Hugvekja til foreldra "öðruvísi barnanna" okkar í skammdeginu.

Þessi tími er venjulega sá tími sem ég er farin að hlakka til jólanna.  Biðja Ella minn að setja upp skreytingar og huga að jólagjöfum.  Ég er einhvernveginn ekki þannig stemmd núna, að vísu er ég auðvitað að huga að jólagjöfunum, þær verða einfaldar og heimatilbúnar þetta árið.  Því ekki er efni til annars.  En mér líður ekkert illa með það.   Finnst gaman að sitja og föndra hverja gjöf.  Hugsa um viðkomandi meðan ég geri hlutinn.  Þannig að um leið og ég bý til eitthvað þá hugsa ég fallega til þeirra sem eru milli handa minna í það skiptið. 

Hver er annars tilgangurinn með gjöfum?  Er það að kaupa eittvað sem fólk virkilega þarf eða langar í, eða verður þetta kapp um að komast af með að eyða sem minnstu bara til að gefa gjöf?

Ég held að það hljóti að vera bestu gjafirnar sem maður finnur að viðkomandi hefur lagt eitthvað til sjálfur.  Ég á til dæmis ennþá tvö lítil handarför frá börnum eins drengsins míns, frá því að þau voru tveggja og fimm minnir mig.  Og nú þegar þau eru að verða táningar, þá eru þessir plattar jafnvel ennþá meira virði en þegar ég fékk þá.  Þó eru þetta bara ódýr gifsafsteypa.  En gjöfin verður dýrmætari með hverju ári.  Svona þarf stundum lítið til að gefa svo mikið.  Það er rétt að hafa í huga á þessum síðustu og verstu tímum. 

Ég hef talað um það hér að ég sé svo heppinn að geta lyft mér upp úr döprum hugsunum, og gleymt mér og sorginni augnablik í því sem er að gerast í kring um mig.  Ég held að það sé mjög þýðingarmikið fyrir þá sem eru í sömu sporum og ég núna.  Að láta ekki sorgina hafa yfirhöndina.  Það er margt fallegt og yndislegt að gerast í kring um mann, og við verðum að gefa sjálfum okkur þann tíma og tækifæri til að gleðjast yfir því. 

Ég tel það skipta miklu máli, því svo þegar sorgin hellist yfir aftur, þá er ég samt sem áður í betra jafnvægi, vegna þessa ánægju augnabliks. 

Ég er stundum að hugsa, ætli það sé í lagi að leyfa sér að vera kát og brosa og hlæja.  Ég kasta því frá mér jafnóðum því það er bara bull.   En fyrst þetta hvarflar að mér, þá er ég jafnviss um að það hvarflar að fleirum, og þess vegna vil ég segja, ef ykkur langar til að hlæja eða segja brandara, þá ekki láta þungar sorgir aftra ykkur, eða halda að það sé ekki viðeigandi.  Það er alltaf verið að hugsa um þetta sem er viðeigandi eða ekki.  Reyndar hef ég aldrei látið það aftra mér frá að gera neitt, en það er ekki þar með sagt að ég sé ekki meðvituð um að þarna úti er einmitt fólk sem hugsar þannig og setur mann í ákveðna kassa.  Ofan í svoleiðis box vil ég ekki láta setja mig. 

Við erum öll tilfinningaverur.  Sumum tekst að loka tilfinningarnar af, og bera þær ekki utan á sér.   Það er síst betra en að geta borið þær utan á sér og fengið samúð.  Því þá er hætta á að fólk einangrist og þegar fram líður situr uppi í einangrun sem jafnvel er erfitt að brjótast út úr.  Þetta getur líka endað með því að fólk gefst upp.  Það má ekki gerast. 

Við þurfum að opna hug okkar og leyfa öðrum að vera okkur góðir.  Það eru svo margir sem vilja styðja við, hjálpa og auðvelda manni lífið þegar áfall hefur orðið.   Við verðum að leyfa sorginni og erfiðleikunum að flæða út, svo þetta lokist ekki inn í systeminu í okkur og geri okkur veik.  Ef eitthvað úldnar í fötu hjá manni, þá versnar það ef fatan er ekki opnuð og lyktinni hleypt út.  Og best er auðvitað að fara með fötuna alla leið út, svo það taki ennþá styttri tíma að eyðast.  Þetta er nú ef til vill dæmi út úr kú, en samt sem áður skilst hvað ég er að meina.

Ég er hér með ljóð sem ég orkti 2002.

 

Stundum er líf okkar yndi,

 Og göngum þau gleðinnar spor.

Allt virðist leika í lyndi.

Létt verður framkvæmd og þor.

   Þá syngur í sálinni friður

Og sefar þá allt sem þar býr.

Sem barn maður almættið biður

bjartsýnin áfram mann knýr.

  

En það getur syrt að og smogið

sorgin í hjartastað inn.

löngun og lífsorku sogið,

lang inn í huga og sinn.   

 

 Þar sem að ekkert er fundið

fögnuður, gleði eða hrós.

Brátt er þá myrkrinu bundið.

blokkerað andanum, ljós.

    Ekkert er gerlegt að gera.

gagnlaust er allt þetta kíf.

Ó afhverju þarf æ að vera.

allt þetta aumlega líf.

   Best væri aldrei að ærast,

né eltast við kærleik og ást.

Þá væri  herlegt að hrærast.

í hjartanu aldrei að þjást.

  

Við vitum ei lífs okka leiðir.

hvort  allt reynist sannt eða tál ,

Og hvernig svo af okkur reiðir,

við  ævinnar baráttu mál.

Það er ekki mikil gleði í þessu ljóði mínu, enda var þetta ort á svipuðum tíma og nú, en með soninn minn einhversstaðar á niðurhúrri eins og svo margir foreldrar í dag.  Því þessi tími er sá sem þeim gengur verst að halda sér á floti þessum elskum.  Og það er ekki þeirra sök, heldur má skrifa það á skammdegið, og líka allt sem er að gerast í samfélaginu, allir að huga að öðrum, kaupa gjafir, íhuga vað í matinn og slíkt.  Og þessum hinsegin börnum  finnst einhvern veginn að þau séu ekki með í pakkanum.   Að í öllu þessu sé ekki pláss fyrir þau.  Þess vegna er mikilvægt að við látum þau vita að við elskum þau, alveg jafn mikið.  En að það sé fíkillinn sem stendi í veginum.  Auðvitað vita þau það.  En þau gleyma stundum að við elskum þau sjálf, sérstaklega ef við segjum þeim það ekki reglulega.   Hér er svo annað.  það er sennilega um ári seinna eða svo:  

Í fegurð vestfirskra fjalla,

 finn ei í sinninu ró.

Sálir í kvöldhúmið kalla

því komið er alveg nóg. 

  Af sársauka og svörtum dögum,

er sífellt þrengja sér inn.

Og mikið af svipuðum sögum

segjast þar sonur minn. 

 Sögur, er baráttan bitur

brýtur þrekið vort allt.

Af eitri sem allstaðar situr

hér öllum börnum falt.   

Samt lifir nú vonar neisti

sem nærist, og þerrar mín tár.

Svo áfram ég trúi og treysti

að tíminn lækni öll sár.   

Og þó að veik mín sé vonin

og virðist svo brjótanleg.

Þá samt ég vil fá þennan son minn.

á sigursins mjóa veg.   

 

 

 

 

Já þetta er aðeins skárra.  En líka ort um svipað leyti, hann farin að vinna meira í sínum málum sjálfur.  En það má skynja þennan ótta og vonleysi þó vonin leynist þarna ennþá.

 

Og ég segi við ykkur kæru foreldrar sem ég beini þeirrari hugvekju til, það er enginn vonlaus.  Og fyrst mínum syni tókst að komast þetta langt, eins og hann var komin langt niður, þá er öllum hægt að bjarga.  Vonin má aldrei bregðast, og kærleikurinn til afkvæmisins.  Þó fíkillinn blokkeri einstaklinginn, þá er það ekki barnið sem við þekkjum.

 

Ég vil svo enda á þessari jólahugvekju. 

 

 

Jólahugvekja. 

Hátíð ljóss og lita,

lýsir dimma jörð.

Það vinur skaltu vita

að völt er mannsins gjörð. 

 

Í djúpi morgundagsins

ef drungi í sálu býr,

af sorgum sólarlagsins,

þá löngun áfram knýr. 

Að vilja vaka og vinna

og verja fast sitt leg.

Því sóknarfæri sinna

að sækja fram á veg. 

Í miðju drungans dapra

er dásemd – jólaljós.

Sem eyðir nístings napra

norðri – frostsins rós. 

Og lætur blíða bera

oss blessun yfir hjörð,

þá von mér viltu gera,

og vekja Ísafjörð.  

Þó sonur minn sé dáinn, þá lifir samt sú vitneskja að hann vann sigur á sjálfum sér, komst upp úr vitleysunni og átti nokkur góð ár, Eignaðist bæði Úlf sem er frábær drengur og kynntist yndislegri manneskju og átti með henni litla Sigurjón Dag, þennan fallega litla dreng sem er svo líkur honum.   Það má segja að hann hafi fengið að fara með reisn. 

Ég verð að sætta mig við að fá ekki að sjá hann aftur, fyrr en þessari jarðvist lýkur, því ég er sannfærð um að hann verður sá fyrsti sem ég hitti þegar ég fer yfir.  Sú vitneskja er mér mikils virði.  Og hún er raunveruleg.   

En við sem erum og höfum verið í þessum sporum, verðum að halda áfram og reyna að njóta þess að vera til.  Þó í augnablikinu virðist allt vera svart.   Til að auðvelda okkur það, þurfum við að taka eitt móment í einu. 

Njóta þess fallega sem kemur upp í lífi okkar, fagna því og  geyma það áfram í hjartanu.  Þá verður léttara að takast á við næstu niðursveiflu.  Þora að hlæja og bera sig vel.   Þora að leyfa öðrum að vera með og létta byrðarnar.   Þora að vera lifandi ástkær manneskja og taka við því sem að okkur er rétt.  

Megi allir góðir vættir vera með ykkur öllum, og vernda ykkur og börnin ykkar.  Að lokum langar mig að fara með bæn heilags Frans frá Azizi. 

Drottinn.

Lát mig vera verkfæri friðar þíns.

 Hjálpa mér til að leiða inn kærleikaþar sem hatur ríkir.

Trú, þar sem efinn ræður,

Von, þar sem örvæntinginn drottnar. 

Hjálpa mér að fyrirgefa þar sem rangsleitni er höfð í frammi:

Að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir

að dreyfa ljósi þar sem myrkur grúfir

að flytja fögnuð þar sem sorgin býr. 

Meistari, hjálpa mér að kappkosta;

Ekki svo mjög að vera huggaður sem að hugga

Ekki svo mjög að vera skilinn sem að skilja

Ekki svo mjög að vera elskaður sem að elska. 

Því það er með því að gefa að við þiggjum

Með því að fyrirgefa að oss verður fyrirgefið

Með því að týna lífi voru að vér öðlumst það.

Það er með því að deyja að vér upprísum til eilífs lífs.  

angel

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Þakka þér Ásthildur mín fyrir fallega hugvekju og góðan pistil. Ljóðin þín eru líka einstaklega djúp og falleg, þrátt fyrir drungan sem í þeim er. Þau eru svo sönn. Hefurðu ekkert íhugað að gefa út ljóðabók. Ég er búin að sjá svo marga fallega texta eftir þig.

Kærleikskveðjur til þín og þinna. 

Sigurlaug B. Gröndal, 16.12.2009 kl. 11:34

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Sigiurlaug mín, ég hef nú ekkert pælt í því sérstaklega, en ég held þessu saman allavega.  Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.12.2009 kl. 11:50

3 identicon

Gott að lesa hjá þér. Kærleikskveðja Guðný

Guðný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 13:25

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Kæra Áshildur. Ég þakka kærlega fyrir þessa bloggfærslu. Þú gefur svo mikið og skilur svo margt. Að hlæja, brosa og vera kát er okkur nauðsynlegt til að sigrast á sorgum lífsins. Þú ert greinilega svo vel af guði gerð og auðmjúk í sorginni að þú skilur það. Gott að við gætum fleiri verið svo víðsýn.

Megi almættið færa þér friðsæla jólahátíð

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2009 kl. 16:21

5 identicon

Tók þessa færslu alveg til mín og það held ég geri með réttu Pistilinn er góður og þarfur, minnti mig alla vega á ýmislegt sem ég þarf að gera.

Knús í kæleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 16:34

6 identicon

Hæ elskan. Enn og aftur er ég agndofa yfir skrifum þínum, þú talar frá mínu hjarta. Ljóðin eru stórkostleg og seigja meir en allt.

Í myrkrinu sem hér hefur verið er smá vonarglæta að brjótast í gegn.... vona bara svo innilega að gullið mitt teygji sig í það ljós... Ég elska hana svo heitt, það er ekki spurning, en eins og þú benntir á hef ég leyfi til að hafna því lífi sem hún hefur kosið að lifa núna. Það róar þó mömmuhjartað að vita að henni stendur til boða að vera á góðum stað og vona ég svo innilega að hún velji það.Ég ætla að einbeita mér að mér og njóta jólanna í faðmi fjölskyldunar.

Elsku Ásthildur mín, sendi þér Ella, börnum, tengdabörnum og barnabörnum kærleiksknús í Kúlu.

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 17:57

7 identicon

Ljóðin þín eru mjög falleg þó depurðin sé mikil, en ekki get ég ímyndað mér nokkra ástæðu til þess að ætlast til að fólk sem hefur lent illa í lífinu megi ekki gleðjast og brosa. Þá fyrst væri ástæða fyrir þá sem berjast fyrir lífi sínu að gefast upp ef ekki má nota þá gleði sem gefst. Ég held að bjart bros ylji meira þeim sem daprir eru en uppgerðaralvara. Allavega vona ég að þú farir ekki að fara eftir einhverjum "reglum" og hættir að vera þú sjálf. Sorg kemur ekki eins fram hjá öllum og ég efast um að hún sé minna ekta þó fólk leyfi sér að njóta þess sem er. Njóttu ljósgeislanna þinna og gerðu allt sem þú getur til að lyfta þér yfir erfiðu stundirnar. Allar góðar vættir vaki yfir ykkur í Kúlu.

Dísa (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 20:58

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Elsku stelpan mín Þú ert í mínum bænum

Hrönn Sigurðardóttir, 16.12.2009 kl. 21:08

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kærleikskveðja til þín líka Guðný mín.

Takk fyrir hlý orð Anna Sigríður mín.

Kidda mín þú mátt taka þetta til þín.  Ég vona að ég nái til margra með hugvekjuna mína, því hún er fyrst og fremst til að reyna að peppa foreldra upp núna, þegar ég veit að svo margir hanga á brúninni.  langar að láta þá vita hvernig mér leið.  Svo þeir viti að það er enginn einn í heiminum.

Beta mín þú mátt vera nokkuð viss um að stelpuskottið kemur aftur.  Hún veit hvað er henni fyrir bestu.  þetta sem hún er að reyna að losna við, það fer.  Knús á þig.

Takk Dísa mín.  Ég lofa að vera áfram ég sjálf.  Og já ég ætla að njóta ljósgeislanna minna allra, meðan ég get. 

Takk Hrönn mín.  Það er gott að vita.  Og einmitt eru færslurnar þínar hluti af mínum gleðigjöfum.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.12.2009 kl. 23:55

10 Smámynd:

Góður pistill Ásthildur mín og ljóðin þín eru falleg. Það er ekkert að því að yrkja dapurlega ef þannig liggur á manni og mikið skil ég vel að þér hafi liðið illa að vita af syni þínum svona illa komnum. Vona að jólin færi þér og þínum gleði og frið

, 17.12.2009 kl. 00:09

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Bara alltaf bezt...

.

Steingrímur Helgason, 17.12.2009 kl. 00:57

12 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir þennan fallega pistil, og ljóðin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.12.2009 kl. 01:46

13 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú ert ómetanlegur fjársjóður kæra vina

Jónína Dúadóttir, 17.12.2009 kl. 08:02

14 identicon

Sæl Ásthildur. Ég hef stundum lesið bloggið þitt í gegn um árin og skoðað myndirnar. Ég var að lesa að sonur þinn hafi látist. Mig langaði að senda þér mínar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.   Mikið er þetta sorglegt, ég finn afskaplega til með þér kæra Ásthildur.

Kveðja Alva K. Kristínardóttir.  

Alva Kristín Kristínardóttir (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 08:50

15 Smámynd: Ragnheiður

takk fyrir frábæra hugvekju eins og alltaf, ég skil þig vel. Það breytist svo margt innra með manni þegar svona stór missir er orðinn, gatið er nánast áþreifanlegt í fjölskyldunni.

Jólin mín þetta árið verða gjörólík, við borðum í vinnunni minni hjónin og synir okkar tveir ætla að vera með okkur þar

Knús á þig kærleikssystir mín

Ragnheiður , 17.12.2009 kl. 18:59

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll innilega. 

Velkomin hingað inn Alva.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.12.2009 kl. 11:35

17 identicon

Kæra ásthildur ég les alltaf bloggið þitt og þú ert svo dugleg og kærleiksrík kona, mér finnst gott að lesa hjá þér og það hefur hjálpað mér í gegn um mitt verkefni. Ákvað að senda þér þessar fáeinu línur og litla jólakveðju í tilefni hátíðanna. Hafðu það gott duglega kona og megi guð og gæfan fylgja þér hvert sem fótspor þín liggja. Kærleikskveðja Guðný.

Er skammdegismyrkrið oss skellur á,

og skuggarnir taka að lengja,,

hin heilögu jól okkur heilsa þá,

í hátíðleik himneskra strengja.

Með gleði í hjarta við fögnum þeim sið,

sem heimsbyggðin oss hefur skapað,

í kærleika sameinast mannkynið,

þeim helgidóm hefur ei tapað.

Við skulum öll skoða hve ljósið er skært,

og skammdegistöfranna njóta,

huga að því sem er okkur svo kært,

en senda burt allt þetta ljóta.

Þó framundan tímabil taki við strangt,

þá huggun í harminum finnum,

við eigum það val að það verði ei langt,

ef viljasterk jákvæðni sinnum.

Í bjartsýni brosum mót hækkandi sól,

með birtunni saman í liði,

nú höldum við hátíðleg gleðileg jól,

og njótum hvers annars í friði.

Kv Guðný.

Guðný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 15:39

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir orðin þín og þetta fallega ljóð Guðný mín.  Þetta hrærði mig. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.12.2009 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2022163

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband