Á síðustu stundu.

Svona er þetta sennilega enn þann dag í dag:

Sýslumaðurinn á Ísafirði

Hafarstræti 1

400 Ísafirði.

Júlíus Kristján Thomassen                                                     Ísafirði 6. september 2000.

Stórholti 17.

Ísafirði.

 

Með sektargerð dagsettri 17. maí 200 var yur boðið að ljúka máli yðar vegna meintrar vörslu og neyslu fíkniefna þann 4. september 1999 kl. 159.  Sektargerð var ítrekuð þann 8. júní 2000.   Hvorki sekjtargerðinni né ítrekun sektargerðarinnar var sinnt.

Með þessu brefi er þér gefinn kostur á að mæta á skrifstsofu sýslumannsins á Ísafirði kl. 14.45 þann 14. september 2000 til að ljúka máli þessu með sektargerð.  Rétt er að benda yður á að ef þér verðið ekki við þessum tilmælum sýslulmannsins á Ísafirði mun mál yðar sett í ákærumeðferð.

 

F. h. Sýslumannsins Unnur Brá Konráðsdóttir. ( Sem nú er alþingismaður nótabene.)

 

Svona bréf til fíkils hefur afskaplega lítið að segja, ef fíkillinn er í neyslu þá opna þeir ekki svona bréf.  Og varla heldur þó þeir séu að reyna að koma sér upp úr fíkn eins og minn drengur var að reyna á þessum tíma.  Eftir langan neysluferil brestur hæfnin til að takast á við svona mál.  Þau kunna ekki einu sinni að fara út í banka til að greiða reikninga.  Þau lifa nefnilega í allt öðrum heimi en við hin.

Af hverju er þetta bréf svo sent í almennum pósti, þannig að það sé ekki vitað hvort manneskjan hafi fengið það eða ekki.  Kerfið bara malar áfram sinn veg.  Og þarna stendur vegna "meintrar vörslu og neyslu fíkniefna".  Fólk sem yfirleitt á ekki bót fyrir boruna á sér, er hundelt út af "meintri" geymslu og neyslu á fíkniefnum.  Ef þetta er málið þegar lögreglan braust inn í hús þeirra hjóna og hafði húsleit án leitarheimildar og fann skaf innan úr einni pípu.  Þá verð ég að segja að það eru ansi harkaleg sem þarna koma fram. Á þessum tíma var Júlli að reyna að lifa heiðarlegu lífi, en var undir smásjá og hver yfirsjón gerð að stórmáli.  Hann var hundeltur um allt og mátti ekki gera neitt sem gat talist á einhvern hátt út af sporinu. 

Þetta er því alveg fyrirfram vonlaust dæmi.  Hann hefur örugglega ekki átt fyrir sektargreiðslu, og því hefur fangelsið blasað við.   Á þessum tíma er hann með lítið barn þriggja ára og er að koma sér upp heimili og fjölskyldu af veikum mætti. 

Hvort ætli það hafi nú verið ódýrara fyrir kerfið að sleppa þessu ataviki og láta nægja að ræða við hann á föðurlegum nótum um að þetta gengi ekki, eða hundeltan manninn og enda svo á að stinga honum inn í fangelsi fyrir meinta neyslu og vörslu á fíkniefnum, sem mig minnir að hafi verið um 0.3% innn úr einni pípu.

Nei meðan kerfið malar svona áfram, þá er engin von að hægt verði að minnka eða uppræta neyslu.

Ég vil að stofnuð verði lokuð meðferðarstofnun fyrir illa farna eiturlyfjaneytendur.

Full þörf er fyrir lokaða meðferðarstofnun á vegum ríkisins. Skilgreina þarf hvað menn ætla að fá út úr fangelsun einstaklinga. Er það til þess að koma fólki í geymslu og af götunni, eða er tilgangurinn að betrumbæta einstakinginn?

Einnig þarf að samhæfa aðgerðir lögreglu, dómara, heilbrigðisstofnana og fangelsismálastofnunar.

 

Hvers vegna lokuð meðferðarstofnun?

Hluti síbrotamanna eru langt leiddr fíklar sem ráða í engu um fíkn sína.  Þeir eru ekki sjálfráðir gerða sinna, oftast komnir með geðtruflanir og þurfa geðlyf.  þetta fólk veldur oft miklu tjóni hjá almennum borgurum og í fyrirtækjum.  Fyrir þetta fólk er fangelsi engin lausn.  Þau eru inn og út af fangelsum með tilheyrandi kostnaði fyrir landsmenn alla. Það versta við þetta er að oftast enda þessir vesalingar með því viljandi eða óviljandi að svipta sig lífi.

 

Ég mun hér stikla á stóru í lífi sonar míns til aðgera mönnum ljósa stöðuna í þessum málum í dag.  Raunar hefur að mínu áliti ekkert gerst í málefnum þessa hóps síðan fyrir 1997.

Sonur minn var um 12 ára gamall þegar hann byrjaði í neyslu víns.  Við vorum alls óviðbúin þessu vandamáli en þegar okkur varð ljóst hvert stefndi var honum komið inn á Vog.  Með fullri virðingu fyrr þeirri stofnun þá hafði hann einungis lært betur á allar pillur og efni þegar hann kom heim aftur.  Eftir það hrapaði hann æ lengra niður í neyslu.  Hann hvarf vikum saman og setti allt heimilislíf í uppnám, ekki bara hjá foreldrum og systkinum, heldur líka afa ömmu og móðursystkinum. 

Svo kom að því að hann var dæmdur í fangelsi. Hann fór inn á Litla Hraun 1992.  Þaðan kom hann út fullur af hatri kominn með allskonar sambönd.  Eftir það var þetta svona hjá honum, innbrot, yfirheyrslur hjá lögreglu, sleppt á götuna aftur, meðan beðið var eftir dómi, síðan fangelsi. Út  aftur og í afbrot.  Í millitíðinni milli dóms og afplánunar þá var tímaspursmál hvenær hann þyrfti að brjótast næst inn til að ná í fíkniefni eða fjármagna kaup. Þessi tími sem leið frá því að hann var handtekinn og þangað til hann fór inn var mjög erfiður.  Hvorki hægt að hafa hann heima eða á götunni, nema að reyna að loka augunum. Sem er ekki hægt.

1997 eignaðist hann svo son, þá vildi hann fara að breyta umlíferni og komast upp úr neyslunni.  En þá voru honum allar dyr lokaðar.  Bæði hafði hann ekki styrk sjálfur til að vinna gegn vánni og svo vantaði þarna inn aðila sem gæti gripið inn og aðstoðað. Hann lenti því aftur og aftur í hringrás innbrota og neyslu og í fangesi.  2001 um vorið ætlaði hann að reyna að hætta. Hann gekk til læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði og fékk þar lyf til að halda sér gangandi. Þetta gekk um tíma en svo kom í ljós að hann þurfti meira og fór að brjótast inn aftur.  Ég fór að reyna að koma honum í meðferð. Forstöðumenn sjúkrastofnana sögðu að þeir þyrftu uppáskrift læknis til að koma honum inn.  En læknarnir vildu ekki skrifa upp á það.  Sögðu að hann hefði ekkert í meðferð að gera.  Þetta stóð í ströggli, að lokum stækkuðu þeir lyfjaskammtin þangað til sonur minin ranglaði um húsið sprautandi sig í æð með þeim lyfjum sem hann fékk, og vissi hvorki í þennan heim né annanl. Loks fékk ég pláss fyrir hann inn á Krýsuvík, en skilyrði var að hann færi í avötnun á Geðdeild Landspítal háskólasjúkrahúss.

Hann labbaði sig þaðan út eftir þrjá eða fjóra daga.  Átti að vera tíu daga, en fékk óvænt bæjarleyfi á fjórða degi. Þá var útséð með Krysuvíkina.  Hann lagðist þá í innbrot.  Daglega voru fréttir af honum í innbrotum.  Hann var tekinn af lögreglu á nóttunni stungið inn og út aftur um hádegi. Þetta gekk um tíma, ég og systir mér marg reyndnum að fá lækna til að mæla með innlögn en þeir vildu ekki.  Að lokum var þrautarráð að við fórum fram á síbrotgæslu meðan mál hans væru í skoðun.  Í síbrotagæslunni á Skólavörðurstígnum reyndi hann að stytta sér aldrur.  Það skal tekið fram að sýslumaður hér og lögregla stóðu vel að málum, en þau geta ekkert gert þegar málið er í þessum farvegi. Einnig að vel var hugsað um hann á Skólavörðustígnum.  Að lokum var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi og þegar sá dómur var uppkveðinn. Þá var honum einfaldlega sleppt. Hann kom heim og var hér aftur settur á sterk lyf, ráfandi um.  Að lokum kom ég honum inn á Vog og síðan fór hann að Staðarfelli.  Meðan hann var þar kom fangelsisdómurinn hann átti að byrja afplánun í byrjun janúar. Ég reynd að fá því breytt í meðferðarúrræði, en það var ekki hægt.  Ég reyndi að fá því frestað en því var heldur ekki sinnt.  Hann fór svo í fangelsið, sem betur fór var tekið tilliti til þess að hann hafði verið í meðferð og hann var settur í Kópavoginn.  Þar var hann í "geymslu" þangaðtil 1. ágúst.  Þá kom hann heim uppfullur af bjartsýni og ætlaði að standa sig.  Það stóð í mánuð, þangað til það var alveg ljóst að hann var komið í sama farið aftur. Þá var hann settur í síbrotagæslu aftur til að forða honum frá fleiri innbrotum og bæjarbúum meiri hrellingum.  Sýslumaður setti inn ákvæði um að ef annað úrræði fengist, yrði síbrotagætlunni aflétt.  Það varð úr að hægt var að koma honum inn í Krýsuvík.  Þar er hann nú, stendur sig ennþá, en bíður dóms fyrir þessi þrjú innbrot. ekki veit ég hvað verður, en ég veit að ef hann verður tekinn úr meðferðinni og settur inn í fangelsi þá byrjar sama ferlið upp aftur. Þannig að það er alveg ljóst að þau úrræði sem viðhöfum nú þegar, þjóna ekki tilgangi sínum ef við viljum aðstoða einstaklinega viðað ná sér á strik eftir neyslu.  Viljinn er fyrir hendi en getan ekki.  ég mun styðja þetta bréf með bréfum og skjölum sem ég hef undir höndum.

 

Reynsla mín af því að eiga afkvæmi með fíkniefnavanda hefur í raun og veru sannfært mig um eftirfarandi:

1a     Fangelsisvist sérstaklega í upphafi neyslu hefur meiri skaðleg áhrif heldur en bætandi.

1b     Leiðir þar að auki af sér meira tjón hjá fyrirtækjum og hinum almenna borgara, með fjölgun innbrota.

2.     Óviðunandi er að biðtími sem er frá því að menn eru handteknir fyrir afbrot og þangað til      einhversskonar úrræði finnst (fangelsi) Á þessum tíma eru neytendur komnir í mikla neyslu sem þeir þurfa stöðugt að fjármagna.

3.     fangelsi er ekki viðeigandi úrræði fyrir fíkniefnaneytendur.  Vegna þess að þau vinna frekar að því að taka þá úr úr venjulegu lífi (einangrun frá samfélaginu) og skerðir frekari hæfni þeirra til að takast á við lífið.

4.      Í dag er enginn stofnun sem tekur við mjög langd leiddum neytendum í afvötnun og meðferð.  Því er vonlaust fyrir aðstandendur að koma þeim í meðferð með þeirra samykki og viljastyrk nákvæmlega á sama tíma og þetta er ekki fyrir hendi.

Meira að segsja Geðdeild HL deild 331, hleypir sjúklingum út þrátt fyrir áhyggjur aðstandenda og vissu um að hann ræður ekki við neyslu.

Það mun borga sig að takast á við fíkniefnavandann með því að byggja upp traust úrræði, því það sparast mjög mikið fjármagn fyrir utan að mannslíf er ekki hægt að meta till fjár.

 

Það má benda á eftirfarandi kostnaðarliði.

Kostnað við heilsugæslu og lyfjagjöf.

"                 við löggæslu, handtökur og dvöl í fangelsum.

"                 vegna félagsþjónustu vegna styrkja og fjárhaagsaðstoðar.

"                 tryggingafélög vegna bóta.

"                 hins almenna borgara vegna þess að eigur hafa stundum presónulegt gildi.

"                 tilfinningalegan kostnað aðstandenda sem þurfa að horfa hjálparlaus upp á neyð ástvinar.

"                 mikil fíkniefnaneysla gerir fólk óvinnufært og það tapast mannauður.

"                kostnaður við allar meðferðarstofnanir sem eru opnar og hafa ekki nægilegt aðhald fyrir illa    farna neytendur.

 

Verðugt væri að athuga hversu langur tími líður frá handtöku til fangelsunar og hversu miklu tjóni fíklar valda á þvi tímabili og hversu margir brjóta af sér eftir að afplánun lýkur.  er fangelsisvist lausn aa vanda fíniefnaneytanda árið 2003?

Með virðingu Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

 

Þetta er sent eins og sjá má 2003.  Það má líka velta fyrir sér hve mikið hefur breyst í þessum málum nú árið 2009.  Og hvort það sé í farvatninu að huga betur að þessum málum í nánustu framtið?

Ég vil benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að elskulegur sonur minn væri svona langt komin árið 2002, og væri svona illa haldinn þá.  Þá náði hann að reisa sig við á vist sinni í Krýsuvík.  Hann náði því að fá hreint sakarvottorð fyrir nokkrum vikum, og var afar glaður með það.  Hann afrekaði að halda í alla sína vini, sem ekki eru dánir.  Og hann afrekaði að endurreisa mannorð sitt í litlum bæ, þar sem ég finn að hans er sárt saknað, og að hann hafði allstaðar verið með ljúfa lund og hjálpandi hönd.  Þetta er ótrúlegt að upplifa og ég var sem betur fer búin að segja honum nokkrum sinnum að ég væri stolt af honum. 

Ég má ekki heldur til þess hugsa hvernig mér liði í dag ef ég hefði ekki alltaf staðið með honum, og reynt það sem ég gat til að hann fengi manneskjulega meðhöndlun af kerfinu. Í dag er ég þakklát sjálfri mér fyrir að hafa staðið í lappirnar, jafnvel þegar fólk var að hvetja mig til að láta hann eiga sig, gleyma honum, hann væri ekki þess virði að eyðileggja líf sitt fyrir.

Það er enginn vonlaus, það er enginn munur á þrælnum eða keisaranum, við fæðumst öll jöfn, og það er bara mannleg fáfræði að halda að einhver sé meira virði en annar.  Það er líka dæmalaus kjánaskapur að halda að menn geti gert orð dauð og ómerk.  Við búum í kjánaheimi, sem menn hafa talið sér trú um allskonar vitleysu eins og þá sem hér kemur fram. 

Málið er að við verðum að læra að vera bljúg og hægversk.  Við þurfum að kunna að finna til með náunganum og láta hjartað ráða för.  Það er farsælast þegar til lengdar lætur.  Það er manns eigin sálarheill sem skiptir mestu máli, og ef maður gerir gott, líður manni vel, ef maður gerir vont, þá líður manni ekki vel. Þetta er lögmálið.  Heart

IMG_6896

IMG_4278

IMG_4818

IMG_6366

IMG_6307

Upphafið af ferlinum hófst hér með því að setja fjörugrjót við kúluna, og svo áttu allir að mynda rósir, hann stóð fyrir því og gerði þá fyrstu.  Síðan fór hann að byrja að móta steinana.

IMG_7919

Fljótavíkin var honum alltaf jafn kær.

IMG_6913

Nudda bakið.  Öll börnin elskuðu Júlla og voru honum góð.  Eins og hann var þeim.

IMG_7938

Tilbúin til landtöku.

IMG_8007

Elskaða Fljótavíkin.

IMG_8046

Að fara með krakkana yfir í Julluborgir var mesta skemmtun, og þangað fóru þau öll og skemmtu sér.

IMG_8050

Og hann skemmti sér jafn vel og börnin.

IMG_9168

Stoltur að opna sína fyrstu sýning á steinum.  Og mamma hans var líka stolt.

IMG_9182

Elsku drengurinn minn ég vildi svo gjarnan að þú hefðir fengið að vera lengur hjá okkur.  Og ég er viss um að ef hér hefði verið lokuð meðferðarstofnun þegar þú þurftir mest á aðstoð kerfisins að halda.  Þá hefðir þú aldrei farið svona djúpt.  Mannkostir þínir og þrautseigja hefðu notið sín lengur og meira.  Nú er genginn góður drengur, og við verðum að sjá til þess að þeir sem á eftir koma, sem eru í sporunum þínum fái betri meðhöndlun og verði bjargað.

IMG_9206

Ég elska ykkur öll jafnmikið börnin mín.  Þessi einstaki drengur tók einfaldlega mestan tímann og orkuna frá mér.  En ég hef nú meiri tíma fyrir ykkur hin.  Heart Hann gaf mér líka ótrúlega mikið.  Og nú hef ég gleymt öllu því vonda.  Það er bara þegar ég rifja það upp með að lesa gamlar skýrslur og bréf að ég man.  Í dag man ég bara allt það góða og fallega sem þú gerðir, og fæ á hverjum degi margar staðfestingar frá fólki sem þótti vænt um þig, og segir mér hvað þú ert frábær og hvað þú hafir alltaf verið hugulsamur hjálpsamur og kærleiksríkur.  Betra veganesti getur enginn fengið upp í eilífðina.  Ekki þó hann titli sig biskup Páfa eða kóng.  Þar er nefnilega enginn greinarmunur gerður á mannlegum titlum, heldur hve sálin er falleg.  Og þú hefur þá fallegustu sem ég þekki. Heart

IMG_4304


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er búin að lesa þetta allt og held áfram að fylgjast með þér. Þetta er svo satt og rétt hjá þér um meðferð og annað, vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu öllu og vonandi bera menn gæfu til að meðhöndla fíkla á réttan og réttlátan hátt, þeir eru allir fólk eins og við hin, því má aldrei gleyma, takk elsku Ásthildur og megi dagurinn á morgun verða ykkur góður eins og hægt er.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.10.2009 kl. 14:05

2 Smámynd: IGG

Það er svo skrýtið Ásthildur mín, og þó kannski ekki, að þó ég hafi ekki kynnst honum Júlla þínum persónulega þá finnst mér einhvern veginn þekkja hann. Hann hefur greinilega verið einstaklega ljúfur drengur með fallega sál og börnin laðast að þeim sem hafa góða orku og skilja þau á innri sviðum.  Ég hugsa oft til ykkar og finnst svo fallegt hvernig þú höndlar þessa erfiðu reynslu. Það þarf mikinn styrk, visku og góðvild til og það hefur þú í ríkum mæli.Hjartahlýjar kveðjur til ykkar allra.

IGG , 9.10.2009 kl. 14:20

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk elsku Ásdís mín og Ingibjörg.  Þið vinir mínir hér og heima hjálpið mér í gegnum þetta.

Mamma hvernig höndlar þú sorgina spurði dóttir mín í morgun og horfði á mig tárvötum augum.

Ég velti þessari spurningu dálitla stund fyrir mér og sagði svo.  Ég höndla hana með hlýjunni og kærleikanum sem streymir frá öllum í kring um okkur, og með því að skrifa um reynsu drengsins míns og mína.  Þetta er uppgjör og ef það hefur í för með sér að farið verði að skoða þessi mál á heilsteyptari hátt þá einhvernveginn verð ég sáttari við þetta allt saman.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2009 kl. 14:35

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

"Ég höndla hana með hlýjunni og kærleikanum......" Þú ert dásamleg Cesil.

Faðmaðu litla Úlfinn frá mér

Hrönn Sigurðardóttir, 9.10.2009 kl. 14:40

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hugur minn er svo sannarlega hjá þér í dag. sendi þér og þínum mínar bestu hugsanir, ég á engin orð til þín (mér verður sjaldan orða vant en nú er ein af þeim fáu stundum).

Jóhann Elíasson, 9.10.2009 kl. 14:48

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú ert einstök elsku Ásthildur.  Sterk, ljúf og skynsöm

Sigrún Jónsdóttir, 9.10.2009 kl. 14:57

7 Smámynd: Jack Daniel's

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til þín og allrar fjöskyldunnar á þessum sorgartíma.

Megi allar góðar vættir styrkja ykkur og vera ykkur hliðhollar á þessum erfiðu tímum.

Jack Daniel's, 9.10.2009 kl. 15:31

8 identicon

Kæra Ásthildur, Elli, Júllabörn og aðrir aðstandendur. 

Ég votta ykkur mína innilegustu samúð.  Það  var gaman að fylgjast með Júlla undangengin misseri, drengurinn sem flestir þekktu eingöngu af innbrotum og neyslu fíkniefna var farinn að sýna á sér nýja og betri hlið.  Fylgjast með honum í Tjöruhúsinu að hjálpa Magga og Rönku.  Skoða steinlistaverkin hans, bæði á sýningunni og þar sem maður rakst á þau.  Hitta þá feðgana á Silfurtorginu í steinasölunni.  Í nokkur skipti þegar ég þurfti að bjarga mér um gjafir á síðustu stundu var hægt að velja sér fisk og undantekningarlaust vöktu þeir hrifningu viðtakanda.  Það voru svo sannarlega miklir hæfileikar sem voru byrjaðir að blómstra hjá Júlla þínum.  En vímuefnadjöfullinn er erfiður mörgum og hann fór ekki varhluta af því.  Meðferðarúræðin þyrftu auðvitað að vera meiri og fjölbreyttari, að senda fíkil í fangelsi án þess að hann fái nauðsynlega aðstoð gerir eingöngu illt verra.  Ungir afbrotamenn, sérstaklega, hvort sem þeir eru í neyslu eða ekki þurfa fyrst og fremst betrun, ekki refsingu. 

Því miður er óvíst hvort ég get fylgt Júlla síðustu sporin, en hefði svo sannarlega viljað gera það því ég skynjaði aldrei annað en góðan dreng í þeim kynnum sem ég hafði af honum.  Það var eins með hann og svo margan góðan drenginn, hann var sjálfum sér verstur.

kveðja til ykkar allra

Henry

Henry Bæringsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 16:43

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll. 

Já Henrý minn það var yndislegt að fylgjast með Júlla síðastliðin ár, blómstra í kærleiksríku umhverfi þeirra sem alltaf voru honum góðir og stóðu honum nærri.  Nefni til dæmis Magga Hauks og Ragnhildi, Halldór  og Sigurlaugu, Hauk Þorsteins, og bara svo marga aðra.  Það var ekki hægt að telja vinina upp í jarðarförinni, því það má ekki gleyma neinum.  Og þeir voru óteljandi sem bæði nutu ástríkis hans og hjálpuðu honum á erfiðum tímum.  Ég hef hitt þá marga undanfarið og líka fengið hringingar frá vinum stöddum erlendis sem komast ekki, en syrgja sárt eins og Ásgeir Ingólfs til dæmis.

Þess vegna taldi ég það brýnt að vinirnir hans fengju að kveðja hann líka eins og við hin. Og séra Magnús er svo einstakur maður að hann lagði það á sig að taka á móti þeim líka og hugga. 

Það eru bara allir svo góðir við mig og fólkið mitt að ég get ekki annað en fylgst dásamlegri tilfinningu.  Allir góðir vættir veri með ykkur öllum og verndi. 

Hrönn, Jóhann og Sigrún og Keli innilegt knús frá mér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2009 kl. 16:55

10 Smámynd:

, 9.10.2009 kl. 17:31

11 Smámynd: Helga Jónsdóttir

Ég vil byrja á því að votta þér og öllum þínum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Ég hef fylgst með blogginu þínu í nokkurn tíma þar sem mér hefur fundist það vera svo þægilegt mótvægi við allar þessar myrku fréttir sem yfir okkur hafa dunið síðasta árið. Mér finnst alveg með ólíkindum hvernig kerfið tekur á börnunum okkar sem þurfa mest á hjálp að halda og verð að viðurkenna að ég hreinlega gerði mér ekki grein fyrir því hversu slæmt þetta væri, fyrr en ég las bréfin þín og sá hversu mikið þú lagðir á þig fyrir drenginn þinn. Mikið vildi ég að við öll bærum gæfu til þess að breyta þessu ferli þó svo að það gagnist lítið fyrir drenginn þinn núna. Óska ykkur alls hins besta í framtíðinni og veit að Júlli á eftir að vaka yfir ykkur öllum og vera með drengjunum sínum og vaka yfir þeim og vernda.

Vona að það sé í lagi að ég troðist svona inn í athugasemdirnar þínar.

HJ

Helga Jónsdóttir, 9.10.2009 kl. 17:56

12 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.10.2009 kl. 18:19

13 identicon

 

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 21:39

14 identicon

Hlýja og kærleikur..... þau orð eru samin um þig elsku Ásthildur mín  Gangi ykkur vel á morgun elskan, hugur minn er hjá ykkur. Knús í kúlu  

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 23:27

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir mig og okkur öll.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.10.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 2022938

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband