Sonur minn - til minningar.

Mig langar að setja hér inn nokkur orð um elskulega drenginn minn sem ég verð að horfa eftir ofan í jörðina á morgun.  Því ég veit að ég mun ekki geta skrifað neitt þá.  En langar til að minnast hans á viðeigandi hátt.  Það er allt orðið klárt fyrir fallega athöfn á morgun. Þar hafa margir lagt hönd á plóg, allir verið boðnir og búnir til að hjálpa til.  Börnin mín og tengdabörn syskini og systkinabörn gert allt sitt og svo vinir bæði mínir og drengsins míns og bara fólk út í bæ sem hefur komið, sent okkur kveðjur og sent blóm og hlýjar kveðjur.

Allt svona hjálpar mér í sorginni.  Ég er innilega þakklát öllu því góða fólki sem hefur lagt á sig að hjálpa okkur að gera þessa athöfn eins flotta og verða má, og öllu því fólki sem hefur komið, og knúsað mig og bara gert allt. 

Eg vil líka þakka fyrir allar bænirnar og hugsanirnar sem hafa verið með okkur, og ég bið ykkur sem senda kærleika upp í ljósið að muna eftir þeim sem ennþá eru í sporum þeim sem drengurinn minn var í fyrir tíu árum síðan.  Biðja fyrir því að þau fái þá hjálp sem þarf til að þurfa ekki að fara þessa þrautargöngu.

En hugleiðing mín er svona:

 

Sonur minn var í heiminn borinn þann 8. júlí 1969.  Hann var fallegt barn en uppátækjasamur, fjörkálfur hinn mesti.  Ég þótti vera með einhverskonar frjálst uppeldi á börnunum mínum.  Þannig að þeim var ekki skapaður þröngur rammi. Mér finnst einhvernveginn að um leið og við elskum og virðum þá sem í kring um okkur eru, verðum við að geta treyst.

 

Ég er glöð að sonur minn valdi mig sem móður.  Ég er nefnilega alveg viss um að hann fæddist í þennan heim til að láta að sér kveða og hjálpa þeim sem hafa lent út af sporinu.  Þannig var hann alla tíð.  Og þess vegna þurfti hann að ganga þessa þrautargöngu..  En mamman þurfti þess líka.

 

Ég hef gert mörg mistök um ævina, og eflaust hef ég getað verið betri móðir.  En það er bara einhvernveginn ekki hægt að taka það til baka sem gert er. 

En eitt get ég yljað mér við.  Hvað sem á gekk með drenginn minn, þá stóð ég alltaf með honum, v arði hann með því sem ég átti til.  Og krafðist þess að hann nyti þeirra mannréttinda sem hverjum og einum er tryggt í stjórnarská.  Þó ég talaði oft við veggi og steina.  Og ekki hlustað á mig þá, dropinn holar steininn og nú vona ég að rödd mín hljómi um allt.

 

Það er nefnilega langur vegur frá því að börn sem hafa lent út af sporinu njóti þeirra mannréttina sem þeim ber.  Og ekki bara í kerfinu, heldur hef ég fengið ótrúlegar sögur af því sama inn á meðferðarstofnunum.  Nefni Vog í því sambandi.  Það ætti sennilega að rannsaka hvernig því fé er varið sem ríkið setur í slíkar stofnanir.  Það ætti líka að skoða hvaða stofnanir hafa besta einkunn um þá sem komast út úr fíkniefnum.  Það þarf að fylgjast með þeim ekkert síður en Breiðuvík og öðrum stofnunum hér í gamla daga.  Það er mín tillaga.

Í öllum niðurskurði þá þarf að velta hverri krónu og þá gengur ekki annað en að veðja á þær stofnanir sem besta útkomu hafa.  Í tilfelli Júlla míns var það Krýsuvik sem varð örlagavaldur í hans lífi.  Ég mæli því sterklega með þeirri stofnun. Enda kemst Krýsuvík næst því að vera lokað meðferðarheimili þar sem það er ekki í alfarabraut.

 

 

Ég hugsa að í dag hefði Júlíus verið greindur ofvirkur með athyglisbrest, en þegar hann var lítill drengur þótti skólayfirvöldum og nágrönnum hann einfaldlega óþekkur, og meðhöndlunin var eftir.því.  Honum var kennt um allt sem gert var slæmt í skólanum, og endanlega rekinn þaðan aðeins 12 ára gamall. Hann gekkst upp í athyglinni sem hann fékk sem aðaltöffarinn í skólanum.  En við þurftum að senda hann í aðra skóla, um tíma í Klúku i Bjarnarfirði og að Núpi. Í báðum þessum skólum leið honum vel og gekk vel.  Einnig þegar hann þurfti að yfirgefa Gagnfræðaskólann og ég fór með hann að Laugum í Aðaldal.  Þar brilleraði hann. 

Ég hef ekki orku til að segja margt um drenginn minn.  Margt hafið þið lesið á þessum síðum mínum.  Margt annað liggur í gleymsku, en er samt þarna ennþá.

 

Júlíus var alltaf ljúfur og góður og mátti ekkert aumt sjá, þó hann væri uppátækjasamur og fyrirferðarmikill krakki. Glaðsinna var hann og stutt í brandara.  Alltaf var hann vinmargur og oftar en ekki var fullt hús hjá okkur af vinum Júlla, og reyndar barnanna allra.  Vinir hans voru jafnvel komnir í heimókn áður en hann kom sjálfur heim og sátu þá bara í herberginu hans og biðu eftir honum.  Þessir félagar hans fylgja honum enn þann dag í dag, og margir þeirra fylgja honum til grafar, eða sakna hans úr fjarlægð.  Nokkrir eru dánir.

Ljúflingurinn minn var ekki alltaf auðveldasta barn í heim. Hann bar með sér stolt Hornstrendingins og vissi hvað hann vildi og það var ekki auðvelt mál að telja honum hughvarf. 

Fyrstu æviár hans bjuggum við hjá mömmu minni og pabba, drengirnir mínir tveir urðu einskonar bræður systkina minna og þau voru aalla tíð náin þeim báum.  Og svo börnin þeirra þegar þau fæddust eitt af öðru.  Það var sterkur vinskapur með öllum barnabörnunum hennar mömmu.

En hann dó sáttur við Guð og menn.  Og hann var svo sannarlega virtur af því fólki sem þekkti til hans elskaður af vinum sínum og fjölskyldu.  Og núna þegar hann er farin mun ég reyna að nota sögu hans til að vekja fólk til umhugsunar um það óréttlæti sem fólk eins og hann hefur þurf að þola af hendi þeirra sem áttu að gæta réttar og hlutleysis. Vegna þess að ég veit að hann hefði vilja það og líka vegna þess að nú nær enginn til að særa hann eða gera illt.

 

Hef ekki orku til að segja meira en læt myndirnar tala. 

Júlli minnnig

Barn sinnar móður.

Júlli í æsku

Pabbi hans, sem er sorgmæddurr alveg eins og ég, og dvelur nú hjá móður sinni henni til huggunar, rúmlega níræð þessi elska sem alltaf sendi honum jóla og afmælisgjafir og síðan Úlfi litla. 

Júlli í æsku4

Með Siggu systur heima hjá mömmu, þar sem við áttum heima fyrsta árin hans.

Júlli í æsku2

Barnsfaðir minn sem heillaði mig upp úr skónum og vinkona mín sem bjó hér.

Júlli minnnig2

Afi hans og amma í Danmörku, Elly og Christian þaðan kemur Kristjánsnafnið

Skírn Júlli

Um leið og ég og Elli minn giftum okkur skírðum við allan krakkaskaran, Inga Þór Júlíus og Báru mína.

Afi Þórður er hér Guðfaðir  Júlla míns.  Og strákurinn orðin þetta stór.

Reyndar reyndist Elli minn drengjunum mínum báðum besti faðir og gerði aldrei greinarmun á börnunum sem við áttum saman og börnunum sem ég kom með í búið.  Drengjunum mínum tveimur.

Júlli í æsku3

Knúsírófan mín.

Júlli minnnig7

Heart

Júlli minnnig6

Fallegi drengurinn minn.

Júlli táningur

Fallegi táningurinn minn.

Júlli lí snjó

Alltaf jafn hjálpsamur.

IMG_0005

Úlfur stubbur og pabbi hans, þeir voru ofboðslega góðir vinir.

IMG_0277

Ekki síðri vinir voru Sigurjón Dagur og pabbi hans.

IMG_0457

Synir hans voru hans stolt, en líka börnin sem komu með barnsmæðrum hans. Þeim Arnari, Önnu Lilju og Aroni frá Jóhönnu og svo Ólöfu Dagmar systur  Sigurjóns.  Þau elskuðu Júlla og áttu sínar yndislegu stundir með honum.

IMG_3549

Bestu vinir.

IMG_4130

Pabbi og synir.  Hann fékk nokkur yndisleg ár með þeim. Sem hann var þakklátur fyrir.

IMG_4166

Það má ýmislegt spjalla í stiganum.

IMG_5495

Og það má hlæja saman.

IMG_6300

Eða bara njóta góða veðursins.

IMG_6340

Ég þori að fullyrða að þetta voru hans fyrstu skref við að búa til fiskana, fjörusteinana sem hann lagði við kúluna, og fékk alla fjölskylduna til að vinna þar með sér.  Og fór svo fram á að hver og einn teiknaði með steinum rósir í "fjöruna".

IMG_8004

Fljótavíkin var hans griðarstaður á jörð fyrir utan kúluna.  Hér átti hann sínar unaðsstundir.

IMG_9208

Þrjár sýningar hélt hann á list sinni.  Þetta var sú fyrsta.  Og hér vann hann síðustu stundirnar í sínu lífi, lagaði allt umhverfi Neðsta Kaupstaðar setti þar upp listaverk sem standa þar enn honum til dýrðar.  Og svo sagði hann við mig: mamma mín ég ætla að bjóða ykkur pabba í mat í tjöruhúsinu þegar þið viljið. Og við fórum og komumst að því að við áttum inni veislukost á hans kostnað.  Allt út af hans hjálp og vinnu þar fyrir vini sína.  Elsku Júlli minn takk fyrir okkur pabba þinn þar.

IMG_9338

Sæluhelgi á Suðureyri þar lét hann sig ekki vanta með drengina sína, í mansaveiðikeppni og bara að vera til.

Júlli fjölskyldumynd.6

Stoltur að stýra bátnum til Fljótavíkur.

Júlli minn12

Fjölskyldan sem hann elskaði svo mikið og við elskuðum hann.

Júlli minn123

Ætli megi ekki segja að ég sé myndaóð.  En þær ylja mér í dag myndirnar af þessum ljúfling.

Júlli minnnig8

Jól og mamma saumaði alltaf fötin sjálf á börnin sín, því ekki voru til peningar til að kaupa slíkt.

Júlli og Brandur002

elsku elsku drengurinn minn, sem ég fæ ekki lengur að hlusta á, tala við eða knúsa.

Júlli og Hanna Sól

Hér er hann með Hönnu Sól hreinn og flottur frá Krýsuvík.

Myndir frá París og fleira 201

Í ættingja hópi á sínum uppáhaldsstað Fljótavík.

En á morgun verður hann jarðsettur frá Ísafjarðarkirkju kl. 14.00 Það verður falleg athöfn og þar hafa margir lagt hönd á plóg.  Honum verða sungnir sálmar bæði honum tileinkaði, samdir fyrir hann sérstaklega og lesin upp ljóð samin um hann.  Fyrir utan allt annað mun þessi ljúflingur minn hljóta útför sem mun svo sannarlega vera okkur báðum til sóma. 

Ég er innilega þakklát öllu því góða fólki sem hefur lagt á sig vinnu og sýnt kærleika okkur öllum til handa.  Við að gera þennan sorgaratburð sem léttastan og bestan.  Auðvitað er sorgin sár. En að finna slikan hlýjug og kærleika gerir svo sannarlega kraftaverk og lætur manni líða betur.

Ég er svo innilega þakklát ykkur öllum, og svo innilega stolt af syni mínum og elska hann svo mikið og trúi því að við munum hittast aftur.  Annað er bara óhugsandi, óbærilegt.

Elsku vinir mínir, vandamenn og þið þarna úti sem nennið að lesa þessa langloku, munið að enginn er vonlaus, og sá sem er fyrirlitinn og smáður í dag, getur verið upphafinn á morgun.  Það er bara þannig. En aðalmálið er að enginn getur troðið sér upp fyrir annan.  Við erum öll jöfn, fæddumst öll nakin inn í þenna heim, og þó sumir hafi fæðst með gullskeið milli tanna, þá hefur það ekkert að segja á hinsta degi.  Eða eins og ég sagði við sérann okkar hann Magnús sem er algjör öðlingur; Jarðarförin er hinn hinsti dómur hvers manns um hvernig hann hefur gengið brautina.  Sá sem hefur verið kærleiksríkur og miðlað af sér mun vera í fjölmenni á sinni jarðarför, vegna þess að fólk vill sýna honum þá virðingu að fylgja honum alla leið. Sá hins vegar sem hefur allta tíð notað tímann til að hygla sjálfum sér, getur ekki átt von á fjölmennri jarðarför eða einlægum vinarþel og kærleika.  Þannig virkar lögmálið.

En mín elskuleg ég sit hér og syrgi son sem ég hef þurft að bera á höndum mér alla tíð.  Ég sé ekki eftir neinu, og reyndar man ekkert nema það góða og fallega. 

Nema bara þegar ég les það sem ég hef geymt og sparað, vegna þess að innst inni vissi ég að ég þyrfti að standa í þessum sporum og hrópa á torgum;   Þér hræsnarar sem haldið að þér getið komið hvernig sem er fram við brotnu einstaklingana okkar, munið að lokum skilja að við foreldrar og ættmenni munum rísa upp og krefjast réttlætis og hjálpar.  við viljum að samfélagið skilji og viti að þetta gengur ekki lengur.  Það þarf að breyta um kúrs og fara að huga að réttlátari aðferðum til bjargar okkar öðruvísi barna.  

Megi allir góðir vættir vaka með ykkur og vernda.

Ég ætla að skríða í holuna mína og syrjga látinn son. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Blessuð sé minning Júlla, það hefur verið lærdómsríkt að lesa bloggið þitt undanfarna daga.  Takk fyrir að gefa okkur innsýn í líf þitt og baráttuna sem móðir fíkils.  Þú hefur staðið þig eins og hetja. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.10.2009 kl. 01:55

2 identicon

Ég samhryggist þér og fjölskyldu þinni á þessum erfiðu tímum kæra Ásthildur. Það er alltaf erfitt að sjá á eftir ástvinum sínum, en erfiðast hugsa ég að sé fyrir foreldra að sjá á eftir börnum sínum. Sjálf þekkti ég son þinn ekki persónulega, en vissi hver hann var. Hann sá oft um að hirða garðinn hjá foreldrum mínum. Hann var kurteis og vinnusamur maður sem vissi greinilega hvað hann var að gera. Guð blessi þig og fjölskylduna í sorg ykkar.

Kveðja, Tryggva- og Þórunnardóttir.

Sigrún Halla (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 01:57

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Knúz frá mér til þín í kúluna þína Ásthildur Cecil mín & til allra þinna sem að sárt eiga um að binda.

Steingrímur Helgason, 10.10.2009 kl. 01:59

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Kæra Ásthildur.

Megi algóður Guð blessa þig og styrkja í sorg þinni og ástvini ykkar alla við fráfalls sonar þíns. Það er skelfilegt á alla vegu þegar foreldrar neyðast til að fylgja börnum sínum eða barnabörnum til grafar.

Hún er huggun harmi gegn, vonin sem okkur er gefin af Frelsaranum okkar um að við munum í upprisunni á efsta degi sameinast ástvinum okkar á ný.

Ég bið ykkur farsældar og styrks sem fyrr segir og megið þið eiga fallegan dag og virðulega útför sem hæfir hinum elskaða og glæsilega syni þínum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.10.2009 kl. 02:09

5 identicon

Elsku Ásthildur mín.......... Knús í Kúlu

P.S.  Fallegu kveðjunni frá þér verður komið til skila á Vík.... takk fyrir. Hún verður huggun fyrir brotna sál.

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 02:55

6 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Elsku Ásthildur mín ég skil þig svo vel.

Þú ert hetja mín um þessar mundir að vera svona opinská  og tala um þessa hluti.

Það er hrikalega erfitt að eiga svona öðruvísi börn sem enginn  skilur.

Við sem eigum þessi öðruvísi börn vitum hvað við eigum og viljum ekki missa þau.

Þess vegna er þessi barátta alltaf frá degi til dags frá nóttu til morguns.

Við foreldrar leggjum allt í þetta og berjumst þótt fordómar þjóðfélagsins séu ekki alltaf til að létta okkur lundina.  

Oft á þessari lífsleið kemur sólskin síðan koma stundir sem þyrmur yfir og oft hugsar maður að maður vilji gefast upp en maður heldur áfram og berst fyrir barninu manns.

Það er ólýsanleg tilfinning þegar maður sér barninu manns líða illa, samt að reyna að gera sitt besta.  Með tár í huga finnst því að þjóðfélagið hafið hafnað sér þar sem fordómar fólks er mjög ríkandi í okkar þjóðfélagi.

Margir okkar landsmenn hafa hjálpað börnunum okkar með sínum fordómum að það langi ekki að lifa lengur.  Ég hef fengið að finna því hjá mínu barni sem er að reyna að standa sig í dag en hann er að glíma við sinn fortíðarvanda sem mun líklegast aldrei hverfa af hans beinum.

Þótt hans líf sé búið að vera erfitt þá veit ég að hann elskar föður sinn og móður út af lífinu þar sem við gerum allt til að hjálpa honum til að verða að manni þótt hann þurfi alltaf að glíma við fordómafulla íslendinga.

Elsku Ásthildur mín þú ert sterk kona, ég er sterkur maður, við erum baráttufólk.

Þessi öðruvísi börn okkar eru englar á mörgum sviðum þótt þjóðfélagið hafni þeim vegna fordóma sem eltir þau á röndum allt þeirra líf.

Þess vegna þarf átak til að uppfræða þjóðina þannig að öðrivísi einstaklingar fá einhverskonar von að verða nýtir einstaklingar en það er borin von miðað við þessa fjandsömu fordóma sem ríkir í okkar þjóðfélagi.

Guð gefi þér og fjölskyldu þinni styrk að glíma við þessa erfiðu sorg.

Árelíus Örn Þórðarson, 10.10.2009 kl. 05:45

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ásthildur mín, ég mun hugsa til þín og þinna í dag.
Guð veri með ykkur öllum
Kærleikskveðja
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 10.10.2009 kl. 07:41

8 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Hugsa hlýtt til þín og sendi innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldu þinnar á þessum sorgardegi

Jónína Dúadóttir, 10.10.2009 kl. 07:53

9 identicon

Elsku Cesil, guð gefi ykkur öllum styrk í dag sem og aðra daga.

Verð með þér í huganum í dag þegar þú kveður son þinn sem þó er ekki farinn alveg. Minningin um yndislegan mann mun lifa um alla eilífð.

Knús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 09:22

10 identicon

Hugur minn verður hjá ykkur í dag. Góðu minningarnar eru sá sjóður sem ekkert og enginn getur tekið.

Dísa (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 10:36

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk öll sömul.  Það er mikil fró að geta komið hér inn og fengið alla þessa hlýju og kærleika.  Innilega takk fyrir okkur öll.  Við lesum þetta öll fjölskyldan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2009 kl. 11:13

12 identicon

Sendi fjölskyldunni mínar ynnilegustu samúðarkveðjur og kanski er eitthvað á heimasíðu minni sem linar þjáningar syrgjenda.

www.heilun.blogcentral.is

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 11:21

13 Smámynd: IGG

Ég hugsa til ykkar með hluttekningu og hlýju. Innilegar samúðarkveðjur.

IGG , 10.10.2009 kl. 11:42

14 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mín kæra Cesil Ég græt með þér og kveiki á kerti til minningar um góðan dreng

Hrönn Sigurðardóttir, 10.10.2009 kl. 12:10

15 Smámynd: Ragnheiður

Elskuleg, ég verð í huganum með þér í dag. Þessi ógnarþungu spor.

Ég græt með þér og finn þinn sársauka. Elsku Júlli.

Myndirnar eru frábærar, sýna hann í sínu rétta og fallega ljósi.

Ragnheiður , 10.10.2009 kl. 12:27

16 identicon

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til þín og allra sem eiga um sárt að binda.

Mér finnst ég vera að lesa um sögu sonar míns þegar ég les skrif þín og ég finn virkilega mikið til í hjartanu að hugsa til þín og fjölskyldu þinnar að þurfa að ganga þessu þungu spor.

Blessuð sé minning sonar þín. Kærleikskveðja frá móðir fanga á Litla Hrauni sem var líka alltaf bara óþekkur og fékk aldrei neina hjálp.

Móðir fanga á Litla Hrauni (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 13:36

17 Smámynd: Magný Kristín Jónsdóttir

Elsku Ía mín, allar mínar hugsanir og bænir eru hjá ykkur í dag.

Magný Kristín Jónsdóttir, 10.10.2009 kl. 13:45

18 identicon

Elsku Íja
Ég er mikið búin að vera hugsa til ykkar á þessum erfiðum tímum. Það er alltaf erfitt að horfa á eftir þeim sem maður elskar, en þá sérstaklega á eftir börnunum sínum. Ég vildi bara senda ykkur mínar samúðarkveðjur. Mér þykir leiðinlegt að hafa ekki getað verið viðstödd jarðaförina en ég er með ykkur í anda.
Ég skoða oft síðuna þína og hef sérstaklega gaman af myndunum.
Kveðja,
Lilja Hjalta og guggudóttir

Lilja Gísladóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:34

19 identicon

Elsku Ásthildur og fjölskylda  minar innilegustu samúðarkveðjur  minningin um góðan dreng lifir

Sigurdur holmar Karlsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 15:33

20 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Elsku Ásthildur mín og fjölskylda hugsun mín er hjá ykkur á þessum erfiðu stundu guð veri með ykkur.

Kristín Katla Árnadóttir, 10.10.2009 kl. 15:42

21 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.10.2009 kl. 15:51

22 identicon

Sæl kæra Cecil mín og fjölskylda

Guð blessi ykkur og varðveiti kæra fjölskylda. Hugur og er með ykkur og við sendum ykkur ljós og kærleika til a ðstyrkja ykkur í sorginni.

Bestu kveðjur frá Akureyri

Anna Steinunn Þengilsdótir

Þröstur Heiðar

og litla ömmucelisskottið Stefanía "litla stína"

Anna Steinunn Þengilsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 16:03

23 identicon

Elsku fjölskylda hugur minn er hjá ykkur í dag á þessari erfiðu stund.

Knús frá okkur í DK

Brynja Höskuldsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 16:21

24 identicon

Elsku Ásthildur mín,

Þótt áratugir séu síðast við sáum síðast hugsa ég hlýlega til þín og þinna á þessu, örugglegasta erfiðasta degi lífs þín.  Guð hefur vantað hlýjan, traustan og góðan einstakling til að taka á móti þeim sem fíkniefni leggja af velli í blóma lífsins. 
Júlli þinn er örugglega réttur maður á réttum stað þar, yfirmaður í móttökunni.

Mörg hlý knús, mörg hlý faðmlög og margar hlýjar kveðjur til ykkar allra.
Guðrún og Ásgeir (Ísfirðingur) á Álftanesi

Guðrún Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:06

25 identicon

Elsku Ásthildur mín, ég hef verið með hugann hjá ykkur undanfarna dag og stend með ykkur í sorginni. megi allir góðir vættir styðja ykkur og styrkja.

Var fyrir vestan seinni partinn í júní og ætlaði að heimsækja þig, var eitthvað svo mikið með hugann hjá þér en það varð svo aldrei að því.

Kærar samúðarkveðjur úr rigninunni fyrir austann

Olla

Ólafía Herborg (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:50

26 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mín góða Cesil!

Fátæk orð fá litlu breytt, en færa oft með sér já örlítin yl, er á móti blæs og lífsgangan gerist treg.

ÉG votta þér mína dýpstu samúð og virðingu um leið og ég vil trúa að hinar betri minningar létti byrði sorgar.

Magnús Geir Guðmundsson, 10.10.2009 kl. 17:54

27 identicon

Kæra fjölskylda

Mig langar til að senda ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Ég þekkti  Júlla ekkert nema af góðu, ég hef alltaf heyrt fallega talað um hann t.d. hjá tengdamömmu minni (Dórótheu Helgu), þó svo að hann hafi verið í neyslu þá hefur hún alltaf talað um hvað hann hafði stórt og kærleiksríkt hjarta.

Eitt langar mig að minnast á en á ættarmóti sem var fyrir vestan, við fórum innn í Skjaldfannadal og ég fótbrotnaði þá var hann fyrsti maður til að hlaupa til og finna handklæði, bleyta í læknum og setja á fótinn til að kæla hann. Þetta sýndi mér hversu  hjálplegur og hjartagóður hann var.

Megi kærleikur og ljós umvefja ykkur og gefa ykkur styrk til að vinna úr sorginni.

Samúðarkveðjur frá Köben

Hafdís og börn.

Hafdis og co. Danmörku (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:24

28 identicon

Vill senda ykkur þétt og sterkt kærleiksknús elsku fjölskylda, megi Guð álmáttugur gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Ásthildur mín, þú ert hetja og það leynir sér ekki hversu yndisleg móðir þú ert.

Megi englar næturinnar og dísir dagsins vaka yfir ykkur.

Jónína Guðrún Thorarensen. (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:40

29 Smámynd:

Samúðarkveðjur sendi ég þér og fjölskyldunni á þessum erfiða degi

, 10.10.2009 kl. 19:54

30 Smámynd: .

Elsku Ásthildur, nú er langt liðið á erfiðan dag hjá þér, megi allar góðar vættir vernda þig og styrkja.

., 10.10.2009 kl. 20:05

31 identicon

Við höfum verið með ykkur í huganum i dag.  Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.  Þú átt skilið hrós fyrir baráttu þína gegnum árin. 

Auður, Jakob og Þórir

jakob ágúst hjálmarsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:49

32 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Elsku Ásthildur, ég samhryggist þér innilega. Þakka þér líka fyrir þessu góðu skrif sem lýsa harmi sem margar fjölskyldur verða fyrir og tengist neyslu fíkniefna. Mér finnst ég þekkja drenginn þinn þó ég hafi aldrei hitt hann.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.10.2009 kl. 22:34

33 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Elsku Ásthildur mín og Elli minn

Úlfur minn og Sigurjón minn og aðrir aðstandendur.

Guð blessi ykkur  öll og varðveiti elsku  fjölskylda.

Hér logar kertaljós handa ykkur og

handa elsku ljúfasta Júlla

megi englar yfir ykkur vaka og veita styrk,

einnig frið í hjarta og sál og vernda

alla næstu daga,vikur og ár...

Ástarkveðjur Linda,Gunnar og dætur ...

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 10.10.2009 kl. 22:50

34 Smámynd: Ragnheiður Ólafsdóttir

Elsku Ásthildur mín og fjölskylda!

Megi algóður guð og allir englarnir vernda ykkur og styrkja í þessari miklu sorg ykkar. Hugur minn hefur verið hjá ykkur og  allar mínar bænir  ykkur til handa undanfarið, frá því að Júlli dó og við töluðumst við, elsku vinkona. Þó sorgin sé óendanlega sár, þá eigið þið svo margar yndislegar minnigar um Júlla sem ylja ykkur og hjálpa í framtíðinni. Guð blessi ykkur öll í fjölskyldunni.

Ragnheiður Ólafsdóttir, 10.10.2009 kl. 23:15

35 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Elsku Ásthildur og fjölskylda. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Kærleikur, Ljós og englafriður 

Ragnhildur Jónsdóttir, 10.10.2009 kl. 23:18

36 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 10.10.2009 kl. 23:20

37 Smámynd: Laufey B Waage

Elsku hjartans Ía mín.

Ég hef verið með hugann hjá þér og þínum í allan dag, og reyndar stöðugt síðan mánudaginn sem ég fékk þessar skelfilegu fréttir. Ég hef lesið alla pistlana þína, og dáðst að þér meira en orð fá lýst.

Stefni að því að koma vestur fljótlega og knúsa þig og tala við þig undir fjögur augu, ef þú getur gefið mér smá stund. Það er svo margt sem mig langar að segja við þig.

Held áfram að biðja fyrir þér og þínum.

Guð blessi minningu Júlla Tomm, þessa yndislega drengs, - og styrki þig og alla þá sem hans sakna. 

Laufey B Waage, 10.10.2009 kl. 23:31

38 Smámynd: Laufey B Waage

Mig langar líka að þakka þér af öllu hjarta fyrir að leyfa mér að fylgjast með hugrenningum þínum, skoða myndirnar og allt það.

Þú ert ótrúleg hetja.

Laufey B Waage, 10.10.2009 kl. 23:34

39 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ljúfust mín, bara að segja góðan daginn, sendi ykkur öllum kærleikskveðjur.
Það eina sem við vitum er að guð er til staðar í þeirri mynd sem þú sérð hann og að dagurinn í dag verður betri en dagurinn í gær, svona rúllar boltinn áfram elsku Ásthildur mín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.10.2009 kl. 09:01

40 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir okkur mín kæru.  Ég er þakklát ykkur öllum fyrir hlýjar hugsanir bænir og falleg orð.  Það hefur hjálpað mér mikið gegnum þennan erfiða tíma.  Innilega takk.  ég geri mér líka grein fyrir því að í hönd fer tími tómleika og eftirsjár.  Þann tíma mun ég nota til að lesa allt sem hér hefur verið skrifað meðtaka það og láta fylla hjarta minn af góðri tilfinningu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2009 kl. 09:54

41 Smámynd: Haraldur Davíðsson

samúðarkveðjur, Júlli var góður drengur með stórt hjarta.

Haraldur Davíðsson, 11.10.2009 kl. 23:58

42 identicon

Elsku Ásthildur & fjölskylda.

Ég á mínar minningar um Júlla, og það eru bara góðar minningar, því þó drengurinn hafi farið erfiðu leiðina í lífinu, fann ég alltaf að hann var með hjarta úr gulli og var virkilega góður við allt og alla. 

Ein skondin minning sem ég verð að setja hér inn um Júlla, en við vorum í partýi og strákur sem ég þekkti ekki bauð mér e-h að reykja ( sterkara en sígaretta ) ég sagði nei takk, jú fáðu þér ég býð sagði hann þá. Þá sagði ég nei takk ég er úr sveit !! Og þá fór Júlli að hlægja og sagði þetta er ein flottasta neitun sem ég hef heyrt, látið Hörpu í friði hún vill ekki svona viðbjóð er ekki nógu heimsk til að taka svona bull. Og við mig sagði hann flott hjá þér, þú ert klár stelpa og blikkaði mig :O) 

Mér þótti rosalega vænt um þetta og notaði þessa "afsökun" mína oft í gegnum tíðina " nei ég er úr sveit eða er ekki nógu heimsk til að nota dóp" og alltaf minntist ég Júlla.

Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra, ég hefði viljað fylgja Júlla síðasta spölinn, en mun kíkja við hjá honum inn í Engidal, næst þegar ég kem vestur og þakka aftur fyrir mig.

Harpa Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband