Brot úr sögu og smá mömmó.

Sonur minn féll síðasumars 2005. Eftir stutta ferð til Reykjavíkur með kærustunni.  Hann þoldi ekki gamla andrúmsloftið, og hélt að hann gæti fengið sér smáhass til að reykja.  Það kostaði hann ústkúfun í fjölskyldunni.  Það er sárt, en það er víst það eina sem hefur áhrif.

Hann var nýbúin að taka lán, sem ég og unnusta hans erum skrifaðar fyrir, til að borga niður skuldir, og lífið virtist blasa við. 

Hann stóð stoltur í kirkjunni þann 16 júní og hélt syni sínum undir skírn.  Það var yndisleg stund.

Því sárara var þegar ljóst varð að hann var fallinn.  Hann hafði komið með soðningu, og eldað mat, bauð okkur öllum í mat.  Þá sagði unnustann mér, að hún vissi að hann væri byrjaður að nota efni aftur.  Hún var voða sár.  Mest reið var hún þó yfir lyginni, sem alltaf fylgir þessu.  Og reiðiköst, undanbrögð og slíkt.  Það er óþolandi.  Ég studdi hana í að loka bara á hann, þangað til hann gerði eitthvað í sínum málum.  Hann var um stund á heimili fyrrverandi konu sinnar, þar var allt út um allt, og öll merki neyslu.   Svo færði hann sig yfir til gamals vinar, sem var hallur undir flöskuna.  Við misstum samband við hann um hríð.

Um tveim mánuðum seinna, fór hann að koma í heimsókn aftur, hann virtist vera edrú, en þreyttur. 

Ég er ekki á neinu núna manna, sagði hann.  Ég talaði við lögregluna, og stuðningsmann minn og þeir, ætla að koma mér inn á Vog, en það tekur tíma. 

Svo fór hann að hjálpa mér í garðinum.  Hann var þreklaus og pirraður, en lét sig hafa það. 

Unnusta hans kemur oft í heimsókn, ég hvatti hana til að koma, því ég vil fylgjast með fjölskyldunni.  Hún er líka stundum einmana, því hún á ekki stóra fjölskyldu hér.  Þetta er prýðisstúlka, og það besta sem hent hefur son minn á hans ævi. 

 Rosir 

Já eins og ég hef sagt áður, þá hef ég skrifað ýmislegt niður gegnum tíðina.  Það er ef til vill komin tími til að láta sumt af því uppi, ef það gæti aukið skilning á því hvað fjölskyldur fíkla ganga í gegn um. 

Það er samt svo að ég held að það sé varla fjölskylda í landinu sem ekki er á einn eða annan hátt tengd fíkli. 

Málið er bara að það eru allir að berjast inná við, margir vilja fela stöðuna, eða eru hræddir við að segja frá neyslu barnsins eða ættingjans.  Það er oftast út af ótta við viðbrögð lögreglu og yfirvalda.  Því um leið og fólk ánetjast fíkniefnum eru þau um leið orðin glæpamenn eftir hugsunargangi fólks. 

Það er aftur á móti alröng nálgun.  Svo röng að það er eins og að gera reykingafólk að glæpamönnum fyrir að reykja á almannafæri.  Það gerist auðvitað um leið og reykingar verða bannaðar.  Þá verðið þið gott fólk sem reykið gerð umsvifalaust að glæpalýð eftir kokkabókum samtímans.  

Ég var að ræða við lögreglumann í fyrradag.  Hann sagði mér að hann ætlaði ekki að verja kerfið, en málið væri að lögreglunni væri skapaður ákveðin rammi til að fara eftir. 

Já ég veit það sagði ég.  Eg held að það sé einmitt það sem er að í samfélaginu, hver og einn sem þarf að eiga við brotið fólk hefur sinn ramma og enginn fer út fyrir hann.  Þess vegna, sagði ég er svo þarft og mikilvægt að setja á stofn ráðstefnu um fíkniefnavandann á Íslandi. 

Hann tekur yfir ekki færri en fjögur ráðuneyti ef ég gleymi engu. Og allir þessir aðilar koma á einn eða annan hátt að vanda fíkils og afleiðingum neyslu.

Það er Dómsmálaráðuneytið, þar eru tollarar, dómarar, fangelsismálayfirvöld, lögregla. 

Heilbrigðisráðuneytið, þar er landlæknir  sjúkrastofnanir, læknar, geðlæknar sálfræðingar.

Félagsmálaráðuneytið.  Þar eru yfirvöld félagsmála, barnaverndarnefndir, meðferðarfulltrúar, félagslega kerfið.

Fjármálaráðuneytið.  Þeir þurfa að skapa skjaldborg um brotna fólkið og byggja meðferðarheimili sem kemur í stað fangelsis.

En það eru fleiri sem koma að þessu, eins og tryggingafélög, lögfræðingar, prestar, aðstandendur og fíklarnir sjálfir.

Þetta er ótrúlega víðtækt vandamál.  Og ef hver og einn er að sitja bara í sínum ramma og hugsar ekki inn í næsta skref.  Þá erum við áfram í vondum málum. 

Hér þarf að koma á ráðstefnu sem inniheldur alla þessa aðila.  Þar yrði að kryfja málin niður í kjölinn, og gera sér grein fyrir vandanum, og ekki síst hvað er hægt að gera til að snúa þessari þróun við.  

Þetta er orðið risastórt kýli, sem fólki hættir til að líta framhjá og sópa undir teppi, af því að það er ekkert sem knýr yfirvöld á um að gera eitthvað í málinu.  Foreldrar eins og ég sagði brotnir og búnir á taugum og orku.  Fíklar sem vita að þeir eiga engann rétt á neinu, eins og fram er komið við þau í dag af mörgum.

Meðferðarstofnanir sem flestar eru á framfæri kristilegra félaga eða samtaka eru yfirfull og langur tími í bið.  Sem er nokkuð ljóst að fíkill sem finnur hjá sér þörf fyrir að gera eitthvað í sínum málum, getur ekki beðið eftir.  Hann þarf að komast inn um leið og kallið kemur. Annars er hætt við að allt renni út í sandinn. 

 Minn sonur var oft að reyna að komast inn í meðferð.  Það leið alltof langur tími uns hann átti að komast að, og þá var hann sprungin á viljanum.  Auk þess taka stofnanirnar ekki við einstakling sem er í harðri neyslu fyrr en þeir hafa farið í niðurtrapp á Geðdeild landspítalans í 10 daga. 

Minn sonur missti af innlögn á Vog einmitt út af því að eftir að ég loksins hafði komið honum inn á Landspítalann, þá fékk hann bæjarleyfi eftir þrjá daga í stofnuninni, og svo skyldu þau ekkert í af hverju hann kom ekki inn aftur fyrir kl. sex um kvöldið.  Maður sem var búin að vera í harðri neyslu fleiri vikur.   

Það eru ansi margar brotalamir í kerfinu okkar.  Og foreldrar sem eru að berjast grípa ansi oft í tómt.  Auðvitað hefur þetta lagast eitthvað sem betur fer.  En tölur sýna að betur má ef duga skal.

Versta sem gert er, er þegar kerfiskarlar og konur afskrifa fíkla og afgreiða sem úrþvætti. Þá er ég ekki að tala um fólkið sem vinnur með þeim á stofnunum og slíku.  Heldur þeim sem eru ofar í þrepi og gætu lagað hlutina.  Það þarf ekkert að leggja sig fram um að skapa umhverfi til að laga þetta.  Lafir meðan ekki sekkur virðist hugsunin vera.

Ég er að tala um stjórnvöld og frammistöðu ríkisins gagnvart þessum stóra hópi.  Í raun og veru er þetta risastórt heilbrigðismál.  Þar sem ekki bara fíklarnir eru veikir.  Heldur líka brotnir foreldrar, systkini, afar og ömmur.  Veit ekki hversu margir eru komnir á róandi, eða með magasár af áhyggjum af einstaklingum sem hafa fyrir löngu síðan misst allan hemil á neyslu sinni. 

Og það er svo rangt að dæma þau vondar manneskjur, því þær eru það alls ekki í flestum tilvikum.  þau eru veik og geta ekki bjargað sér sjálf.  Þess vegna er óraunhæft að tala um að það þýði ekkert að reyna að bjarga manni sem vill ekki bjarga sér sjálfur.  Fæstir vilja vera í þessu helvíti.  En þau hafa ekki þrek til að standa á móti fíkninni.  Þar þarf að koma til stofnun sem hægt er að setja þau inn í, sem er lokuð og þau komast ekki frá, fyrr en árangur hefur náðst.  Það eru svona stofnanir á flestum norðurlandanna.  Þetta eru dýr vistunarúrræði fyrir einstaklinga. 

En þar til dæmis í Danmörku er fólk sem brýtur af sér dæmt í svona lokaðar meðferðarstofnanir.  Fangelsun er ávísun á áframhaldandi neyslu með tilheyrandi meiri vitneskju um neðanjarðarkerfið.   

IMG_4101

Ísafjörður í gær.

 IMG_4330

Öll börnin fengu svona jólagjafir frá Júlla fyrir síðustu jól.  Hann var alltaf að gefa fiskana sína og var alltaf svo glaður með það.

  IMG_4412

Og alltaf var hann fyrstur til að ganga frá, leggja á borð eða skera steikina.  Alltaf boðin og búin þessi elska mín.

 Júlli-sýning

Æskuvinir.   

 

Smá mömmublogg.

 IMG_4103

Maður þarf nú ýmsar aðferðir til að borða.

  IMG_4105

Hér er verið að fá sér það sem krakkarnir í kúlu kalla afaskyr.

 IMG_4107

Margir sem færa okkur engla í minningu Júlla míns.  Enda var hann örugglega engill. Heart

 IMG_4108

Afaskyr í hávegum haft á þessu heimili.

 IMG_4109

Og þá er auðvitað við hæfi að það sé afi sem hjálpar til.

 IMG_4111

Og hér er smá grettukeppni.

  IMG_4112

Það þarf að skoða hvort tennurnar séu nógu vel burstaðar.

 IMG_4113

Já það er gaman að geifla sig fyrir framan spegilinn.

  IMG_4117

Þið sjáið að okkur er lífsnauðsyn að afa svona gleðigjafa hjá okkur mitt í sorginni.

  IMG_4118

Í morgun að klæða sig fyrir leikskólann.

  IMG_4120

Lítil skotta kát og glöð.

  IMG_4122

Svo er alltaf smákeppni um hver á að fá að slökkva á sjónvarpinu þegar lagt er af stað í leikskólann.  

 

 Ég vona að ykkur fiinnist ekki leiðinlegt að lesa svona pistla eins og hér að ofan.  En mér þykir mikilsvert að þessir hlutir komi fram til þess að vekja til umhugsunar um raunveruleikan í heimi fíkilsins.  Og það hefur ekkert með mannkosti fíklisins að gera.  Þetta eru yndislegar manneskjur flestar, sem hafa festst í neti kóngulóar sem engu sleppir. Og það er barátta lífsins að halda sér edrú það sem eftir er.  Þess vegna er best að byrja aldrei, og aldrei prófa neitt slíkt fyrir áeggjan eða fagurgala heimsins.  Í því felast hættur og jafnvel dauði.  Eigið góðan dag elskurnar mínar og megi allar vættir heimsins gæta ykkar allra.  Heart 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Ásthildur mín.Ég elska að lesa allt sem frá þér kannski vegna þess að það kemur allt frá hjartanu ,heiðarlegt og kærleiksríkt. Þúsund faðmlög til ykkar og þið vitið að til ykkar berast kærleikshugsanir og bænir þótt að fjarlægðin sé mikil.Það eru engin landamæri sem hindra það.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 10:58

2 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Takk

Anna Ragna Alexandersdóttir, 2.10.2009 kl. 11:30

3 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ég sendi þér og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur.  Það er gott í allri sorginni að hafa ljósgeisla í kringum sig eins og barnabörnin.  Guð blessi ykkur öll.

Ía Jóhannsdóttir, 2.10.2009 kl. 11:32

4 Smámynd:

Takk fyrir að deyla þessu með okkur. Ég finn til með þér elsku góða bloggvinkona. Ég vona að guð styrki ykkur og hjálpi í þessari sorg.

, 2.10.2009 kl. 11:40

5 Smámynd: Ragnheiður

Ragnheiður , 2.10.2009 kl. 12:14

6 Smámynd: IGG

Myndirnar og skrifin þín hér um drenginn þinn, Ásthildur mín, snerta mig sannarlega djúpt. Ég hefði viljað þekkja hann af eigin raun og er þakklát fyrir að fá að kynnast honum í gegnum fallegu skrifin þín um hann hér. Kærleikskveðjur til ykkar allra, Ingibjörg.

IGG , 2.10.2009 kl. 12:18

7 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Ragnhildur Jónsdóttir, 2.10.2009 kl. 12:29

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk fyrir okkur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 12:33

9 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Elsku Ásthildur.Skrifin tín eru yndisleg tó efnislega sé tad skelfilegt ,ad einhver persónu skuli turfa ad ganga i gegnum svona helvíti sem fíknin er .

Takk elsku vina ad deila tessu med mér og okkur öllum.Ég les tetta fyrir Týskann kærasta minn og  ádann sagdi hann tad er eins og hún sé ad lýsa syni  tínum Gudrún.En svona er tetta fíkn er fíkn og virkilega erfid vidureignar.Tad er svo dásamlegt ad upplifa tad er einstakklingarnir okkar verda lyfjalausir og koma hressir til leiks aftur .Tilfinningin er engu lík.Tó eigum vid alltaf vid tessa hrædslu ad strída sem býr í hjarta okkar.En ástin til  barna okkar er óendanleg hvernig lífi sem tau lifa.

Hjartans takkir fyrir tetta framlag titt til okkar.

Gud blessi ykkur öll Ásthildur mín.

Gudrún Hauksdótttir, 2.10.2009 kl. 12:53

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Guðrún mín.  Já víst deilum við þessu lífi aðstandendur fíklanna okkar.  Og það sem er verst eru fordómarnir.  Við verðum að hjálpa öðrum til að skilja að fíkilinn er eitt og barnið manns annað.  Þau eiga við að stríða eitthvað sem þau ráða ekki við án aðstoðar.  Það er alveg ljóst. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 13:00

11 identicon

Það verður nú seint sem mér mun leiðast skrifin þín mín kæra. Eitt sé ég að hafi komið jákvætt út úr því að eiga son sem er/var fíkill, ég kynntist þér ásamt fleirum í sömu aðstöðu. Sú vinátta er mér mikils virði.

Það er nauðsynlegt að koma á lokaðri meðferðastofnun, við höfum allt of oft kynnst því þegar fíklarnir labba út úr meðferð af því að það er svo auðvelt að labba út. Þekki það á eigin skinni sem níkótínfíkill að ég plata sjálfa mig upp úr skónum þegar ég er að reyna að hætta. Ég þyrfti að komast á lokaða stofnun, hvað þá fíklarnir okkar sem eru að nota mun verri efni en ég. 

Haltu áfram að skrifa, það sefar örugglega sorgina og söknuðinn

Knús í kærleikskúluna

Kidda (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 13:08

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Kidda mín, já ég er sammála því að ég hefði ekki viljað sleppa því að kynnast þér og fleiri yndislegu fólki hér eins og Ragnheiði  Guðrúnu og fleirum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 13:16

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk kærlega fyrir þennan heiðarlega pistil.  Ég dáist að þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 2.10.2009 kl. 13:34

14 Smámynd:

Ásthildur mín. Skrifin þín eru aldrei leiðinleg eða óviðeigandi og mér finnst ég ríkari af að eiga þig að  bloggvini. Og heilmikið er ég að læra um lífið og tilveruna af lestri mínum á pistlunum þinum. Ég hef verið svo heppin í lífinu að ekkert barna minna og enginn sem ég þekki hefur ánetjast fíkniefnum eða ofnotkun áfengis. Ég er ein þeirra sem hef gerst sek um fordóma gagnvart fíklum og fólki sem ekki er sjálfrátt gjörða sinna. Ekki síst þess vegna hefur það verið mér hollt að lesa um venjulegt og gott fólk sem lendir í þeim hremmingum sem fíknin er. Það er því gott hvað þú skrifar opinskátt um reynslu þína og upplifun af fíkniefnavandanum. Bið allar góðar vættir að vaka yfir ykkur og styðja á þessum erfiðu tímum.

, 2.10.2009 kl. 13:35

15 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 2.10.2009 kl. 13:59

16 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Það skiptir akkúrat engu máli hvort okkur finnist leiðinlegt að lesa pistla eins og þennan - sem það vitaskuld ekki er - Líf í heimi og skugga fíkils er aldrei gott líf. Þess vegna þarf að opna á fordómalausa umræðu um vandann!

Ég stend með þér alla leið

Hrönn Sigurðardóttir, 2.10.2009 kl. 14:21

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir allar, þetta er mér sannarlega hvatning til að halda áfram að miðla ykkur af reynslu okkar Júlla mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 15:25

18 identicon

Nei Ásthildur mín, mér þykir ekki leiðinlegt að lesa pistlana þína og þykir gott að þú getir skrifað um þetta allt saman.  En mér þykir erfitt að lesa þetta, í svö mörg ár hef ég verið logandi hrædd um að standa í nákæmlega þessum sporum sem þú stendur í núna, svo oft hef ég verið viss um að núna væri símtalið á leiðinni.   Það er slítandi að vera árum saman í þeirri spennu að vita ekkert um barnið sitt, langa til að geta gert eitthvað til að bjarga því en finna engin ráð.   Ekkert í þessu ferli venst, maður elskar barnið sitt en hatar sjúkdóminn sem það er með en stjórnar engu.   

Knús á þig elsku Ásthildur mín

Maddý (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 15:35

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Maddý mín, já svona er þetta.  Nema maður fær ekki símhringingu, heldur prestinn í heimsókn.  Þannig að maður fær allavega bilið frá því að hann kemur út úr bílnum þangað til hann nær manni til að segja fréttirnar.  Æ þetta hljómar kaldranalega ekki satt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 15:49

20 Smámynd: Rannveig Bjarnadóttir

Þú ert ótrúleg hetja Ásthildur mín. Ég les pistlana þína með tár í augum og
finn kærleika þinn til drengsins þíns sem aldrei hefur dvínað gegnum alla
þessa erfiðleika. Þú ert bara einstök manneskja. Hann er einstaklega
heppinn að eiga þig fyrir móður.Sendi þér og fjölskyldunni góðar hugsanir.

Rannveig Bjarnadóttir, 2.10.2009 kl. 20:07

21 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Það er sannarlega gott að lesa pistlana þína. Reynslan þín mun hjálpa öðrum um leið og þú getur sefað sorgina með skrifunum. Ljós til ykkar.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 2.10.2009 kl. 23:20

22 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Elsku Ásthildur mín ég votta þér og fjölskyldu þinni dýpstu samúð mína.

Megi Guðs englar styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Ég hef fengið að kynnast þessari báráttu foreldra vegna barnana okkar og tekur hún gríðalega á.

Þessi öðruvísi börn okkar sem samfélagið viðurkennir ekki eru oftast með gull hjarta,  verst við sjálfan sig en elskar okkur  foreldrana út af lífinu og þeim líður illa þegar okkur líður illa út af þeim.

Barátta fyrir okkar öðruvísi börnum er barátta upp á  nótt og dag.  Það eru oft góðir tímar en foreldrar eru alltaf viðbúnir slæmum tímum.

Þakka þér fyrir að deila þessari sögu með okkur Ásthildur mín og farnist þér og fjölskyldu þinni sem best í framtíðinni.

Árelíus Örn Þórðarson, 3.10.2009 kl. 03:12

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kærar þakkir fyrir hlý orð öll sömul.  Svo sannarlega hvetja þau mig til að halda áfram að vekja athygli á okkar öðruvísi börnum, góð skilgreining Árelíus. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2009 kl. 09:28

24 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Elsku Ásthildur,

Sigrún Jónsdóttir, 3.10.2009 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 2022948

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband