"Lýðræðislegi armur Sjálfstæðisflokksins".

Hlustaði á Hádegisfréttir RUV áðan, jú maður verður jú að hlusta af og til, til að sjá hvort umræðan breytist ekki með nýjum útvarpsstjóraSmile

En sem sagt þarna var viðtal við Svein Andra Sveinsson, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði opnað síðu á fésbókinni til að skoða stofnun nýs Sjálfstæðisflokks.  Hann sagði að nú væri raunveruleg hætta á klofningi í Sjálfstæðisflokknum í fyrsta skipti, þar sem það væri núll svigrúm fyrir ólíkar skoðanir í flokknum.  Svo kom í ljós að þessar ólíku skoðanir voru um aðild að ESB.  

Nú hefur það komið fram að meiri hluti sjálfstæðismanna ákvað á síðasta og mig minnir líka þarsíðasta landsfundi að Ísland væri betur komið utan ESB.  Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar er líka að slíta viðræðum.

Það segir að þarna hafi verið tekinn lýðræðisleg ákvörðun um stefnu Sjálfstæðisflokksins, þó Bjarni Ben hafi verið dálítið valtur á þeim fótum á tímabili.  En það nægir ekki "hinum frjálslynda armi" flokksins.  

Þeir ætla að kljúfa sig út, frá þessum ólýðræðislegu öflum sem voga sér að framfylgja vilja stefnumörkun hans.  

Þetta er svo sem allt hið besta mál, en ég sé svona fyrir mér, þegar þeir eru búnir að stofna sinn frjálslynda flokk um ESB, og svo kemur einhver og vill eitthvað annað, hvort það sé ekki núll komma eitthvað prósent svigrúm þar, svo þá þarf auðvitað að kljúfa þann flokk aftur, og svo framvegis.  

 Spyrlinum fannst ekkert merkilegt að Sveini Andra fannst ekki vera neitt svigrúm í flokknum, af því að þetta eina mál var ekki í lagi, heldur hafði meiri áhuga á því hvort Þorsteinn Pálsson og Jóhann Benediktsson myndu leiða hann.

Einhvern veginn hefur mér sýnst að sjálfstæðismenn hafi kokgleypt ýmislegt á löngum ferli, og það jafnvel meiriháttar mál eins og sjávarútvegsmál, umhverfismál og fleira, en lotið í lægra haldi fyrir meirihlutanum.  

Man eftir kempu úr Bolungarvík, aflakló sem vildi breyta fiskveiðistefnunni og fór á marga aðalfundi til að reyna að hafa áhrif, en enginn hlustaði.  Man líka eftir Ólafi F. Magnússyni og hans náttúruverndarsjónarmiðum.  Þorsteinn Pálsson, Sveinn Andri og slíkir hafa auðvitað hlustað á slíkar raddir með jákvæðu hugarfari?  Eða er það ekki augljóst, þegar menn eru svona víðsýnir og málefnalegir.

Annars mega gömlu stjórnmálaflokkarnir skiptas sér í eins margar einingar og þeir geta, það væri bara fínt að fá einn hrærigraut, svo við neyddumst til að taka upp persónukjör.  En þangað til ættum við ef ril vill að gefa nýrri framboðum meiri gaum, skoða hvað þau hafa fram að færa, og gleyma í bili þessum gömlu pólitíkusum eins og Þorsteini , Sveini Anrda og fleirum, sem hafa löngu gleymt því um hvað lýðræði snýst.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alveg laukrétt hjá þér. Ég hugsaði einmitt, þegar ég hlustaði á fréttina: Nú, jæja, verður það þá svo eftirleiðis, að við höfum ekki um annað að kjósa en flokka með og á móti ESB, og það verði einasta málið á dagskrá flokkanna á Íslandi eftirleiðis, allt annað mæti afgangi? Það er huggulegt eða hitt þó. Þá þyrftum við í Heimssýn að stofna flokk líka. Sannleikurinn er nefnilega sá, að það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn, sem er klofinn í þessu máli, heldur sker þetta alla flokka í sundur meira eða minna. Nú hef ég verið í Samfylkingunni til þessa, þótt ég sé að gefast upp á þeim flokki út af ESB, og þar eru vissulega skiptar skoðanir og hafa verið fram á þennan dag um ágæti ESB, þó að halelújahópurinn sé stærri og háværastur í þeim efnum. Hvernig er með VG? Er hann ekki um það bil að klofna líka? Í Framsókn eru menn líka með og á móti ESB. Það er ekki til sá flokkur hér á Íslandi, þar sem ekki er rifist um þessi mál. Hins vegar segi ég eins og viskulegustu stjórnmálafræðingarnir hafa verið að segja og bent á fortíðina í þessum efnum, að klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum virðist í gegnum tíðina hafa haft sáralítið upp úr krafsinu eða áhrif á kjörfylgi flokksins í kosningum, þegar á hefur reynt, andstætt vinstrinu. Þar sér maður frekar nýja flokka taka frá gömlu flokkunum, en það fer náttúrulega líka eftir fólkinu, sem í framboði eru, og hversu mikið kjörfylgi það hefur eða vinsældum þess. Ég hugsa til Hannibals í þessum efnum. Móðir mín var alltaf að hissa sig á, að hann skyldi alltaf hafa náð fólki inn á Alþingi, en hún sagði líka, að hann hefði svo mikið kjörfylgi sjálfur og virtist vera svo vinsæll, að fólk kysi flokkinn bara út á hann. Svoleiðis veit ég um, að hafi verið um Lúðvík Jósefsson líka, og sömuleiðis Matthías Bjarnason, Ólaf Þórðarson og fleiri gamla og góða, sem við munum vel eftir frá því í den, en þetta voru líka menn, sem stóðu vel fyrir sínu og voru bráðmælskir og skemmtilegir, svo að sé nú ekki minnst á Ólaf Thors og Jónas frá Hriflu í þeim efnum. Þessir menn kunnu að hrífa fólkið með sér, nokkuð, sem nútíma stjórnmálamenn hafa ekki í eins ríkum mæli og þurfa að læra, þótt þeir séu margir góðir. Ég á ekki von á því, að þetta ESB-upphlaup í Sjálfstæðisflokknum skili mjög miklu eða geti eyðilagt mikið fyrir flokknum, miðað við, hvað mundi gerast, ef t.d. VG klofnaði, enda er Þorsteinn Pálsson nú ekki líklegur til að trekkja fólkið að frekar en Sveinn Andri, og hafa ekki gert það til þessa. Það verður samt fróðlegt að sjá, hvernig þetta fer á endanum.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.3.2014 kl. 14:28

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Það er mikil blessun ef ESB- fylgjendur stofna flokk um áhugamálið sitt. Sjálfstæðisflokknum launast ekki linkind sín gagnvart ESB- hlutanum, sem átti að mesta lagi að vera réttur litliputtinn, en hrifsaði til sín allan arminn og þannig varð ESB- armurinn til!

Ívar Pálsson, 31.3.2014 kl. 15:01

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Guðbjörg, þetta er alveg rétt sem þú segir, þessir gömlu menn, Lúðvík, Matthías, Jónar frá Hriflu voru hugsjónamenn og hugsuðu fram fyrir eiginn rass. Þeir báru hag fólksins fyrir brjósti fyrst og fremst. Þannig var það líka með útvegsmenn, stórbændur og þá sem eitthvað áttu undir sér, þá var það almanna hagur sem bjó þeim í brjósti. Þessir menn eru annað hvort farnir eða eru orðnir gamlir, og þeir voru mjög varnarlausir gagnvart mannfyrirlitningunni sem kynslóðin sem á eftir kom hafði gagnvart öðrum. Þá þótti handsal sama og undirskrift. Stundum sakna ég þessa tíma, þegar útgerðirnar studdu öll góð málefni í bæjunum og það var hægt að treysta fólki.

Já Ívar ég held það bara. Myndi sennilega kalla þetta aflúsun, en það er ef til vill fullgróft.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2014 kl. 15:40

4 identicon

Það er ekki einleikið Ásthildur mín, hvað ég get verið sammála þér ;-)           

Við erum sjálfsagt með mismunandi skoðanir en stöðumatið og rökfærslan eru mér oftast mjög að skapi!

Þetta minnir mig dálítið hvernig ég bóndinn, mátti árum saman búa við það að helstu aðstandendur fullyrtu að ég gæfi óljósar fyrirskipanir.  Sjálfum fannst mér þær aftur afar glöggar og hnitmiðaðar. ;-)

Svo óx úr grasi frændi minn einn sem stundum vann hér og viti menn, ég gat raðað í hann fyrirskipunum eins og forriti í tölvu og allt gekk prýðilega eftir. Þetta sýndi mér að það voru bara hinir sem voru svona tregir.  ;-)  (Frændinn að vísu allt of klár og  fór í langskólanám)

Stundum læðist að manni sá grunur að þetta tuð í manni út í þjóðmálin sé kanski eitthvað rugl svo tregir sem menn virðast að taka rökum, en þá les maður bara bloggið þitt (jú og Gunnars Heiðarssonar og fáeinna annara) finnur þar einhvern samhljóm og áttar sig á að það eru þó einhverjir til hér á landi á (maður má víst ekki lengur vitna í kántríkónginn)  sem geta hugsað rökrétt og sjálfstætt!

Takk fyrir góða pistla! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 31.3.2014 kl. 20:52

5 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það er auðvitað rétt, sem kemur fram hjá þér Ásthildur, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins í fyrra ákvað að Ísland væri betur komið utan ESB.

Hins vegar er rétt að taka fram að samþykkt landsfundur í þessu efni var mun afdráttarlausari eða eins og hér segir:

"Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu"

Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðum við ESB er því augljóslega í samræmi við samþykkt landsfundar, ekki satt.

Daníel Sigurðsson, 31.3.2014 kl. 22:31

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir góð orð í minn garð Bjarni. Já samhljómur er oft milli fólks sem ber sömu óskir í brjósti, þó rökin séu ef til vill önnur. En það er óskaplega gott að finna og heyra að það eru fleiri sem hugsa líkt og ég. Takk fyrir mig.

Takk fyrir þetta Daníel, jú einmitt, það gat ekki verið skýrara en þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2014 kl. 23:28

7 Smámynd: Jens Guð

Þegar Ómar Ragnarsson nam stjórnmálafræði komst hann að því að stjórnarskrá Sovetríkjanna var (ein) sú fallegasta. Í praxís var hún ekki pappírsins virði. Framkvæmdin var allt önnur en fögru orðin. Þetta sama á við um bandarísku stjórnarskrána. Áratugum eftir að þar var fest á blað yfirlýsing um að allir væru fæddir jafn réttháir blómstraði þrælahald á blökkumönnum. Þetta sama á við um landsfundasamþykktir. Það er ekkert farið eftir þeim.

Út af fyrir sig væri gott að nýtt framboð hægri sinnaðra ESB-sinna næði að laska fjórflokkinn. En það gerist ekki. Þetta klofningsframboð er andvana fætt. Ég er sannfærður um það. Það er líka gott í aðra röndina. Ég er andvígur inngöngu Íslands í ESB. Ég veit líka að meirihluti Íslendinga mun alltaf fella í kosningu umsókn um inngöngu í ESB. Það má alveg kjósa um það út og suður. Niðurstaðan verður aldrei önnur en NEI við inngöngu.

Jens Guð, 1.4.2014 kl. 01:00

8 identicon

Jens, þú bendir réttilega á markleysi stjórnarskráa Sovét og USA og kemst í framhaldinu að því að landsfundarsamþykktir séu marklausar, ertu ekki fyrr kominn að þeirri niðurstöðu að íslenska stjórnarskráin sé marklaus?   Sem ég held reyndar að sé ekki rétt og þar með sé fallin sú ályktun að af því að Sovésku og Bandarísku stjórnarskrárnar séu lítt virtar þá sé landsfundarsamþykkt lítt virt.

Sá að vísu gamalt viðtal við Steingrím Hermannsson í gær, þar sem hann sagði það vera hundleiðilegt starf að vera óbreyttur þingmaður. Þetta benti til að þeir séu meira upp á punt sama hvað formið segi! Að ráðherrar og "flokkseigendur" fari bara sínu fram óðháð því hvað þingmenn (eða landsfundarsamþykktir) segi!

Ég efa samt að þessar moldvörpur innan sjálfstæðisflokksins sem nú bylta sér, þoli dagsljósið til lengdar. Það sem þeir vilja er þvinga meirihlutavilja eigin flokks undis sína andstæðu minnihlutaskoðun. Slíkt yrði náttúrulega vonlaust verandi í litlum flokki berir að sínum skoðunum! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.4.2014 kl. 08:12

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Var Ómar að stúdera stjórnmálafræði Jens? Var það þegar hann stofnaði Íslandshreyfinguna?

En svona í alvöru, ég vona að menn beri meiri virðingu fyrir samþykktum sinna stjórnmálaflokka, þar sem meirihluti félagsmanna hefur komið að og samþykkt.

Ég er sammála ykkur báðum að þetta framboð á sér sennilega enga framtíð, en það er ágætt að hún verði að veruleika, segi nú bara sona.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2014 kl. 11:29

10 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Björn Bjarnason fer vel yfir þetta mál á síðu Evrópuvaktarinnar :

 http://www.evropuvaktin.is/stjornmalavaktin/32868/

 

Gullfiskaminni fjölmiðla­manna og klofningsbrölt Sveins Andra


31. mars 2014 klukkan 20:27

Efnt var sérstaks landsfundar Sjálfstæðisflokksins föstudaginn 25. júní 2010. Til fundarins var kallað vegna þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér sem varaformaður flokksins.

Í tilefni af fundinum varð fjölmiðlamönnum tíðrætt um skoðanir Sveins Andra Sveinssonar, hrl., á ESB-málum. Til hans var vitnað á vefmiðlum, meðal annars Eyjunni. Sveinn Andri hafði uppi hótanir um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn nytu ESB-sérsjónarmið hans ekki stuðnings á landsfundinum.

Í tilefni af öllum landsfundum Sjálfstæðisflokksins síðan hefur Sveinn Andri látið ljós sitt skína. Má til dæmis nefna að á Eyjunni birtist við hann samtal laugardaginn 23. febrúar 2013 þegar sjálfstæðismenn héldu síðast landsfund. Þá sagði hann að niðurstaða fundarins um ESB-mál mundi leiða til heimasetu hans á kjördag. Hann gæti ekki lagt Sjálfstæðisflokknum lið. Sveinn Andri tók hins vegar þátt í störfum landsfundarins sunnudaginn 24. febrúar án þess að gera minnstu tilraun til að breyta ályktunum fundarins um ESB-mál, gafst þó tækifæri til þess þegar stjórnmálaályktun fundarins kom til afgreiðslu. Annaðhvort var samtalið á Eyjunni tilbúningur ritstjórnar hennar eða ekkert er að marka Svein Andra þegar hann hallmælir Sjálfstæðisflokknum vegna ESB-afstöðu landsfundarins.

Eftir að tillaga utanríkisráðherra um afturköllun ESB-umsóknarinnar kom fram hófst nýr þáttur í yfirlýsingum Sveins Andra um Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði til dæmis frá því á Facebook að hann hefði ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn í þingkosningunum 2013.

Nú stendur hann að þeirri furðulegu könnun sem MMR framkvæmir þar sem meðal annars er spurt: „Kæmi til greina að þú kysir nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, ef það byði fram í næstu Alþingiskosningum?“

Að þessu sinni er það ekki aðeins Eyjan sem segir fréttir af Sveini Andra og Sjálfstæðisflokknum heldur einnig 365 miðlar og sjálft ríkisútvarpið. Á ruv.is má lesa mánudaginn 31. mars:

„Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson hefur hafið undirbúning að stofnun nýs hægri flokks og sett á stofn sérstakan lokaðan hóp á Facebook sem ber heitið Nýji Sjálfstæðisflokkurinn en eitt aðal stefnumálið er aðild að Evrópusambandinu.

Sveinn Andri kom í Síðdegisútvarpið í dag þar sem hann meðal annars gagnrýndi ósveigjanleika og hörku í forystu og stefnu Sjálfstæðisflokksins.“

Á ruv.is má einnig lesa þetta mánudaginn 31. mars:

„Sveinn Andri Sveinson lögmaður hefur stofnað hóp sem ræðir hugsanlegan undirbúning nýs flokks á hægri vængnum. Hann segir meiri líkur en nokkru sinni fyrr á klofningi Sjálfstæðisflokksins á grundvelli málefnalegs ágreinings.

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, hefur stofnað hóp á Facebook til að ræða hugsanlega stofnun nýs flokks, en hann segir Sjálfstæðisflokkinn klofinn í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Á annað hundrað manns hafi þegar skráð sig í hópinn, og til greina kæmi að leita til Þorsteins Pálssonar til að leiða nýjan flokk.

Sveinn Andri segir að margir Sjálfstæðismenn hafi kosið flokkinn í vor vegna loforðs um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusamabandið. Þeir upplifi þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka sem svik.

„Ég held að í tengslum við þessar aðildarviðræður að Evrópusambandinu þá sé í fyrsta sinn í sögu flokksins raunveruleg hætta á klofningi á grundvelli málefnaágreinings,“ segir Sveinn. Klofningur í fyrri tíð hafi verið frekar vegna persónulegs ágreinings manna á milli. „Miðað við starfshætti og stefnu ráðandi afla í flokknum, þar sem 0% svigrúm er fyrir ólíkar skoðanir að því er varðar Evrópusambandið, þá hefur þessi hætta verið og þessi líkindi talsvert yfirvofandi.“

Aðspurður segir Sveinn að stofnun hópsins sé að hans frumkvæði og skoðanabræðra hans, hvorki Þorsteinn Pálsson né Benedikt Jóhannesson komi að því. Hann segir þó ljóst að þeir sem ræði klofning nú myndu ekki leiða nýtt stjórnmálaafl. Þar komi Þorsteinn Pálsson til greina. „Já, hann hefur verið nefndur til sögunnar, ég held að hann sé mjög sterkur kandítad, fáist hann til þess, en auðvitað verður hann að segja til um það. En ég veit að þeir sem að þessu standa hafa verið mjög hrifnir af málflutningi Þorsteins og stefnu Þorsteins,“ segir Sveinn Andri.“

Stefnan sem Sveinn Andri fylgir í ESB-málum hefur verið kennd við bjölluat. Á það einnig við áform hans um að stofna nýjan flokk sem hann hefur haft á prjónunum í fjögur ár? Líklegt er að Sveinn Andri haldi áfram að tala um þetta áhugamál sitt jafnlengi og hann kemst með það í fjölmiðla.

Efnistök fjölmiðlamanna á þessu flokksbrölti Sveins Andra er enn eitt dæmið um gullfiskaminnið sem ríkir á frétta- og dægurmáladeildum þeirra. Hvarvetna annars staðar settu fjölmiðlamenn málflutning sama manns um sama efni árum saman í eðlilegt samhengi. Það er þó ekki gert hér á landi af því að þá yrði „fréttin“ að engu.

Bj. Bj.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 1.4.2014 kl. 13:44

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já takk fyrir þetta innlegg. Skýrt og skorinort hjá karli.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2014 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 2020903

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband