Við erum þjóð öfganna.

images 

 

 

Og það er skammt öfga á milli.  Við dásömuðum útrásina, og margir spiluðu með, eða allavega dáðumst að þeim sem urðu moldríkir á stuttum tíma.  Margir standa nú brenndir á sálinni og í veskinu sínu, vegna þess að þeir treystu útrásarliðinu, ríkisstjórninni, tilskipuðum eftirlitsaðilum og ekki síst Seðlabankanum.

Allt reyndist þetta vera tál, og nú stendur þetta fólk á nærbrókinni einni saman, eins og keisarinn forðum, og reynir hver sem betur getur að forða sér, og ljúga sig út úr aðstæðunum.  Helst vill það kenna almenningi um allt saman.  Þar er hin breiðu bökin. 

 

Sem betur fer virðist almenningur loksins ætla að hrista af sér slenið og foringjadýrkunina, og krefjast réttlætis, og ábyrgðar.  Það er mjög ánægjulegt.

 

En, eru menn virkilega að vonast til þess að við förum úr öskunni í eldinn ?  Í hræðslukastinu sem er í gangi  þjóðfélaginu í dag, heimta menn að ganga í ESB.   Ég set stórt spurningamerki við það.

 

Erum við svo bláeyg að halda að það hjálpi okkur eitthvað ?  Svona til lengri tíma litið.  Ég las um daginn frá einhverjum ráðamanni frá gömlu austur Evrópu, að stjórnunin í ESB væri eins og kommúnistaríkjunum hér áður fyrr.  Sjá menn ekki skóginn fyrir trjám ?

 

Þessi krafa hryggir mig.  Ég held að við ættum að reyna að komast út úr þessu af sjálfsdáðum.  Og ég er viss um að við getum það.  Þegar landnámsmennirnir komu fyrir meira en 1000 árum, þá voru hér bara refir og nokkrir munkar (papar). 

Það voru landnámsmennirnir sem  fluttu með sér það sem þurfti til að koma á þjóðfélagi.  Það ætti að vera auðveldara í dag en þá.

 

Það sem brýnast er að gera, er að styrkja og styðja við það sem við eigum hér heima.  Landbúnaðinn, fiskveiðarnar og hugvitið.  Við eigum þetta allt í góðum mæli.  Auk þess eigum við dugnað og útsjónarsemi.  Ef við bara setjumst niður og hugsum málið.

 

Við höfum nefnilega margt að bjóða fram, til að selja útlendingum.  Hreinar góðar landbúnaðarafurðir, mjólkin með því besta í heimi, skyr, smjör, og hvað eina sem gert er úr húsdýrunum okkar.  Við eigum líka bestu ull í heimi.  Ull sem auðvelt er að gera að hátískufatnaði, með góðri hönnun, og markaðssetningu.  Frú Dorrit er nú þegar byrjuð að auglýsa hana. 

Refa- og minnkaskinnin okkar eru hágæðavara, í öðru sæti á heimsmarkaði, hvað gæði varðar. 

Við eigum líka besta fiskinn, það þarf að vísu að vinna hann meira hér heima, í frystihúsum, sem eru í hæsta gæðaflokki í heiminum.  Besta hráefnið þar líka, það má meira að segja útbúa hráefnis vottun, hvaðan fiskurinn er og hvaða bátur veiddi hann, með vistvænum útbúnaði, því við myndum örugglega byrja á því að henda þessu arfavitlausa fiskistjórnunarkerfi.  Þjóðir heims þarfnast matar, og við eigum stóra matarkistu, sem ekkert mál er að fylla. Ekki gleyma harðfiskinum.

 

Í dag er hægt að rækta korn allskonar á Íslandi, við bruggum okkar eigin bjór, sem er bestur vegna hreina vatnsins, vodka og aðra sterka drykki framleiðum við líka.

Það yrði að vísu að þjóðnýta jarðirnar sem keyptar hafa verið og ekki er stundaður búskapur á.  Og fá fólk til að búa á þeim, útlendinga ef íslendingar vilja ekki. 

  

Svo má benda á laxveiðiárnar, sem útlendingar sækja í miklum mæli, silunginn okkar, og hreindýrin. 

Náttúrfegurð er mikil og orkan í náttúru Íslands er einstök og rómuð.

 

Fólk gerði grín að því hér mitt í öllum dansinum kring um gullkálfinn hvort menn ætluðu að lifa á fjallagrösum og lopapeysum.  

Ég segi; Af hverju ekki ?  Með góðri markaðssetningu er hægt að selja fjallagrös sem hágæðavöru, við höfum dúninn okkar, hann ætti að fara að seljast aftur, nú þegar krónan er ekki svona yfirspennt, lúxussængur væri hægt að fá á ný. 

Við getum framleitt grænmeti og ávexti til útflutnings, ó já, með þeirri orku sem við eigum, getum við framleitt hreint og ómengað grænmeti undir gleri með lýsingu. Það væri líka hágæðavara. 

 

Við eigum allskonar fólk, sem er á heimsmælikvarða, bæði listamenn og iðnaðarmenn á öllum sviðum.  Vorum við ekki að vinna til gulls í matargerð um daginn ?


Við gætum komið upp flottum veitingahúsum um allt land, þar sem hægt væri að kaupa góðan íslenskan heimilismat.  Nýmjólk beint af kúnni, rjóma og vöfflur.

Við höfum þetta allt saman. 

 

ESB hvað ?  Ég bið fólk aðeins að slaka á og hugsa málið.  Ef við losnum við þessa dauðu krumlu sjálfstæðisflokksins, flokksræðisins og spillingarinnar af höndum okkar, og kjósum fólk sem vill réttlæti og sanngirni handa öllum.  Þá er okkur í lófa lagið að koma okkur út úr þessum vanda á eigin spýtur. 

Eitt að lokum, við eigum ef til vill aðgang að olíu á Drekasvæðinu, mjög líklega.  Og er okkur þá ekki borgið.

  

Ágætu landar, við eigum allt sem til þarf.  Það er sáralítið sem við þurfum að flytja inn, ef við hugsum málið aðeins.  Ekki fara inn í enn eitt báknið.  Losum okkur einfaldlega út úr því sem við erum í, og byrjum upp á nýtt.  Með sparnaði og ráðdeild, með því að láta þá fá að njóta sín sem eru dugmestir, og treysta hvort öðru, þá gengur þetta.  Ég er alveg viss um það.  Og þá loksins getum við sagt að við séum frjáls þjóð.  Laus undan oki kvalara, sem hafa einokað, þvingað, rænt og nú að lokum komið okkur á kaldan klaka. 

Ekki gleyma að þeir sem hafa einokað okkur s.l. 17 ár, hafa bundið hendur okkar á bak aftur og bannað mönnum að bjarga sér, til að hygla sínum pótintátum, með því að banna mönnum að veiða fiskinn í sjónum, sett kvóta á bændur, og bannað þeim að gera að eigin framleiðslu.  Boð og bönn sem hafa sett hamlandi hönd á dugmikið fólk og bannað því að bjarga sér.  Nú horfir öðruvísi við, ef við förum að framleiða matvöru ofan í svangan heiminn.

  

Ættum við ekki allavega að reyna ?

 

Mitt faðirvor

Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda
sé vilja beitt.

Hvar einn leit naktar auðnir
sér annar blómaskrúð
það verður sem þú væntir
það vex sem að er hlúð
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt
og búast við því besta
þó blási kalt

Þó örlög öllum væru
á ókunn bókfell skráð
Það næst úr nornahöndum
sem nógu heitt er þráð
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hvert mitt spor
Fegurð-Gleði-Friður
Mitt Faðirvor.

Ég vildi að ég hefði ort þetta kraftmikla ljóð, en ég ætla að gera það að mínu faðirvori, og bið ykkur að hafa það líka nærri hjartanu á þessum erfiðu tímum. Heart





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga skjol

Helga skjol, 29.10.2008 kl. 15:21

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl mín kæra

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.10.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl mín kæra

Veit ekki hvað gerðist en innleggið þaut frá mér með ofurkrafti  Mætti sami krafturinn vera í ráðamönnum þjóðarinnar núna.

Pistillinn þinn er frábær, kröftugur og hnitmiðaður. Vona að ráðamenn þjóðarinnar lesi þennan pistil.

Við getum gert helling sjálf eins og að fiska, vinna meira í landbúnað, rækta grænmeti og korn, baka brauðið okkar sjálf í staðinn fyrir að flytja kökur frá Danmörku. Höfum nóga orku til að rækta grænmeti.

Það má alveg minnka innflutning á glingri og skrani og sælgæti. 

Svo má nú alveg veiða hval og sel. Óþarfi að dýrka hval og leyfa honum að vinna tjón á fiskmiðum okkar eins og hann hefur gert í mörg ár. Selurinn ber með sér hringorma sem fiskvinnslukonur eru dálítið þreyttar á að plokka. Hef reynslu.  

Læt hér staðar numið einn ,tveir.

Vertu Guði falin dugnaðarkona.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.10.2008 kl. 16:09

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég held að það sé hættulegt fyrir okkur að fara inn í ESB núna þegar við verðum að ganga með betlistaf til þeirra sem ráða. Við erum svo illa stödd að við höfum enga samningsstöðu, yrðum bara að taka því sem að okkur yrði rétt.

Helga Magnúsdóttir, 29.10.2008 kl. 18:50

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Skrifleti minni líður ögn betur á sálinni sinni, þegar þú skrifar betur en ég gæti um hvað ég hugza, mér finnst & ég meina.

Takk.

Steingrímur Helgason, 29.10.2008 kl. 19:00

6 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Það eru svo margir sem halda ESB sé töfralausn á vanda vorum, eins og alltaf viljum við fá allt strax, góðir hlutir gerast hægt ég vona að við fáum betra þjóðfélag fyrir vikið

knús í kúluhús

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 29.10.2008 kl. 20:36

7 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Þú kannt alveg að orða hlutina Ásthildur mín. Mætti alveg senda alla þína pistla beint á stjórnarheimilið. Knús í kúlu

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 29.10.2008 kl. 21:27

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú ert fjallkonan okkar

Sigrún Jónsdóttir, 29.10.2008 kl. 22:08

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er að fylgjast með þér kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 29.10.2008 kl. 22:12

10 identicon

Heyr! Heyr!

Frábær grein sem þarf að ná til sem flestra.

Elísabet (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 22:34

11 Smámynd: Rannveig H

Nú vil ég bara sandbandsríki  Ísland   Færeyjar.. Takk fyrir góða grein.

Rannveig H, 29.10.2008 kl. 23:47

12 identicon

Sæl Ásthildur mín.

Sérlega vel hnitmiðaður Pistill frá þér. Já,hér eru ótæmandi möguleikar.satt segir þú. En eins og þú segir og hefur sagt. FYRST þarf að HREINSA TIL og síðan skulum við sá af gnægtarbrunnum landsins í ráðvendni þó og af nærgætni. OG EKKERT ESB BULL Í MÍN EYRU.

 Góð hugmynd hjá Rannveigu með Sambandsríkið!

Kærleikskveðjur.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 02:18

13 Smámynd: Laufey B Waage

Góð grein mín kæra.

Laufey B Waage, 30.10.2008 kl. 09:59

14 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Góð grein elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 30.10.2008 kl. 10:56

15 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær grein.....ég bara vona að öll þessi læti verði okkur til gæfu þegar upp er staðið og að við berum gæfu til að byggja hér nýtt og betra samfelag með alvöru gildi á rústum þess gamla sem mátti sko alveg missa sig. Hvilík óráðssía og spilling sem hér hefur fengið að grassera. Hinn almenni íslendingur á bara allt hið besta skilið og því er mikilvægt að við hreinsum til og vöndum okkur svo viðuppbygginguna á nýja samfélaginu okkar.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.10.2008 kl. 14:40

16 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús knús og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 30.10.2008 kl. 15:45

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll fyrir svörin.  Já Katrín mín, ég vona svo sannarlega að okkur takist að byggja upp nýtt samfélag á gömlum grunni, og góðum gildum.  Til að svo megi verða, þarf að losna við ákveðna aðila burtu úr stjórnsýslunni, því spillingin og vinavæðingin virðist fylgja þeim, og svo eru þeir sem dansa með, og gera ekkert til að laga ástandið.  Eða hvað hefur Samfylkingin eða forsvarsmenn hennar gert til að laga ástandið? það er margt gott fólk sem er í Samfylkingunni, en hún þarf svo sannarlega að endurnýja forystuna, ef hún vill vera trúverðug í kosningum.  Ingibjörg Sólrún og Björgvin eru þar fremst í flokki sem virka ótrúverðug á mig.

Þói og Rannveig, já við skulum hefja nánara samstarf við vini okkar  færeyinga, þeir eru svo sannarlega vinir í raun, og hafa sannað það og sýnt í mörg ár.

Takk öll hin.  Ég verð að segja það að ég er ennþá orkulaus af þessu eyðandi ástandi, ekki batnar það, sífellt að koma fleira og andstyggilegra í ljós undan teppinu, sem hefur verið sópað þangað s.l. 20 ár.  Von að Sjallar hræðist að hrökklast frá völdum.  En það er algjör nauðsyn til að fá hlutina á hreint.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.10.2008 kl. 17:49

18 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Við eru fólk öfganna og við eigum Dabba sjá hér

Sigurður Þórðarson, 30.10.2008 kl. 21:02

19 Smámynd:

Takk fyrir góða og tímanlega grein. Það er verkefni allra þenkjandi manna núna að koma íhaldinu frá völdum. Það er svo bráðnauðsynlegt að við getum ekki beðið fram að næstu kosningum. En Sjálfstæðismenn berjast með oddi og egg gegn því að þjóðin fái að ráða einhverju - svei mér ef þetta land er ekki bara í herkví kanaleppanna.

, 30.10.2008 kl. 21:21

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Siggi þetta er alveg ferlega flott myndband

Takk Dagný mín.  Já við verðum að losna undan þessum mönnum, það er nokkuð ljóst. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.10.2008 kl. 21:44

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Dóra mín gott að heyra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.10.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 2022919

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband