Mín prívat og persónulega hugleiðing.

Ég er örugglega skrýtin skrúfa.  Og hugsa ef til vill öðruvísi en flestir.  Það verður þá bara að hafa það.

Ég hef verið hugsandi yfir flokknum mínum nú í nokkurn tíma.  Þegar ég gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn, sem þá var bara örflokkur, eins og hann er reyndar enn í dag, þá voru það hugsjónirnar og eldmóður forystumannanna, sem ég heillaðist af, og síðan málefnasamningurinn, sem ég átti reyndar þátt í að semja með félögum mínum.  Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar, með góðu fólki, sem var fyrst og fremst af hugsjón í baráttu gegn óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi, og að benda á yfirgang ráðamanna, gagnvart þjóðinni, ráðstjórn kallaði Sverrir Hermannsson stjórnina, þegar hann ræddi um hana.  Það sem rætt var um allt frá því að flokkurinn var stofnaður, hefur komið fram, hrakspárnar, um froðuféð, svo ég vitni aftur í gömlu kempuna. 

Málefnin eru góð, og ég fullyrði að hvergi eru þau betri en hjá okkur.  Það hefur bara aldrei komist á framfæri, vegna þess að fjölmiðlar, hafa þaggað talsmenn flokksins og forystu í hel, eins og þeir hafa getað, nema þegar eitthvað hefur komið flokknum illa, þá hefur verið blásið upp, allt sem miður fer, og gert grín að, og menn settir í versta ljós sem hægt er. 

Þetta hefur gengið svona alltaf.  En meðan við vorum, þessi við, sem stofnuðum flokkinn, og vorum samtaka og sammála um helstu hluti, þá gerði þetta ekki mikið til, því við gátum varist og staðið bak í bak. 

 

 

Mér finnst skrýtið að flokkurinn mælist ekki með meira fylgi í skoðanakönnunum, en þrjúprósent, miðað við málefnin, og miðað við að flokkurinn hefur hvergi komið að spillingunni. 

Ég hallast að því, að það sé mest vegna illinda, úrtölumanna, og óheilinda. 

 

Ég ásamt þremur öðrum úr flokknum, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu og fleiri blöðum, sem við kölluðum; Aðför að grunngildum Frjálslyndaflokksins. 

 

Ég hef legið undir feldi nú um tíma, og satt að segja ekki almennilega vitað, hvað ég ætti að gera, eða hvernig ég ætti að snúa mér. 

 

Málið er að ég þekki marga í  forystunni mjög vel, Guðjón Arnar er fermingarbróðir minn, og hann er gegnheill, þó sumum finnist hann ekki “koma nógu vel fyrir”,  eða ekki “nógu afgerandi persónuleiki”, Þá fer þar traustur maður.   Magnús Reynir framkvæmdastjóri flokksins er líka fermingarbróðir minn, og ágætis drengur, hann vinnur af hugsjón.  Kristni H. Gunnarssyni hef ég kynnst eftir að hann byrjaði að starfa með flokknum, afskaplega fylgin sér, og stendur við orð sín. 

Þessir menn sem ég tilnefni hér sérstaklega,  hafa mikið legið undir ámæli frá sumum í flokknum, bæði opinberlega og í bréfaskriftum.  Menn vilja skipta um formann, skipta út Kristni H. og fá annan framkvæmdastjóra. 

 

Og ég hef komist að niðurstöðu.  Ég ætla mér að fylgja mínum mönnum, ef skipið fer niður, þá fer ég með því.  Ég vil bara fá gamla góða kjarnann til baka.  Fyrir mér skiptir ekki máli hvort flokkurinn stækkar meira, eða við fáum fleiri til liðs við okkur, ef það þýðir að málefni flokksins verða að víkja, fyrir nýjum áherslum, þá verð ég ekki með. 

Það getur vel verið að þessi ákvörðun mín sé alröng, og vitlaus.   En þá verður bara að hafa það.  Frjálslyndiflokkurinn er fyrst og fremst dreyfbýlisflokkur.  Hann er flokkur sjómanna, bænda, aldraðra og öryrkja. Hann er flokkur mannúðar, og sjálfstæði einstaklingsins.  Frelsi til orða og athafna.    Það gæti farið svo að flokkurinn yrði bara pínulítill örflokkur vestfirðinga.  Þá verður bara að hafa það.  En sú rödd sem varð til þess að flokkurinn var stofnaður, má ekki þagna. 

Sú rödd þarf að hljóma á alþingi Íslendinga, í nýju Íslandi.  Sem ég vona að verði.  Það er bara þannig, að þó fólk vilji breytingar, ný sjónarmið og nýjar áherslur, þá gengur erfiðlega að koma þeim til skila.  Þrautarganga Frjálslynda flokksins er dæmi um það.  Allt það góða sem lagt var upp með, fær ekki að heyrast.  Flokkurinn hefur verið kallaður allskona ónöfnum, og stundum bara út af einni fyrirsögn í blaði, en líka út af afstöðu fólks, sem ekki ber samhljóm kjarnans í fyrirrúmi.

Ég vil óska Röddum fólksins alls hins besta, og svo Nýjum tímum, í öllu sem þau ætla að gera.  Það er bara svolítil viðvörun frá gamalli norn.  Gætið ykkar á tækifærissinnunum, sem alltaf koma með fagurgala og sjá tækifæri í að koma sjálfum sér á framfæri.  Fylgist allavega vel með því hverja þið veljið til þess að standa í forsvari.  Það virðist nefnilega vera svo, að þarna úti sé fullt af fólki, sem þráir að “komast að” bara til að komast að.  Verið því varkár hverja þið veljið ykkur til að fara áfram með málin. Það er svo auðvelt, sérstaklega á svona tímum, að missa sig, í að treysta fólki, sem er ekkert annað en framlenging af spillingaröflunum, úlfar í sauðagæru, sem tala fagurlega, en hugsa flátt. 

 

Ég tek það fram, að ég er hér að tala fyrir mig sjálfa og engann annan.  Ég veit ekkert hvað verður um flokkinn minn,hvort honum tekst að komast út úr erfiðleikunum, og láta að sér kveða, eða hvort hann kvarnast niður í frumeindir.

 

Málið er nefnilega að um leið og við köllum á réttlæti, og að rödd almennings heyrist, þá hlustum við ekki á fólkið sem reynir að tala fyrir fólkið.  Menn kynna sér ekki, hvað viðkomandi hefur fram að færa, hvaða mál eru borin fram á alþingi.

Verður eitthvað meira hlustað á það fólk sem nú vill koma fram fyrir hönd fólksins, eða verður fjölmiðlum beitt, eins og nú til að þagga þær raddir niður, gera þær tortryggilegar. 

 

Ég sé ekki betur en öllu sé tjaldað til nú þegar,  Þorgerður Katrín og Geir Haarde koma í stjörnuviðtölum á Rúv  í hverjum þættinum af öðrum, meira að segja í popplandi.  Svo það fari nú ekki á milli mála, hversu klár þau eru og frábær, og vel meinandi og flott.

 

Það er í raun og veru hlægilegt að það skuli vera til fólk sem heldur að Rúv sé hlutlaus stofnun, eins og henni hefur verið beitt í þágu ríkjandi stjórnmálaafla. 

 

Ég man svo langt aftur, að sjálfstæðismenn voru arfavitlausir yfir því að kommúnistar væru að hreiðra um sig í öllum stöðum í ríkisútvarpinu, það var á tímum Jóns Múla og fleiri.  Þá strax gerðu þeir sér grein fyrir hvernig hægt væti að nota þennan miðil til að hafa áhrif.  Er einhver svo bláeygður að hann haldi að þeir hafi ekki sjálfir notað þau meðul, sem þeir voru vissir um að aðrir beittu?

Það er talað um að pólitík sé rotinn, og allir séu rotnir inn að beini sem stunda hana.  En það skyldi þó aldrei vera að okkur sjálfum væri um að kenna.  Að við  viljum ekki að nýjar raddir óma.  Viljum ekki fá ferska vinda inn, heldur bara sömu gömlu flokkana; við vitum þó hvað við höfum, segir fólk.  Þó þeir séu ömurlegir, þá tekur örugglega ekkert betra við!

Hverslags eiginlega afstaða er þetta?. Það er von að siðferðið sé ekki betra hjá okkur en er í dag. 

 

Eitt er alveg víst, að meðan við sjálf breytum ekki hugarfarinu, þá breytist heldur ekkert það sem í kring um okkur er.

Við þurfum að hafa kjark til að breyta, hugsa öðruvísi, og gefa nýjum hugmyndum gaum.  Þora að taka afstöðu til málefna, eins og þau blasa við okkur, en ekki út frá einhverjum óskilgreindum tilvísunum sem við höfum fengið, eða kröfum frá fólki sem vill halda völdum, sem auðvitað reyna allt til að fá að vera lengur í hlýjunni.

 

Nei ég hef sagt það áður og segi það enn, við pöpullinn getum ráðið. Valdið er okkar, ef við viljum nota það.  Það verður ekki með því að bara kjósa alltaf það sama aftur og aftur, af því að “ekkert betra býðst” Eða af því að “Ég” gæti huganlega grætt á því, eða bara “af því bara”

Lýðræðið er brothætt, og til að það virki, þarf að taka þátt í því, einmitt eins og fólk er að gera núna. 

Það verður hver og einn að velja sína leið.  Í augnablikinu hef ég valið mína leið, og á meðan ég veit að þar eru hugsjónir hafðar í fyrirrúmi mun ég fylgja þeim, en um leið og ég sé, að eitthvað annað er í gangi, þá er ég farin eitthvert annað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ásthildur mín.

Mér finnst þessi pistill þinn framúrskarandi vel framsettur ,þú talar um hin mannlegu gildi og alla flóruna í heimi stjórnmálanna, Jú, það eru þau sem skifta okkur svo verulega máli að við eigum að vera með og taka afstöðu.

Mér finnst allir þessir þrír sem þú telur upp góðra GILDA verðir þó þeir séu Vestfirðingar,það bara vill svo til í þessu tilviki.

Málefnalega er þetta mjög góður pistill hjá þér og mættu sem flestir lesa hann.

Og svo hittist á,  að  í dag er ég að fjalla um ósanngjarnan fréttaflutning einmitt eins og þú kemur inn á.

Kær kveðja til allra.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 04:51

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er góð og ýtarleg nafnaskoðun hjá þér, stjórnmálamenn margir mættu taka sér hana til fyrirmyndar.  Frjálslyndi flokkurinn hefur einhvern vegin aldrei náð flugi finnst mér, ágætis fólk á ferð, en ýmislegt innan flokks virðist hafa komið í veg fyrir að fólki finnist spennandi að kjósa hann, svo er þetta að mínu mati, einstaklingar sem gætu jafn vel verið úr öðrum flokkum, eru líkir B S og SF, en hafa einhverra hluta hrakist úr þeim flokkum, einskonar klofningsframboð vegna óánægju, nú er ég bara að lýsa hvernig þetta kemur mér fyrir sjónir og vil alls ekki særa þig né aðra.  Kær kveðja vestur 

Ásdís Sigurðardóttir, 7.12.2008 kl. 05:19

3 Smámynd: Laufey B Waage

Góð grein mín kæra. Það er víst ábyggilega eitt og annað, sem við - fólkið í landinu - viljum breyta - og eins og þú segir réttilega; "Það verður ekki með því að bara kjósa alltaf það sama aftur og aftur".

Laufey B Waage, 7.12.2008 kl. 10:00

4 Smámynd:

Íhugunarverð grein hjá þér Ásthildur. Það er alltaf að renna betur og betur upp fyrir mér hvað fjölmiðlar stjórna í raun skoðunum fólks. Manni finnst bara notalegt að setjast með blaðið og drekka morgunkaffið en um leið gefur maður því færi á að læða inn hjá manni hugmyndum og hugsunum um menn og málefni sem eru bara matreidd ofan í mann eins og ritstjóranum þóknast. Og ég fyrir mitt leiti er allt of ógagnrýnin á það sem er sagt. Kannski þess vegna sem það tekur mig svona langan tíma að mynda mér skoðun. Þekki ekki persónulega til neinna þeirra sem þú nefnir en mér finnst hann Guðjón Arnar nú ekki koma verr fyrir sem stjórnmálamaður en Geir Haarde og er málefnalegri ef eitthvað er. Og hugsjónin er góð. Auðlindirnar tilheyra okkur öllum og það þarf að hlúa að hinum dreifðu byggðum.

Eigðu góðan dag mín kæra

, 7.12.2008 kl. 10:18

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.  Mér er eiginlega dálítið niðri fyrir með þetta.  Ég veit og þekki til í Frjálslynda flokknum, og mér verður alltaf sárara og sárara að sjá hvernig talað er um hann og okkur.  Kristinn H. Gunnarsson sagði einmitt í gær svo ég heyrði að það sem skipti máli í svona flokksstarfi væri að það ríkti traust milli manna, og að fólk hefði ánægju af því sem það væri að gera, öðruvísi gengju málin ekki upp.  Og ég er sammála því.  Undanfarið hef ég ekki haft ánægju af veru minni í flokknum.  Ég vona svo sannarlega að það breytist.  Þess vegna vil ég gera hreint fyrir mínum dyrum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.12.2008 kl. 10:20

6 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góðar hugleiðingar Ásthildur Cesil. 

Ég var sjálf í þeim sporum, sem þú nefnir að vinna hugðarefnum mínum framdráttar innan stjórnmálaflokks.  Stundum tókst mér að fylgja þessum málefnum eftir inn í stefnuskrá en sjaldnar ekki.

Það tók mig langan tíma að átta mig á að það voru í raun hinir kjörnu fulltrúar, sem réðu því hvaða málefni fóru í forgang og þeir nýttu sér undantekningarlaust eitthvað sem kom þeim sjálfum á framfæri.

Ég held að í raun séu stefnuskrár allra flokkanna , "fallegar" og "réttlátar" og endurspegli réttlætiskennd þjóðarinnar.  En þegar upp er staðið eru það einstaklingarnir, sem náð hafa kjöri fyrir hönd þessara flokka, sem ráða úrslitum um það hvernig úr er spilað.

Þess vegna vil ég kjósa einstaklinga en ekki flokka.  Þeir einstaklingar, sem þú nefnir væru örugglega í þeim hópi 

Sigrún Jónsdóttir, 7.12.2008 kl. 10:44

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Algjörlega frábær pistill og þér líkur og ég skil alveg hvert þú ert að fara.

Það er engu við þennan að bæta.

Takk.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.12.2008 kl. 11:25

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þetta með að kjósa einstaklinga, væri ég alveg til í.  Málið er að það er vel hægt að koma því við, og ætti ef til vill að skoða það í alvöru núna, þegar allt er í kalda koli. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.12.2008 kl. 11:26

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Jenný mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.12.2008 kl. 12:06

10 identicon

Ef ég ætti að kjósa í dag þá myndi ég skila auðu, einfaldlega vegna þess að í hverjum flokki má eflaust finna fók sem ég gæti treyst en það get ég ekki eins og málin standa í dag. Ég vil fá að kjósa fólk og málefni, þar til ég fæ að gera það mun ég skila auðu í kosningum.

Knús í kúluna

Kidda (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 13:11

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Flokkarnir eru úrsérgengið fyrirbæri og virka eins og tréhestar á tækniöld. Vioð þurfum einstaklinga sem við getum treyst og skipt út ef okkur líka ekki störf þeirra eða traustið hverfur. Eiginhagsmunir flokkanna eru ekkert leyndarmál..hver gæðingurinna föðrum geysist fram á sjónarsviðið og endurtekur sannleikann. Flokkurinn fyrst og fólkið svo. " þAÐ ERU SPENNANDI TÍMAR FRAMUNDAN HJÁ sjálfstæðismönnum" segir Þorgerður Katrín framan í þjóðina.

Næstu hrokagikkirnir sem koma nú fram eru verkalýðsforkólfarnir og vinnumenn þeirra. Ég er sannfærð um að það er ekki minni spilling í gangi í lífeyrissjóðakerfinu en verið hefur í bankakerfinu. Synd og SKÖMM að rúv ætli ekki að senda út frá Borgarafundinum annað kvöld þar sem verkalýðshreyfingin situr fyrir svörum landsmanna.

Ef ekkert breytist núna..munum við fá áframhaldandi spillingu og græðgi við völd..og það versta er að græðgi og valafíkn bara vex. Hún minnkar ekki og þrælajhaldið bara festir sig í sessi.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 7.12.2008 kl. 13:48

12 identicon

Það fór fyrir mér eins og þeim forðum sem " allir vildu Lilju kveðið hafa". Þetta er frábær hugleiðing hjá þér, svo góð og sönn að ég hef engu þar við að bæta, þó vil ég benda þeim á sem halda að flokkar séu til óþurftar þá held ég að það yrði flókið lýðræði með 300þúsund skoðanir og erfitt að  koma á lögum í landinu. Það er því sennilega best enn um sinn að hafa flokkana, en einhvern veginn verðum við (almenningur) að geta komið í veg fyrir að ómögulegir stjórnarhættir geti knésett þjóðina, eins og kanski hefur gerst núna og þótt allir sjái að breytinga er þörf, þá hanga þeir við stjórnvölinn eins og hundar á roði og ekki nokkur leið að slíta það frá þeim þótt jafnvel þeim sjálfum sé ljóst að herfileg mistök voru gerð. 

 kv. úr Borgarfirði  Steini Árna.    P.s. Takk fyrir allar myndirnar okkur til yndisauka

Þorsteinn Árnason (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 14:48

13 identicon

Góð hugleiðing hjá þér Ásthildur Cecil um fjölmiðlana, mjög svo þörf og ótrúlegt hvað ríkisfjölmiðlar komast upp með í krafti Ríkisins.

Annað finnst mér ósmekklegt af þér að skrifa. Kristinn H. er ekki Ísfirðingur sem betur fer. Hans framapot er ekki neinum manni sæmandi. Undrar mig að þú sem ég hef talið skynsama konu farir með þetta lof um hryðjuverkamann.

Hvernig getur það verið góður maður sem veður á milli flokka, er dónalegur við allt og alla og myndi vera það einnig við þig ef þú verðir ekki hans málstað.

Hvað Magnús Reynir varðar veit ég vel að þið fermdust saman, en hvað fólst í þeirri fermingu ?

Magnús Reynir hefur ekki verið maður mikllar vinnu, allir Ísfirðingar þekkja sögu hans og Kristins H.

Hvernig getur það verið að hann sé þá nothæfur hjá fermigabróður ykkar í flokki sem er að tapa öllu fylgi, gæti það verið vegna hans gífurlegu hugsjónavinnu og vinnuframtaks.

Hugsaðu Ásthildur mín, það hefur þú áður gert að mikilli skynsemi og þetta er ekki skynsemi.

Ísfirðingur, brottfluttur (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 15:43

14 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásthildur mín.

Nú verðum við að bíða og sjá hvernig þetta þróast eftir bankahrunið. Mér finnst sumt af þessu fólki sem hefur komið í flokkinn eftir að hann var stofnaður, ekki hafa verið til góðs.

Því miður er þetta alls staðar þannig að fólk er valdagráðugt og það eyðileggur allt og alla. Félagsskapurinn bíður hnekki og verður ekki eins sterkur fyrir vikið.

Vertu Guði falin.

Baráttukveðjur/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 7.12.2008 kl. 16:13

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Rósa mín.

Sæll kæri Brottflutti Ísfirðingur.  Hvað Kristinn varðar, þekki ég hann mest fyrir störf hjá Frjálslynda flokknum.  Ég held að hann hafi flæmst úr flokkum, vegna þess að það var ætlast til að hann breytti stefnumálum sínum, það var allavega klárlega það sem gerðist hjá Framsókn.  Ég hef séð til Kristins á fundum og í kosningabaráttu, og það sem hann segir það stendur svona yfirleitt allavega.  Hann er sjálfsagt stífur og þver.  En sú hugsjón hans að breyta sjávarútvegskerfinu er heil. 

Hvað varðar Magnús Reyni, þá vann ég með honum á bæjarskrifstofunum á Ísafirði í fjölda ára, þar sem hann var staðgengill bæjarstjóra og bæjarritari.  Á svoleiðis stöðum kemur vel í ljós hvern mann, fólk hefur að geyma.  Hann kom leysti úr málefnum starfsfólksins, og vann sín störf vel.  Það getur vel verið að það hafi ekki verið hans aðall að rekast í útgerð, en hann sagði það alla tíð sjálfur, að hann hefði farið út í það dæmi til að reyna að halda uppi atvinnu hér fyrir vestan. 

Það sem ég átti við um að við værum fermingarsystkini, átti að vera til að sýna að ég hef þekkt þessa menn frá því að ég byrjaði í skóla. 

Ég er alltaf að hugsa og hugsa, takk fyrir innlitið, og þína sýn á málin.

Takk fyrir orðin þín Steini minn, alltaf gaman þegar þú droppar við, og bið að knúsa Dísu.  Mín er ánægjan ef þið hafið gleði af myndunum.

ég er sammála þér Katrín með að það er ekki bara synd og skömm að útvarp allra landsmanna skuli ekki sýna borgarafundinn beint, það er skandall.  Alveg eins og þeir þorðu ekki að senda út frá Austurvelli, en hann var þó í beinni útsendingu á rás2 þökk sé þeim.

Ég vona svo sannarlega að sú hreyfing, eða hreyfingar sem eru að vakna til lífsins, fari af stað, og fari eins og eldur yfir akur, og kveiki bæði von og traust landsmanna.  Það er þörf á breytingum, og aldrei meiri en núna.  Ég hef verið að lesa bloggið hennar Láru Hönnu, og ég vil að hún fái Fálkaorðuna fyrir sittframlag, þegar við erum orði frjáls og fullvalda lýðræðisríki. 

Ef ekkert breytist núna..munum við fá áframhaldandi spillingu og græðgi við völd..og það versta er að græðgi og valafíkn bara vex. Hún minnkar ekki og þrælajhaldið bara festir sig í sessi. Geri þessi orð að mínum. 

Kidda mín, það er einmitt inn í umræðunni núna að kjósa menn og málefni en ekki flokka, að hluta til allavega.  Þetta er gert sumstaðar, eins og í Grænlandi held ég örugglega.  Og gefst vel.  Einnig þarf Ísland að verða eitt kjördæmi. 

Takk fyrir málefnaleg svör. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.12.2008 kl. 16:51

16 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Hann pabbi minn var skipstjóri frá Vestfjörðum og ég er viss um að væri hann meðal vor í dag væri hann í Frjálslynda flokknum.

Helga Magnúsdóttir, 7.12.2008 kl. 17:15

17 identicon

Fyrst þú þekkir málin svona vel þá ættir þú að þekkja sögu Mgnúsar Reynis og Kristins í tengslum við Byggðastofnun og Cristinu Lopes. Þú ættir þá líka að vita hverju Guðjón lofaði Sigurjóni og sveik. Þú ættir líka að vita hvað Guðjón hefur sagt um Kristinn. "Annað hvort er Kristinn í flokknum og hagar sér eins og maður eða hann fer" að Það væri kannski best fyrir þig að fjalla sem minnst um innanflokksmál á opinberum vettvangi.

briet (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 21:27

18 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég vil einmitt að hún Ásthildur fjalli sem mest um innanflokkzmál á opinberum vettvangi, enda er það í þeim anda sem að ég & hún viljum flokknum bezt.

Ég læt ekkert bjóða mér aumu atkvæðinu á fundi niður í Sigtúni með 75% af þingflokknum á meðan 25% af þeim sömu eru í beinni útsendíngu á RÚV á sama tíma.  Ég er uppalinn í Valhöllinni, þekki alla þezza barnalegu klæki.

Ég hef á mínu auma bloggeríi kallað þingmenn okkar Frjálslyndra aumínga fyrir að ~fizka ekkert á meðan sjórinn freyðir af fizki~, get alveg gert það aftur hér, & veit að hún Ásthildur fyrirgefur mér það af gæzku sinni.

Enda okkar flokkur & okkar sameiginlegu hugsjónir um málefnin.  Fyrr en skárra býðst, þá kýz ég að kjósa þá stefnu & vonandi Ásthildi til þings, fyrr en vorar.

Steingrímur Helgason, 7.12.2008 kl. 22:08

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Ég hef alltaf borði virðingu fyrir Bergþóru sem sagði: "Ung var ég gefin Njáli"

Kæra Ásthildur, ég ber virðingu fyrir þér, það er dyggð að vera trygglynd.  Þú ert sannur Spartverji og hlekkjar þig við þína menn um borð í skipinu sem stefnt er á sker.  "Ég ætla mér að fylgja mínum mönnum, ef skipið fer niður, þá fer ég með því." segir þú.   Kannski að það sé huggun að geta sagt að þú hafir valið þér göfugt hlutverk að hlekkja þig við hina góðu skipstjórnarmenn en áhöfnin standi að ósekju fyrir "illindum úrtölumanna og óheilinda."

Eitt sinn sagði frægur maður: "Allt hið góða kemur frá oss en hið illa frá hinum"

Ég hef aldrei verið í vafa um Ásthildur, að við deildum sömu hugsjónum og því bauðst ég til að hjálpa eftir megni að ausa bátinn og berja ís.  Það má til sanns vegar færa að ég hef bent á eitt og annað sem betur má fara en það hefur ekki verið gert af óheillyndi af minni hálfu enda hafa fáir ef nokkur unnið jafn mikið sjálfboðaliðastarf fyrir flokkinn og sá er þetta ritar. Þvert á móti hefur það verið gert með það í huga að við tökum höndum saman um að gera betur. 

Nú vil ég gera samning við þig: Ég skal ekki gera lítið úr hetjulegri ákvörðun þinni að  styðja að stýrið sé bundið í strandstefnu og þú hlekkir þig við fermingarbræðurna og bíðir æðrulaus örlaganna.  Á móti ætti mér vænt um að þú sýndir mér umburðalyndi þó ég reyni að ausa skútuna og halda henni á floti.  Markmiðið er jú eitt og hið sama. Eða hvað?

Bestu aðventukveðjur í Kúluna

Sigurður Þórðarson, 8.12.2008 kl. 02:16

20 Smámynd: Agný

mundu bara þessi orð mín kæra Cesil.. Dropinn holar steininn."...

Agný, 8.12.2008 kl. 08:04

21 Smámynd: Rannveig H

Ég ætlað nú alls ekki að tjá mig um málefni FF en get samt ekki á mér setið.

Ég hefði viljað að brottfluttur ísfirðingur hefði komið undir nafni,en ég skil hann samt. Það er svolítið erfitt að vera brottfluttur ísfirðingur í FF. Að vera flokkuð allt að því landráðamanneskja af því að maður vildi vinna flokknum vel í RVK ég er þó allavega kjósandi þar. Að hafa horft upp á þá menn sem þú talar um koma fram við fólk sem gekk til liðs við flokkinn (ungt fólk með hugsjónir og baráttuglatt) þessir menn komu fram að fyllstu ókurteisi og hroka. Þarna er ég alsekki að tala um Guðjón Arnar. Að hafa Sigurjón Þórðarson á hliðarlínunni sem alltaf hefur unnið flokknum vel kemur málefnum flokksins frá sér betur en margur hver eins og hjá Silfri Egils í gær það er dapurt hjá flokki sem þarf að vera í sókn. Ég virði þínar skoðanir Íja mín,sjálf hef ég ákveðið að hætta þessu ásamt mörgum öðrum.

Rannveig H, 8.12.2008 kl. 11:09

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigurjón er ekki á hliðarlínunni að mínu mati Rannveig mín, Sigurjón á að vera á þingi, því miður náði hann ekki kjöri síðast, en það er mín von að hann nái inn næst.  Sigurjón sannaði það, meðan hann var á þingi að hann á þar fullt erindi.  'Eg held að það fari tvennum sögum af því hvernig ungt fólk var hrakið burtu Rannveig mín, mikið vildi ég geta setið með þér í kaffisopa einhversstaðar og spjallað um þetta. 

En það er alveg rétt hjá þér innanhúsmál flokksins verða ekki ráðin á opinberum vettvangi.  Enda var það ekki ætlum mín, ég vildi bara gera hreint fyrir mínum dyrum, og segja hvar ég stend.  Sannleikurinn er alltaf sagna bestur.  Vonandi náum við því að greiða úr ágreiningi.  Það verður tíminn að leiða í ljós.  Eins og ég segi, þetta er afstaða mín núna, uns eitthvað annað kemur í ljós. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:21

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gaman að sjá þig hér Agný mín.  Já það er alveg rétt hjá þér dropinn holar steininn, það er víst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:22

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Siggi minn, auðvitað fer hver sína leið að því að laga það sem aflaga hefur farið.  Ef til vill er ekki hægt að laga þetta, það mun koma í ljós.  Við höfum átt hreinskiptin og góð samskipti undanfarið, sem ég met mikils.  Og við eigum ef til vill eftir að tala betur saman þótt seinna verði.  Ég á allavega inni kaffiboð hjá þér, þegar ég druslast suður.   Ef til vill tekst þér að hamra eitthvað annað inn í hausinn á mér. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:24

25 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Við sjáum nú til Steingrímur minn, við erum allavega skoðanabræður, og höfum sömu sjónarmið.  Það er bara spurning um hvernig við vinnum að því að koma þeim á framfæri. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:26

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Brottfluttur, já ég man eftir Kristínu Logos, og byggðastofnun.  Ég ætla ekki að svara fyrir það, sem þar var gert.  En málið er að ég heyrði Magnús segja, að hann hafi ætlað að reyna að halda vinnu í heimabyggð með þessu.  Auðvitað var þetta feigðarflan, en á þessum tíma minnir mig að allskonar kláfar hafi verið að veiða kvótalausir í einhverri Smugu,  á svipuðum tíma og við vorum með bæjarstjóra frá Akureyri, sem vann að því hörðum höndum að ná frá okkur Guggunni með öllum kvótanum fyrir samherja sína og frændur.  Þetta var upphafið að hruni á þessu svæði.  Það hefði jafnvel tekist að gera skipið út,  ryðkláfurinn hefði ekki bilað, og aldrei komist á flot.  En Magnús missti allt sitt út af þessu ævintýri, og ég man ekki betur en Kristinn hefði farið frá Byggðastofnun fljótlega eftir þetta. 

Ég ætla annars ekkert að kafa ofan í líf félaga minna hér.  Það má örugglega finna eitthvað að allstaðar bara ef leitað er eftir því.  Þó það skipti ekki máli, þá voru þessi menn báðir í Framsóknarflokknum, þegar þetta átti sér stað, er þetta ekki viðtekin venja þar?

Það sem ég átti við, var að fyrir mér eru það málefni flokksins sem eru í fyrsta sæti, og hverjum ég treysti til að standa við þau málefni.  Ég hefði svo sem geta nefnt fleiri þarna til sögunnar, eins og Sigurjón Þórðarson, sem hefur verið ötull við að tala máli sjávarútvegsins.  En ég nefndi þessa þrjá, vegna þess að þeir hafa legið undir allskonar ámæli frá félögum sínum.  Þeir eiga örugglega sína fortíð og axasköft, málið er að ef við sleppum þessum flokki úr flórunni, hver mun þá tala fyrir sjávarútveginum og breytingu á fiskveiðikerfinu?

Ég hef ekki séð til neins annars flokks sem nú er til, sem hefur talað fyrir breytingum á kerfiniu.  Það hafa verið einhverskonar málamyndaumræður.  Eins og þetta kæmi í tíunda sæti eftir öllu hinu.  Það getur verið að loksins núna fari menn að átta sig á því að þetta gengur ekki lengur.  Það er vel.  En meðan ég heyri engar aðrar raddir sem tala svona, þá vil ég verja þá. 

Frjálsa framsalið er eitthvert mesta óréttlæti og aðför að byggðum landsins sem gert hefur verið, og er þá mikið sagt.  Skuldir sjávarútvegsins eru núna yfir 500 milljarðar og fara hækkandi.  Menn selja kvóta og fara með peningana í skattaparadísir.  Það eru núna áhöld um hvort útlendingar eigi í raun og veru veiðiréttinn, vegna skuldsettningar í sjávarútvegi. 

Ég er sammála Sígurjóni þegar hann segir að nú sé rétti tíminn til að yfirtaka kvótann, hann er jú kominn í hendurnar á ríkisbönkunum.  Síðan þarf að fara ofan í saumana á því, hvernig best er að skipta kvótanum réttlátlega til LEIGU, ekki til eignar útgerðarmanna. 

Mér finnst við íslendingar alltaf einblína á aukaatriðin en horfa fram hjá aðalatriðunum, þetta er ein ástæðan fyrir því hvernig er komið fyrir okkur.  Okkur skortir oft heildarmyndina, horfum bara á næstu stoppistöð. 

Í sambandi við að Guðjón Arnar hafi svikið Sigurjón ætla ég alls ekki að tjá mig um hér, en segi bara það eru alltaf tvær hliðar á málum, og ég hef heyrt þær báðar, hefur þú?

En ég ítreka sem ég hef sagt áður, að Sigurjón er einn af okkar góðu félögum.  Hver er sinnar gæfusmiður get ég líka sagt.   Það á við um okkur öll fyrr eða síðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:49

27 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott að heyra það Helga mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:50

28 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel mælt hjá þér Ásthildur. Veistu, ég skil þig vel. Og þó ég til heyri öðrum stjórnmálaflokki þá er ég hjartanlega sammála mannlýsingunum sem þú gefur á þeim félögum þínu Guðjóni Arnari, Magnúsi Reyni og Kristni H. Þetta eru allt mætir menn og mikli Vestfirðingar. Eins og þú sjálf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.12.2008 kl. 11:54

29 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Ólína mín.  Já við erum náttúrulega flottastar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 12:26

30 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég get því miður ekki státað mig af því að vera af vestfirskum ættum en börnin mín eru góðu heilli föðurbetrungar amk að þessu leyti.   

Það var aldrei meiningin að  setja persónulega út á einstakling.  Ætlun mín var að ræða vinnulag og hvað betur mætti fara.  Ástæðan er sú að FF er að' mínu mati flokkur með gott fólk og góð  stefnumið, sem höfða til fólks. Ég tel því að það sé óþarft að slíkur flokkur deyi, síst af öllu þegar Ísland þarf á því að halda að allir leggi sitt besta fram og það er beinlínis skylda okkar að gera það af hreinskilni.  Föllum ekki í þá glötunargryfju að slík umræða verði persónuleg eða einkennist af hrepparíg. Þú ert auðvitað meira en velkomin í kaffi en sjálfur  ætla ég að passa á frekari umræður á netinu í bili. 

Sigurður Þórðarson, 8.12.2008 kl. 16:37

31 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Siggi minn varstu að taka þetta persónulega til þín?  Þá ertu í villu og svíma.  Það sem við ræddum var málefnalegt og þarft.  Það þurfa að vera mörg sjónarmið uppi á borðum, annars lendir maður í einstrengingsþröng. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.12.2008 kl. 16:48

32 identicon

Þú ert meðvik kona Áshildur og sérð trúlega ekki bjálkann í auga þínu.

Það er eins og eitthvað segi mér að þú sért jafnvel upphafsmanneskja af mörgum illindum í FF.

Þjóðin öll veit að Kristinn er með mikla persónuleikabresti, það virðist þú ekki sjá. Hvar var hann Kristinn H. áður en hann var í Framsókn ? Hann tollir hvergi vegna mislyndis og heiftar í garð "flokkssystkina". Hann er alltaf í vitlausum flokki.

Minni þig á Ásthildur að hann er ekki að vestan og hann aflaði engu fylgi fyrir flokkinn, því Sigurjón var þar áður og fékk ekki færri atkvæði.

Trúlega er það bara Addi Kiddi Gau, sem dregur að þarna fyrir vestan.

Sigurjón er ekki að vestan hann er "borgarpakk" sem þú vilt ekki í þinn flokk. Mundu það.

Það er slæmt þegar örflokkur verður svo ör-lítill að hann finnst ekki.

Þinn flokkur Áshildur er ruslaflokkur með einum góðum Ísfirðingi sem getur ekki tekið af skarið. Þess vegna er alltaf miklar öldur.

Brottfluttur, ísfirðingur (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 23:42

33 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Ásthildur,

vel mælt. Þú kemur hreint fram og segir skoðanir þínar umbúðalaust. Kannski ertu skrítin skrúfa vegna þess, það er ekki svo algengt að fólk tali hreint út nú til dags.

Ég er ekki algjörlega sammála þér og það er bara allt í lagi, þannig er það bara.

Ég tek heilshugar undir með þér að ofurvald fjölmiðla hefur komið í veg fyrir að hin ágæta stefnuskrá FF hafi komist til skila. Sú gagnrýni sem beinist gegn forystumönnum FF að brjótast í gegnum þennan þagnarmúr er ef til vill ekki réttmæt en þó til staðar. Í raun finnst mér í dag þetta skipta minna máli. Ég upplifi mikla vantrú almenning á gömlu flokkunum og er FF þar meðtalinn. Margir setja hlutina í ákveðið samhengi. Annað hvort skerum við upp alla spillingu og hreinsum til eða flytjum til annarra landa. Þannig er það bara.

Gunnar Skúli Ármannsson, 9.12.2008 kl. 19:07

34 Smámynd: Jens Guð

  Það færi vel á því að við hefðum fleiri manneskjur,  eins og Ásthildi,  um borð sem geta tjáð sig af hreinskilni,  vinsemd og velvild í allra garð.  Því er þó ekki að heilsa. 

  Ég ætla ekki að nefna nein nöfn.  Þau þvælast fyrir.  Sem markaðsfræðingur skilgreini ég stöðuna þannig:  Skipsstjórnin er ekki að afla.  Látum vera hver ástæðan nákvæmlega er.  Það er þó augljóst að sóknarfæri er gott.  Jafnvel aldrei betra en nú.  Aðstæður eru eins og best er á kosið.  En skipið er strand og ráðaleysi er algjört.  Hver hönd upp á móti annarri.  Einn bendir suður.  Annar í norður.  Nýliðum er illa tekið.  Ungliðahreyfing er barin niður.  Ástandið er "kaos".

  Þeir sem horfa á og koma hvergi nærri fælast og halda sig fjarri.  Í vonleysi um að finna fótfestu forða menn sér frá borði.  Það er engum greiði gerður að stinga höfðinu í sand og vonast til að skipsstjórnin nái áttum.  Einhvernvegin.  Bara einhvernvegin.  Taki með röggsemi á málum og samstilli menn í að ganga í takt. 

  Það gerist ekki að óbreyttu.  Það er fullreynt.  Það er ekkert traust til staðar eftir að loforð hafa verið svikin.  Það er ekkert traust til staðar eftir að allar viðvörunarbjöllur hafa verið hunsaðar.  Það er ekkert traust til staðar eftir að látið hefur verið reka á reiða í algjöru stjórnleysi.  Það er bara upplausn. 

  Þetta er ekki uppgjör á milli bræðralags fermingarsystkina á Ísafirði og félaga utan Vestfjarða.  Nema það sé ásetningur.  Þetta er spurning um að litið sé framhjá flokkadráttum og horft sé af raunsæi á stöðuna.  Við höfum sömu hugsjón og megum ekki láta hana gjalda fyrir óhæfa skipsstjórn.  Með öðrum orðum þá er meðvirkni meinsins aðeins ávísun á sætti við óbreytt ástand.  Skips sem aflar ekki. 

Jens Guð, 10.12.2008 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 2022157

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband