Huldumaðurinn.

Það lá við að ég dytti niður dauð, allt umhverfið breytt, þegar ég opnaði síðuna mína núna LoL en samt ég er komin inn á eitthvað svæði sem ég þekki ekki lengur.  Elsku bloggvinir mínir, ég þarf að átta mig á þessu svæði.  Ætla að skoða þetta betur.   Úff af hverju er verið að breyta svona án þess að láta mann vita.

En svona áður en ég set inn kvöldmyndir og gef mér tíma í blogghringinn, þá ætla ég að setja hér inn smásögustúf sem datt upp í kollinn á mér í dag, reyndar af því að þið tókuð svo vel í hina söguna mína.  Þessi er öðruvísi, en er samt svona spurning um móral.  Ég vona að þið haldið ekki að ég sé að farast úr kjánagangi eða eitthvað slíkt.  Þetta bara kom svona, eins og þegar ég hef meiri tíma en mér er hollt.  Þá er kollurinn á mér fullur af allskonar vitleysu.  En hér kemur þetta;

Huldumaðurinn.

Gamli blaðamaðurinn stóð fyrir framan stórt skrifborð yfirmanns síns, og horfði rannsakandi á hann, meðan sá síðarnefndi las yfir nokkur blöð sem hann hafði rétt honum.

 

Já sagði ritstjórinn þetta er mergjað, og hann er lipur penni.  Ég veit samt ekki...

 

Þú átt eftir að rokselja blaðið, ef þú tekur hann inn sem pistlahöfund, sagði blaðamaðurinn.

 

En hver er hann ?

 

Það get ég ekki sagt þér, sagði blaðamaðurinn. Við skulum bara nefna hann Huldumanninn.

 

Jæja við skulum taka þetta og sjá svo hvað setur.

 

Blaðamaðurinn brosti óræðu brosi.  Gott mál, sagði hann svo, þú átt ekki eftir að sjá eftir þessu.

 

Ef til vill ekki tautaði ritstjórinn.  Hann bar fyllsta traust til undirmanns síns, en þessi beiðni frá honum var óvenjuleg, og hann var ósáttur við að vita enginn deili á höfundi greinarinnar. 

En hún var bæði mjög vel skrifuð og sterk, fyllti mann einhvern veginn réttlætiskennd.

 

Það gekk svo eftir sem blaðamaðurinn sagði, pistlar Huldumannsins urðu frægir og sala blaðsins jókst dag frá degi.

Hann skrifaði um réttlætið, fátæktina, ástina, afbrýðisemina og auðlegðina, eins og hann vissi það frá hjartans innstu rótum. 

Blaðið seldist í ótrúlegum upplögum, og ritstjórinn varð glaður, og svo var líka um eigendur blaðsins.

 

Ritstjórinn fékk ótal samtöl og heimsóknir, þar sem fólk sagði honum, að pistlarnir hefðu haft áhrif.

 

Þessi pistill hefur breytt lífi mínu, sagði ungur maður.  Ég var komin á fremsta hlunn með að fyrirfara mér, þegar ég las hann í blaðinu í gær, og það veitti mér þrek til að takast á við vandamál mín.

 

Annar sagði; ég var orðin svo upptekinn af sjálfum mér og að græða peninga, að ég hafði gleymt sjálfum mér.  Þegar ég las blaðið þitt og pistil Huldumannsins, þá uppgötvaði ég, á hvaða villigötum ég var.

 

Ung kona kom til hans, hún var feiminn, stamaði og átti erfitt með orðin.  Ég ákvað að koma til þín og þakka þér fyrir greinina í blaðinu þínu.  Ég hafði farið villu míns vegar, hafði haldið fram hjá manninum mínum, sem ég elska þó svo mikið, og þegar ég las pistilinn sem var í blaðinu í fyrradag, þá sá ég hvað ég var að gera.  Ég átti því gott samtal við manninn minn í gærkvöldi og við ákváðum að hefja nýtt líf byggt á trausti okkar beggja.  Ég er því að hefja nýtt líf, vegna þess að ég var svo lánsöm að lesa blaðið.  Ég vildi bara þakka þér og Huldumanninum fyrir mig.

 

Ritstjórinn var hamingjusamur yfir pistlunum.  Hann var meira að segja sjálfur farin að hlakka til að lesa pistil dagsins.  Og hann varð að viðurkenna, að hann hafði breytt sínum lífstíl.  Hann hugsaði öðruvísi, og jafnvel íhugaði hvernig Huldumaðurinn myndi bregðast við í þessu eða hinu tilfellinu. Hann sagði samt engum frá þessu.

 

Það fóru að berast fyrirspurnir fá öðrum fjölmiðlum, um hvort þeir mættu taka viðtal við Huldumanninn, sjónvarpsstöðvar vildu fá hann í viðtöl, og það var greinilegt að pistlar hans höfðu víðtæk áhrif á samfélagið.  Fólk fór að hugsa öðruvísi, og taka meira tillit til annara, bara vegna þessara sterku skrifa, sem birtust í Blaðinu. 

En því miður, enginn vissi deili á þessum frábæra höfundi, og því var ekki um nein viðtöl að ræða, eða kynningu á honum. 

 

Einn daginn þegar ristjórinn kom inn á skrifstofuna sína, var enginn pistill á skrifborðinu hans.

Hann kallaði strax inn blaðamanninn, sem hafði haft milligönguna.

 

Ritstjórinn var æstur, mig vantar pistil dagsins, sagði hann.  Það var ekki bara að hann vissi að hann þyrfti að fá pistilinn fyrir blaðið, heldur var hann sjálfur orðin háður þessum skeleggu frábæru skrifum, sem ristu svo djúpt, og kenndu mönnum svo margt um hvernig ætti að haga sér í dagsins önn.

 

Blaðamaðurinn var þreytulegur og greinilega sorgmæddur. 

 

Ég er hræddur um að það verði ekki fleiri pistlar frá þessum höfundi, sagði hann lágt.

 

HVAÐ!, sagði ritstjórinn, þú ætlar þó ekki að segja mér að hann hafi farið eitthvað annað, að einhver annar hafi keypt hann, og hann yfirgefið okkur, án þess að ræða við okkur, við erum alveg tilbúnir til að hækka verðið.

 

Það var aldrei neitt verð greitt fyrir skrifin hans, sagði blaðamaðurinn.

 

Nú var honum aldrei greitt neitt fyrir þau ?.  Þá þarf að bæta úr því, strax, sagði ritstjórinn æstur.  Segðu mér bara hvað hann setur upp, það verður gengið að því.

 

Ég er hræddur um að það sé ekki hægt, sagði blaðamaðurinn.

 

Nú ! sagði ritstjórinn bull, það eru allir falir fyrir fé.

 

Nei ekki þessi, svaraði blaðamaðurinn.

 

Hvaða vitleysa, sagði ritstjórinn, við viljum gera hvað sem er til að halda í hann.  Hvað sem er heyrirðu það!

 

Já ég heyri það, sagði blaðamaðurinn, en það er samt sem áður ekki hægt.

 

Viltu ekki útskýra þetta nánar, sagði ritstjórinn og var orðin heitur í kinnum af ákafa.  

 

Huldumaðurinn okkar var tekinn af lífi kl. oo6 í morgun að staðartíma, í fangelsinu hér í borginni, sagði blaðamaðurinn. Hann sat í dauðaklefanum dæmdur fyrir morð.  Og í dag var dauðadómnum fullnægt.  Hann mun því aldrei framar skrifa greinar, né pistla. 

En ég er viss um að með þeim áhrifum sem hann hefur haft til góðs með skrifum sínum hér í okkar veröld, mun verða vel tekið á móti honum, þangað sem leið hans liggur nú. 

 

Ritstjórinn horfði á blaðamanninn.  Ég hef þekkt þig yfir 30 ár, sagði hann loks, en ég veit sam ekkert hver þú ert.  Hver ertu eiginlega ?

 

Blaðamaðurinn brosti.  Svo sem enginn sérstakur sagði hann svo. En við ættum að muna að stundum glóa perlurnar skærast á sorphaugum mannlífsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Falleg saga og segir svo margt.  Er ekki kominn tími til að við skoðum líf okkar og "endurskoðum" stefnuna.  Kæra þakkir Ásthildur mín og góða nótt.

Jóhann Elíasson, 25.7.2008 kl. 22:22

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Ásthildur mín.

Hörku saga hjá þér og segir okkur margt. Þarna er góður penni sem hefur látið gott af sér leiða en ritstjórinn vissi ekki hvar hann var. Tók hann sem sjálfsagðan hlut sem skaffaði og skaffaði en svo runnu á ritstjórann tvær grímur þegar engin grein var tilbúinn og  skrifarinn var horfinn veg allar veraldar. Hefði ritstjórinn hjálpað þessum ólánsmanni að fá mildari dóm eða ekki, hefði hann vitað að hann væri í fangelsi og biði dauðadóms??? Skal ekki segja til um það. Ekkert víst og kannski hefði hann þá veið fyrir löngu búinn að afþakka skrif hans vegna stöðu gsreinahöfundar??

Góða helgi.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.7.2008 kl. 22:46

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Cesil.

Góð saga til umhugsunar sannarlega.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 25.7.2008 kl. 23:59

4 identicon

Takk fyrir söguna, hún er frábær að vanda eins og myndirnar þínar.

Knús í hamingjukúluna

Kidda (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 10:26

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Þú færð mann alltaf til að hugsa með hjartanu

Ragnhildur Jónsdóttir, 26.7.2008 kl. 12:26

6 Smámynd: Tiger

Já mín elskulegasta stóra kona - ef þú snertir ekki hjartaræturnar - þá gerir það enginn! Alltaf svo hugljúft að lesa þig mín ljúfasta ..

Knús í Vestfjarðaríki Ásthildur mín ..

Tiger, 26.7.2008 kl. 17:15

7 Smámynd: Ásgerður

Takk fyrir frábæra sögu

Ásgerður , 27.7.2008 kl. 23:56

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll sömul.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.7.2008 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 2022930

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband