Jæja þá er það orðið ljóst að stjórnin er farin frá.

Nú mun koma í ljós hvað verður næsta skref.  Ég vona bara að menn muni kosningaloforðin sín.  Og fari ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum nema að tryggt verði að velferðamál verði sett á oddinn, svo og sjávarútvegsmál og skattamál.  Ég ætla allavega að krossa putta og tær.  Megi það besta koma út úr þessu öllu saman til heilla fyrir land og þjóð. 
mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kemur ekki á óvart.

Greinilega beðið með þetta þangað til eftir kosningarnar.  En mig langar til að spyrja Einar Odd að því hvort það sé satt sem hefur flogið hér fyrir að hann hafi nýlega fengið lán og keypt kvóta fyrir um milljarð króna?  Það væri bara gott fyrir hann að fá þetta út af borðinu ef það er ekki rétt.  En þetta gengur manna á meðal.  Eins og menn vita er erfiðara að bera af sér slíkt, en ef menn eru hreinlega spurðir.

En þessir atburðir eru ekki nýjir, þetta er hlutur sem hefur verið að versna síðan smábátarnir voru kvótasettir.  Þegar Einar Oddur og Einar Kristinn gengu hér hús úr húsi og lofuðu að þeir myndu mótmæla því að smábátar yrðu kvótasettir, og hvað svo.  Jú mér er sagt að afgreiðslan í þinginu hjá Einari Oddi hafi verið; að hann væri nú á móti kvótasetningunni, en af tillitssemi við vin sinn sjávarútvegsráðherrann þá væri svarið já. 

Það væri gaman að fá að vita það hve mörgum milljörðum hefur verið sóað í sjávarútveginum vegna brottkasts og allskonar svika útgerðarmanna.  Sem þeir hafa neytt sjómenn til að taka þátt í.  Allt vegna þess að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi er kolvitlaust innbyggt.  Og menn oftar en ekki að reyna að bjarga sér.  Enda er skekkjan innifalin í kerfinu sjálfu.

Íslendingar segjast gjarnan á góðum stunum vera víkingar, þeir berja sér í brjóst og fullir stolti.  En í raun og veru er meirihluti þjóðarinnar þýlynt hyski, sem skoðar ekki málin og gerir bara eins og þeim er sagt.  Hver kannast ekki við frasana; Vinstri stjórnir eru óreiðustjórnir.   Eða Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem getur stjórnað landinu.  Eða, það verður ræðilegt ef stjórnarandstaðan kemst að.  En því miður þá voru líka menn og konur í Samfylkingu og Vinstri grænum sem hafa talaði niður til Frjálslyndra og rakkað þá niður af ósekju, og borið þeim á brýn allskonar ljóta hluti.  Þó þeir hafi hvergi getað sannað slíkt.  Talað niður til þingmanna flokksins og allra sem í honum eru.  Talað um að þeir væru ótrúverðugir og rasistar og allskonar slík ónefni sem eru alveg hrópandi lygi og óréttlæti. 

Ég fullyrði að allir þeir sem nú komust inn  sem alþingismenn fyrri Frjálslynda flokkinn og einnig Magnús Þór og Sigurjón Þórðar, líka Þórunn Matthíasdóttir, Ragnheiður Ólafsdóttir og Hanna Birna Jóhannsdóttir og  Stella Steinþórsdóttir (en þau eru fólk sem ég þekki best til og hef heyrt mest til), hafa talað af einurð um málefni sín og verið sjálfum sér samkvæm í hvívetna. Þetta er að öllum öðrum frambjóðendum ólöstuðum.   Fólki mitt hefur ekki fengið að njóta sannmælis, og reynt að þagga niður málflutning þeirra, hvers vegna veit ég ekki.  En það mun breytast.

Nú er að sjá hvað gerist næstu mánuði og ár.  Það er ef til vill það besta að þessi ríkisstjórn sitji áfram, hún getur þá engum kennt um nema sjálfri sér ef allt fer í kalda kol. 

Það virðist ekki langt í að margar byggðir leggist í eyði vegna stjórnarhátta þessara herra.  Það má ekki mikið út af bera héðan í frá.  En svo má benda á að það er nú einmitt stefna þeirra.  Ef marka má skýrslur frá Jóni Sigurðssyni  um borgríki og hvernig sjálfstæðismenn tala.  Borgríki er draumurinn.  Landsbyggðin getur bara verið til að taka á móti ferðamönnum 3 mánuði á ári.  Og svo má hún eiga sig. 

Já ég er reið, ég er reið því fólki sem gerir þessum mönnum kleyft að sitja ár eftir ár, og murka lífið úr landsbyggðinni.  Nema þeim héraðshlutum þeirra þaðan sem þeir eru, þangað sem ráðherrar hafa dregið öll þau störf sem þeir hafa getað í sína heimabyggð, samanber landbúnaðinn á  suðurlandið og ýmis sprotafyrirtæki norður.  enda var auglýst að Valgerði væri best treystandi til að sjá um uppbyggingu á landsbyggðinni.   Ég hélt satt að segja að þetta væru andstæðingar flokksins að auglýsa þeim til háðungar.   En svo var greinilega ekki.  Ég tel sjávarútvegsráðherrann ekki með í þessu dæmi.  Hann hefur frekar greitt fólkinu sínu náðarhögg, heldur en hitt.  Og huggar það svo bara með því að þetta sé tímabundið. 

Okkur er sagt að fiskurinn í sjónum skipti engu máli lengur.  Við eigum að snúa okkur að öðru ferðamennsku og slíku.  Samt er aðbúnaðurinn þannig að túristar forðast að koma nema nákvæmlega þeir sem sækjast í óbyggðir og ævintýri.  Vegirnir og umferðin er þannig.  það er tildæmis ekki hægt að komast milli suður og norður svæðis Vestfjarða nema nokkra mánuði ári. Flutningskostnaður er þannig að við erum ekki samkeppnishæf. 

Ég vil ráðleggja Vestfirðingum að stofna sjálfstætt ríki.  Taka sig saman og losa okkur undan þessu fargi.  Verða okkar eigin herrar.  Ná vopnum okkar þannig.  Aðrir hafa makað krókinn vel á þeim auðlindum sem okkur ber í raun og veru. 

Boltinn er lagður af stað, hann mun fara með  vaxandi þunga héðan í frá.  Enginn veit hvar hann endar.  En þegar lífsafkomu manns er ógnað, þá hlýtur maður að standa upp og segja hingað og ekki lengra.  Annars er maður ekkert annað en ég sagði hér á undan þýlynt hyski, sem kyssir á vöndinn endalaust.   

Ég fæ sjálfsagt bágt fyrir að tala svona.  En það verður þá bara að hafa það.  Það var einu sinni keisari sem lét sauma á sig dýrindis föt.  Fötin saumuðu svikahrappar sem einungis vildu græða á honum.  Þess vegna þóttust þeir spinna honum dýrustu klæði.  Þegar hann sá ekki fötin, sögðu þeir honum að það væri einungis þeir heimsku sem ekki sæju þetta.  Hann var ánægður með það og hann og öll hirðin dáðist að fötunum flottu.  Síðan fór keisarinn í bæinn til að spóka sig í fötunum og allir dáðust að þeim, þangað til ein lítil stúlka hrópaði upp yfir sig Mamma Mamma maðurinn er nakinn. 

Ég ætla að gera þessi orð að lokaorðum mínum í þessum pistli.  Og hef þá lokið að ræða kosningarna, sem mér finnst hafa komið óréttlátlega út.  Þeir mega taka þetta til sín sem vilja.

Þetta var reyndar sálarhreinsandi og sennilega bara betra en stólpípuaðferð ákveðinar konu.  Eigiði góðan dag. Smile


mbl.is Kambur á Flateyri að selja kvóta og skip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallegur dagur og sól.

Ég er rosalega upptekinn þessa dagana.  Það er svo margt sem þarf að gera, til að geta opnað garðplöntusöluna.  Og svo þarf að huga að opnum svæðum í bænum.  Áður en gróðurinn fer á fulla ferð. 

Sonur minn ætlar að koma með barnabörnin og við ætlum að grilla saman, ég er búin að kveikja upp í grillinu.  Smánæðisstund áður en ljúflingsskriðan skellur á.  Heart

Hann er forsjárlaus faðir og fær að hitta börnin sín einu sinni í mánuði held ég, eða hálfsmánaðarlega.  Þetta er erfitt, því móðirinn flutti til Reykjavíkur, tímabundið vonandi.  Og þar af leiðandi ekki mikill samgangur.  Þau missa því heilmikið af pabba sínum sem vonlegt er.  En ég vona að það rætist úr.  Það er ótrúlegt hvað svona umgengnismál geta þvælst fyrir fólki.  Sorglegt bara.

En ég gróðursetti nokkur tré og runna í dag, sem ekki eru söluhæf, en ég veit að verða falleg tré, með tímanum.  Tíminn vinnur með þeim.  Það er eins og með fólkið, maður á ekki að spá í útlitið, það segir aldrei allt.  Heldur kraftinn og orkuna í viðkomandi.  Gefa öllum tækifæri til að vaxa og dafna.  Ekki dæma úr leik fyrirfram.  Það er mitt mottó. 

Fólk gleymir stundum að tré og plöntur eru lifandi verur rétt eins og aðrir.  Þau geta ekki fært sig úr stað, en þau geta samt hreyft sig.  Ef maður hefur stofuplöntur í glugga, getur maður séð það því blöðin snúa sér alltaf í áttina að ljósinu.  Það hafa líka verið gerðar rannsóknir á plöntum, og það er fullyrt að þær bregðist við tilfinningum.  Til dæmis las ég einhverntíma að stofuplöntur brugðust við ákveðnum manni í morðmáli, sem var álitinn morðinginn.  Í hvert sinn er þessi maður val látinn fara inn í herbergið var hægt að mæla viðbrögð plantnanna.  En þær voru ekki taldar trúverðugt vitni.  Einnig er sagt að grænmeti æpi þegar það er skorið niður.   Eitt er líka ljóst að ef upp kemur sjúkdómur í skógi, þá hafa trén sem standa lengra inn í skóginum unnið sér inn vörn gegn sjúkdómnum, þegar hann nær inn til þeirra.  Einnig er það svo að grenitré sem verða fyrir hernaði sitkalúsar koma sér upp vörn fyrir henni árin á eftir. 

Öll náttúran er auðvitað lifandi og tilfinninganæm.  Plöntur eru með græn korn í staðin fyrir rauðu blóðkornin okkar, þau hafa frumuupbyggingu á svipaðan hátt og við.  Og þær hafa æðar sem bera súrefnið niður frá krónunni til rótanna, og líka æðar sem bera steinefni og næringu frá rótinni og upp í krónuna.  Alveg eins og við höfum ósæðar og bláæðar.  Enda deyja tré ef börkur þeirra er skorin allan hringinn.  Þeim einfaldlega blæðir út.

Okkur hættir til að umgangast plöntur og dýr með vanvirðingu þess sem þykist vera herra jarðarinnar.  En við erum næstum sami grautur í sömu skál.  Við lifum ekki án þeirra, en þau geta lifað, og sennilega miklu betur án okkar.  Er það ekki skrýtið ?  Við hugsum ekki um það þegar við göngum yfir allt slíkt með skítugum skónum.  Og ekkert dýr eða planta er óþarfi.  Þó við látum okkur hafa það að eyða illgresi og sníkjudýrum.  Það er eiginlega sennilega vegna þess að það hefur orðið röskun í náttúrunni.  Til dæmis með of miklu eitri.  Þegar maður notar skordýraeitur, þá drepur maður líka æðri skordýrin sem lifa á sníkjudýrunum.  Eins og randaflugur, járnsmiði, maríubjöllur og slík.  En þau eru lengur að ná upp stofninum en sníkjudýrin svo þegar maður eitrar þá myndar maður meira svigrúm fyrir þær pöddur sem við viljum ekki hafa.  Þannig er í raun og veru er betra að nota ekki eitur.  Þá verður meira jafnvægi í garðinum hjá okkur.

En þetta er nú bara svona hugleiðing manneskju sem er mikið úti í náttúrunni innan um gróðurinn og dýrin, fuglarnir að byggja sér hreiður þeir dúlla sér í kring um mann, og eru fljótir að koma ef maður hróflar við moldinni, þar sem þeir eiga von á að maðkarnir komi upp á yfirborðið.  En þeir eiga sér líka óvin, því kattarskammirnar læðast um og sitja fyrir þeim á ólíklegustu stöðum.  Og sérstaklega ungunum þegar þeir reyna að fljúga í fyrsta sinn.   Svona eins og eiturlyfjabarónarnir liggja fyrir ungunum okkar á viðkvæmasta stigi til að fanga þau í fjötra.

Og lífið er ein hringrás.  Við erum partur af þeirri hringrás.  Og í staðin fyrir að trampa með ofbeldi og látum yfir það allt, eigum við að finna til auðmýktar yfir öllum þessum dásamlegu kraftaverkum allt í kring um okkur.  Bera virðingu fyrir öllu lífi, og elska og finna til með móður jörð.  

Það getur ekkert nema gert mann næmari og kærleiksríkari.  Og getur komið manni líka inn í heima náttúruvættanna, opnað manni leið og lyft tjaldinu dularfulla þar sem álfarnir og huldufólki býr, þar sem fjallatífarnir ríkja og Landdísirnar syngja sinn söng og dansa.  Glettnir fossbúar ygla sig og tröllinn sofa enn sem betur fer.  Aldrei að vita hvað gerist ef þau vakna.

Því skulum við ganga hægt um gleðinnar dyr.  Elska og virða okkur sjálf og allt í kring um okkur.  Það getur ekki gert neitt annað en að gera okkur hamingjusamari og glaðari.

Kærleiksríkar kveðjur sendi ég til ykkar, og rýk út til að athuga með grillið. HeartIMG_2296


Hún vinkona mín kom til mín.

Hún vinkona mín og samstarfskona á skrifstofunni, sú sem varði fyrir hrindingunni,  kom hingað til mín núna rétt í þessu og vildi koma á framfæri eftir farandi; Hafði þá verið spurð oní búð um þetta mál, hún er ekki með tölvu.

(Ég tek fram fyrir þá sem eru frekar einfaldið að þetta er í háði sagt);

 

Þótti mér það leitt að heyra það sagt að ég ætlaði að gera eitthvert veður útaf þessari byltu sem ég fékk.  Það er nú alls ekki svo - það er ekki venja mín að ráðast að "minni máttar".

Ég vil bara nota þetta rækifæri til að óska Sjálfstæðismönnum til hamingju með sigurinn, og ekki verður annað sagt um þá, en að þeir hafi háð "röska og drengilega" kosningabaráttu.  Eins og sönnum stríðshetjum sæmir.

 

Svo mörg voru þau orð.  Einhver hefur farið af stað með þá sögu að hún ætlaði að kæra, eða gera veður út af þessu.  En eins og ég sagði hér á undan, þá var það alls ekki svo.  Heldur einfaldlega hringdi hún í mig og sagði mér hvað hefði gerst, og ég varð reið og kom þessu áfram.  Eitthvað hefur soðið og ólgað einhversstaðar.  Því kjaftasagan var kominn í bæinn Smile Sannleikanum verður hver sárreiðastur.  Þannig er nú það.


Blóm fjöll og gott veður.

Góður dagur í gróðrinum.

IMG_4901 eins og þið sjáið þá er gróðurinn orðin bara ansi stór.  þessar elskur vaxa vel og eru farnar að blómstra.

IMG_4902 Það gægist eitt og eitt blóm upp, og er að verða tilbúið til að eiga sér líf utan við garðplöntusöluna, eða eins og þeir segja þjóðverjarnir Baumschule heitir þetta ekki líka nursery á engilsaxnesku.

IMG_4903 Stækkar dag frá degi.

IMG_4904 Svona er þetta bara. Heart

IMG_4906 Og blómstrar vel.

IMG_4907 Eins og sjá má. 

Jamm mín elskuleg allt þetta upp af litlu fræi eða græðling.  Og það er ekkert smá góð tilfinning að skapa svona upp úr nánast engu.  En það er ef til vill ekki alveg rétt.  Því ef ég hefði ekki fræ eða móðurplöntu þá væru þessar dásemdir ekki núna tilbúnar til að fara til nýrra eigenda. Grin

IMG_4908 Og svo eru stubbarnir á leið í sund, þessi litli og sá stóri. 

En eins og þið getið ímyndað ykkur þá spila fjöllin stóra rullu í mínu lífi.  Ég var tvo vetur í Garðyrkjuskóla ríkisins og þar í flatneskjunni var ég nánast lömuð.  Ég fann ekki orkuna sem ég þurfti úr landslaginu, og fannst allt svo endalaust og takmarkalaust án fjallanna.  Svona er maður háður því sem er næst manni.  Við þurfum að læra að taka mið af því, og virða það sem í kring um okkur er.  Gera það besta úr því sem þar er.  Og fyrst og fremst læra á okkur sjálf.  Læra að þekkja okkur sjálf og ekki síður að bera virðingu fyrir sjálfinu og elska það.  Því hvernig getum við elskað einhvern annan ef við elskum ekki okkur sjálf ? Það er einfaldlega ekki hægt.


Til hamingju með mæðradaginn.....

Restin af deginum var mjög ánægjuleg.  Eins og sést þá skein sólin glaðlega niður til okkar.

IMG_4831

IMG_4836 Sonur minn kom í heimsókn með eitt ömmulbarnið litla Sigurjón Dag, sem er flottur pjakkur.

IMG_4840

Og það voru blásnar sápukúlur.

Ég fór á tónleika hjá Tónlistaskólanum því eitt barnabarnið var að spila þar.  Hér er hún Sóley Ebba,  henni fannst lagið allof létt.  Og vildi fá að spila frumsamið lag.  Það verður einhvern tímann seinna.  Enda hefur hún unnið keppni í að semja lög.  Jens Guð hefur mikla trú á henni, og hann veit hvað hann syngur í músikkbransanum.

IMG_4850

IMG_4857 Það voru margir snillingar framtíðarinnar sem þarna stigu á svið og léku lög fyrir okkur. 

IMG_4853 reyndar voru þetta alveg frábærir tónleikar, skemmtileg lög og ég verð að segja að það hljóta að vera afburðarkennarar að kenna þessum krökkum, því þau stóðu sig mjög vel öll sem eitt.  Ég skemmti mér mjög vel.

IMG_4861 En nafna mín litla Evíta Cesil hún bara kúrði hjá pabba sínum á tónleikunum.  Æ það er svo gott að kúra hjá pabba.

IMG_4865 Hér eru þær systur komnar heim í kúlu til ömmu.  Það var nefnilega ákveðið að grilla saman.

IMG_4867 Stubburinn þurfti að læra, vegna þess að hann fékk leyfi til að fara í bíó að sjá Spiderman 3. aftur. 

IMG_4872 Og amma fékk sætt bros frá nöfnu sinni. 

IMG_4877 Það var líka blásnar sápukúlur.

IMG_4890 Og hver segir að sápukúlur séu ekki listaverk ?

IMG_4885 Eins og þessi hér. En líftíminn er ansi stuttur hjá þeim.  hehehe..

IMG_4898 Elskuleg fjölskylda mín frá El Salvador kom eins og þau hafa alltaf gert í þau sex ár sem þau hafa átt heima hér.  Komið með færandi hendi til mín á Mæðradaginn.  Hann er nefnilega haldinn mjög hátíðlegur það syðra.  Þau voru auðvitað boðin með í grillið.  Yndislega fjölskyldan mín.  Alejandra litla hefur verið hér í sex ár, en hún hefur ekki ennþá fengið leyfi til að búa hér.  Þó er hún eins og hvert annað íslenskt barn.  Talar lýtalausa íslensku.  Og vill hvergi annarsstaðar vera.  En hún kom bara með ömmu og afa.  Sem er ekki viðurkennt hér.  Og það er enginn ráðherra eða alsherjarnefndarfólk sem stendur að henni, þessari elsku.  Þess vegna þarf eitthvað að gerast annað til að hún fái að vera hér áfram.

Sú vinna hefur kostað fólkið mitt ómælt fé og mikla fyrirhöfn.  En svona er lífið.

IMG_4893 Hún á enga aðra foreldra en þessa og mig og minn mann sem afa og ömmu.  Ég vona að einhvern daginn sjái menn að sér og gefi henni leyfi til að eignast landvist hér. 

IMG_4833 Svo ein skýjamynd að lokum og bara eitt enn

GLEÐILEGAN MÆÐRADAG ELSKULEGU MÖMMUR OG ÖMMUR. 

Heart


Brotalamir.

Ekki eru allar fréttir jafnskemmtilegar eftir nóttina. 

Í gær þegar ég gekk gegnum Austurvöll á leið í kosningakaffi, þá varð ég vör við að túlípanarnir sem börnin höfðu rifið upp og ég gróðursett aftur eftir að hafa rætt alvarlega við þau, voru rifnir upp enn á ný.

IMG_4760 Þetta er mjög sorglegt að sjá, og ég vona að þarna hafi ekki sömu börn verið að verki.  En ég mun setja laukana niður aftur.  En ekki á Austurvelli í þetta sinn.  Það er grátlegt að vita til þess að fólk skuli vera svona illa þenkjandi og láta skapið bitna á saklausum plöntum eða dýrum.

En þetta er ekki eina illvirkið sem unnið var.  Því ein samstarfskona mín af skrifstofu Frjálslynda flokksins hringdi í mig núna rétt áðan, hún fór í heimsókn yfir til Sjálfstæðismanna í nótt, til að ræða við þá.  Hún hafði að vísu fengið sér í tánna.   Þetta var einmitt meðan Einar Oddur var úti, samkvæmt talningum.  Þeir tilkynntu henni að hún væri óvelkomin og hrintu henni svo að hún datt og braut á sér rófubeinið.  Hún liggur nú kvalin heima og búin að taka fullt af verkjalyfjum. 

Það góða fyrir þessa ruddalegu sjálfstæðismenn er að konan er öryrki svo þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hún missi úr vinnu.  Hún sagði mér að hún yrði sennilega í rúminu næstu daga.  Mikil er nú þetta kurteist og gott fólk eða hitt þó heldur.  Ég segi nú bara SKAMMIST ÞIÐ YKKAR.


Góður og gefandi dagur þrátt fyrir allt.

Ég vil byrja á að óska Sjálfstæðirmönnum og Vinstri grænum til hamingju með góða kosningaútkomu.  Mér þykir einsýnt að þessir tveir flokkar taki áskoruninni og myndi næstu ríkisstjórn.  En ég spái líka stjórnarkreppu og kosningum aftir eftir 2 ár.

En dagurinn var góður hjá mér, ég fór á skrifstofuna til að hitta mína menn um morguninn.  Um þrjú tvö leytið fór ég með mínum manni að kjósa.  Á kjörstað gat að líta þessa ungu hressu menn í glímutökum. 

IMG_4764

IMG_4765

IMG_4771 Jamm og ein góð sveifla fyrir ljósmyndarann.

 

Klukkan þrjú fór ég á yndislega tónleika með Íris Kramer og Hrólfi Vagnssyni, þau eru listamenn á heimsmælikvarða.  Litróf kölluðu þau tónleika sína og með þeim fylgdi litaspjald, þar sem maður átti að merkja við hvaða litur passaði fyrir hvaða lag. 

En á lagaskránni voru mörg yndisleg lög.

La Fiesta

Figaro

Meditango

Dinosauros

Caravan

Interactive Imrovisation og Tango, frá þeim sjálfum

Tante Anni Prima

Libertango

Sofðu unga ástin mín.

Spain.

Og allt þetta spilað á takkaharmonikku, trompet og fleiri blásturhljófæri og kassatrommu hvað sem hún nú heitir á tæknimáli. 

IMG_4779 Hér spilar Hrólfur Dinosauros, ótrúlega flott lag

IMG_4782 Þetta er sennilega eina hljóðfærið þessarar tegundar á Íslandi.  Gaman að heyra leikið á hana. 

IMG_4786 Takturinn sleginn.  Sjáið hve þau eru yndisleg.  Falleg hjón og glæsileg. 

IMG_4787 Hér sjáum við skólastjóra Tónlistarskólans Sigríði Ragnar, systur Hjálmar H. ræða við Hrólf í pásunni.

IMG_4793 Hér er gömul kempa Óli Kitt fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík og pabbi Eddu Borg.  mikill jassari.  Og Sigríður Ragnar.

IMG_4794 Uppákoma hjá þeim hjónum Interactive Imrovisation

 

IMG_4797 Tilþrif í blues.

IMG_4808 

 

IMG_4822 Hér má sjá Kristinn H. Gunnarsson, systur hans og bloggvinkonu Katrínu Gunnars og Elsu B. Friðfinnsdóttur.  Við bíðum hér eftir fyrstu tölum.  Kristinn er sem betur fer inni á Alþingi.  Við héldum sjó þrátt fyrir allt.  Þó við misstum góða menn út af þingi.  En þeir koma bara tvíelfdir næst.  

IMG_4817 Svona var veðrið í gær svolítið villt.  Ég er líka þannig í dag. En ég veit að lífið heldur áfram.  Nú fer maður að huga að blómaræktinni aftur og getur gefið því allan tímann. 

Ég get samt ekki skilið af hverju þetta fór svona.  Mér finnst vera eitthvað að í íslenskri þjóðarsál.  Eitthvað sem ég vona að við þroskumst upp úr.  Því fyrr verðum við ekki lýðræðisríki.  Meðan við látum plata okkur svona kosningar eftir kosningar og notum ekki samstöðuna til að breyta.  Þá gerist ekki neitt. 

Ég held samt sem áður að róðurinn verði ekki léttur núna hjá valdhöfum.  Loforðin eru til staðar.  Og við verðum á sjá til þess að við þau loforð verði staðið.  Ég giska samt á að það verði kosningar aftur eftir 2 ár.  Þá verður sennilega komið í ljós að inneign var ekki til fyrir öllum loforðunum.  Og að "góðærið" var fullt af lofti.

En vonandi eigum við öll góðan dag.


12. maí 2007.

Megi þessi dagur verða okkur öllum til heilla.  Verður hann skráður á spjöld sögunnar?  Það er okkar val. 

Í dag þann 12. maí eigum við möguleika á því að breyta kjörum okkar og daglegu lífi.  Ég held að við eigum raunverulega möguleika á því að segja upp þeim herrum sem stjórnað hafa landinu núna í 12 ár.

Þessir herramenn eru dauðhræddir í dag við að missa völdin.  Og það er allt eins víst að þeir láti það bitna á okkur sem hafa talað út, eftir kosningarnar hafi þeir til þess möguleika.  Það virðist því miður vera svo.  Það sýnir saga undanfarin ár.  Hræðsla fólks við að segja meiningu sína og jafnvel gefa upp hug sinn um hvað það ætli að kjósa.   Eða halda menn virkilega að nær 40 % þjóðarinnar sé í vafa ennþá hvað þeir ætli að kjósa ?  Ég held ekki.

En ég ætla ekki að vera með leiðindi.  Ég óska þess að niðurstaðan í dag hver sem hún verður, muni verða okkur öllum til hagsbóta.  Að gæfan fylgi okkur og ég bið allar vættir landsins að gefa okkur skynsemi til að gera rétt. 

Ég tók fullt af flottum myndum í gær.  Af torginu þar sem mikið var um að vera, Samfylkingin var að grilla, ég tók mynd af Bryndísi minni Friðgeirs með fangið fullt af rósum sem hún var að útbýtta, og ég tók myndir af Kristni H.  Þar sem hann var að gefa mönnum í soðið fyrir Frjálslynda flokkinn.  Ég tók mynd af konunni hans henni Elsu Friðfinns þar sem hún var að setja helíum í blöðrur og gefa litlum börnum.  Og ég tók myndir af öllum og var rosalega ánægð með sjálfa mig, þangað til ég kom heim og ætlaði að setja kubbinn í tölvuna.  Hann var nefnilega þar ennþá síðan í fyrradag. Blush

Þettar fallegu myndir geymi ég því bara í huganum.  Én ég lofa að ég skal hafa kubbinn í myndavélinni í dag.   Og setja hér inn myndir af því sem fyrir augu mín ber. 

Og ég segi bara megi þessi dagur vera okkur öllum gleðilegur.  Hvar sem við stöndum í baráttunni.  Eða eins og sagt er; Megi sá besti vinna.  Heart

Og svo auðvitað gleðilegan Júróvísjóndag hehehe.... Wizard


Þetta er að hafast bræður og systur.

Í baráttunni.  Á síðustu metrunum náum við þessu vona ég.  Fyrir litla manninn Jón og litlu konuna Gunnu.  Fyrir aldraða og sjúka, og fyrir fátæka og smáa.  Fyrir sjómenn og fiskvinnslufólk.  Fyrir iðnaðarmenn og verkafólk.  En líka fyrir erlent fólk sem hér vill vera og setjast að.  Og fyrir þá sem ekki geta fengið ættingja sína í heimsókn einu sinni, af því að þeir búa utan Evrópu. 

Það er margt sem þarf að leiðrétta. Það er best tryggt með því að kjósa Frjálslynda flokkinn, Samfylkinguna eða Vinstri græna.  En munum að sigurinn verður ekki fullkomin nema Frjálslyndi flokkurinn komi vel út í kosningunum. 

Ég er orðin þreytt á ríkisstjórninni.  Ég er orðin þreytt á valdasjúku fólki sem heldur í alvöru að það sé ekkert líf eftir langa stjórnarsetu.  Þau verða að muna að þá gefst þeim næði til að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni.  Ef til vill neyðast þau til að fara að hlusta á fólkið í landinu.  Alla ekki bara suma.

Í kjörklefanum erum við frjáls.  Þar eigum við völina um að skipta út ráðamönnum.  Á morgun er okkar dagur.  Dagur litla Jóns og Litlu Gunnu.  Einu sinni á fjögurra ára fresti verða þau mikilvæg og skipta máli.  Ekki glata því tækifæri.  Ekki láta plata sig eina ferðina enn.  Ekki láta heldur hóta sér.  Því á morgun erum við öll atvinnurekendur sem getum ráðið og rekið það fólk sem við höfum haft í vinnu núna í  mörg herrans ár, en ætla núna allt í einu að gera allt fyrir okkur.  Öll loforðin sem gefin hafa verið á að efna nákvæmlega núna.  Af hverju ættum við að trúa því að í þetta sinn verði það að veruleika? Af hverju ættum við að trúa því að nákvæmlega núna ætli þau að hlusta ?

Nei vinir við skulum gefa nýju fólki tækifæri til að gera betur.  Nýjir vendir sópa best.  Og Það þarf engan kjark til að breyta.  Það þarf bara að gera það sem samviskan segir manni.  Og vera eigin herra þann 12. maí 2007. 

c_users_arna_pictures_bloggmyndir_iceland


mbl.is Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Maí 2007
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband