Gleðilegt ár kæru vinir.

Það líður að endalokum þessa árs 2011.  Það hefur að mörgu leyti verið mér gott ár persónulega, það var ljúft að hætta að vinna þó var svolítill söknuður að hætta eftir nær 3 áratugi, sakna gömu vinnufélaganna, en bæti úr því með að skreppa í kaffi.

Ég gat heimsótt börnin mín og barnabörnin í Noregi og Austurríki og hitti einnig systur mína í Kaupmannahöfn.  'Atti þess líka kost að fara nú í endaðan nóvember til að aðstoða dóttur mína Báru þegar lítill maður kom í heiminn hann er 21 barnabarnið. 

Svo ákvað ég að prenta bækurnar mínar allar fjórar sem ég hef skrifað fyrir börnin í kúlunni.  Það gerði ég vegna fjölda áskorana eins og sagt er.  En líka til að sjá hvernig fólk tæki þeim. 

Ég hef eignast marga góða og frábæra vini hér á blogginu sem ég er þakklát fyrir, og einnig fólk út í bæ sem þekkir mig gegnum þetta sama blogg. 

Ég veit að ég get verið hvöss, þegar réttlætiskennd minni er misboðið, og það hefur gerst æ oftar nú í seinni tíð, en það er þá fyrst og fremst stjórnsýslan og óheilindi stjórnmálanna sem mér ofbýður.  Ef til vill þarf ég að fara að endurskoða hug minn í því sambandi, því ekki vil ég láta ómerkilegt fólk eyðileggja heilsuna mína.  En um leið og ég er reið þessu fólki og þeim öllum sem komu landinu okkar í þessa aðstöðu, er ég þakklát því fólki sem hefur lagt liðsinni sitt til að berjast gegn þessu og vill betri tíð og hreinskiptari pólitík.

IMG_1580

Ég er einstaklega heppinn manneskja að eiga öll þessi yndislegu barnabörn að vinum.

IMG_1590

Börn eru frábærir einstaklingar heilsteypt og sönn.  Hér stöndum við í að gera pizzur, hver gerði sína pizzu að eigin vali.

IMG_1593

Það er gott að hafa tíma til að eyða með sínum nánustu, eiginlega alveg bráðnauðsynlegt.

IMG_1595

Og allt gengur miklu betur þegar allir vinna saman.

IMG_1596

Þá er að skreyta með álegginu.

IMG_1598

Afi gerði líka sína pizzu með hvítlauk, olífum og þurrkuðum tómötum.

IMG_1599

Og svo má bara liggja á meltunni.

IMG_1589

Ungur nemur hvað gamall temur.  Við skulum muna að allir geta hjálpast að, hér er Úlfurinn að kenna afa sínum að hlaða niður á mpr spilara sem ég gaf honum í jólagjöf, svo hann eigi auðveldara með að læra norsku.

IMG_1584

Veðrið er búið að vera gott, og verður vonandi áfram.

IMG_1585

Það verður allt svo hreint og tært þegar snjórinn sest yfir, og þá er bara að muna eftir smáfuglunum.  Þeir vakta þau hús sem þeir vita að þeir fá gefins mat.

IMG_1587

Í rauninni veit ég ekkert hvað bíður mín á nýju ári.  En eitt er víst að ég mun takast á við það sem koma skal. 

IMG_1586

Ég mun gera allt til að fá að búa hér áfram, þó yfirvöld vilji skáka mér út.  En þá er bara að sjá til hvernig allt veltur.

IMG_1577

Jólabörnin geta líka veitt gleði þó ferfætlingar séu.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar, innilega takk fyrir öll innlitin, athugasemdirnar og samskiptin á árinu.  Það er mér mikils virði að vera í góðu sambandi við gott fólk.  Bæði á netinu og svo í raunheimum.  Megi ást og friður fylgja ykkur öllum. Heart


Trúi því ekki fyrr en ég tek á....

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Hreyfingin ætli að styðja ríkisstjórnina svona á síðustu metrunum.  Þau telja eflaust að þau geti þokað einhverjum málum áfram, en mér bíður í grun að slíkt verði ekki upp á teningnum.  Það er eins og þau hafi ekki fylgst með stjórnaraðferðum Jóhönnu sem vill hafa sinn háttinn á í öllum málum og fer í fýlu ef henni er ekki hlýtt. 

Ef þau fara í þessa feigðarferð munu þau vissulega þurrkast út í næstu kosningum að mínu mati.  Þeim væri nær að vinna með grasrótinni að stofnun nýs bandalags til framboðs.  Með svona blettl á þeim ferli er það borin von. 


mbl.is Í viðræðum við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um jólin.

Jóladagurinn leið eins fallega og aðfangadagur.  Í kyrrð og ró og algjörri leti. En fjölskylda Júlla míns kom í matinn í hangikjötið, við elduðum bæði kofareykt kjöt og svo þetta sem venjulega fæst.  Svona til að prófa hvort væri betra.  Kofareykta kjötið var dekkra og bragðmeira og ég er ekki frá því mýkra, annars var ekki mikill munur á kjötinu.

IMG_1561

Það var auðvitað spilað á spil og í þessu spili er Sigurjón Dagur sigurvegarinn, þekkir Disney betur en hinir.

IMG_1564

Spennandi ha!!!Smile Gott þegar allir geta sameinast um skemmtilegan leik.

IMG_1566

Og hér kennir unginn afa sínum.  Börn hafa miklu meiri þekkingu á tækni en við hin þessi eldri.

IMG_1571

Og svo má bara leika sér í svona leikjatölvu þegar afi er ekki lengur með áhuga. 

IMG_1572

Og barnabörnin vaxa upp með ótrúlegum hraða, hér er Ólöf Dagmar alveg að verða táningur og flott stelpa.  Það veldur ýmsum ... svona vandræðum með kúlusögurnar, því bráðum hætta þau að hafa áhuga á barnalegum ævintýrum og hvað gerir amma þá???LoL

En við sendum kveðjur héðan frá kúlunni. Eigið góðan dag. Heart


Það snjóar bara og snjóar - aðfangadagskvöld.

Það snjóar bara og snjóar, ég hef ekki farið út fyrir dyr síðan á aðfangadag, bara notið þess að vera til og hafa fjölskylduna mína í kring um mig, þau sem enn eru hér.  Og svo yndisleg samtöl frá útlöndum.

En ýmislegt skrýtið er í pokahorninu eins og að ég sendi börnunum mínum frosin vakúmpökkuð lambalæri ásamt ýmsu öðru, til Norest, hafði verið stungið á vakúmpakkninguna svo blóð hafði lekið niður í pakkann, og það þó ég hafi sett auka plastpoka utan um, og hákarlskrukka hafði verið opnuð og síðan forskrúfuð, þannig að lyktin var ekki alveg nógu góð.  En það bjargaðist samt sem betur fer.  Til Austurríkis hafði kjötið hreinlega verið tekið upp og vakúmpakkningin tekin alveg utan af því, svo pakkinn var alblóðugur, því lærið var orðið þýtt í meðförum austurríska tollsins.  En þeir sendu þetta samt allt til endastöðvar sem betur fer, þrátt fyrir allt. En sumar jólagjafirnar fóru fyrir lítið af þessum sökum.

Hélt einhvernveginn að vakúmpakkning væri besta vörnin og óþarfi að rífa hana upp. 

En við áttum kyrrlátt aðfangadagskvöld fjölskyldan og nutum þess.

aðfangadagur2011 001

Við höfðum þennan klassiska hamborgarahrygg, með tómatsúpu special made ala mamma Ásthildur í forrétt, það er eiginlega eitthvað sem ég hef haft alla tíð á jólunum og börnin mín elska hana. Hér er hamborgarahryggurinn skorin.

aðfangadagur2011 003

Í eftirrétt var svo þessi frábæra kaka sem krakkarnir höfðu bakað í sameiningu.

aðfangadagur2011 004

Þá var komið að því sem er mest spennandi fyrir börnin það er að opna pakkana.

aðfangadagur2011 006

Svo lögðust bara allir í lestur og rólegheit.

aðfangadagur2011 007

Þetta var eini ærslabelgurinn á heimilin Jólakattarbarnið Heart

aðfangadagur2011 010

Henni Lottu finnst voða gaman að týna jólakúlurnar af trénu og leika sér með þær út um allt.

aðfangadagur2011 011

Best er samt að skríða upp í fangið á "pabba" sínum og kúra.

Ég er búin að hafa það afar gott og ætla halda áfram að njóta þess að vera til alveg þangað til vísareikningurinn minn kemur inn um lúgunaBlush En það er den tíd den sorg.

Eigið góðan dag elskurnar Heart


Gleðileg jól allir vinir og velunnarar.

Allir þeir sem hafa lesið síðuna mína og svarað hér, líka þeir sem hafa lesið hana og látið sér það nægja, og svo fæ ég knús og kram þegar ég hitti þá.  Það yljar óneitanlega.  Innilega takk fyrir mig.

Jólakort ekki Pdf.

Barnabörnin mín.

Jólakort ekki Pdf. 001

Kær kveðja frá okkur kúlubúum og börnunum mínum, þessum elskum sem hafa yljað bæði mér og fleirum á þessu ári.  Megi gæfan fylgja ykkur öllum.

Og svona eitt smábros í lokin. Ég er viss um að þetta er skúbb og ekki einu sinni Jens Guð hefur uppgötvað þessa stórskemmtilegu hljómsveit.  Gjörið svo vel Leningradcowboys og Gimme your sushi http://www.leningradcowboys.fi/videos.html

Sjáumst seinna nú er ég á leið í skötuveislu hjá bróður mínum var í skötuveislu í hádeginu hjá systur minni, fæ aldrei nóg af skötunni.

Cool


Gott að vita

Að við stjórnvölin eru ennþá nokkrir menn með viti og skilningarvitinn í lagi.  Sammála Ögmundi þetta er endemis rugl og ekki bataði nú um viðtalið við Össur í Kastjósinu í gær.  Ég er farin að halda að hann og Jóhanna telji af ef þau ljúga nógu miklu og nógu ákveðið, þá verði það að sannleika, rétt eins og forsætisráðherra sagði að fólkflutningar til útlanda væru bara rétt eins og í meðalári.  Enda er komið á daginn að margir af þeirra dyggustu stuðningsmönnum eins og Guðmundur Ólafsson hafa yfirgefið sökkvandi fley. 
mbl.is „Liggur á að komast út úr þessu endemis rugli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónvarpsleikritið: Trúðurinn og væmni spyrjandinn

Þegar stjórnmálamenn og fyrirmenn Íslands finna að almenningshugsunin er ekki alveg þeim í hag, fá þeir það sem kallast drottningarviðtal í sjónvarpi allra landsmanna.  Til þess er sérstakur þáttur sem kallast Kastljós.  Þar er auðvitað ýmislegt annað á dagskrá, sumt afar forvitnilegt, en svo inn á milli sem sagt þá fá þarna inni stóru karlarnir sem þurfa að réttlæta sig fyrir þjóðinni.

Einn slíkur þáttur var í kvöld.  Þar var stórhöfðinginn sem þjóðin hefur haft miklar efasemdir um að geti sinnt einu allra nauðsynlegasta málefni dagsins en það er einmitt vörn okkar í ESA dómsmáli um Icesave. 
Þarna var greinilega stórleikari á ferð, hann notaði allt sem hann átti til, til að sannfæra okkur um ágæti sitt og sinnar stjórnar, og blessaður spyrillinn brosti og nikkaði og gætti þess að reka nú ekki manninn á gat, vegna þess að það hentar auðvitað ekki í íslenskum fjölmiðlum, svo sem eins og að segja honum að þetta væru ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður.  Sem hann veit greinilega ekki. Eins og að láta hann telja sér trú um að meirihluti þjóðarinnar væri meðmæltur ESB inngöngu og meira að segja allir flokkarnir á alþingi væru líka í hjarta sínu meðmæltir inngöngu.  Hann væri því bara að sinna því góða starfi að koma okkur þangað inn.  Allt í gúddí.

Einhver efabroddur er nú í honum blessuðum því annars hefði hann ekki þurft á þessu drottningarviðtali að halda. 

Hann upplýsti okkur líka um að til þess að hann yrði að víkja sæti með að vera í forsvari fyrir þessu dómsmáli hefði þurft að breyta lögum og ég veit ekki hvað og hvað.

Samt rámar mig nú innst inni í einhvern úrskurð um umhverfismál, sem Siv þurfti að víkja sæti, af því að hún hafði óvart tjáð sig um málið opinberlega, sem gerði Það að verkum að hún varð að víkja sæti.  Og gott ef það er eina málið af þessu tagi???

Í þessu dæmi hefur öll ríkisstjórnin tjáð sig um Icesavemálið eins og við vitum og tekið afstöðu með Icesave, og ætti þar af leiðandi ef þessi dæmi eru tekinn að vera algjörlega óhæf til að hafa yfirstjórn á málinu. 

Ég tel að það hljóti einhversstaðar að verða kippt í spotta og þetta stoppað af, því Guð einn veit að ég treyst ekki þessum manni og það ENGAN VEGINN til að vinna að málinum af heilindum, hvað sem hann segir í svona leikþætti, þá blasa við allar staðreyndir um að hann er vanhæfur sökum fyrri afskipta af því auk þess að vera á kafi í innlimunarferli við ESB.

Það er ekki nóg að vera góður kall, og heldur ekki nóg að hann heldur sjálfur að hann geti allt, og jafnvel þó að okkar skeikuli forsætisráðherra telji hann best til þessa fallinn, þá er það einfaldlega bara alls ekki nóg. Þetta hlýtur að vera hingað og ekki lengra please. 

 


mbl.is Atkvæði greidd eftir kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýrin mín.

http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=172139 

Þetta byrjaði allt saman árið 2007 þá datt mér í hug að semja sögur fyrir barnabörnin, ég skrifaði smásögur fyrir hvert og eitt þeirra, þar sem þau voru í aðalhlutverki, þetta varð svo vinsælt meðal barnanna að ég ákvað að halda þessu áfram.  2008 kom svo ævintýri loðfílsunganna.

Það er saga um tvo klónaða loðfílsunga sem þarf að senda á afvikin stað, því óvinveittar verur reyna að finna þá til að eyða þeim.

Loðf´ðilar

Ævintýrið um loðfílsungana.

Það ríkti gleði í rússnesku tilraunastöðinni, þau lyftu kampavínsglösum og svo var slakað á eftir margra mánaða vinnu, sem núna var að bera árangur. Þeim hafði tekist að klóna tvo loðfílsunga. Þeir höfðu fæðst fyrir klukkutíma síðan, þeir voru litlir, en heilbrigðir.

Þetta eru kú og tarfur, sagði Dimitris glaður. Er það ekki yndislegt.

Jú sagði Ivanova, lágvaxin brúnhærð og glaðleg kona, en hvað þeir eru fallegir litlu skinnin.

Alexandrovich stormaði inn í tilraunastofuna, hann gaf ungunum engan gaum en snéri sér beint að Dimitris, við verðum að koma ungunum burtu, sagði hann.

Hvað er að gerast? Spurði Dimitris.

Jú! Sagði Alexandrovich, þeir eru að leita að ungunum, þeir hafa brotist inn í nokkrar tilraunastofur hér í Síberíu, þeir eru greinilega að leita að ungunum.

Þeir hverjir? Spurði Ivanova.

Einhverjir sem vilja annað hvort ná þeim eða drepa, svaraði Alexandrovich.

En hvernig gátu þeir vitað að þeir væru fæddir? spurði Ivanova óttaslegin. Þetta er alveg hræðilegt.

Ég veit það ekki, sagði Alexandrovich, en það er ekki um annað að ræða en að koma þeim í öruggt skjól. Svo þeir finnist ekki.

En spurningin er hvert? Sagði Dimitris.

Ég hef verið að skoða málið, sagði Alexandrovich, það er einn staður sem kemur til greina. Hann er á lítilli eyju,

langt út í Atlandshafi. Ég hef látið kanna þar ýmsa staði, og held að ég hafi fundið einn, sem dugar okkur.

Eyja? Ivanova hrukkaði ennið, hvernig komum við þeim þangað?

Það má engan tíma missa, sagði Alexandrovich, ég legg til að við svæfum dýrin, komum þeim í kassa, og fljúgum svo með þau á þennan afskekkta stað.

En þeir eru svo litlir og umkomulausir, mótmælti Ivanova.

Já ég veit, sagði Alexadrovich, en við getum ekki tekið áhættu á því að þeir finnist.

Ég veit, sagði Ivanova. Henni var nú þegar farið að þykja vænt um þessi litlu kríli.

Það er sem betur fer dýralæknir þarna á staðnum sagði Alexandrovich, ég ætla að fá hana til að annast ungana. Það eru reyndar tveir dýralæknar staddir á svæðinu, bætti hann við, ein sem er að læra, hún er á fjórða ári, og ansi dugleg.

En má ég ekki fara með og gæta þeirra? Spurði Ivanova.

Nei alls ekki, sagði Alexandrovich hörkulega. Þú mátt ekki einu sinni vita hvar þeir eru niðurkomnir, ef þú skyldir sjálf lenda í höndunum á þessum óvættum.

Ivanonva varð náföl. Allt í lagi sagði hún svo, ég skal undirbúa þá undir flutningin. Augu hennar voru tárvot.

Ef við ráðum niðurlögum óvættanna, sagði Alexandrovich, lofa ég því að þú færð að annast ungana. Það gerir enginn betur en þú.

Takk! Sagði Ivanova hljóðlega. Hún fór að undirbúa litlu krílin undir flutningin.

Dimitris hafði strax farið af stað að útvega kassa, sem hægt var að setja krílin ofan í.

Meðan Ivanova beið þess að deyfilyfið virkaði á ungana, Þau bjuggu svo til rúm í kössunum. Hún vafði mjúku teppi utan svo um þá. Ég sé ykkur seinna, hvíslaði hún og kyssti þá báða, og þvínæst settu þau ungana varlega ofan í kassana og lokin yfir, hún gætti þess að þeir lægju þægilega, og að göt sem voru á kössunum væru örugglega opin.

 

 

Saga nr. 2 frá 2009 heitir; Ævintýri í Huldulandi. 

Þar gerist það að illar verur illfygli reyna að leggja undir sig Hulduland, og þá verður að grípa inní. 

Illfyglin. 

Eftir því sem börnin komust lengra inn í skóginn, sáu þau meiri merki eftir illfyglin.  Það voru rjóður hér og þar sem voru nánast engar plöntur eftir á lífi.  Annarsstaðar héngu þær niður eða voru fölar og veiklulegar.

Æ hvað þetta er ljótt að sjá, sagði Júlíana.  Aumingja plönturnar.

Hvernig ætli það sé ef þeir eru með fanga? Spurði Daníel, ætli þeim líði ekki illa.

Ég vona að amma sé ekki fangi þeirra, sagði Úlfur, ég held samt að hún sé ekki svona viðkvæm eins og plönturnar, eða jafnvel Álfadrottningin. 

Það er af því að hún er „mennsklingur“ sagði Júlíana og brosti. 

Já og við erum líka mennsklingar sagði Kristján.

Ættum við ekki að bæta aðeins á okkur blómum, spurði Daníel.  Þessar lykta vel, hann sleit upp nokkur blóm.

Daníel  þó! hrópaði Júlíana, þú ert jafnslæmur og illfyglin. 

Uss ekki svona hátt sagði Úlfur.  Við verðum að gæta okkar vel. 

Ég held að það séu einhverjir af þessum verum að koma, sagði Kristján. Og mikið rétt, þau heyrðu eða fundu að smáhópur illfygla kom í humáttina til þeirra.

Hvað gerum við nú, Júlíana var óttasleginn.

Við verðum að skríða inn í runna eða holu, svaraði Úlfur strax.  Komum hingað, hér er stór runni sem við getum farið á  bak við.  Þau skriðu undir runnann rétt áður en verurnar birtust.  Þau þorðu varla að anda.  Ein veran fór að blómunum þar sem Daníel hafði slitið upp nokku blóm.  Hann þefaði út í loftið og þeir skimuðu allt í kring um sig.  Krakkarnir héldu niður í sér andanum af skelfingu.  Svo snéru þær sér í átt að runnanum, og byrjuðu að síga í áttina að þeim.   Þeir voru ljótir þessir karlar.  Svartir, horaðir og með langa fingur og klær.  Augun voru langt inn í höfðinu, og það var rauður glampi í þeim.  Krakkarnir voru viss um að nú myndu illfyglin finna þau, og hvað myndi þá gerast?  Þau gátu bara reynt að þrýsta sér lengra niður í svörðinn og vona að eitthvað kraftaverk bjargaði þeim.  Þegar allt virtist vonlaust kom skrýtin karl skyndilega fram úr þykkninu, hann var á einkennilegu hjóli, sem var bara eitt hjól með petulum.  Hann hjólaði skrykkjótt og gólaði eitthvað lag.  Hann var næstum búinn að keyra á illfyglin. Þeir hrukku til, litu á hann illu auga, og forðuðu sér frá honum.  Þeir hættu samt við að leita meira eftir blómaslítaranum og héldu áfram.  Léttir krakkana var ótrúlegur. Þau lágu heillengi inn í runnanum og þorðu ekki út.  Loks sáu þau að karlinn var þarna ennþá.  Ykkur er óhætt að koma út, sagði hann.  Þeir eru farnir.

Takk fyrir að hjálpa okkur, sögðu þau þakklát

Skrítin karl

Skrítin karl á hjóli.

Þriðja bókin heitir: Gaggalaggáland.  Sú saga er að sumu leyti sönn, því eitt barnabarnið mitt Evíta Cesil hitti þessar verur í raun og veru niður í Samkaup og lék sér líka við þau heima hjá sér.  Nöfnin eru frá henni, en hún var 4 ára þegar þetta átti sér stað. 

Vitri

Gamli vitringurinn.

Fundur hjá Göggum..

Það stóð yfir fundur hjá yfirráði Gaggalaggálands, Moireen yfirráðsstjóri var áhyggjufullur á svip.

-Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær Naggarnir komast gegnum girðinguna, sagði hann daufur í dálkinn.

- Það yrði bókstaflega hræðilegt stundi yngsti gagginn í ráðinu Tumamóri.

- Við höfum sett varðmenn við alla girðinguna, sagði herráðsforinginn Borumóri.

-Hvað er til ráða? Spurði gamall Gaggalaggi með sítt hvítt hár og skegg langt niður á maga. Hann var elstur þeirra í ráðinu og var einnig einn af vitringunum sem voru æðsta ráð Gagganna. Þeir voru sjö þessir vitringar og komu saman ef eitthvað verulega hættulegt var á ferðum.

-Ég held að við verðum að leita okkur hjálpar, sagði Borumóri, spurningin er bara hvert?

-Við verðum að leita til „mannanna" sagði gamli vitringurinn og lagði áherslu á orð sín.

-Mannanna? Hrópuðu hinir ? Hverjir eru það? 7

-Það er kynstofn ekki langt héðan, sagði sá gamli. Ekki ólíkir okkur í útliti en um það bil helmingi hærri.

-Hvaðan veistu um þessa Menn? Spurði Moireen æðstiráðgjafi undrandi.

-Það er eitt af okkar hlutverkum vitringanna, að kanna það sem umhverfis okkur er, sagði vitringurinn rólega, 
  og reyna að komast að því hvort þeir sem þar eru séu vinveittir eða ekki.

-Hvernig farið þið að því? Spurði Tumamóri.

-Ég má ekki ræða um það sem við aðhöfumst, sagði Vitri gamli, en nú er neyðarstund runnin upp, svo við verðum að treysta á hjálp frá þessum verum.

-Eru þeir þá vinveittir okkur? Spurði Moireen.

-Í rauninni ekki, sagði Vitri.

-Hvað meinarður? Spurði Borumóri og starði á gamla vitringinn.

-Ég meina að þeir eru í besta falli varasamir og ekki sama hvert við leitum hjálpar hjá þeim.

-Hvað leggurðu til? Spurði Moireen.

-Við höfum rætt þetta innan vitringahópsins og við teljum rétt að senda börn frá okkur til að hitta börn þeirra.

-Börn til að hitta börn?  Át Moireen upp eftir honum.

-já, svaraði Vitri, börn til að hitta börn. Þetta er á engan hátt auðvelt að eiga við. Við erum sjálfir afar lítið gefnir fyrir að eiga í stríði við aðra, en eitthvað þarf að gera þegar sjálfstæði okkar er í húfi.

-já ég er sammála því sagði Moiree, en hvar koma börnin inn í þetta mál?

-við höfum farið yfir málin í öldungaráðinu, og skoðað ýmsa möguleika, Vitri var yfirvegaður, en alveg ákveðin. Börn eru yfirleitt miklu hæfari til að þekkja leiðir til að standa saman um málefni. Þau eru fordómalaus og opin fyrir nýjum leiðum. Þannig er það bara, svo við munum verða miklu betur sett með að leita til mannabarnanna en fara á einhverja ráðstefnur eða semja við fullorðna fólkið, sérstaklega þá sem hafa völdin og geta ráðið því sem þeir vilja. Þeir myndu strax setja sig í stellingar til að skoða hverjir við erum, fyrir hvað við stöndum og hvort við séum hugsanlega ógn við tilveru þeirra. Ekkert slíkt gerist með börn, þau byrja bara á höfuðatriðunum; getum við gert eitthvað til að hjálpa. Svo bætti hann við.

Þetta eru valdir kaflar úr fyrstu sögunum.  

 Sú fjórða er leyndarmál fram yfir jólin því það verður jólagjöfin mín í ár til þeirra og ég veit að þau eru spennt að fá að lesa hana.  Ég fæ alltaf símtöl um hádegisbilið á aðfangadag, amma má ég opna pakkann þinn núna.Smile  Og það er mín besta jólagjöf.  Heart    

Eigið góðan dag elskurnar.Heart


Tónleikar og pizzubakstur.

Á Ísafirði eru tveir tónlistarskólar, Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar og Tónlistarskóli Ísafjarðar.  Nú um daginn fór ég á tónleika hjá Tónlistaskóla Ísafjarðar, þar sem Úlfur er í trommunámi.  Á þessum tónleikum komu þeir fram hann og vinir hans með hljómsveit sem þeir hafa verið að æfa saman.  Ég verð að viðurkenna að ég var hálf smeyk um hvernig það myndi hljóma, minnug þess að þegar ég átti heima í stærra húsi, voru ýmsar unghljómsveitir sem fengu að æfa hjá mér í kjallaranum, og það hljómaði stundum ehe... dálitið svona já ekki alveg í samhljómi.

IMG_1339

Hér er snúðurinn minn að undirbúa sig á tónleikana.

IMG_1343

En tónleikarnir byrjuðu sem sagt með forskóla I og II. Með tveimur lögum, Þjóðlagi frá Uganda; Daginn, hvað segir þú? og Tékknesku jólalagi: Fyrir löngu fæddur var.  það er óþarfi að taka fram að börnin (5ára) bræddu öll hjörtu í salnum, þau voru svo yndislega skemmtileg og frjálsleg og innilega glöð.  Hvað er hægt annað en að elska svona unga?Heart

IMG_1349

Strákarnir mínir voru svo númer tvö.  Og ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur, þeir voru rosalega flottir, bæði hvað varðar samhljóm og fyllingu, þeir spiluðu lag What have I done. L. Park.

IMG_1351

Þeir verða einhverntímann góðir ef þeir halda sig á þessari braut. 

IMG_1352

Og minn flottur á trommunum.

IMG_1354

Þessi piltur heitir Arnar Rafnsson og spilar hér Sungu með mér svanur, örn.  Ísl. þjóðlag.

IMG_1357

Því miður get ég ekki sett alla nemendur inn hér, en þessi ungi maður heitir Kári Eydal.  Leikur hér klukknahljóð eftir J. Piespont.

IMG_1358

Fiðla er hljóðfæri sem ekki er auðvelt að læra á. 

IMG_1360

Hér er hún plokkuð.

IMG_1365

Litla jólabarn hér spilað af innlifun.

IMG_1366

Alt saxofónn: Swingin christmas. 

IMG_1367

ég sá mömmu kyssa jólasvein.

IMG_1368

Píanódúett hér voru fleiri en tveir slikir.

IMG_1375

Þverflauta; Heaven in tears eftir Eric Clapton.

IMG_1379

F. Chopen: Marzurka í g-moll op. 67 nr 2.  af fagmennsku og færni.

IMG_1380

L.v. Beethoven; Vals í a-moll pt. 18 nr.6.

IMG_1381

F. Schubert: Vals í a-moll op 18 nr. 6.

IMG_1382

L.v. Beethoven; Sonata í Gdúr op. 79.

Hrein unun að hlusta á þessa krakka sem eru lengra komin.  Reyndar var gaman að hlusta á þau öll, stóðu sig með prýði, og ég dáist að þessu unga fólki á hverju ári, og líka kennurum og skólastjóra.  Það er fylgt eftir tímanum og áhugasvið nemendanna í fyrir rúmi sem er reyndar alveg frábært.

IMG_1384

Dagskráin endaði svo með Misveit skólans undir stjórn Madis Mäekalle.  Með frábær lög: Mars úr hentubrjótnum.  Aðfangadagskvöld eftir Gunnar Þórðar og When Christmas Comes to Town W. Silvestri.

IMG_1388

Þessi litla stúlka Rakel M. Björnsdóttir stóð sig afar vel með stærri krökkunum og við hennar hlið eru dætur Madis þær Marelle og Mirjam frábærir músikantar eins og þessir krakkar sem eru lengra komin eru reyndar öll. Innilega takk fyrir mig.Heart

IMG_1398

Hér eru afi og Lotta í góðum félagsskap hvors annars.

IMG_1403

Sigurjón Dagur og Ólöf Dagmar systir hans eru hér í kvöld. 

IMG_1404

Og strákarnir bökuðu pizzur.

IMG_1406

Reyndar bara alveg rosalega góðar.

IMG_1409

Og þeir hjálpuðust allir að.

IMG_1411

Rétt eins og það á að vera.

IMG_1405

Og við kveðjum úr kúlunni. Heart


Jólakötturinn ógurlegi.

Þessa dagana má segja að það birti ekki alveg.  En sem betur fer ylja jólaljósin í bænum mér ótrúlega mikið, sumir eru duglegir við að skreyta og ég sendi þeim þakklæti í huganum fyrir að gefa mér svona jólaljós.

IMG_1263

Atli frændi kom hingað færandi hendi um daginn, og gaf Úlfi fluguhnýtingadót, Það verður til að gera flugur fyrir Fljótavík, sannarlega rausnarlegt af honum. Heart

IMG_1265

Hér er hann svo að spilla kettlingnum mínum, skömmin sú arna, sjáið bara prakkarasvipinn á dýrinu, þ.e. Atla LoL

IMG_1307

Ef til vill ekki ógnvænlegur jólaköttur, en jólaköttur samt.

IMG_1314

Eða hvað hér ræðst hann á rottuna hennar Ásthildar sem varð eftir hér.

IMG_1316

Já þú skalt sko passa þig, skepnan þín, ég hef þig undir.

IMG_1319

Ég er sko veiðiköttur!!!

IMG_1330

O jæja það er best að hvíla sig eftir átökin.

IMG_1334

Og svo ertu svo dæmalaust mjúk og hlý hehehe!!

Íslenskt sælgæti.

Hafið þið gekið eftir því hve sælgætisframboð hefur dregist saman.  Til dæmis skrapp ég inn í Bónus áður en ég fór utan, því það er visst sælgæti sem fólkið mitt vill fá að heiman, þá var ekki til tópas í Bónus, ég varð svo hissa að ég átti ekki orð, þið vitið Tópas sem er nánast eins og daglegt brauð bara.

Svo þegar ég kom heim og fór í flughöfnina, fann ég ekki íslenska sælgætið, ég snéri mér að einum starfsmanninum þar og spurði; hvar er eiginlega íslenska sælgætið?

Það er nú það svaraði starfsmaðurinn, hann benti mér á HÁLFAN REKKA þar sem var íslenskt nammi, við erum hreinlega hætt að selja íslenskt sælgæti það er orðið svo dýrt í innkaupum, að við getum ekki boðið okkar viðskiptavinum upp á það.  Sagði hann, því er salan á því mest í stóru búðunum, Bónus og slíkum.

Ég varð bara hneyksluð,  hvernig skyldi nú standa á þessu?  Og ég spyr mig, það ætti einmitt að vera ódýrara að kaupa innlent en erlent, eða var sykurskatturinn settur á?  Man það ekki. 

En allavega þegar við keyrðum heim keypti ég í nesti Tópas eins og venjulega til að komast að því að PAKKINN ER ORÐIN MINNI, OG TÖFLURNAR LÍKA.  Sem sé búið að minnka innihaldið, en verðið örugglega það sama. 

IMG_1336

Svo verð ég að segja fyrir mig að það er komin tími á að losna við þessa ríkisstjórn, og það sem fyrst.  Meira að segja þeirra eigin stuðningsmenn eru farnir að efast, og þora að segja það upphátt.  Jóhanna lifir í draumheimi þar sem allt er best hér og allt á uppleið, og þetta með brottflutning er bara eitthvað rugl, ekkert meira en gengur og gerist, segir konan.  Tölurnar segja sitt, segir sérfræðingurinn.  Og í gær var enn ein besservisserin á mála hjá ríkisstjórninni sem kallast sérfræðingar að segja að það væri bara gott fyrir fólk að flytja út og sjá heiminn.  Ég heyrði þetta einmitt hjá þessari ríkisstjórn í árdaga þeirra. 

Þetta segja ráðgjafar og málpípur stjórnarninnar, meðan aðrir hafa áhyggjur af því að menntaðasta og unga fjólkið með börnin yfirgefur landið í stórum stíl, og hvorki getur né vill flytja heim aftur fyrr en ástandið hefur lagast, og það LAGAST EKKERT FYRR EN ÓRÁÐSÍA OG VITLEYSUGANGUR ráðamanna hættir.  Ég skora á forsetann okkar að leysa upp þessa ríkisstjórn og setja inn utanþingsstjórn, neyðarstjórn hlutlausra sérfræðinga eins og til dæmis Jóhannes Björn, Gunnar Tómasson, Marínó Njálsson, Framámenn grasrótarinnar og Lilju Mósesdóttur.  Við bara komumst ekkert áfram með þetta lið í frontinum, þau eru því miður löngu búin að gefast upp. 'Eg held að þau hafi talið sig ráða við þetta, og hafi í raun viljað vel í upphafi, en svo einfaldlega réðu þau ekki neitt við neitt, og létu AGS og ESB kaupa sannfæringu sína og eru þess vegna þjóðhagslega fjandsamleg landi og þjóð.

Eigið að öðru leiti góðan dag, og njótið þessa dimma en ljósmikla tíma. Heart

 


Næsta síða »

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Des. 2011
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 2024191

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband