Stundum er lífið erfitt.

Ég er að reyna að vera bjartsýn og vongóð.  En það gengur frekar illa.  Ég er búin að bjóða bæjarstjóranum, yfirmanni tæknideildar og eftirlitsmanni ríkisins til mín í kaffi, við erum búin að fara um skóginn minn og ræða hvernig best er að fara sem varlegast gegnum hann.  Ég er búin að fá mann til að gæta minna hagsmuna líka.  Það eru allmörg tré sem þarf að færa og þeir eru búnir að merkja þau, en enginn veit hvernig það tekst, þó þetta sé eiginlega besti tíminn til að flytja tré.  Samt sem áður eru heilu lundirnir sem verða malaðir niður undir rythma stórvirkra vinnutækja.  Þar sem sjálfur snjóflóðagarðurinn á að koma og þær skeringar sem verða.

Ég hlusta á þessi hryllilegu vinnutæki koma nær og nær og veit að trén mín eru í hættu.  Og mér finnst eins og ég hafi svikið þau í hendur hryðjuverkafólks, sem engu eirir.  "Tímabundin vinna verktaka" að verki þökk sé þér Jóhanna og Steingrímur og yfirvöld bæjarins, af því það þurfti að finna verkefni til að "bjarga bænum". Þvílík öfugmæli. 

Tré rétt eins og aðrar lifandi verur hafa sál og finna til.  Og nú bíður margra trjánna minna þau örlög að verða mulin undir þessum fjandans hryllilegu tólum og tækjum sem engu eira.

Ég er að reyna að vera glöð og áhyggjulaus, en ég er hætt að geta sofið á nóttunni, ég reyni að mantra. Dóttir mín tók Buddhatrú og ég lærði möntru frá þeim góða félagsskap, fer líka með orð sem ég hef sett saman sjálf, ljós, friður kærleikur....

Ef þetta fólk bara gerði sér grein fyrir hvað það er að gera mér.  Allt í nafni peninga... er þetta hægt?

Fólkið hér á Ísafirði og annarsstaðar hefur áhyggjur af mér og reynir að gera mér lífið bærilegra, ég er þakklát fyrir það, það er gjarnan sagt við mig; Ásthildur hvernig gengur, og máttu vera áfram í húsinu þínu.  Og ég segi sú barátta er ennþá ekki hafin, nú er bara að reyna að verja eins mikið af gróðrinum mínum og hægt er.

Ég vil ekki verða veik að reiði eða sorg út af þessu.  Það er bara svo fjandi erfitt að horfa upp á þetta allt saman gerast og ég get bara unnið smá varnarsigra.  Það virðist enginn ráða lengur við þessa tröllavæðingu. Enginn Ómar Ragnarsson að verja mín tré, því miður.

IMG_3794

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til dæmis er voða erfitt að flytja 6m. háar furur svo vel sé.

IMG_3798

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það sést ekki mikill gróður hér, en öll þessi tré verða skafinn burt og notuð í undirstöðu fyrir þennan fjandans snjóflóðavarnarvegg, það er bara ömurlegt.

Og ekki líður mér betur að vita að ég hef boðið mörgum verum að koma til mín, vegna sprenginga sem gerðar hafa verið til að nota grjótið í uppbyggingu, verur sem þarf að hlú að og eru hjálparlausar við slíkar aðstæður.

En sem sagt, maðurinn er algjörlega fastur í því að hann sé herra jarðarinnar og geti gert hvað sem hann vill. Það er bara ekki þannig. Það eru aðrir heimar og aðrar verur sem eiga sinn tilverurétt. Einhverntímann vonandi þroskast mannskepnan upp í það að virða það sem er við hliðina á þeim. Það verður dagurinn sem menn hætta að dansa kring um gullkálfinn og fara að hlú að nærumhverfi sínu.

En stundum bara getur maður ekki meir. Og mig langar helst til að flytja langt burt meðan þessar vélar rústa 30 ára starfi. En ég bara kemst ekki burtu, því ég þarf að hlú að öðrum plöntum og ganga frá undir veturinn.

Sumt er bara svo ótrúlega óþolandi. Ef til vill er ég of viðkvæm fyrir þennan harða heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Knús til þín . Vildi að ég gæti verið með þér, en er svo upptekin á næstunni . Ég veit samt að þó erfitt sé kemurðu niður á fótunum og lífið heldur áfram, með fleiri erfiðar minningar. En það birtir alltaf upp á millli .

Dísa (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 10:16

2 identicon

Mikið óskaplega finn ég til með þér og trjánum. Þetta er hræðileg gjörð.

Guðrún Ægisdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 10:47

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Elsku Ásthildur mín, þú átt alla mína samúð. Er ekki hægt að safna saman fólki, hindra þennan ógeðslega gjörnin. Hringja í Ómar, allt, allt, til að stöðva þennan ósóma.

Ég stend með þér í fjarlægðinni elsku vinkona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.9.2013 kl. 11:13

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk allar.  Ég get ekki unnið þennan slag, því þeir eru ákveðnir í að byggja þennan varnargarð, þetta er eiginlega úr höndunum á þeim hérna, nú er andlitslausi óvinurinn græðgi og peningar en ekki fíkniefnadjöfullinn sem tók son minn.  Það er allstaðar andlitslaust hugsunarleysi og áhugaleysi á velferð fólks, bara ef þeir í krafti valdsins geta gert það sem þeim sýnist. 

En það er annar slagur eftir og hann vegur þyngra, ég ætla að berjast til síðasta blóðdropa fyrir því að vera áfram í húsinu mínu.  Þá þarf ég sennilega á ykkur öllum að halda, meira að segja  Ómari Ragnarssyni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2013 kl. 11:19

5 identicon

Heil og sæl æfinlega; Ásthildur Cesil - og aðrir gestir, þínir !

Þér að segja; Ásthildur mín, kan ég betur að meta Eyðimerkur sanda Góbí merkurinnar, hjá frændum mínum Mongólum, heldur en trjá- og runnaræktun, sem leiðir af sér Helvítis pöddu óværur

ýmsar, en sannarlega finn ég til með ykkur Elíasi, og ykkar góðu fjölskyldu, í þessum hremmingum, fornvinkona góð.

Kannski Ísfirðingar; sveitungar ykkar, yrðu þeir menn til, að kollvarpa græðgis öflum Daníels litla Jakobssonar, og hirðar hans, Vorið 2014 - ekki seinna vænna, að Ísfirðingar reki af sér það slyðruorð, sem farið er spyrjast af þeim, sökum máttleysis þeirra, fyrir almennum vörnum Vestfjarða, gagnvart Reykvízka ofríkinu, og andstyggilegu skrifræði, þess.

Með baráttukveðjum; sem oftar, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.9.2013 kl. 21:03

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir stuðninginn Óskar minn, við hugsum oft álíka svona í grunninn, þó við notum önnur orð um það þú og ég.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2013 kl. 23:17

7 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Elsku Ásthildur og allir trjávinir þínir og aðrar verur á svæðinu. Sendi ykkur orku ljóss, styrks og kærleika. Vildi óska að ég gæti gert meir.

knús og kveðjur

Ragnhildur Jónsdóttir, 22.9.2013 kl. 11:22

8 identicon

Gangi þér allt í haginn elsku Ásthildur mín. Ég vona að sem minnst rask verði á lífinu í lundunum þínum. Ég hef lítið vit á þessu en væri hægt að fóstra þessi tré einhversstaðar á meðan á framkvæmdum stendur og lofa þeim svo að fá framtíðarstað í varnargarðinum þegar hann er tilbúinn? Kannski fráleit hugmynd. Í það minnsta máttu ekki láta þetta fara með sálina þína vinkona.

Anna María Sverrisdottir (IP-tala skráð) 22.9.2013 kl. 13:04

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ragnhildur mín  Bara að þú sendir jákvæðar hugsanir gagnast vel.

Takk Anna María mín, málið er að þessi tré standa þétt saman og því miður er ekki nógur skilningur hjá verktaka og verkkaupa á því að bjarga trjám.  Þar gilda peningar og allt sem þeirm fylgir. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2013 kl. 18:09

10 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Elsku Ásthildur.

Þessum snillingi sem datt í hug um árið að leggja þennan garð þvert yfir líf þitt og yndi,að virðist bara svona til að láta sér bara detta eitthvað í hug, yfir gróðurvin sem aldrei hefur haggast hvað þá eyðilagst í þessi 30 ár, eða jafnvel meir, síðan þú reistir kúluna og fórst að planta í umhverfið, þyrfti að taka í nokkra tíma í alvöru lífsins, þ.e. að vinna út frá tillitsemi við fólk og náttúru í staðinn fyrir að draga bara línur frá a - ö og pæla ekkert í hvað verður fyrir.

Ég man vel þá tíð að ég kom til Ísafjarðar og sá kúluna í fyrsta sinn, en gróðurinn vantaði. Nei nei það á bara að rústa þessu eins og ekkert sé.

Hefur nokkurntímann fallið snjóflóð þarna, eða verið talin sérstök hætta á því?

Ef þetta endar með að þeir ætli að hrófla við heimilinu þínu, skal ég verða fyrsta manneskjan á vettvang til að hindra það með ráðum og dáð. Mundu mig um það.

Ég er bæði öskureið og sorgbitin fyrir þína hönd, en það stoðar víst lítt svo ég sendi þér mínar bestu baráttuóskir og einlæga vinarkveðju.

Bergljót Gunnarsdóttir, 25.9.2013 kl. 22:01

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Bergljót mín, já þetta er sárgrætilegt.  Það segir í skýrslunni að aldrei hafi fallið stórt snjóflóð neðan Gleiðarhjalla, meiri hætta sé á aurskriðum og grjótskriðum.  Samt ætla þeir að "leyfa" mér að vera í húsinu, eftir að þeir eru búnir að taka það eignarnámi, frá 15 apríl til 15 desember, sem er sá tími sem með mest hætta er á skriðuföllum og aurskriðum.

Ég ætla að muna þig um þetta mín kæra, þegar alvaran hefst.  Veit ekki hvenær þeir láta til skarar skríða.  'Eg er að vona að þeir bara sjái í gegnum fingur við mig og hætti þessum látum í mér.  Ég vil bara fá að vera hér áfram.  Ég er búin að missa þessi tré, en verð að segja að þeir hafa tekið sig á og komið til móts við mig eins og þeim er unnt, þ.e. heimamenn með trén.  En þetta verður samt rosalegt tap.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.9.2013 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2022144

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband