Erum við ennþá í moldarkofunum? Höfum við ekkert lært eða þroskast?

Það er eitt sem hefur spillt fyrir mér gleði nýgenginnar hátíðar, sett svartan blett á allt.  En það er ofbeldi Ísraels gagnvart Palestínu.  Mér ofbýður gjörsamlega hvernig þetta getur átt sér stað, og að þjóðir heims geti hreinlega setið og gert lítið eða ekki neitt. 

Þegar einelti á sér stað, þýðir ekkert fyrir kennarann á skólalóðinni að segja bara skamm skamm.  Það þarf að taka í hnakkadrambið á hrekkjalómnum og setja af stað vinnuferli til að stemma stigu við ofbeldinu.

Að þjóðir heims geti bara setið og horft upp á þessa villimenn murrka lífið úr saklausu fólki er mér algjörlega óskiljanlegt.  Yfirklór eins og fordæming (skamm skamm) skiptir nákvæmlega engu máli fyrir þessa ofbeldisfullu þjóð Ísrael.  Ég veit svo sem að alþjóðasamfélagið er ennþá að skammast sín vegna meðferðar sem gyðingar fengu hjá Hitler og nasistum.  En eru ísraelskir ráðamenn ekki nákvæmlega sömu gerendur nú, eins og þeir voru fórnarlömb áður?

Ef maður tekur þetta lengra, hvað ætlar svo samfélagið gera þegar ísraelar hafa murrkað lífið úr palestínsku þjóðinni?  Brotið sjálfstæði þeirra á bak aftur og skilja eftir rústir einar?

Ætla þeir þá að burðast með sektarkennd yfir Palestínskri þjóð næstu öldina?  Og hvar staðsetur það morðingjana í náinni framtíð?  Þeir munu fyrirlitnir og smáðir af öllu hugsandi fólki.  Samúðin sem þeir hafa alltaf treyst á, er ekki til, nema hjá því fólki sem sér ekkert fram yfir biblíuna og að þeir séu Guðs útvalda þjóð.  Svo satt sem það nú trúlega er, eða hitt þá heldur.  Ég er viss um að Jesús Kristur hefði skipt um ríkisfang, hefði hann getað og allir spámennirnir með. 

Það þýðir heldur ekkert að hóta að taka friðarverðlaunin af Peres, þó það sé auðvitað alveg sjálfsagt mál.  Þessi verðlaun eru hvort sem er honum til háðungar í dag.  Hann hefur fyrirgert rétti sínum til að hafa þau í eign sinni blóðugur upp fyrir axlir af saklausu blóði barna og kvenna.

Sérstaklega svíður mér að hlusta á íslenska ráðamenn eins og Þorgerði Katrínu éta upp eftir bandaríkjamönnum við að réttlæta drápinn.  Skömmin er algjörlega hennar, enda þykir mér einsýnt að daga hennar séu taldir í pólitík, bæði vegna þessa og annarra spillingarmála í hennar fjölskyldu.  

Ég hef lengi haft lítið álit á ráðamönnum í Ísrael, ég veit að margir ísraelar eru friðarsinnar og vilja ekki hafa þetta svona, sumum sem ég þekki til,  líður hreint og beint illa yfir þessu, enda brottrækir og eiga ekki endurkomu til heimalandsins.  En þetta litla álit hefur nú breyst í hreinan viðbjóð.  Ég spái því að mannorð þjóðarinnar verði orðið þannig að þeir geta hvergi komið eða verið í friði.  Fólk muni allstaðar fyrirlíta hvern og einn af þeirra þjóðerni.  Við vitum sjálf hve auðvelt það er að dæma heila þjóð sem glæpamenn, þó við séum örþjóð. 

Ísrael er að leggja grunninn að sjáflseyðingu sinni.  Það sem þeir munu uppskera og reyndar allir sem tala þeirra máli í heiminum verður fyrirlitning og hatur. 

Níðingsverk þeirra munu fylgja þeim í þúsund ár.  Og ég vorkenni þeim ekki.

Annað sem ég vil segja hér er að margir hafa fordæmt foreldra átta ára gamallar stúlku fyrir að leyfa henni að tala á friðsamlegum mótmælum á Austurvelli.  Talið þetta bera vott um slæma foreldra, og þeim er ætlaður allskonar ásetningur með þessu.  Þó höfum við frá fyrstu hendi frásögn af því að þessi litla stúlka bað sjáf um að fá að tala.  Hafði frumkvæði að því við Hörð Torfason að fá að tala.  samdi ræðuna sína sjálf meira að segja. 

Á sama tíma hef ég ekki séð þetta sama fólk fordæma foreldra sem höfðu marghleypu og skot á glámbekk með börn, eða allavega ungling á heimilinu.  Maðurinn þar að auki sérsveitarmaður og lögregla, sem ætti að vita betur. 

Ég get ekki kallað þetta annað en tvískinnungshátt. 

Og svo er freistandi að spyrja hvar ætlar þetta fólk að draga mörkin.  Má ekki leyfa þroskaheftum að tala á friðsamlegum mótmælum?  Eða á að banna fóki yfir áttrætt að tala, þau geta jú verið orðin elliær.  Fíklar mega heldur örugglega ekki tjá sínar skoðanir þarna eða hommar og lesbíur.  Enda hefur nú aldeilis verið veist að Herði Torfa og hann kallaður allskonar nöfnum.

Þetta er forræðishyggja að mínu mati.  Fólk sem vill ráða hverjir mega tala og hverjir ekki.  Bara það að tæp 50% ætla ennþá að kjósa þessa ríkisstjórn yfir okkur aftur, segir meira en þúsund orð.  Núna þegar ljósara verður með hverjum deginum spillingin, eftirlitsleysið, yfirhylmingin og ráðaleysið í núverandi stjórnvöldum, jafnframt því að hanga eins og hundar á roði á völdum sínum hvað sem tautar og raular. 

Við erum sem sagt ennþá föst í moldarkofunum, eða höfum rétt troðið okkur út fyrir dyrnar, klifrað upp á bæjarburstina og reynum að sjá út að túnfætinum, en sjáum aðeins okkar eigið bæjarhlað.  Er nema von að fólk sem vill berjast, vill réttlátara samfélag og vill leggja á sig að reyna að mótmæla ástandinu sé orðið uppgefið.

Það vantar ekki að fólk sjái misskiptinguna, óréttlætið og ég efast ekki um að allir sem ekki eiga hlutdeild í kjötkötlunum vilji breytingar.  En annað hvort er fólk hrætt við að breyta til, eða kærulaust um lýðræðislegan rétt sinn.  Eða eins og ein kona sagði við mig fyrir nokkrum árum, þegar ég stóð í kosningabaráttu; mér finnst málefnin hjá ykkur afskaplega góð, og mér lýst vel á fólkið sem er í forsvari hjá ykkur en ég hef alltaf kosið sama flokkinn, og ég kann ekki við að fara að breyta til núna.  Er þetta ef til vill hugsunin?  Er þetta ef til vill lýðræðið sem ríkir hér í dag. 

Ég vona ekki.  Ég vona svo sannarlega að við getum fundið flöt á pólitíkinni, sem verður okkur öllum til góðs, sem við getum sameinast um.  Þetta ástand getur ekki varað lengur ef við viljum vera ein þjóð í einu landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hörmungarástand á Gaza en enn og aftur er bara sagt skamm skamm við ísraela.

En að okkar málum. Eini flöturinn sem að ég vona að náist í pólítíkinni er að við fáum að kjósa um fólk og málefni en ekki flokka með öllu sem þeim fylgir.

Knús í kúluna  

Kidda (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 12:37

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Kidda mín ég vildi það svo sannarlega líka.  Í dag er ég komin á þá skoðun svei mér þá.  En hvernig ætli sé hægt að framkvæma það ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 12:46

3 Smámynd:

Engin orð fá lýst þeirri skömm sem ég hef á Ísraelskum ráðamönnum, þeirra her og bandarískum stjórvöldum sem kosta þennan stríðsrekstur - borgaraslátrun öllu heldur. Ég held að Móses hafi ekki verið að meina þennan hrylling þegar hann kaus Ísrael hina útvöldu þjóð. Og mér er stórlega til efs að Guð hafi kosið Ísraela fram yfir önnur börn sín - ef hann er jafn algóður og af er látið. Svoleiðis gera ekki foreldrar. Slátrun Palestínumanna er smánarblettur á alþjóðasamfélaginu og ef einhverjar töggur væru í stjórnmálamönnum heimsins myndu þeir slíta öllu sambandi við Ísraela og aðstoða Palestínumenn við uppbyggingu síns samfélags. En þetta eru allt saman gungur. Stóri bróðir (USA) gæti móðgast. Veit ekki af hverju Bandaríkjamenn eru svona hliðhollir Ísrael, en það er önnur saga.

Þótt ég sé þér yfirleitt sammála varðandi flest þá er ég ekki á sama máli og þú varðandi nöfnu mína Dimmbláa. Ég var mótfallin því að hún yrði ræðumaður á Austurvelli. Þótt allt sé í kaldakoli þá megum við ekki láta umræðuna bitna á börnunum- það er nóg sem á þau verður lagt. Lofum þeim að vera börn í leik á meðan þau eru þess umkomin. Þótt Dagný hafi beðið um orðið, sé skynug og dugleg, þá er hún bara barn og það sem hún sagði efast ég um að hún hafi hugsað upp sjálf. Hún hefur fengið overdose af fréttum og fullorðinstali og tekið úr því útdrátt, síðan fengið umorðun hjá sínum foreldrum og voila - barn í ræðustól. Ekki hefur hún sjálf haft uppi á Herði Torfasyni til að setja sig á mælendaskrá - eða hvað heldur þú. Ég er á því að ræðumenn í þessari umræðu og öðrum er varða þjóðarheill skuli vera með kosningarétt, þ.e.eldri en 18 ára.

, 6.1.2009 kl. 13:11

4 Smámynd:

Úbbs - fyrirgefðu - bara farin að blogga á þinni síðu

, 6.1.2009 kl. 13:12

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Dagný mín takk fyrir svarið og auðvitað máttu setja inn skoðanir þínar hér og eru vel þegnar mín kæra. 

En hér geturðu lesið um ræðuna hennar Dagnýjar Dimmbláar;

Ég trúi því sem fólki næst henni segir.

smá YFIRL DAGNÝAR DIMMBLÁ (fyrir hennar hönd)

 Til að reyna að koma í veg fyrir alla tortryggni gagnvart Ræðu Dagnýar Dimmblá :-)

þá er rétt að komi fram að þetta er vægast sagt sjálfstætt barn með eindæmum, og á síðasta Laugardag stóðum við þarna "og Dagný með sitt kröfuspjald (og pabbi hennar allur að reyna að vernda hana fyrir ljómyndurum),

 En eftir að mótmælum var lokið sagði sú litla "ég vill halda ræðu, ég vill tala við Hörð" svo var labbað til Harðar og hann gersamlega "missti" andlitið þegar hún hóf sinn málfluttning, og sagði viltu bara ekki koma hérna næsta Lau og halda ræðu .......... þá sagði sú stutta "Já, TIL HVERS HELDURÐU AÐ ÉG SÉ HÉRNA NÚNA"........................... ´PUUUUUUUUUUUUFFFFF sagði bara pabbi hennar, og svo tók við viku langt "sálastríð" um hvort "réttlætanlegt að lofa henni að tala þarna, en að lokin var sú "ákvörðun tekinn að far sem markmið laugardagsmótmælana er að allir "fulltrúar" almenning ættu að koma fram var ákveðið að lofa henni að halda Ræðu !!!!!!!!!!!!!!!

 En það er skírt að þarna fer mjög ákveðin ung dama á ferð, og mikilvægt er að það komi fram að  

Dagný Dimmblá sá allveg sjálf um að "semja" ræðuna (pabbi hennar hreinskrifaði) og þarna eru HENNAR skoðanir á ferð, hún leyfir sko engum að "ritskoða" sig.

og er þarna bara um að ræða "HEIÐARLEGT,EINLÆGT OG afskaplega "FRJÓTT BARN"

og ég hvet fólk til að "hugsa" sig vel um áður en "reynt verður að setja þetta framtak hennar TORTTRYGGILEGT á nokkurn hátt.

ÞÚ stóðst þig EINS OG HETJA DAGNÝ MÍN InLove

birt með leyfi föður hennar

er að bíða eftir komast yfir ræðu hennar þá verður hún sett hér inn

kveðja

Grétar Eiríksson (hálf pabbi Dagnýar)

er að reyna að komast yfir ræðu hennar og þá verður hún sett hér inn :-)

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 13:27

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég held við eigum því miður langt í land með að ná raunverulegu lýðræði hér á landi....þangað til verður það flokksræðið, því miður.

Sigrún Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 13:57

7 Smámynd: Linda litla

Gleðilegt ár Ásthildur mín.

Linda litla, 6.1.2009 kl. 13:58

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Hvað Ísreal varðar tek ég undir orð Bens Gurion forðum. Hann sagði að þarna yrði aldrei friður, eina lausnin væri að sprengja upp allt svæðið eins og það legði sig. Það verður aldrei friður þarna.

En Íslendingar eru svo miklir sauðir. Sumt fólk segist bara alls ekki vera pólitískt og þess vegna kjósi það bara Sjálfstæðisflokkinn. (Sic!)

Helga Magnúsdóttir, 6.1.2009 kl. 14:19

9 Smámynd: Herdís Alberta Jónsdóttir

Gleðilegt ár Ásthildur! Takk fyrir þetta skelegga blogg ég er að mestu sammála þér, alveg hjartanlega um Gasa en ég þurfti nú að sjá innleggið um aðdraganda ræðu stelpunnar til að skilja af hverju barn var að halda ræðu þarna. Ég er sammála Dagný Zoega um að börn verði að fá að vera börn en skil samt vel að þessir foreldrar hafi ekki getað annað en stutt sína dömu. Enn og aftur erum við komin að því að það að virða einstaklingin er aðal málið, þó foreldrar þurfi oft að hafa vit fyrir sínum börnum þá má ekki múlbinda þau.

Herdís Alberta Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 15:47

10 Smámynd: Rannveig H

Vildi benda ykkur á að það er búið að stofna Undirbúningshóp að nýrri stjórnarskrá á Fjésbok. Ég get tekið undir allan þennan frábæra pistil mín kæra. Það sem fer ekki úr huga mér allan sólahringinn núna eru hörmungarnar á Casa og ég skil ekki af hverju við sem þjóð fordæmum ekki þessi morð sem er verið að fremja þarna.

Rannveig H, 6.1.2009 kl. 16:23

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir frábæran pitil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.1.2009 kl. 16:43

12 Smámynd:

Takk fyrir ábendinguna Ásthildur mín, fróðlegt að lesa um þessa litlu tátu. En ég er enn sama sinnis - enda þrjósk eins og rolla  - fullorðna fólkið á að hlífa börnunum við þessari umræðu.

, 6.1.2009 kl. 16:47

13 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

til þín

Kristín Katla Árnadóttir, 6.1.2009 kl. 20:10

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús til þín líka Katla mín

Dagný mín hver hefur rétt á sinni skoðun og hana nú!!

Takk Jenný mín

Ég þarf endilega að fara að sinna þessari fésbók Rannveig mín.  Þarf að gefa mér tíma til þess

Einmitt Dísa mín, málið er sennilega hvenær erum við að múlbinda þau og hvenær að hafa vit fyrir þeim.  Þar liggur sennilega þessi þröskuldur milli fólks ekki satt?

Helga enda er sjálfstæðisfólk fólk sem er ekki pólitískt heldur fólk sem vill bara vinna til fimm og fara svo heim og grilla ekki satt! (Hannes Hólmsteinn)

Gleðilegt ár til þín líka Linda mín

Nema við getum komið því einhvernveginn í kring að fólk fari að kjósa með hjartanu Sigrún mín og líka með skynseminni.

Knús til þín líka líka Helga mín Valdimars

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2009 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2022150

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband