Ungverjaland - annar hluti.

Jæja ég var búin að setja inn heilmikla færslu hér í gærkveldi, með myndum úr Ungverjalandsferðinni, en færslan sú vildi bara fljúga um loftin blá og hvarf bara.  Ég bara hafði ekki orku til að endurtaka leikinn í gærkveldi.  Nú er að sjá hvort ég kemst fram úr þessu á ný mín kæru.

Ungverjar kalla sig sjálfir Magyar, og landið Magyarország.

Ungverjaland2008 091

Hér erum við aftur komin á Budahæðina.  Þeir eiga mikið af minnismerkjum Ungverjar.

Ungverjaland2008 092

Það eru líka mikið af rómverskum rústum í landinu, en þeir ríktu yfir Ungvarjalandi í nokkur hundruð ár.

Ungverjaland2008 101

Hér horfa menn ofan af Búdahæðinni niður á Dóná, sem skrýðist ljósum, eftir því sem myrkrið færist yfir.

Ungverjaland2008 104

Hér sjást nokkur ljósanna. 

Ungverjaland2008 113

En við vorum stödd í Dónárdalnum, nú erum við komin upp í hæstu hæðir, og snæðum hádegismat í veiðikofa, Visegrád, það var reyndar brandari hjá fararstjóranum að kalla húsið kofa, því þetta var stórglæsilegt hús, með yndislegu útsýni yfir Dónárdalinn.

Ungverjaland2008 114

Hér er hluti af útsýninu, og þarna má líka sjá gamla höll, fremst á brúninni á næstu hæð, þær voru yfirleitt byggðar með góðu útsýni yfir svæðið, svo hægt væri að spotta óvinina tímanlega.

Ungverjaland2008 123

Eftir matinn var haldið áleiðis til Szentendre ferðamanna þorp, þar sem hægt var að kaupa ýmsar handunnar vörur, fallega dúka, og útskorin leynibox, og slíkt.  Það eru þónokkrar hannyrðakonur í hópnum, og þær voru himinlifandi.   Sá sem situr í hásætinu er auðvitað konungurinn í hópnum, Kristján tíundi.  Hann er einn af þeim mönnum sem láta ekki deigan síga við mótbárur.  Ótrúlegur maður.

Ungverjaland2008 130

Hér erum við stödd á aðaltorfi þorpsins, og auðvitað fékk maður sér bjór hvað annars.  Þessi Ungverski er aldeilis prýðilegur.

Ungverjaland2008 138

Þessi ágæti vagnstjóri vildi svo ólmur aka okkur niður að rútustæðinu. 

Ungverjaland2008 251

Þessi dagur endað svo á sameiginlegri kvöldmáltíð í öðru glæsihýsi, villibráð á boðstólum og fasanasúpa í forrétt.

Ungverjaland2008 258

Allir voru glaðir eftir velheppnaða ferð um Dónárdalinn og hér syngja menn Mansöngva til þjónustunnar, og líkar henni bara vel.

Ungverjaland2008 263

Okkar einu og sönnu Olli og Steini tóku svo tvíundarsöngva, eins og þeim einum er lagið.  Ó mín flaskan fríða, hljóta þeir að vera að syngja hér.

Ungverjaland2008 189

Tónleikar númer tvö voru í Konungshöllinni í Gödöllö - borgarstjórinn flutti ræðu og þarna voru heimamenn, blandaður kór sem tók lagið með okkar mönnum.

Ungverjaland2008 191

Meðan strákarnir gerðu sig klára og héldu æfingu, læddumst við nokkrar kvinnurnar og fengum okkur bjór og grillaðan kamenbert með sultu. Tounge

Ungverjaland2008 200

Tónleikarnir tókust mjög vel, og voru allir hrifnir.  Sérstaklega tók ég eftir því þegar þeir tóku lög á dagskránni sem voru Ungversk, og þar af eitt á ungversku.  Þá dilluðu menn sér, brostu og tóku jafnvel undir.

Ungverjaland2008 201

Svona sælusvipur var á mörgum gestanna, og það var gaman að sjá hér er örugglega verið að syngja Stabat Mater.

Ungverjaland2008 211

Hér syngja kórarnir báðir saman, og enduðu á lagi sem allir sungu með á ungversku Víva tutte, það er magnað hvað söngur sameinar fólk.

Ungverjaland2008 236

Eftir tónleikana fórum við út í hallargarðinn og heimamenn buðu upp á veitingar, léttvín og brauð.  Og svo var haldið áfram að syngja saman. 

Ungverjaland2008 117

Hér erum við aftur komin til Buda, þessi örn er merkisberi, en hann bar sverð til Kóngafólksins, man ekki nákvæmlega þá sögu.  En þetta er enn ein glæsistyttan í Ungverjalandi.

Ungverjaland2008 119

Við erum stödd í Konungsgarðinum.  Þetta er Matthíasarbrunnur.  Það er saga í kring um hann.  Matthías var einn af konungunum, hann var vinsæll og vitur konungur.  Hann var maður fólksins.  Það bjuggu ung stúlka og afi hennar í skóginum nærri höllinni.  Oft og iðulega kom þangað í heimsókn veiðimaður, þau felldu hugi saman stúlkan og veiðimaðurinn.  Einu sinni fóru þau í borgarferð, var þá verið að hylla konunginn, og stúlkan sá að veiðimaðurinn hennar var konungurinn sjálfur.  Þegar hún kom heim, framdi hún sjálfsmorð, vegna þess að það hafði runnið upp fyrir henni að þetta var vonlaus ást.  Nokkru seinna kom svo konungurinn í heimsókn, hann spurði eftir stúlkunni, gamli maðurinn sagði þá hvers kyns var, og sagði þetta hefðir þú ekki átt að gera okkur.

Ungverjaland2008 120

Hér erum við stödd á freslsistorginu, þar eru höggmyndir af öllum konungum og aðalráðamönnum landsins. 

Ungverjaland2008 121

Og okkur varð auðvitað ekki skotaskuld úr því að finna hverfispubbinn, þar sem bjórinn kostaði 250 forynjur, eins og við kölluðum myntina, foryntur held ég að hún hafi heitið.  En bjórinn gat kostað upp í 1000 foryntur eða meira. 850 kr. gat lítil flaska af bjór kostað á hótelinu.

Ungverjaland2008 125

Við fórum að skoða þinghúsið í Búdapest, það er með glæsilegri byggingum,  og er víst svipað gamalt og hjá okkur, það er margt líkt með sögu þessara tveggja þjóða. 

Ungverjaland2008 139

Þarna voru konungsdjásnin upphaflegu, myndin er hreyfð vegna þess að það mátti ekki nota flass.

Ungverjaland2008 146

Hér er svo þingsalurinn, og það er hægt að greiða atkvæði með hnapp þarna líka eins og heima.  En þessi gamli salur er reyndar ekki í notkun í dag, heldur annar nýrri, svo við gátum ekki truflað þingmennina við störf sín.

Ungverjaland2008 161

Þessi maður var borgarstjóri hér, hann neitaði að gefast upp og stíga til hliðar, hann galt því með lífi sínu og er þjóðhetja í dag. 

Ungverjaland2008 168

Hér er minnismeskið rússneska um fallna hermanninn, það eina sem rússar fengu að halda eftir þeir fengu að velja hvaða verk ætti að standa, og þetta varð fyrir valinu, og stendur beint á móti bandaríska sendiráðinu.  Litháenunum fannst þetta skrýtið, þau sögðu að í Litháen hefði öllum svona minnismerkjum verið eytt eftir sjálfstæðið.

Ungverjaland2008 170

Í Budapest er mikil uppbygging, og greinilegt að efnahagur þeirra er að lagast.  Enda hefur allt hækkað síðan þeir gengu í Evrópusambandið.  Og hækkar ennþá meira þegar þeir taka upp evruna, segir fólk hér.

Ungverjaland2008 186

Hér erum við í neðanjarðarlestinni, þær eru þrjár, gul sem er efst, blá sem kemur næst og svo rauð sem liggur neðst.  Það er afar auðvelt að nota lestirnar, og góður ferðamáti.  Stoppistöðin var alveg við hlið hótelsins.

Ungverjaland2008 173

Hér taka menn lagið í Bastillukirkjunni, þar er hljómburður afar góður.

Ungverjaland2008 180

Á eftir var alveg upplagt að fá sér ungverska gúllassúpu, á horninu við hlið kirkjunnar, við ákváðum svo að fara á tónleika sem haldnir voru kvöldið eftir.  Það var glæsilegt að hlusta á Bach í pípuorgelinu, Það voru reyndar líka aðrir meistarar sem við fengum að heyra Handel, Liszt, Schubert, Mozart, og fleiri.

Ungverjaland2008 166

Hér eru byggingar af ýmsum gerðum sumar glæsilegar hallir fyrri tíma.

Ungverjaland2008 265

Aðrar nýtískulegar, eins og sjá má.

Ungverjaland2008 266

Ekki trúi ég að margir íslendingar vildu búa svona.  En þetta er algengt hér.

En svona endar nú þessi kafli.  Næst verður farið í ferðalag til Szeged, fæðingarstaðar kórstjórans okkar Beötu Jo. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir að leyfa mér að "ferðast" með þér.

Knús.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.6.2008 kl. 19:37

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir.  Sé að þið hafið notið ferðalagsins í botn

Sigrún Jónsdóttir, 16.6.2008 kl. 19:42

3 identicon

Meiriháttar að fá að skoða svona með ykkur á myndum. Mér hættir svo við að vera búin að gleyma sögunum þegar ferðinni lýkur, þyrfti helst að hafa diktadón með og lesa inn númer myndar og söguna, en þá missir maður af á meðan. þú sem alltaf hefur sagt að minnið mitt sé óbrigðult.

Eins og þú segir, hann Kristján er ekki á að gefast upp, það er óhætt að taka ofan fyrir honum. En félagarnir gera það líka kleift. Ómetanlegt að eiga góða félaga.

Dísa (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 19:46

4 Smámynd: Auður Kristín Matthíasdóttir

Fallegar myndirnar hjá þér Íja.

Kv. Auður Matt.

Auður Kristín Matthíasdóttir, 16.6.2008 kl. 19:52

5 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Mikið er gaman sjá þessar fallegu myndir og hvað allir eru glaðir takk fyrir þessa frábæru ferða sögu knús á þig

Kristín Katla Árnadóttir, 16.6.2008 kl. 19:55

6 Smámynd: Solla Guðjóns

Vá hvað hefur verið gaman

Solla Guðjóns, 16.6.2008 kl. 20:10

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Enn segi ég stórkostlegar og lifandi myndir mér finnst bara eins og ég sé á staðnum svo ljóslifandi eru myndirnar þínar.  Bestu þakkir.

Jóhann Elíasson, 16.6.2008 kl. 21:37

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk öll saman.

Jenný mín, þú ert skemmtilegur ferðafélagi

Já Sigrún mín svo sannarlega var þetta dásamleg ferð.  Og það er svo merkilegt að þetta voru rúmlega 70 manna hópur, og aldrei bar neinn skugga á samskiptin.  Það hefur reyndar verið í þessum ferðum sem ég hef farið með þeim, fyrst til Færeyja, síðan til Póllands og svo núna Ungverjalands.

Dísa mín hehehe Þú manst allt miklu betur sem gerðist hér í denn.  Ég er eins og barn við hliðina á þér í því. En ég skal segja þér að ég skrái oft hjá mér frá degi til dags, gerði það reyndar ekki núna, var eiginlega orðin of þreytt og svoleiðis.  En það er virkilega gott að skrá hjá sér það sem manni er sagt, maður kemst svo miklu nær þjóðinni sem maður er að heimsækja, og það kemur svo margt merkilegt í ljós, þegar menn segja söguna svona beint í æð.

Takk Auður mín.

Knús á þig á móti Katla mín.

Jamm Solla mín, þetta var gaman.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.6.2008 kl. 21:39

9 Smámynd: Laufey B Waage

Þetta hefur verið meiri háttar ferðalag. Og þú vel að því komin að fara í frí.

Takk fyrir síðast. Vonandi hefurðu meira næði næst þegar við hittumst.

Ég átti mjög ánægjuleg samskipti við einn af drengjunum þínum um helgina.

Laufey B Waage, 16.6.2008 kl. 21:50

10 Smámynd: Faktor

Takk fyrir fræðandi og myndskreytta ferðasögu.

Ég tek undir orð þín hér á undan, ferðamenn fá aðra sýn á land og þjóð þegar þeir fá persónulega frásögn.  Ég tala af reynslu, hef tekið á móti MÖRGUM ferðamanninum og sagt þeim frá öllum undrum og stórmerkjum okkar  það virðist falla í góðan jarðveg.

Faktor, 16.6.2008 kl. 21:56

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Laufey já vonandi getum við spjallað betur saman, það var svo notalegt að fá þig í heimsókn upp á lóð.  Veistu að hann kom til mín með glampa í augum, hann var svo glaður, að  þú veist ekki einu sinni hve mikið þú gafst honum, þessari elsku.  Hann lifir á þessu lengi, og nákvæmlega það sem hann þarf.  Takk.

Já einmitt Faktor fólk vill virkilega heyra frá þeim löndum sem þeir eru að heimsækja.  Og það er vel, þannig kemur þekkingin og þekkingin er besta leiðin til skilnings á öðrum, sem er undirstaða friðar ekki satt ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.6.2008 kl. 22:04

12 identicon

Sæl Ásthildur.

Þetta er heilmikið efni fyrir okkur hér á fróni og fallegar myndir ásamt skýringum og frásögn.

Takk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 22:30

13 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 16.6.2008 kl. 22:31

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús á þig Gréta mín.

Takk Þói minn.

Knús á þig Hrönn mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.6.2008 kl. 22:35

15 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Mikið rosalega eru þetta skemmtilegar myndir og góð ferðasaga,-  það er satt, maður ferðast ósjálfrátt með í huganum, þegar svona vel er sagt frá.  - Kærar þakkir fyrir góða ferð

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 16.6.2008 kl. 23:13

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mín er ánægjan mín kæra Lilja

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.6.2008 kl. 01:21

17 Smámynd: G Antonia

Er sammála þessum á undan mér, skemmtilegar myndir og frásögn eins og alltaf Ásthildur mín * Takk fyrir það! 

G Antonia, 17.6.2008 kl. 01:41

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tkk G.Antonía mín.

Þú segir nokkuð Guðlaug mín  Aldrei að vita með það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.6.2008 kl. 09:56

19 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Takk fyrir myndirnar, en ég var í Þórsmörk um helgina og með í för voru tveir Ungverjar sem voru algjörlega heillaðir af okkar landslagi

En ég er sammála Guðlaugu það þyrfti að vera karlakórssöngur sem hægt væri að hlusta á meðan maður flettir í gegnum myndirnar

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 17.6.2008 kl. 10:08

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

See what I can do.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.6.2008 kl. 11:12

21 Smámynd: Faktor

Þeir voru flottir strákarnir í kórnum með hljómsveitinni Appollo um árið í Edinborg, á "Aldrei fór ég suður"!  Var það ekki hljóðritað?

Svo væri örugglega flott að taka upp kórsöng í Naustahvilftinni

Faktor, 17.6.2008 kl. 14:05

22 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Takk fyrir að fá að ferðast með þér. Þetta hefur verið frábær ferð.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 17.6.2008 kl. 14:20

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Faktor frábær hugmynd hjá þér

Takk Ólöf mín.  Mín er ánægjan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.6.2008 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband