Hvar liggur hrokinn Jón Gnarr?

Ekki veit ég hvað Jón Gnarr er að fara með þessari yfirlýsingu sinni.  En að mínu áliti er enginn undarleg þjóðerniskennd að læðast hér um landið.  Hvað þá að hún sé samsett úr vanþekkingu, hroka og útlendingahatri. 

Hér er hann að blanda saman ættjarðarást og þjóðernisfasisma.  Sem er tvennt ólíkt. 

Ég til dæmis elska land mitt og þjóð, mér finnst flest best hér, til dæmis hreint vatn, heilbrigt búfé, sjávarfang og eiturlítið grænmeti. Enda er þess getið að þrátt fyrir allt sé Ísland eitt af bestu löndum til að búa í. 

Útlendingahatur er líka seint hægt að væna mig um, því ég á bæði fjölskyldu út um allan heim, og hef auk þess tekið inn í fjölskylduna mína fólk frá öðrum heimshlutum. 

Raunar er þessi tilvísun röng líka: "Hann bendir á, að það sé staðreynd að jarðfræðilega séð þá sé Ísland yngsta land Evrópu. Það hafi einnig verið eitt af síðustu Evrópuríkjunum þar sem menn námu land. Það hafi gerst fyrir 1.000 árum síðan og hafi landnemarnir verið Norðmenn og írskir þrælar".

Því hér voru írskir munkar, papar fyrir þegar norðmenn komu, og jafnvel er verið að uppgötva mannaleifar fyrir þeirra tíma.

Kæstur fiskur getur svo sem verið asísk hefð, en íslendingar lærðu að geyma matvæli sín, löngu áður en ískápar urðu til, eitt af því var að kæsa, salta og reykja matvörur til geymslu.

Grein þessa manns er hrokinn út í gegn, gagnvart fólki sem þykir vænt um landið sitt og vill halda því frjálsu og óháðu, það er ekkert slæmt við það. EKKERT!

Aftur á móti verð ég að segja að sá sleikjugangur sem hann og það lið sem vill endilega skríða undir pilsfald ESB, þó ljóst sé að þar er allt að liðast í sundur, flokkast undir minnimáttarkennd, fordóma og vanþekkingu. 

Ég lýsi því algjöru frati á manninn og hans boðskap. 

Tíminn mun leiða í ljós að við sem viljum landinu okkar sem best, og öllum sem þar eru, höfum rétt fyrir okkur og Íslandi og Íslendingum af öllum litarhætti, menningu og trú sé best komið áfram sem sjálfstæð þjóð. 

c_documents_and_settings_erna_hjaltested_my_documents_blog_isl_faninn_713981 


mbl.is Jón Gnarr: Undarleg þjóðerniskennd læðist um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli sé ekki rétt hjá honum samt að þeim íslendingum sem sig telja hreina íslendinga með þvi að vera á móti margþjóðlegu samfélagi og ESB kerfi, megi alveg benda á að það munist lengi erlendis peningaskaði sá sem búsettir á því heilaga óspillta landi hafa ollið í öðrum löndum og einmitt með að stæra sig af hve einstakt og gott litla hagkerfið og hreint pokamélið sé.  Vona að eins mikill sérhagsmuna sinnuðum hópum fækki og flokkur sá er mest talar þeirra á þingi nú (B) þurkist út í næstu kosningum.  

nolli (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 13:23

2 identicon

Svo þessi gjaldmiðill okkar...ekkert annað en skeini pappír...það er alla veganna mitt mat.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 13:25

3 identicon

Þeir sem hugsa einsog Jón Gnarr geta varla verið einlægir í að hvetja íslenska landsliðið á föstudaginn

Grímur (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 13:33

4 identicon

Sé bara alls ekki hvað ESB-skoðanir hafa að gera með þessa athugasemd sem Jón skrifar um.  Fyrst þú þekkir svona marga af erlendu bergi sem hingað hafa flutst, þá vona ég að þú þekkir líka reynslu þeirra af þjóðfélaginu, og þá ekki bara hið auðvelda svar sem maður heyrir svo oft, já allt er svo fallegt og fínt á Íslandi. Það er nefnilega óhemju erfitt að útskýra fyrir sumum Íslendingum að eitthvað sé í rauninni að hér á landi - við tökum það nefnilega mjög persónulega. 

Gnarr og aðrir eru ekki að gefa í skyn að meðal Íslendinurinn sé með þjóðernisrembu gagnvart umheiminum og innflytjendum, en þjóðernisremburnar eru samt allt of margar hér á skeri og eyðileggja fyrir okkur hinum.  Það er staðreynd að þjóðernisrembur misnota söguna og fela sig á bak við sjálfstæðisbaráttuslagorð.  Það sem fjölmargir hafa löngum bent á er að þjóðernisremba er að einhverju leiti vandamál sprottið úr pólitískri stefnu og jafnvel menntastefnu okkar síðustu 100 árin. Við þurfum auðvitað öll að viðurkenna vandamálið og taka þátt í að leiðrétta það.

Spurning hvort einhverjir falli í þá grifju að segja, 'en þetta er miklu verra annarsstaðar' :) ?!

Jonsi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 13:44

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Er borgarstjórinn á háum hesti,í söðli,? Ekkert íslenskara ,en dramb er falli næst. Það er erfitt að henda reiður á honum,kveinkar sér allt að því kjökrandi yfir að vera ávarpaður sínu eigin fulla nafni,Jón Gunnar Kristinsson,nokkuð sem flestum er sama um. Jón kokgleypir ætlan Esb. að gera okkur að Evrópubúum og gömlu þjóðirnar að fylkjum.

Helga Kristjánsdóttir, 12.11.2013 kl. 14:09

6 identicon

Sósialista áróður og ekkert annað. Reynt er að draga upp tengingu milli þjóðernishyggju og rasisma, eins og hefur oft verið gert í gegnum tíðina. Heilbrigt fólk er löngu farið að sjá í gegnum svona kjaftæði. Höldum því sem við getum Íslensku, því minni völd sem þessi erlenda bankaelíta hefur innan landsins, því betra.

skrall (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 14:17

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fæstir hér eru á móti margþjóðlegu fjölmenni eins og þú kallar það Nolli. Sumir setja spurningamerki við múslima, aðrir gera það ekki. Það er alltaf hægt að finna einhverja sem ekki dansa í takt, en það er alveg óþarfi að hnjóða í allan skóginn þó eitt tré sé smitað. Við höfum lifa af hér og átt okkar blómaskeið og niðurlægð alla tíð, það er nefnilega ekki myntin sem er vandamálið, heldur stjórnuninn á krónunni. Þó ég hafi aldrei kosið Framsóknarflokkinn, þá myndi ég frekar kjósa hann en Samfylkingu, Bjarta framtíð og aðra ESB sinnaða flokka.

Helgi, skeynipappír? Nei ég held ekki, það þarf betri stjórnun á myntinni, en einmitt þetti mynt hefur bjargað miklu hjá okkur í kreppunni, sem betur fer vorum við með krónur en ekki evrur.

Grímur góð ályktun, þeim hlýtur að finnast það hallærislegt og heimóttarlegt að hvetja íslenskt lið til dáða.

Hann þarf ekki að nefna ESB á nafn Jónsi, það veit hver maður hvað klukkan slær í þessu máli. Við erum farin að þekkja málatilbúnað ESB sinna, sem reyna að gera allt tortryggilegt sem Íslenskt er, og reyna að hæðast að fólki sem eru föðurlandssinnar.

Ég þekki ágætlega reynslu margra bæði vina minna og fjölskyldu af landinu okkar. Og sú reynsla er afar góð, þau sjá nefnilega það sem þið sjáið ekki, hvað gott er að vera hér.

Jónsi það vill svo til að ég er í Frjálslynda flokknum, flokkurinn barðist fyrir jafnræði og því að skapa erlendu fólki jafnrétti hér á landi, en við vildum að fólk sýndi heilbrigðisvottorð og sakavottorð þegar þau kæmu til landsins, það var varkárni, því það eru margir sjúkdómar sem grassera í öðrum löndum sem við erum blessunarlega laus við eins og fjölónæmir berklar til dæmis.

Útreiðin sem flokkurinn fékk bæði af pólitíkusum og ýmsum öfgafréttamönnum var slík að ég hef aldrei upplifað annað eins. Og meðan Guðjón Arnar var á kafi í að aðstoða pólverja hér að ná rétti sínum gagnvart ráðningastofum, sem höfðu þá nánast sem fanga, vegna þess að ekki var hægt að vernda þá af hálfu ráðamanna, skrifaði Illugi Jökulson þá rætnustu grein sem skrifuð hefur verið um Guðjón sem argasta rasista,manninn sem á pólska konu og tók hennar börn að sér sem sín eigin.

Davíð Þór og Kolbrún blm á mogganum.

Það er nefnilega öllu tjaldað til að rakka fólk niður og rægja, til að verja hagsmuni fjórflokksins, þar er ekki um neina æru eða heiðarleika að etja.

Helga mín, já ég hef ekki mikið álit á þessum manni, fannst hann stundum skemmtilegur í sínum tiltækjum sem borgarstjóri, en svona skrif gera út um alla þá skemmtan frá mínum bæjardyrum séð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2013 kl. 14:27

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skrall sammála því að við þurfum að halda á lofti því sem íslenskt er, þó við fögnum því sem okkar íslendingar af erlendu bergi brotnir koma með inn í samfélagið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2013 kl. 14:36

9 identicon

Alveg rétt, Ásthildur. Jón Gnarr (eins og hitt landráðahyskið sem eru í systurflokknum Samfylkingunni og í VG) rugla andúð gegn því að láta sölsa landið inn undir ESB-ríkið saman við þjóðrembu. En þetta er ekkert einsdæmi fyrir íslenzka miðjumoðs-vinstrivillu-stjórnmálamenn. Í Danmörku kvartaði einu sinni ein þingkona miðjuflokksins De Radikale Venstre (oft kallaður landráðaflokkur) yfir því að Danir framleiddu og seldu vörur sem hétu "Dan"-eitthvað, eins og DanCake, og að þetta sýndi ofsalega þjóðrembu. Þessi ógæfukona, sem var blinduð af alþjóðastefnu datt að sjálfsögðu af þingi næst þegar kosið var, enda var hún ekki sett á framboðslistann aftur. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að Jón Gnarr muni bráðlega gagnrýna það, að heiti allt of margra fyrirtækja og vörumerkja á Íslandi byrji á "ÍS"-eitthvað, enda er þannig siður algjör þjóðernisfrekja.

.

Svo þegar hann segir: "Náttúra og list. Það er Ísland.", þá er það ekki alveg rétt. Gæði leiklistar í sjónvarpsþáttum var t.d. fyrir neðan allar hellur á árunum 2007 - 2009. Varla hægt að kalla það list. Nema það sé það sem Jón Gnarr meini. Að íslenzk náttúra og list sé einskis virði. Hmmm?

Pétur D. (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 14:43

10 identicon

hhttp://valdimarjohannesson.blog.is/blog/valdimarjohannesson/entry/1327390/

Vildi endilega koma þessu inn til að sýna hvers vegna útlendingahatur eykst.

Gnarrinn gerir sér enga grein fyrir vandamálinu sem islamistar á vesturlöndum valda.

Var sjálfur á Kastrupflugvelli í fyrradag og var meðhöndlaður eins og sómalískur terroristi eins og allir hinir farþegarnir.

Islamistar eru að kollvarpa lýðræðinu á vesturlöndum vegna eftirgjafar og aumingjaskapar stjórnmálamanna að taka á islamisku hótuninni, sem enginn þykist sjá. Þeir þröngva sér allstaðar inn í samfélagið með fölsku brosi og kröfum sem taka engann endi.

Þetta með hrokann og þjóðernisrembinginn er rétt hjá honum.

Íslenska vatnið er ekkert besta vatn í heimi, reyktur lax frá Íslandi er VONDUR. Íslenskar kartöflur eru verri en allar þær tegundir sem ég kaupi hér. Einn Íslendingur, sem er búsettur erlendis sagði: Leiðinlegasta fólk sem ég hitt hér erlendis eru Íslendingar. ALLT ER BEST Á ÍSLANDI! Bö.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 14:47

11 identicon

Ásthildur, jæja ég leiðréttist þá, allt rosa gott og fínt fyrir útlendinga á íslandi frá þínum bæjardyrum.  Ég leyfi mér þó að trúa og treysta mínum eigin augum og eyrum þar sem ég er sjálfur giftur erlendri konu - við getum þó dregið þá ályktun að annað okkar á rangt fyrir sér og annað okkar er þá með nokkurnskonar ímyndunarveiki :)

Mér finns samt með öllu ótrúverðugt að ekki sé hægt að bæta upplifun fólks af landinu og vinna á móti hroka, mismunun og vanþekkingu hvar sem það finnst. Ég geri ráð fyrir því að fólk sem er framsækið leiti reyndar að vandamálum til að leysa, ég er persónulega mög hlintur því að við lítum öll í okkar eigin barm og hugsum vel og vandlega um hvað liggur hérna að baki.  Mér hefur aldrey fundist Jón Gnarr vera nein vond sál sem er að reyna að niðurlægja þig og mig þó svo hann taki sterkt til orða.  Það er sárt að horfa upp á sína nánustu verða fyrir áreiti og mismunun og það er mjög hætt við að maður alhæfi um landið og jafnvel óski þess að hafa flutst hingað, þó svo að skyrið sé jú holt og gott.

Jonsi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 14:49

12 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ásthildur, ég hef nú ekki lesið greinina hans Jóns Gnarr en ég sé að málsgreinin sem þú vitnar í virðist vera í öllum aðalatriðum rétt. Einu heimildirnar um papana eru úr mjög svo vafasömu riti Ara Fróða, Íslendingabók, og í raun ekkert sem hægt er að byggja sögulegar kenningar á. Og jafnvel þótt eitthvert sannleikskorn sé í spunanum hjá Ara þá er ljóst að landnámsmenn voru, eins og Jón Gnarr bendir á, blanda Norðmanna og Íra - þó má auðvitað deila um það hvert hlutfall þræla/frjálsra var í hvoru þjóðarbroti fyrir sig.

Varðandi ættjarðarást eða þjóðernishroka, þá er mín reynsla eftir að hafa búið erlendis í mjög mörg ár, og séð Íslendinga í nýju ljósi hvert sinn sem heim er komið, að Íslendingar eru skemmtilega fullir af sjálfum sér - stoltir og fyrirferðamiklir og alveg afskaplega miklir ættjarðarvinir (undirritaður tekur þetta allt til sín) og oft getur verið fín línan milli hroka og stolts.

Útlendingahatur er eflaust til á Íslandi, hamagangur gegn múslímum er ein hlið þess máls - en mér vitanlega er ekki meira um slíkt á Íslandi en í nágrannalöndum, frekar að því sé öfugt farið.

Brynjólfur Þorvarðsson, 12.11.2013 kl. 14:51

13 identicon

*hlyntur, *Íslandi, *aldrei,  *hollt, *óski þess að hafa ekki flutst -- hætt við að maður verði fyrir áreiti fyrir þetta.

Jonsi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 14:57

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jónsi það þarf ekki að vera að annað okkar sé ruglað.  Það er alveg örugglega mismunandi upplifun sem fólk sem hingað kemur finnur.  En ég á í minni fjölskyldu fólk frá El Salvador, þau komu hingað fyrir 10 árum, og eru nú íslenskir ríkisborgarar, í smátíma fannst þeim að þau vildu flytja aftur heim, og gerðu það.  En þau entust þar bara nokkra mánuði og voru ansi glöð að koma "heim", ég þekki vel fólk frá Kenya sem flutti hingað.  Reyndar átti að vísa manninum úr landi, en sem betur fer vegna nafnasöfnunar fengu þessi yndælu hjón að fá að verða íslendingar, ég þekki þjóðverja hámenntuð bæði, sem elska landið og allt sem það hefur upp á að bjóða, þau hafa keypt sér sumarhús hér og dvelja hér helst allt sumarfríið sitt, sem er frekar óvenjulegt af þjóverjum að vera, því þeir taka gjarnan fríin í smáskömmtum.  Ég á fjölskyldu í Mexico, og mágkona mín sem þar ef vildi svo gjarnan flytja heim, ég á danska vini hér, sem hafa búið hér hálfa öld eða meira, þau eru bændur og una hag sínum afar vel.  Þekki líka nokkra pólverja sem vilja helst vera hér, meira að segja sumir þeirra á atvinnuleysisbótum, aðrir afskaplega duglegt fólk og fært um að bjarga sér, ég þekki líka ágætlega nokkrar konur frá Thailandi og Filipseyjum sem eru afskaplega ánægðar hér, Grænlending sem unir hag sínum vel hér og lifir á bótum.

Málið er að flestir íbúar okkar erlendis frá kunna betur með fé að fara, þau spara og reka heimilin skynsamlega, sem allt of mörgum íslendingum er fyrirmunað að gera.  Þau þurfa því minna umhendis til að lifa af.  Sum þeirra eins og fólkið mitt frá El Salvador þurfti að flýja mafíuna þar, sem hafði drepið foreldar konunnar, þeim fannst eitthvað meiri háttar við að geta stoppað bílinn sinn hvar sem er án þess að eiga von á að verða myrt. 

Sennilega höfum við það alltof gott, bruðlum of mikið þeir sem á annað borð hafa efni á því, og skeytum alltof lítið um sparnað í innkaupum. 

Brynjólfur, þú segir að það séu sögusagnir eða þvi sem næst um Papana, það hafa fundist leyfar af hýbýlum þeirra, og málið er að það hefur hingað til verið nánast dauðasök að hafa aðra hugmynd um landnám en þá kenningu að norðmenn hafi komið hér fyrstir manna.  Ég man ekki betur en nýlega hafi fundist mannleifar af fólki sem er eldra en 1000 ára.  Get ekki fullyrt það, því minnið er stundum ekki alltof gott.

Sammála þér með að umburðarlyndi er meira hér til fólks eins og múslíma en víða annarsstaðar, en raddirnar sem hrópa hæst eru þær sem mest er tekið eftir. 

Hér í mínu samfélag búa um 47 þjóðabrot og allir í sátt og samlyndi, get ekki merkt að neinum sé mismunaði eftir húðlit, kynferði eða trú.  Enda er hér löng hefð fyrir fólki af erlendu bergi brotið, þar sem við höfum gegnum tíðina haft hér farandverkamenn frá ýmsum löndum að vinna í fiski, rækju og ýmsum slíkum.  m.a. frá Ástralíu og Nýjasjálandi, Thailandi, Póllandi, Portugal og mörgum fleiri löndum. 

Skil ekki seinni færsluna þína Jónsi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2013 kl. 16:53

15 Smámynd: Már Elíson

Fín grein hjá Jónsa (sjá 11#) - en grein Jóns Gnarr var bara ansi góð greining á því hvernig við hér á Djöflaeyjunni misskiljum veru okkar hér á þessum guðsvolaða útnára, þrælpískaðir á alla lund, og tölum sem lúbarðir þrælar í N-Kóreu, og hömpum einhverju sem ekkert er. -

- Hér er einfaldlega varla / ekki búandi, en samt erum við "stórastir og bestir"...O svei !

Jón Gnarr er ótrúlega greindur, hefur ákkúrat hárrétta sýn á svokallað þjóð-eða mannlíf hér á Djöflaeyjunni, og hefur tækifæri til að segja það sem okkur öllum býr í brjósti, og gerir það. - Svona á að nota málfrelsið og meðvitundina.

Svo segja allir hinir..."Alveg eins og talað úr mínum munni..." en þora ekki að viðurkenna það af ótta við gagnrýni - á sannleikann.

Ég get staðfest það sem að ofan greinir hjá "jonsi" að íslenska vatnið ER EKKI best og norskur lax er mörgum metrum fyrir framan þann íslenska að öllu leyti, lambakjöt frá Norður-Spáni og Nýja Sjálandi er talsvert betra en það íslenska...svo tekin séu aðeins nokkur dæmi. - Við íslendingar erum bara VANIR okkar fæðu og höldum enn (af þjóðrækni ?) að allt sé best hjá okkur. - ÞAÐ ER HROKI.

Már Elíson, 12.11.2013 kl. 19:41

16 identicon

Núverandi borgarstjóri haði ekki hugmynd um þvottalaugarnar í Reykjavík að þær hefðu yfir höfuð verið til hvað þá hversvegna hvað þá heldur að nafn Laugardalsins væri dregið af þeim,þegar hann var búinn að sitja tvö ár í borgarstjórastóli.

Spurningnhvorh hann ætti ekki bara að sleppa því að tjá sig yfirleitt um sögu,litli sæti samfylkingarkálfurinn :)

Kannski engin furða að söguskoðanir hans séu einmitt á þennan veg...

Sólrún (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 21:58

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er aldeilis Már Elíson að þú veist betur en aðrir um smekk okka allra.  Ég ætla að vona að þú sért löngu komin burt frá þessum útnára og Djöflaeyju  Reyndar held ég að fólk með  skoðanir eins og þínar ættu að forða sér hið skjótasta og leyfa okkur þrælapískurunum sem vilja búa hér að vera hér í friði fyrir svona trakteringum. 

Ég hef víða farið og víða verið og dvalið, og ég get bara sagt fyrir mig að mér finnst gott að koma heim og fara í kjötborðið á matvöruversluninni þar sem ég versla, því slíkt er útvalið, sem ég hef ekki séð annarsstaðar, jú það er úrval, en mest megnis úrbeinað svínakjöt, naugakjöt, kjúklíngar og svo allskonar pylsur. 

En svona er smekkur manna misjafn.  Þú kannt ef til vill ekki að elda íslenskan mat.... eða þannig. 

Já Sólrún, var ekki sá á undan þér að segja að Jón Gnarr hefði svo rétta sýn á allt hér heima?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2013 kl. 22:52

18 identicon

Ætli að íslandssagan hafi ekki bara byrjað

akkúrat nákvæmlega þegar að J.G fæddist

Það mætti alveg segja mér það :)

Sólrún (IP-tala skráð) 13.11.2013 kl. 00:44

19 Smámynd: Landfari

Sólrún, hvað hefur þú fyrir þér í því að nafn Laugardalsins sé dregið af þvotalaugunum sem þar voru?

Landfari, 13.11.2013 kl. 01:22

20 Smámynd: Landfari

 

http://reykjavik.is/stadir/laugardalur

SAGA

  • Nafnið Laugardalur er ekki gamalt örnefni á þessu svæði þrátt fyrir að örnefnin Laugarnes og Laugamýri séu mun eldri. Eiríkur Hjartarson og Valgerður Halldórsdóttir reistu sér íbúðarhús árið 1929 á bletti skammt austan við Þvottalaugarnar og nefndu húsið Laugardal eftir Laugardal í Árnessýslu. Níu árum síðar stofnuðu þau Garðyrkjustöðina Laugardal sem var ein af fyrstu garðplöntustöðvum í Reykjavik og var seld til borgarinnar árið 1955.
  • Mýrlendi í Laugardal sem var að mestu ræst fram við gerð skrúðgarða og Grasagarðs.Til stóð að stór akvegur myndi liggja um dalinn og það land þar sem Grasagarðurinn og Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn eru nú til að tengja Sundahöfn og Skeifuna en af því varð ekki.

Landfari, 13.11.2013 kl. 01:25

21 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég segi bara eins og Jón Gnarr: "er ekki eintómt white trash að rífast hér".

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2013 kl. 05:52

22 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Landfari, alveg rétt hjá þér, Laugardalurinn dregur ekki nafn sitt af þvottalaugunum. Nafnið er komið til vegna þess að þvottalaugin Fönn var stofnuð í nágrenninu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2013 kl. 05:54

23 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Fínn pistill hjá Jóni. Ég held að það mundi gera mönnum gott að lesa hann í rólegheitum. Pistill blogghöfundar líkist hins vegar helst ofnæmisviðbrögðum, en slík viðbrögð gagnvart Gnarr eru áberandi meðal ákveðins hóps hér á þessum miðli og koma fram í hvert skipti sem hann tjáir sig.

Haraldur Rafn Ingvason, 13.11.2013 kl. 09:53

24 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Ásthildur, það hafa fundist mannvistarleifar í Vestmannaeyjum og í Reykjavík sem eru eldri en landnámslagið fræga (frá því c.a. 870). Leifarnar frá Vestmannaeyjum eru reyndar umdeildar en virðast vera fleiri áratugum eldri en hefðbundin tímasetning landnáms. Ekkert af þessu styður það að "Papar" hafi verið hérna. Mér þykir sennilegt að "Vestmenn", hugsanlega Írar eða Skotar, hafi haft veiðistöðvar í Vestmannaeyjum.

Frásögn Ara er verulega ábótavant og engar aðrar heimildir eða fornleifar hafa staðfest tilvist "Papa" hér á landi. Persónulega væri ég mjög spenntur fyrir því að tilvist "Papa" yrði staðfest og ég er lítið hrifinn af viðtekinni söguskoðun þegar kemur að landnámi og þjóðveldisöld. T.d. er sagan af kristnitökunni örugglega vitlaus, forsendur og atburðir landnáms einnig allt aðrar en barnaskólasagnfræðin telur manni trú um.

Varðandi þjóðernishroka og ættjarðarást: Allt er þetta auðvitað afstætt, en þjóðernishyggja er verulega útbreidd á okkar tímum þótt hún þurfi ekki að vera neikvæð í sjálfri sér. Ættjarðarást er ein birtingarmynd þjóðernishyggju. Neikvæðar hliðar slíkrar hyggju er að líta á utanaðkomandi sem ógn við "þjóðernið" eða "ættjörðina". Margir Íslendingar eru þeirrar skoðunar, nokkuð sem er sálfræðilega séð viðbúið að gerist.

Öll samsömun við stærri heild (þjóðerni, ættjörð, trúfélag) leiðir af sér tilhneigingu til að afmarka heildina og halda henni "hreinni". Útlendingar, trúleysingjar og alþjóðasinnar eru dæmi um hópa sem virka ógnandi á þá sem ganga of langt í hópasamsömun.

Íslensk menning er verulega bundin tungumáli, uppeldi og skólagöngu. Þegar einstaklingum sem ekki tala íslensku, eru aldir upp í erlendri menningu og hafa ekki gengið í skóla á Íslandi, fjölgar þá breytist menningin óhjákvæmilega. Margir sjá það sem ógn við sjálfsmynd sína, sem aftur er í hugum margra sterkt bundin ættjörð og þjóðerni, aðrir sjá það sem kærkomið tækifæri til að víkka og þróa menninguna.

Brynjólfur Þorvarðsson, 13.11.2013 kl. 10:26

25 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Nolli, það voru Bandaríkjamenn sem ollu fjárskaðanum í öllum heiminum, ekki Íslendingar sem voru þolendur eins og aðrir!

Eyjólfur G Svavarsson, 13.11.2013 kl. 11:57

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessar upplýsingar Brynjólfur.  Það sem kemur mér til að vera á móti ESB er hefur ekki með það að gera að halda landinu "hreinu" ég lít á allt fólk sem jafnt, og finnst eiginlega að við ættum að bjóða miklu fleira fólki að koma hér og setjast að, sérstaklega fólki sem á bágt í sínum heimalöndum, og það var sorglegt þegar lokað var á að asíubúar gætu komið hingað, meira að segja er erfitt fyrir asíubúa að fá ættingja sína í heimsókn. 

Það sem ég hef á móti ESB er í fyrsta lagi sjávarútvegsstefnan, þeir ætla sér að yfirtaka veiðilendur okkar, það hefur marg komið fram.  Og þegar við erum komin inn í ESB er ekkert aðveldara, en að kaupa útgerðirnar ef ekki vill betur til, því það má ekki setja neinar grensur á alþjóðavæðingu landa sem fara inn.  Einnig hugsa ég með hryllingi til þess að þeir sem ráða yfir öllum ákvörðunum sambandsins eru möppudýr og kontórístar og nokkrir kommiserar sem hafa aldrei komið í lítið samfélag eins og til dæmis Suðureyri.

Þeir hafa það að markmiði að því mér finnst að koma undir sig sem mestu af landgæðum og valdi.  Ég er á móti því, rétt eins og ég er á móti því að það eigi að stjórna öllu frá Reykjavík.  Bara ef við skoðum Ísland, þá værum við betur sett með að hinar dreyfðu byggðir hefðu meira að segja um sitt nærumhverfi.  Það er hugsað betur um litla manninn á götunni, og hver einstaklingur skiptir meira máli.  Með örfáa kommissera sem deila og drottna yfir risastóru svæði, getur aldrei orðið öðruvísi en þannig að einhverjir hagnist og venjulegir menn verða eins og maurar sem eingöngu verða að hlýða þeim tilskipunum sem þeir fá.  Það er bara ekki í eðli mannsins, ef hann er bara eins og tannhjól í vél, þá hverfur sjálfsbjargarviðleitnin.  Þetta er svona stórt til tekið andstaða mín við svona stórt apparat, þar sem ekki er nokkur einasta leið til að hafa yfirsýn yfir alla. 

Það hlýtur að verða kaos þar sem flestir verða undir, einungis þeir sem eru nógu harðsvíraði fljóta ofan á. 

En ég elska landið mitt og finnst svo margt gott hér, og ég er stolt af því að vera íslendingu.  En þegar ég segi íslendingur, svo það valdi ekki misskilningi, lít ég á alla sem hér búa sem íslendinga, allar sem hafa fæðst hér, flutt hingað og flúið hingað. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2013 kl. 12:06

27 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það hafa nú þegar heyrst raddir um að við eigum svo mikið af auðlindum og séum svo fá, að það þurfi að jafna þessu út til þjóða sem minna eiga.  Vinur minn sem býr í Berlín sagðist hafa séð skýrslur þar sem kommisserar eru búnir að mæla upp land í Evrópu, og telja hausa og það verður í framtíðinni að flytja fólk til, þangað sem það hefur meira pláss.  Hann sagði nú líka svona til gamans að þeir gerður sér ekki alveg grein fyrir hálendi Íslands, og teldu þess vegna að við hefðu meira rými en aðrir.  Hann bætti við að honum fyndist líklegast að það yrðu rómafólkið sems yrði sent hingað.  Það gæti nú verið orðum aukið, en þetta er komið af stað, þó ekki sé það á almanna vitorði.  Málið er að við vitum í rauninni ekkert hvað við erum að eiga við.  Því menn eru ekki að segja allan sannleikann meðan verið er að plotta um yfirráð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2013 kl. 12:11

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt  Eyjólfur, í öðru orðinu erum við bara skítaklessa á pappír, og í hinu getum við kollvarpað fjárlögum heimsins

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2013 kl. 12:17

29 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Rangt, rangt, rangt Brynjólfur, það er Krísuvík og Reykjavík, þar sem menn telja sig vera með eldri leifar en viðtekinn aldur á landnámslaginu. Geislakolsaldursgreiningarnar og fornleifar í Vestmannaeyjum benda ekki til að "Skotar" eða "Vestmenn" hafi verið þar.

Sjá: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1297804/

Ásthildur, þú ert aldeilis í samböndum við menn í innsta hring í Berlín. Ekki hélt ég þetta væri svona slæmt og samt rík ástæða til að vera á varðbergi gagnvart ESB.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2013 kl. 15:19

30 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þakka góðar leiðréttingar, Vilhjálmur, vissi reyndar ekki af Krýsuvík. Auðvitað er ekkert sem styður þetta hugarflug mitt um "Vestmenn" í fornleifum, varla hafa þeir verið að merkja sér hluti "Made in Eire", þessi hugdetta var nú meira til komin vegna nafnsins og svo hins að þeir sem fyrstir hafa komið í verstöðina Ísland hafa valið sér bestu hafnaraðstöðuna - Vestmannaeyjar - og þar sem þeirra er hvergi getið í heimildum, og vegna ævintýrisins um nafngiftina sem menn hafa greinilega ekki skilið, ja þá er hægt að beita ímyndunaraflinu og segja sem svo að hér hafi verið menn frá norðanverðum Bretlandseyjum með verstöð í Vestmannaeyjum áður en hinir "réttu" landnámsmenn mættu á svæðið.

Ásthildur, mér þykir einleikið að íbúum útnárans eigi eftir að fjölga verulega á þessari öld, og ekki verður það vegna aukinna barneigna "innfæddra". Íslendingar eiga eftir að verða í minnihluta á ísalandinu góða, ESB aðild breytir engu þar um. Sjálfur hef ég stundum sagt, í hálfkæringi, að við eigum bara að byrja á þessu strax, setja kvóta upp á 5000 manns á ári og bjóða öllum þeim sem koma vilja - skipta landinu svo upp í tungumálasvæði, Kínversku á Norð-Austurlandi, Pólsku á Vestfjörðum og Austfjörðum, Íslensku á Norðurland og einhvern hrærigraut (pidgínslensku) á Suðvesturhorninu.

Brynjólfur Þorvarðsson, 13.11.2013 kl. 16:38

31 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þakka ykkur drengir fyrir fróðleg innlegg.  Vilhjálmur já ég þvælist víða inn í allskonar umræður.  Sammála að við þurfum að vera á verði, því þetta er í umræðunni, þessi vinur minn sagðist hafa séð þetta skipulag, sem auðvitað er algjörlega tabú í umræðunni, því hér er verið að plotta um aðstæður sem eru innanríkismál þeirra landa sem um ræðir. 

Brynjólfur ég er sammála því að við eigum sjálf að hafa frumkvæði í því að bjóða hingað fólki sem vil teljum þjóðhagslega hagkvæmt að fá inn.  þ. e. fólk sem gefur og auðgar okka þjóðfélag, fólk allstaðar að úr heiminum.  Hér þarf til dæmis að fylla sveitir landsins af fólki sem getur aukið fjölbreytnin í landbúnaði, duglegt fólk sem er óhrætt við nýbreytni og getur innleitt aukna samkeppni og meira úrval af landbúnaðarvörum.  Við þurfum líka virkilega á því að halda að fá smá lærdóm í aðhaldi og sparnaði.  Það er svo margt sem hægt er að gera til að gera okkur sterkari en nú er.

Ég hugsa til dæmis með hryllingi til Grænlands ef þangað á að flytja yfir 5ooo kínverja til að vinna í námugreftri, inn í samfélag sem er nokkur tuga þúsund manns.  Það er bara svo auðvelt að eyðileggja smásamfélög þegar fjölþjóðahyggjan og fjölmenn samfélög vilja í útrás. Þá þurfum við algjörlega að stjórna því sjálf hvað við viljum, og við þurfum líka að vera stolt af okkar uppruna og stolt af þjóð okkar og menningu til að geta meðtekið aðra inn í okkar samfélag, því ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig geturðu elskað aðra?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2013 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.6.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 2021181

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband