1.10.2009 | 09:40
Ég vil að þið vitið....
að hvert kærleiksríkt orð sem hér er skrifað, hvert huggunarorð, hvert hrós bæði til mín og Júlla míns, er skrifað í sálina mína, lesið meðtekið og nýtt til að þreyja daginn. Líka símtölin og heimsóknirnar. Ég veit ekki hvar ég væri án þessa.
Í dag er ég ekki lengur með kjökrið upp í koki, heldur hálf frosin. Ég horfi á myndirnar af fallega drengnum mínum og það er eins og allt fjarlægist, ég trúi ekki að þetta sé að gerast. Og þegar Úlfurinn minn grætur sárt og segir; þetta má ekki vera að gerast. Pabbi Pabbi ekki fara frá mér. Þetta er óréttlátt. Þá veit ég ekki hvað ég á að segja við hann. Reyni bara að faðma hann og knúsa.
En kennarinn hans hún Hlíf hefur verið alveg yndisleg, hún kom hér og færði honum stjörnu. En hún gerði meira, hún kom bekkjarsystkinum hans til að skrifa til hans falleg kort á miða, hvert barn með sinn miða, og svo komu nokkrir bekkjarfélagarnir í gær og færðu honum fallega öskju með þessum yndislegu skilaboðum frá þeim. Þeir sátu hér og spjölluðu lengi vel. Og allt var svo fallegt.
Drengirnir komu fyrir hönd alls bekksins.
Þeim gekk mjög vel að spjalla saman.
Málið er að Úlfur litli er nýkomin úr vikudvöl í Heydal í Djúpinu hjá yndislegu fólki, hann kom svo glaður á mánudaginn um hádegið og fær svo þessar hræðilegu fréttir nokkrum tímum seinna. En hann fær að fara aftur inn í Heydal þegar allt er búið, og hann tilbúin til að finna ró. Allt góðu og yndislegu fólki að þakka, og ég er svo þakklát.
En mig langar að tala um Júlla minn. Og ég ætla að ræða hér tvo atburði sem gerðust í hans lífi, sem sennilega mörkuðu hvað stærstu skrefin í lífsmynstri hans. Ég segi þetta ekki af heift eða illsku, heldur til að fólk geti áttað sig á því hve mikils virði það getur verið að hafa í huga þetta fallega máltæki; aðgát skal höfð í nærveru sálar. Og einnig setninguna; Það sem þér gjörið yðar minnsta bróður það gjörið þér mér.
Fyrri sagan gerist á tímabili sem Júlli minn var í neyslu, þó ekkert alvarlega. Hann hafði þá nýlega verið í fangelsi á Litla Hrauni og sagði vinum sínum að þangað ætlaði hann aldrei aftur. Hann sagði við vin sinn. Gættu þín að komast aldrei í þá aðstöðu að vera settur í fangelsi, þangað vil ég aldrei fara aftur.
En þau vinur hans og unnusta voru að rúnta á bíl, þeir í glasi, hún bláedrú. Þau voru á bíl sem Júlli minn átti gamalla Volvó minnir mig, og var hann lúin og lasinn og enginn kunni almennilega á hann nema Júlli.
Svo stoppar bíllinn og fer ekki í gang, þau reyna að ýta honum en ekkert gengur. Júlli minn segir þá við vinkonuna, færðu þig aðeins ég skal koma honum í gang. Hann sest undir stýrið og kemur bílnum í gang. Hann er svo kominn út úr bílnum aftur, þegar lögreglan birtist. Þeir vilja taka hann fastan. Hann segir; ekki gera mér þetta strákar, þið sáuð að ég var bara að koma bílnum í gang. Ég var ekki að keyra.
Þeir malda í móinn, hann sárbænir þá, og segir ef þið takið mig núna, þá verð ég settur aftur inn í fangelsi. Þeir hringja svo upp á stöð og segja að þeir séu með Júlla Tomm, og hvað þeir eigi aðgera; skipunin var klát; komið með hann strax.
Hann er færður upp á stöð, vinirnir fara með, og biðja um að það verði tekin skýrsla og blóðprufa af bílstjórnaum. Nei þess þarf ekkert sögðu lögreglumennirnir, þetta verður allt í lagi.
En nei, fyrir þennan "glæp" var hann settur aftur inn í fangelsi. Þarna brast eitthvað í drengnum mínum. Hann misst trúna á réttlætið og hann missti trúna á lögregluna. Og ég segi nú bara, hvað bjó þarna að baki. Þessa sögu sagði hann mér sjálfur, og nýlega staðfesti vinur hans hana, og sagði mér nákvæmlega eins. Ég verð köld af angist bara við að rifja þetta upp. Svo illt og harkalegt og vont að ég á ekki orð.
Hann var aldrei samur eftir að hann kom heim aftur sagði vinur hans. Og það veit ég líka allof vel. Og ég segi, þarna var ekki bara illmennska að verki, heldur líka ólöglegt athæfi lögreglunnar. Og ég segi er það hægt að brotið sé svona á fólki, þó sumum finnist þeir vera úrkast? Á lögreglan ekki að vera hafin yfir svona vinnubrögð? Sonur minn talaði svo aldrei meira um þetta, og hann var búin að fyrirgefa öllum allt, eins og hann gerði alltaf. En það situr í mér, og það situr í vinum hans. Og þegar þeir menn sem þarna komu illa fram lesa þetta sem ég vona að þeir geri. Þá vona ég að þeir læri af því og næst þegar þeir komast í þá aðstöðu að gera góðverk eða illvirki, að þeir muni hvað þeir gerðu, og breyti rétt.
Ég vil af þessu tilefni taka fram að þetta á ekki við um flesta sem nú eru í lögreglunni hér, sem eru góðir menn og voru vinir Júlla, og hjálpuðu honum á margan hátt, síðar. Eftir að sá sýslumaður sem þá var hafði flutt og nýr og réttlátur sýslumaður komin til starfa. Sem átti síðar stóran þátt í því að hjálpa Júlla mínum.
Hin sagan er reyndar fallegri. En hún er þannig. Að eftir að sonur minn hafði verið í innbrotum og allskonar veseni, þá komum við því þannig fyrir að hann var settur í síbrotagæslu. Það var gert til að stöðva hringrásina, sem var að hann fór inn, út aftur, braust inn til að ná í fíkniefni og svo endalaust. En af því að sýslumaðurinn (konan) sem þá var hér var einstaklega skilningsrík og mannleg, þá setti hún inn að ef hann kæmist inn í Krýsuvík, væri honum sleppt. Ég var þá að reyna að koma honum þangað í meðferð.
Svo er hringt í mig og mér sagt að þeir geti tekið við honum ef hann komi fyrir kl. 11.00 til þeirra þetta var á þriðjudagsmorgni. Þeir taka eða tóku þá inn, tvo menn í einu, en þeir urðu að vera mættir á réttum tíma á ákveðin stað. Ég byrja að reyna að losa drenginn, átti samt dálítið erfitt vegna þess að það var auðvitað ekki 100% öruggt að hann kæmist, vegna þessara skilmála. En ég ákvað að láta slag standa, að duga eða drepast. Það gengur svo loksins að fá hann lausan. Lögreglan ekur honum svo af stað. En þeir fara með hann upp í Krýsuvík í staðin fyrir skrifstofuna í Hafnarfirði. Hann kemur því of seint, og búin að missa plássið, mér er sagt að hann sitji bara hjá þeim í Hafnarfirðinum vegalaus og ráðalaus, fangelsismálstofnun taki ekki við honum aftur.
Lögregumaður hér sem hlut átti að máli, hringdi þá í mig og helti sér svoleiðis yfir mig, að ég hélt að ég myndi deyja, var sennilega hræddur um sjálfan sig. Ég held eftir á að ég hafi fengið taugaáfall þennan dag. Og átti í miklum erfiðleikum næstu vikur og mánuði. Ekki bara vegna þessa reiðilesturs, heldur líka vegna áhyggna af drengnum mínum, nú myndi hann fara á götuna og hverfa.
En svo hringir í mig sýslufulltrúi frá sýsluskrifstofunni hér, maður sem ég hafði verið í sambandi við, um að láta Júlíus lausan. Ásthildur mín, sagði hann. Viltu ekki að ég hringi í þá hjá Krýsuvíkursamtökunum og biðji þá um að taka hann Júlíus inn svona aukalega.
Guð minn góður hvað þetta bjargaði mér, þetta gekk svo eftir og Júlíus fór inn í Krýsuvík á sérplani. Hann var það í fimm mánuði, og blómstraði. Mamma sagði hann, þetta er í fyrsta skipti sem ég get verið heilan dag án neyslu. Þetta hélt ég að ég gæti ekki og mér líður svo vel. Þarna byrjaði hans endurreisn.
Vinur minn sagði mér um daginn þegar hann kom til mín að Júlli hefði sagt: ég sat við gluggan í Krýsuvík og horfði út, og allt í einu fann ég svo mikinn frið í sálinni, ég vissi að ég var laus undan fíkninni. Og mér leið svo vel.
Þessi sýslufulltrúi gaf okkur öllum nokkur góð ár með syni mínum, vegna þessa kærleiksverks fæddist yndislegur drengur, og stórkostleg listaverk voru gerð.
Ég segi ykkur þetta til að þið sjáið svart á hvítu, að allt sem þú gerir bróður þínum kemur til baka tífallt. Ef þú vilt nota aðstöðu þína til að sparka í liggjandi mann, þá áttu sjálfur tíu spörk skilið. En það er ekki bara það, spörk gróa, en ör í sálinni með vitneskju um að þú hafir eyðilagt góða sál, grær aldrei. Í innsta kjarna hvers manns er réttlætið fólgið. Og sálin meðtekur og veit, þó sá hinn sami vilji ekki horfast í augu við sjálfan sig og gjörðir sínar.
Sá sem gefur og vinnur kærleiksverk, fær það þúsundfalt borgað í góðri líðan yfir góðu verki.
Sem betur fer varð Júlli minn aldrei hatrinu að bráð. Hann notaði sína eigin niðurlægingu til að hjálpa öðrum. Hann notaði líf sitt sem aðvörun til unga fólksins sem hann sá að var að fara ranga braut. Hann var stórbrotinn persónuleiki og mitt í allri niðurlægingunni var hann samt stór manneskja.
Ég get sagt ykkur að mér leið ekki verst þegar hann var í þessu ástandi, þegar hann braust inn og stal til að ná í fíkniefni, eða jafnvel braust inn til fólks sem mér þykir vænt um, og þurfti að takast á við skömm og annað. Verst leið mér þegar hann hafði náð að koma einhverju fallegu inn í líf sitt, ég sá hamingjuna og birtuna í augum hans slokkna vegna svona atburða eins og ég lýsti hér fyrst. Sá vonina deyja um að hann gæti orðið hamingjusamur vegna fólks sem taldi sig vera honum æðra og hafa tök á að upphefja sjálft sig á því að niðurlægja hann.
Það er þess vegna sem ég segi í kvæðinu mínu. Ég get ekki varið þig fyrir áföllunum, ekki hlíft þér við miskunnarleysi mannanna.
Á þessum árum var oft erfitt. Erfitt að takast á við þá leið sem Júlli ákvað að fara. En ég hef alltaf elskað hann og trúað á það góða í honum. Erfiðast var þrátt fyrir allt að fálma út í tómið, þar sem enga hjálp var að fá. Enginn úrræði, enginn mannréttindi handa fólki eins og honum. Ég vona að við höfum komist lengra í dag, en samt alltof stutt. Hér á að rísa meðferðarheimili fyrir fíkla. Það gengur ekki að fangelsin séu yfirfull af fólki sem er í raun og veru fangar fíknarinnar. Ekki glæpamenn heldur sjúkt fólk sem þarfnast og þráir betra líf.
Ég heyri oft sagt að það sé ekki hægt að bjarga þeim sem ekki vilja bjarga sér sjálfir. Ég ætla að lýsa því yfir hér og nú að þetta er alrangt. Þetta er mýta sem á að friðþægja þá sem ekkert hafa fram að færa fyrir fólk eins og Júlla minn.
Það er hægt að bjarga fólki með því að hafa lokaða meðferðarstofnun, þar sem fagfólk er til staðar, læknar, geðlæknar og sálfræðingar, ráðgjafar og meðferðarfulltrúar. Það vill enginn vera í þessum sporum, en þau eru ekki sjálfráð gerða sinna. Og þegar ekkert er sem stoppar þau af að fara út af meðferðarstofnun, þá er það bara þannig. Fíknin yfirvinnur allt. Þetta ætti reykingafólk að vita. Þeir hætta ekki að reykja þó þeim sé bannað að reykja innandyra. Þeir fara bara út. Sama gerir fíkillinn, munurinn er sá að reykingamaðurinn er með ráði og rænu, hinn er veikur.
Fermingardrengurinn minn.
Lítill drengur ljós og fagur.
Ég skrifaði oft um málefni fíkla hér fyrir 30 árum eða svo. Opnaði umræðu sem legið hafði í þagnargildi, því fólk vill ekki opna sig um að börnin þeirra séu í svona. En það voru margir sem hringdu í mig og þökkuðu mér fyrir. Ég fann að ég var að opna á málefni sem voru ekki í góðu lagi, og ekkert var verið að vinna í. Það var enginn þrýstihópur frá foreldrum fíkla, sem flest voru eins og ég, uppgefin og vonlaus, örþreytt af angist, bæði yfir hvað yrði næst, og hvort presturinn og lögreglan kæmu og bönkuðu uppá. Það er líka þannig að það er erfitt að hringja í yfirvöld og segja barnið mitt er í neyslu. Því hver vill verða valdur að því að barnið manns sé meðhöndlað eins og ég hef upplifað með minn son. Það má eitthvað breytast til að slíkt gerist.
Og ég tek fram að ég er ekki að alhæfa langflestir eru góðir og gegnir menn. Það er allstaðar innan um fólk sem gengst upp í því að upphefja sjálft sig á kostnað annara. Málið er bara að það er óþolandi að slíkt fólk sé í þeirri stöðu að geta í krafti embættis leyft sér slíkt. Það á ekki að fá að líðast.
Þá hef ég romsað út úr mér reiðinni. Það bara rifjast svo margt upp þegar ég fer að hugsa um lífshlaup drengsins míns. Og ef eitthvað af hans mistökum getur orðið til þess að bjarga öðrum, þá er það einmitt það sem hann hefur alltaf verið að gera. Það er alveg í anda þess sem hann hefði viljað.
Eigið góðan dag. Og innilega takk fyrir allan hlýhug, kærleik og væntumþykju sem ég hef fundið hér á þessum síðum undanfarið. Og ekki bara ég, því fjölskyldan mín sem er í sárum les líka það sem þið skrifið og einnig vinir hans, sem sumir hverjir eru alveg jafn hrærðir og sorgmæddir og við.
Innilega takk.
Um bloggið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Tónlistarspilari
Bloggvinir
-
prakkarinn
-
katrinsnaeholm
-
jensgud
-
matthildurh
-
jenfo
-
kiddat
-
hronnsig
-
katlaa
-
katagunn
-
kolbrunb
-
joiragnars
-
birgitta
-
holi
-
rs1600
-
ktomm
-
heidathord
-
vestfirdir
-
steina
-
laufeywaage
-
maggadora
-
lehamzdr
-
icekeiko
-
isdrottningin
-
skaftie
-
hneta
-
hross
-
amman
-
johanneliasson
-
helgamagg
-
zeriaph
-
olafia
-
jogamagg
-
tigercopper
-
ellasprella
-
zumann
-
estro
-
sjos
-
gmaria
-
gudr
-
ktedd
-
salvor
-
bertha
-
solisasta
-
meistarinn
-
baenamaer
-
sirrycoach
-
annalilja
-
komediuleikhusid
-
tildators
-
hector
-
bene
-
skelfingmodur
-
fifudalur
-
xfakureyri
-
madddy
-
siggith
-
antonia
-
elina
-
rosaadalsteinsdottir
-
framtid
-
annaragna
-
sirri
-
thjodarsalin
-
bestalitla
-
helgatho
-
jyderupdrottningin
-
hallaj
-
ingistef
-
gudruntora
-
zunzilla
-
sisvet
-
aevark
-
bostoninga
-
ace
-
drengur
-
robbitomm
-
faktor
-
disag
-
ffreykjavik
-
ma
-
rannveigh
-
igg
-
robertb
-
sgisla
-
rafng
-
helgi-sigmunds
-
lotta
-
fullvalda
-
heimssyn
-
naflaskodun
-
johannesthor
-
jeg
-
huxa
-
sigrunzanz
-
jodua
-
tryggvigunnarhansen
-
minos
-
saemi7
-
blossom
-
ansigu
-
skagstrendingur
-
beggo3
-
h2o
-
westurfari
-
ammadagny
-
bjartsynisflokkurinn
-
elfarlogi
-
esig
-
sunna2
-
frjalslyndir
-
gudlaugbjork
-
gp
-
hreinn23
-
guki
-
gustafskulason
-
harhar33
-
diva73
-
huldagar
-
kliddi
-
axelma
-
keli
-
bassinn
-
jonvalurjensson
-
josefsmari
-
kuldaboli
-
kiddatomm
-
ksh
-
kristjan9
-
mio
-
omnivore
-
sumri
-
samstada-thjodar
-
fullveldi
-
nafar
-
stjornlagathing
-
sattekkisatt
-
athena
-
tikin
-
vallyskulad
-
vest1
-
totibald
-
tik
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 2022948
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þær eru þrjár.
Urður
Verðandi
Skuld.
Svo er margt á kreiki, sem ærir ungar sálir. Þekki of marga sem voru vel nestaðir af gáfum og gjörfuleika þrátt fyrir þa'ð urðu þeir þjónar fíknar og eru nú náir.
hjartans kveðjur til þín á skelfilegum tíma.
Bjarni Kjartans
Bjarni Kjartansson, 1.10.2009 kl. 10:13
Ég sit hér með tár í augum við að lesa, góða konan sem ég hef aldrei séð og oft hefur sent mér hvatningu og hlý orð þegar ég hef sýnt mína vanlíðan hér inni, guð minn almáttugur hve oft hún hefur átt erfitt.
Ég vildi svo gjarna geta létt þér sorgina, góða Ásthildur, en fátækleg orð ná svo skammt.
., 1.10.2009 kl. 11:02
Elsku Cesil, það er gott ef við getum á einhvern hátt létt þér byrðarnar sem þú berð núna. Minningin um fallegan og góðan dreng mun lifa í hjörtum ykkar og okkar sem höfum kynnst honum í gegnum þig. Synir hans eru heppnir að hafa átt hann sem föður og þig sem ömmu.
Það er ekki auðvelt að vera foreldri fíkils það vitum við báðar, þú hefur stutt mig með þínum kærleik og ráðum þegar ég hef þurft á að halda. Núna er komið að mér að reyna að styðja við bakið á þér elskulega vinkona. Get samt lítið gert annað en að senda ykkur góða strauma og biðja fyrir ykkur öllum.
Knús í kærleikskúluna
Kidda (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 11:41
Elsku Ásthildur, ég þekki hvert orð sem þú skrifar. Hverja tilfinningu og ég vildi svo geta tekið þetta frá þér, að þú þyrftir ekki að upplifa þetta en þess er ég ekki megnug.
Júlli var ekki bara þinn strákur, hann var líka minn strákur og þannig þurfa þau öll að vera. Börn okkar allra.
Hjartaknús
Ragnheiður , 1.10.2009 kl. 11:42
Takk fyrir þennan hreinskipta góða pistil elsku Ásthildur mín
Sigrún Jónsdóttir, 1.10.2009 kl. 11:46
Það er svo satt sem Ragga segir. Júlli var ekki bara þinn strákur. Hann er strákurinn svo margra - sem hafa lent í sömu sporum og náð að rífa sig lausa eða eru enn að berjast á meðan "velferðarkerfið" ypptir öxlum og lætur sér á sama standa.
Þú ert í huga mínum og það er Júlli líka, ásamt Úlfinum og Sigurjóni litla Degi
Hrönn Sigurðardóttir, 1.10.2009 kl. 11:47
Takk öll. Það er sagt að það sé ekki lagt á nokkurn mann meira en hann getur borið. Ég held að það sé líka mýta. En ég ætla ekki að gefast upp.
Og þið hjálpið mér svo sannarlega, og allir hinir sem koma hringja og faðma. Það skiptir svo miklu máli.
Það sagði við mig maður áðan, ekki láta reiðina hleypa þér of langt, hann sagði það af vinsemd. En ég sagði, ég verð að fá að skera á kýli, öðru vísi getur mér ekki liðið vel. og þeir sem hafa komið illa fram við Júlla minn munu halda því áfram við aðra, ef þeir átta sig ekki á hversu alvarlega þeir eru á villigötum. Og einnig ef þeir halda að þeir komist upp með slíkt. Það er ekki þannig. Og þá á ég við að á endanum þarf hver og einn að standa frammi fyrir gerðum sínum, þó það sé á efsta degi. Og ég veit líka að lífið er ekki búið þó við hverfum héðan. Ég veit að Júlli minn er hér í kring um fólkið sitt, hann er sorgmæddur af því að við syrgjum hann. En það verður að fá að hafa sinn gang. Ég held að sorgin sé að mörgu leyti sjálfselska, maður sættir sig ekki við að missa. En við verðum bara að fá að vera sjálfselsk allavega smátíma.
Ég á meira í pokahorninu mínu. Maður á ekki að þegja yfir óréttlæti heimsins. En eins og maðurinn sagði við mig áðan. Það verður að vera uppbyggilegt og réttmætt. Þó gjörðir þeirra manna sem fóru illa með drenginn minn væru rangar og illar. Þá er ég að benda á þær til að vekja bæði þá og aðra til umhugsunar um hvað þeir geta gert illt af sér við fólk sem getur ef til vill ekki varið sig. Til þess að þegar þeir standa frammi fyrir næsta Júlíusi þá hagi þeir sér betur.
Eins og Ragnheiður, Hrönn og Kidda segja hér, þetta er ekki bara mitt barn, heldur sameiginlegt fóstur okkar allra sem eigum við þessa lífsreynslu að etja, og þá sem eiga eftir að verða fyrir henni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.10.2009 kl. 12:27
Tad er sárt ad lesa tessar greinar tínar kæra Ásthildur.Tad er tingra en tárum taki ad missa barn sitt og erfitt ad setja sig í spor teyrra sem tad gera.
Ég hef gengid í gegnum svipadar raunir og tú med son minn sem ekki hefur átt sjö daganna sæla til margra ára.Lent í mikklum slysum og ekki verdid hugad líf oftar en einu sinni.Hepppnin fylgdi tó minni fjölskyldu tví sonur minn er án allra efna í dag og er kominnn med sýna fjölskyldu tó merkja megi á honum allann tann skada sem hann hefur hlotid í gegnum árin .Inn í fangelsum og utan teyrra.Ég ætla ekki ad telja tad allt upp tad er eithvad sem vid tekkjum bádar.Elsku hjartans Ásthildur mín tú átt alla mína samúd ,gud styrkji tig og tína fjölskyldu á erfidri stundu.
Gudrún Hauksdótttir, 1.10.2009 kl. 14:25
Ég er alltaf að koma til að skoða myndirnar. Júlli var fallegur strákur og alltaf svo góður. Ég man að ég varð eitt sinn svo ofsalega reið við hann.. Ég er svo miður mín. Því þegar við svo töluðum saman eftir það þá áttaði ég mig á því hvað reiðin er ljót. Ég var aldrei reið við hann.. heldur þennan ógeðslega sjúkdóm. Júlli var mér sem bróðir ef ég á að segja alveg eins og er. Hann var alltaf svo góður við mig og okkur öll. Ég er alltaf að missa mig af og til og skrifa þetta grátandi. En ég veit eins og þú að hann hefði ekki viljað að við værum að syrgja hann heldur ættum við að fagna lífi hans og halda upp á það. Elsku Íja.. ég er samt svo miður mín. Ég vildi að ég hefði vitað þetta síðast þegar ég talaði við hann. Þá hefði ég sagt við hann að ég elskaði hann og hvað hann hafði mikil áhrif á líf mitt.
Ég elska þig frænka og sé þig fljótlega.
Sunneva (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 14:50
Takk Guðrún mín. Við erum ótrúlega mörg foreldrarnir sem höfum gengið í gegnum þetta helvíti sem fíknin er. Guði sé lof að þinn sonur er á góðum vegi mín kæra.
Elsku Sunna mín, hetjan litla. Ekki vera miður þín út af einhverju sem var. Júlli elskaði þig mikið, alveg eins og hann elskaði alla fjölskylduna. Og bar ábyrgð á öllum sem honum þótti vænt um, þannig að hugsa til þeirra og passa upp á. Ég veit að þú varst reið, en hann var það ekki. Ég veit það. Og það er nú það með dauðann, við vitum ekki hvenær hann kemur. þess vegna ættum við alltaf að faðmast og segja hvort öðru að við elskum. Ég hitti hann heima hjá afa á laugardagsmorguninn, hann færði mér kaffi og var svo rór og í jafnvægi. Eftir á hugsaði ég af hverju tók ég ekki utan um hann og sagði honum hve heitt ég elskaði hann, og hve stolt ég væri af honum. En það var varð ekki. En hann veit það samt. Hann er hér á meðal okkar og fylgist með. Og ég veit að hann er glaður yfir öllu sem við erum að gera í hans minningu. Það er einmitt það sem hann vildi. Skilja eitthvað eftir sig sem minnti á hann. Og það skulum við gera öll í sameiningu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.10.2009 kl. 16:42
Elsku Íja !
Okkur þykir afskaplega leitt að heyra af láti Júlla þíns.
Við sendum þér og þínum, innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu stundum.
Kærar kveðjur til ykkar allra !
Leo & Erika Johannsson (Austurríki) (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 16:45
Ég vona að þessir embættismenn lesi þetta og þori að horfast í augu við eigin misgjörðir og það megi verða öðrum til bjargar. Fíkill eða ekki fíkill, við verðum að umgangast aðra af virðingu, réttlæti og ekki síst manngæsku. Fólk kýs ekki þennan sjúkdóm. Ég er líka viss um að þessi einlægu skrif þín eiga eftir að fræða marga, því það er einkum fáfræðin sem skapar fordóma.
Það var fallegt af kennaranum að biðja bekkjarsystkinin um að skrifa á kortin, það mun örugglega styrkja Úlf.
Ásthildur mín, ég kem vestur í næstu viku og faðma þig. Þangað til faðma ég þig í huganum. Ljós til ykkar kæra fjölskylda. 
Sigrún Þorbjörnsdóttir, 1.10.2009 kl. 17:16
Takk elsku frændi minn og frænka.
Elsku Sigrún mín mikið er ég glöð að vita að þú kemur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.10.2009 kl. 17:42
Mikið er þetta sorglegt. Kveðjur vestur - ég er ein af þeim sem hef oft litið hér við, kíkt á myndir og lesið skemmtileg skrif þín. Samúðarkveðjur.
Hulda Margrét (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 20:36
, 1.10.2009 kl. 20:39
Elskulega Ásthildur, þakka þér fyrir að deila þessari frásögu af syni þínum og samskiptum við "lög og reglu." Sveigjanleiki og lipurð er eitthvað sem allir embættismenn og þeir sem hafa vald laganna í sínum höndum verða að hafa að leiðarljósi. Sama gildir um skólafólkið og það gildir í mínu starfi. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, og þar er engin sál undanskilin.
Allt hefur sinn tíma, gráturinn hefur sinn tíma, doðinn hefur sinn tíma og reiðin verður líka að fá að hafa sinn tíma. Reiðin þín er réttlát og hluti sorgarinnar sem er stór og heit eins og hraunkvika og þarf að fá útrás... það setur enginn tappa í eldfjall í miðju gosi .. og hvað þá í Vestfjarðadrottninguna sem er í senn mild og máttug!
Fyrirgefðu fátækleg orð, hugur minn er hjá þér og fólkinu þínu .... mikið er þetta fallegur strákur hann Júlli þinn.
"Þrek er gull, en gull eru líka tárin" ..
Jóhanna Magnúsdóttir, 1.10.2009 kl. 23:20
Elsku ásthildur mín.. takk svo innilega fyrir að þora, þora að opna dyrnar sem við aðstandendur fíkla felum okkur svo oft bakvið, oftast vegna vanmáttar og vonleysis. Að þurfa að berjast við "velferðarkerfið okkar" sem enganvegin gerir ráð fyrir "þessu liði" eins og börnin okkar eru oft nefnd, er ekki minna erfitt en að eiga fíkilinn. Skilningsleysið og úrræðaleysið í kerfinu er ALGERT. Ef ekki væri fyrir það góða fólk sem vinnur í málefnum fíkla af alhug veit ég ekki hvar ég væri í dag, hvað þá dóttir mín. Ekki auðveldar kerfið leiðina fyrir okkur og alls ekki fyrir fíkilinn. Það mætti leggja ansi háar upphæðir inn fyrir alla vinnuna sem við aðstandendur göngum, útbrunnin og brotin, fyrir kerfið til að reyna að halda börnunum okkar á lífi. Það er þó sem bertur fer líka til fólk á vegum kerfisins sem er mannlegt og reynir, það bara gengur á veggi eins og við, það hef ég reynt í minni baráttu. Ég er svo stolt af þér elskan fyrir að þora að seigja frá því sem gekk á með Júlla þinn, það er allt of oft horft á fíkilinn sem "vonlaust dæmi" og hann afgreiddur eftir því. Ég vona svo sannarlega að Viktoría mín fái tækifæri, hún er manneskja eins og aðrir og er elskuð af öllu hjarta af fullt af fólki. Eins og þú hefur svo oft sagt, "það langar engan að vera fíkill".
Gleymdu því aldreí Ásthildur mín að börnin þín eiga stórkostlega mömmu, vertu stolt og berðu höfuðið hátt, þú hefur svo sannarlega ástæðu til.
Guð geymi þinn yndisleg Júlla
Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 23:29
Ég dáist að þér Ásthildur fyrir baráttu þína og sonar þíns. Þú átt heiður skilinn fyrir baráttu þína, líka núna þegar ástkær sonur þinn er látinn. Kjarkurinn, ástin og væntumþykjan kemur svo vel fram í skrifum þínum. Blessuð sé minning hans Júlla.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 2.10.2009 kl. 02:49
Elsku Ásthildur mín fjölskylda, það eru búin að leka hjá mér tárin við að lesa 3 síðustu færslur þínar. Við viljum ekki lifa börnin okkar, þau eiga að lifa okkur.
En mig langaði að segja þér að ég Júlli var yndislegur, ég kynnist honum þó nokkuð á Vogi fyrir fáeinum árum og hann var hin mesta gæðasáll, svo góður og innilegur. Það er ekki annað hægt en að gráta yfir þessu.
Mig langar bara að senda þér og ykkar fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur og ég bið fyrir ykkur í sorginni.
En eitt máttu vita elska vinkona, Júlli lifir alltaf og hjörtum þeirra sem þekktu hann.
Farið vel með ykkur, Kv Linda.
Linda litla, 2.10.2009 kl. 05:30
takk fyrir að deila þessu með okkur kæra cesil. allt hefur tilgang einhversstaðar, og það sem þú skrifar, hugsar og seinna gerir út frá þeirri sorg og reiði sem herjar á þig, er ég viss um að hefur áhrif inn í framtíðina á einn eða annan hátt.
Þú ert sterk kona með mikla réttlætiskennd, það er svo mikil þörf á svona fólki á jörðinni, og sennilega þess vegna ert þú móðir hans sem setur þetta ferli í gang, sem hjálpar öðrum.
það getur oft verið erfitt að sjá tilganginn með áföllum, en hérna sé ég það með því sem þú gefur og opnar fyrir og ert með til að opna augu annarra til að skilja og jarða fordóma fyrir öðrum bræðrum okkar og systrum sem með því erfiða lífi sem þau lifa hjálpar okkur til að þróa hinar ýmsu tilfinningahöft, eða anað sem við þroskum í með því lífi sem við lifum með þeim. það ber að sýna þeim mikið þakklæti fyrir að vera með til að vekja upp þær tilfinningar sem koma hjá okkur, hvort sem það er reiði, sorg, örvænting, fordómar, gleði eða þakklæti, allt eru þetta tilfinningar sem mikilvægt er að vera meðvitaður um bæði þær jákvæðu og þær neikvæðu.
Þær jákvæðu eru með til að gefa okkur sönnun fyrir hinu rétta, þær neikvæðu sýna okkur hvað okkur ber að takast á við til að verða að betri manneskjum.
Friður og Kærleikur til þín og þinna
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 2.10.2009 kl. 08:27
Innilega takk allar saman. Þið styrkið mig svo sannarlega og gefið mér von um að það fari að birta til fyrir þá sem eru útskúfaðir af allof mörgum í samfélaginu okkar. Það verður að vekja þessa umræðu, því vandinn er gífurlegur og versnandi. Hann er ekki óviðráðanlegur ennþá. En hve lengi getur þetta gengið svona án þess að allt bresti? Takk fyrir mig og Júlla minn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 08:45
Kæra Ásthildur ég votta þér samúð mína.ég þekki svona sögur allt of vel frá mínum strák sem dó.Guð gefi þér og þínum styrk
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 09:47
Elsku vinkona.
Ég heyri oft sagt að það sé ekki hægt að bjarga þeim sem ekki vilja bjarga sér sjálfir. Ég ætla að lýsa því yfir hér og nú að þetta er alrangt. Þetta er mýta sem á að friðþægja þá sem ekkert hafa fram að færa fyrir fólk eins og Júlla minn.
Hérna er ég svo innilega sammála þér.Ég fyllist rétlátri reiði fyrir hönd þeirra er þurfa hjálp á þessu stóra sviði leikreglna.Grátlegast finnst mér þegar einstaklingar sem eru tilbúnir að leita sér hjálpar eiga ekki í nein hús að venda ... fyrr en eftir svo og svo langa bið...bið sem jafnvel ber viðkomandi ofurliði
Megi Guð og englarnir á himninum um vefja drenginn þinn og styrkja ykkur í sorg ykkar
Solla Guðjóns, 2.10.2009 kl. 10:10
Takk Birna Dís og blessuð sé minning sonar þíns.
Takk Solla mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.10.2009 kl. 11:05
Jenný Anna Baldursdóttir, 2.10.2009 kl. 13:40
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 3.10.2009 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.