlý orð.  Þau skipta mig miklu máli. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.10.2009 kl. 09:37

47 identicon

Þú átt alla mína samúð því ég þekki að eigin raun hversu erfitt Þetta er og styð hugmyndir þínar um lokaða meðferðarstofnun til handa þeim sem festast í fíkniefnum en af eigin raun veit ég líka að þeim verður ekki hjálpað sem ekki vilja hjálpina og þá er nokkurnvegin sama hvað er gert. það tók mig 23 ár að komast út úr minni neyslu og ég hef verið við margar jarðarfarir vina og ástvina sem farið hafa úr þessu en það tókst um leið og viljinn kom innanfrá og síðan eru liðinn 14 ár. Hinsvegar vil ég að hart verði tekið á þeim sem nýta sér neyð fíkla og flytja inn efni ,það verður að gera allt sem hægt er til að stöðva það.

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 13:30

48 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta innlegg Ragnar Örn.  Já það tekur langan tíma að vinna sig út úr svona löguðu.  En málið er bara að þegar fólk hefur farið svona langt niður, þá er það ekki bara vilji manneskjunnar til að hætta heldur líka að samfélagið hefur lokað á einstaklingin og þá á ég fyrst og fremst við kerfið.  Þar koma sumir að lokuðum dyrum, endalaus rukkurnarbréf inn um lúgur og enginn grið gefinn.  Engin tilhögun eða aðlögun að nýju lífi. 

Ég er klár á því að sonur minn væri enn á lífi í dag ef hann hefði fengið inni á lokaðri meðferðarstofnun í stað fangelsisvistar þegar ég barðist sem mest fyrir því að hann fengi það tækifæri.  Ég er líka nokkuð viss um að fyrrverandi tengdadóttir væri í betri málum líka ef hún hefði verið sett inn á slíka á sínum tíma.  En hennar mál í dag er sorgarsaga. 

Hitt sem þú nefnir með að stöðva innfluttningsaðila og þá sem fjármagna er ég alveg 100% sammála þér með.  Ég óttast bara að þeir séu hátt upp í samfélaginu og allstaðar í kerfinu, og erfitt að uppræta þá.  Mér virðist reyndar enginn áhersla lögð á að finna þá og stoppa af.  Sem vekur mér upp spurningar sem ég fæ engin skynsamleg svör við. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.10.2009 kl. 11:17

49 identicon

ekkert að þakka, gangi þér vel í framtíðinni.

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 2021019

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband