20.10.2009 | 21:38
Úr DV í dag. Viðtal við Mumma í Götusmiðjunni.
ég keypti DV í dag og las þar viðtal við Guðmund í Götusmiðjunni. þar sem viðtal hans er eins og út úr mínu hjarta talað. Þá ætla ég að setja það hér inn. Sýnir svo ekki verður um villst að ekkert hefur breyst þessi yfir 20 ár.
Íslensk yfirvöld hafa engan áhuga á að hjálpa fíklum á Íslandi. Að sögn Guðmundar Týs Þórarinssonar hjá Götusmiðjunni. Hann segir marga krakka enda á götunni vegna skeytingarleysis embættirmanna. Ef skorið verður niður hjá Guðmundi um áramótin gæti hann þurft að loka Götusmiðjunni. Ungir fíklar á flæðiskeri. Við höfum jarðar mörg ungmennin í gegnum árin og það er ekkert lát á því
Kerfið bregst þessum krökkum kerfisbundið. Ég segi stundum Breiðavík hvað? Ofbeldið er núna komið meira í hendurnar á embættismönnum sem eru steinsonfandi og hafa lítinn áhuga á málaflokknum. Við höfum jarðað mörg ungmennin í gegnum árin og það er ekkert lát á því. Segir Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunn.
Útskrifuð á götuna.
Götusmiðjan er sérhæft meðferðarheimili fyrir ungt fólk á aldrinum fimmtán til tuttugu. Þangað sækja einna helst einstaklingar sem glíma við vímuefnafíkn og hafa brotið af sér. DV fjallaði um andlát Lísu Arnardóttur, 21 árs fíkniefnafíkils, um síðustu helgi. Móðir hennar er handviss um að dauðsfall hennar sé sakamál en lögreglan mun ekki rannsaka það. Lísa var hjá Mumma í Götusmiðjunni um tíma en hann getur ekki tjáð sig um mál hennar þar sem hann er bundinn trúnaði.
Hann segir að yfirvöld hafi lítinn sem engan áhuga á ungmennum sem heyja baráttu upp á líf og dauða við fíkniefnadjöfulijnn.
Kerfið hefur engan áhuga á þessum krökkum. Embættismenn sem eiga að fylgja eftir lögboðnum skyldum sínum og sveitarfélögin sem fela sig alltaf í umræðunni. Allir horfa á félagsmálaráðherra og ríkið en sveitarfélögin eiga til dæmis að annast krakkana eftir meðferð. Við höfum útskrifað hér krakka beint út á götuna í orðsins fyllstu merkingu því við komum þeim ekki í hús.
Ættu að skammast sín.
Mummi segir að yfirvöld skipti sér ekki af krökkum þegar þau ná átján ára aldri.
Ofbeldið fer nú fram í IKEA húsgöngum á einhverjum skrifstofum. Þetta er bara skeytingarleysi, áhugaleysi og við horfum á eftir börnunum okkar verða átján ára og daginn sem þau verða átján ára fríar kerfið sig algjörlega ábyrgð. Kerfið bregst þessum krökkum því stór hluti þessara krakka kemur frá ofboðslega brotnum fjölskyldum og á enga stuðningsmenn. Kerfið dæmir þessa krakka til dauða.
Mummi segist hafa barist fyrir tilvist Götusmiðjunnar í tólf ár og vera enn að berjast. Hann rekst alltaf á vegg.
Það hvíslaði einu sinni að mér ákveðin embættismaður í sveitarfélagi í bakherbergi úti á landi; þau hrökklast bara í bæinn þannig að ég þarf ekki að skipta mér af þesu. Þetta er raunveruleikinn. Sveitarfélögin mörg ættu að skammast sín.
Gæti orði gjaldþrota.
Nú gætir mikils niðurskurðar í þjóðfélaginu og bíður Mummi eftir því að fá upplýsingar um hvort skorið verður niður hjá honum. Ef sú verður raunin gæti hann þurft að leggja upp laupana.
ég er með þjónustusamning við ríkið um þráttán rými af tuttugu. Ég hef reddað ansi miklu sjálfur og það er að verða ansi erfiður róður, því við stóluðum á velviljuð fyrirtæki sem hjálpuðu okkur að brúa mismuninn. Nú er það horfið því það eru engir peningar í umferð. Ef það er eitthvað skorið niður hjá mér sem skiptir máli þá efast ég um að ég lifi það af. Þá verð égbara gjaldþrota eins og þorri þjóðarinnar er að verða. Það eru tveir og hálfur mánuður til áramóta þegar þjónustusamningurinn rennur út. Þá fer ég inn í óvissuástand. Ég veit ekkert hvað gerist. Þessi málaflokkur var í klessu, er í klessu og á eftir að vera í miklu meiri klessu því það er niðurskurður á öllum sviðum, Segir Mummi. Hann segist enn fremur sinna vinnu langt út fyrir þjónustusamninginn með því að sækja um skóla fyrir krakkana og útvega þeim vinnu og húsnæði.
Kostnaðarsamt götulíf.
Mikið hefur verið talaði um að úrræði fyrir fíkla séu kostnaðarsöm. Hvað heldurðu að þessir krakkar kosti úti á götu? Þeir kosta hundruð þúsunda á viku per einstakling í afbrotum, löggæslu og skjúkrakostnað. Segir Mummi.
Ég vil bæta við þetta.
Ætla yfirvöld virkilega að láta það gerast að úrræðin sem þó eru fyrir hendi hverfi og neyðin verði þannig ennþá alvarlegri og stærri.
Hér þarf virkilega að taka til hendi og við verðum að taka höndum saman um að leyfa kerfinu ekki að draga lengur að gera eitthvað í málefnum fíkla á Íslandi í dag árið 2009.
Ég skora á alla þá sem geta haft áhrif með einhverjum hætti að láta í sér heyra um þessi mál og þrýsta á stjórnvöld um að í þessum málaflokki ER EKKI HÆGT AÐ SKERA NIÐUR. FRAMLÖG OG ÚRRÆÐI HAFA VERIÐ SKAMMARLEGA LÁG OG STJÓRVÖLDUM TIL HÁBORINNAR SKAMMAR.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.10.2009 | 10:39
Nokkur ljóð.
Var að skoða pappírana mína og rakst þá á þessi ljóð mín. Set þau hér inn í gamni. Fyrsta er samið fyrir jól fyrir nokkrum árum.
Ég hugsa oft er herðir frost,
hel dimm nóttin nálgast oss
Með skammdegi og skugga
Er skylda okkar að hugga.
Þann sem ekki á neinn að.
einskis barn, við skiljum það
að þá er þörfin brýna
að þekkja vitjun sína.
Með kærleikann sem leiðarljós
Lifir best vor sálarrós.
það blómið blítt sem dafnar
og birtu andans safnar.
Allt sem innra áttu nú
elsku þína og von og trú
vert er gaum að gefa
grát og sorgir sefa.
Dreyfðu ást um byggð og ból
Þá bestu áttu gleði jól.
Gott er lífið sitt á því að byggja.
Að sá sem gefur öðrum, allt mun þiggja.
Ásthildur Cesil.
Þessar urðu til, þegar skotturnar mínar fóru með mömmu sinni í fyrra sumar til dvalar með henni fyrir sunnan.
Ég sakna þín barnið mitt blíða,
Með björtu augun þín skær.
Á röddina hjartnæmu að hlýða,
Og knúsa þig brjósti mér nær.
Að ræða um prinsessu pakka
Og pörin af ballettsins skóm.
Um daglegar þarfir, og þakka,
þegar þú færir mér blóm.
Á ömmu sín æ viltu hlýða .
upphugsar alskonar gjörð.
Fallega prinsessan fríða.
Fróm vil ég stand um þig vörð.
o0o
Prakkarinn litli sem lærir.
Og lætur mér líða svo vel.
Ákveðin hrund, sem að hrærir
hjartanu bljúga í mér.
Þú kannt að gleðja og gefa
Gott er að hlúa að þér.
Grátin þinn gjallandi sefa.
Gefa þér sálina úr mér.
Örmum mig víst er þú vefur
Vaktar og vilt ömmuskinn.
gæfuna mikla mér gefur.
gullmolinn yndæli minn.
Þessi fjallar um áhyggjur mínar af Júlla mínum þegar hann var langt niðri.
Í fegurð vestfirskra fjalla,
finn ei í sinninu ró.
Sálir í kvöldhúmið kalla
því komið er alveg nóg.
Af sársauka og svörtum dögum,
er sífellt þrengja sér inn.
Og mikið af svipuðum sögum
segjast þar sonur minn.
Sögur, er baráttan bitur
brýtur þrekið vort allt.
Af eitri sem allstaðar situr
hér öllum börnum falt.
Samt lifir nú vonar neisti
sem nærist, og þerrar mín tár.
Svo áfram ég trúi og treysti
að tíminn lækni öll sár.
Og þó að veik mín nú vonin
og virðist svo brjótanleg.
Þá samt ég vil fá þennan son minn.
á sigursins mjóa veg.
Ásthildur Cesil.
Þessi er bara tilraun til að gera eitthvað öðruvísi.
Íslandstungu, elska enn
orðin til mín ríma.
Fegurst sungu fornir menn
fram til okkar tíma.
Við meistaranna munablóm
mannsins hugur göfgast.
Þegar kanna þeirra dóm
þá mun listin höfgast.
Ásthildur 2005
Eigið góðan dag mín kæru og takk fyrir mig.


Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.10.2009 | 23:45
Aðstaða listamanns og nokkur orð.
Þegar elskulegar vinkonur mínar og Júlla fóru heim daginn eftir jarðarför, þær Sigrún og Áróra, komu þær við á vinnustað hans og fundu fisk og fleira. Áróra mín sagði, þið þurfið að fara niðureftir og huga að því sem þar kann að leynast.
Ég fór í dag. Það tók á svo sannarlega á að fara þar sem hann var að vinna og sjá alla steinana sem hann var búin að týna til að vinna með, fara inn í aðstöðuna sem hann hafði og finna þar ýmislegt. Ég var gjörsamlega búin á sálinni minni. Og ég er ennþá með grátin í kverkunum. Elsku barnið mitt. Þarna vann hann sín listaverk, og svo var annar staður sem ég heimsótti líka. Þann þriðja þurfti ég ekki að fara á, en það voru gróðurhúsin okkar þar var hann meiri partinn af vetrinum að gera fallegu listaverkin sín. Ó guð hvað þetta getur verið sárt.
Það er formlega búið að fara fram á að haldinn verði minningar sýning um hann á Ísfirskum Vetrarnóttum, núna í byrjun nóvember. Þar skal allt gert til að verði honum til sóma.
Þetta er gámurinn sem hann var að vinna í. Ekki nein súper aðstaða. En við gáfum honum svokallaða ljósavél í afmælisgjöf í vor. Svo hann gæti notað það sem þurfti til að skapa.
Hér er aðstaða númer tvö. Grunnur af gömlum hjalli frá pabba mínum. Hér vildi hann halda sýningu í sumar og hér vildi hann fá gáminn sinn.
En engum datt í hug að hann hefði svona lítinn tíma eftir. Ég hef reynt að vera rökrétt og ekki vera með samviskubit. En málið er að ég veit að ég hefði getað hvatt hann meira áfram og gert betur en ég gerði. En það er alltaf þetta EF ekki satt?
Honum verður sýndur sá sómi sem hann átti skilið, það skal ég sjá um. En fyrst og fremst gerði hann það sjálfur með því að vera frábær listamaður og hlý manneskja.
Á blaðsíðu 14 í minningum mínum skrifa ég þetta m.a.
Hvers vegna skrifa ég!
Ég hugsa að aðalmarkmiðið þess að festa þetta niður á blað sé að reyna að skrifa mig frá þessari reynslu og sársaukanum, reiðinni og öllu sem því fylgir. Koma þessari lífsreynslu út úr systeminu á mér. Ef þetta hins vegar kemur fyrir almenningssjónir er það vegna þess að mér hefur fundist að einhverjar hrjáðar sálir í svipuðum sporum gætu haft af þessu nokkra fró og huggun. Inn í þessum blöðum eru nokkur bréf sem sína hversu langt ég fór í örvæntingu minni og hjálparleysi í tilraunum til að reyna að bjarga leifunum af sundurtættu lífi heillar fjölskyldu.
En ég segi góða nótt og takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.10.2009 | 17:03
Brot úr ævi.
Það hafa margir hvatt mig til að skrifa meira um örlög sonar míns. Það er sárt og rífur upp það sem hefur legið einhversstaðar í undirmeðvitundinni. En ef til vill er það einmitt það sem ég þarf að gera. Rífa það upp og skera burtu.
Ég ætla því að birta fyrstu skrifin mín, en ég kalla þetta Sagan mín. Og þetta er kafli sem heitir inngangur.
Ég get svarið það, að bara við að rifja þetta upp slítur úr mér hjartað. Hvernig getur fólk látið þetta viðgangast. Við skulum spyrja okkur hvort ekki sé komið nóg. Ég geri mér alveg grein fyrir að sonur minn er ekki sá eini sem hefur þurft að líða svona. Þau eru fleiri þarna úti sem þurfa stuðning og hjálp.
Sagan mín. Inngangur.
Hún var allt í einu komin inn í líf mitt. Stóð þarna með syni mínum, lítil fjarlæg og gugginn. Maður tók varla eftir henni. Eg hafði vitað af henni einhvern tíma, sonur minn hafði sagt okkur að hann færi farin að vera með stúlku. Það var í sjálfu sér ánægjulegt. Því hann hafði ekki sýnt neinn áhuga í þá veru í mörg ár. Ekki síðan.... æ já...
Þar sem hún stóð þarna og hélt sig bak við son minn, eins og til varnar, reyndi ég að virða hana fyrir mér í laumi. Hún leit vissulega hálf tætingslega út, en hún var alls ekki ólagleg. Ég vissi að hún var í óreglunni eins og hann. Svo fékk ég gamalkunnan sting í hjartað. Hvernig skyldi þetta allt saman ganga. Ég sendi stutta bæn til Guðs um að vaka yfir okkur öllum.
Sonur minn átti langa sögu fíkniefnaneyslu og afbrota að baki þegar þar var komið sögu. En hann var alltaf jafn góður og kærleiksríkur við mömmu sína og skyldmenni. Eins góður og slíkir neytendur geta verið. Hann gat horfið í nokkra mánuði og maður vissi ekkert hvar hann var eða hvað hann var að gera. Allt í kring um hann var eitt laumuspil. Ég veit ekki hve mörgum nóttum um ævina ég hef eytt í að hugsa um hvar hann væri og hvað hann væri að gera og hvernig honum liði.
Nú var hann komin heim einu sinni enn og með kærustu upp á arminn ég elska hana mamma.
Þau bjuggu í nokkurs konar kommúnu maður heyrði nöfn eins og dópbæli, nálapúðinn og ég veit ekki hvað og hvað. Ég reyndi að láta sem ég heyrði ekki neitt. Þau komu stundum heim alltaf um sama leyti rétt eftir kvöldmat og fengu að ljúka við leifarnar af matnum.
Tengdadóttir mín minntist stundum þessa tíma. Ég gleymi aldrei þegar hann tók kjötbitan af diski hundsins og grillaði hann og át með bestu lyst segir hún og hlær.
Svo kom vendipunkturinn þegar ég gat ekki lengur verið hlutlaus og varð að taka afstöðu. Þvílíkur sársauki og vanlíðan, en samt einhver undarleg óskiljanleg gleði tilfinning.
Ég hafði verið úti og þegar ég kom heim voru þau heima upp í gamla herberginu hans, sátu þar og biðu dómsins. Hún var orðin barnshafandi og þau vildu fá að flytja heim til okkar. Maðurinn minn hafði sagt við þau að þau gætu komið heim ef þau hættu allrei neyslu, ef það væri ekki hægt yrðu þau að fara. Þau mættu vera í nótt en síðan yrðu þau að gera upp við sig hvað þau vildu gera. Ég var alveg eyðilögð yfir þesu, en ég gat ekkert gert. Í raun og veru var þetta það eina sem við gátum gert, en það tók á okkur bæði.
Þótt við elskuðum drenginn okkar gátum við ekki horfst í augu við að hafa tvo neytendur á heimilinu. Þau voru samt látin vita að þau hefðu þetta val.
Sonur minn hefur alltaf verið stoltur og hefur aldrei látið bugast sem betur fer fyrir hann. Hann tók þá ákvörðun að fara, þau voru bæði ákveðin í að eiga barnið, afstaða sem ég skildi mjög vel.
Þau fluttu heim til kunningja síns sem var með stóra íbúð, hann var ekki í neyslu að ég tel og leyfði þeim að deila íbúðinni með sér.
Um tíma tókst mér að deyfa sjálfa mig fyrir sársaukanum í hjartanu. Ég man lítið eftir þeim tíma. Svo ákvað ég að fara í heimsókn og sjá hvernig þau hefðu það. Íbúðin var vægast sagt óhrjáleg og allt einhvernveginn gert af vanefnum, eins og úr öðrum heimi.
Það var málið, þau lifðu í öðrum heimi, öðrum raunveruleika en ég. Þau voru hætt að þekkja neitt annað. Hann vann stopult við slægingu og einn og einn túr á sjó, þegar hann var í standi. Hún fékk vinnu við að þrífa rækjuverksmiðju með manninum sem þau leigðu með. Með þessu gátu þau keypt í matinn og greitt sinn hluta af leigunni.
Alltaf þegar ég kom, þá fór hún. Lét sig hverfa. Ég vissi að hún var reið og ég skildi hana vel. Henni fannst að við hefðum hafnaði henni og nú var hún viss um að ég væri að reyna að skilja þau að. Að ég vildi stía þeim í sundur. Eg reyndi að vingast við hana, segja henni að ég vildi bara hjálpa en hún var öll á verði. Eins og sært dýr.
Ég vissi að ég yrði að ná trausti hennar til að geta hjálpa þeim. Ég hafði gert upp hug minn að ég gæti ekki lifað með sjálfri mér ef ég léti þau afskiptalaus.
Ég var að spá í félagsaðstoð og slíkt. Ég vildi líka reyna að fá hana í læknisskoðun. Sonur minn fullvissaði mig um að hún væri ekki í neyslu, en hún aftók með öllu að nokkur skipti sér af henni.
Mér er minnisstætt þegar ég ámálgaði þetta í fyrsta sinn. Ég ræddi við son minn og ég vissi að hún var í næsta herbergi. Það var bara þunn efnisdrusla fyrir dyrunum ´
Ég sagði; elsku strákurinn minn, segðu henni að ég vilji bara hjálpa ykkur. Ég vil bara að hún fari í skoðun, það er til öryggis fyrir hana og barnið.
Ég veit það mamma, en hún vill ekki fara.
Þú verður að segja henni að ég sé að skipta mér af þessu vegna þess að mér stendur ekki á sama, ég er ekki óvinur ykkar. Þetta er barnabarnið mitt og þar sem hún er móðir þess og unnusta þín ætla ég að láta mér þykja vænt um hana líka.
Við ræddum lengi á þessum nótun, og svo kom hún fram úr svefnherbergiskompunni, hún var bókstaflega brjaluð. Öskraði og skammaðist, hún yrti ekki einu orði á mig heldur fékk sonur minin alla gusuna á sig. Svo rauk ´hún á dyr og skellti hurðinni svo fast á eftir sér að eitthvað hrökk niður af veggnum og brotnaði. Sonur minn varð miður sín;
Hún er allta brjáluð í skapinu núna mamma.
Ég veit elskan mín, en veistu að ég skil hana vel, henni finnst veröld sinni ógnað, henni finnst eins og það sé verið að vinna í að eyðileggja það sem hún hefur.
Þá sagði hann mér að hún ætti þrjú börn fyrir og þau væru öll hjá mömmu hennar og pabba. Þá skildi ég til fulls örvæntingu hennar. Eftir nokkra stund hringdi síminn, hún var að hringja til að vita hvort ég væri farin. Hvort henni væri óhætt að koma heim.
Segðu henni að ég sé að fara elskan mín, sagði ég og fór aðklæða mig í kápuna. Og með sjálfri mér var ég orðin harðákveðin í að ná trausti hennar og vinna hana á mitt band.
Ég var ekki eina ógnin sem vofði yfir þessari litlu fjölskyldu. Yfir þeim hékk yfirvofandi fangelsivistun sonar míns, fyrir brot á reynslulausn. Þetta ofan á allt annað nagaði líka litla samfélagið, eins og þau ættu ekki rétt á að fá að vera hamingjusöm. Nýbúin að finna ástina og lítið barn í vændum. En nei ónei, þau áttu lengra í land en okkur óraði fyrir þarna. Þegar ég hugsaði um þau og framtíðarhorfur þeirra varð mér bókstaflega illt. Mér fannst eins og maginn í mér væri eitt flakandi sár. Svo mikið vorkenndi ég þessum tveimur viðkvæmu og vængbrotnu manneskjum, sem höfðu með kjánaskap snúið sig úr úr mannlegu samfélagi og þurftu að gjalda þess svo harkalega.
Ég fór að koma oftar í heimsókn, sonur minn var alltaf glaður þegar ég kom, hjá henni og vininum, þegjandi samkomulag um að þola ágengnina. Þó kom fyrir þegar hann var ekki heima að þá var ekki opnað. Ég stóð þarna fyrir utan dyrnar eins og asni og bankaði og bankaði. Aðrir íbúar þessa óhrjálega fjölbýlishúss voru farnir að kíkja út um gluggana og sjá hver stæði fyrir þessum hávaða. Ég kyngdi stoltinu og hélt áfram að mæta í pleysið.
Í þessum heimsóknum hitti ég fleiri af þessum einstaklingum og það fór að opnst fyrir mér veröldin sem þau lifðu í. ég fór að skilja að sá heimur lítur öðrum lögmálum, annarsskonar samtrygging. Sá sem á pening í það skiptið lánar þeim sem ekkert hefur. Þau læra að líta hvort eftir öðru af veikum mætti og leyndarmálin eru geymd. Þar gilda ákveðnar reglur og siðalögmál alveg eins og í mínum heimi. Sameiginlegur óvinur þeirra er... já því miður íslenska réttarkerfið.
Sonur minin hafði mörgum árum áður verið ástfangin af stúlku, það var góð stúlka sem hafði góð áhrif á hann. Hann var þá búin að vera nokkurn tíma í neyslu og með einhver afbrot að baki. En allt breyttist þegar þau byrjuðu að vera saman. Hann var hamingjusamur. Ég held að ef það samband hefði fengið að blómstra hefði hans raunarsaga ekki orðið lengri. En því miður, hún var dóttir lögregluþjóns. Einn vinur hans í lögreglunni spurði hvort hann vissi hvaða strák dóttir hans væri farin að vera með. Þar með lauk því sambandi. Faðirinn sendi hana þvert yfir landið, eins langt burtu og hæft var. Þau hafa samt alltaf verið vinir.
Þetta var hrikalegt áfall fyrir son minn. Hann fór alveg yfir um. Ég varð vör við sálarhvöl hans. Hann grét á nóttunni og ég gat ekkert gert nema sitja við rúmstokkinn hans og reyna með öllum ráðum að sefa örvæntingu hans, það var sárt. Svo hvarf hann í fleiri mánuði og ég vissi ekkert hvað varð um hann. Ég verð að viðurkenna að ég hugsa enn þungt til þessara manna og hvað þeir gerðu. Þó geri ég mér grein fyrir að ég verð hætta að eyða kröftum mínum í að láta framferði misviturra manna hafa áhrif á sálarlíf mitt. Það hjálpar heldur ekki syni mínum. Eitt af því versta sem fylgir aðstandendum fíkniefnaneytenda a.m.k. mér er einmitt þetta, að láta hatrið ná tökum á sér. Hatur út í óvininn andlitslausa sem gerir börnin okkar að villidýrum og svo refsikerfið sem er fyrirfram búið að dæma þau óalandi og óferjandi, réttindalaus í samfélaginu.
Við foreldrarnir erum gjörsamlega varnarlaus. Skiljum ekki neitt, þekkjum ekki nóg til þeirra raunveruleika og vitum oftast ekkert um allt ranglætið sem þau verða að þola. Eða trúum þeim ekki, því það er erfitt að höndla sanleikan í kringum þau. Þau flækja sig í lyfavef sem þau komast ekki sjálf út úr. Lygin verður þeim stundum tamari en sannleikurinn og þau verða meistarar í feluleik í kring um sannleikann. Það er partur af því að geta lifað í þeim hrikalega leik sem þau eru þátttakendur í.
Það var aldrei minnst á bréfið sem við vissum þó að var á leiðinni. Ég fann að son minn kveið fyrir því óhjákvæmilega, innilokun í fangelsi, enn einu sinni. Við vorum búin að hafa samband við lækni og sálfræðing, sem voru sammála um að andlegt ástand hans væri slæmt og að honum kæmi best að fara á Kvíabryggju, ef hann þyrfti að fara inn, þar sem hann var hættur í afbrotum og farin að minnka neyslu., bæri að athuga hvort önnur úrræði væru ekki fyrir hendi. Það var álit þessara fagmanna að það væri óheppilegt að rífa hann upp úr þeim farvegi sem hann var í. Þar sem forsendur væru breyttar og hann orðin fjölskyldumaður og að reyna að breyta lífi sínu til hins betra.
Fangelsismálayfirvöld eru nú ekki á því að taka svona forestndur til athugunar. Þar er kerfið ósveiganlegt. Það kom í ljós að það sem síðar varð okkur hrollköld staðreynd að á þeim bænum eru engar mannlegar tilfinningar sem komast að. Það er bara kerfið í sinni verstu mynd, kalt og miskunnarlaust. Bréfið kom frá stofnuninni. Þann 16. desember skyldi hann fara in og ekkert múður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
18.10.2009 | 11:06
Kúlulíf.
Lífið í kúlunni gengur sinn vanagang. Það er auðvitað vegna litlu gleðigjafanna minna. Úlfur fékk að fara í vikudvöl í sveit inn í Heydal. Honum líður vel hjá Stellu og syni hennar þar. En þau reka þar ferðaþjónustu bænda. Afskaplega vinalegt að koma þar við.
Nú er að koma sá tími að sólin kemur ekki alla leið niður til okkar, en litar himininn fallegum litum. Hún fer því ekki beint í augu okkar svona í svartasta skammdeginu. En er eins og grafískur hönnuður upp um fjöll og himinn. Okkur til unaðar.
Það rignir dálítið líka. En svo er gott veður inn á milli.
Óðinn Freyr ömmukall vill að amma sæki sig þegar skóla lýkur. Ég er ánægð með það. Hann hefur oftast einn eða tvo gutta með sér.
Og það er bara gaman. Hér er líka prinsessa.
Enn einn tískukjóllinn úr því sem hendi er næst.
Svo er það feluleikur. Hvað er í kistunni.
Það er litla systir mín.
Það er gaman að leika sér.
ég ætla líka að fara oní.
Í gær var veðrið gott svo við ákváðum að taka upp kartöflurnar, sem ekki hefur unnist tími til fyrr en nú.
Og við þurftum pappakassa til að geyma kartöflurnar í .
Fyrst var hugað að gulrótunum.
Þær eru að vísu ekki stórar, en svo safaríkar og bragðgóðar.
Kartöfluuppskeran var bara mjög góð.
Amma taktu mynd.
Fiktirófa.
Og svo kom ísbíllinn. Honum megum við ekki missa af.
Og bílstjórinn bar okkur kveðju frá Úlfi alla leið frá Heydal. Og við fengum að vita að hann hafði líka fengið ís.
Góð húfa fyrir veturinn. Hlýleg og góð
Hér eru líka allskonar verur á sveimi, englar og svoleiðis.
Ég sá þessum líka bregða fyrir.
Svo voru klifin fjöll.
Að vísu var smárifrildi yfir einstaka fjallatindum, en það er bara eðlilegt milli systra.
Allt má laga með smákitli.
Það segir alla vega Hanna Sól.
Þó geta sumir verið sálítið stúrnir. En það lagast alltaf fljótt.
Eigið góðan dag elskurnar. Megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur öllum, sér í lagi þeirra sem eiga um sárt að binda. Bera kvíða sorg eða áhyggjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.10.2009 | 10:59
Fallegar minningagreinar.
Hér eru tvær fallegar minningargreinar sem birtust í Morgunblaðinu. Þær eiga heima hér. Mér var bent á þær í gær.
Júlíus Kristján Thomassen fæddist á Ísafirði 8. júlí 1969, hann lést á heimili sínu hinn 28. september síðastliðinn.
Móðir hans er Ásthildur Cesil Þórðardóttir, f. 11. sept. 1944. Foreldrar hennar eru Aðalheiður Bára Hjaltadóttir, f. 11. okt. 1924, d. 1. nóv. 2000, og Þórður Ingólfur Júlíusson, f. 4. ágúst 1918.
Faðir: Freddý Thomassen, Danmörku.
Fósturfaðir er Elías Skaftason, f. 18. júní 1944. Foreldrar hans eru Skafti Sigþórsson, f. 10. júlí 1911, d. 16. nóv. 1985, og Elín Elíasdóttir, f. 7. nóv. 1909, d. 14. jan. 1989.
Synir Júlíusar eru Þórður Alexander Úlfur Júlíusson, f. 8. mars 1997, móðir hans er Jóhanna Ruth Birgisdóttir.
Sigurjón Dagur Júlíusson, f. 16. júní 2005, móðir hans er Sigríður Inga Sigurjónsdóttir.
Systkini Júlíusar eru: Ingi Þór Stefánsson, f. 26. júní 1967. Unnusta hans er Matthildur Valdimarsdóttir. Börn þeirra eru Evíta Cesil og Símon Dagur. Önnur börn Matthildar eru Sóley Ebba, Kristján Logi og Aron Máni.
Bára Aðalheiður Elíasdóttir, f. 6. sept. 1971. Unnusti hennar er Bjarki Steinn Jónsson. Börn þeirra eru Hanna Sól og Ásthildur Cesil.
Skafti Elíasson, f. 3. júní 1974. Eiginkona hans er Tinna Óðinsdóttir. Börn þeirra eru Óðinn Freyr og Sólveig Hulda. Önnur börn Skafta eru Júlíana Lind og Daníel Örn.
Arinbjörn Elvar Elíasson, f. 18. apríl 1968. Eiginkona hans er Marijana Cumba Barn þeirra er Arnar Milos.
Júlíus ólst upp á Ísafirði og bjó þar mestan hluta ævinnar. Hann vann ýmis störf um ævina svo sem við sjómennsku, fiskverkun og garðyrkju. Listin átti samt hug hans allan og var hann hagur á hin ýmsu náttúruefni, svo sem leður, tré og stein. Hann fékk ekki einungis útrás fyrir listhneigð sína í náttúrulistaverkum, heldur málaði hann einnig og teiknaði. Júlíus var mikill vinur vina sinna og í hjarta sínu góður drengur.
Útför hans fer fram frá Ísafjarðarkirkju laugardaginn 10. október kl. 14.
Minningargrein Sigríðar barnsmóður hans og vinkonu.mbl.is/minningar
Vorið 2004 kynntist ég þér og fljótlega féll ég kylliflöt fyrir þér. Þú varst hraustur, frískur, fallegur og laus undan fíkninni. Það var yndislegt vor. Þú vannst hörðum höndum í garðvinnu og hellulögnum og einnig í sjálfum þér og þannig kynntumst við. Daginn sem ég missti bílprófið sagðist þú keyra mig hvert sem ég vildi komast. Góðsemin og hjálpsemin var aldrei langt undan. Þú hafðir ríka réttlætiskennd og sást alltaf það góða í öllu.
Þetta vor fórum við á hestbak í Engidalnum. Þú ljómaðir af hamingju. Þú fórst með okkur í Skálavík. Þú hlóðst bálköst og við grilluðum með Úlfi þínum og Ólöfu minni. Við fórum í nokkurra daga hestaferð og það var sólskin allt þetta sumar. Lágum í tjaldinu og horfðum á hval svamla í sjónum í Arnarfirðinum. Ég man að eitt kvöldið í hestaferðinni fórum við að veiða og þú sem varst svo fiskisækinn veiddir helling svo að við íhuguðum að opna fiskibolluverksmiðju.
Það var mikil hamingja þegar Sigurjón Dagur fæddist sumarið 2005. Það var stoltur faðir sem tók á móti honum. En óveðurský hrönnuðust upp það haust og leiðir okkar skildu. En þú komst alltaf reglulega að heimsækja okkur. Sonur okkar varð þeirra gæfu aðnjótandi að kynnast þínum besta manni. Tíminn sem hann fékk með þér var dýrmætur og þetta voru miklar gæðastundir. Veiðiferðirnar ykkar voru óteljandi og margar ferðir í pitsubúðina. Snemma í vor komst þú og keyptir með mér tré í garðinn sem þú gróðursettir fyrir okkur. Þú valdir trén af kostgæfni og alúð. Við áttum góðar stundir saman í sumar og lofuðum hvort öðru að vera alltaf vinir. Betri vin er ekki að finna. Tómleikinn innra með okkur er mikill og söknuðurinn sár.
Hvíl þú í friði, elsku Júlli okkar.
Undir hundruðum járnaðra hæla
dreymdi mig drauminn um þig,
sem gengur eitt haustkvöld
í hljóðum trega
dúnléttum sporum
hinn dimmleita stig,
dúnléttum sporum veg allra vega
og þú veist að ég elska þig.
(Steinn Steinarr.)
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir.
Í dag kveðjum við Júlíus systurson okkar með hlýju og söknuði. Hann fæddist rúmu ári eftir að litli bróðir okkar með sama nafni lést, aðeins nokkurra mánaða gamall. Júlli ólst upp á Seljalandsveginum steinsnar frá Vinaminni, sem er æskuheimili okkar móðursystkina hans. Þar var hann löngum stundum og var augasteinn ömmu sinnar. Júlíus var fjörmikill strákur og snemma kom í ljós hversu mikill ljúflingur hann var. Lífshlaup hans var viðburðaríkt og margs er að minnast. Hann elskaði náttúruna, og æskuslóðir afa hans í Fljótavík á Hornströndum voru í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Hann eignaðist tvo yndislega syni sem hann elskaði og átti með þeim góðar stundir úti í náttúrunni sem hann þekkti svo vel.
Það er með trega í hjarta sem við systur kveðjum þennan frænda okkar og biðjum góðan guð að geyma hann.
Halldóra, Inga Bára ogSigríður Þórðardætur.
Það var hamingja og sorg til skiptis í lífi sonar míns. Það var hægt að sjá á mörgu. Til dæmis þessum tveimur myndum sem eru tréristur.


Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.10.2009 | 12:09
Það er þessi hárfína lína milli kærleiks og örvæntingar, sem við verðum að læra að feta.
Þau bréf sem ég set hér inn núna verða sennilega seinustu bréfin í þessum dúr í bili allaveg. Ég er á báðum áttum með það, en ég held að það sé nauðsynlegt til að þið getið skilið þá angist og hugarheim foreldris sem á við að glíma barnið sitt í helgreipum. Þrátt fyrir allt, þá reis sonur minn upp, tók sig á og átti nokkur yndisleg ár með fjölskyldunni. Eignaðist litla Sigurjón Dag og ástina. Fyrir mér var það kraftaverk sem ég er þakklát fyrir í dag. Hann er í mínum augum hetja að geta gert þetta.
Fyrst honum tókst það þá er það alveg víst að enginn er vonlaus. Ég skrifaði honum nánast á hverjum degi í fangelsinu og oft þegar hann var í meðferð. Stundum bara einhverjar fréttir af veðri eða brandara, stundum hugvekjur um framtíðina. En aðallega til að hann vissi að þarna úti væru manneskjur sem elskuðu hann og hefðu af honum áhyggjur.
Þetta vil ég benda foreldrum á. Það skiptir þau máli að finna að þau standa ekki ein. Þó maður hafni fíklinum, þá verður maður að elska barnið sitt. Það verður að gera skil þar á milli. Ég veit að það er erfitt á allan hátt að hafa langt leiddan fíkil inn á heimilinu. Þar koma upp allskonar erfið samskiptavandamál sem enginn vil í raun tala um. En það verður að opna á það. Alltof margir foreldrar þjást einmitt vegna þagnarinnar. Og allof margir gera sér ekki grein fyrir því tilfinningaástandi sem verður kring um þessar helsjúku en oftast yndislegu manneskjur.
Því birti ég þessi bréf. En ég bið ykkur samt að muna drenginn minn sem þann ljúfling sem hann alltaf var. Sá sem alltaf var tilbúinn til að hjálpa öðrum og gaf af sjálfum sér endalaust. Þau eru mörg þarna úti sem fá ekki tækifærin sín, vegna þess að þau eru föst í kóngulóarvef óvinsins andlitslausa. Elskulegi fallegi drengurinn minn með hjartað úr skíra gulli, setti allaf alla aðra fyrir framan sig. Bað aldrei um neitt sjálfum sér til handa, en var alltaf tilbúinn til að hjálpa.
Ættingi minn segir að ég verði að muna hann allan, bæði galla og kosti, öðru vísi nái ég ekki að losna við sorgina. Ég segi að ég muni ekkert nema það góða í kring um hann. Mér sé nóg að lesa allt það sem var í þeim bréfum sem ég sendi honum. Og geymdi.
Ef okkar samskipti geta orðið til að breyta einhverju til betri vegs, þá er ekki til einskis barist.
Ísafirði, 30 október 2002
Elsku Júlli minn.
Ég veit að þú varst pirraður þegar þú fórst, og að þú ert ekki í jafnvægi.
Þú þarft ekki að vera leiður yfir því.
Eg vona að þú standir þig í meðferðinni. Þú ert ekki að gera þetta fyrir mig eða neinn annan, þú ert fyrst og fremst að gera það fyrir sjálfan þig. Og síðan litla son þinn sem þarfnast pabba síns svo mikið. Þú ert sá maður sem getur bjargað honum til betra lífs. Það er afskaplega erfitt fyrir mig að gera það sem gera þarf. Ég get bara reynt að vera til staðar fyrir hann. Ef þér tekst að komast í gegn um meðferð og komast í samfélag manna, geta unnið og verið sjálfstæður, þá er hægðarleikur fyrir þig að sjá fyrir honum.
Hann hágrét á leiðinni heim eftir að þú fórst. Honum þykir mjög vænt um þig. Hins vegar getur þú ekki haldið góðu sambandi við hann og verið honum sú stytta sem hann þarf, nema að þú takir þig á og haldir þig við meðferð og að komast frá deyfilyfjum og slíku. Hann fer að komast á skólaaldur og þá kemur öðruvísi afstaða gagnvart foreldrum, þau heyra ýmislegt í skólanum sem fjölskyldan getur ekki varið barnið fyrir og þá koma upp allskonar erfiðleikar, sem erfitt er að eiga við.
Þess vegna er svo mikilvægt að vera í lagi fyrir barnið sitt þegar þar að kemur. Mér er sagt að afreitruninn sé það versta svo kemur eftirmeðferð, þar sem uppbygginginn byrjar og þá fer fólki að líða mikið betur.
Þú hefur aldrei komist svo langt í meðferðinni að upplifa að vera að öllu leyti laus við eitrið. Núna ætla ég að vona að svo verði. Það var í upphafi tilgangur minn með sviptingunni. Að geta séð til þess að þú værir allann tímann. Og að þú yrðir byggður upp og þér hjálpað til að takast á við lífið aftur.
Menn sem hafa sukkað svona lengi, eru löngu komnir út úr því sem samfélagið ætlast til af þeim. Og þess vegna þarf að kenna þeim að lifa í því samfélagi sem mannleg samskipti bjóða upp á.
Ég talaði við Snjólaugu í gær. Hún ætlar að hjálpa mér að reyna að fá fangelsismálastofnun til að fallast á að meðferðinn sé skilgreind sem afplánun.
Ég ætla líka að fá sýslumanninn og Hallgrím í lið með mér. Þau voru öll búinn að lofa því að hjálpa mér. Lögreglan hérna líka. Ég mun fara strax að vinna í þessu, svo það komist á hreint. En þú verður líka að sýna að þú standir við þitt. Það getur enginn hjálpað þér ef þú vinnur ekki með og stendur við þitt.
Ef allt gengur vel, þá munt þú ekki þurfa að fara í fangelsi, en það er komið undir þér sjálfum. Þú verður að sýna að þú vinnir raunverulega með þeim sem eru að hjálpa þér. Það er nefnilega satt sem Hallgrímur sagði, að þú hefur allt of lengi verið of verndaður, og ekki þurft að takast á við nema hluta af lifnaði þínum. Þú hefur alltaf átt skjól og getað fengið pening og aðstoð. Ef þú klikkar núna, þá er ég ansi hrædd um að það skjól og aðstoð verði ekki lengur til staðar. Þá verður þú algjörlega á eigin ábyrgð. Þetta eru hörð orð Júlli minn, en þú skalt samt taka þau alvarlega.
Þér er engin greiði gerður með því að ganga endalaust undir þér ef þú sýnir ekki sjálfur framtak til að hjálpa þér. Þá er ekki hægt að hjálpa þér, þú verður að gera það sjálfur.
Ef hinsvegar þú stendur við þitt, þá standa þér allar dyr opnar. Ég segi fyrir mig að ég get ekki tekist á við þetta aftur, að þú strjúkir og farir á götuna og leggist í innbrot og vergang. Þá mun ég afskrifa þig endanlega. Ég verð að hugsa um mitt líf og fjölskylduna. Það eru takmörk fyrir því hvað fólk er tilbúið að leggja á sig meira að segja fyrir barnið sitt. Mér þykir auðvitað mjög vænt um þig, og hef reynt allt sem ég hef getað til að reyna að hjálpa þér. Það getur vel verið að þér hafi ekki fundist það mikið eða merkilegt. En ég hef allavega gert allt sem ég hafði vit til að gera og hélt að myndi hjálpa þér.
Ef þú metur það ekki meira en svo að þú klúðrir þessu tækifæri, þá get ég ekki séð að ég geti gert meira. Og það sem verra er að það munu lokast allar dyr hjá fjölskyldunni. Þá verður þú algjörlega einn á báti. Svo þú sérð að í þetta skipti hefur þú allt að vinna eða öllu að tapa. Ég mun biðja fyrir þér og gera allt til að hjálpa þér á meðan þú heldur þig á braut meðferðarinnar, og sýnir fram á að þú viljir láta hjálpa þér.Með bestu óskum um góðan bata elsku barnið mitt.
Mamma.
(Eins og áður hefur komið fram var hann svo tekinn úr meðferðinni og settur tinn í fangelsi. Svo það reyndi aldrei á að hann stæði sig í það skiptið).
Ísafirði 15. janúar 2003.
Hæ elskan.
Þakka þér fyrir síðast. Ég vona að þér líði vel, eða eins vel og hægt er miðað við aðstæður.
Ulfur litli var alveg ákveðinn í gær, hann vildi sofa heima hjá ömmu og afa. Það var ekkert mál. Hann var mjög góður á leiðinni heim, svaf heilmikið, og spjallaði svo á milli.
Við vöknuðum hress í morgun og ég fór með hann á leikskólann.
Hann bað ömmu að sitja hjá sér smástund. Það er kominn tölva á leikskólann, og hann er mjög spenntur að komast í hana.
Hann er fljótur að læra á svoleiðis græjur.
Það er kominn snjór ekki mikill en samt svona til að hylja jörð. Það á að rigna aftur eftir helgina.
Pabbi þinn hafði mestar áhyggjur af veðrinu þegar við fórum heim, því það var sagt í fréttum að það væri éljagangur á Vestfjörðum, en það kom ekki eitt einasta snjókorn á leiðinni. Enda eins gott, við vorum með fullan bíl af dóti. Bæði inni og á pallinum.
Ég er kominn með vottorðin, ég ætla að fara með þau á Skóla- og fjölskylduskrifstofuna á morgunn. Héðan er sem sagt allt gott að frétta, og okkur líður vel.
Við pabbi erum stolt af því hvað þér gengur vel, og vonum að þú sért ákveðinn í að halda því striki, því ef þú tekur eitthvað í þig, þá er alveg öruggt að þú getur gert það sem þú vilt.
Þú hættir þá ekki fyrr en þú hefur náð því marki. Þú hefur alltaf verið svona, en það er bara svo sjaldan sem þú vilt eitthvað, og oftast hefur það verið rangir hlutir sem þú vilt.
En núna loksins ertu kominn á góða braut, og ég vil endilega að þú fáir tækifæri til að halda því til streitu og ljúka þeirri vinnu af.
Vertu bless í bili ljósið mitt kveðja mamma.
(það var svo ekki tekið neitt mark á vottorðum hjá Fangelsismálasfonun. Þau eru bara fyrir aðra).
Elsku Júlli minn. Mér skilst á pabba þínum, að þú hafir orðið reiður og ekki viljað tala við hann í gær. Þegar hann reyndi að tala við þig. Ég vil að þú vitir að við elskum þig bæði mjög mikið. Pabbi þinn líka. Við elskum drenginn okkar. En það er fíknin og sá maður sem blasir við þegar þú ert í neyslu, sem erfitt er að þola. Pabbi þinn reyndar með styttri kveikjuþráð þar en ég. Þú verður líka að skilja, að þegar þú ert í neyslu, þá er ekki auðvelt að hafa þig inn á heimilinu. Núna síðast tók út yfir allt. Því þú varst snuðrandi í hverju skúmaskoti, og tókst það sem þú vildir. Það var erfitt. Mest sé ég eftir Rafhjartanu sem Ingi Þór gaf még í afmælisgjöf. Ég vona að þú hafir ekki fargað því, og getir skilað því aftur til mín.Samt eru munir og peningar bara dót. Og mestu skiptir ef þú nærð heilsunni aftur, og kemst á þann stað að geta lifað með okkur í fjölskyldunni. Það yrði okkar besta gjöf. Við viljum styðja við bakið á þér, og hjálpa þér eins og við getum. En við ætlum ekki að vera meðvirk, og láta þig, og fíkn þína stjórna lífi okkar lengur. Hún er búin að gera það alltof lengi. Ég vona að þú skiljir það. Við höfnum þér alls ekki, þvert á móti, viljum við allt gera til að hjálpa þér. En ekki að snúa lífinu á hvolf. Þetta er samt ekki eingöngu okkar ákvörðun. Heldur segja þau á Félagsmálastofnuninni, að drengurinn okkar allra, þurfi frið til að aðlagast okkur og heimilinu. Þau segja að þó þú sért kominn úr meðferð, fullur af vonum um að vera hættur, þá sé það ekkert garantí, og enginn geti með sanni fullyrt að þú fallir ekki aftur. Úlfur litli er í stór hættu, vegna þess að það er alltaf verið að tæta hann sundur. Foreldrar hans að falla, hætta í meðferð og slíkt. Þú munt auðvitað alltaf vera velkominn inn á heimilið og getur borðað með okkur, og slíkt. En þú verður að undirbúa þig undir að búa annarsstaðar. Þú hefur líka gott að þeim þroska sem kemur með því að læra að vera sjálfstæður og búa einn. Við pabbi þinn munum útbúa heimili fyrir þig. Annað hvort fá íbúð hjá bænum, eða bjarga því á einhvern hátt annann. Það getur verið spennandi líka, að vera í sínu eigin heimili. Elsku Júlli minn, við erum bæði skíthrædd um að meðferðin sem þú fórst í, sé ekki til að ná þér raunverulega upp, heldur meira svona til að friða okkur. Ég vona að það sé ekki reyndin. Og svo sannarlega vona ég að þú náir þér á strik. En nú er komið að þér að sanna það fyrir okkur öllum. Ég vona líka að þú sért viðbúin því, þegar þú kemur heim, að þurfa að standa á eigin fótum. Með aðstoð okkar auðvitað. En mest þarftu að standa á þínum eigin fótum. Það er líka það eina raunhæfa leiðin þín til bata. Þú ert í eðli þínu sjálfstæður, og hefur alltaf viljað fara þínar leiðir þess vegna hlýtur að vera erfitt að vera alltaf upp á aðra kominn. Nú þegar þú hefur náð þér á strik aftur, tekur við tímabil þar sem þú lærir að standa á eigin fótum. Ég er búin að vera að ganga til sálfræðings, aðstæður mínar, hafa verið þannig að ég get ekki tekið mikið meiri áföllum í lífinu, án þess að veikjast. Þetta er komið nóg. Þar kemur margt til Júlli minn, ég er ekki að kenna þér um neitt í því sambandi.
Það breytir samt ekki því að ég og pabbi þinn elskum þig , og við munum standa við hlið þér, þú verður alltaf barnið okkar, hvað sem tautar og raular. En það er kominn tími til að ýta unganum út úr hreiðrinu. Og það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Ýta þér út úr hreiðrinu, til að þú getir tekið flugið sjálfur, einn og áháður, þegar sá tími kemur.
(Hér byrjaði hans raunverulega uppbygging upp á nýtt og besta tímabilið í lífi hans. Hann var á Hlaðgerðarkoti í nokkrar vikur, og fékk síðan vinnu í eldhúsinu þar að kokka. En hann var alltaf góður kokkur. Elsku drengurinn minn. og eftir þetta fæddist honum seinni sonurinn yndislegi Sigurjón Dagur.) Við foreldrar megum aldrei gefast upp. En við megum heldur ekki láta fíkilinn eyðileggja líf okkar og heilsu. Það er þarna mjó lína sem þarf að feta. Sú mjóa lína skilur að kærleikan annars vegar og örvæntinguna hins vegar. Þessi pistill var skrifaður um þetta leyti, því miður vantar ártalið en það eru svona fimm ár síðan.
Göngum til góðs fyrir alla.
Fíkniefnaheimurinn er dimmur dalur, og alltof fáir gera sér grein fyrir hversu illur.
Þar finnst mér ekki hafa verið lagðar réttar áherslur.
Það er alltaf verið að eltast við þá sem eru neðst í þrepinu, og þeir meðhöndlaðir sem glæpamenn, þegar þeir eru í raun fórnarlömb. Oft hjálparvana og sjúkir.
Það er augljóst að það eru þeir sem brjótast inn og stela lyfjum og eignum annara til að fjármagna neyslu. Á meðan menn hugsa þessi mál ekki í samhengi þá munum við aldrei getað náð tökum á vandanum.
Það þarf að einhenda sér í að ná þeim sem stjórna þessu spili.
Ná til þeirra sem eru efst í skalanum. Alla vega ef menn vilja ná árangri.
I mörgum löndum eru lögreglumenn hættir að elta ólar við smákóð sem eru með 0,eitthvað grömm í vasanum, rétta yfir þeim og stinga þeim inn, og yfirfylla fangelsin, það veldur bara meiri kvöl og fleiri innbrotum.
Þessir menn þurfa hjálp og meðferð en ekki fangelsi. Sem betur fer er skilningur að aukast á þessu, og yfirvöld aðeins farinn að hugsa málin upp á nýtt.
Orka lögreglunnar á að fara í að finna þá sem fjármagna og stjórna innflutningi á eitrinu.
Eftir því sem tíminn líður verður erfiðara að eiga við vandamálin. En þarf það að vera svo? Þurfum við að búa við þetta í svona miklum mæli í okkar litla landi.
Eg hef sagt það áður og segi það enn, neytendur götunnar eiga ekkert erindi í fangelsi, þeir eiga að dæmast inn á stofnanir sem aðstoða þá við að komast út úr vítahringnum.
Þar þyrftu að vera geðlæknar, félagsfræðingar og hjúkrunarfólk sem þekkir til vandans. Auk þess þarf að hlú að þeim meðferðarheimilum sem þegar eru starfandi.
Hversvegna er svo lítið hugað að þessu.
Kring um hvern fíkniefnaneytanda er stór hópur fólks; foreldrar, systkini, afar, ömmur og aðrir nákomnir, sem þjást og geta voða lítið gert.
Það er líka erfitt að fá nein svör um hvað hægt sé að gera og hvert á að leita. Það er enginn opinber aðili sem maður getur snúið sér til.
Hver vísar á annann.
Þetta hef ég sjálf upplifað.
Maður hrópar út í tómið og fær loðin eða enginn svör.
Á endanum verður maður svo brotinn og þreklaus að það má líkja við druknandi mann.
Hafa menn gert sér grein fyrir hver dýrt þetta er, allir peningarnir sem fara í lögreglurannróknir, eignatjón, jafnvel limlestingar og dráp.
Ekki mun þetta batna ef ekkert er að gert.
Það er líka hræðilega dýrt þegar menn sjá enga leið út úr ógöngunum aðra en að taka sitt eigið líf.
Við verðum að skilgreina hvað eru glæpamenn og hvað eru fórnarlömb, og vinna okkur út úr vandanum samkvæmt því.
Hluti af vandamálinu er að foreldrar veigra sér við að segja til barnsins síns, vegna þess að þau vita að það varðar fangelsi og þungum sektum.
Ef þetta ber á góma á heimilinu, þá kemur unglingurinn oft inn sektarkennd hjá foreldrinu.
Ef þú segir til mín, þá lendi ég í þessu og þessu.
Svo einfaldasta leiðinn er að þegja og borga.
Ef menn hættu að eltast við þetta neðsta þrep stigans, sem gerir ekkert, nema auka eftirspurnina og auka markaðinn fyrir salana, þá væri þessu kaleikur tekinn frá fólki, og orka löggjafans færi í að eltast við hina raunverulegu glæpamenn.
Eg er reyndar komin á þá skoðun að það sé rétt að leyfa notkun á vægari efnum eins og hassi.
Þá myndi hrynja ansi mikið utan af glæpamönnunum. Það er eins með fíkniefni og vín og sigarettur, það er ákveðinn hópur sem ánetjast og aðrir ekki.
Það geta hvort sem er allir nálgast efnin, en með því að banna þau, er skapaður kjörinn gróðavegur fyrir óprúttna aðila að nota sér neyð annarra.
Svo er önnur vá sem er líka til staðar, en það er svokallað læknadóp, sem í síauknum mæli er í umferð, og fólk er farið að nota meira vegna þess að það er ekki á bannlista lögreglunnar, en er ávísað af læknum og öðrum sem hafa aðstöðu til að komast yfir þau og selja öðrum.
Mér lýst vel á að fólk sé að stofna samtök gegn handrukkurum, en það er bara hluti af vandamálinu, og við þurfum að taka á málinu í heild sinni og stofna þrýstihóp sem getur unnið að því að veita yfirvöldum aðhald og hvetja til að þessi mál séu tekinn föstum tökum.
Með kveðju Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Mín kæru, ég er reyndar alveg búin eftir þessar yfirlýsingar. Ég vona að ég sé að gera rétt með þessu. En það er ekki hægt að þola þetta ástand öllu lengur. Og hver og einn einasti sem fer er of dýrmætur. Ég veit að það er víða pottur brotinn, og margir sem eiga við hugsunarleysi og sárt að binda. En ofan á þá neyð bætist hjá þessum hópi fyrirlitning, skeytingaleysi og hrein mannvonska oft á tíðum sem er algjörlega óþolandi.
Ég þekki þó nokkra sem hafa lent í þessum kóngulóarvef. Þau eru öll ljúflingar. Þau eiga flest samt eitt sameiginlegt, þau hafa þurft að horfast í augu við höfnun og fyrirlitningu. Þau bera þess merki. Þess vegna hafa þau skapað sér sinn eigin heim, þar sem þau reyna að standa saman. Þetta verður svo til þess að þau fjarlægjast okkur hin. Og þau skapa sér eigin reglur og viðmiðanir. Þetta á ekki að þurfa að vera svona. Þau þurfa að læra að lifa í okkar veröld og vera hluti af samfélaginu. Hér þarf að rannsaka á hvern hátt er hægt að breyta þessu.
Drengurinn minn þurfti svo sannarlega að ganga þrautargönguna alveg niður í svaðið. En honum tókst líka að vinna sig til baka. Hann vildi ekki flýja af hólmi heldur tókst á við líf sitt í heimabyggð, og vann úr því sem misfarist hafði. Hann nýtti það sem eftir var af hans allof stutta lífi til að vera til staðar fyrir aðra sem áttu bágt. Ég er alltaf að heyra frá fleiri sem bera honum fallega sögu. Og margir sem hafa fengið lítinn fisk í lófa til gæfu og hughreystingar. Eða boð um aðstoð eða bara vænt um þykju sem hann var svo ríkur af þrátt fyrir allt.
Þessi öðruvísi börn okkar eru erfið oft á tíðum. En þau geta líka gefið okkur frið og hamingju, kennt okkur að meta lífið öðruvísi. Því má ekki gleyma.
Eitt sem samt alveg víst, við sjálf getum gert heilmikið með því að vera til fyrir þau og elska þau og það sem mest er um vert láta þau vita af því að við elskum þau. Kærleikurinn getur yfirunnið allt.
Megi allir góðir vættir vaka með okkur öllum og vernda. ég veit að elskulegi sonur minn hefur nú verið kallaður til starfa á öðrum vettvangi til að hjálpa þeim sem á eftir honum koma. Það var alltaf hans fyrsta hugsun að vernda þá sem hann taldi að myndu reyna að feta þá braut sem hann fór. Engum vildi hann að upplifa það.
Og engu foreldri vil ég svo illt að þurfa að ganga þessa braut, hún er erfið og skilur eftir sig ör í sálinni. Ekki vegna barnanna sjálfra, heldur vegna ástandsins, skilningsleysisins og hörkunnar hjá þeim sem ráða þessum málum og þess dimma og ömurlega undirheims sem hefur þrifist í skjóli okkar velferðarþjóðfélags. Það þarf átak til að koma því til skila að þetta bara gengur ekki lengur árið 2009.
En ég ætla að týna brotin saman af sjálfri mér og fara í göngutúr. Eigið góðan dag mín kæru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
15.10.2009 | 13:21
Kúlulíf.
Lífið heldur áfram og nú þarf að huga að mömmu sem getur ekki verið hjá börnunum sínum vegna skólagöngu.
En ég segi nú bara; Guði sé lof fyrir þessa yndislegu gleðigjafa.
Það er kúl að renna sér niður handriðið og kalla svo í afa til að hjálpa sér niður.
Sumar fyrirsætur eru dálitið feimnar, og þá er bara að loka augunum og þá er allt í lagi.
Nýja pelsatískan hjá ungfrú Hönnu Sól.
Hann verður reyndar ekki krónprins, vegna þess að hann er síðastur í röðinni, litla barnið hennar mömmu sinnar og pabba.
En prinsessur geta samt borið kórónur, þó þær séu ekki elstar.
Súpudagur í kúlunni.
Og sumt er bara ógislega fyndið.
Það er gaman að teikna, en það þarf að passa vel upp á þennan æringja, því hún vill helst krassa á borð og veggi, blað þvælist bara fyrir.
Og hér er nýja vetrarlína Hönnu Sólar. Hlýtt og gott, hlýjir litir og notalegt í kulda.
Hér er svo sparifötin. Hitt var svona meira mömmó.
Knús á ykkur öll þarna úti vinirnir mínir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
15.10.2009 | 09:34
Nokkur bréf.
Það eru endalaus bréf sem ég hef undir höndum. Ég hugsa að innst inni hafi ég skilið að okkur Júlla væri ætlað erfitt hlutverk. Þess vegna passað upp á flest af því sem fram fór. En svona er lífið.
Samt vil ég taka fram að drengurinn minn var laus úr öllum leiðindamálum þegar hann dó. Komin með hreint sakarvottorð sem var honum mikils virði. Og skildi eftir sig tvo yndislega drengi öll listaverkin sín og góðar minningar hjá svo mörgum.
En ég held að þetta geti gefið dálitla innsýn í heim sem við þurfum að glíma við aðstandendur og foreldrar. Því börnin okkar eru of brotin til að gera neitt í sínum málum sjálf. Þau vita auk þess að það er hvorki hlustað á þau né tekið mark á þeim hvort eð er.
Ísafirði, 18. nóvember 2002.
Fangelsismálastofnun b.t. Erlendar Baldurssonar.
Borgartúni 7,105 Reykjavík.
Ég vil þakka bréf þitt dag. 12. nóvember 2002. En ég vona að það verði hægt að vinna þetta mál áður en drengnum er gert að fara í fangelsi. Eg undirrituð móðir hans og forráðamaður tel að það verði einungis til að eyðileggja það uppbyggingarstarf sem þegar hefur áunnist með hann, að loka hann inni í fangelsi. Þess vegna bið ég um að málið verði kannað betur áður en gengið verið að honum til að setja hann í fangelsi. Öll brotin sem hann framkvæmdi voru gerð í vímu og ölæði. Þar áður var hann búin að standa sig vel í nokkra mánuði. Júlíus hefur aldrei áður farið í langtímameðferð, og nú held ég að hann sé ákveðinn í að standa sig. Hvort það reynist rétt getur aðeins tíminn leitt í ljós. En það er alveg víst, að ef honum tekst að ganga í gegnum langtímameðferð og komast út úr vítahringnum, þá er það hvorki honum eða samfélaginu til góðs að hann verði svo settur inn í fangelsi, þar sem hann jafnvel myndi falla og öll fyrirhöfnin verða til enskis. Eins og komið var fyrir Júliusi þá myndi hann frekar flokkast undir heilbrigðisvandamál en lögreglumál. Eg ber þá einlægu ósk fram að þessi mál verði könnuð og unnin út frá því hvað er best fyrir hann og samfélagið.
Virðingarfyllst, __________________________________
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Afrit sent: Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar
.Hallgrími Kjartanssyni heimilislækni Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.
Meðferðarfulltrúum sjúkraheimilinu Vogi Stórhöfða 45, 110 Reykjavík.
Ísafirði 2. janúar 2003.
Fangelsismálastofnun ríkisins
b.t. Hafdísar Gunnarsdóttur Borgartúni 7
105 Reykjavík.
Varðar Júlíus Kristján Thomassen kt. 080769-3269.
Samkvæmt bréfi yðar frá 18. desember hefur Júlíusi verið gert að mæta í Hegningarhúsið að Skólavörðustíg 9, Reykjavík miðvikudagin 8. janúar nk.
Þar sem Júlíus er sviptur forræði og undirrituð hef með höndum forræði hans, vil ég tilkynna að hann er í meðferð á Staðarfelli, búinn að vera í meðferð síðan 29. október. Honum hefur gengið vel og ég mun reyna að vinna að því öllum árum að hann verði þann tíma í meðferð sem hann þarf. Ég mun einnig reyna að vinna að því að hann fái að afplána dóm sinn í meðferð, þar sem ég er fullviss um að fangelsisvist muni einungis brjóta niður alla þá uppbyggingarstarfssemi sem áunnist hefur með hann undanfarna mánuði.
Þetta tilkynnist yður hér með.
Virðingarfyllst, ______________________________________ Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ísafirði, 2. janúar 2003.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Arnarhváli101 Reykjavík.
Varðar Júlíus Kristján Thomassen kt. 080769-3269 v/dóms nr. 96/2002
Ég undirrituð forráðamaður Júlíusar K. Thomassen, óska hér með eftir að sakarkostnaður að fjárhæð 346.490.- ferði felldur niður. Til rökstuðnings þessa vil ég tilgreina að Júlíus, hefur ekki haft neina vinnu í marga mánuði, hann er búinn að vera lengi í fíkniefnaneyslu, og hefur enginn tök á að greiða þessa fjárhæð, í nánustu framtíð. Brotinn sem hann framdi voru flest framinn á stuttum tíma til að fjármagna fíkniefnaneyslu. Hann er nú staðráðinn í að taka sig á og er búinn að vera í meðferð síðan 29. október. Fyrst á Vogi en síðan á Staðarfelli. Fjárhæð eins og þessi gæti átt sinn þátt í að gera að engu þá fyrirætlan hans að verða nýtur þjóðfélagsþegn. Því nógu erfitt er að koma skikki á líf sitt, og ná sér á strik.
Virðingarfyllst,
__________________________________________
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, kr. 110944-4469.
Ísafirði, 7. janúar 2003.
Elsku Júlli minn.
Eg er búinn að vera í sambandi við marga í morgun, það er víst enginn leið að komast hjá fangelsi, en það er samt sem áður allt frekar jákvætt í kring um þig núna. Eg talaði bæði við Margréti Geirs og Sigríði sýslumann. Þær höfðu báðar samband við Erlend og hann lofaði þeim báðum að það yrði allt gert til að hjálpa þér. Einnig sögðu þær að Olafur hefði gefið þér góða umsögn til Erlendar, og það mun vega þungt að þú kemur inn hreinn. Margrét sagði að þau hjá fangelsismálstofnun hefðu sagt að ef þú værir jákvæður sjálfur þá yrði allt gert til að hjálpa þér, það væri til aðstoð innan fangelsis stofnunarinna, og það yrði tekið til fullt tillit til aðstæðna. Þannig að nú er bara að halda ró sinni og vera jákvæður. Mig er búið að dreyma mömmu svo mikið undarfarið, ég vissi að hún vildi segja mér eitthvað og láta mig vita að hún væri með mér. Einnig amma og afi. Þannig að ég veit að allar góðar vættir eru með þér. OG eftir að þú ert búinn að ganga í gegnum þetta allt, og ef þú kemur heill út úr því þá liggur heimurinn opinn fyrir þér. Þú verður að trúa því. Ég ætlaði að rjúka af stað í fyrramálið til að koma með Ulfinn, en þeir á Staðarfelli ráðlögðu mér að koma ekki fyrr en á Sunnudag. Þá komum við Úlfur og pabbi, við ætlum að hitta þig og megum dvelja a.m.k. tvo tíma. Elsku strákurinn minn þetta fer nú senn allt að komast í betra horf. Og allt veltur þetta á þér sjálfum. Ef þú ert jákvæður þá verður allt jákvæðara í kring um þig. Þú þarft að nota eðlilegan sjarma þinn á kerfiskallana, það virkar örugglega. Þú verður líka að byggja sjálfan þig upp og láta ekkert spilla því sem áunnist hefur. Ég veit að þér tekst þetta. Ég ætla ekki að gera neitt sem getur spillt fyrir þér. En ég fylgist vel með og stend með þér, meðan þú vilt sjálfur láta hjálpa þér. Upp með góða skapið vinur og þetta líður allt saman hjá. Hugsaðu um þegar þú getur loks verið frjáls maður og laus við eitrið og vanlíðanina. Laus við alla fjötra og getur verið eins og hinir. Tekið bílpróf, keypt þér bíl og leigt íbúð, unnið eins og maður og lífið brosir við þér. Þetta er allt saman bara rétt handan við hæðina, en það er þar örugglega. Það er það sem þú þarft að hafa í huga. Bless í bili vinur og hér biðja allir að heilsa. Knús og koss frá mömmu.
Já það er margt mannana bölið. Ég vil að það sé hugað að framtíðarstefnumörkun í málefnum barnanna okkar sem hafa lent á hliðarspori og geta ekki komist þaðan sjálf. Það þarf að taka tillit til aðstæðna og kanna hvaða möguleika er hægt að bjóða upp á. Svona bara gengur ekki lengur. Þetta er ekki leiðin.
Eigið góðan dag mín kæru og megi allir góðir vættir vaka með ykkur öllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.10.2009 | 18:55
Um dyrnar læðist huggun kær. Svo hljóðlát, ég vil þakka.
Frammi við útidyrnar okkar fundum við pakka nú rétt áðan. Hann hafði verið lagður þar hljóðlega. En innihaldið var svo fallegt að ég held að ég vilji deila því með ykkur kæru vinir.
Yndislegt ljóð. Og í anda sonar míns.
Þetta allt vil ég tileinka öllum sem eru í sárum í dag.
Júlli minn algjörlega í hnotskurn.
Innilega takk fyrir þetta.
Elskulegu Kristný og Valdimar, sem tókuð ykkur tíma til að finna þessi fallegu ljóð til að hugga og gleðja, ég er innilega þakklát.
Og auk þess var Úlfur Ragnarsson kær vinur sem ég virti mikils.
Innilega takk fyrir mig. Og ég birti þetta hér til að geta huggað fleiri sem eiga um sárt að binda.
Megi allir góðir vættir vaka með ykkur og vernda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
prakkarinn
-
katrinsnaeholm
-
jensgud
-
matthildurh
-
jenfo
-
kiddat
-
hronnsig
-
katlaa
-
katagunn
-
kolbrunb
-
joiragnars
-
birgitta
-
holi
-
rs1600
-
ktomm
-
heidathord
-
vestfirdir
-
steina
-
laufeywaage
-
maggadora
-
lehamzdr
-
icekeiko
-
isdrottningin
-
skaftie
-
hneta
-
hross
-
amman
-
johanneliasson
-
helgamagg
-
zeriaph
-
olafia
-
jogamagg
-
tigercopper
-
ellasprella
-
zumann
-
estro
-
sjos
-
gmaria
-
gudr
-
ktedd
-
salvor
-
bertha
-
solisasta
-
meistarinn
-
baenamaer
-
sirrycoach
-
annalilja
-
komediuleikhusid
-
tildators
-
hector
-
bene
-
skelfingmodur
-
fifudalur
-
xfakureyri
-
madddy
-
siggith
-
antonia
-
elina
-
rosaadalsteinsdottir
-
framtid
-
annaragna
-
sirri
-
thjodarsalin
-
bestalitla
-
helgatho
-
jyderupdrottningin
-
hallaj
-
ingistef
-
gudruntora
-
zunzilla
-
sisvet
-
aevark
-
bostoninga
-
ace
-
drengur
-
robbitomm
-
faktor
-
disag
-
ffreykjavik
-
ma
-
rannveigh
-
igg
-
robertb
-
sgisla
-
rafng
-
helgi-sigmunds
-
lotta
-
fullvalda
-
heimssyn
-
naflaskodun
-
johannesthor
-
jeg
-
huxa
-
sigrunzanz
-
jodua
-
tryggvigunnarhansen
-
minos
-
saemi7
-
blossom
-
ansigu
-
skagstrendingur
-
beggo3
-
h2o
-
westurfari
-
ammadagny
-
bjartsynisflokkurinn
-
elfarlogi
-
esig
-
sunna2
-
frjalslyndir
-
gudlaugbjork
-
gp
-
hreinn23
-
guki
-
gustafskulason
-
harhar33
-
diva73
-
huldagar
-
kliddi
-
axelma
-
keli
-
bassinn
-
jonvalurjensson
-
josefsmari
-
kuldaboli
-
kiddatomm
-
ksh
-
kristjan9
-
mio
-
omnivore
-
sumri
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
nafar
-
stjornlagathing
-
sattekkisatt
-
athena
-
tikin
-
vallyskulad
-
vest1
-
totibald
-
tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.5.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar