Kosningafundur í Reykjavík Norður. Mín sýn á hann.

Kosningafundur í Reykjavík Norður. Ég hef svona verið að lesa hvað fólk segir eftir fundinn í gær,  og séð að þar er af flestum,  fólkið metið eftir því hve „leiðinlegt“ þar var, eða hrokafullt, eða að hann hafi nú verið ágætur en enginn trúi honum lengur, og þessi var flottust.   Sem sagt af því hvernig það kom fyrir, en ekki hvað það hafði fram að færa.Síðan hvenær hefur einhver bjargað heiminum með snoppufríðleika?  Og er það mælikvarði á gott gengi að hafa hálfan salinn undirlagðan af sínu fólki sem klappaði og blístraði við hvert orð sem hraut af munni?  Ekki það að menntamálaráðherra kemur ágætlega fyrir,  en ég er ansi hrædd um að hana skorti reynsluna sem mikilvæg er til að gegna svo mikilvægu hlutverki.  En það er mín tilfinning. Nei útlit eða málfar skiptir nákvæmlega engu máli í þeirri stöðu sem við erum í gott fólk.  Heldur hreinlega það sem menn voru að segja og leggja til.  Samfylking og Vinstri græn voru spurð sérstaklega um þessi 6000 þúsund störf sem þau væru að byggja upp.  Það fylgdi spurningunni að þau störf sem verið væri að skapa væru ekki til þess fallinn að skapa afleifð störf eða gefa af sér arð, heldur einungis útgjöld.  Það var reyndar fátt um svör.  Og ekki var spurt um tónlistarhúsið sem ákveðið var að leggja  nokkur hundruð milljónir í til að koma í gagnið.  Hús sem skapar ekki tekjur og verður til lengri tíma litið baggi á samfélaginu því eitthvað kostar að reka það næstu árin og lítið mun koma inn á móti í kreppunni.  Þó verð ég að segja stjórninni til hróss að þau hafa unnið meira gott á sínum 70 dögum, eða þeim tíma sem þau hafa setið en fyrri ríkisstjórnir á 18 árum.  Alltaf má samt gera betur.Illugi gerði mest í að rífa niður það sem ríkisstjórnin er að gera, og það var reyndar hjákátlegt að heyra hann tala um að það þyrfti að lækka vexti strax og gera þetta og gera hitt,  hvar hefur hann verið síðastliðið hálfa árið eða svo, eða síðustu ár ef út í það er farið?  Framsóknarmaðurinn átti í erfiðleikum, því hann átti ekki upp á pallborðið hjá klappliðinu.  Sérstaklega var neyðarlegt þegar hann reyndi að segja okkur að Framsóknarflokkurinn væri friðarflokkur sem vildi ekki stríð, með Írak á bakinu er það ansi erfitt.    Hann stóð sig samt ágætlega miðað við málefnin og aðstæður. 

Þráin kom ágætlega út,  nema að það er ekki nóg bara að hlú að heimilum landsins, þó það sé bráðnauðsynlegt.   Það er einfaldlega ekki rétt að með því skapist störf í þjóðfélaginu.  Þar þarf meira til.  Ég vona samt að Borgarahreyfingin komist yfir 5% múrinn og verði alvöru afl.  Það er erfitt að hasla sér völl.  En það er gott fyrir lýðræðið í landinu ef þeim tekst þetta.

Ástþór kom með þá tillögu að setja á stofn markaðsskrifstofu og flytja inn störf, nýta gott fólk sem nú gengur atvinnulaust til þess.  Þessi hugmynd er allra góðra gjalda verð og leitt að heyra að fólk tekur ekki mark á þeim hugmyndum vegna þess að þær koma frá Ástþóri.  Sýnir hve við erum föst í fordómum og þvergirðingshætti, eins og umfjallanir um fundinn sýna mér svart á hvítu. Karl Matthíasson hefur ekki fengið góða einkunn hjá mörgum, leiðinlegur, úti á túni og svo framvegis.  Þó kom hann með vel úthugsaðar og góðar tillögur sem skipta máli.  En fólk hlustaði ekki.  Hvað sagði hann?  Jú hann sagði að það ætti að auka fiskveiðar um hundrað þúsund  tonn.  Það ætti ekki að bæta því ofan á kvóta stórútgerða, heldur færa það í hendur smábáta og krókaveiðibáta um landið.  Sjórinn er fullur af fiski sem ekki má veiða.  Um daginn var höfnin í Vestmannaeyjum iðandi af loðnu, sem ekki mátti hrófla við.  Hér fyrir vestan er sjórinn sjóðandi af síld.  Steinbít hefur verið erfitt að ná í vegna þess að þorskur og Ýsa synda yfir honum, og þau má ekki veiða.  Og það er sama hvaða flokkur annar en Frjálslyndir eiga í hlut, það má ekki hrófla við fiskveiðikerfinu.  Til þess hafa kvótakóngar greitt of mikið í styrki til ákveðinna stjórnmálaflokka.  Ég heyrði í útvarpinu um daginn skipstjóra tala um könnun á brottkasti sem gerð var mig minnir 1991, þá kom í ljós að brottkast var ekki undir fimmtíu þúsund tonnum.   Aflaverðmæti sem hent er beint í sjóinn aftur, vegna þess hvernig kerfið er byggt upp.  Þar fara mikil verðmæti til ónýtis, meðan landið svíður og brennur.  Er eitthvað vit í því?  Ég segi nei.  Það er nefnilega alveg hárrétt hjá Séra Karli að við þurfum að fara að draga fram stígvélin og bretta upp ermarnar og vinna í fiski, það gefur okkur gjaldeyri og er vel til þess fallinn að koma okkur á lappirnar aftur. Hann talaði líka um ferðamennsku, um það eru reyndar allir sammála sem betur fer. Síðan kom hann að því að lækka raforku til Garðyrkjubænda.  Reyndar kom Katrín inn á það líka.  Við getum ræktað allt okkar grænmeti sjálf, og við getum líka flutt út grænmeti.   Við flytum inn grænmeti fyrir fleiri milljarða á ári, sem við gætum svo vel ræktað hér heima, með því að lækka rafmagn til gróðurhúsa yrði það arðbært.  Það kemur okkur líka til góða heitavatnið, við myndum líka fá hollara grænmeti  því hér er minna um eiturefnanotkun í flestum tilfellum.  Ég tók líka eftir því að Sigmundur Davíð hnýtti endalaust í Samfylkinguna, en biðlaði til Vinstri grænna.  Það var ljóst hvað hann var að hugsa.  Stjórnendur stóðu sig að mörgu leyti ágætlega, þó voru þær greinilega hlutdrægar.   Það var til dæmis dónalegt að segja við Karl Matthíasson að það væri óþarfi að fara í fýlu þó menn væru stöðvaðir í málflutningi, þegar forystumenn litlu flokkanna höfðu setið um hálftíma þegjandi meðan hinir fengu að svara óáreittir spurningum úr sal.  Ég hefði haldið að stærð flokka ætti ekki að segja til um lengd andsvara, heldur ætti hver og einn að hafa nokkurn veginn jafnan tíma til að koma sínum málefnum á framfæri við þjóðina.   Þessir fundir hljóta að þurfa að taka mið af því, en ekki hverja fólkið í salnum vill spyrja, því oft eru það fyrirfram ákveðnir aðiljar sem koma fram og spyrja sína menn til að fá viðbrögð. Það verður alltaf erfitt að koma fram með ný framboð.  Það er ekki bara vegna fáránlega strangra reglna, heldur líka vegna þess hve íslendingar eru fastir í gömlu fari, og vilja helst ekkert út af því breyta.  Ef fólk væri víðsýnna og hugsaði lengra en bara um að krossa alltaf við það sama, þá ættu Frjálslyndir að mælast mikið hærra , og ekki síður Borgarahreyfingin sem er beinlínis stofnuð af fólkinu í landinu sem krafðist breytinga, o g jafnvel  Lýðræðisflokkurinn, þó oft séu þau dálítið úti á túni í umræðunni, þá kemur Ástþór með margar góðar hugmyndir sem vert er að taka mark á.  Reyndar þarf að taka mið af því að það eru um 40% fólks sem ekki gefur upp hvað það ætlar kjósa, og það er allstór þögull hluti. En fyrst og fremst þarf almenningur í þessu landi að hafa kjark og þor til að refsa sínu fólki ef það kemst í stjórnunarstöðu og stendur sig ekki vel.  Það eina sem getur bjargað lýðræðinu í dag er að þjóðin sjálf siðbæti þingmenn sína með því að þora að refsa þeim með því að kjósa einhverja aðra tímabundið, til að láta þá finna á eigin skinni að þeir hafa ekki staðið sig.  Það versta sem við gerum er, að láta menn komast upp með hvað sem er, lygi, spillingu, undirferli eða fals.  Það er  mannskemmandi að þurfa aldrei að standa skil orða sinna og gjörða.  Og það er í okkar valdi að halda þeim á mottunni.   Það getum við séð á því hvernig stjórnmálum er komið í dag.  Fólk ráðvillt og veit ekki hverjum treysta skal, og endar svo bara með að setja exið á sama gamla staðinn og ekkert breytist.  Eins og ég hef sagt oft og mörgum sinnum;  Lýðræði kostar.  Það kostar það að við höfum kjark til að láta til okkar taka og umbuna og refsa.  Að við nennum að kynna okkur hvað menn hafa fram að færa og hvað þeir hafa lagt til.   Verkin sýna merkin.  Ekki fagurgali né þöggun. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ásthildur.

Ég les alltaf bloggið þitt og hef reglulega gaman af.

Ég er á því að hvergi á blogginu sé jafn góð greining á þættinum í gær og hér. 

Áhugaverður pistill hjá þér og ég er svo hjartanlega sammála þér.

Vona bara að sem flestir lesi þetta!

Addý (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 12:01

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þakka þér fyrir þessi hlýlegu orð Addý, þau gleðja mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2009 kl. 12:44

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég gat ekki horft á þáttinn í gær, var í vinnunni og fólkið mitt verður bara þreytt og pirrað þegar þessar útsendingar byrja....veit ekki hvað veldur.

Er að fara á næturvakt í nótt, svo ég hyggst leggjast í sófann yfir endursýningunni í dag....óbrigðult ráð til að ná sér í lúr

Sigrún Jónsdóttir, 15.4.2009 kl. 13:47

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er að mörgu leyti sammála. 

Varðandi Ástþór þá hefur hann ágætar hugmyndir, sumar mjög góðar, en hann fer fram með þeim hætti að ég myndi ekki treysta honum fyrir fimm aur.

Katrín er ung, en það er engin ávísun á getuleysi.  Reynsla er stórlega ofmetin oft á tíðum (sjáðu reynslubolta íhaldsins) og ungar manneskjur í bland við eldri og reyndari geta verið frábær blanda.

Mér fannst prelli krútt og ekkert vitlaust það sem frá honum kom.

Helgi Hjörvar, Sigmundur Davíð og Illugi voru alltof málglaðir.  Búnir að koma sér upp atvinnupólitískum jargong, sem felst í því að sleppa ekki orðinu ef þú færð það.

Knús.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2009 kl. 13:56

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skil ekkert í þeim pirringi Sigrún mín hehehehe....

Ég er sammála því Jenný  mín að ég treysti ekki Ástþóri, en það má alveg skoða það sem hann er að segja fyrir því.

Katrín er ung og flott kona, það sem ég meina er að það þarf bein í nefi og þroska til að standast allskonar áreiti.  Eins og ég tel að hafi verið rauninn með tónlistahúsið.  Held að hún hafi látið plata sig þar.  Það er líka rétt að ekki er vænlegra að hafa afdankaða gamla karla til halds og traust, ekki einu sinni unga afdankaða karla.

Sammála þér með Helga, Sigmun og Illluga, þeir kunna allan pakkan utanað. 

Knús á móti.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2009 kl. 18:38

6 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég er sammála þér um allt nema Katrínu. Hún hefur bein í nefinu til að standa fyrir sínu.

Helga Magnúsdóttir, 15.4.2009 kl. 19:33

7 identicon

Sæl Vestfjarðadís. Góð grein hjá þér eins og alltaf.Að vísu var höfnin hér í Eyjum full af síld en auðvitað þurftu pappírspésarnir á Hafró að koma í veg fyrir að einhver nyti góðs af deyjandi síldinni.Hún átti að deyja og úldna á möppudýra hátt.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 19:45

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já sorrý það var auðvitað síld en ekki loðna takk fyrir að leiðrétta mig Ragna mín.  Takk fyrir innlitið.

Vonandi Helga mín, við skulum vona það.  Hún kemur allavega vel fyrir.  En það setti dálítið strik í minn reikning að hún skyldi fara þá leið að fjármagna tónlistarhúsið, meðan Róm brennur.  Það sýnir mér ekki rétta forgangsröðun.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.4.2009 kl. 20:03

9 identicon

Alveg sammála þér að flestu ef ekki öllu. Það er gallinn við Ástþór að þó svo að hann væri sá eini sem hefði lausnirnar þá myndi ekkert okkar taka mark á honum vegna þess að hann er hann. Hann hagar sér eins og trúður og það er hlustað á hann eins og um trúð væri um að ræða.

Vona að snjóinn fari að taka upp hjá ykkur sérstaklega þennan mikla sem kom um páskana vorið þarf að fara að komast vestur til þín mín kæra.

Knús í gleðikúluna

Kidda (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 20:22

10 Smámynd: Hlédís

Góður pistill, Ásthildur!

Sammála því að Kastljós-kellan var fullfrek og að Karl hefði mátt fá að ljúka, td sögunni af líkkistusmíðinni sem er merkileg. - Fiskveiðiábendingar hans voru kveðnar niður, eins og tilraun Þráins til að benda á að margt í atvinnulífi landsins dafnar ekki meðan heimilunum er haldið "á hausnum". Ástþór er með 40% fyrirtaksábendingar , en hin 60 prósentin ?  Hugmyndir SF um að bjarga 200-300 verst stöddu heimilum landsins per ár - en að aðrir "geti" alveg borgað uppskrúfuð okurlánin eru furðulegar, grimmar og heimskulegar, en runnu lipurlega úr velsmurðum talfærum HHJ.  Illugi hljómaði eins og upptaka af stjórnarandstöðunni sl. mörg ár - alsendis óskiljanlegur sem fulltrúi Flokksins Eina.  Ja hérna!   

Þetta er bara orðin óralöng romsa inn á gafli hjá þér!

Kveðjur vestur!

Hlédís, 15.4.2009 kl. 21:40

11 Smámynd: Steingrímur Helgason

Merkilegt, ég var hrifnaztur af Ástþóri enda næ ég alveg að gera greinarmun á orðunum & perzónunni, en minnst hrifinn af séranum eiginlega.  Fannzt hann vaðalzrúmur & ózmekklegur í líkindatali um líkleg lík.

Enda fer mitt X-Frjálzlyndi þverrandi flokkzlega séð með hverjum virkum degi & hálfu meir um helgar.

Steingrímur Helgason, 16.4.2009 kl. 00:16

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Leitt að heyra það Steingrímur minn.  Svo sannarlega.  Ástþór tók sig vel út á fundinum, en sturtaði því svo niður um klósettir daginn eftir í viðtali á RUV, þegar hann helti úr sér blótsyrðum og svívirðingum yfir allt og alla.  En svoleiðis er nú það.  Knús á þig minn kæri.

FLott romsa hjá þér Hlédís mín

Snjóinn tekur hratt upp Kidda mín.  Götur orðnar auðar og hitt fer smám saman, því nú er bara vor í lofti og hlýjindi.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.4.2009 kl. 08:52

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mér líður nú bara eins og í völundarhúsi varðandi þessa pólitík!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 16.4.2009 kl. 09:34

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið skil ég þig vel Jóhanna mín.  Ég held að við stöndum á þröskuldi og vonandi vinnur lýðræðið og þjóðin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.4.2009 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband