Stefna Dögunar í húsnæðismálum.

dogun-litil

Mikilvægt er að huga að grundvallarskilgreiningu á réttindum almennings að því er varðar möguleika til að njóta heimilis með sinni fjölskyldu og þess skjóls sem slíkt veitir. „Réttur til húsnæðisöryggis“ kynni því að eiga heima í grundvallarlögum íslenska lýðveldisins. Þannig yrði virk meðvitund um slíkan rétt undirstaða að ákveðnari kröfum á stjórnvöld á hverjum tíma til að beita skilvirkum tækjum til að veita öllum almenningi aðstöðu til að njóta slíkra gæða – án þess að taka á sig áhættu og greiðslubyrðar til langtíma, umfram getu og vilja.

Hlutverk ríkisins

Hlutverk ríkisins og opinberra aðila er að beita íhlutandi frumkvæði og eftirliti til að auðvelda fjármögnun og lágmarka húsnæðiskostnað almennings með samhæfðum aðgerðum. Það hlutverk rækir löggjafinn í gegnum almenn og sértæk lög um húsnæðismál og neytendamiðuð lög um lánaskilmála og gagnkvæma ábyrgð aðila í viðskiptum.

Þörf er á virkum húsaleigumarkaði sem starfar til langs tíma á Íslandi líkt og á hinum Norðurlöndunum. Með því að beina stuðningi að, og auka framboð á, leigu-, kaupleigu- og búseturéttarhúsnæði og stýra fjármögnun í farveg hjá opinberum íbúðalánasjóði án hagnaðarsjónarmiða (e. low-profit) – verða til forsendur til að jafna sveiflur á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir verðbólumyndun og þá um leið hrun í framhaldinu. Lagabreytingar um Íbúðalánasjóð frá 2012 þar sem félög sem starfa í almannaþágu fá forgang um fjármögnun frá sjóðnum – en verktakar og fjárfestar eiga ekki aðgang að slíkri fjármögnun með ríkisábyrgð – eru örlítið skref í jákvæða átt.

Séreignarstefna

Séreignarstefnan hér á landi hefur undanfarna áratugi verið samkomulag ráðandi afla. Gengið hefur verið útfrá því að allir kaupi íbúð, líka sá hluti launafólks sem ræður ekki við íbúðakaup á því verðlagi og með þeim okurvaxtakjörum sem verðtryggingin leiðir af sér. Vitað er að fyrir hrun lenti nær þriðjungur íbúðakaupenda í erfiðleikum með húsnæðislán og enduðu í vítahring sem ekki var hægt að losna úr. Árið 2008 var 90% af íbúðarhúsnæði á Íslandi skráð sem séreign en það er með því mesta sem gerðist í heiminum. Gögn benda til þess að fjármagnskreppur komi yfirleitt hvað harðast niður í löndum þar sem mest er um séreign á íbúðarhúsnæði.

Húsnæðissamvinnufélög og fjármögnun íbúðarhúsnæðis á kostnaðarverði og án hagnaðarkröfu

Stóraukið framboð af leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum í húsnæðissamvinnufélögum gæti orðið langskilvirkasta leiðin til að veita „markaðsaðhald/samkeppni“ og draga með því úr sveiflum á húsnæðismarkaði og ósjálfbærri „hagnaðarkröfu“ fjárfesta og spákaupmanna á íbúðamarkaðinum.

Dögun vill stíga markmiðsbundin skref til að breyta húsnæðismarkaðinum yfir í að húsnæðisfélög almennings (e. not for profit) og að almennur leigumarkaður nái 25-30% hlutdeild innan 10-15 ára. Dögun vill eiga frumkvæði að því að kalla neytendur, hagsmunaaðila og stjórnmálaöfl til samstarfs í því skyni að teikna upp markviss skref næstu 3ja til 5 ára – og efla víðtæka samstöðu um að nálgast slíkt markmið.

Til bráðabirgða leggur Dögun áherslu á að strax verði gripið til úrræða og svokölluðum „fullnustueignum“ verði beint í rekstur til húsnæðissamvinnufélaga eða sjálfseignarfélaga (húsnæðisfélaga sveitarfélaganna). Þar sem unnt verður að skilyrða ráðstöfun eignanna við búseturétt, eða með gagnkvæmum kauprétti/kaupskyldu fyrri eigenda annars vegar og rekstrarfélags hins vegar, ef eftirspurn og áhugi er fyrir hendi.

Dögun leggst gegn hugmyndum um að fjármálafyrirtækin (lífeyrissjóðir, bankar og Íbúðalánasjóður) stofni fasteignafélög til að koma tímabundið inn á leigumarkaðinn sem arðsemisfjárfestar, þar sem slíkt vinnur gegn markmiðum um að styrkja og efla leigumarkaðinn til framtíðar og gæti beinlínis skapað nýja tegund af fasteignabólu með tilheyrandi verðsveiflum, hruni og hörmungum fyrir almenning.

  • Dögun vill að sett verði ný lög um húsnæðismál (húsnæðislöggjöfin endurnýjuð) með það markmið að styrkja réttarstöðu neytenda. Í slíkri löggjöf þarf að takmarka heimildir lánveitenda til að ganga að öðrum eignum lántakenda (lyklafrumvarp) en veðandlagi og banna verðtryggingu fasteignalána. Mikilvægt er að settur verði takmarkandi rammi um heimildir banka til vaxtabreytinga/breytinga á lánaskilmálum veðlána. Jafnframt þarf að banna uppgreiðslugjöld á húsnæðislán, leggja stimpilgjöld af og allar samkeppnishindranir gagnvart endurfjármögnun lána og flutningi milli banka.
  • Dögun vill að strax verði staðið við fyrirheit um að 90% lánsheimildir verði virkjaðar að nýju fyrir húsnæðissamvinnufélög/sjálfseignarfélög í samræmi við þær lagabreytingar sem samþykktar voru í júní 2012.
  • Dögun vill að möguleiki verði að lána fyrir búseturéttarhlut til fyrstu kaupenda eignalítils fólks – á sérstökum kjörum og með eðlilegum skilyrðum og undir eftirliti. Dögun vill að húsnæðissamvinnufélög fái heimildir til að reka leiguíbúðir jöfnum höndum og að Íbúðalánasjóði verði gert kleift að fjármagna slíkar íbúðir upp í 100% – með samstarfi við sveitarfélög (sjá húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar).
  • Dögun vill að öllum fjármögnunarstuðningi við leigumarkað/búseturéttarmarkaðinn verði stýrt til húsnæðissamvinnufélaga/sjálfseignarfélaga eða opinberra húsnæðisfélaga sem ekki eru hagnaðardrifin.
  • Dögun styður þá hugmynd að húsnæðisbætur komi í stað núverandi vaxtabóta og húsaleigubóta, en leggur áherslu á að til skemmri tíma verði ekki dregið úr stuðningi við þá sem bera mikinn húsnæðiskostnað – og því aðeins að hagkvæmari úrræði standi ungum fjölskyldum þá til boða. Dögun telur mikilvægt að um leið og markmið um lækkun fjármagnskostnaðar vegna íbúðakaupa næst verði almennar húsnæðisbætur úr ríkissjóði lagðar af. Þar með yrði niðurgreiðslum ríkissjóðs á okurvöxtum til fjármagnseigenda hætt.

Samþykkt samhljóða á landsfundi 16. mars 2013


mbl.is „Ekkert í boði sem ég ræð við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndi og kærleikur er allt sem þarf.

Það getur vel verið að þeir sem lesa það sem ég skrifa um elskulegan son minn haldi að ég sé í bullandi afneitun, eða hatursfull.
Það er bara einfaldlega ekki þannig.  Ég held að ég og sonur minn hofum gert ákveðið samkomulag, áður en hann fæddist, til að taka á ákveðnu vandamáli, sem reyndar var ekki mikið vandamál þá, en varð það síðar.  Það er að segja fíkniefnavandamál.

Þessi elskulegi sonur minn, held ég að hafi beinlínis fæðst til þess að vekja fólk til umhugsunar um vandamál sem voru um það bil að verða til um það leyti sem hann fæddist.

Ég man að stundum hvarflaði að mér að best væri að kyrkja afkvæmið mitt, af því að ég einhvernveginn skynjaði að það ætti eftir að vekja mér meiri sorg en ég gæti afborið.  En þar sem ég get ekki gert flugu mein, þá gerði ég ekkert slíkt enda elskaði ég þetta barn, eins og ég hef gert við öll börnin mín og barnabörn. 

Þetta er eitthvað sem við ákváðum í sameiningu, löngu áður en hann fæddist. 

Málið er að drengurinn minn fæddist inn í þetta líf til að skipta sköpum, þess vegna valdi hann manneskju sem hann vissi að myndi þora og berjast.

Fólk hefur undrast hvað ég hef getað opnað mig fyrir vandamálinu.  Og spurt hvernig hefurðu styrk til að tala svona.

Málið er að ég myndi aldrei hafa getað það, nema af því að þessum elskulega syni mínum tókst að ná sér upp úr þessu helvíti.  Honum tókst það þrátt fyrir hve djúpt hann var sokkinn og þegar öll sund virtust lokuð, tókst honum að vinna sig út úr myrkrinu.

Mér tókst að koma honum inn í Krýsuvík í langtíma meðferð, það kostaði mig í raun og veru sálaró mína, svo ég þurfti að fá róandi lyf, sem ég er ennþá á, og það var vegna þess að sumt af því fólki sem um þessi mál hafa að gera tók út á mér sinn persónulega frama, þegar þeir héldu að þeirra eiginn trúverðugleiki væri í hættu. 

En það var í fyrsta skipti sem sonur minn reis upp: mamma þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem ég upplifi að ég get verið edrú, horft á sólina koma upp, fundi ilminn af gróðri og bara  fundið tilfinningu fyrir öllu því góða sem er til.  'Eg var búin að gleyma þessu öllu í vímunni. 

Þegar hann kom svo út átti hann yndislegan tíma, stundaði AA fundi og fann þar ástina á ný.  Átti með henni yndislegan tíma ástar og friðsældar, fékk að fylgjast með hvernig yngri sonur hans óx í móðurkviði og fékk að vera viðstaddur fæðingu hans.  Hann elskað báða syni sína og ekki bara þá,heldur öll hin barnabörnin mín, tók þau með í fjöruferðir, veiðiferðir, fjallaferðir og öll þessi yndislegu barnabörn mín elskuðu hann.   

Hann vann sig út úr þessari eymd með sóma.  Og ég gleymi aldrei björtu augunum hans þegar hann tilkynnti mér; Mamma, í dag hef ég hreint sakarvottorð.  Þetta var honum svo mikils virði. 

Ekki bara það, hann náði að sættast við bæjarbúa, með sinni einlægni, og hann var alltaf boðin og búin til að hjálpa fólki, og það voru ófáir lófar sem hann laumaði steinfiski í, svona steinfiskum sem hann bjó til. 

En það var alltaf eins og sonur minn væri alltaf að flýta sér að lifa lífinu.  Það var alltaf eins og hann væri að keppa við tímann til að ná því sem hann vildi ná.

Brottför hans var skyndileg, og skyldi eftir hjá mér bæðí sorg, reiði og spurningu um af hverju?

Í dag veit ég að hans tími var einfaldlega komin, við ætlum okkur ákveðin tíma til að dvelja hér á þessari jörð, og þegar tíminn er kominn þá förum við.  Hans var vænst annarsstaðar, og ég hef fengið ótal kveður frá honum og hann hefur haft áhyggjur af mér þessi elska.  En ég veit að hann valdi einmitt þessa móður sem hefur þá trú og uppeldi að vita að lífið heldur áfram.  Og ég veit einnig að það sem ég er að gera með því að segja hans sögu í þeirri mestu niðurlægingu sem nokkur manneskja getur átt, er liður í að koma því á framfæri ,að þetta gengur ekki lengur. Og hann sá til þess að móðir hans fengið annan son til að annast, son hans barnabarnið minn.

Sonur minn, sem svo sannarlega var svo djúpt sokkinn að hann var algjörlega á botninum, vildi koma þeim skilaboðum á framfæri að það er allt hægt í þessum málum.  Það sem þarf er endalaus kærleikur og samstaða ættingja.  Við getum afneitað fíkninni, en við þurfum að elska fíkilinn, og við verðum að standa með honum gagnvart kerfinu og glæpamönnunum. 

Ég er alltaf að sjá það betur og betur, að þessi elskulegi sonur minn fórnaði sjálfum sér til að bjarga öðrum.  Honum tókst að hafa sig upp úr eymdinni, honum tókst að sættast við samfélagið á Ísafirði og þegar hann fór, þá voru margir sem sýndu honum sóma og heiðruðu hann bæði í jarðarförinni og erfidrykkjunni, til að mynda komu flestir lögreglumennirnir sem höfðu haft með hann að segja í jarðarförina honum til heiðurs. 

Eftir að hann dó kom svo í ljós að hann hafði svo sannarlega verið engill í mannsmynd við að hjálpa fólk sem minna mátti sín, og reyndar mörgum fleiri.  það voru ófáir lófar sem hann laumaði steinfiski í, fyrir utan alla þá sem hann sinnti af kærleika og umhyggju, kom mér á óvart, því aldrei talaði hann um það sjálfur, heldur vann sín kærleiksverk í kyrrþey.

Ég get stolt sagt að undir þetta munu taka flestir ísfirðingar. 

En einmitt þess vegna get ég talað um það sem þarf að tala um. Þá niðurlægingu sem fíklar eiga við að etja, og hvernig er komið fram við þá.

Þessu þarf að linna, og ég á þá ósk heitasta að lífshlaup sonar míns verði ekki til einskis, að sú raun sem við höfum gengið í gegnum geti orðið til þess að fólk aðeins hugsi sig um og  fari að sýna  þvi fólki umburðarlyndi sem hefur fallið af hinni breiðu braut.

Umburðarlyndi og kærleikur er allt sem þarf.  


Bloggfærslur 17. apríl 2013

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 2024180

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband