Útgerðarmaðurinn.

Ég dundaði mér hér áður að semja nokkrar smásögur.  Ég veit svo sem ekki hvað ég ætla mér með þær, en ef til vill get ég sett þær hér inn, ykkur til aflestrar og ef til vill nokkurar ánægju.  Veit ekki.  En það verður sennilega eini vettvangurinn opinberi sem þær birtast á.  Þessar sögur eru um það bil tveggja ára, eða meira.

Hér kemur sú fyrsta;

 

Útgerðarmaðurinn.

  

                Jóel stóð á miðju stofugólfinu og virti hana fyrir sér, eins og hann hefði aldrei séð hana áður.  Horfði á stóra bókaskápinn úr eik, sem hafði verið þarna frá því hann flutti inn, en einhvernveginn sá hann þennan skáp í allt öðru ljósi en fyrr.  Hann lét hugan reika.  Fyrir þrjátíu og fimm árum bráðum upp á dag, hafði hann flutt inn í þetta raðhús með konu sína og börnin.  Þau voru hamingjusöm og allt lét í lyndi.  Hann var í traustri vinnu og konan hans líka, bæði unnu þau hjá því opinbera.  Krakkarnir voru mörg, en þau voru heilbrigð og góð börn,  það kom líka í ljós í fyllingu tímans að þau komu sér vel áfram og urðu dugandi og nýtir þjóðfélagsþegnar, hvers meira getur foreldri mælst. 

 

                Samt var honum þungt niðri fyrir núna, í dag.  Hann hafði svo sem átt gott líf, bestu eiginkona sem nokkur gat hugsað sér, hún hafði staðið við hlið hans alla tíð, síðan þau byrjuðu búskap.  Það hafði ekki alltaf verið auðvelt, það vissi hann manna best sjálfur.  Hann hafði ekki verið sá auðveldasti að búa með, aldrei hafði hún kvartað, æmt né skræmt.  Fyrir það var hann þakklátur.  Hún hafði þann andlega kraft og styrk til að takast á við hvað sem að höndum bæri.  Á því sviði var hún sterkari en hann.  Ásdís hafði oft og mörgum sinnum gefið honum kraft til að halda áfram. 

 

                Hann hafði hætt í hinni stöðnuðu opinberu stöðu sem hann hafði verið í, það átti ekki vel við hann, hann þurfti að takast á við lífið, þurfti spennu og hvatningu.  Hann hafði því farið í útgerð.  Á þeim tíma var útgerðin blómleg atvinnugrein.  Byggðir landsins voru sterkar því mikill afli barst á land og frystihúsin voru undirstaða atvinnulífsins. 

Unglingar byrjuðu að vinna í fiski um leið og þau kvöddu skólabekkinn á vorin og þau voru svo sannarlega drifkrafturinn í fiskvinnslunni yfir sumartímann þegar eldri konurnar vildu gjarnan taka sér frí og vera heima.  Svona leið tíminn í ró og friðsæld.  Fólkið vissi ekki í raun og veru hve gott það átti, það var atvinnuöryggi, og kring um frystihúsinn byggðist allskonar þjónusta og svo blómguðust þjónustugreinarnar. 

Sumir töluðu um að atvinnulífið væri svolítið einhæft fyrir unga fólkið, en þau voru samt ánægð, því þau fengu nægan pening yfir sumarið til að hafa vasapening og gátu þess vegna gengið menntaveginn, án þess að allt færi á hvolf í efnahag heimilanna. 

Svona leið tíminn lengi.  Eða þangað til stjórnvöld fóru að tala um hagræðingu.  Öllu átti að hagræða, og stækka fyrirtæki og græða meira.  Samhliða þvi að vernda fiskinn í sjónum.  Hann hló með sjálfum sér kulda hlátri.  Þvílík hagræðing.  Fyrst kom tilskipun um að það þyrfti að fækka veiðiskipunum.  Þar byrjaði fyrsta greiningin. 

Svo var nokkrum fáum útvöldum færður kvótinn.  Þegar svo bankarnir voru farnir að óttast um lánshæfi útgerðarfyrirtækja, þá var ákveðið að þessir menn hefðu eignarrétt á kvótanum og gætu ráðstafað honum að vild.  Smátt og smátt fór svo að bera á því að sá fiskur sem mátti koma á land í bænum fór minnkandi, það voru aðrir utanaðkomandi sem höfðu umráð yfir honum.  Þegar menn fóru að vara við þessum aðstæðum var talað um svartagallsraus, þetta væri spor í rétta átt.  Þetta væri fórnarkostnaður við hagræðinguna.  

 

                Hagræðingin hélt svo áfram og áfram, uns svo var komið hér að öll frystihús voru hætt starfssemi, og eftir voru bara nokkrir smábátasjómenn, sem voru að fiska og selja aflann, sumir verkuðu hann sjálfir í saltfisk eða seldu hann á fiskmörkuðum.  Þá fóru vélsmiðjurnar að hætta ein af annari, því verin minnkuðu verulega hjá þeim.  Svo voru sífellt fleiri sem hættu starfssemi, þá fór að renna tvær grímur á heimamenn.  Getur það verið rétt að þetta sé sú hagræðin sem að var stefnt. Já sögðu stjórnvöld.  Þetta er það eina rétta. 

 

                Jóel settist niður í brúnan leðursófann, hann hafði aldrei sest í hann fyrr, skrýtið, þetta var sófinn hans og hann hafði aldrei sest í hann fyrr.  Hann settist alltaf í  loverboy stólinn sem hann hafði fengið þegar hann varð fertugur, þar á undan hafði hann átt gamlan slitin stól, sem enginn sat í nema hann sjálfur. Svona var þetta, maður átti sitt athvarf, og þó maður hugsaði aldrei um það, þá varð þetta að vana og enginn breytti út af því.  Sófinn var ekkert þægilegur fannst honum, hann stóð upp og gekk út að glugganum, og leit út.  Þetta umhverfi, hann horfði á það eins og hann hefði aldrei séð það fyrr.  Þó hafði hann oft staðið við gluggan og horft út.  Hann hafði verið að fylgjast með skipunum koma og fara, og umferðinni, jafnvel Jóni í næsta húsi, dunda með konunni í garðinum sínum. 

 

                Hann hafði sjálfur aldrei farið út í garð með sinni konu, það var eitt af því sem hún þurfti að sjá um sjálf. 

Núna leit hann yfir þetta útsýni eins og hann væri að sjá það í fyrsta og síðasta sinn.   Síðan gekk hann að stólnum sem hann var vanur að sitja í.  Stóllinn var orðin mótaður af útlínum líkama hans, hann smellpassaði í hann, stólinn snéri beint að sjónvarpinu, því kvöldin notaði hann alltaf til að fylgjast með fréttum og síðan að horfa á sjónvarpið, það er að segja þegar hann hafði ekki þurft að fara á fundi, eða redda einhverju fyrir útgerðina. 

Undanfarna mánuði hafði hann ekki haft mikinn tíma til að sitja í stólnum góða.  Hann var á sífelldum ferðalögum fram og til baka, og þegar hann hafði haft tíma, var hann svo eirðarlaus að hann hafði ekki eirð til að sitja í stólnum. 

Í dag hafði hann nægan tíma, þetta var allt búið.  Hann leit einu sinni enn yfir stofuna sína.  Á morgun þyrfti hann að fara að huga að þvi að pakka niður.  Finna annan samastað.  Hann vissi ekki ennþá hvar eða hvenær.  Hann vissi bara að barátta hans við kerfið og skuldirnar höfðu sigrað, hann var eignalaus maður, í dag hafði höfðu komið ókunnugir menn inn í þessa stofu og boðið upp húsið hans.  Bankastjórinn var þarna líka og bankanum var slegið húsið á smánarverði.  Búið og gert,  margra ára vinna og streð horfið. 

En samt var hann ríkur, hann átti það sem ekki yrði tekið frá honum. Yndislega konu sem stóð með honum alltaf, góð börn, tengdabörn og barnabörn, sem elskuðu hann.  Hann vissi að næstu vikur og mánuðir yrðu erfiðir, það er erfitt að horfast framan í félaga og samferðamenn, þola hluttekningu, samúð og jafnvel illgirni.  En hann vissi að það fennti í förin og hann myndi ná sér á strik aftur, ennþá hafði hann fulla starfsorku, og hann hafði bæði þrek og þor til að horfast í augu við staðreyndir.  Það var bara í dag, sem hann leyfði sér að hugsa svona.  Á morgun yrði kominn nýr dagur og nýr áfangi.  Kannski var rétt að byrja að lesa íbúðarauglýsingarnar hugsaði hann kalt og glotti við tönn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Þú ert góður penni mín kæra. Hvort sem um er að ræða bundið mál eða óbundið.

Ég var mjög hrifin af sýningunni hans Júlla í Edenborgarhúsinu. Skilaðu þakkarkveðju til hans.  

Laufey B Waage, 10.11.2008 kl. 21:47

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Góð saga og ég vildi að hún væri ekki svona hræðilega sönn.

Helga Magnúsdóttir, 10.11.2008 kl. 22:08

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Frábær frásögn hjá þér Ásthildur og segir allt sem segja þarf.  Þessa sögu er hægt að heimfæra nánast á hvern þéttbýlisstað á Vestfjörðum og jafnvel allri landsbyggðinni.  Hafðu þökk fyrir mín kæra.

Jakob Falur Kristinsson, 10.11.2008 kl. 22:09

4 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Guðborg Eyjólfsdóttir, 10.11.2008 kl. 22:22

5 identicon

Hvað skyldu margir eiga eftir að standa í hans sporum en sjá enga leið út feninu.

Þú ert frábær penni mín kæra,

Knús vestur í hamingjukúluna

Kidda (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 01:21

6 identicon

Því miður verður lífið í þessari mynd í vor. Þegar unga vel menntaða fólkið okkar fer af landinu og skilur allt eftir því það á ekki íbúðirnar lengur.

Guðrún (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 08:24

7 Smámynd:

Góð saga hjá þér Ásthildur mín. Því miður er þetta búið að vera svona síðustu árin. Er ekki kominn tími til að snúa við? Burt með spillingaliðið og sjálftökumennina.

, 11.11.2008 kl. 09:53

8 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Góð saga Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 11.11.2008 kl. 10:23

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll.  Ég fer nú eiginlega hjá mér.   En ég hef gaman að þessu.  Rétt og satt burt með spillingarliðið, og áfram nýja Ísland. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.11.2008 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 2022149

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband