Smá hugleiðing og gjöf til vina.

Ég hef verið langt niðri síðustu daga.  Ég veit ekki af hverju, hvort það er sorgin eða gluggapósturinn og innburðarbréfin frá Sýslumanni sem valda því.  Held samt að það sé hvort tveggja, en þó held ég að gluggapósturinn vegi þyngra.

Ég er svo ánægð með sýninguna, og henni var svo vel tekið.  Ég er að vísu eftir að ganga frá þeim munum sem voru þar. Sumt er ennþá í bílnum mínum.  En það er svo erfitt að koma sér að verki, þegar manni líður svona illa, og nær ekki alveg tökum á sjálfum sér, andlega og líkamlega. 

En þar sem ég sat hér fyrir stundu, var eins og væri verið að reyna að segja mér eitthvað.  Eitthvað sem gæti allavega gefið mér einhverja fró eða gleði.   Og ég fór að róta aðeins í gömlum pappírum, og þá sá ég smásögu sem ég skrifaði fyrir  nokkrum árum.  Og þegar ég fór að lesa hana, fann ég að þetta var nákvæmlega það sem ég þurfti á að halda. 

 

Ég ætla því að deila henni með ykkur vinum mínum sem hafið staðið svo vel og yndislega með mér gegnum alla erfiðleika. Heart

 

Það sem augað ekki sér.

 

Skáldið sat á steini, hann fór daglega í stuttar gönguferðir, og hér var hann vanur að setjast niður, það var einhvernveginn svo mikill friður og ró, honum leið vel að sitja á þessum steini, hann var  sléttur eins og stóll, það var líka svo notalegt eins og í dag,

það var vor, og sólin skein glaðlega og yljaði honum.   Geislar hennar dönsuðu prakkaralega á hnjákollum hans og hann fann hitan og hlýjuna frá þeim. 

Gamli maðurinn sat svolítið hokinn og starði fram fyrir sig, án þess að hreyfa sig.  Þótt líkami hans væri mjór og skorpinn, þá voru augu hans vökul og sáu margt. 

 Hann hafði gaman af að yrkja um náttúruna.  Hann elskaði móður jörð og allt sem á henni þreifst.  Plöntur og dýr.  Það voru helst mennirnir sem gátu gert honum gramt í geði, þegar þeir sýndu af sér þá grimmd sem stundum kom fram í athöfnum þeirra, orði og æði. 

Hann þurfti ekki mikið á mannlegum félagsskap að halda, honum nægði nálægðin við sköpunarverkið, náttúruna allt í kring um hann.  Það var gott að vera í fámenninu, og geta gengið sér til heilsubótar stuttan spöl og sest niður og hvílt sig hvar sem manni datt í hug. 

  

Allt í einu tók hann eftir því að hjá honum stóð lítil stúlka.  Hún starði á hann og virtist ofurlítið feiminn.  Stúlkan var mjög falleg, með rjóða vanga og í stuttum kjólgopa, hún hafði ljósar fléttur sem liðuðust langt niður á bak hennar og þegar hún snéri sér við sveifluðust þær til og frá. 

Honum fannst eins og hana langaði að segja eitthvað við hann, en þorði það ekki.  Svo hann brosti til hennar uppörvandi. 

Hún brosti á móti, og sagði hikandi, mamma segir að ég eigi að bjóða þér inn í kaffisopa. 

Ha! svaraði gamli maðurinn undrandi, kaffisopa hér, hér býr enginn. 

Ójú svaraði stúlka og hló, við búum allavega hér. 

Hann horfði í kring um sig og sá þá hús þar rétt hjá, þessu húsi hef ég aldrei tekið eftir fyrr hugsaði hann.  Er mér nú farið að förlast. 

Stúlkan hló ennþá meira, og nú var runnin af henni öll feimni. 

Þá kom einnig lítill drengur skokkandi eitthvað yngri en stúlkan. 

Ertu búinn að bjóða manninum inn, spurði hann forvitinn. 

Já já, hann segir að það búi enginn hér í nágrenninu, svaraði stúlka og þau hlógu bæði. 

Litli drengurinn greip nú í hönd gamla mannsins og togaði í hann. 

Mamma sagði að þar sem þú kæmir svo oft hingað og hvíldir þig ættum við að bjóða þér inn í kaffi, sagði hann blíðlega. 

Maðurinn stóð á fætur, þau gengu hægt í áttina að húsinu, þetta var fallegt steinhús, með fagurlega útskornum gluggum, fínleg útsaumuð gluggatjöld voru þar fyrir.  Allt var svo snyrtilegt og fallegt þarna í kring.  Hann var svo hissa á að hann hefði ekki séð þetta hús fyrr, en hugsaði svo ekki meira um það, því nú opnuðust dyrnar og glaðleg kona stóð í gættinni, hann sá strax hve líkar þær voru mæðgurnar, báðar með þessar fallegu rjóðu kinnar og ljósa hárið í fléttum, brosmildar og hlýja og gáski stafað frá þeim. 

  

Velkominn sértu í hús mitt, Valgarður, sagði konan og rétti honum hendina og heilsaði. 

Svo þú veist hvað ég heiti sagði hann undrandi.  

Ójá minn kæri, það veit ég, sagði hún kankvís. 

En ekki veit ég nein deili á þér góða mín, sagði Valgarður dálítið skömmustulegur, hann var að reyna að muna hvaðan hann ætti að þekkja þetta fólk, og hvernig gæti staðið á því að hann myndi ekki eftir því. 

Þá hló konan, hún var jafn hláturmild og dóttir hennar.  Nei Það veit ég líka, sagði hún, ég heiti Hulda og við erum búin að eiga heima hér lengi.  Lengur en þú meira að segja. 

Þau gengu inn  í lítið en fallegt eldhús og hún bauð honum að setjast við eldhúsborð, á því var útsaumaður dúkur, og fallegt rósamálað bollastell, fat með kökum og mjólkurkanna í stíl. 

Hann settist og dásamaði þetta allt í huganum. 

Mikið er allt fallegt hérna, sagði hann svo. 

Já, okkur finnst gaman að hafa fallega hluti í kring um okkur, sagði Hulda brosandi.  Hún gekk að eldavél og sótti kaffikönnu og helti í bolla fyrir hann, hún hellti líka í bolla fyrir sig, krakkarnir fengu mjólk og tóku svo hraustlega til matar síns af kökufatinu. 

Þetta eru heilbrigð og hraust börn sem þú átt hérna, sagði hann. 

Já blessaðir ungarnir, það eru þau. 

Hvar er húsbóndinn spurði hann varfærnislega. 

Hann er að vinna, var svarið.  Hann kemur ekki heim fyrr en í kvöld.

  

 Ég hef aldrei tekið eftir því að það væri hús hérna, sagði hann til að segja eitthvað. 

Nei það eru ekki allir sem sjá það, svaraði Hulda brosandi. 

Hann beið eftir frekari skýringum en þær komu ekki strax, hún leit á þetta sem sjálfsagt mál. 

Þetta hús sjá einungis þeir sem vilja sjá það, sagði hún svo eftir nokkra þögn.  Eins og svo margt annað í heimi hér.  Það er svo auðvelt að ana blindandi í gegnum lífið, og sjá ekkert nema það sem maður vill sjá sjálfur. 

Þú aftur á móti ert ekki þannig.  Þú ferð mjúkum höndum um allt sem þú snertir, og þykir vænt um náttúruna.  Það er svoleiðis fólk sem lífríkið þarfnast.  Ekki þeir sem telja sig herra jarðarinnar og halda að þeir geti gert hvað sem er í krafti tækni sinnar og auðæfa.  Það er þvi miður mikil skammsýni.  Því erum við þakklát fyrir fólk eins og þig. 

  

Þau höfðu drukkið kaffið og hann borðaði meðlætið af bestu lyst, fannst kökurnar afar góðar.  Og gerði þessu öllu góð skil. 

Svo stóð þessi góðlega kona upp og sagði;   má ég bjóða þér að ganga til stofu. 

Hann stóð upp líka og fylgdi henni inn í bjarta og fallega stofu, þar var mikið af blómum, hann sá litlar verur leika sér í þeim, og þarna var yndislegur blómailmur. 

 

Okkar langar að syngja fyrir þig sagði hún glaðlega, og benti honum á að setjast í grænan sófa, sem þarna var. 

Hann settist eins og í leiðslu, þetta var allt svo fallegt en framandi en þó svo kunnuglegt, teppið á gólfinu minnti helst á nýslegna grasflöt, blómin sem vöfðu sig upp í gluggakisturnar, honum fannst hann kannast við þau, loftið í stofunni var himinblátt, líkt og hvolfþak, hann undraðist hve rúmt var inni í þess húsi sem hafði virst svo lítið utanfrá. 

Hann hrökk upp frá þessum hugsunum sínum, þau höfðu stillt sér upp fyrir framan hann,  konan og börnin, og nú byrjuðu þau að syngja undur fallegan söng, raddir þeirra voru eins og hann hefði ímyndað sér raddir engla.  Söngur þeirra var samstilltur og svo blíður og fagur, svo tóku litlu verurnar undir líka, og þetta varð að hrynjandi kórsöng, aldrei hafði hann upplifað neitt þessu líkt. 

Hann fann hvernig tárin læddust fram í augnkrókana, og kökkur í hálsinn.  En honum leið svo dæmalaust vel, þessi söngur hann var svo dásamlegur, eins og raddir vorsins, lengi vel sat hann dáleiddur og hlustaði og hlustaði. 

 

Svo var skyndilega eins og hann rankaði við sér, eins og hann hefði dottað og hrykki skyndilega upp aftur. 

Hann sat á steininum sínum og fann að honum hafði kólnað svolítið.  Sólin var genginn bak við ský og það var ekki eins hlýtt lengur.  Hvað hafði gerst?  Hann leit í kring um sig undrandi, hvar var fjölskyldan og verurnar, hvar var húsið?  Hafði hann verið að dreyma? En þetta hafði allt verið svo raunverulegt. 

 

Hann leit í áttina þar sem húsið hafði staðið, jú þarna var stór steinn, upp með honum uxu fjólur og mosi og  berjalyng, flöturinn framan við steininn var sléttur og þar uxu sóleyjar og fíflar, allt var svo snyrtilegt og fínt, eins og þetta væri hús og garður.  Honum fannst meira að segja votta fyrir gluggum í steininum, og skófir sem litu úr eins og útsaumaðar gardínur. 

Getur það verið hugsaði hann, að ég hafi verið þarna inni og þegið veitingar, hlustað á englasöng og liðið svona vel. 

Djúpt inn í brjósti sér fann hann ennþá gleðina og þann unað sem söngurinn hafði veitt honum, hann var viss um að hann hafði upplifað eitthvað sem enginn gæti frá honum tekið, þessa minningu myndi hann geyma í hjarta sínu til hinstu stundar.  Ekkert gæti komið í veg fyrir það. 

 

Hann stóð upp af steininum fann að hann var svolítið stirður, stafurinn hans hafði runnið niður og lá við hliðina á steininum.  Hann ætlað að beygja sig til að ná í hann, en á einhvern einkennilegan hátt reistist stafurinn við af sjálfu sér og hrökk í hönd hans.  Takk fyrir tautaði hann glaður,  takk, elskurnar mína, honum fannst hann heyra dillandi hlátur.  Tvö hlægjandi börn, tvö dansandi, hlægjandi börn og falleg  ástúðleg móðir. 

Þessa mynd mun ég ætíð geyma í mínu gamla hjarta, sagði hann og í huga hans ómaði söngur lífsins.   Í frjórri moldu fræið liggur

fegurð vorsins í sér ber.

Frá Guði sínar gjafir þiggur,

gjörvöll jörðin, lífsvon hver.

Eigið góðan dag mín kæru.  Og innilega takk fyrir að hugsa til mín og sýna mér kærleika og fegurð þess sem gleðja vill aðra manneskju.  Það er allt of fátítt á þessum tímum græðgi og undirferlis.  Þá glampar skærar á perlur mannlífsins sem rísa og skína þar sem þeirra er þörf.  Heart 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Helgadóttir

elsku ásthildur.....  mér vöknaði um augun af einhverri ástæðu meðan ég las færsluna.

Elín Helgadóttir, 11.11.2009 kl. 11:09

2 Smámynd: JEG

Elsku Ásthildur.  Langar að senda þér knús og kram.  Þú ert hetja og mundu að fara vel með þig ....ekki gleyma sjálfri þér. 

JEG, 11.11.2009 kl. 11:46

3 identicon

Veit um eitt mín kæra sem getur dreift huga þínum. Þú þarft að skrifa bók/bækur og ég skal kaupa eitt af fyrstu eintökunum

Í sambandi við gluggapóstinn þá ætti að banna hann á þessum tímum. Vona samt innilega að ykkur takist að bjarga ykkur fyrir horn elsku hjón.

Er ekki líka bara ágætt að þyngja bílinn soldið á meðan það ríkir allst konar frost og svoleiðis leiðindi. Man að pabbi setti oft sementspokas í skottið á bílnum hennar mömmu til að þyngja hann. Gullin fara ekkert.

Risaknús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 13:39

4 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Yndisleg saga og boðskapurinn líka...Þakka þér fyrir og ég vona virkilega að rætist úr vandræðum ykkar

Jónína Dúadóttir, 11.11.2009 kl. 13:41

5 identicon

Falleg saga og boðskapur. Lofaðu tilfinningunum að flæða, það léttir á sálartetrinu í stað þess að hlaða þar upp einhverjum þungum hugsunum, sem gera ekki annað en að klessa andlegu hliðina. Sendi þér og þínum góðar hugsanir Kv. Steini Árna

Þorsteinn Árnason (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 13:55

6 Smámynd: Ragnheiður

Yndisleg saga...mikið vildi ég að mannlegi þátturinn kæmi í ljós hjá sýsluskrifstofunni og þessi bréf og aðgerðir yrðu settar óumbeðið á einhvern frest meðan jólin líða og slíkt..

Knús, við erum komnar upp nokkrar tröppur. Förum rólega og saman

Ragnheiður , 11.11.2009 kl. 13:56

7 Smámynd:

Elsku Ásthildur mín þetta var falleg saga  Það er skömm að því að þú þurfir að hafa áhyggjur af gluggapósti á þessum erfiðu tímum. Mér finnst að sýsli ætti að gleyma ykkur fram á næsta ár a.m.k. og hjálpa ykkur til að halda kúlunni. Hvað varð um að halda í fólkið sem þó vill búa á landsbyggðinni? Svei þeim bara þessum opinberu fígúrum

, 11.11.2009 kl. 16:46

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

 Ég kem og ýti á rassgatið á ykkur Röggu ..  er svo asskoti sterk!  Takk fyrir söguna og að deila enn á ný Ásthildur mín.

Jóhanna Magnúsdóttir, 11.11.2009 kl. 16:50

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Góð hugljúf saga með fínan boðskap.  Þarna ertu á þinni hillu kæra Ásthildur

Jenný Stefanía Jensdóttir, 11.11.2009 kl. 17:49

10 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þú ert ótrúleg, langt niðri, þarfnast hvíldar og huggunar og hvað gerir konan sendir okkur þessa flottu sögu.

Vona að þú náir hvíld og að safna orku sendi þér góðar hugsanir

knús á ykkur öll í kúlunni

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 11.11.2009 kl. 18:33

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Elín mín. 

Takk JEG og velkomin hingað inn.

Elsku Kidda mín er er svo lítið fyrir að standa í framapoti, gaf einu sinni út plötu og stóð mig illa í sölumennskunni.  Kann það bara ekki. 

Takk Jónína mín.

Takk Steini minn, reyni að láta þetta flæða.... út um allt.

Takk Ragga mín, já það er gott að fara svona upp saman.  Ég finn alveg fyrir því að við styðjum hvor aðra þarna í myrkrinu í áttina til ljóssins, og fáum ótrúlega hjálp.

Takk Dagný mín elskuleg.  Já kerfið er einhvernveginn einstaklingsfjandsamlegt, jafnavel á þessum erfiðu tímum.  Ég ætti svo sem ekki að kvarta.  Ég á þó góða að og vini, vandamenn og ótrúlega stóran hóp af fólki sem tekur þátt í öllu með mér.  Hvað er hægt að fara fram á meira.  Hitt yrði svo bara bónus, ef mér tekst einhvernveginn að krafla mig fram úr þessum hremmingum með kúluna mína.

Takk Jóhanna mín, ég held að ekki veiti af upplyftingunni.

Takk fyrir það Jenný mín.

Takk Hulda mín, hef verið að spá í það í nokkra daga... alvarlega að leita mér læknis og fá svefntöflur.  En ég fresta því alltaf einhverra hluta vegna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.11.2009 kl. 20:44

12 identicon

Falleg saga. Megum við fá meira að heyra? Það er rétt hér að ofan þú ættir að skrifa bók, hún yrði góða hvort sem hún kæmi úr sama sjóði og þessi eða minningasjóðnum. Sendi þér alla þá orku sem ég á.

Dísa (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 20:44

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk mín elskulega æskuvinkona og ævivinkona.  Er nákvæmlega núna að skrifa ævintýrasögu um börnin í kúlunni sem á að vera jólagjöfin í ár til barnabarnanna, enda er sagan um þau og ömmu í kúlu, eins og síðast.  Gerist líka á sömu slóðum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.11.2009 kl. 21:03

14 identicon

Kæra mín. Þú ert að ganga í gegnum erfiðasta tímabil sem nokkur manneskja þarf að ganga í gegnum - að missa barnið sitt. Þú ert að syrgja son þinn og þarft að fá þinn tíma til þess. Að þurfa líka að ganga í gegnum fjárhagsáhyggjur er nánast óbærileg tilhugsun. Það er í raun óskiljanleg öll þessi þjáning sem lögð er á þínar herðar. Ég er þó þess fullviss, og þá meina ég fullviss að þetta fer allt saman vel. Gefðu þér tíma til að syrgja og gefðu þér tíma fyrir sjálfan þig. Ég ætla að kveikja á friðarkerti hérna í litla eldhúsinu í Hafnarfirði - bara fyrir þig. :-)

Berglind Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.11.2009 kl. 23:05

15 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sagan er alveg yndisleg.    Ég vona að allt gangi vel að öðru leiti líka. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.11.2009 kl. 01:44

16 Smámynd: IGG

IGG , 12.11.2009 kl. 02:03

17 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ef þú ert ekki yndisleg og laus við sérgæsku þá er það engin, Ásthildur mín ég er með tárin í augunum, gleði í hjarta yfir þessari sögu, sem er svo undurfögur og raunveruleg fyrir mér, það er allt svo fagurt í kringum verurnar sem fáir sjá.

Þú át þessa sögu og svo margar aðrar því þú trúir, finnur og sérð.
Okkur vantar svona sögur núna, svo farðu að gefa út ljúfust mín.

Kærleik sendi ég í Kúlu
Þín Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.11.2009 kl. 08:14

18 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 08:20

19 identicon

Kæra Ásthildur. Ég er búin að sitja lengi við að lesa bloggið þitt og skoða myndirnar.  Komst að því að þú býrð í kúluhúsinu sem ég er svo hrifin af og þarf að keyra að minnstakosti einu sinni framhjá í þau skipti sem ég kem til Ísafjarðar. Ég sendi þér og þínum bestu óskir og vona að lífið verði bjartara og betra.

Ásta Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 09:18

20 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Kærleikur og Ljós vestur til þín !

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.11.2009 kl. 09:29

21 Smámynd: lady

Mikið var þetta falleg saga,,en ég skil þig vel þegar manni líður illa þá er erfitta ð koma sér að stað að gera eitthvað ,,en vonandi eigum við eftir að hittast,,ég er að fara núna á sorgafund ,hjá nýdögum, í kvöld,,ég þarf að hafa mig alla að koma mér á stað,veit ég að börninn okkar vaka yfir okkur,,, farðu vel með þig  mín kæra

lady, 12.11.2009 kl. 19:14

22 Smámynd: Laufey B Waage

Laufey B Waage, 12.11.2009 kl. 20:54

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk Berglind mín.  Ég skal fara vel með mig.

Takk Jóna Kolbrún mín.

Knús Ingibjörg mín.

Takk Milla mín og knús.

Knús Ragna mín.

Takk Ásta mín og velkomin hingað inn.

Takk elsku Steina mín.

Elsku Lady mín, ég læt ykkur Röggu og Birnu Dís vita þegar ég verð í bænum, og við skulum allar hittast.  Takk.

Knús Laufey mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2009 kl. 10:34

24 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir mig elsku Ásthildur

Sigrún Jónsdóttir, 13.11.2009 kl. 12:01

25 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Elsku Ásthildur láttu ekki gluggapóstinn taka þig út af laginu mundu bara að það er 38.000 heimili í landinu í sömu stöðu og þið og það er ekki af´því að þú varst að sukka með peningana. gefðu bara puttann í þetta lið og láttu þér líða vel, annað er ekki í boði  Knús á ykkur í fallegu kúluna ykkar.

Guðborg Eyjólfsdóttir, 13.11.2009 kl. 12:09

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk báðar tvær.  já ég skal reyna að muna það Guðborg mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2009 kl. 13:46

27 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Kaera Asthildur min. Eg hef ekki bloggad i marga manudi en sa faersluna thina a mbl.is og akvad ad kikja a thig. Mikid rosalega finnst mer erfitt ad heyra hvad thu ert ad ganga i gegnum, eg get ekki imyndad mer sorg thina. Thu ert sterk, hly, og falleg kona, og eg mun bidja fyrir ther a thessum erfida tima. Thusund thakkir fyrir soguna sem ad thu deildir med okkur, hun var mjog falleg. Eg sendi ther alla mina hlyju og jakvaedu orku yfir hafid, kossa og knus lika, fardu vel med thig

Bertha Sigmundsdóttir, 13.11.2009 kl. 19:51

28 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Yndisleg sagan Ásthildur Ég fer eiginlega aldrei orðið inn á bloggið hérna lengur en langaði að kíkja á þig aðeins. 

Ljós og kærleikskveðjur

Ragnhildur Jónsdóttir, 14.11.2009 kl. 10:58

29 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Bertha mín.  Ég hef saknað ykkar tveggja hér.  Var einmitt að hugsa til þín Bertha mín um daginn.  Vonandi líður þér vel og allt í góðu hjá ykkur fjölskyldunni í USU. 

Elsku Ragnhildur mín, ég var líka farin að sakna þín og kíkti á þig, fer annars sjaldan héðan eitthvert annað.  Við erum ekkert nema vaninn ekki satt? Yndislega fallegar kisumyndirnar þinar á nýja staðnum eins og þín er von og vísa.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2009 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband