Verkföll og afleiðingar lagasetningar á þau.

Setti þetta inn sem svar við þessari grein. http://www.visir.is/pall-matthiasson--verkfallinu-vard-ad-ljuka/article/2015150619512?fb_action_ids=10206910210222932&fb_action_types=og.comments

 

 

ÉG er ekki að alveg að ná þessum vandræðagangi. Auðvitað þurfa allir að fá mannsæmandi laun. Veit ekki hvað ber í milli og hvort allt sé stál í stál. Ég tel að stjórnvöld hafi áhyggjur af skriðunni sem kemur ef þessir hópar ná til sín meira en þeir sem hafa þegar samið. Og hvað verður síðan um verðlagið og verðbólguna sem hlýtur að fara á fullt. Seðlabankastjóri strax farin að hækka vexti og hótar enn meiri hækkun í haust. Þetta er svo sannarlega erfitt viðfangs. En einhversstaðar þarf að taka til hendinni og leiðrétta þau laun sem hafa einhverra hluta vegna orðið útundan. Það er svakalegt að missa allt þetta góða starfsfólk úr landi, þá er ég að tala um hjúkrunarfólk. Lögfræðingar og slíkir fara sennilega ekki úr landi, þeir hafa það langbest hér heima. En nú þarf að vinda sér í að sætta þau sjónarmið sem eru uppi sennilega þarf að láta forystumenn fara og fá óvilhalla menn til að tala saman um kaup og kjör. Mér finnst eins og þessir forystumenn eins og Þórunn Sveinbjarnardóttir og kennarinn man ekki hvað hann heitir þau eru alltof herská og pólitísk til að taka á þessum málum. Æsa til ófriðar í stað þess að tala varlega og friðsamlega. Stjórnvöld verða svo að taka sig á og skilja reiðina sem ríkir hjá þeim sem hafa verið þvinguð til starfa í krafti laga. Það hlýtur að vera til lausn sem hægt er að sætta sig við. Það þarf bara að setjast niður og finna hana. Það er ekki íslenskum almenningi í hag að missa allt þetta góða fólk úr landi svo ég endurtaki nú sjálfa mig. Og það er ekki almenningi til hagsbóta á neinn hátt að hafa hatramma pólitíska andstæðinga ríkisstjórnarinnar í forystu fyrir svo vandmeðförnum samningum. Og það er heldur ekki íslenskum almenningi til hagsbóta að hafa menn við stjórnvölinn sem skilja ekki þjóðarsálina. Hér þarf að hugsa fyrst og fremst um þá sem eru veikastir og þurfa á hjúkrun að halda, og óttann og öruyggisleysið sem fólk býr við, meðan einhverjir eru að leika sér í stríði. 

 

Sammála Styrmi um að þetta mál þarf að leiða til lykta með skynsemi og varfærni.  Annað er bara ekki í boði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vandinn er vissulega stór Ásthildur og slæmt ef starfsfólk í heilbrigðisgeiranum flýr land. Reyndar trúi ég ekki að svo verði, þó vissulega einhverjir muni fara. Sá flótti verður þá væntanlega frekar af pólitískum ástæðum en kjaralegum, jafnvel þó byrjunarlaun í þessum stéttum séu kannski í lægri kantinum. En það er fleira en grunnlaun sem spila inní þegar kjör eru rædd, t.d. lífeyrisréttindi, en himinn og haf er á milli ríkisstarfsmanna og launafólks á almennum markaði hvað það varðar. Þá er ekki enn komin niðurstaða í málið, hverjar kjarabætur þessara hópa verður. Enn er hægt að ganga frá kjarasamningi og ef það ekki tekst mun gerðadómur úrskurða í málinu. Úrskurðir þess dóms hafa farið á ýmsa vegu gegnum árin. Stundum hafa atvinnurekendur náð fram sigri en oftar hafa launþegar haft betur, jafnvel dæmi um að kjaradómur hefur úrskurðað allar kröfur launþega gildar. Því ætti þetta fólk að bíða með uppsagnir þar til niðurstaða fæst, taka ekki fljótfærnislegar ákvarðanir í hita leiksins heldur upplýstar í samræmi við staðreyndir.

Ríkistjórnin átti ekki margra kosta völ, í raun einungis þann sem valin var. Það er sama hversu mikill vilji var til að hækka laun þessara stétta umfram aðra, þá var sú leið einfaldlega ekki fær. Ákvæði sem sett var inn í kjarasamning á almennum markaði útilokaði þann möguleika. Því má frekar segja að þeir sem stóðu að þeim kjarasamning hafi tekið samningsrétt af starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, frekar en stjórnvöld.

En hvers vegna var þetta ákvæði sett inn í almennu kjarasamningana? Jú ástæðurnar eru ýmsar, kannski fyrst og fremst sú upplifun sem það launafólk sem að þeim samningum stendur varð fyrir, eftir jólaföstusamninginn 2013. Þá var samið um hóflegar hækkanir og loforð tekin af SA og stjórnvöldum um að aðrir sem á eftir kæmu fengju ekki meira. Þau loforð voru svikin og því lá beint við að ákvæði um slíkt yrði sett inn í kjarasamningana nú. Þá var í kjarasamningunum núna samið um smá aukahækkanir til þeirra sem lægstu launin hafa, þó sú hækkun dugi fjarri því að koma þeim hópum á mannsæmandi laun, nær ekki einu sinni til að koma þeim upp á þau viðmið sem talið er að þurfi til framfærslu. Aðrir fengu minna. Um þetta virtist vera sátt í þjóðfélaginu. Þó ekki meiri sátt en svo að strax eftir undirskrift þessara samninga heyrðust raddir um að með þessu væri verið að verðfella menntun í landinu. Ef það er verðfelling á menntun að láta þá sem eru með laun undir framfærslugetu, fá örlítið meira en aðra, er ljóst að enginn vilji og engin geta er til að útrýma fátækt hér á landi. Ef allir eiga að fá það sama og þeir sem lægstu launin þiggja, jafnvel meira, er ljóst að fátækt er ástand sem er viðvarandi, með vilja þeirra sem ofar eru. Þessi kjarasamningur nú er að sumu leiti tímamótasamningur. Ekki vegna þess að lægst launaða fólkið fékk meira, það hefur oft áður skeð. Tímamótin eru að nú náðist að setja inn í samningin varnagla um að ef aðrir fá meira muni samningurinn falla úr gildi. Áður hefur það verið nánast regla, þegar lægstu launin hafa fengið aukahækkun, að þeir sem eftir koma miða sínar kröfur við þá hækkun og hafa oftast fengið þær í gegn, eða meira.

Vissulega má með þessu segja að almenni kjarasamningurinn hafi tekið samningsréttinn af þeim sem á eftir komu. Menn geta svo velt fyrir sér hvort það hafi verið rétt og eðlilegt.

En vandinn við að ganga að kröfum starfsfólks í heilbrigðisgeiranum, sem ég tel að eigi vissulega að vera á góðum launum, þó ég þekki ekki þeirra launakjör til hlítar, vandinn við að ganga að þeim kröfum, fyrir utan það sem að ofan segir, var ekki síður sá að það eru fleiri starfsmenn hjá ríkinu en bara starfsfólk í heilbrigðiskerfinu. Þær hækkanir hefðu því gengið yfir þá hópa einnig, jafnvel þó sumir þeirra séu á aldeilis ágætum launum fyrir.

Auðvitað má segja að rót þessa vanda sé sú hækkun sem læknar fengu, en þar voru stór mistök gerð. Það var um þá hækkun, eins og hækkun til þeirra sem lægstu launin hafa, að um þetta virtist ríkja sátt meðal þjóðarinnar. Við vildum jú ekki missa læknana úr landi. En það var með þá sátt eins og fátækrahækkunina, að hún átti bara við um "hina", ekki "mig". Því miður er það sjónarmið ansi ríkt í okkur Íslendingum.

Öll þessi deila lyktar af pólitík, því miður. Þeir sem mest skaðast af þeirri pólitík eru þeir launþegar sem við á. Nú láta forsvarsmenn BHM eins og þetta sé í fyrsta sinn í sögunni sem lög eru sett á verkföll, jafnvel þó formaður þess sambands hafi sjálf staðið að legasetningu á flugvirkja, fyrir fimm árum síðan. Lögsókn á ríkið er hótað og ekki kemur þetta fólk fram í fjölmiðlum án þess að klifa á uppsögnum og landflótta. Enginn getur boðað uppsagnir nema viðkomandi starfsmaður, nú eða atvinnurekandinn sem hann vinnur hjá. Forsvarsfólki í stéttarfélögum er beinlínis bannað að ýta undir slíkt. Því má kannski segja að lögsóknin ætti að vera á hinn kantinn.

Oft hafa verið sett lög til frestunnar verkfalla og er það miður. Stundum hafa viðkomandi launþegar komist í verkfall áður en lög tóku gildi, t.d. voru flugvirkjar búnir að vera í verkfalli í 9 klukkustundir þegar núverandi formaður BHM ásamt félögum settu lög á það verkfall. Oft hafa lögin tekið gildi áður en til verkfalls hefur komið. Rökin hafa einatt verið að um of stórt tap fyrir þjóðarbúið væri að ræða. Nú hafa staðið yfir verkföll í rúmar 9 vikur hjá starfsfólki sjúkrahúsa, án þess að nokkur merki sjáist um að samningar séu að takast. Að vísu er "bara" um að ræða heill og hamingju þjóðarinnar vegna þeirra verkfalla og því þykir þeim sem settu lög á verkfall vegna þess að veraldleg gæði gætu tapast, rangt að setja lög á þessi verkföll nú. Jafnvel hefur ekki heyrst ein einasta rödd frá þessu fólki sem mótmælir lagasetningunni gagnvart þeim launþegum BHM sem vinna að öðru en heilbrigðismálum og með því í raun samþykkt að þeirra verkföllum verði frestað með lögum, bara ekki þeirra sem vinna að heil og heilsu landsmanna. 

Hin veraldlegu gæði eru þessu fólki ofar í huga en heill og hamingja þjóðarinnar!

Það er deginum ljósara að ekki var neitt nálægt því að takast kjarasamningur milli þessara aðila. Jafn illa við og mér er að segja að lög til frestunnar verkfalla geti verið nauðsynleg, þá voru þessi lög nú eins nálægt því og hugsast getur.

Ég vil taka það skýrt fram að skoðun mín á starfi fólks í heilbrigðisgeiranum er skýr. Ég tel þetta fólk til fyrirmyndar í starfi og ósérhlíft. Í verkfallinu núna sýndu þetta fólk að það var tilbúið til að vinna, allar undanþágur gagnvar sjúkrahúsunum voru afgreiddar á einn veg, með vinnu. Því er ég ekki að deila á þetta fólk og ekki að segja að það sé með há laun. Vel getur verið að rétt væri að hækka einhverja hópa innan þessa kerfis.

En, það verður að líta til staðreynda hverju sinni. Og staðreyndirnar eru einfaldar. Kjarasamningar á almennum markaði koma í veg fyrir auknar hækkanir, sama hversu viljinn er mikill og sama hvort ríkissjóður ráði við slíkar hækkanir eða ekki. Forsvarsmenn BHM hafa síðan nýtt þá stöðu í pólitískum tilgangi.

Því komið sem komið er. 

Fyrirgefðu svo þessa löngu athugasemd frá mér, Ásthildur.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 14.6.2015 kl. 22:01

2 identicon

Kjarasamningar á almennum markaði koma ekki í veg fyrir meiri hækkanir hjá öðrum. Það er eins hægt að taka verkfallsréttinn af almenna markaðinum ætli hann að sækja meira en hann hefur samið um. Eða setja í komandi samninga að allar hækkanir á hinum almenna markaði komi sjálfkrafa til viðbótar. Kjarasamningar á almennum markaði eru ekki viðmið og verða engin fyrirmynd þeirra stéttarfélaga sem eiga eftir að semja. Ákvæðið sem sett var inn í kjarasamninga almenna markaðsins fellur dautt um sjálft sig, merkingarlaust og óframkvæmanlegt meðan samningsréttur er tryggður í stjórnarskrá og lögum.

Ufsi (IP-tala skráð) 14.6.2015 kl. 22:46

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Samfylkingin, og BHM-Þórunn Sveinbjarnardóttir, eru með ESB-bankaspillinguna Háskólastýrðu á bak við sig.

Kannski finnst einhverjum það sanngjarnt og lýðræðislegt?

Ég skil þetta sjónarspil ekki á neinn annan hátt, heldur en gjörsamlegt siðferðisrof, hjá ábyrgðarlausum toppvaldhöfum í Háskólasamfélagi Íslands, og Háskólasamfélagi heimsins alls.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.6.2015 kl. 00:52

4 identicon

Hvort sem það er Styrmir eða einhver annar, þá þarf alltaf "aðgát", "varfærni" eða "skynsemi" þegar kemur að endalausri "leiðréttingu" launa almennings.

Því ekki verður hægt að tala um launahækkanir.

"Aðgátin","varfærnin" og "skynsemin" byrjaði með svokölluðum " þjóðarsáttarsamningum", sem var gerður einungis til undirbúnings alþjóðavæðingar Íslands ( EES samningsins )

Eftir að Seðlabanki Íslands tók yfir efnahagsstjórn ríkisins þá tók alþingi Íslendinga að sér að bæta og staga sem miður fer í þessari margrómuðu alþjóðavæðingu sem við megum alls ekki missa af.

Íslenskur almúgur er eins vel tamin og  íslenskur gæðingur, léttur í taumi og skiptir auðveldlega í fimm gangtegundir.

Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 15.6.2015 kl. 04:06

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll fyrir innleggin, sérstakar þakkir til þín Gunnar með greinargott svar.  Það er einmitt sem mig grunaði að þetta er pattstaða sem illa er hægt að leysa úr.  Og enn og aftur staðfestist fingraför Samfylkingarinnar á þessu.  Ég tel að Þórunn sé ekki hæf til að sinna þessu máli og mér sýnist ég ekki vera ein um þá skoðun.  

Ég er líka sammála því að hjúkrunarfræðingar ættu að bíða með uppsagnir uns málið hefur gengið alla leið, fyrir kjaradóm ef ekki vill betur.  Reiðin er bara orðin svo megn og sýnileg að hér þarf virkilega að fara að með gát.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.6.2015 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 17
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 2021009

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband