Andvaka.

Enn ein andvökunótt.  Fólk spyr mig hvernig ég hafi það.  Það spyr af umhyggju fyrir mér, og fyrir það er ég þakklát. En mér vefst tunga um tönn.  Hvernig hef ég það?  Á daginn þolanlega, þá þarf að huga að ýmsu daglegu amstri, og svo eru það sólargeislarnir mínir.  Allstaðar er líka fólk sem kemur og knúsar mig og umvefur mig kærleika og umhyggju.  Það er notalegt. 

En á nóttunni, þegar ég vakna upp, þá læðast að mér allskonar hugsanir.  Söknuðurinn yfirtekur, og ég finn að ég er sundurkramin.  Og það er vont.  Ég sakna sonar míns, og veit að það er ekkert hægt að gera í því.

Nokkru áður en hann dó, sat hann hér á pallinum fyrir utan dyrnar í garðskálanum, þar sem hann sat svo oft.  Ég vissi að hann var að missa húsnæðið sem hann var í. 

Ég hef svo miklar áhyggjur af þér Júlli minn, sagði ég.  Þú verður að gera eitthvað í þessu.  Tala við Féló eða eitthvað. Ég veit að þau vilja gera eitthvað fyrir þig.

Ekki hafa áhyggjur af mér mamma mín, svaraði hann, þetta verður allt í lagi.

Ef ég bara hefði vitað að eftir nokkra daga......

Þá hefði ég tekið utan um hann, strokið vangann og smellt kossi á kollinn hans, eins og ég gerði stundum, sagt honum hve vænt mér þætti um hann.  Og að ég gæti ekki hætt að hafa áhyggjur af honum.  Hann var barnið sem þurfti mest á mér að halda.   Vegna þess að hann var viðkvæmur.  Samt var hann alltaf mesti töffarinn af þeim öllum.  Reyndar mesti töffarinn í skólanum á sínum tíma.  En samt alltaf þessi viðkvæma sál, sem ekki mátti neitt aumt sjá.  Setti alltaf alla aðra fyrir framan sig.  

Hugsanir leita á mig þegar ég vaki á nóttunni.  Þær snúast allar um drenginn minn, og oftast hvað ég hefði getað gert.  Þó ég viti að slíkar hugrenningar eru ekki til neins annars en að kvelja mig.  Ég veit líka að hann vill ekki að ég hugsi svoleiðis.  Allra síst hefði hann viljað upplifa mömmu sína sorgmædda, það veit ég.  Það er bara sumt sem maður ræður ekki við.

Það hafa margir þakkað mér fyrir skrifin mín hér.  Ég er þakklát fyrir að geta miðlað þessari reynslu minni, og sérstaklega ef það getur hjálpað öðrum.  Og það finn ég að það gerir.  Þannig vill hann einmitt hafa það.  Það er í hans anda.  Skrýtið hvað við tökum alltaf allt sem sjálfsögðum hlut, þangað til allt í einu því er kippt burt á einu andartaki.  Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum hvern dag í einu, lærum að lifa eins og hver dagur sé sérstök gjöf.  Ég hugsa stundum um það hvernig mér hefði liðið ef við hefðum skilið ósátt.  Ef eitthvað slíkt hefði komið upp á og ég setið eftir með minningu um ósætti eða slíkt.  Það hefði verið óbærilegt.  Ég man ekki eftir að við værum nokkurntímann ósátt.  Ég hafði oft áhyggjur af honum, og var stundum örg út í hann út af einhverju, en það var aldrei neitt alvarlegt.  Við vorum alltaf vinir.  Hann var líka svoddan ljúflingur að það hefði aldrei verið hægt að vera reið við hann lengi. 

Nú sit ég hér, nóttin læðist yfir

næðingur um sálu mína fer.

Hugsanir um allt sem hérna lifir.

Hjálpa mér að muna eftir þér.

 

Sofðu rótt, ó sonurinn minn góði.

Sofðu vinur, mamma vakir nú.

Um þig vef ég ást mína með ljóði.

af öllu mínu hjarta og góðri trú.

Mín kæru, megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur og vernda.  Ég ætla að reyna að læðast upp í rúm og leggja mig.  Vonast til að geta sofnað.  Heart

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Kæra Ásthildur,

Þetta er erfitt, en þú ert samt örugglega komin lengra á veg í sorgarferlinu en margir í sömu stöðu, vegna þess að þú hefur fundið farveg fyrir hugsanir, góðar og slæmar, gleðilegar og sorglegar í skrifum þínum.

Andvökunætur eru verstar.  Prófaðu að hugsa til Júlla í gleði, sjáðu hann fyrir þér skellihlæjandi,kátan og glaðan á hans bestu stundum.  Reyndu að bæla allri neikvæðni í kringum líf Júlla, á bug.  Þannig hjálpar þú Júlla líka, sem fetar sig í nýjum víddum, með fullt af spurningum og ef til vill eftirsjá.

Hlýjar kveðjur og skært ljós.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.10.2009 kl. 04:49

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ásthildur - ég er andvaka líka, er að vísu með flensu og svaf næstum allan gærdag. Ég held að hugsanir þínar séu mjög eðlilegar, það er ekkert eðlilegra í þessum heimi en að móðir sakni sonar síns. Við förum að spyrja okkur hvað ef??... o.s.frv.  en þú segir þetta allt sjálf, það þýðir víst ekkert að hugsa til baka og reyna að breyta því sem að baki er, heldur aðeins lifa framhaldið með þá reynslu sem við höfum í farteskinu og halda áfram að vera við og gera eins gott og okkur er lífsins mögulegt. Þú hefur svo sannarlega verið að gera gott, með að upplýsa um kerfisgalla og kerfiskalla sem eru gallaðir. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 22.10.2009 kl. 05:08

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 22.10.2009 kl. 05:56

4 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 07:33

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Það sagði við mig móðir, sem missti son sinn, að þessi spurning hefði verið svo erfið.... "hvernig hefurðu það?" Hvernig hefur maður það þegar maður missir barnið sitt? Maður hefur það skítt! Það er bara ekkert flóknara. Fólk spyr í einhverju hugsanaleysi en meinar vel og þess vegna er kannski ekki hægt að segja eins og er..... og þó....

Sendi þér faðmlag

Hrönn Sigurðardóttir, 22.10.2009 kl. 08:47

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Fallegur pistill.  Ósjálfrátt leitar hugurinn nokkur ár aftur í tímann þegar ég bjó á Ísafirði ég sá þig oft en kynntist þér aldrei, því miður, nú veit ég að ég hef misst af miklu að hafa ekki kynnst ykkur Ella.  Ég get ekki annað en sent þér góðar hugsanir og ég veit að það er svo margt í þínu umhverfi sem færir þér gleði og hjálpar þér í gegnum þetta erfiða tímabil.  Sárin gróa en þau gróa aldrei að fullu, þau skilja eftir sig ör og þegar manni verður litið á örin, er það undir manni sjálfum komið hvers kona minningar þau skilja eftir. Ég vonast til að komast til ykkar í kúlunni næsta sumar vonandi höfum við um margt skemmtilegt að spjalla.  Viltu setja inn eina góða mynd af Brandi?  Það sem ég skrifa er kannski klaufalega orðað en vonandi kemst meiningin til skila.

Jóhann Elíasson, 22.10.2009 kl. 10:04

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jenný mín.  Ég ætla að reyna að gera það sem þú segir, setja allar hugsanir og minnigar í ljós og kærleika.  Það er bara stundum svo erfitt og ég verð svo orkulaus að tárin byrja bara að renna. 

Ég veit Jóhanna mín að maður lifir ekki upp aftur orðna hluti.  Ég reyni að vera jákvæð og hugsa um það góða.  Þetta kemur ég veit það.  Takk.   Vonandi batnar þér sem fyrst flensan.  Ég veit ekki hvort ég á að segja vonandi er þetta ekki fuglaflensan, því ég held að það sé best að ljúka því af að fá hana, meðan hún er viðráðanleg. 

Einmitt Hrönn mín, þetta er dálítið erfið spurning.  En fólk meinar vel.  Það veit ég.    Það eru bara allir svo góðir við mig að ég held að megi segja eins og í Sound of Musik, somewhere in my youth or childhood, I must have done something good. 

Jóhann minn, það verður gaman að hitta þig næsta sumar.  Já við kynntumst aldrei persónulega.  En oft kynnist maður fólki öðruvísi og nánar svona.  Því þar eru landamærin önnur.   Meira inná við.  En ég skal setja inn mynd af Brandi í dag.  Hann hefur það fínt sá gamli eins og blóm í eggi.

Knús Ragna mín og Jónína.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2009 kl. 10:19

8 identicon

Þessi endalausi tómleiki sem situr eftir.Tómleikinn í mínu hjarta hefur breyst á 3 árum.Ég syrgi enn og sakna sárt ,EN á gott líf í dag.Hvernig hefur maður það eftir að barnið mans deyr?,ég missti lífslöngun um tíma,hún er komin aftur.Allt er eðlilegt í þessum aðstæðum.Þú ert svo dugleg,Guð styrki þig .

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 11:03

9 Smámynd: IGG

Falleg eru skrifin þín hér Ásthildur mín eins og jafnan áður. Ég kannast við ef-in sem sækja á þegar horft er á eftir ástvinum yfir landamæri lífs og dauða. Tek undir með þér um mikilvægi þess að lifa hvern dag sem dýrmæta gjöf. Ljóðið þitt hér að ofan finnst mér yndislegt. Kærleikskveðja í Kúluna.

IGG , 22.10.2009 kl. 11:24

10 Smámynd: Laufey B Waage

Laufey B Waage, 22.10.2009 kl. 11:33

11 identicon

Knús á þig elsku frænka :-)

Gréta (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 11:41

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk innilega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2009 kl. 12:23

13 Smámynd: Ragnheiður

Missir er afar mismunandi en alverst að jarða barnið sitt. Ég kannast við þessar andvökur, skelfilega slítandi yfirferð um fortíð móður og barn, ásakandi kjökur og kvein sem engu skilar en þreytir mann ógurlega. Þetta lagast, ég lofa því. Hjá mér lagaðist það ekki fyrr en stuttu eftir afmælið hans Himma...hann deyr í ágúst og var fæddur í nóvember. En ég varð að fá svefntöflur og þá fór mér að batna þegar ég fór að geta sofið. Ég fékk 20 töflur og á ennþá 2 eftir.

Fólk vill manni vel en kemur kannski ekki orðum rétt að því. Pabbi gamli sagði við mig 2 dögum eftir lát Himma ; ertu ekki að jafna þig á þessu ?

Það var skelfilega óheppilega orðað...

en nú fer ég , búin að koma við hjá þér- það geri ég daglega.

Ragnheiður , 22.10.2009 kl. 14:23

14 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 22.10.2009 kl. 15:19

15 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Orð mega sín lítils í þínum sporum elsku Ásthildur mín. Mér finnst alltaf falleg setning úr Spámanninum "Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni , gerir þig glaðan. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín" og "þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns, þeim mun meiri gleði getur það rúmað."

Þú skrifar svo fallega og ljóðin þín eru einstök. Vonandi áttu eftir að vakna glöð einhvern daginn. Stórt knús á þig.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 22.10.2009 kl. 16:08

16 identicon

Elsku Íja mín, ef maður skoðar skrifin þín, ekki bara undafarinn mánuð heldur ár, sé ég að þú gerðir allt sem í þínu valdi stóð og meira en ætlast verður til. Þú getur horft til baka á góðu minningarnar með góðri samvisku. Ég er viss um að Júlli heldur áfram sínu góða starfi þar sem hann er nú og fylgist með sonum sínum og ykkur. Það tekur tíma eins og allt, en þú átt eftir að gleðjast aftur, fyrst í smáum skömmtum yfir uppátækjum þinna óborganlegu litlu engla hérnamegin.

Dísa (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 16:25

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Elsku vinkona

Fallegur pistill og ég er búin að skoða og skoða greinar og myndir hér fyrir neðan. Ég var á flækingi og kom heim á mánudaginn.

Ég á ráð, það er að biðja Jesú um hjálp. "Hjálp mín kemur frá Drottni skapara himins og jarðar." Sálm. 121:2

Megi almáttugur Guð gefa þér styrk í sorginni.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.10.2009 kl. 16:26

18 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Til þín  elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 22.10.2009 kl. 18:58

19 identicon

Elsku Ía.  Mikið er þetta fallegur pistill hjá þér og ljóðið þitt segir svo margt.  Þú ert heppin að hafa sólargeislana þína á þessum erfiðum tímum og ég er viss um að tíminn græðir sár þín þó að það taki langan tíma.  Ég hugsa oft til þín og þú færð stórt knús þegar við hittumst, sem verður vonandi í ekki of fjarlægri framtíð :)  Knús og góð kveðja frá mér og Geir.  Biðjum að heilsa Elíasi. Edda

Edda Egils (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 20:58

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk allar.  Ég geymi fallegu orðin ykkar og hughreystingar í hjarta mér.   Og læri að hlusta á ykkur Ragnheiður Birnu Dís og fleiri sem hafa gengið í gegnum þetta skelfilega sorgarferli.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.10.2009 kl. 23:07

21 identicon

Þessa setningu þó svo að fólk meini vel ætti að banna: Hvernig hefðurðu það? Þó svo að ég viti að fólk meini vel þá spyr maður ekki þessarar spurningar fyrr en eftir soldinn tíma. Hvernig yrði fólki við ef maður segði sannleikann: mér líður alveg hræðilega illa.

Knús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 10:46

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að fólk sem ekki hefur sjálft lent í svona sorg viti ekki hvernig það er.  Það spyr af hluttekningu og veit ef til vill ekki alveg hvað það á að segja, og því kemur þessi spurning.  Knús á þig Kidda mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.10.2009 kl. 10:52

23 identicon

Þetta held ég að sé rétt Ásthihildur. Amma mín sagði í svipuðum aðstæðum og þú ert í þegar hún missti barnið sitt hafandi misst manninn sinn og mektar frú sagði, það guðs lukku miðað við aðstæður að hann "guð" hefði tekið barnið til sín.: Þeir gráta ekki gullið sem aldrei hafa átt það.

Verði ljós kæra kona hugrakka kona..........

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 20:02

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Hallgerður mín.

Edda mín takk fyrir kveðjuna þína.  Vonandi hittumst við fljótlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.10.2009 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2022935

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband