Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar 2009.

Af því það er verið að tala svo mikið um loforð, orð og efndir, og að orð skuli standa, þá ættum við ef til vill að líta aðeins á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, árið 2009. 

Það er ansi fróðleg lesning.

 

 

"Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

 

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar – nýjan stöðugleikasáttmála.

 

Ríkisstjórnin er mynduð á grundvelli góðs samstarfs flokkanna tveggja í fráfarandi ríkisstjórn.

Á ríflega 80 dögum hefur verið lagður grunnur að því að hægt verði að snúa vörn í sókn á flestum sviðum, þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi og alþjóðlegu efnahagslífi.

  

Ný ríkisstjórn starfar með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.

Lykilverkefnið er að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.

Ríkisstjórnin mun kappkosta að byggja upp á Íslandi opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum horfum við sérstaklega til frændþjóða okkar á Norðurlöndum.

Framhald verður á miklum efnahagsþrengingum um allan heim og ljóst að ástandið kann að versna áður en það batnar aftur. Einnig liggur fyrir að efnahagur þjóðarinnar mun ekki lagast af sjálfu sér – til þess þarf samfélagið að vinna saman að því að leysa vandann. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, og í réttu hlutfalli við getu.

Þessi ríkisstjórn mun ekki velta vandanum yfir á þá verst settu í samfélaginu, né leggja byrðarnar á börnin okkar með því að skjóta vandanum á frest. Eftir fremsta megni verður staðinn vörður um kjör lágtekjufólks og þá sem við erfiðastar aðstæður búa og byrðunum dreift með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ætlar sér að verða norræn velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs. Efnahagsmál Hornsteinar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru trúverðug efnahagsáætlun og stefnumörkun í ríkisfjármálum til fjögurra ára sem miðar að hallalausum ríkisfjárlögum á ásættanlegum tíma, auk samstarf við aðila vinnumarkaðarins um nýjan stöðugleikasáttmála.

Forsætisráðherra mun einnig láta vinna yfirlit um stöðu og þróun á lykilstærðum í samfélags- og efnhagsmálum til að skilgreina nánar þann vanda sem við er að glíma og framtíðarvalkosti, s.s. í ríkisfjármálum, gjaldmiðilsmálum, atvinnulífi, húsnæðismálum, jafnréttismálum, byggðamálum, löggæslumálum auk annarra mikilvægra samfélagsmála.

Til verksins verða m.a. kvaddar fagstofnanir og sérfræðingar úr háskóla- og rannsóknasamfélaginu. Slíkt stöðumat felur í sér mikilvæga viðmiðun til að meta árangur næstu ára í ljósi þróunar síðustu ára og þess sem gerst hefur.

Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að tryggja öfluga og skilvirka efnahagsbrotarannsókn og að bæði henni og niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið verði fylgt eftir af fullum heilindum. Réttar og greinargóðar upplýsingar um stöðuna og réttlátt og heiðarlegt uppgjör við þá peningjahyggju sem leiddi til hrunsins eru mikilvæg forsenda þess að íslenskt samfélag geti sameinast á ný og beint kröftum sínum að því að byggja upp til framtíðar.

Breið samstaða um stöðugleikamarkmið.

 Mikilvægustu verkefni ríkissstjórnarinnar næstu 100 dagana í efnahagsmálum eru á sviði ríkisfjármála, bankamála og að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila. Skapa þarf forsendur fyrir áframhaldandi og hraðri lækkun vaxta og vinna markvisst að því að draga úr höftum í gjaldeyrisviðskiptum.

Markmiðið er að skapa skilyrði til hagvaxtar þegar á næsta ári. Þessi verkefni styðja hvert annað og tengjast með margvíslegum hætti. Trúverðug stefna í ríkisfjármálum er nauðsynleg til að treysta bankakerfið, styðja gengi krónunnar og skapa forsendur fyrir eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.

Jafnframt mun ríkisstjórnin marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar.

Þá yrði kveðið á um auglýsingar á stöðum bankastjóra og faglega yfirstjórn þeirra. Þá þarf að gæta þess að yfirtaka ríkisbanka á einstökum fyrirtækjum skekki ekki samkeppnisstöðu á markaði.

Tryggt verður að unnið verði eftir faglegu og gagnsæju ferli við sölu þeirra. Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til viðræðna um þau meginmarkmið sem sett hafa verið fram í ofangreindu samstarfi og vill beita sér fyrir breiðri sátt um að þau geti orðið grunnur að nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi.

Í því felst meðal annars að ná samstöðu um:

Áætlun um að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta og hraða lækkun vaxta. Hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki þannig að störf verði varin og aðstæður skapaðar fyrir fjölgun þeirra á ný.

Markmið í ríkisfjármálum í samræmi við sameiginlega áætlun stjórnvalda og AGS.

Að verja velferðarkerfið eins og kostur er.

Ljóst er að ofangreind markmið nást ekki án þess að með samstilltu átaki takist að ná góðum og jöfnum hagvexti. Til að það sé unnt þarf að: Auka traust og trú á íslenskt efnahagslíf. Örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu. Stuðla að beinum erlendum fjárfestingum. Koma á eðlilegum lánaviðskiptum við erlenda banka.

Ríkisfjármál

Lykill að endurreisn íslensks efnahagslífs felst í víðtækum aðgerðum á sviði ríkisfjármála með það að markmiði að mæta hinu mikla tekjufalli sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeim miklu skuldum sem það skilur eftir sig.

Beita verður ríkisfjármálum til að verja grunnvelferðarkerfið og auka kjarajöfnuð um leið og staðið er undir fjárhagsskuldbindingum ríkissjóðs og stutt eftir megni við baráttuna við atvinnuleysi og nýja sókn í atvinnulífi um allt land.

Kannaðir verði kostir til aukinnar tekjuöflunar ríkissjóðs í samráði við hagsmunaaðila og með hliðsjón af reynslu þeirra landa sem glímt hafa við svipaða erfiðleika. Lykilatriði er að aukin skattheimta leggist frekar á þá sem betur eru í stakk búnir til að bera auknar byrðar en verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru.

Áfram verði unnið markvisst að því starfi sem hófst með samstarfi stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir skattaundandrátt. Gripið verði strax til fyrstu aðgerða í ríkisfjármálum.

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á sviði ríkisfjármála verður jafnframt gerð áætlunar um stefnu í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára.

Sú áætlun marki útlínur þess verkefnis sem framundan er, jafnt í lækkun ríkisútgjalda og aukinni tekjuöflun. Miðað er við að jafnvægi náist í ríkisfjármálin eigi síðar en 2013.

Í áætluninni verður þess gætt að vernda mikilvæga þætti félagslegrar þjónustu og stefnt er að því að á áætlunartímabilinu verði frumgjöld ríkissjóðs, þ.e. útgjöld án vaxtagjalda, ekki hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en verið hefur á undanförnum árum þrátt fyrir mikinn samdrátt landsframleiðslunnar.

Gert verði ráð fyrir að skattbyrðin verði svipuð eða lægri á áætlunartímabilinu en hún hefur verið á síðustu árum og verði í skrefum aðlöguð útgjaldastigi ríkissjóðs.

Áætlun um jafnvægi í ríkisfjármálum verði kynnt opinberlega í sumarbyrjun og þá rædd m.a. við aðila vinnumarkaðarins.

Greiðslu- og skuldavandi heimila

Djúp niðursveifla í kjölfar bankahrunsins hefur skapað misgengi á milli greiðslubyrði og greiðslugetu margra heimila í landinu. Þetta misgengi verður að leiðrétta með lækkun á greiðslubyrði þeirra sem verst standa þar til verðmætasköpun atvinnulífsins tekur aftur að aukast.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir að tímabundinn greiðsluvandi leiði til vanskila og gjaldþrots, svo sem með hækkuðum og breyttum vaxtabótum og húsaleigubótum. Lykilatriði er að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga.

Greiðslujöfnun sem nú nær bæði til verðtryggðra og gengistryggðra lána gerir kleift að laga greiðslubyrði að lækkandi tekjum. Þá gera ný lög um greiðsluaðlögun sem samþykkt voru á síðasta þingi það mögulegt að taka á vanda þar sem fyrirsjáanlegt er að greiðslu- og skuldabyrði verði  skuldurum ofviða til lengri tíma litið. 

Loks gera frystingar greiðslna sem eru í boði hjá lánastofnunum heimilum kleift að bregðast við bráðavanda vegna skyndilegs tekjumissis. Ofangreindum úrræðum þarf að fylgja fast eftir. Efnt verður til sérstaks kynningarátaks á þeim úrræðum sem heimilum í erfiðleikum standa þegar til boða. Ráðgjafarstofa heimilanna verði efld enn frekar ef þörf krefur til að eyða biðlistum eftir viðtölum og aðstoð við endurskipulagningu á fjárhag heimila og fólks í vanda.

Sérstaklega verði hugað að aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu Ráðgjafarstöðvarinnar. Skuldastaða heimila, greiðslu- og framfærslugeta verði til stöðugs endurmats sem og nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við heimili í vanda.

Heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur í því efni verði unnar í kjölfar úttektar Seðlabanka Íslands á skuldum og tekjum heimila sem áætlað er að liggi fyrir í síðari hluta maímánaðar.

Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Varanleg velferð Heilbrigt velferðarkerfi og baráttan gegn langtímaatvinnuleysi eru mikilvægar forsendur fyrir farsælli enduruppbyggingu samfélagsins.

Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.

Ríkisstjórnin lítur á það sem forgangsmál að tryggja að afleiðingar efnahagssamdráttarins leiði ekki til þess að húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sé ógnað.

Velferðarmálin snúast um öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, sterkt almannatryggingakerfi og tryggt húsnæði. 

Til að tryggja betri nýtingu fjármuna í velferðarþjónustu þarf með skipulegum hætti að samþætta úrræði þvert á stofnanir og stjórnsýslustig. Lögð verður áhersla á mikilvægi samráðs og samvinnu allra sem koma að velferð fólksins í landinu og að litið verði til velferðarvaktarinnar sem fyrirmyndar í þeim efnum.

Heilbrigðisþjónustan verður tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun.

Markmiðið er að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og nýta fé skynsamlega. Í endurskoðuninni er nauðsynlegt að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til að skipuleggja og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um allt land.

Markmið allra endurbóta í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfi eiga að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni. Félagslegum afleiðingum atvinnuleysis og fjárhagsvanda fólks verður mætt með markvissu samstarfi og samráði milli ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka.

Beitt verði félagslegum úrræðum til að hindra langvarandi afleiðingar kreppunnar. Áhersla verði lögð á heilsueflingu sem forvörn gegn sjúkdómum og leið til að auka lífsgæði. Veitt verði heilbrigðisþjónusta við hæfi á viðeigandi þjónustustigi, óháð efnahag og búsetu.

Hlutverk sveitarfélaga í velferðarþjónustu við börn, fatlað fólk, aldraða og fjölskyldur verði aukið með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Heilsugæslan um land allt verði sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.   Aðgerðaráætlun í málefnum barna- og ungmenna verði fylgt eftir. Stefnt verði að því að fólk geti búið heima eins lengi og kostur og vilji er til, meðal annars með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Staðið verði við framkvæmdaáætlun um ný hjúkrunarrými fyrir aldraða. Aukin áhersla verður lögð á endurhæfingu lífeyrisþega til að tryggja virka þátttöku þeirra, meðal annars með því að innleiða  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

Mikilvægt er að allir hafi möguleika á öruggu húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Innleidd verði ný skipan húsnæðismála til að búa almenningi sambærilegt öryggi og valkosti í húsnæðismálum og á hinum Norðurlöndunum. Markmiðið er að fólk í húsnæðisleit eigi valkosti með eignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum, hvort sem það þarfnast húsnæðis í fyrsta sinn eða síðar á lífsleiðinni.

Mismunandi búsetuformum verði gert jafnhátt undir höfði. Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra

Menntun að leiðarljósi

Menntun, vísindi og menning eru mikilvægir þættir í endurreisn Íslands. Skapandi og gagnrýnin hugsun og aukin áhersla á lýðræði og mannréttindi skipa mikilvægan sess í menntun þjóðarinnar.

Hlutverk skólastarfs er meðal annars að virkja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í samfélaginu. Leggja þarf áherslu á rannsóknarsjóði sem eru mikilvægir fyrir framþróun vísinda og tækni á Íslandi. Hlúa verður að menningarstarfsemi um allt land með áherslu á íslenska frumsköpun. Stór hluti af því að efla menntun, vísindi og menningu er að tryggja jafnrétti til náms og huga að velferð barna og ungs fólks. Mikilvægt er að standa vörð um menntunarstig þjóðarinnar.  Gjaldfrjáls grunnmenntun er lykill að félagslegu jafnrétti og velgengni þjóðarinnar til lengri tíma litið. Leitast verður við að tryggja velferð og vellíðan barna og ungmenna í leik- og grunnskólum með öflugu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og verður áfram staðið við hugmyndafræði skóla án aðgreiningar.

Atvinnumál

Meginverkefni ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum verður að draga úr atvinnuleysi með markvissum aðgerðum, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar.  Áhersla verður lögð á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Jafnframt verði hugað að samkeppnishæfi íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Stefnan verði útfærð í formlegu samráði stjórnvalda, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, og háskólasamfélagsins.

Bráðaaðgerðir gegn atvinnuleysi

Nú þegar hefur ríkisstjórnin ráðist í brýnar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi sem skila eiga 6000 ársverkum á næstu mánuðum og misserum. Því til viðbótar verður efnt til fjölþætts átaks til atvinnusköpunar sem felur m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:

1. Efld verði úrræði Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem fyrirtæki geta ráðið fólk af atvinnuleysisskrá tímabundið með stuðningi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar má nefna samninga um starfsþjálfun, reynsluráðningu, nám sem vinnumarkaðsaðgerð, atvinnutengda endurhæfingu, þróun eigin viðskiptahugmyndar, frumkvöðlastarf innan fyrirtækja og sérstök tímabundin átaksverkefni.

2. Opinberir sjóðir og samkeppnissjóðir leggi sitt af mörkum til atvinnusköpunar með því að taka mið af fjölgun starfa við ráðstöfun fjármagns án þess þó að slaka á faglegum kröfum.

3. Umhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verði bætt með lagfæringu á skattalögum til þess að ívilna megi vegna rannsókna og þróunar. Auk þess verði tímabundið veittur frádráttur frá skatti vegna fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

4. Við innkaup ríkisins, þar á meðal vistvæn innkaup, verði m.a. horft til þess að styðja við bakið á innlendri atvinnustarfsemi og nýsköpun.

5. Forgangsröðun verkefna hjá ríkinu verði í þágu mannaflsfrekra framkvæmda, s.s. viðhalds opinberra bygginga. Þar verði sérstaklega hugað að bættu aðgengi að opinberum byggingum um allt land. Leitað verði leiða til að flýta hönnun opinberra mannvirkja.

6. Staðinn verði vörður um opinber störf, ekki síst í velferðarþjónustu og menntastofnunum, og í því skyni gripið til aðgerða sem auka kjarajöfnuð hjá ríkinu og fyrirtækjum og stofnunum í eigu þess.

7. Sköpuð verði ný atvinnutækifæri fyrir ungt fólk t.d. með því að efla Nýsköpunarsjóð námsmanna og ýta úr vör sumarverkefnum fyrir framhaldsskólanema.

8. Fiskveiðar

Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.

Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni.

Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.

Endurskoðun laga um fiskveiðar Lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:

1. stuðla að vernd fiskistofn

2. stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar

3. treysta atvinnu

4. efla byggð í landinu

5. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Vistvænar veiðar – rannsóknir o.fl.

1. Ríkisstjórnin telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.

2. Nýta þarf krafta sjómanna og útgerðarmanna í hafrannsóknum til að efla gagnasöfnun og rannsóknarverkefni sem þeir eru þátttakendur í.

3. Kortleggja vel menntun og fræðslu í sjávarútvegi með það að markmiði að auka menntunarstig í greininni.

 Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands

Lýðræði og mannréttindi

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.

Aukin áhersla verður lögð á mannréttindafræðslu og  kvenfrelsi.

Utanríkis- og Evrópumál

Ríkisstjórnin leggur áherslu á sjálfstæða íslenska utanríkisstefnu. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á sviði utanríkis- og öryggismála, og ná einnig til viðskipta, stjórnmála og umhverfismála, kalla á nýja sýn og nýja nálgun í utanríkismálum.

Ríkisstjórnin vill kappkosta að alþjóðasamfélagið stuðli með nýjum hætti að sameiginlegu öryggi, beiti sér fyrir nýjum reglum um fjármagnsmarkaði og aðgerðir gegn spillingu, geri nýjan loftslagssáttmála, tryggi að alþjóðalög gildi um málefni norðurslóða og sameinist um nauðsynlegar og sanngjarnar aðgerðir til að vinna bug á heimskreppunni.

Norrænt samstarf verður áfram einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu en einnig verður lögð áhersla á Evrópumál, norðurslóðasamstarf og sjálfbæra nýtingu auðlinda og alþjóðlega samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.

Meðal meginverkefna utanríkisþjónustunnar á næstu árum verður að endurheimta orðspor Íslands á alþjóðavettvangi, byggja upp ímynd lands og þjóðar á grundvelli þekkingar okkar, menningar og mannauðs og styðja við markaðssókn íslenskra fyrirtækja.

Hér er sáttmálinn í heild sinni. http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/nr/322

 

Hér er svo samþykktin um ESB:

 

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma. Ísland verður friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.

Og svo þetta: 

Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Íslenskur landbúnaður verði efldur með áherslu á fullvinnslu afurða og markaðssókn innanlands sem utan. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði endurskoðað með áherslu á að auðvelda nýliðun. Svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu með upprunamerkingum verði aukið og nýtt til sóknar í ferðaþjónustu. Átak verði gert í lífrænni ræktun og bændum tryggður aðlögunarstuðningur skipti þeir úr hefðbundinni ræktun yfir í lífræna."

 

Það er svo margt í þessari samstarfsyfirlýsingu sem gengur þvert á innlimunina í ESB, eins og nú er komið í ljós.  Í fyrsta lagi telur ESB ekki koma til greina að við fáum að halda yfirstjórn fiskveiða hér, heldur flyst hún til Brussel.  

Og svo þetta með að standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæpu- og matvælaöryggi, það samræmist ekki heldur stefnu ESB, þar sem allt á að vera með frjálsu flæði.  

Og svo þegar þessi samstarfslisti er skoðaður, þá hvernig í ósköpunum ætla þau Samfylkingin og Vinstri græn að tala um svik á loforðum?  Mér er bara spurn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er mjög þörf upprifjun.

En ég er viss um að flest S og VG fólk á Alþingi er búið að gleyma þessum markmiðum. Sumir gerðu það strax eða þeir sem ekkert hafa í heilabúinu en hinir smátt og smátt rétt á eftir kosningar 2009.

Nú í dag hafa þeir allir gleymt.

Eggert Guðmundsson, 14.3.2014 kl. 15:34

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þeir sem hæst gala núna um kosningasvik hafa örugglega gleymt öllum þessum góðu markmiðum því miður. Þeir ætti sem sagt að tala sem minnst um svik.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 16:32

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma."

Hahahaja.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2014 kl. 16:58

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gríp hér ofan í grein frá Kolbrúnu Berþórsdóttur, tek fram að ég er jafn oft ósammála henni og sammála, en allavega þetta ryfjar upp svolítið sem fólk er búið að gleyma.

Dæmi um kosningaloforð S 2009

Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar við núverandi aðstæður er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna.

Tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðum sem í boði eru í samfélaginu. Markmiðið er að tryggja að engin fjölskylda búi við fátækt.

Vonbrigði, vantraust og óánægja almennings er skiljanleg í ljósi þess að ekkert af þessum fögru fyrirheitum sem stjórnarflokkarnir gáfu kjósendum vorið 2009 hefur gengið eftir. Nægir í þessu sambandi að nefna að atvinnuleysi hefur aldrei verðið meira í sögu landsins en um þessar mundir og að óbreyttri stjórnarstefnu verður því miður engin breyting á.

Hafa ber í huga að Samfylkingin hefur verið í stjórn í 4 ár og augljóst er að fólkið í landinu telur ríkisstjórnina ekki ráð við þau verkefni sem þau voru kosin til að koma til framkvæmda.

Forsætisráðherra landsins lét þau orð falla um síðustu helgi að lýðræðislegur réttur Íslendinga til þess að kjósa sér fulltrúa á Alþingi væri ,skelfileg tilhugsun“. Ráðherrann hefur ítrekað sagt að kosningar myndu leiða til upplausnar í þjóðfélaginu. Þarf frekari vitnisburð um það upplausnarástand sem ríkir í stjórnmálum landsins þegar forsætisráðherra opinberar með þessum hætti vantraust sitt á eigin þjóð.

Og eftir höfðinu dansa limirnir. Virðingarleysi stjórnvalda fyrir lögum og rétti hefur ýtt undir óeiningu og raskað nauðsynlegri reglufestu í þjóðfélaginu. Nægir í þessu sambandi að nefna viðbrögð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra við dómum og úrskurðum sem fallið hafa í hæstarétti og í kærunefndum um hin ýmsu álitaefni. Þar er pólitískum áherslum og hentistefnu skipað til öndvegis en lögum og reglu vísað á dyr.

Sú ríkisstjórn sem nú á að stýra landinu í gegnum þrengingar sem á þjóðinni dynja hefur af hinni sömu þjóð í tvígang verið dæmd af verkum sínum. Sú ríkisstjórn er rúin trausti, hún er ríkisstjórn brostinna vona og þrotin að kröftum. Hún hefur ekki lengur umboð þjóðarinnar til samninga við erlend ríki.

Það er óþolandi þegar almenningur í landinu hefur misst trú á fulltrúa sína og hefur fullgilda ástæðu til að draga í efa getu þeirra til nauðsynlegra verka. Ef ekki verður við þessu brugðist eru allar grundvallarreglur fulltrúalýðræðisins að engu hafðar til enn meira tjóns fyrir þjóðina alla.

Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn var vendipunktur í samskipum þings og þjóðar. Þar kvað þjóðin upp dóm um störf ríkisstjórnar og Alþingis. Alþingi er rúið trausti og forystumenn stjórnmálaaflanna í landinu verða að taka höndum saman og viðurkenna þá staðreynd - rjúfa þing og boða til kosninga sem fyrst. Það verður að stokka upp spilin og gefa á ný. Með þeim eina hætti, að endurnýja það umboð sem Alþingi fékk frá þjóðinni í síðustu kosningum,er unnt að brúa á ný þá gjá sem myndast hefur milli þings og þjóðar.

Forsenda þess að unnt sé að hefjast handa, hiklaust og ákveðið, er að kosið verði að nýju til Alþingis. Það getur ekki verið skelfileg tilhugsun nema hjá þeim sem þrotnir eru að kröftum til átaka við þau úrlausnarefni sem við er að glíma.

Sem sagt forystusauður Samfylkingarinnar, sem auðvitað hefur talaði fyrir sitt fólk líka, sagði þá að það væri SKELFILEG TILHUGSUN AÐ FÓLKI GÆTI KOSIÐ SÉR FULLTRÚA, HVAÐ ÞÁ ANNAÐ. Lýðræðis ástin á fullu þarna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 17:02

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hér gríp ég ofan í grein frá Hjörleifi Guttormssyni, sem sýnir greinilega svik VG við málstaðinn.

ESB-umsóknin baneitrað veganesti

Undanhald VG-forystunnar gagnvart kröfu Samfylkingarinnar um að sótt yrði um aðild að ESB hófst fyrir árslok 2008 á meðan stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var enn við völd. Á flokksstjórnarfundi í byrjun desember 2008 var byrjað að gefa eftir frá áður markaðri stefnu og sama sagan endurtók sig á landsfundi VG í mars 2009. Um þetta voru þau samstiga Steingrímur J., Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson, en sá síðastnefndi viðurkenndi er frá leið að umsóknin hafi verið mistök. Ekkert þessara forystumanna virtist þá hafa áttað sig á gerbreyttu umsóknarferli ESB-megin frá því sem var þegar norska ríkisstjórnin gerði samning við ESB og sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Innan VG var mikil andstaða gegn tvískinnungi forustunnar veturinn 2008–2009. Leiddi það til þess að Steingrímur J sem formaður aftók degi fyrir kosningar vorið 2009 í beinni útsendingu að VG tæki í mál að sækja um aðild. Það tók hann og Katrínu varaformann síðan aðeins nokkra daga að venda kvæði í kross í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna og með því fór trúverðugleiki flokksins út í veður og vind.

- See more at: http://smugan.is/2013/04/banamein-stjornar-vg-og-samfylkingar-var-umsoknin-um-esb-adild/#sthash.OnKub1RL.dpuf

http://smugan.is/2013/04/banamein-stjornar-vg-og-samfylkingar-var-umsoknin-um-esb-adild/

Hér sagir Guttormur á afar athyglisverðan hátt, og sem innanbúðarmaður í VG, frá því hvernig Steingrímur beinlínis laug að sínum kjósendum rétt fyrir kosningar 2009, að hann myndi aldrei samþykkja umsókn um ESB, en var um leið að makka við Jóhönnu um að sækja um.

Ef þetta er ekki kosningasvik par exelance þá veit ég ekki hvað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 17:11

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm, og sjáð svo hvað Guttormur segir, og svo er hér skemmtilegt viðtal við Steingrím.

http://www.youtube.com/watch?v=Giks0O6C4SY

Rétt eins og Guttormur bendir á. Kosningaloforð hvað? Orð skulu standa Hvað?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 17:22

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

https://www.youtube.com/watch?v=Giks0O6C4SY 2008 meira að segja.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 17:23

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 voru mjög afgerandi loforð gefin kjósendum, og þau loforð voru í samræmi við opinbera stefnu viðkomandi flokks.
Við skulum lesa þessi orðaskipti yfir.
Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig – bíddu Ástþór – kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar...“

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „... vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað."
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“
Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“
Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað
Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“

Skýrara gat það ekki verið. Þetta var kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl 2009. Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar.
Kvöldið fyrir kosningar fullyrti Steingrímur J. Sigfússon sem sagt ítrekað að ekki yrði sótt um aðild. Það yrði ekki gert í maí. Þetta myndi ekki „byrja í sumar“. Þetta var allt svikið strax.
Það fólk sem nú gerir hróp að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hafði það eitthvað við þetta að athuga? Helgi Hjörvar? Össur Skarphéðinsson? Sigríður Ingibjörg Ingadóttir? Svo einhver séu nefnd.
Og hvernig brást Þorsteinn Pálsson við, sá mikli prinsippmaður? Talaði hann mikið um svik? Hvað sagði hann af kögunarhóli sínum?
Hann settist nú bara í „samninganefndina“ fyrir Össur.
Fréttamennirnir? Voru þeir mikið að endurspila loforðin frá vinstrigrænum, loforð sem voru í fullu samræmi við landsfundarsamþykktir sama flokks? Voru haldnir margir útifundir? Hvernig var með prinsippmenn eins og Illuga Jökulsson, Guðmund Andra Thorsson og alla þá félaga sem nú telja sig mjög svikna af Sjálfstæðisflokknum, skrifuðu þeir ekki hástemmdar blaðagreinar um framgöngu Vinstrigrænna? Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu var sjálf fengin fram með svikum og undirmálum.
Það er ótrúlegt að fylgjast með því, þegar reynt er í örvæntingarfullum æsingi að hræða þingmenn Sjálfstæðisflokksins frá því að draga aðildarumsóknina til baka. Ekki síst í ljósi þess hverjir það eru sem saka aðra um svik í ESB-málum!
https://www.youtube.com/watch?v=AIBuEnFQ6ac

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 14.3.2014 kl. 18:48

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona talar hann við flokksmenn sína.

http://youtu.be/MfSBYLoGDXw

Jón Steinar Ragnarsson, 14.3.2014 kl. 20:02

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Áshildur mín. Þú ert frábær í þinni þjóðhagsvinnu :).

Þegar ég horfi 5-6 ár til baka, og met stöðuna út frá því skrautlega tímabili, þá er afstaða mín að sjálfsögðu lituð af ferlinu.

Ferlið hefur vissulega verið flókið ferli: (hægri-vinstri-snú-snú). Allt í plati-stjórnsýsla!

Ábyrgðin er alfarið mín, á að meta stöðuna út frá mínu lýðræðismati og einstaklings-skoðanafrelsi.

Ekki er ég flokksbundin.

En það sem Bjarni Benediktsson sagði í kvöldfléttum dagsins, er óvefengjanlega réttlætanlegt.

Það var c.a. eitthvað á þá leið, að ekki væri réttlætanleg krafa af síðustu: snú-snú-allt í plat-ríkisstjórn, að heimta þjóðratkvæðagreiðslu um áframhald á stóru máli, sem þjóðin hefði í upphafi ekki verið spurð um, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég get ekki annað en verið innilega sammála Bjarna Benediktssyni í þessari afstöðu sinni, til heimtufrekjunnar til þjóðaratkvæðagreiðslu, frá: ,,snú-snú-allt í plati-stjórninni", um þetta einstaka stóra sér-þjóðaratkvæðamál! Sem er í raun bara sýndarmennsku-þjóðarskoðanakönnun, og til þess gerð að birta pólitískt hannaðar niðurstöður, í pólitískri sérhagsmunahannaðri mynd, í erlendum áróðursfjölmiðlum! Og auglýst sem þjóðar-vilji!

Stórveldi spyrja aldrei um þjóðarvilja! Stórveldi hanna fals-þjóðarvilja í gegnum hertekna fjölmiðla!

Hér er semsagt mín óflokksbundna og hreinskilna skoðun á málefninu! En alls ekki mín heildræna skoðun á flokkum/mönnum/konum!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.3.2014 kl. 20:09

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Sigurjón fyrir þitt frábæra innlegg, já hvar var allt þetta fólk eftir kosningarnar 2009? Stóður þau á Austurvelli til að mótmæla kosningasvikum Steingríms og kó? Nei það hentaði þeim ekki, því þetta var þeirra mál. Í prinsippinu eru þeir marklaustir, því þeir hafa ekkert prinsipp, bara eiginhagsmunalausnir. Skömm þessa fólks er himinhrópandi.

Já Jón Steinar, ótrúlegt að maðurinn skuli ennþá vera á þingi.

Takk Anna mín, já gott að fá þitt ópólitíska álit. Gott að heyra frá fólki sem hefur bara heilbrigða skynsemi en ekki pólitískar línur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2014 kl. 22:21

12 identicon

Eins og komið hefur fram í pistli hjá þér áður, http://asthildurcesil.blog.is/blog/asthildurcesil/entry/1277418/     þá var icesavesamningur þeirra Svavars og Steingríms skilgetið afkvæmi aðildarumsóknarinnar.  Vikum eða mánuðum fyrir kosningar kom til leynimakks milli samfylkingar og VG um að senda Svavar til samningaviðræðna (mig minnir að Kristrún Heimisdóttir hafi t.d. upplýst um það).       Þannig að kvöldið fyrir kosningar þegar Steingrímur J. taldi af og frá að V.G. stæðu að umsókn um aðild að ESB, þá bjó þetta plan í huga hans: Senda Svavar Gests til samninga um Icesave klára þá svo hægt væri að sækja um aðild að ESB sem er forsenda fyrir aðkomu V.G. í ríkisstjórn og ráðherradómi Steingríms J.

   Hafi ég tekið þetta eitthvað skakkt í höfuðið þá endilega leiðréttið mig þeir sem betur vita! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 09:15

13 identicon

Þakka þér fyrir þetta, enda gott að rifja þetta upp. Málið er bara, að Árni Páll og VG-fólk þykist ekki þurfa að fara neitt eftir þessum sáttmála núna. Hann er líka orðinn úreltur í dag.  Ég verð samt að segja, að ég botna ekkert í stjórnarandstöðunni á þingi og ESB-halelújakórnum ásamt þeim Þorsteini og Benedikt Jóhannessyni að væla þetta sífellt um þjóðaratkvæðagreiðslu, og ennþá síður allar þessar skoðanakannanir, sem verið er að gera, enda vitum við nú, hvað er lítið að marka þær. Við, þú og ég, gætum gert skoðanakönnun í þessu efni og látið hana verða eftir okkar geðþótta og skoðunum og spurt aðeins þá, sem við erum öruggar um að vilja ekki inn í ESB og sagt síðan, að afstaðan á móti því sé 90% þess vegna. Þess vegna set ég yfirleitt spurningarmerki við allar skoðanakannanir, því að þær blekkja. Að stjórnarandstaðan skuli haga sér svo sem hún gerir, og það þrátt fyrir framkomu og nýjasta útspil ESB í fiskveiðimálunum er óskiljanlegt, en sýnir samt, að stjórnarandstaðan og aðrir aðildarsinnar eru ekki almennilega með á nótunum og lifa í einhverjum heimi, sem er svo fjarri öllum raunveruleika, verð ég að segja. Að nota svo fjölmiðla landsins, utan Moggann, sem áróðurstæki ESB-sinna er makalaust og forkastanlegt. Hér í gamla daga sögðu vinstri menn, að maður ætti ekki að lesa Moggann mikið og "íhaldsáróðurinn" þar, en hverjum hefði þá(á síðustu öld) dottið í hug, að vinstri menn ættu eftir að segja, að Mogginn væri eina blaðið á Íslandi, sem væri lesandi, allt hitt væru ESB-áróðurspésar? Ég held fáum. RÚV(og raunar Stöð2 líka) er farið að líkjast Sovéska útvarpinu á árum áður helst til mikið með sinn eilífa ESB-áróður í hverjum fréttatíma og umræðutíma. Það kemst varla annað að. Sjá svo stjórnarandstöðuna á Alþingi, hvernig hún lætur, og ömurlegt að sjá þingmenn VG standa í málþófinu með þeim í Samfylkingunni og Bjartri framtíð til að tefja fyrir því, að tillögur Gunnars Braga og ríkisstjórnarinnar um ESB komist áfram. Það er alveg með ólíkindum hreint. Það versta er, ef ríkisstjórnin fer nú að gefa eftir í þessum málum. Nú ríður á að sýna og sanna ESB, að við látum ekki koma svona fram við okkur, eins og þeir gerðu í makríldeildunni, og það er sorglegt, að frændþjóðir okkar skuli hafa tekið þátt í þeim illa leik. Nú þarf að samþykkja strax að viðræðum sé slitið og við höfum ekki áhuga á frekari samskiptum af því tagi við ESB, eins og þeir hafa vaðið yfir okkur, og láta annaðhvort umsóknina rykfalla neðst í skrifborðsskúffu utanríkisráðherra eða setja hana í tætarann og það að stjórnarandstöðunni aðsjáandi. En stjórnarandstaðan minnir mest á apana tvo af þremur, sem höfðu hendurnar fyrir augunum og eyrunum. Sjáandi sjáið þér ekki, og heyrandi heyrið þér ekki, eins og þar stendur. Svo er nú það, en það er ömurlegt að horfa upp á þetta allt saman, eins og málin eru að þróast.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 11:52

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa uppryfjun Bjarni. Já ég tók vel eftir því sem Atli og Jón sögðu á þessum tíma, þeir og örfáir aðrir úr VG stóðu í lappirnar og létu ekki þoka sér í vitlausa átt. Ég man líka eftir þingræðu sem Atli hélt, sem var afskaplega skýr það sem hann sagði beint út að Steingrímur hefði bak við tjöldin verið að makka við Jóhönnu Sigurðardóttir um að sækja um inn í sambandið.

Þetta er nú allur heiðarleikinn hans Steingríms, og hvernig í ósköpunum hélt maðurinn að hann kæmist svo upp með að hrópa nú ofan í tóma tunnu um kosningasvik Sjálfstæðismanna og Framsóknar.

Guðbjörg þakka þér gott innlegg. Ég er alvaeg sammála þér í þessu öllu. Og já við skulum sýna og sanna ESB sambandinu að við látum ekki fara svona með okkur.

Ég hugsa að þegar frá líður eigi þetta upphlaup eftir að koma aftan að stjórnarandstöðunni og þeim ESB sinnum sem hæst hafa látið. Það eiginlega getur ekki annað verið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 12:25

15 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Er eitthvað að frétta af kæru Samstöðu þjóðar?

Þess eðlis að  þessi aðildarumsókn hafi verið ólögleg og brot á Stjórnarskrá, þar sem Forseti lýðveldisins hafi ekki skrifað undir þetta STJÓRNARERINDI, sem honum bar nauðsyn að gera skv. Stjórnarskrá, til að hún hafi gildi.

Á  Hæstiréttur ekki eftir að úrskurða um lögmæti þessa STJÓRNARERINDIS Ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms -Stjórnarskrárbrot Össurar og Jóhönnu.

Að mínu mati er hún ólögleg og það er ekki hægt að fara í  þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega ólömæta beiðni um aðildarviðræður.

Það er ómögleiki, bæði stjórnarskrárlegur og pólitískur.  Ríkisstjórn getur ekki haldið áfram með ólögmætt Stjórnarerindi og því ber henni að slíta þessari umsókn hið snarasta og fara ekki af stað aftur fyrr en pólitíst umboð er til staðar og með vilja þjóðarinnar  eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eggert Guðmundsson, 15.3.2014 kl. 13:13

16 identicon

Dásamlegt að sjá hvað hægri öfgmenn hér á moggablogginu eru uppteknir af fortíðinni. Það skyldi þó ekki vera að þeir séu að reyna að forðast að hugsa um ótrúlegt klúður stjórnvalda í makríldeilunni. Draumar þeirra um að einangra Ísland frá Erópu virðast reyndar vera að rætast, allavega í bili. Það er reyndar það eini áþreifanlegi árangurinn hjá stjórnvöldum um þessar mundir.

Ágúst Marinósson (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 13:57

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður punktur hjá þér Eggert. Hef ekki séð neitt um þetta mál nýlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 14:09

18 identicon

Ágúst @16 ég hlýt að vera alveg svakalegur hægri öfgamaður að hafa kosið V.G. næst síðast og svo Framsókn síðast.  Annars held ég að þú ættir að athuga skilgreiningarnar þínar eitthvað betur.  

Varðandi makríldeiluna þá eru íslenskir samningamenn greinilega voðalega miklir kjánar að leifa ekki ESB að fara sínu fram með að ofveiða makríl.Auðvitað er það síðan þeirra sök að ESB tuddast áfram í málinu í blóra við allar fínu reglugerðirnar sínar um vernd fiskistofna (kanski þess vegna að þeir eru svona illa komnir hjá þeim þrátt fyrir allar reglurnar)  

Samningamennirnir okkar áttu náttúrulega að setja hnefann í borðið og gefa allt eftir, svona að hætti Samfylkingarinnar. Það var nú eitthað annað þegar Icesave samningamennirnir ætluðu að gefa alla hagsmuni Íslendinga eftir og lágu hundflatir fyrir ESB, allt til að fara nú ekki að styggja það ágæta samband.  

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 17:34

19 identicon

Það hjákátlegt með marga þessa sjálfkölluðu jafnaðarmenn sem tala niður til þjóðernis og þjóðarvitundar að hefðu þeir ráðið þá væri landhelgin enn ekki nema 12 mílur og því engin skiftimynt til fyrir þá til að kaupa sig inn í heldrimannaklúbbinn sem þeir halda að ESB sé.  Klúbb sem snýst m.a. um það að halda aumingjunum í Afríku niðri sem hrávöruframleiðendum með tollum.  Sér er nú hver jafnaðarmennskan.  Svei aftan.   Sem útleggst , hættiði þessu gjammi kratakjánar og haldið ykkur til hlés svo þið séuð þó ekki fyrir.

Sorglegt hvað þetta lið er búið að rugla margan í ríminu með innistæðulausum fullyrðingum um eigið ágæti. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.3.2014 kl. 17:42

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm tek undir þetta með þér Bjarni.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2014 kl. 18:31

21 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ætla að hlífa ykkur við pólitísku þrasi í þetta sinn, en var þetta ekki Stefán Stefánsson (Stebba stórsmiðs) sem stóð þarna í dyrunum, á myndbandinu sem Jón Steinar vísar til í athugasemd nr. 9?

Theódór Norðkvist, 15.3.2014 kl. 22:48

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sá ekki nógu vel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2014 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 2021019

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband