Færsluflokkur: Bloggar

Hversu lágt getur þetta lið lagst?

Mikið var ég hissa að heyra að Þorgerður Katrín telur það eina von Íslands að ganga í ESB.  Þar er hún sammála Ingibjörgu Sólrúnu.  Mér þykir það vont mál þegar ráðamenn þjóðarinnar sjá ekkert annað fyrir til bjargar en að koma sér undir yfirráð annara. 

'Eg skammast mín fyrir þessar tvær konur að tala svona ábyrgðarlaust.  Bara leggjast eins og mellur og láta stóra sterka aðilann taka sig með húð og hári.  Ef þið teljið þetta einu vonina, þá er greinilegt að þið ætlið ekkert að gera af viti til að koma okkur út úr þessum erfiðleikum, og þá er ekkert annað fyrir ykkur að gera en að segja af ykkur, koma ykkur burt og láta aðra um að hreinsa til.  Þeir sem gefast upp fyrirfram eiga ENGA VON UM SIGUR.   Ég vil ekki láta draga mig niður á þetta plan.  Ég vil að við að minnsta kosti reynum að bjarga okkur með það sem við eigum og höfum hér til þess.  Við eigum alla möguleika, ef við fáum fólk við stjórnvölin sem vill vinna með þjóðinni.  Þið hafi ekki traust fólksins til að leiða okkur áfram.  Þið ættuð að skilja það og virða óskir fólksins um að það vill breytingar. 

Ég hefði satt að segja átt von á því að þið þessar tvær sterku konur hefðuð meiri dug og djörfung í ykkur fyrir íslensku þjóðína.  En nei þið hafið báðar gefið upp hug ykkar með það.  Beint í stóra hlýja hjónarúm keisarans, verst að hann er nakinn og þar að auki einvörðungu að hugsa um heimamundinn og sinn eigin hag.  Eða dettur einhverjum í hug í alvörunni að Evrópusambandið hafi svona mikinn áhuga á að bjarga okkur?  Flýtimeðferð.... hægt að koma þessu við á undan öðrum umsækjendum.... Nei.  Ætli það séu nú ekki auðlindirnar okkar sem þeir vilja gjarnan festa klærnar í.  Málið er nefnilega, að þó við hér fávitarnir gerum okkur ekki grein fyrir því ennþá, þá eru þær auðalindir sem við eigum; gjöful fiskimið, að vísu í (herkví sægreifa) heitavatnið á leið í klær auðkífinga, ósnortin náttúra, á leið í klær álrisa.  Væntanleg olía, svo ekki sé talað um orkuna í fólkinu sjálfu, betra en gull og gersemar.  Auðlindir okkar, eru nefnilega einstakar.  Hreint vatn, ómengaður matur og alsnægtir gjöfuls lands.

Því miður þá sjáum við þetta ekki, eða þeir sem eiga að gæta hagsmuna okkar.  Það sem þeir einblína á er að mylja sem mest undir erlenda aðila.  Einhverskonar undirlægjuháttur og fall fyrir smjaðri, komast í klíkurnar, vera með fína fólkinu í útlöndum. 

Hver man ekki eftir gríninu um mussuliðið, hvort fólk ætlaði að lifa af að týna fjallagrös, ganga í lopapeysum og rækta rollur.  Málið er bara að öll þessi atriði eru þýðingarmikil fyrir íslensku þjóðina, og með réttri notkun allt saman eitthvað sem mun hjálpa til við að endurreisa hana.

Ef við viljum vera sjálfstæð þjóð, þá þurfum við að standa saman, standa vörð um það sem við höfum, sem þjóð.  En áður en við getum hafið uppbyggingu og tryggt réttlæti og betra líf handa öllum, þurfum við virkilega að taka til, kjósa burtu spillinguna, hreinsa til í kerfinu, forgangsraða öðru vísi.  Til dæmis get ég ekki tekið undir að það sé ekki til fjármagn til að búa sæmilega að öldruðum, meðan við rekum rándýr sendiráð í nokkrum löndum og erum með fleiri manns á launaskrá, sem eru titlaðir sendiherrar og erindrekar allskonar, en eru samt ekki að gera neitt.  Burtu með bruðlið í utanríkisráðuneytinu, helst að leggja það alveg niður, og sameina það einhverju öðru ráðuneyti, viðskiptaráðuneytinu til dæmis.  Það ráðuneyti virðist ekki þurfa mikið umhendis, allavega hefur núverandi viðskiptaráðherra verið upp á punt. 

En ég ætla ekki nánar út í útlistun á sparnaði.  Þar er nóg af að taka, áður en farið er að skera niður hjá þeim sem minna mega sín.   Málið er bara að það fólk sem nú höndlar með fjármál okkar og líf, hefur ekki skilning á sparnaði og ráðdeild.  Það er orðið spillt af valdinu og vill ekki fara frá.  Við þurfum að finna leið til að losna við slímsetu þess, svo hægt sé að byrja upp á nýtt, með fólki sem kann, veit og hefur hjarta og móralin ennþá til staðar, umhyggjuna fyrir lítilmagnanum og réttlætið í farteskinu. 
Það er nú eða aldrei!


Ein lítil jólasaga.

Þar sem eitthvað lítið er um að ég geti sett inn myndir, fyrr en ég hef komið tölvunni minni í lag, langar mig til að segja ykkur sögu.  Hún var samin á þessum tíma fyrir nokkrum árum, mér þykir vænt um hana, og finnst hún aldrei eiga betur við en núna.  Gjörið svo vel elskuleg mín, og með henni sendi ég ykkur öllum kærleikaknús og kveðjur.  Heart

 

Ljós í myrkri.

 

Hún sat í lítilli herbergiskytru, sem átti að kallast eldhús, smágerð stúlka.  Hún sagði ekki margt en hugsaði því meira, og nú var hún að hugsa um jólin.  Skammdegið þrengdi sér allstaðar inn, og ljósin í íbúðinni voru ekki nógu björt til að halda myrkrinu úti. Jólin ! það voru margir sem hlökkuðu til jólanna, en hvað hafði hún að hlakka til, hún vissi vel að það yrði ekki mikið um dýrðir á þessu heimili. 

Mamma og pabbi unnu myrkranna á milli, en það var alveg sama hve mikið þau unnu, það stóð ekkert út af til að geta gert neitt nema rétt að skrimta.  Það sem kom upp úr launaumslaginu rétt dugði fyrir húsaleigu rafmagni og mat.  Fötin sem þau gengu í voru öll keypt fyrir lítið hjá Rauðakrossinum.  Mamma átti gamla saumavél, og stundum þegar hún var ekki of þreytt reyndi hún að breyta þeim þannig að það væri ekki eins auðsætt hvaðan þau kæmu.  Þetta voru auðvitað góð föt, en bara að maður vissi sjálfur hvaðan þau komu var nóg til að maður var ekki eins ánægður með að fá nýtt. 

Litla stúlkan sat við gluggan og horfði út í myrkrið og  snjókomuna fyrir utan litla gluggann.  Það var napur næðingur og jafnvel Kári kuldaboli þrengdi sér inn um gluggann til hennar og hún vafði snjáðri peysu þéttar að granna litla kroppnum.  Hún var oft ein, vegna þess hve pabbi og mamma unnu mikið.  Hún vildi ekki bjóða neinum heim, því hún gat ekki hugsað sér að skólafélagarnir sæju hve heimili þeirra var fátæklegt.  Og það þýddi auðvitað að henni var ekki boðið heim til annara. 

Jólin, það var eitthvað svo dapurlegt að hugsa til þeirra, allt umturnaðist einhvernveginn, allar skreytingarnar og auglýsingarnar, kaupið þetta, kaupið hitt, og jólagjafa auglýsingarnar,   maður varð svo dapur, vegna þess að það voru engir peningar til að gera sér dagamun.  Að vísu vissi hún að þær mamma myndu fara á skrifstofu mæðrastyrksnefndar á aðfangadag eftir fjögur, þegar mamma kom heim úr vinnunni og standa þar í langri biðröð til að fá jólamatinn.  Veislumat sem þau fengu aðeins einu sinni á ári. 

Æ þetta er allt svo tilgangslaust hugsaði barnið, hún var níu ára og það var eins og allar heimsins áhyggjur hvíldu á henni.  Hún hugsaði um skólafélagana, sérstaklega eina stúlku, foreldrar hennar voru mjög rík, þau áttu einbýlishús og þrjá bíla, Jórunn fékk allt sem hún óskaði sér.  Hún gekk alltaf í fötum sem voru í nýjustu tísku.  Hún kom meira að segja stundum í leigubíl í skólann.

 

Ó hvað hún öfundaði Jórunni.  Hve gott átti hún að vera svona rík og vinsæl. Allar stúlkurnar í bekknum vildu vera vinkonur hennar, og eltu hana hvert sem hún fór.  Þær ekki svo mikið sem litu í áttina til hennar hvað þá meira.  Hún var eins og lítil mús sem reyndi að láta sem minnst fyrir sér fara, þó þráði hún að vera með, vera ein af þessum glæsilegu glöðu stelpum.   Bara ef við værum rík og allir vildu þekkja okkur hugsaði hún dapurlega.  Ég vildi óska að  við myndum vinna í lottói eða eitthvað kraftaverk gerðist.

 

Allt í einu var drepið á dyr, stúlkan hrökk upp úr hugsunum sínum.  Hver gat verið að banka á dyrnar hjá þeim, meira að segja sölumenn sneyddu hjá þessari fátæklegu hurð.  Hún fór hikandi til dyra og opnaði.  Úti stóð Jórunn, hún var ekki svo snyrtileg núna, hárið allt í óreiðu og augun rauð og þrútinn. 

Má ég koma inn spurði hún hikandi. 

Já .. já auðvitað gjörðu svo vel, sagði stúlkan, hún var svo hissa að hún vissi ekki hvernig á sig stóð veðrið.  Datt ekkert annað í hug til að segja. 

Jórunn smokraði sér inn um dyrnar, fyrirgefðu að ég skuli koma svona en ég vissi ekki hvert ég ætti að fara, svo datt mér í hug að ég gæti komið til þín. 

Hingað? spurði litla stúlkan undrandi; til mín?

Já sagði Jórunn, mér líður svo illa, ég var ein heima og það var einhver maður alltaf að hringja í númerið okkar hann var svo dónalegur að ég þorði ekki að vera heima. Jórunn gekk inn í íbúðina og litaðist um, litla stúlkan skammaðist sín fyrir hve allt var fátæklegt, en Jórunn virtist ekki taka neitt eftir því.

 

Hvar eru pabbi þinn og mamma? spurði stúlkan til að segja eitthvað.   

 

Æ þau eru einhversstaðar úti að skemmta sér.  Ég veit ekki hvar þau eru, og það er slökkt á gemsunum þeirra.  Þau verða líka alltaf svo pirruð ef ég ónáða þau. 

 

Pirruð, hugsaði litla stúlkan, og hún hugsaði með sér að aldrei voru pabbi hennar og mamma pirruð eða reið við hana, hversu þreytt sem þau voru og ergileg, þá fann hún aldrei annað en kærleik og hlýju frá þeim. 

 

Já sagði Jórunn, ætli þau séu ekki einhversstaða í jólaglöggi, það er svo mikið um svoleiðis veislur fyrir jólin, og þau þurfa að mæta allstaðar til að fylgjast með. 

 

Fylgjast með? 

 

Já þú veist til að detta ekki út úr félagsskapnum, þau þurfa alltaf að passa sig á að umgangast rétta fólkið og móðga ekki neinn, pabbi segir stundum að það sé full vinna að hafa alla góða í kring um sig. 

 

Þetta var undarlegt, þvílíkt fánýti hugsaði telpan.  Hún þorði samt ekki að segja það upphátt.  En af hverju komstu til mín, spurði hún, og hugsaði um allar fallegu vinkonurnar sem alltaf voru eins og suðandi bíflugur í kring um Jórunni í skólanum. 

 

Æ þær! Þú skilur þetta ekki , en það er ekki hægt að leita til þeirra, því ef þær halda að eitthvað sé að, þá mega þær ekki umgangast mig lengur. 

 

Hvað segirðu ? Lifið þið þá í einskonar glansmynd spurði litla stúlkan undrandi. 

 

Já veistu ég hef oft hugsað um það, sagði Jórunn.  Það má aldrei tala um það við neinn ef manni líður illa, og mamma og pabbi hafa alltaf svo lítinn tíma, þegar þau eru heima. En veistu að þegar ég fór að hugsa um hvert ég gæti leitað, þá fór ég að hugsa um þig.  Þú ert alltaf svo alvörugefinn og róleg.  Það er eitthvað svo raunverulegt við þig.  ‘Eg hef öfundað þig lengi fyrir að geta bara verið þú sjálf. 

 

Þetta hafði stúlkunni aldrei dottið í hug, að nokkur gæti öfundað hana.  En kannski var glansveröldin ekki svo eftirsóknarverð þegar allt kom til alls, kannski var betra að geta verið maður sjálfur og hafa það sem maður á, heldur en að reyna að teygja sig sífellt eftir tunglinu.  Það var einhvernveginn eins og ljósin yrðu bjartari, og hún heyrði ekki lengur gnauðið í vindinum.  Hún brosti, ég ætlaði einmitt að fara að fá mér heitt kakó og brauð, viltu ekki fá líka, sagði hún. 

 

Jú takk ég finn að ég er orðin svöng, sagði Jórunn og brosti á móti. 

 

Þær þrengdu sér inn í litla eldhúsið og brátt sátu þær þar og gerðu kakói og brauðsneið góð skil.  Stúlkan litla vissi einhvernveginn að héðan í frá myndi henni líða betur, hún hugsaði með ástúð til foreldra sinna og litla heimilisins, hér var öryggi og hlýja,  þótt heimsins gæði vantaði, þá var eitthvað til sem aldrei yrði frá henni tekið og hún vissi líka að hún hafði eignast vinkonu og  hún vissi að þær myndu styðja hvor aðra í lífsins ólgu sjó.  Þær brostu báðar, þessar tvær níu ára stúlkur, svo ólíkar en höfðu svo margt að gefa hvor annarri. 

 

Án þess að þær tækju eftir því leið bjartur ljósgeisli upp frá fátæklega eldhúsinu og alla leið til himins,

 

Guð! sagði björt og falleg ljósvera,  ég hef gert góðverkið mitt fyrir þessi jólin.

angel

Rafmagn og tölvuvandræði.

Það var rafmagnslaust meiripartinn í gærkveldi svo það var kertaljós og eldhúsborðsumræður hjá okkur.  En það sem verra var, er að tölvan mín virðist hafa hlotið tjón af.  Það kviknar ekki á henni, ég var með heilmikið í henni, sem ég var að vinna með, meðal annars jólagjafir, og svo jólakortin, þetta næ ég ekki í því miður.  En síðan er allt myndefnið, ég vona samt að ég nái henni í lag, en meðan svona er, þá verður lítið um myndir, nema ég bjargi mér einhvernveginn öðruvísi.

Það var samt dásamlegt í morgun þegar ég kom út, mánabjört fjöllin, hvít og hrein, og það var yndislegt að aka niður Súgandafjörðin, baðaðan tungsljósi það glampaði á sjóinn og fjöllin gnæfðu yfir, og efst trónaði svo fullur máni.  Það var undursamleg sjón, jólalög á diski, værðarleg börnin í aftursætinu, Hanna Sól að vísu öll í spurningum; amma hvernig væri ég ef ég væri Kúlasta stelpan í heim?

Þú væri bara eins og þú ert elskan, frábær.

Nei amma þú skilur ekki, hvernig væri ég ef ég væri Kúlasta stelpan í heimi, óþolinmóð yfir skilningsleysi ömmu.

Ég held að þú værir alveg rosalega flott, sagði amma til bjarga sér fyrir horn, þetta samtal átti sér stað í göngunum.

Já og með galdrastaf fullyrti sú stutta, ákveðinni röddu.

Já auðvitað galdrastaf.  Sagði amma. 

En sem sagt við sjáum til hvort ég bjarga mér eða ekki.  þá verður bara að hafa það, ef ég get ekki sett inn myndir, eða yfirleitt verið í sambandi. 

En ég sendi ykkur bestu kveðjur inn í daginn. 


Föndrað í leikskólanum.

Ég náði mér í flensuskít, og hef verið eins og drusla. 

En í fyrradag var föndurdagur á leikskólanum okkar, og ég var með, reyndar var rosalega gaman, kakó og smákökur á boðstólum, sem krakkarnir höfðu bakað sjálf.  Það er allt svo heimilislegt og vinalegt á Tjarnarborg.  En ég tók nokkrar myndir.

IMG_3998

Sumir eru einhvernveginn svo litlirHeart Svei mér þá hún var hálffeiminn við allt fólkið.

IMG_3999

Svo var að velja ser skreytingarefni.

IMG_4000

Já sumir eru alltaf hrifnir af rauðu og bleiku....

IMG_4001

Pabbarnir voru ekkert síður áhugasamir í föndrinu en mömmurnar og börnin sjálf.

IMG_4002

Skemmtileg og notaleg samverustund, og börnin voru algjörlega afslöppuð og höfðu gaman af.

IMG_4003

Já það er virkilega gaman að gera eitthvað allir saman.

IMG_4004

Ásthildur var mjög áhugasöm, þegar hún komst í gang, hún gerir aldrei neitt í hálfkáki.  Hún gefur sig alla að því sem hún er að gera.

IMG_4006

Hún fer líka sínar eigin leiðir.

IMG_4007

Og mest þurfti hún að skreyta sínar eigin hendur hehehe.. með aðstoð ömmu.

IMG_4008

Já þetta var gaman.

IMG_4009

Engin kreppa hér, bara gleði.

IMG_4010

Her er svo aftur á móti hugmynd að jólagjöf sem kostar ekki mikið, svona steina niðursag, ég get sagt ykkur að mínir krakkar þessi litlu, þeim finnst þetta spennandi og skemmtilegt, að raða þessum náttúrulegu kubbumm upp. 

En eigið góðan dag elskurnar.


Amma eru Heilu jól?

Spurði Hanna Sól, á leiðinni frá Suðureyri í gær, ég var annars hugar og sagði já já, hélt að hún ætti við heilög jól, svona eins og gengur.  En eru þá til hálf jól? spurði barnið LoL

IMG_3974

Magnaður Súgandafjörður.

IMG_3975

Myndirnar teknar um hálf fjögur í gær.

IMG_3976

Hanna Sól með viðurkenningu frá slökkviliðinu, þeir komu í leikskólann og ræddu um brunavarnir.

IMG_3977

Skottið að fá sér "nammi" LoL

IMG_3981

Jólasteikurnar að bíða eftir nammi.  Þessar sluppu reyndar við að verða jólasteikur.

IMG_3982

Og Súgfirðingar búnir að kveikja á jólatrénu.

IMG_3986

Þessi grallari harðneitaði að fara að sofa í gærkveldi,  hún sofnaði mjööööög seint.

IMG_3988

endaði með því að stubburinn minn stóri fór að sofa á undan henni.   Ég held að ég verði að biðja fóstrurnar að hætta að láta hana sofa í vagninum á daginn.  Greinilega. Blush

IMG_3990

Það er ekki einu sinni hægt að vera reið við þetta kríli.  Því hún er svo ánægð.

IMG_3995

Hún er algjör grallari. Heart

eigið góðan dag.


Myndbrot í dag og í gær.

Jæja þá eru nokkrar myndir á dagskrá.

IMG_3937

Þessar voru teknar í gær.

IMG_3942

Áður en hægt er að setja jólaljósin upp, þarf að snyrta tréð.  Júlíana mín, ef þú lest þetta, þá sérðu skreytingarefnið liggjandi þarna, bara taka það sem þú vilt. 

IMG_3943

Litla skotta fylgist með úr eldhúsglugganum, en það var hávaði í klippunum og bæði hún og kötturinn voru ekki alveg með á nótunum í þessum hávaða.

IMG_3949

En birtan er bara einstök á þessum árstíma.

IMG_3950

Þessar myndir eru teknar með stuttu millibili, enda dagurinn ekki langur hér hjá okkur núna.

IMG_3951

Ótrúlegt ekki satt?

IMG_3952

En það þarf líka að sinna músikinni, gott hjá afa að hafa hjálparkokk.

IMG_3957

ég veit að þið hafið heyrt spilað fjórhent á píanó, en hafiði verið á konsert, þar sem spilað var fjórhent á klarinett ? LoL

 

Þessar voru svo teknar í morgun.

 

IMG_3958

Já stubbarnir eru góðir á morgnana, og hún syngur með Tinky Vinky, Dipsý, Lala, Pó, og svo er talið á þýsku, og hún segir orðin eftir þeim á þýsku, og skilur greinilega, svo eitthvað man hún frá Vínardvölinni.

IMG_3959

MMM það er erfitt að vakna á mánudagsmorgni.

IMG_3960

Jafnvel þó litla systir sé með allt á fullu, í sama rúmi LoL

IMG_3961

Þessar voru svo teknar í morgun, stemningsmyndir fyrir jólin.

IMG_3963

Sem betur fer hafa margir sett upp jólaskreytingarnar.

IMG_3964

Það lífgar upp á skammdegið.

IMG_3965

Minn bær minn bær.

IMG_3966

Og betri mynd af Engi.

IMG_3967

Og kúlan.

IMG_3968

Þessar myndir eru allar teknar á sama klukkutímanum.

IMG_3969

Segið svo að náttúran skreyti ekki líka fyrir jólin.

IMG_3971

Heart

IMG_3972

Vona að vinir mínir erlendis, fái smá jólafiðring við svona ískaldar, fallegar veðurmyndir héðan af hjara veraldar.  Eigið góðan dag elskurnar mínar. Wizard


Myndir úr kúlunni.

Þá eru það nokkrar myndir.  Við erum tvær heima Ásthildur og Ásthildur, Hanna Sól er í jólabaksti með Tinnu frænku sinni, afi á lúðrarsveitaræfingu og Úlfur í afmæli hjá Daníel Erni, en hann er 9 ára í dag, ömmu strákurinn. 

IMG_3947

Afmælisbarnið kíkti við hjá ömmu í dag, og ég bakaði vöfflur í tilefni dagsins.  Innilega til hamingju með afmælið elsku Daníel minnHeart

IMG_3912

Svona var veðrið í gær, fallegt eins og venjulega.

IMG_3913

Doddi búin að setja upp jólaskreytingarnar á Engi, þessi er fyrir Magný og Rannveigu.

IMG_3914

Svo þarf að ditta að jólaseríunum á þessum tíma og Hanna Sól er dugleg við það  að hjálpa afa.

IMG_3916

En sú litla hehehe.. afi klæddi hana í sokkabuxur og henni er svo sem alveg sama hvernig þær snúa.

IMG_3918

Það þarf líka að hengja upp seríurnar, þegar búið er að laga þær og þá er nú gott að hafa lítinn aðstoðarmann.

IMG_3919

Jamm þetta er spennandi LoL

IMG_3921

Stóra systir þarf nú líka að prófa...

IMG_3923

Æ það verður einhvernveginn allt svo miklu skemmtilegra með svona kríli sér við hlið, í jólaundirbúningnum.Heart

IMG_3927

Sæta stelpan mín.

IMG_3931

Og litli prakkarinn.

IMG_3934

Þetta kemur vel út, satt að segja.

IMG_3935

Einhvernveginn náðu þær í skæri, og Hanna Sól ákvað að gefa litlu systur jólaklippingu Blushég vona að mamma hennar sjái þetta ekki.  En Matta lagar þetta örugglega fyrir mig áður en hún kemur.

Eigið góðan dag elskurnar mínar. Heart


Mín prívat og persónulega hugleiðing.

Ég er örugglega skrýtin skrúfa.  Og hugsa ef til vill öðruvísi en flestir.  Það verður þá bara að hafa það.

Ég hef verið hugsandi yfir flokknum mínum nú í nokkurn tíma.  Þegar ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn, sem þá var bara örflokkur, eins og hann er reyndar enn í dag, þá voru það hugsjónirnar og eldmóður forystumannanna, sem ég heillaðist af, og síðan málefnasamningurinn, sem ég átti reyndar þátt í að semja með félögum mínum.  Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar, með góðu fólki, sem var fyrst og fremst af hugsjón í baráttu gegn óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi, og að benda á yfirgang ráðamanna, gagnvart þjóðinni, ráðstjórn kallaði Sverrir Hermannsson stjórnina, þegar hann ræddi um hana.  Það sem rætt var um allt frá því að flokkurinn var stofnaður, hefur komið fram, hrakspárnar, um froðuféð, svo ég vitni aftur í gömlu kempuna. 

Málefnin eru góð, og ég fullyrði að hvergi eru þau betri en hjá okkur.  Það hefur bara aldrei komist á framfæri, vegna þess að fjölmiðlar, hafa þaggað talsmenn flokksins og forystu í hel, eins og þeir hafa getað, nema þegar eitthvað hefur komið flokknum illa, þá hefur verið blásið upp, allt sem miður fer, og gert grín að, og menn settir í versta ljós sem hægt er. 

Þetta hefur gengið svona alltaf.  En meðan við vorum, þessi við, sem stofnuðum flokkinn, og vorum samtaka og sammála um helstu hluti, þá gerði þetta ekki mikið til, því við gátum varist og staðið bak í bak. 

 

 

Mér finnst skrýtið að flokkurinn mælist ekki með meira fylgi í skoðanakönnunum, en þrjúprósent, miðað við málefnin, og miðað við að flokkurinn hefur hvergi komið að spillingunni. 

Ég hallast að því, að það sé mest vegna illinda, úrtölumanna, og óheilinda. 

 

Ég ásamt þremur öðrum úr flokknum, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu og fleiri blöðum, sem við kölluðum; Aðför að grunngildum Frjálslyndaflokksins. 

 

Ég hef legið undir feldi nú um tíma, og satt að segja ekki almennilega vitað, hvað ég ætti að gera, eða hvernig ég ætti að snúa mér. 

 

Málið er að ég þekki marga í  forystunni mjög vel, Guðjón Arnar er fermingarbróðir minn, og hann er gegnheill, þó sumum finnist hann ekki “koma nógu vel fyrir”,  eða ekki “nógu afgerandi persónuleiki”, Þá fer þar traustur maður.   Magnús Reynir framkvæmdastjóri flokksins er líka fermingarbróðir minn, og ágætis drengur, hann vinnur af hugsjón.  Kristni H. Gunnarssyni hef ég kynnst eftir að hann byrjaði að starfa með flokknum, afskaplega fylgin sér, og stendur við orð sín. 

Þessir menn sem ég tilnefni hér sérstaklega,  hafa mikið legið undir ámæli frá sumum í flokknum, bæði opinberlega og í bréfaskriftum.  Menn vilja skipta um formann, skipta út Kristni H. og fá annan framkvæmdastjóra. 

 

Og ég hef komist að niðurstöðu.  Ég ætla mér að fylgja mínum mönnum, ef skipið fer niður, þá fer ég með því.  Ég vil bara fá gamla góða kjarnann til baka.  Fyrir mér skiptir ekki máli hvort flokkurinn stækkar meira, eða við fáum fleiri til liðs við okkur, ef það þýðir að málefni flokksins verða að víkja, fyrir nýjum áherslum, þá verð ég ekki með. 

Það getur vel verið að þessi ákvörðun mín sé alröng, og vitlaus.   En þá verður bara að hafa það.  Frjálslyndiflokkurinn er fyrst og fremst dreyfbýlisflokkur.  Hann er flokkur sjómanna, bænda, aldraðra og öryrkja. Hann er flokkur mannúðar, og sjálfstæði einstaklingsins.  Frelsi til orða og athafna.    Það gæti farið svo að flokkurinn yrði bara pínulítill örflokkur vestfirðinga.  Þá verður bara að hafa það.  En sú rödd sem varð til þess að flokkurinn var stofnaður, má ekki þagna. 

Sú rödd þarf að hljóma á alþingi Íslendinga, í nýju Íslandi.  Sem ég vona að verði.  Það er bara þannig, að þó fólk vilji breytingar, ný sjónarmið og nýjar áherslur, þá gengur erfiðlega að koma þeim til skila.  Þrautarganga Frjálslynda flokksins er dæmi um það.  Allt það góða sem lagt var upp með, fær ekki að heyrast.  Flokkurinn hefur verið kallaður allskona ónöfnum, og stundum bara út af einni fyrirsögn í blaði, en líka út af afstöðu fólks, sem ekki ber samhljóm kjarnans í fyrirrúmi.

Ég vil óska Röddum fólksins alls hins besta, og svo Nýjum tímum, í öllu sem þau ætla að gera.  Það er bara svolítil viðvörun frá gamalli norn.  Gætið ykkar á tækifærissinnunum, sem alltaf koma með fagurgala og sjá tækifæri í að koma sjálfum sér á framfæri.  Fylgist allavega vel með því hverja þið veljið til þess að standa í forsvari.  Það virðist nefnilega vera svo, að þarna úti sé fullt af fólki, sem þráir að “komast að” bara til að komast að.  Verið því varkár hverja þið veljið ykkur til að fara áfram með málin. Það er svo auðvelt, sérstaklega á svona tímum, að missa sig, í að treysta fólki, sem er ekkert annað en framlenging af spillingaröflunum, úlfar í sauðagæru, sem tala fagurlega, en hugsa flátt. 

 

Ég tek það fram, að ég er hér að tala fyrir mig sjálfa og engann annan.  Ég veit ekkert hvað verður um flokkinn minn,hvort honum tekst að komast út úr erfiðleikunum, og láta að sér kveða, eða hvort hann kvarnast niður í frumeindir.

 

Málið er nefnilega að um leið og við köllum á réttlæti, og að rödd almennings heyrist, þá hlustum við ekki á fólkið sem reynir að tala fyrir fólkið.  Menn kynna sér ekki, hvað viðkomandi hefur fram að færa, hvaða mál eru borin fram á alþingi.

Verður eitthvað meira hlustað á það fólk sem nú vill koma fram fyrir hönd fólksins, eða verður fjölmiðlum beitt, eins og nú til að þagga þær raddir niður, gera þær tortryggilegar. 

 

Ég sé ekki betur en öllu sé tjaldað til nú þegar,  Þorgerður Katrín og Geir Haarde koma í stjörnuviðtölum á Rúv  í hverjum þættinum af öðrum, meira að segja í popplandi.  Svo það fari nú ekki á milli mála, hversu klár þau eru og frábær, og vel meinandi og flott.

 

Það er í raun og veru hlægilegt að það skuli vera til fólk sem heldur að Rúv sé hlutlaus stofnun, eins og henni hefur verið beitt í þágu ríkjandi stjórnmálaafla. 

 

Ég man svo langt aftur, að sjálfstæðismenn voru arfavitlausir yfir því að kommúnistar væru að hreiðra um sig í öllum stöðum í ríkisútvarpinu, það var á tímum Jóns Múla og fleiri.  Þá strax gerðu þeir sér grein fyrir hvernig hægt væti að nota þennan miðil til að hafa áhrif.  Er einhver svo bláeygður að hann haldi að þeir hafi ekki sjálfir notað þau meðul, sem þeir voru vissir um að aðrir beittu?

Það er talað um að pólitík sé rotinn, og allir séu rotnir inn að beini sem stunda hana.  En það skyldi þó aldrei vera að okkur sjálfum væri um að kenna.  Að við  viljum ekki að nýjar raddir óma.  Viljum ekki fá ferska vinda inn, heldur bara sömu gömlu flokkana; við vitum þó hvað við höfum, segir fólk.  Þó þeir séu ömurlegir, þá tekur örugglega ekkert betra við!

Hverslags eiginlega afstaða er þetta?. Það er von að siðferðið sé ekki betra hjá okkur en er í dag. 

 

Eitt er alveg víst, að meðan við sjálf breytum ekki hugarfarinu, þá breytist heldur ekkert það sem í kring um okkur er.

Við þurfum að hafa kjark til að breyta, hugsa öðruvísi, og gefa nýjum hugmyndum gaum.  Þora að taka afstöðu til málefna, eins og þau blasa við okkur, en ekki út frá einhverjum óskilgreindum tilvísunum sem við höfum fengið, eða kröfum frá fólki sem vill halda völdum, sem auðvitað reyna allt til að fá að vera lengur í hlýjunni.

 

Nei ég hef sagt það áður og segi það enn, við pöpullinn getum ráðið. Valdið er okkar, ef við viljum nota það.  Það verður ekki með því að bara kjósa alltaf það sama aftur og aftur, af því að “ekkert betra býðst” Eða af því að “Ég” gæti huganlega grætt á því, eða bara “af því bara”

Lýðræðið er brothætt, og til að það virki, þarf að taka þátt í því, einmitt eins og fólk er að gera núna. 

Það verður hver og einn að velja sína leið.  Í augnablikinu hef ég valið mína leið, og á meðan ég veit að þar eru hugsjónir hafðar í fyrirrúmi mun ég fylgja þeim, en um leið og ég sé, að eitthvað annað er í gangi, þá er ég farin eitthvert annað. 


Fjallamyndir.

Það var yndælis veður hér í dag, og vonandi verður það eins á morgun.

IMG_3886

Sólin teygði sig til og með upp á efstu fjallatinda, en nær ekki lengra niður þessa dagana.  Ojæja hún fer þá ekki í augun á manni við akstur.

IMG_3885

Jamm það birtir raunar ekki meira, á þessum síðust og verstu, en við erum jú vön...

IMG_3887

Þessi var tekin um hádegið, en birtan er aðeins að plata okkur, það er ekki alveg svona dimmt.

IMG_3888

Þessi svo seinna um daginn.

IMG_3890

Ísafjörður, ber stundum nafn með rentu Heart en alltaf jafn glæsilegur.

IMG_3891

Einhverntíman skal ég segja ykkur söguna um huldumanninn í Strengbergin, en hér er Kubbinn í meiri nálægð en oftast áður hjá mér.

IMG_3892

Hér erum við komin inn í gönginn, þar eru ýmsar kynjamyndir á veggjum, með góðu ímyndunarafli er hægt að komast í samband við tröll og forynjur.

IMG_3893

Suðureyrin, nú er Elli Guðmunds farin að selja fisk á netinu, héðan frá Suðureyri, enda um eðalhráefni að ræða.  Nokkrir bændur í Dýrafirði eru farnir að selja kindakjöt á Facebook, mér finnst þetta vera góð þróun, og sýnir svo ekki verður um villst hve við erum í raun og veru dugleg að bjarga okkur, þrátt fyrir endalausar tilraunir stjórnvalda til að drepa okkur niður.  En við látum ekki deigan síga.

IMG_3895

Og mánin er sperrtur í faðmi fjalla blárra, í Súgandafirði.

IMG_3897

Fallegi bærinn minn, kúrir hér í skjóli fyrir veðri og vindum.

IMG_3898

Og klukkan bara hálf fimm, en það er allt í lagi, eins og Hanna Sól segir.

IMG_3881

Hér spila þau afi veiðimann.

IMG_3907

Og svo bjuggum við Úlfur til pizzur í kvöld.  Amma bakaði botnana, en Úlfur skreytti, og tókst það vel úr hendi.

IMG_3908

Nautakjöt, pepperoni og skinka.

IMG_3909

Og túnfiskur... nammi namm.

IMG_3910

Hér er svo Úlfurinn að hugga litla bróður.  Já svona er lifið í kúlunni. 

En ég segi bara góða nótt Heart

P.S. eitt sem mig langar að minnast á, sem ég var að heyra í morgun.  Ef maður er að bera á eitthvað með feiti, olíu eða slíku, með tusku, þá má alls ekki setja hana strax í ruslið.  Það þarf að geyma hana a.m.k. í Sólarhring áður en henni er fleygt í ruslafötuna, það getur nefnilega kviknað í henni.  Svo endilega ef þið eruð að bera tekkolíu á húsgögn, eða bara einhverja feiti, þá er best að setja tuskuna útfyrir, eða á öruggan stað.   Alls ekki í ruslafötuna.  Knús í knús. Heart


Áskorun til Ríkisútvarpsins. Útvarps allra landsmanna.

Sæl öll sömul, ég hef tekið Spámanninn á orðinu, og sent ríkisútvarpinu svohljóðandi rafpóst;

Ég vil fara þess á leit við stjórn Ríkisútvarpsins, að það verði sjónvarpað beint frá útifundinum á Austurvelli.  'Eg vil benda á að eins og nafn ríkisútvarpsins er, þá er það útvarp allra landsmanna.  Það er okkar réttur að fá að fylgjast með þeirri friðar og réttlætishreyfingu sem fram fer núna á hverjum laugardegi. 
Með fyrirfram þakklæti, Ásthildur Cesil Þórðardóttir, notandi og greiðandi til ríkisútvarpsins síðan 1970. 
Ég vil hvetja fólk úti á landi til að senda svipaðan póst til útvarps allra landsmanna.  Við eigum rétt á því að fá að fylgjast með því sem er að gerast.  Það er bara sanngjörn krafa fólks sem greiðir árum saman afnotagjöldin.  Við  erum líka þjóðin, úti á landi, sem ekki komumst og missum af allri stemningunni.
Ég er mjög ánægð með að stjórn Ríkisútvarpsins skyldi hætta við að loka svæðisútvörpum, ég er ein af þeim, sem ætlaði að senda þeim tóninn, því ég hefði hætt að auglýsa mitt fyrirtæki, ef svæðisútsendingum hefði verið hætt.  Það ætti frekar að auka þær útsendingar, en minnka.  Því það er gott fyrir okkur í hinum dreyfðu byggðum að fá lókal upplýsingar um hvað er að gerast á heimaslól.  Við höfum líka duglegt fólk og fært sem stjórnar útsendingum og aflar frétta.  Innilega til hamingju Ruvvest.  Þetta var sannarlega ein ljóstýra í myrkrinu.
En ég vil minna á fundinn á morgunn á Austurvelli.  Þið eruð hetjur sem viku eftir viku, mætið og látið í ykkur heyra, ljáið mér og fleirum rödd ykkar, og nærveru.  Ég er innilega þakklát ykkur fyrir það. 
Sérstaklega vil ég þakka vini mínum Herði Torfasyni fyrir þrautseigjuna, og ég veit að hann hefði aldrei getað gert þetta svona stórt og eftirtektarvert, ef hann hefði ekki fengið með sér allt það frábæra fólk sem kemur og heldur þrumandi ræður, og alls ekki nema af því að þið mætið og látið í ykkur heyra.  Megi þúsund radda kór kalla á réttlætið á morgunn.
13.4.08i 054
Það er enginn svo lítill að hann skipti ekki máli.
IMG_8717
Áfram Ísland.  Heart

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband