Ein lítil hugleiðing um lífið og tilveruna.

Ég er sennilega dálítið öðruvísi en margir aðrir.  Ég er til dæmis á móti bönnum og boðum, tel að með slíku fari hlutirnir bara í kaf og verði að glæpum, og glæpamönnum.  Eg held nefnilega að fólk hætti ekki að stunda ákveðna hluti þó þeir séu bannaðir samkvæmt lögum.

Þetta á til dæmis við um vændi.  Ég er auðvitað algjörlega á móti mansali og þrælahaldi.  Melludólgar eru viðbjóður og ættu ekki að vera til.  En að banna vændi og kaup á vændi finnst mér eiginlega vera dálítið út í hött.  Ég er nefnilega alveg sannfærð um að það bara gengur ekki upp.  Konur hætta ekki að selja líkama sinn, og karlmenn hætta ekki að kaupa sér samfarir við það að þetta sé bannað.  Það sem gerist að þá er þetta orðin glæpastarfssemi og fer neðanjarðar, hverfur í djúpin, og gæti stuðlað að ennþá meiri eymd og kúgun kvenna.  En þetta er mín meining, og ég tel mig þekkja mannlegt eðli nokkuð vel.

Eins er með hass og álíka fíkniefni.  Ég hef aldrei alveg skilið þennan ótta við lögleiðingu á kannabis.  Með því að lögleiða slík efni, þá færum við neysluna upp á yfirborðið, sláum glæpinn úr höndum innfluttningsaflanna.  Neyð fíklanna yrði ekki eins mikil.  Þegar bjórinn loks var leyfður fóru púrítanarnir að tala um að neyslan myndi aukast upp úr öllu valdi.  Það jókst að vísu neysla á bjór en minnkaði að sama skapi á sterkari drykkjum.   Ef til dæmis menn færu út í að banna sterk vín myndi örugglega brugg fara upp úr öllu valdi.  Það yrði sennilega bruggað í flestum húsum.  En um leið yrðu þeir borgara sem það gerðu lögbrjótar.  Þar væri verið að búa til glæpamenn, rétt eins og það er veriðað búa til glæpamenn sem rækta hassplöntur, og þá er ég svo sem ekki að tala um heilu frabrikkurnar, heldur bara alla sem rækta sitt eigið stuff í stofuglugganum. 

Það er líka vitað að kannabis er gott lyf við ýmsum sjúkdómum, en það má alls ekki nota það, vegna orðsporsins.  Mér finnst þetta skrýtið svo ekki sé meira sagt.  Þetta segi ég manneskjan sem hef verið í 30 ára baráttu við fíkn í fjölskyldunni.   Ég veit líka að þó minn sonur sé hættur að nota þessi ólöglegu lyf, þá gat hann alltaf orðið sér úti um þau allstaðar.  Það kostaði bara heilmikið og gerði hann að afbrotamanni ofan á fíknina. 

Ég held að málið sé að þeir sem græða á að flytja þessi efni inn, vilji ekki lögleiða þau.  Þeirra hagur er að þetta sé allt í þeirra höndum og að fíklarnir séu þeirra eign líka.  Og ég er viss um að þeir sem fjármagna innfluttning og dreyfingu á fíkniefnum eru ekki einhverjir lúserar á botni samfélagsins, svo ekki sé meira sagt.

Auk þess er svona heimaræktað hass örugglega hreinna en efni sem flutt er inn.  Með því að ganga svona fram í að fylgjast með kannabisræktun hér heima, er stuðlað að meiri innfluttningi og meiri gjaldeyriseyðslu.  Eða ætlar einhver að segja mér að fólk bara hætti bara si sona, eða að þetta sé einhver ábót við innfluttning?  Nei ég held að það sé orðið erfiðara að flytja inn efnin eftir hrunið og þess vegna gripið til heimaframleiðslu.

Fíkn er ástand sem menn ráða illa eða alls ekki við.  Fíknir eru margskonar, matarfíkn, kynlífsfíkn, reykingar og drykkja, fíkn í athygli og svo framvegis.  Það sem þarf að gera er að hjálpa fólki að komast yfir fíknina.  Það þýðir einfaldlega ekki að setja lagabann og segja þetta má ekki.  Það má svo sem segja slíkt, en það bara hefur enginn áhrif. 

Það þarf lokaða meðferðarstofnun fyrir fólk sem ræður ekki við aðstæður í lífi sínu.  Það þarf opinbert eftirlit með sölu og neyslu á fíkniefnum.  Auðvitað kostar það peninga, en hvað  halda menn að það kosti þjóðfélagið árlega að hafa fíklana á þeim level sem þeir eru í dag, í hringrás neyslu innbrota eða árása, í fangelsi, út aftur.  Hverjir eru svo það sem bíða á næsta götuhorni tilbúnir með næsta skammt til að halda hringrásinni áfram?  Nei gott fólk, hér þarf að hugsa algjölega upp á nýtt.  Það sem hér hefur viðgengist í yfir 20 ár er gjaldþrota stefna.  Það þarf að þora að breyta til, finna þá sem standa á bak við þetta ferli og færa þá til dóms, rétt eins og útrásarvíkingana. 

Nýtt Ísland er ekki bara á hinu pólitíska sviði, það þarf líka að hugsa margt annað upp á nýtt, eins og að skilja að glæpamenn sem eru í eðli sínu glæpamenn og svo hins vegar fíkla sem leiðast út í allskonar vitleysu vegna þess að þeir eru ekki lengur sjálfráðir gerða sinna.  Þangað til það verður gert, verða fangelsin full af afbrotamönnum, sem oftar en ekki eru ekki í eðli sínu afbrotamenn.  Lögreglan á fullu við að eltast við hassræktendur, og hefur ekki tíma til að verja almenna borgara fyrir árásum og allt kerfið útbólgið af vandamálum.  Forvarnir þurfa að vera miklu beittari, en eftirvarnirnar eru ekki til í dag, en þurfa svo sannarlega að vera til staðar.  Ekki bara fyrir fíklana, heldur alla sem þeim tengjast. 

Við hugsum því miður í kössum, og sjáum ekki út fyrir þá kassa.  Vonandi förum við samt að rumska og standa upp og krefjast breytinga í þjóðfélaginu.  Ekki bara á einu sviði, heldur þarf að stokka upp allt samfélagið og skoða það ofan í kjölin.  Finna hina raunverulegu sökudólga og koma þeim undir lás og slá.  Þeir eru víða mennirnir sem valda skaða bæði í bankahruni, græðgi en líka sem valda sársauka, angist og dauða unga fólksins okkar.  Það er einfaldlega ekki viðunandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auður Proppé

Ég er að mörgu leiti sammála þér.  Síðasta færslan mín var einmitt um þetta með kannabis, það er upprætt og auðvitað hefur lögreglan staðið sig frábærlega vel, því kannabis er jú ólöglegt efni.  En hvað svo, litlir peningar fást til meðferðarstofnana og langir biðlistar?

Hjartanlega sammála því að boð og bönn eru ekki nóg, það þarf þá að vera til staðar hjálparúrræði fyrir þá sem eru fastir í neti neyslu eða í klóm melludólga og þurfa að selja líkama sinn til að framfæra sér og oft er það líka tengt neyslu.

Eigðu góðan dag Ásthildur mín

Auður Proppé, 22.3.2009 kl. 10:43

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Greinin er mjög flott og er ég algjörlega á sama máli.  Ég vildi að ég hefði kynnst þér þegar ég var á Ísafirði, við hefðum náð mjög vel saman og haft mikið að tala um.

Jóhann Elíasson, 22.3.2009 kl. 10:45

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég þríbjörnazt.

Þú ert með þetta inn að kjarna.

Steingrímur Helgason, 22.3.2009 kl. 12:30

4 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Sæl Ásthildur.

Frábær pistill hjá þér og er í mörgu sammála þér.

Bestu kveðjur / Jenni

Jens Sigurjónsson, 22.3.2009 kl. 15:18

5 identicon

  Kv. Steini Árna

Þorsteinn Árnason (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 15:40

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.  Einmitt Auður mín, hjálparúrræðin eru harla fá og nánast enginn þegar kemur að alvöru lífsins.  þetta fólk (fíklar) eru ekki talin til manneskja hjá ríkisvaldinu, alls ekki hjá mörgum í lögreglunni og sumir sýslumenn sem ég þekki, einn til dæmis á Selfossi gerir allt sem hann getur til að setja fótinn fyrir slíkt fólk.  Því miður.  Það hef ég reynslu af.

Já Jóhann minn það hefði verið gaman að spjalla um lífsins gagn og nauðsynjar meðan þú varst hér.

Hehehe Steingrímur minn, ég hélt að ég hefði verið sett úr af sakaramentinu hjá þér. 

Takk Jens minn. 

Ég hef barist við þennan fíkniefnadjöful í mörg herrans ár.  En ég tel að rót vandans liggi ekki í framboði og eftirspurn, heldur í því að hjálpa fíklum og aðstandendum þeirra til að taka sig á.  Þegar ég hætti að reykja, þá gætti ég þess vel að eiga fullan pakka af sigarettum inn í skáp, þannig að baráttan var ekki um að útvega sér líkkistunaglana, heldur að standast freistinguna að opna skápinn og fá sér sigarettu. 

Það þarf að hjálpa fólki úr viðjum löngunarinnar, þannig að það geti staðið á eigin fæti.  Fyrst syni mínum tókst að losa sig úr út því að nota það sem hann kallar ólögleg fíkniefni, fór síðan að vísu yfir í læknadóp, sem er löglegt en ekkert skárra.  Þá geta allir gert það, svo langt var hann sokkinn niður.  Í dag hef ég góða von um að hann geti funkerað í samfélaginu án þess að vera út úr ruglaður.  Hann verður sennilega aldrei alveg fullkomlega laus við baráttuna.  En hann á von um að geta fúnkerað.  Það er það sem málið snýst um. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2009 kl. 17:31

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús Steini minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.3.2009 kl. 17:32

8 Smámynd: Huld S. Ringsted

Innlitskvitt frá einni sem hefur lítinn tíma fyrir blogg þessa dagana

Huld S. Ringsted, 22.3.2009 kl. 20:19

9 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Hvað varðar vændi þá er það og verður alltaf til staðar.  En það að banna kaup á vændi getur stuðlað að því að stöðva mansal, og það að leyfa vændi en að banna að kaupa það,  gerir því fólki sem stundar vændi, fært að kæra misnotkun og ofbeldi sem það verður fyrir, en hefur ekki getað kært hingaðtil.  -

Og er því frekar til verndar fólki sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér og þarf því að lifa í stöðugum ótta við ofbeldi og ofríki missyndismanna, sem selur það eins og hverja aðra vöru, eða leigir það út.  - Þessvegna er það vörn gegn mansali.  

Og eins og nýja aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar ber með sér, verður þessu blessaða fólki sem hvergi hefur átt skjól, veitt hér skjól þar til það ákveður sjálft hvort það vill vera hér áfram eða fara. 

En hvað það varðar að leyfa sölu á kannabisefnum þá er ég þér fyllilega sammálaí einu og öllu.

Og mér finnst athyglisverðar hugleiðingar þínar hverjir það eru sem berjast mest gegn lögleiðingu, og hvern hag þeir eru að verja þar.   Ég hef lengi velt þessu fyrir mér, og alltaf komist að sömu niðurstöðu og þú. 

Alveg eins og ef maður lítur til baka og skoðar hverjir göluðu hæst síðast þegar átti að banna kaup á vændi. -  Og hver voru rök þeirra.  - Þá voru rök þeirra að annars mundi þetta allt fara neðanjarðar.

Ég spurði þá og spyr enn:  Hvar er vændið nú, nema neðanjarðar!  -   

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 22.3.2009 kl. 20:40

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2009 kl. 21:48

11 Smámynd: Hlédís

Þú skrifar eins og út úr mínum huga, kæra Ásthildur! Ekki í fyrsta sinni

Hlédís, 22.3.2009 kl. 22:07

12 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vændi er í eðli sínu neðanjarðar af því í því felst niðurlæging og misnotkun á konunni, það hefur aldrei verið á leið neitt annað.

Mér finnst þetta flottar pælingar, er ekki sammála mörgu en þykir jafn andskoti vænt um þig þrátt fyrir það eða kannski þess vegna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.3.2009 kl. 22:37

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lilja ertu að meina að vændi per se sé ekki bannað, bara að kaupa það?  Ókey, það lítur aðeins öðruvísi út.  Ég er samt ekki sannfærð.  Er hrædd um að það fari eitthvað neðanjarðar.  En vona samt að slíkt gerist ekki.

Knús á ykkur allar og takk fyrir mig.

Það sem mér liggur mest á hjarta í þessum málum eru málefni fíklanna.   Þar er víða pottur brotinn og þeirra réttur fyrir borð borin.  Það er svo auðvelt, því þetta fólk kvartar ekki við neinn, enda hvert ættu þau að snúa sér?   Yfirleitt eru fjölskyldurnar brotnar líka þegar fíkillinn er komin alveg niður í skítinn.   Örþreytt og búin að fá nóg af öllu saman.  Sennilega komin á róandi töflur líka.  Heimilin brotin jafnvel.  Þetta er gríðarlegt álag.  Og svo er bara enga raunverulega hjálp að fá.  Maður kallar út í tómið, en allstaðar eru veggir sem maður rekst á.  Eitt leiðir af öðru.  Það á ekki að meðhöndla þetta fólk eins og venjulega glæpamenn, því þau hafa í fyrsta lagi misst öll tök á hegðun sinni.  Oftar en ekki eru þau í samfélagi sem við þekkjum ekki, undirheimi sem er hrærigrautur af þeirra eigin lögum og reglum.  Þar sem allskonar slæmska þrýfst.  Því þurfa þau að fara í endurhæfingu.

Ef þeim tekst að komast úpp úr neyslunni, þá eru þau ekki tilbúin í venjulegt líf eins og við lifum.  Auk þess hefur neyslan þau áhrif að þau hætta að þroskast andlega og eru eins og smákrakkar í allri umgengni og ábyrgð.  Það þarf því ofurmannlega krafta til að komast aftur til manna eftir að hafa lifað þarna niðri.  En stundum tekst það.  Gæti gerst oftar ef hér væri stofnun sem sæi um að ná þeim og koma þeim í lokaða meðferð, þar sem þau væru mótiveruð til að hætta.   Það þýðir ekkert að setja illa farna fíkla inn á venjuleg meðferðarheimili, þar sem þau geta labbað sig út þegar þau geta ekki lengur beðið með skammtinn.   Það eru svona heimili í hinum norðurlöndunum.   Af hverju ekki hér?  Það er af því að yfirvöld hafa afskrifað það fólk sem er í slíku ástandi.   Það er auðveldara að láta það bara rekast, setja þau inn í fangelsi og "geyma" þau þar þegar þau geta ekki meir.  Og þá er ég ekki að tala um hjálparsamtök sem eru með neyðarskýli og matargjafir.  'Eg er að tala um meðvitaða virka ákvörðun um að ná í þessa einstaklinga  helst áður en þau sökkva alveg niður á botninn og setja þau í lokaða meðferð.  Dæma þau þangað við fyrstu brotin til dæmis. 

Mér finnst að það ætti að setja hér upp ráðstefnu um málefni fíkla, þar sem allir kæmu að sem hafa með málin að gera;

Lögreglan, dómarar, læknar, félagsfræðingar, geðlæknar, afbrotafræðingar, félagsþjónusta, tryggingafélög,  foreldrar og fíklar.  Þar væru málin krufin til mergjar og skoðað hvað áunnist hefur, hvað er hægt að gera til að laga ástandið, og hvernig er best að taka á vandanum.  Mín skoðun er sú að það ætti að einbeita sér að því að finna þá sem flytja efnin inn og fjármagna þau.  Hætta að eltast við fíklana á götunni með 0,eitthvað í vasanum.  Það eina sem slíkt gerir er að auka eftirspurnina og innbrotin til að fjármagna kaup á nýju stoffi.  Endalaus hringrás. 

Svo er kaflinn um læknadóp alveg sér og ekki síðri.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.3.2009 kl. 09:27

14 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

mjög áhugavert og fær mig til að skoða mína skoðun á þessu !

Takk kæra cesil

Steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 23.3.2009 kl. 10:37

15 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mér finnst þetta því miður ekki góð grein hjá þér frú Cesil, svo ég kveði nú ekki fastar að orði.ER miklu ´gattaðari á þér og fleirum hérna fyrir skoðanamyndun upp úr sýnist mér bara engu, en nokkurn tíman að kona hafi hætt í dag sem varaformaður í vissum flokki eftir aðeins níu daga í embætti!EF það er virkilega svo að rót vandans eða stóran hluta hans sé að leita í að það sé bannað að selja og neyta eitulyfja, hví hefur þá heimurinn ekki fyrir löngu gengist inn á það? Þetta er bara ein spurning sem vakanar til andsvara við þínum skrifum Ásthildur og raunar margra annara á undan þér.Önnur væri, hvort þú virkilega trúir því að með lögleiðingu væri komið í veg fyrir glæpastarfsemi eða afbrot í kringum eða vegna fíkniefnasölu og neyslu? (eða lögleiðingu vændis)

Og hvernig ætti svo að útfæra þetta sölu- og neyslufrelsi ef svo ólíklega vildi til að það kæmist á?

Hverjir ættu að fá að flytja inn og/eða selja og hvaða efni, öll eða bara Kannabis?

Og er Kannabis sama og Kannabis Ásthildur?

Þessum og mörgum fleiri spurningum verður þú að geta svarað með rökum, á'ður en þú getur haldið fram slíku svo mark sé á takandi, sem þú gerir hérna mín kæra Vestfjarðavalkyrja og fólk er svo ílla ígrundað að taka undir með þér hérna!

Magnús Geir Guðmundsson, 23.3.2009 kl. 19:32

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Steina mín.

Magnús það verður aldrei komið í veg fyrir glæpastarfssemi, ef það væri hægt væri löngu búið að því.  Það sem ég er að segja er, að bönn fela hlutina, þau uppræta ekki neitt. 

Ég hef barist við þennan fíkniefnadjöful yfir 30 ár með syni mínum.  Hann náði sér sem betur fer upp úr því að mestu, að mestu segi ég, því hann þarf að taka lyf það sem eftir er.  Og ég veit aldrei hvenær hann fellur aftur, vona bara að það verði aldrei.  Hann hefur reyndar sagt mér það sjálfur að ef ég hefði ekki barist með honum alla tíð hefði hann gefist upp og látið sig hverfa í óminnisdjúpið.  Það er auðveldasta leiðin út, þegar allt er þrotið. En allt gerðist þetta þó allt væri bannað og ólöglegt. 

Málið er að það er auðvitað ekki sama hvernig staðið er að lögleiðingu.  Það þarf að gera ráðstafanir rétt eins og með áfengi, það er ekki gefið frjálst.  það má einungis selja það í þar til gerðum verslunum.  Þess vegna ætti að selja kannabis í apótekum.  Það sem gerðist væri að pukrið myndi hætta.  Glæpamennirnir sem stunda innflutning og sölu myndu verða af viðskiptum, vegna þess að salan myndi færast inn í lyfsölur.  Eins og ég benti á að þegar bannað var að selja sterka drykki til dæmis í Bandaríkjunum þá var það heilmikil uppgrip meðal smyglara og bruggara að selja mönnum vín.  Hér var lengi góð atvinnugrein að smygla bjór til landsins.  Menn högnuðust á að selja smyglið, þetta lagðist af þegar bjórinn var leyfður. 

Kannabis er auðvitað eitur eins og brennivín, sigarettur og önnur vímuefni, hvorki betra né verra.  Það sem er hættulegt eru efni eins og LSD, spítt, heroín og Kókaín og svo framvegis stundum jafnvel blandað með rottueitri.  Með því að taka þetta algengasta út eins og kannabis, þá væri hægt að fókusera meira á að fylgjast með harðari efnum og hættulegri.  Ég man eftir því að breska lögreglan ákvað að hætta að eltast við þessa núllkommaeitthvað fíkla, til að einbeita sér betur að alvarlegri hlutum.  Það sama ætti að  gera hér.  Og rétt eins og með sigarettur og brennivín er fólk sem notar kannabis sér til ánægju en verður ekki háð því meira en svo að það getur funkerað í lífinu.  Rétt eins og sumir geta drukkið sér til ánægju en aðrir ekki. 

Ég myndi sjálf aldrei nota neitt af þessum efnum.  Ég er bara ánægð með rauðvín og bjór og vodka ef mig langar að detta í það.  En það sem ég á við er að boð og bönn bara einfaldlega virka ekki.  Þau skapa meiri erfiðleika og felur.  Verða til þess að glæpamenn taka sér einokunaraðstöðu og fara að deila og drottna í skjóli banns.  Þetta er bara borðleggjandi. 

Ég hef spáð mikið í þetta, og þetta er bara mín sannfæring.  Ég held að allt svona væri betur komið í umsjón hins opinbera, en í höndum glæpamanna.  Ég vil meira að segja að harðari efni væru afhent fíklum á sjúkrahúsum og apótekum til að fyrirbyggja innbrot og árásir á fólk, frá helsjúkum einstaklingum sem í dag eru á götunni og þura að stela til að ná í skammtinn sinn, og ég þekki svoleiðis fólk persónulega.  Fólk sem á varla til æðar lengur sem halda sprautunni.  Fyrst er betlað, svo er lagst í hórdóm og síðasta úrræðið er að stela.  Þetta er bara þannig.  Það þarf að segja hvern hlut eins og hann er.  Og auðvitað er miklu betra að loka augunum fyrir þessu og segja suss þetta viljum við ekki.  En þetta er bara samt til staðar og aldurinn færist sífellt neðar.  Í skjóli þöggunnar og banns.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.3.2009 kl. 22:15

17 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Þú átt alla mína samúð vegna sonar þíns og baráttu hans og megi forlögin forða honum frá frekari ógæfu í þessum efnum!

En um leið verð ég að segja, að þú gerir mig mjög dapran að öðru leiti, vþí ekki aðeins virðistu þrátt fyrir persónulega reynslu tengda fíkniefnum Cesil góð, hafa mjög litla þekkingu á því sem þú þó ert fullum fetum að setja fram skoðanir á, heldur ertu líka tilbúin í blindni þessarar vanþekkingar, að auka stórkostlega á þann vanda sem nú er þó takmarkaður með ýmsum ráðum og fjölþættum, tempraður eins og unnt er þó alltaf sé hægt að gera betur, með stórauknu aðgengi, athygli og framboði á fíkniefnum!

Það er nefnilega einmitt það sem hefur alls staðar gerst þar sem slakað hefur verið á klónni, menn telja sig vera að leysa einhvern vanda, en auka hann bara þess í stað þannig að vandin verður í heild miklu meiri. Ég spurði þig tvenns m.a. mín kæra Cesil, en hvorugu gastu nú svarað og svo sem ekki von heldur. Hví þjóðir um víða veröld tækju sig ekki bara saman og leyfðu slíka fíkniefnasölu fyrst þetta myndi leysa svona andan? Og hvort Kannabis væri sama og kannabis? Þú virðist á svarinu ekki alveg skilja mig auk þess sem þú talar bara um hass, en eins og felst í nafninu er um fleirtölu að ræða, EFNI! Og að leggja þau að jöfnu við áfengi og tóbak, að kannabisefni séu hvorki betri né verri efni, hvaðan hefur þú það Ásthildur, nú eða ef marka má svarið að ofan, að hass sé það?(hin efnin nefni ég ekki, læt þér eftir að fræðast um þau að eigin frumkvæði)

SVo er það bara rangt að smygl hafi lagst af varðandi t.d. bjór og áfengi eftir að bjórinn var lögleiddur 1989, mikill misskilningur. Svona gæti ég haldið áfram lengur, en hætti og kannski hefur þetta heldur ekki mikið upp á sig. En allt mælt í góðri vinsemd þó ég leyni ekki vonbrigðum mínum.

Magnús Geir Guðmundsson, 24.3.2009 kl. 19:11

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera sérfræðingur í kannabis eða álíka efnum eða neinum efnum ef út í það er farið.  Ég þekki bara persónulega návígi við neyslu.  Og ég þekki umhverfið sem skapast hjá fíklum.  Og ég þekki hvernig ungt fólk er gert að glæpamönnum ofan á neysluna.  Aðgengið er bara sorrý allstaðar.  Það geta allir fengið eins og þeir vilja og þurfa af efni hvaða nafni sem það nefnist.  Bara ef þeir eiga aura til að kaupa.  Framboðið er alveg nóg, hefur allavega verið hingað til.  Vandamálið er ekki að ná í efnin heldur að þetta er allt neðanjarðar og ólöglegt.  Ég er ekkert viss um að neyslan yrði algengari, en það er alveg víst að umhverfið yrði öðruvísi. 

Eins og málin eru í dag, þá er dreyfing og umsýslan öll í höndum glæpamanna, sem enskis svífast, það er jafnvel verið að lokka sífellt yngri börn til neyslu.  Jafnvel skilið eftir stuff á skólalóðum.  Ástandið er graf alvarlegt.  Það sem ég meina er að það er betra að hafa kontról á hlutunum ef þeir eru meira uppi á borðum.  Svona neðnajarðarstarfssemi er í eðli sínu feluleikur, sem erfitt er að festa hendur á.  Og það virðist ekki vera neinn akkur hjá yfirvöldum að ná í þá sem fyrir þessu standa.  Þeir hafa endalaust frítt spil. 

Ég er búin að fá mig fullsadda fyrir löngu síðan að hatast út í andlitslausan óvin sem hertók barnið mitt, án þess að ég gæti gert nokkuð við því, nema reynt að verja hann eins og ég hef getað.   Í dag er hann orðin miðaldra maður og á sjálfur sitt líf.  En þarna úti er fullt af fólki sem er í þeim sporum sem hann var í.  Og það fólk er nú eins og hann var fast ekki bara í neti fíknarinnar, heldur líka í neti illvirkja sem halda þeim í helgreipum. 

Ég vil sjá nýjar leiðir og ný úrræði.  Önnur sjónarmið en þau sem hafa verið alla tíð og engu skilað í raun og veru. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2009 kl. 20:39

19 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þakka þér fyrir þessi skrif Ásthildur !  Ég hef engu við þetta að bæta, mér finnst allt sem þú segir koma heim og saman við það sem ég hef heyrt og fundið hjá þeim sem ég hef rætt við í gegnum árin, um þessi mál.  Ég er þér hjartanlega sammála.   -   Og mér líst vel á tillöguna um málþing um þessi mál,  og þá fyrr en seinna.  - 

 En ég verð að að segja það Magnús minn kæri bloggvinur,  að ég finn enga sannfæringu í þínum skrifum hér fyrir ofan, aldrei þessu vant,  eins og þú ert alltaf málefnalegur og skemmtilegur, þá bara ...... ! 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 26.3.2009 kl. 21:09

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta Lilja mín.  Það má segja að ég þekki málið náið eða frá sjónarhóli móðurinnar sem hefur barist með kjafti og klóm til að bjarga afkvæmi sínu.  Og hjálpin hefur verið harla þunnur þrettándi.  Vonandi eru því nýir tímar í vændum með nýja sýn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2009 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 93
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband