Ég vil þakka

Ykkur öllum sem sýnt hafa syni mínum og okkur hluttekningu, vináttu og kærleika. Það er svo óendanlega mikils virði þegar maður missir ástvin að finna hug fólks.  Ég vil líka þakka þeim sem hafa hringt og komið. 

Ég verð að reyna að skilja og sætta mig við að vinurinn minn komi ekki aftur með brosið sitt bjarta og segi mér frá fyrirætlunum sínum, draumum eða vonum.  Eða færandi hendi.  Nú síðast með lúðu og kola, alveg algjört sælgæti mamma sagði hann og brosti.  Eða kemur í mat á sunnudegi og borðar mömmulæri af ákefð og lætur mann vita að það sé besta læri í heimi. 

En ég verð líka að sætta mig við að hann valdi líf sitt sjálfur, hann tók  líka fulla ábyrgð á því þegar hann þroskaðist nóg til að vita hvað hann vildi. Og átti yndislegan tíma nú síðustu árin, búin að vinna til baka traust samfélagsins og virðingu margra.  Hann elskaði bæinn sinn, og þó fólk væri að ráðleggja honum að flytja í annað samfélag, þar sem ef til vill yrðu minni fordómar, þá kom það aldrei til greina.  Hér voru hans rætur og hér skyldi hann vera.  Hjá sínum nánustu, sonunum tveimur, sem hann elskaði út af lífinu, fjölskyldunni sinni og vinkonu og barnsmóður.

Hann átti líka vini allstaðar í kring um sig.  Hann mun líka fá virðulega og fallega útför. 

Rétt áðan kom Halldór besti vinur hans í heimsókn.  Hann var sannarlega sleginn, en hve gott það var að ræða við hann um Drenginn minn.  Þau hjónin sögðu fallega frá og hann var þeim eins og svo mörgum öðrum góður vinur og hjálparhella.

 Júlli minn valdi þá leið sem hann fór, vissulega hefði móðir óskað sér beinni brautar fyrir son sinn.  En við getum ekki valið fyrir börnin okkar.  Þau verða að fá að fljúga og læra af reynslunni.  Það eina sem við getum gert er að styðja við bakið á þeim andlega, og elska þau.  Ef þau fara alvarlega út af brautinni eins og minn drengur gerði fyrir löngu, þá verðum við að aðskilja afkvæmið og fíkilinn.  En það er ekki bara aðstandendur sem þess þurfa heldur þurfa opinberir aðilar að gera það líka.  Sú fyrirlitning og virðingarleysi sem oft einkennir til dæmis lögreglu og læknum gagnvart fíklum er óþolandi.  Og ég er viss um að oft hefur það einmitt leitt til þess að brotinn manneskja verður ennþá verr haldinn við slíkar aðstæður. 

Ég ætla ekki að nefna nein nöfn hér en þeir sem eiga mega svo sannarlega taka til sín þessi orð mín.  Og skammast sín, en jafnframt draga þann lærdóm af afskiptum sínum af Júlla mínum og haga sér betur við þá sem á eftir koma.

Júlíus aftur á móti þessi ljúflingur hefur alltaf fyrirgefið og aldrei hnjóðað í nokkurn mann.  En sum samskipti hans og lögreglu og lækna eru geymd hjá mér en ekki gleymd. 

Ég vil nota þetta tækifæri til að skerpa á þeirri ósk minni nú til margra ára að það verði hætt að setja fíkla í fangelsi, þangað eiga þeir ekkert erindi.  Slíkir eiga að fá að fara inn á lokaða meðferðastofnun, þar sem fagmenn hlú að þeim og koma þeim út betri manneskjum með von um betri framtíð.

Ég hef fengið að heyra að fólki finnst gott að ég skrifi hér um drenginn minn.  Og það geri ég með mikilli ánægju, það losar líka um einhver tilfinningahöft hjá mér að geta sagt frá því hve góður og frábær hann var.  Og ég finn svo sannarlega að hann átti marga vini og velunnara sem vilja leggja sitt af mörkum honum til heiðurs.  Fyrir það er ég óendanlega þakklát.

IMG_4064

Ísafjörður staðurinn sem hann neitaði að yfirgefa, skartaði sínu fegursta daginn sem hann dó.


En ég vil ekki að við gleymum okkur alveg í sorg, það var ekki hans stíll.  Hann vildi gleði og ástúð í kring um sig.  Þess vegna ætla ég að segja smásögu af litla syni hans, sem mamma hans sagði mér í gær. Vona að það sé í lagi.  Og svo ætla ég að setja inn nokkrar myndir af börnum.  Það er alveg í hans anda.

Mamma Sigurjóns Dags er dýralæknir.  Hún hafði fundið mús sem var mjög illa farinn eftir kattarkjaft.  Hún var með snjóskóflu í höndunum og tók á það ráð að greiða músinni banahögg með skóflunni.  Sigurjón Dagur horfði á þessar aðfarir og spurði svo; Mamma hvað myndir þú gera ef ég væri svona slasaður?

Elskan mín sagði mamma, ég myndi auðvita fara með þig beint niður á sjúkrahús og kalla á lækni.

Sigurjón horfir smá stund á móður sína og segir svo: Nei! ég vil heldur skófluna. 

IMG_4067

Sól á fjallatoppum.

IMG_4069

Sól í firði.  Landsins vættir fagna góðum dreng í sinn faðm.

IMG_4071

Köttur á heitu þaki eða vélarhlíf.

IMG_4074

Og á þaki.

 IMG_4066

Í kúlu heldur lífið áfram þökk sé litlum hnátum.

IMG_4077

Fyrsta alvörumynd Ásthildar, hún er efnileg.  Þetta er draugur sagði hún.  Og nokkrum dögum seinna þegar ég var að skanna hana inn, og hún sá myndina endurtók hún að þetta væri draugur, svo það er alveg rétt.

IMG_4078

Þetta er myndar stelpa hugsar Símon Dagur.

IMG_4079

Hún er svo sæt,best að smakka á henni Sólveigu Huldu.

IMG_4080

Vissi það, hún er sæt.

IMG_4082

Vá hvað þetta er fallegur engill.

IMG_4085

Mér finnst hann líka fallegur.

IMG_4086

ég vil fá hann!

IMG_4091

Ég áida...

IMG_4092

Nei ekki þú!!!

IMG_4093

Hæddu ðessu!!

IMG_4094

Pabbi hún er að takida af mér!!Heart Segiði svo að börnin viti ekki hvað þau vilja.

En ég bið alla góða vætti að vaka yfir ykkur öllum og vernda.  Og til allra þeirra sem sakna Júlla míns, sendi ég risastórt knús.  Við skulum minnast þessa ljúflings með birtu í sálinni og gleði yfir því að honum líður vel. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

 Elsku hjartað mitt vona að englarnir vaki yfir ykkur öllum og Guð veiti ykkur styrk. Mínar dýpstu samúðarkveðjur Emma.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 30.9.2009 kl. 15:06

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Megi Hann smyrja sár ykkar og veita fró.

'astvininum líður vel, burt frá pínu og hlekkjum  þess, sem verst fór með vel gerðan dreng.

Mín kæra, bið þig halda í geislana sem eftir voru skildir hjá þér og una vini hvíldar.

Það er sárt en skylda þeirra sem eftir eru, að virða frelsi hinna gegnu.

Með hluttekningu

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 30.9.2009 kl. 15:22

3 identicon

Sæl, elsku Ásthildur mín og þið öll.

Ég verð að fá að segja það við þig, Ástildur mín.

þú ert einstaklega sterkbyggð andlega og skrif þín segja okkur öllum hve mikið gott og fallegt er í sálu þinni, þó stundum hafi brotið  á , þá ertu þú alltaf skipið sem siglir  á efsts öldutopp og horfir framávið.

Mínnar innilegustu kveðjur til ykkar allra.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 15:23

4 Smámynd: Ragnheiður

Yndisleg færsla, yndislegar myndir.

kær kveðja vestur elsku vina mín

Ragnheiður , 30.9.2009 kl. 16:02

5 identicon

Hljóðnað er,borg á breiðum strætum þínum,

bláhvítur snjór við vota steina sefur,

draumsilki rakið dimma nóttin hefur

deginum fegra upp úr silfurskrínum.

Vökunnar logi er enn í augum mínum,

órói dagsins bleika spurning grefur

djúpt í mitt hjarta er kemur seinna og krefur

kyrrðina um svar,um lausn á gátum sínum.

(Jóhann Sigurjónsson)

Kevðja til ykkar Ásthildur mín.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 16:07

6 Smámynd: Lilja Einarsdóttir

Kæra Ásthildur og fjölskylda.

Innilegustu samúðarkveðjur til ykkar vegna fráfalls sonar og bróður.  Megi Guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg.  

Bestu kveðjur frá Köben

Lilja Einarsdóttir, 30.9.2009 kl. 16:07

7 identicon

Kæra Ásthildur og fjöldskylda.

Ég sendi ykkur mína dýpstu samúðarkveðjur.Megi Guðs englar vaka yfir ykkur og styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Kv Hugrún og co

Hugrún Jósepsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 16:23

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Knús í kærleikskúlu

Sigrún Jónsdóttir, 30.9.2009 kl. 17:12

9 identicon

Kæra Ásthildur og fjölskylda,
ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar.

Ég er mjög þakklát fyrir það að hafa kynnst Júlla og fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Júlli var yndislegur og ég sakna hans sárt. Minning hans lifir að eilífu í hjarta mínu.

Kveðja Jorun

Jorun Holmqvist (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 17:32

10 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir




Elsku Ásthildur mín

Ég er svo stolt af þér að skrifa þennan pistill. Ég er líka algjörlega sammála að það á ekki að loka fólk inní fangelsi sem hafa ánetjast fíkn. Það á að hjálpa þeim, komast af orsökinni og hjálpa þeim að standa á fætur á ný og hefja nýtt líf.

Megi almáttugur Guð styrkja ykkur í sorginni

Mér þykir svo vænt um þig mín kæra

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 30.9.2009 kl. 17:59

11 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þú ert sterk kona Ásthildur mín að geta skrifað eftir svona áfall.  Ég við votta þér og þinni fjölskyldu mína innilegustu samúð.  Ég get ekkert hugsað mér erfiðara fyrir nokkur mann en að missa barn í dauðan.

Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Jakob Falur Kristinsson, 30.9.2009 kl. 18:09

12 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Því miður er það svo að skilningsleysið er algjört hjá mörgum og að setja fíkil í fangelsi er hreinlega glæpur.  Systursonur minn sem var aðeins 23 ára þegar hann var myrtur vegna fíkniefnaskuldar og ég veit að hjá foreldrum hans hafa þau sár aldrei gróið.

Það er enginn sem ætlar sér að verða fíkill.

Jakob Falur Kristinsson, 30.9.2009 kl. 18:19

13 Smámynd:

Þú ert einstök kona Ásthildur  

, 30.9.2009 kl. 18:46

14 Smámynd: Sigríður Ásdís Karlsdóttir

Þú stendur ekki ein kæra 'Asthildur mín .. Við sem bíðum enn eftir að prestur byrtist á dyrastokknunu hjá okkur. .Alltaf hrædd,, alltaf að bíða... Þekki þetta elsku vina.. Guð veri með þér og hjálpi og styrki þig og þína.

Sigríður Ásdís Karlsdóttir, 30.9.2009 kl. 19:06

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Júlli getur heldur betur verið stoltur af henni mömmu sinni. Enn á ný sannast hvílík kjarnakona þú ert, og í kjarna þínum er mikil ást til að gefa - ást út fyrir gröf og dauða.  Það er súrt að sitja eftir, meira að segja óbærilegt og horfa á eftir veginum, sérstakleg þar sem drengurinn hennar mömmu sinnar stakk hana af, hann átti samkvæmt öllum hennar hjartans lögmálum að ganga á eftir mömmu en ekki á undan, en eins og þú segir, þá valdi hann að drífa sig, en bíður pottþétt með útbreiddan faðminn þegar mamma (og amma) hefur lokið sínu hlutverki í þessu lífi. Hlutverkinu sínu sem er svo stórt og göfugt, hlutverki verndarans fyrir litlu börnin og fólkið í kringum sig.

 Sendi þér og fjölskyldunni bænir mínar og "ferðalanginum" óska ég góðrar heimkomu á eilífðarströndina ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 30.9.2009 kl. 19:30

16 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku Ásthildur mín, þú ert og munt alltaf verða klettur í lífi fjölskyldu þinnar, en ljúfust mín gleymdu ekki að þiggja frá þeim líka.
Kærleikskveðjur

Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 30.9.2009 kl. 19:31

17 identicon

Dísa (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 19:47

18 identicon

Yndisleg færsla hjá þér elsku Cesil mín.

Knús í kærleikskúluna 

Kidda (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 19:52

19 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þú ert einstök kona Ásthildur, en ekki gleyma sjálfri þér  

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 30.9.2009 kl. 20:25

20 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæra Áshildur, ég þekkti hann Júlíus þinn ekki persónulega en af lýsingum að dæma myndi hann örugglega hugsa eins og þú að dauði hans yrði til þess að við hugsuðum betur hvað við getum gert í forvörnum og meðferð, það er jákvæðni og góði hugsunarháttur.

Eddukvæðin hafa kennt mér að væntumþykjan og sorgin eru tvær hliðar á sama peningi sama má segja um lífið og dauðann hvorugt verður aðskilið frá hinu. Einna vænst þykir mér um Sigurdrífumál er þar eru dýrar perlur.  Virðingin fyrir lífinu er ekki aðskilin virðingunni fyrir dauðanum. Fyrirmæli völvunnar eru skýr gefum henni orðið: 

"Það ræð ég þér hið níunda//að þú náum bjargir//hvar er þú á foldu finnur//hvort eru sóttdauðir//eða eru sædauðir//eða vopndauðir verar.-  

og áfram heldur völvan:

"Laug skal gera//þeim er liðnir eru//þvo hendur og höfuð//kemba og þerra//áður í kistu fari//og biðja sælan að sofa".-

Þessi fallega hugsun snart mig. Með sama hætti bið ég þess að Júlli sofi sæll fyrir lengra ferðalag, þér og öðrum ástvinum hans sendi ég hlýjar kveðjur. 

 

Sigurður Þórðarson, 30.9.2009 kl. 20:59

21 identicon

Kæra Ásthildur. Þetta er mjög sterk minning og áminning um viðhorf samfélagsins til þeirra sem ánetjast án þess að það hafi verið ætlunin. Það er alveg örugglega aldrei ætlunin hjá neinum sem það gerir en viðhorfið er grimmt. Takk fyrir áminninguna og takk enn þá meira fyrir falleg orð um Júlla. Haltu áfram að blogga um hann og um viðhorfið - það gæti breyst og hjálpað svo mörgum.

Valdís

Valdís Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 21:01

22 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Allt sem ég get gefið þér eru hlýjar hugsanir og faðmlög - en af þeim á ég líka nóg handa þér og þínum.

Hrönn Sigurðardóttir, 30.9.2009 kl. 21:24

23 identicon

Samúðarkveðjur á ykkur alla fjölskylduna

Knús í kúluna.

Hjördís Péturs (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 22:16

24 identicon

Kæra Ásthildur.  Fyrst vil ég votta ykkur samúð mína vegna fráfalls Júlla. Þú stendur í þeim sporum sem ég tel vera þau þyngstu sem foreldri getur verið í. Enginn vill jarða barn sitt og ætti ekki að þurfa. Ég dáist af styrk þínum og hef alltaf gert. Þú hefur staðið við bak syni þínum og barist af öllum krafti, þú hefur gert allt sem góð móðir getur gert. Þú talar um góðu tímana hans Júlla, ég kynntist honum einmitt þá. Kynntist honum á einni mikilvægustu stund lífs hans og þá þessum ljúfa manni sem hann var. Manni sem ég bar traust til og bar virðingu fyrir. Traust samfélagsins ávann hann sér vegna sinna mannkosta. En viðhorfið er líka fljótt að breytast og getur verið ótrúlega grimmt. Það er engin draumastaða að verða fíkill, það er ekki það hlutskipti sem einhver velur sér. Þetta er fíkn, fíkn sem er eins og djöfull sem hefur hálstak á fórnalambi sínu og herðir þegar síst skildi. Það er enginn sem velur viljugur að yfirgefa fjölskyldu og börn vegna kostanna við að vera ánetjaður fíkill. Engin...Enginn... Skrif þín eru okkur öllum þörf áminning.

Ásthildur haltu áfram að skrifa um Júlla og minningarnar ykkar og leyfa okkur hinum að njóta þeirra líka.<3

Halldóra Karlsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 22:48

25 identicon

Megi góður guð vera með ykkur og styrkja  í sorginni

Halldóra karlsd (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 23:21

26 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Ásthildur,

við hjónin sendum ykkur öllum samúðarkveðjur.

Það eru ekki nein orð sem geta túlkað þær tilfinningar sem bærast í manni. Börnin manns eiga að kveðja okkur, ekki öfugt. Þannig er því þó ekki alltaf hagað. Hvort sem okkur líkar það betur eða ver er hlutverk okkar að troða marvaðann áfram. Við verðum víst að sætta okkur við það að takast á við lífið án tillit til þess hvort okkur líkar við hlutskiptið.

Kæra Ásthildur og fjölskylda, hugur okkar hjóna er með ykkur. Við sendum ykkur styrkjandi strauma með hugsunum okkar. Saman hefjum við okkur upp úr hverjum öldudal lífsins.

Gunnar Skúli Ármannsson, 30.9.2009 kl. 23:42

27 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mar bara tárazt yfir bloggi, það hefur aldrei fyrr gerzt.

Það sem að þú gefur af þér vinkona.

Steingrímur Helgason, 1.10.2009 kl. 01:07

28 identicon

Elsku hjartans Ásthildur..... nú renna tárin...... Takk fyrir að lofa okkur að lesa um þinn yndislega Júlla.... takk fyrir að tala máli þeirra sem minna mega sín..... eins og þú sagðir, það vill enginn vera fíkill, og það er svo mikilvægt að fólk skilji það.... börnin okkar eru börnin okkar, þó þau séu fíklar. Við elskum þau af öllu hjarta og stöndum svo vanmáttug í þessu ömurlega ferli.... guð hvað það er rétt hjá þér að fíkillinn þarf MANNLEGA hjálp..... FÍKLAR ERU LÍKA FÓLK!!!

Elsku Ásthildur mín, ég hitti fallega fíkilinn minn í gær, hún á 19 ára afmæli í dag og ég þakka fyrir hvern dag sem ég fæ með henni. Hún bað mig að setja hér inn innilega samúðarkveðju til ykkar og hún vildi að þú vissir að hún elskaði Júlla þinn mikið. Hann var henni mjög góður. Fárveikur fíkill sem var yndislegur við alla..... getum við ekki lært eitthvað af því ?? Nú er minn fíkill á góðum stað og verður þar vonandi áfram.... ég vona svo innilega að fólk hafi lært af mistökum sínum og að minn fíkill fái betri móttökur og hjálp, það er eins og þú sagðir svo mikilvægt í bata þessara einstaklinga.......

Farðu vel með þig, þú ert EINSTÖK

Elísabet Markúsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 02:52

29 identicon

Kæra Ásthildur og fjölskylda.

okkur langar til að senda ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur.

Eftir situr situr minning um góðan dreng og það vitum við sem þekktum hann Júlla þinn. Að vísu eru komið svolítið síðan að við hittum hann síðast en þá var hann einmitt staddur á flugvellinum í Reykjavík á leiðinni heim í mömmukot og leit svo rosalega vel út, búinn að vera edrú í  nokkurn tíma. En mikið er ég sammála þér að maður eigi ekki að lifa börnin sín en við vorum að kveðja lítinn ömmu og afa engil í síðustu viku og eru það erfiðust spor sem við nokkurn tíman höfum gengið. manni finnst lífið ósanngjarn á stundum sem þessum.

kærleikskveðjur

Sigga Tóta og Sævar

Sigga Tóta Gabríelsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 05:21

30 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Elsku vina,  ég vil bara þakka þér tárin blinda en huggunin er að vita hann á betri stað þar sem kærleikur hans og manngæska fær notið sín og ég veit í hjarta mér að hann mun með faðminn opinn taka á móti þeim sem eftir koma.

Mundu kæra vina að þú ert ekki ein, ég þekki andvöku nætur og það að koma að lokuðum dyrum, og vera rekin milli stofnana en hvergi hjálp að fá , það sem þú upplifir núna er sorg sem ekki ætti að leggja á nokkurn einasta mann. Guð geymi ykkur öll

Hulda Haraldsdóttir, 1.10.2009 kl. 05:40

31 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Kære vinkona norður á Íslandi, takk fyrir að vera svo sterk að geta deilt tilfinningum þínum og hugsunum fyrir hundruðum manna mitt í sorginni. Það að lesa hugsanir þínar gefur mér bjartsýni og von, sem er svo skrítið þegar þetta er um dauðann og sorgina, en bjartsýnin og vonin er vegna þess sem þú deilir af þér til okkar allra og það að þú gefur af þér til okkar gefur þér styrk til að takast á við þá sorg sem þú og fjölskylda þín eruð mitt í og gefur okkur skilning og fyllir okkur af samkennd bæði til þín, fjölskyldu þinnar og hvers annars. Þetta er besta dæmið um að við erum þar hvert fyrir annað og við erum eitt með þér mörg hundruð manns, ekki hver í okkar horni en í dialog og stuðnings á netheiminum. Þetta er fyrir mér dæmi um þá braut sem við förum á, VIÐ ERUM EITT OG VIÐ ERUM ÞAR HVERT FYRIR ANNAÐ.

Kærleikur og Ljós til þín og megi Ljósið skína í kúluhúsinu í dag

Steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 1.10.2009 kl. 06:08

32 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Innilega takk öll sömul.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.10.2009 kl. 08:06

33 identicon

Komdu Sæl Ásthildur og guð hjálpi þér að komast í gegnum þá hroðalegu sorg sem fylgir því að missa  barnið sitt.

Ég heimsótti Júlla þann 24 sept. og áttum þá gott spjall saman. Ég festi mér fisk sem hann geymir heima hjá sér - og við ákváðum að hittast um mánaðamótin og ganga þá endanlega frá kaupunum. Hann gaf mér líka leyfi til að fara niður í gám og mynda þar.

 Það eru hlutir sem mig langar til að segja þér frá sem bar á góma í þessu spjalli okkar.

Ég tók nokkrar myndir af Júlla þennan dag og langar til að senda þér þær. Símanúmerið mitt er 846-4024.

Með bestu kveðju, SH

Sigríður Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 09:26

34 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Takk fyrir einlæg og falleg skrif elsku Ásthildur. Stórt knús og kreist á þig.  

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 1.10.2009 kl. 09:46

35 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Sigrún mín.

Sigríður emailin minn er asthildurcesil@gmail.com  ég er eitthvað svo orkulaus núna, en ef þú vilt senda mér línu þá er það vel þegið.   Annars hringi ég þegar ég hef til þess þrek.  Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.10.2009 kl. 10:26

36 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Yndisleg færsla og hreint yndisleg kona sem mér þykir ákaflega vænt um þrátt fyrir að við glímum annars lagið, sem er bara hollt! Það er aðdáunarvert að sjá færslu sem þessa eftir svona hörmungar, og er ég ákaflega stolltur að eiga slíkan bloggvin, sem ber ekki aðeins góðan þokka heldur veitir öðrum styrk og innblástur sem eiga við sömu áföll að glíma við.

Guð blessi þig og þína Ásthildur mín kæra, ég hef alltaf sagt að þú hefur verið mér sem amma hér á blogginu og vona ég að enginn breyting verði þar á!

Með Guðs blessun,

Guðsteinn Haukur Barkarson, 2.10.2009 kl. 17:08

37 Smámynd: TARA

Kæra Ásthildur.

Ég hef lesið bloggið þig í vetur sem leið, en þekki þig ekkert. Hef heyrt mikið og vel um þig talað af manni sem mér er kær, því vil ég senda þér mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðar vættir að halda verndarhendi yfir syni þínum þar sem hann er nú og guð gefi þér styrk til að halda áfram og standast þessa skelfilegu raun. Ég skil sorg þína svo mæta vel, enda ekki farið varhluta af henni sjálf og nú síðast í sumar. Það ætti engin móðir að þurfa að horfa á eftir barni sínu í gröfina, því á að vera öfugt farið, en er ekki alltaf þannig. Hitt veit ég með vissu að tíminn linar sorgina og þú lærir að lifa með henni. Svo ferðu að brosa að minningunum. Ég kveiki á kerti fyrir þig og son þinn í kvöld og megi allar mínar bestu hugsanir og góðar óskir ná til ykkar beggja.

TARA, 2.10.2009 kl. 17:19

38 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég votta þér og öðrum aðstandendum innilega samúð mína vegna fráfalls hans Júlla þíns. Það er merkilegt hvað sorgin hefur oft knúið dyra á Urðarveginum á síðustu árum. Fyrst Hemmi hennar Sollu, mamma í fyrra og nú Júlíus.

Ég á margar minningar um hann Júlíus, við heilsuðumst alltaf og vorum ágætis vinir. Hann var góður drengur.

Theódór Norðkvist, 2.10.2009 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband