Hvenær er komið nóg?

Það er ógnvænlegt að lesa um ástand mála í okkar helstu heilbrigðisstofnun.  Og nú bætist ofan á þetta lögreglurannsókn á dauðsfalli, og annað til viðbótar talið tengjast skorti á umhirðu.

Þetta kemur ekki á óvart því miður, en spurningin er, hversu langt er þessi norræna velferðarstjórn tilbúin að ganga til að geta staðið undir vogunarsjóðum og bönkum, og afskriftum til auðmanna, meðan fólk deyr á spítölum landsins vegna þess að ekki hefur tekist að sinna þeim.  Það var líka hrollköld umfjöllunin um aðstöðu starfsfólks bráðamóttöku og hvernig deildum hefur markvisst verið lokað undanfarið vegna niðurskurðar.

Og mitt í öllu þessu eru yfirvöld í alvöru að ætla sér að byggja eitt stykki hátæknisjúkrahús, bákn sem mun soga til sín allt það fé sem fer í rekstur núverandi heilsustofnana um land allt og meira til.

Og ekki bara það.  Með því að reisa þennan stórkumbalda, sem mikið ósætti er um, mun að öllum líkindum þurfa að loka fjórðungssjúkrahúsum landsins, eða allavega skerða þeirra þjónustu svo að landsmenn utan Reykjavíkur munu vera háðir sjúkraflugi, veðri og vindum, þegar um líf og heilsu er að tefla.

Er fólki virkilega ekkert heilagt?  Það er orðin löngu þekktur brandari nafnið sem Jóhanna gaf stjórn sinni, hin norræna velferðarstjórn.  Afskaplega lítið hefur farið fyrir velferð þegnanna, en meiri velferð fjárfesta og vogunarsjóða.  Sem vel hefur verið passað upp á að skorti ekki neitt.

Það virðast alltaf vera til peningar þegar um gæluverkefni er að ræða. Má þar nefna Landeyjarhöfn þar sem peningum er mokað í daglega eins og sandi, í stað þess að geyma þessa höfn og notast við gömlu aðstöðun uns við getum gert þessu mannvirki betri skil, eða keypt ferju sem hentar. Það er hægt að ábyrgjast Vaðlaheiðargöng, sem allir vita að þeir sem tóku um það ákvörðun voru úr sama kjördæminu. Meðan samgöngur bæði fyrir austan og vestan eru óbærlegar að öllu leyti.

Það var hægt að byggja Hörpu sem kostar þvílíkar fjárhæðir að reka, þó það sé gott að eiga frábært tónlistarhús, þá verða þeir peningar ekki notaðir í heilsu og líf landsmanna.

Það eru afskrifaðar skuldir sparisjóða og banka, auðmenn fá afslátt til að geta byrjað aftur þar sem þeir enduðu síðast, núna má til dæmis lesa að Jóh Ásgeir rekur verslunina Iceland, sem er á pappírum í eigu föður hans. Aðrir standa í málaferlum vegna þess að þeir hafa ekki fengið sömu fyrirgreiðslu, sennilega ekki í klíkunni, eins og eigendur B.M. Vallár.

Nei segi ég, þessi ríkisstjórn er ekkert meiri velferðarstjórn og jöfnunar en þær sem á undan henni hafa setið.

Það er með ólíkindum að sjá að loforð ráðamanna fyrir kosningar verða að engu þegar þeir komast að völdum. Þá er afsakað og sagt að það þurfi að semja um hlutina.

En eru þá enginn prinsipp svo nauðsynleg að það megi EKKI SEMJA UM ÞAU?

Er líf og heilsa landsmanna ekki meira virði en fjármagn og völd einstakra?

Það blessað fólk sem nú er í fréttum vegna andláts, var komið vel á aldur, og höfðu vonandi átt gott líf.Blessuð sé minning þeirra.  En hver verður næstur? Það gæti verið barn eða ungt fólk í blóma lífsins. Það gæti verið þú lesandi góður. Sum er einfaldlega það verðmætt að það verður ekki kostað til með peningum, völdum eða áhrifum. Sumt er einfaldlega það heilagt hverjum manni að ekki verður gengið lengra í niðurskurði og fjársvelti.

Það fer að styttast í kosningar.  Við verðum að velja vel þegar við höfum það í hendi okkar.  Þá er gott að líta til þess hvernig ráðamenn hafa haldið á málum, hvað þeir hafa sagt og gert.  Líka þarf að hafa í huga það sem andstæðingarnir segja, og hvernig þeir hafa höndlað sín loforð.

Sem betur fer er það svo í dag að fólk á annað val þá, sem fara fram fyrir svokallaðan fjórflokk.  Það er nokkuð ljóst að þar er lítil endurnýjun þeirra sem leiða munu listana, þar eru sömu framapotararnir og flokkariddararnir og áður með sömu áherslurnar og áróðurin.

Það eru að koma fram nýjir flokkar með nýju fólki, þeir eru nokkrir, þeir hafa ekki ennþá fengið að leggja sín mál í dóm samfélagsins, fyrir því eru ýmsar ástæður.

Sum framboð eru einfaldlega ekki tilbúin með sinn málefnapakka, aðrir komast ekki að í fjölmiðlum til að kynna sig.  En þegar líður nær kosningum verður ljóst að það fólk sem leggur sitt í ný framboð munu koma sínum hugðarefnum á framfæri.  Ef blöðin og aðrir fjölmiðlar hafa ekki pláss eða tíma munu þau örugglega kynna sig sjálf á bloggi og spjalli.  Þar eigum við tækifæri til endurnýjunar og að gefa öðrum tækifæri til að snúa vörn í sókn.  Venjulegt fólk sem hefur sjálft tekið þátt í daglegum amstri þjóðfélagsins, en ekki setið ár eða jafnvel áratugi í skjóli fílabeinsturns sem verður sífellt hljóðþéttari og hærri með hverju árinu sem líður.  Og svo er komið að sumir þessara lukkuriddara telja að þeir VERÐI AÐ HALDA ÁFRAM, ÞVÍ ÞEIR SÉU ÓMISSANDI.

Það er einfaldlega hingað og ekki lengra sem við komumst með gömlu flokkana og gamla hugsunarháttinn.  Þegar fólk ef farið að deyja af völdum vanrækslu á æðstu stofnunum heilbrigðiskerfisins, er kominn tími til að segja hingað og ekki lengra, og þá má segja að blessað fólkið hafi ekki dáið til enskis. 


mbl.is Álagið á LSH allt of mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2012

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 72
  • Frá upphafi: 2024182

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband