Smásaga með miðdegiskaffinu.

Ég ætla að setja inn eina sögu núna.  En ég mun setja inn myndir í kvöld.  Hef verið að taka til í tölvunni og þá koma þessar sögur upp í hugann.  Ég hef gaman af að setja þær saman, og ef einhver hefur gaman af þeim með mér, þá er það ekki verra.

Reyndar hringdi yndisleg kona í mig í morgun, og spurði hvort hún mætti lesa upp eina söguna mína á jólakvöldi í félaginu sínu.  Hún rakst á hana á blogginu mínu, en ég setti hana inn í fyrra fyrir jólin.   'Eg set hana ef til vill inn aftur núna fyrir þessi jól.  Hún á jafnvel við í dag. 

Ég er dálítið tímabundinn þessa dagana, er að reyna að gera eitthvað af viti fyrir jólin, og svo er vinnan, og stelpurnar.  En þið eruð mér líka ómetanleg, og orðin fastur hluti af tilverunni. Heart

 

En hér kemur sagan.  Hún heitir; ´

Þá gól haninn.

 

Haninn stóð sperrtur á fjóshaugnum og horfði stoltur yfir hænsnahópinn sinn.  Guð hvað ég er flottur, hugsaði hann, og tók nokkur spor og stóð því næst á einum fæti, Hann  var í raun og veru afskaplega flottur hani, litirnir í fjaðrahamnum voru allt frá því að vera kolsvartur og í hvítan og brúnan og græn slikja yfir svarta litnum, ekki bar minna á eldrauðum kambinum, sem skókst og hristist við hverja hreyfingu, og hallaðist út til hægri.  Hann passaði vel upp á hænurnar sínar, eða það fannst honum sjálfum.  Þarna tifuðu þær í kring um hann, hamingjusamar og hugsunarlausar, fundu sér snigil eða ánamaðk og hugsuðu ekki um neitt annað en að fá í gogginn.  Guð hvað hænur geta verið heimskar, hugsaði haninn, þarna vappa þær um og eta.  Það er nú munur eða ég, hér stend ég og fylgist með, og hugsa fyrir þær allar, og passa upp á þær, hvar væru þær staddar án mín.  Svo reigði hann sig og beygði. 

 

Einhver æsingur var kominn í liðið og mikið rétt frú Jóna var að koma með fóður og brauðmola.  Þær hlupu á móti henni og þyrptust í kring um hana gagg gagg, þetta er minn moli, láttu hann vera.  O jæja, blessaðar.  Svona svona greyin mín, sagði Jóna mjúklega, óþarfi að láta eins og þið hafið ekki fengið matarbita lengi.  Leyfið mér nú að komast fram hjá ég þarf að ná í egginn ykkar, og gefa Svörtu Maríu brauð, hún liggur á og kemst því ekki út til ykkar til að rífast yfir molunum.  Gagg gagg agg agg agg.  Þvílíkur kór.  Gaggala gaggala góóó,  hvein í hananum, honum þótti orðið nóg um lætin í undirsátum sínum.  Best að hafa hemil á þeim. 

 

Snati kom í humátt á eftir Jónu, hænurnar forðuðu sér til baka, haninn fyrirleit Snata af öllu sínu stórbrotna hjarta, það var aldrei hægt að stóla á hann, hann gat átt það til ef einhver hænan byrjaði að hlaupa, að æsast upp og elta þær um allt, og þá var nú handagangur í öskjunni, Svo varð Jóna reið, því hænurnar  verptu minna á eftir.  Það var samt mjög erfitt að skamma Snata, hann var svo vitlaus, að hann skildi ekki fyrir hvað var verið að skamma hann.  Hænur voru bara til að elta og gelta að, fannst honum. Já best að taka Snata með fyrirvara.  Haninn gaf honum illt auga, fyrst með því hægra og svo með því vinstra, stóð fast í annann fótinn og yggldi sig.  Hann vissi að langöruggast var að hreyfa sig sem minnst, þá nennti Snati ekki að djöflast í honum.  Hann var líka virðingarverðari með því að standa svona kyrr og látast hvergi hræddur. 

 

Lífið í hænsnahópnum var í föstum skorðum.  Hver dagur öðrum líkur.  Sem betur fer voru þau gleyminn, hver dagur var eins og nýr dagur.  Og allt gleymt sem gerðist í gær.  Þangað til… nei það var ekki hægt að gleyma þeim degi.  Það fór hrollur um hanann.  Sá dagur byrjaði alveg eins og hver annar, frú Jóna hleypti þeim út, og hænurnar byrjuðu strax að leita að ormum og sniglum, það besta sem þær fengu, fyrir utan brauðið hennar Jónu.  Hann hélt yfir þeim tölu og sagði þeim að vera rólegum, hann myndi passa þær, eins og hann væri vanur.  Svo fór hann upp á hauginn og galaði, og sperrti sig.  Hænurnar höfðu loks fengið nægju sína að eta, og höfðu búið sér til bæli, með því að róta í moldinni, undir trjám sem þarna stóðu, og lágu það og létu sólina verma sig.  Allt var svo rólegt og notalega, alveg eins og það átti að vera í hænsnabúinu.  Fólkið á bænum hafði brugðið sér frá.  Svo það var enginn truflun.

 

En allt í einu var eins og hópurinn skynjaði einhverja ógn.  Eitthvað var að læðast í kring, og óþægileg lykt, haninn varð mjög hræddur, hvað var þetta, og hvað átti nú til bragðs að taka.  Þetta var eitthvað sem bar að varast, og hann var alveg viss um að hann myndi ekki ráða við að fæla þetta í burtu.  Hvað átti hann að gera.  Standa upp og gala, og gera hænunum viðvart.  Nei það var ekki þorandi, þá myndi hann vekja óþarfa athygli á sjálfum sér.  Reyna að bjarga hænsnahópnum með því að reka þær í skjól.  En það myndi ekki ganga heldur, því þessir kjánar, myndu bara garga og góla, og allt komast upp.  Nei það eina vitlega fyrir hann að gera var að ósköp hljóðlega læða sér í burtu og bíða þangað til hættan væri liðinn hjá.  Já það var eina vitið.  Hann lagði hausinn niður að jörðinnni, og skreið svo hægt og hljóðlega í burtu.  Hann flaug upp á grein í stóru tré þarna skammt frá, og lét ekki í sér heyra.  Það sat hann og kunni ekki einu sinni að skammast sín. 

 

Allt í einu urðu hænurnar varar við hættuna.  Þær trylltust, og hlupu upp, þá kom dýrið æðandi, þetta var minkur, hann réðist umsvifalaust á Dröfnu greyið og hvernig sem hún hamaðist þá lá hún að lokum í blóði sínu dauð.  Minknum datt ekki í hug að eta hana, hann byrjaði umsvifalaust að elta næstu hænu.  Eftir smátíma lágu þrjár hænur dauðar í blóði sínu.  Hananum ofbauð þessi villimennska, hann sat þarna og bölvaði minknum í sand og ösku.  Hvíslaði hvatningarorðum að dauðhræddum hænunum. 

 

En skyndilega hvað við hátt gelt.  Þarna var Snati kominn og nú elti hann ekki hænurnar, heldur urraði og réðist á minkinn, sá hafði verið upptekinn við að drepa hænurnar, svo hann hafði ekki tekið eftir Snata fyrr en of seint.  Snati réðist umsvitalaust á villidýrið og beit hann ofan í hrygginn.  Minkurinn reyndi að losna og krafsaði með löppunum í allar áttir, en hundurinn hafði betur.  Að lokum lá friðarspillirinn í blóði sínu við hliðina á þeim þrem hænum sem hann hafði náð að drepa.  

 

Drottinn minn hugsaði haninn skyldi mér óhætt að fara niður núna.  Nei hann ætlaði að bíða aðeins lengur.  Snati gekk um og lyktaði að dauðum hænunum og  ýlfraði ámátlega.  Hann reyndi að hreinsa þær með því að sleikja strjúpann.  Hann byrjaði síðan að safna hinum hænunum saman.  Þær voru skelfingu lostnar, og stjarfar, en að lokum tókst honum að koma þeim inn í hænsnakofann.  Þar settist hann niður fyrir framan opið og beið.  Enginn skyldi komast til að gera hænunum hennar Jónu mein.  Haninn sat ennþá upp í trénu, hann vissi eiginlega ekki hvað hann átti til bragðs að taka, ekki komst hann inn til hænsnanna, og svo gat verið að fleiri svona óargadýr væru á sveimi.  Nei best að bíða og sá hverju fram vindur.

 

 Loksin kom fólkið heim.  Jóna fór að huga að hænunum sínum og varð heldur en ekki hverft við, er hún sá hvers kyns var.  En hvað hún var þakklát hinum trygga hundi, honum var klappað í bak og fyrir, haninn fylltist hræðilegri afbrýðisemi, af hverju hafði hann ekki barist við villidýrið sjálfur, og fengið allt hrósið.  Nú sá Jóna að haninn var hvergi sjáanlegur, hvar ætli haninn sé, spurði hún. 

 Hann sat þarna skömmustulegur og lét ekki á sér bæra.  Best að láta ekki sjá sig alveg strax.  En Snati vissi hvar hann var.  Hann settist undir tréð sem hann sat í og gelti glaðlega.  Nú já sagði húsmóðirin, þú ert þá þarna ræfilstuskan.  Hefur hlaupið í felur.  En það var svo sem auðvitað, hjartað í þér er ekki stærra en baun.  Þótt þú sperrir þig á fjóshaugnum alla daga.  Haninn varð stórmóðgaður.  Að segja svona um hann.  Hann sem var svo flottur, og hvað með það að verða að flýja þegar um ofurefli var að etja, það sýndi bara hve gáfaður hann var í rauninni.  Hann flaug niður úr trénu, gekk að dauðu hænunum og vottaði þeim virðingu sína, gekk svo sperringslega upp á hauginn sinn og horfði kuldalega á frú Jónu fyrst með hægra auga og svo með því vinstra, og stóð fastur í annann fótinn og svo gól hann hátt og snjallt.

IMG_6919

Sjáumst seinna í dag mín kæru. Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 takk fyrir þetta elsku Ásthildur, þú ert sko alveg ómissandi líka.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.12.2008 kl. 14:17

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Takk fyrir söguna Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 3.12.2008 kl. 15:38

3 identicon

Skemmtileg saga og má skilja á marga vegu, fleiri huglausir en haninn. Frábært að lesa í BB um gjöfina hans Júlla til fólksins á Hlíf. Þessir fiskar verða ekki sýkingum að bráð eða skemmast vegna aðstöðuleysis við vinnslu. Rétt hjá BB þetta er varanlegur kvóti. . Gangi þér vel í jólastússinu og mundu að jólin koma samt þó ekki takist að klára allt. Aðalmálið er að vera saman, borða góðan mat og gleðjast.

Dísa (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 16:43

4 Smámynd:

Góð saga - kannast við svona "hana"   Alltaf jafn gott að koma inn á bloggið þitt og orðið ómissandi partur af deginum

, 3.12.2008 kl. 16:44

5 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Það er alltaf gott að skoða það sem þú setur inn á síðuna þína og þetta engin undartekning

Takk fyrir að deila því með okkur

Anna Ragna Alexandersdóttir, 3.12.2008 kl. 17:23

6 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Frábær saga, þeir eru margir "hanarnir".

Helga Magnúsdóttir, 3.12.2008 kl. 18:57

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll. 

Já Helga mín, það eru margir hanarnir, svo er víst

Takk fyrir það Anna Ragna mín.

Takk Dagný mín.

Knús Ruslana mín.

Knús Katla mín.

Takk Ásdís mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.12.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2022150

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband