Kærleiksdagar, og allt sem að þeim lýtur.

Ég fór og var með fyrirlestur á Kærleiksdögum á Núpi í Dýrafirði í dag.  Vigdís Steinþórsdóttir sem heldur utan um þessa kærleiksdaga bað mig í vor að koma og flytja fyrirlestur sem ég hélt fyrir fræðslumiðstöð Vestfjarða um nytjaplöntur sem vaxa á Vestfjörðum.  Það var virkilega gaman að koma þarna og finna þann jákvæða kraft sem umlukti gamla skólann og fólki sem þarna er yfir 50 manns, sem dvelur þarna í tvær vikur við að virkja náttúruöflin og senda kærleika og hvatningu kring um sig og um allan heiminn.  Það er greinilega að skila sér, það fann ég vel.

Við fórum hjónakornin með börnin og meðan ég flutti fyrirlesturinn fór Elli með börnin og tjaldaði splunkunýju tjaldi sem við keyptum, fyrir áeggjan Úlfsins.  Það var hin besta skemmtun fyrir þau að tjalda. Það var líka nammidagur, Hanna Sól sagði strax í morgun, amma í dag er nammidagur, förum við ekki örugglega í Hamborg og kaupum nammi?  Nei Hanna Sól mín við förum ef til vill í HAMRABORG LoL

Á leiðinni vestur spurði Hanna Sól hvort einhver kynni ekki brandara.  Úlfur sagði einn skemmtilegan, og svo sagði Hanna Sól: hafiði heyrt brandaran um Svenna Kló??? Nei enginn hafði heyrt hann.  Og hvernig er sá brandari spurði ég; 'Eg kann hann ekki heldur svaraði barnið, og við öskruðum af hlátri.  þetta var bara svo fyndið, og hæst hló litli prakkarinn Ásthildur. HeartLoL

En hér eru myndir fyrir fólkið sem er flutt í burtu en hefur svo gaman af myndunum mínum af veðrinu fjöllunum og Ísafirði. 

IMG_9657

Í dag er lengstur sólargangur og það er heilmikið fjör í Arnardal hjá ungu hjónunum þar Úlfi Úlfars og Önnu Siggu og fjölskyldunni frábæru. Ég er aftur á móti ein heima með stelpurnar, því þeir fóru svo í útilegu Elli og Úlfur til að prófa nýja tjaldið.

IMG_9658

Gæti trúað að þessar myndir kveiktu í einhverjum minningar um sumarbjart kvöld og sólarlag.

IMG_9659

Takk fyrir allar kveðjurnar sem ég fæ bæði hér inni og svo frá fjölskyldum og ættingjum öðrum, það er voða gott að finna að fólk kann að meta það sem er í boði.

IMG_9662

ég hef sjálf mikla ánægju að setja myndirnar mínar inn, en ef ég fengi ekki hvatningu, þá held ég að enginn myndi nenna að eltast við að setja svona inn.  Áhuginn og ánægjan er hvatningin sem þarf. Heart

IMG_9660

ef þið haldið að prakkarinn ætli að mála með penslinum.....

IMG_9661

Þá er það einfaldlega ekki rétt, því hún ætlar að sjúga vatnið úr honum.  LoL Hvað getur maður gert ?? Og englar eru náttúrulega verndaðir gegn öllu illu.

IMG_9664

Öskubuska komin í kjólinn sinn.

IMG_9667

Erindið búið og nú þarf að skoða tjaldborgina sem fjölskyldan reisti, þetta er ekki skjaldborg, enda reynist sú sem ríkisstjórnin ætlaði að setja upp harla léleg og lítilmótleg, þetta aftur á móti er hið glæsilegasta tjald.

IMG_9669

Og börnin kunnu vel að meta.

IMG_9672

Já þetta er aldeilis fjör.

IMG_9676

Við stelpurnar eina heima og verðum í letikasti í fyrramálið, það er auðvitað barnasjónvarp og svo þarf að gefa morgunmat, annað hvort veetabix með rúsínum, eða kornflakes með þeim sömu eðalrúsínum, því sykur er nánast útilokað á þessu heimili. 

En ég skal setja hér inn pistilinn minn um plönturnar.  Þetta er um notkun á eðalplöntum, sem flestir líta á sem illgresi og vaxa allstaðar kring um okkur.  Unnið upp úr litlu kveri frá 1880, frá Jóni Jónssyni.  Það er ef til vill ráðlegra að fara frekar út í móa og fara á beit, en að þurfa að slást um dýr meðul í apótekinu.  Altént er miklu ódýrara að týna þessar jurtir og búa til úr þeim áburð, te eða seyði en að þurfa að fjármagna meðul sem oft á tíðum reynast svo ekkert betri en jurtirnar okkar.  Þær eru allavega heilbrigðari og hreinni afurð.  gjörið svo vel elskurnar mínar og eigið góða helgi. Heart

Vestfirskar nytjajurtir.  

 Viltar jurtir. Lækningajurtir.  

Ræktaðar jurtir.

Kál, salöt og kryddjurtir.  

Sveppir.  

Ber.   

 

 

  

  Viltar jurtir.  Að týna plöntur og þurrka.  

1.                 Allar jurtir skulu safnast á þeim tíma árs, sem þær eru kraftmestar. 

2.                 Kraftur jurta fer eftir aldri þeirra.  Nokkrar jurtir eru kraftmestar nýsprottnar, aðrar er blómstrin springa út, og nokkrar þegar þær eru fullblómgaðar.

3.                 Best er að tína jurtirnar í þurru veðri um miðjan dag, er ekki er náttfall á jörð, einkum þeim plöntuhlutum sem eru ofanjarðar.

4.                 Þær plöntur sem vaxa í fjalllendi og utan ræktaðs lands eru kraftmeiri en þær sem vaxa á ræktarlandi.  Einnig eru þær sem vaxa á þurrlendi kraftmeiri en þær sem vaxa í deigum jarðvegi.  Einnig ber að geta þess að jurtir sem vaxa sólarmegin eru kraftmeiri en plöntur sem vaxa í skugga. Samt ekki þær sem þurfa skugga eins og burknar.

5.                 Þegar búið er að safna jurtunum, skulu þær hreinsaðar, og þurrkaðar, einnig hreinsa burtu skemmda plöntuhluta, svo sem visnuð blöð, fúnar og klofnar rætur. Best er að þurrka þær í grisju á stað þar sem loftar vel um, en einnig má þurrka þær á ofni, en gæta verður þess að hitinn má ekki vera mikill.  Eða eins volgur og hendur manna þola.

6.                 Þurrkaðar jurtir skulu svo geymast á flöskum krukkum eða öðrum þéttum ílátum.    

 

Plöntuhlutar:

1                    Rætur.  Þeim skal safna þegar mestur krafturinn er.  Eins árs rætur skulu grafast upp snemma sumars.  Tveggja ára snemma sumars seinna árið, fjölærum er einnig safnað snemma á vorin áður en blöð og stönlar þeirra tial til að vaxa.  Stórar rætur má skera í sundur svo þær þorni fljótar.

2                    Blöðin.  Þau eiga að týnast í þurrviðri, af eins árs og fjölæringum, skömmu áður en þær blómstra, eða þegar blöð eru fullvaxin.  Af tveggja ára plöntum á að taka svo fljótt sem verða má.  Blöð af trjám og lyngi skömmu eftir að þau blómstra.

3                    Börkur.  Best að safna honum á vorin, þegar fyrst ber á brumi trjánna, eða að hausti, þegar blöðin eru fallin. Börkurinn er tekinn í þurrviðri af ungum greinum.

  4                    Blómin.  Blómum skal safna um miðjan dag, best í þurrki.  Blómleggurinn má fylgja með.  Þú skulu svo þurrkið svo fljótt sem verða má.

5                    Ber. Erfitt er að þurrka flest ber, þó eru ber sem eru þurr svo sem einiber.

6                    Fræ.  Gæta þess að safna þeim ekki fyrr en þau eru fullþroska, eða þegar fræhýði fer að opna sig. Best er að safna fræjum eftir a.m.k. þriggja daga þurrk.

 7                    Mosar.  Best að tína eftir þurrkatíð. Þó eru undantekningar en Fjallagrös er best að tína í raka.

8                    Þang og söl.  Skiptir ekki máli með rakastig, þar sem þau eru oftast í raka niður við sæ.                                     

Viltar íslenskar plöntur sem eru notaðar til lyfjagerðar.  Þessa vaxa allar hér fyrir vestan.  

Lyfjagras:

Mýkir græðir og hreinsar, gott við útbrotum, bólgu og sprungum.

   Húsapunktur. Uppleysandi og þvagdrífandi, góður við harðlífi, seyði af rótum drukkið 4 sinnum á dag.  

Gulmaðra. (blómstrar júní júlí)

Örvar svita, stemmandi, góð í áburð á krepptar sinar.        

Maríustakkur.  Blómstrar í júní.

Styrkir og er góður við erfiðum blæðingum.             

Ljónslappi. Blómstrar í júní.

Styrkir og græðir, góður við blæðingum og græðir sár.  Gott að drekka seyði við eymsli í hálsi.    

Fjóla.  Þrenningarfjóla.  (blómstrar allt sumarið. ) 

Hjartastyrkjandi, rætur eru magahreinsandi.  Af blómum má gera te.  Duft af rótum má nota sem uppsölumeðal, drukkið á fastandi maga að morgni.             

 Maríuvöndur.  Blómstrar í ágúst.

Styrkjandi, uppleysandi,  hjartastyrkjandi, bætir matarlyst, vindleysandi og góð við þembing.  Hægt er bæði að nota rótina sem duft og gera seiði. ¼ hluti smátt skornar rætur, 1/16 hluti brennivín látið á flöskur og látið standa í yl í 6 daga, sía vökvan frá og geyma.   

Njóli(hemula).

 Dregur saman styrkir, leysir upp þykka vessa, hreinsar blóð, góður við rotnun.  Lagar harðlífi, lifrarbólgu, kláða, útbrot.Af nýjum blöðum má búa til seyði til að bera á útbrot.  Þurrkað fræ er líka gott. Af rótum er búið til seyði til hreinsunar: 1 – 2 hl. Rót.1 hl. Salt fínmalað.  Leysa upp saltið í volgu seyðinu.  Tekið á fastandi maga. Smyrsli við kláða og útbrotum;  5 hl. rótarduft1 hl. mulinn brennisteinn.Ósaltað smjör 10 hl. Hnoða vel og bera á.      

Helluhnoðri.

Hreinsar blóð og þynnir, eyðir rotnun.  Góður til að hreinsa með uppsölum og niðurgangi.  Góður við nýrnasteinum, kvefi, hósta, harðlífi.  Safinn er góður gegn krabbameini og blóðtappa.   

Hvönn.  Blómstrar í júli.

Styrkir eyðir vindi, blóðhreinsandi.  Góð við lystarleysi, vindverkjum, hósta og stöðnuðu tíðarblóði.  Dropar af fræi.  Fræ marið 2 hl. móti 8 hl. brennivíni látið í flösku, látið standa í yl í viku með tappa.  Af rót má búa til seyði og dropa.Seyði 2 hl. af rót á móti 8 – 13 hl. af vatni og sjóða litla stund í luktu íláti, láta standa í pottinum uns það er kalt, sía vökvan frá og geyma. Droparnir, 4 hl af rót smátt skorinni, móti 8 hl. af brennivíni, búið til á sama hátt og seyðið.              

Arfi.  (hjartarfi) Blómstrar allt sumarið.

Kælir, mýkir bólgur og þota.  Arfin beint úr moldinni kælir sár þrota og bólgur. Seyði af nýjum arfa græðir sár í lungum.  Örvar matarlyst, tekur slím úr augum. 

  Melasól.  Blómstrar í júlí.

Góð við svefnleysi, verkjastillandi og góð við sinadrætti. Búa til dropa úr blómum.Blómin smáskorin 6 hl.Hvítvín hálfur peli.  Látið standa í viku við yl.  Vökvi síaður frá og geymdur.            

Blóðberg.  

Styrkir hjarta og taugar. Örvar þvaglát og tíðir.  Blóðhreinsandi. Gott við kvefi, hjartastyrkjandi.  Plantan öll notuð blóm, blöð og leggir.Gæta verður að sjóða ekki of lengi, þá tapast efni i plöntunni.    

Fífill.  

Blöðum skal safna, áður en blóm springa út.  Rót grafin upp að hausti. Örvar hægðir og þvag. Eyðir bólgum, mýkir, þynnir blóð, lagar harðlífi, gott við ígerðum og útbrotum á hörundi. Af blöðum og rót er búið til seyði.  Hægt er að nota ung blöð í salat, og svo er hægt að búa til fíflavín úr jurtinni.              

Vallhumall.  

Styrkir, mýkir og dregur saman, uppleysandi og blóðhreinsandi.  Góður við sinadrætti og stirðleika í líkama. Góður við innvortis bólgum. Gert er te úr blómum og blöðum.Af blöðum má búa til smyrsli; saxar blöð smátt 12 hl. blöð, 24 hl. ósaltað smjör.  Sjóða um stund, sía vökva frá og geyma kökuna. Gott við verkjum og stirðum taugum.Blöð jurtar; þurrkuð steitt í duft bl. með smjöri 4. hl blöð móti 12 hl. smjör. Gott til að græða sár og útbrot.     

Fjallagrös.  

Þarf að taka í vætu.Styrkir dregur saman, mýkir hægðir, nærir, blóðhreinsandi.  Góð við lulngnaveiki, hosta, blóðsótt, iðraverkjum, uppþembingi, lystarleysi og orkuleysi. Má nota smáskorið eða í dufti. Líka góð í fjallagrasamjólk.  Gæta verður þá að sjóða grösin ekki of lengi því þá verða þau röm.    

Burkni. 

Rótin hefur styrkjandi kraft.  Stendur móti rotnun og leysir vessa.  Styrkir veikar taugar.  Góður í slæm sár.  Góður við innanmeium. Smásöxuð og ný rót, hnoðuð með smjöri er hægt að nota sem áburð á slæm sár.    

Elfting.

Elfting er ein af fáum jurtum, þar sem líkaminn getur tekið upp kalk.  Hún er því góð fyrir konur áður en beinþynning verður.       

Birki.  Blómstrar í júni.     

Styrkir og örvar þvag, hreinsar blóð, dregur saman og barkar.  Af       nýprottnum og þurrkuðum blöðum má gera te.  Af berkinum seyði.        Duft af berkinum er gott móti magn- og orkuleysi og matarólyst.        Einnig er hægt að nota vökva úr trénu til að búa til hvítvín.  Á vorin       áður en laufin springa út, gerir maður gat á börk fullvaxta en ungs       trés.  Borað inn í tréð upp á móti og í sárið sett einhverskonar trekkt,       til dæmis tilskorin staf af stórri fjöður eða sogrör.  Undir er svo sett       ílát og rennur þá vökvi út trénu.  Ef maður er hóflegur, gerir það trénu        ekki mein.  Ef þessi vökvi er soðin yfir vægum hita, verður til af        honum síróp.   

         Ber sem vaxa hér.  

Krækiber; kælandi draga saman. Bláber.  Góð í sultur og saft.  

Aðalbláber.

Góð í sultur og sósur og í skyr. Ber, blöð og rót þessarar jurtar varna rotnun, þau eru því góð til að leggja við sár. Blöð tekinn í júní, en berin í september, þegar þau eru fullvaxin.   

Reyniber.

Seyði. Góð við nýrnasteini. Þvagleysandi og styrjandi. 

Jarðarber.

Blóðhreinsandi. Sólber. Góð í sultur og saft. Mikill cvítamíngjafi.  

Rifsber.

Góð í sultur. Cvítamín.  

Hrútaber. 

 Kæla, stöðva rotnun.  

Einiber. 

Örva svita og þvag, heinsa varna rotnun, vindeyðaindi, laga andarteppu, máttleysi, liðverki.  Góð í sánabað við orkuskorti og liðverkjum.  Gott í reykelsi.

    

Kryddjurtir og notkun þeirra.  

Basilikum.

Basilikum er einær kryddjurt sem líkar best í sól.  Er notað í Pitsur, í tómatrétti, spaghetti, með ljósu kjöti og alifuglum. 

Dill.

Dill er einær kryddjurt sem unir sér best í hlýjum og sólríkum stað.  Grönn þráðlaga blöðin notuð með fiski, skeldýrum, lambakjöti, kartöflum, í sósur og til skrauts.  Kryddedik og kryddsmjör.   Dill er oftast sett í lokin á matreiðslu það gefur mesta bragðið.  

Fennika. (sígóð)

Fennika er fjölær kryddjurt.  Líkar best í sól.  Þarf að taka inn á haustin.  Bragðið af fenníku minnir á anís er með lakkríslykt, blöðin eru notuð í súpur og fiskrétti.  Fræðið er gott í te og er oft notað í fiskrétti og svínakjötsrétti.  Stilkurinn og hýðið er notað í hrásalat.   

Gralaukur.

Graslaukur er fjölær kryddjurt sem líkar best í forsælu. Blöðin eru notið í salöt, eggja- og grænmetisrétti, sósur, brauð og fleira.  

Ísópur. 

Ísópur er  fjölær, en þarf að taka inn eða skýla vel.  Blöðin eru notuð í baunarétti súpur, kássur og kæfur.  Er talin mikilvæg lækningajurt.  
  

Koríander.

Koríander er einær mjög viðkvæm kryddjurt.  Líkar best í sól.  Inn á haustin.  Blöðin eru notuð í Karrýrétti, sósur salöt.  Fræin með sterkt bragð notuð í súrsað grænmeti, pylsur, sæta rétti eins og sultur.  Notað í indverska rétti.  Kóríander fræ er notað í indverskum karríblöndum.    

 

Oregano.  Fáfnisgras.

Oregano undir sér best í sól eftir því hvað hún fær mikla sól, því bragðsterkari er hún.  Oregano skal taka inn á haustin.  Hún er í raun fjölær. Er notuð með steiktum fiski, kjötdeigs- og tómatréttum, pissum og tómatréttum 

Salvía.

Salvía er fjölær kryddjurt.  Líka best í sól.  Salvíuna skal taka inn á haustin.  Er með mildu beisku og áberandi bragði.  Salvía er notuð í rétti úr svína- kálfa – og lambakjöti, fars, pylsur og kæfu.  

Skessujurt.

Skessujurt er fjölær og harðger kryddjurt.  Hún minnir á sellerí.  Er notuð í súpur, pottrétti og kássur.  

Sítrónumelissa (hjartarfró)

Síltrónumelissa er fjölær kryddjurt en hún lifir sjaldan veturinn af hér á landi.  Hún er notuð í kalda drykki, sæta og súra rétti eða jurtate.  Blöðin eru notuð fersk  í te og hrásalat.  

Steinselja.

Steinselja er tvíær kryddjurt.  Bæði eru til afbrigði með sléttum og hrokknum blöðum, steinselja er notuð í kryddvönd við suðu á fiski, kjöti og grænmeti. Svo í kryddlegi, í salöt en mest er hún notuð til skrauts.  
 

Timían. (garðablóðberg.)

Timían er fölær kryddjurt sem undir sér best í sól.  Er notuð í kryddlegi, á vel við svína-, nauta-, og kálfakjöt. Timian bragðast vel með hvítlauk, lárviðarlaufi og tómat.  Notuð í pottrétti, súpur og ómissandi í baunasúpu. (Saltkjöt og baunir). 

 Spánarkerfill.

Kerfill.  Þarf að sá til hans síðsumars.  Blöð notuð í matargerð. Vex villtur víða á Vestfjörðum.

         Skessujurt. Kryddjurt góð í kjötsúpur.  Hjartarfró (sítrónumelissa)Notuð gegn þunglyndi og róar hjartslátt og hugarangur. Gott krydd.  Rósmarín.   Salvía. Timjan – blóðberg. Kjarrmynta.  Origanum.  Viðkvæmt krydd einært.Skjaldflétta.SteinseljaMajoram.Basilika.   Grænmeti.Blómkál

Grænkál

Því miður virðast myndirnar ekki koma með, svo ég vona að þið getið samt sem áður notið þessa lesturs.  Ég get sett inn myndir eftir ykkar óskum, ef þið viljið.  Bara að biðja um þær. 

Hvítkál

Hnúðkál

RófurRadísurGulræturHöfuðsaladBlaðsalat Og ýmislegt annað grænmeti. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ekkert undarlegt að ég hafi mætur á þér prakkarastelpunni stóru!

En ekki veitir af sem flestum kærleiks- og kyrrðarstundum nú með ærslum auðvitað í bland auk nammis!

Magnús Geir Guðmundsson, 20.6.2009 kl. 23:51

2 identicon

Sé að þarna er ýmislegt sem ég gæti sparað mér úr apótekinu ef ég kynni með að fara. En þetta minnir mig á að ég ætla alltaf að fara í Garðheima og athuga hvort ég fæ graslauk, mér finnst hann svo góður og gæti haft hann á svölunum. Það er ekki fallegt til frásagnar en oft rændi ég nokkrum stráum af honum  úr garðinum hennar Ástu blessaðrar Fjeldsted, en ég er viss um að það er fyrirgefið. Mér líst vel á nýja sveitasetrið ykkar, auðvelt að taka það með sér og þarf ekki að leigja gröfu til þess.

Dísa (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 23:56

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Hér er einn fyrir Hönnu Sól, sem auðvelt er að muna;  Palli var einn í heiminum....................................................og þegar fólki fer að leiðast að heyra ekki framhakldið og spyr; hvað svo, þá svarar hún;  ...og svo var bankað

En takk fyrir frábæran kvöldskamt

Sigrún Jónsdóttir, 21.6.2009 kl. 00:04

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm Magnús minn ekki má gleyma namminu

Dísa mín það er minnsta málið að hafa graslauk á svölunum, og fleira gott í keri þar sem hægt er að grípa til þess með lítilli fyrirhöfn. 

Hahaha Sigrún ég kenni henni þennan. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.6.2009 kl. 09:05

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Þeir hljóma vel þessir kærleiksdagar, ekki veitir af að senda út kærleik og frið yfir landið og jörðina okkar

Falleg myndin af ykkur við tjaldið Ásthildur með þessi fallegu fjöll í bakgrunni. Frábær brandarinn hjá Hönnu Sól haha

Takk fyrir grasafræðsluna. Ég nota íslenskar jurtir heilmikið í matargerðina. Geri súpur, sósur og auðvitað te fyrir fjölskylduna með jurtum sem ég tel okkur vanta kraft úr, hverju sinni.  Þetta er svo skemmtilegt. Og nú er sko tíminn til að fara út og safna til að þurrka.

Bestu kveðjur 

Ragnhildur Jónsdóttir, 21.6.2009 kl. 11:45

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Alltaf mikið um að vera í kúlunni og í kringum hana.  Það er bara orðið svo langt síðan ég hef séð Brand, er hann ekki góður núna?  Annars verð ég að viðurkenna að ég er hálf slappur í fjallagrösunum, ég er eins og þetta Vinstri Græna lið sem ekki myndi þekkja þau þó ég dytti um þau.  Ég bið að heilsa í kúluna og megið þið hafa það sem allra best.

Jóhann Elíasson, 21.6.2009 kl. 14:43

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 21.6.2009 kl. 14:55

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ragnhildur mín svo sannarlega er þetta gott mál, og ég fann hve þrungið andrúmsloftið var og þarna var heitist við náttúruöflin okkar, fá þau til samvinnu við fólkið sem vill betri jörð og betra Ísland.  þetta skilar sér allt, það er ég viss um.

Við eigum svo margar kraftfullar jurtir og þær eru örugglega miklu kraftmeiri en gerist í heitari löndum.  Kveðja til þín líka.

Brandur hefur það fínt Jóhann minn.  Eina sem ég er ósátt við er þegar hann er að bera smáfugla inn, og ætlast til að fá hrós.  En fær skömm í hattinn.  Hann lifir annars eins og kóngur í ríki sínu. 

Knús Ásdís mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.6.2009 kl. 17:40

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 21.6.2009 kl. 22:35

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.6.2009 kl. 08:59

11 identicon

Gerðist sek um að stela listanum eins og hann lagði sig. Ljónið á þessum bæ hefur ekki komið með fugla in eftir að hengdar voru 3 bjöllur á hann fuglinn löngu floginn á brott þegar Ljónið kemur

Leist vel á margt í listanum, tek bara bókina um ísl jurtir með mér ef ég skydi fara og skoða jurtir. 

Knús í kisukúluna

Kidda (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 10:49

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til þess var nú leikurinn gerður Kidda mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.6.2009 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 2022939

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband