Gamalt efni, en samt alveg á dagskrá.

Jamm ég var að taka til í tölvunni minni og rakst þar á þessa grein sem ég skrifarði fyrir nokkrum árum.  Hún á jafnvel við í dag og þá, svo ég ákvað að setja hana hér inn:

Þetta innlegg þýðir samt ekki það að ég ætli mér ekki að tala um stjórnmálamenn og vera óvægin, ég á ýmislegt eftir að láta í mér heyra um.  En það er ágætt að hafa þetta svona bak við eyrað.  Því þó ég segi sjálf frá, þá er þetta bara staðreynd sem blasir við.  Eigið svo góðan dag elskurnar, þetta er innlegg mitt inn í dásamlegan vordag. Heart

 

Íslendingar og lýðræðið.

Ég get stundum fengið alveg upp í kok af lýðræðisást íslendinga. Og ég er að meina það sem ég segi. Þetta sést vel, þegar maður byrjar að starfa í stjórmálum. Og enn betur sést það hér á Málefnunum. Á stjórnmálaþræðinum.

Hér getur að líta alla flóruna. Þá málefnalegu, sanngjörnu, og tilfinningasömu, en mest áberandi eru þeir sem eru uppfullir af illgirni og öfund.

Það er ömurlegt að lesa það sem sumir hér inni láta frá sér um menn.

Málið er, að stjórnmálin hér eru svona eins og þau eru, af því að við höfum sjálf þróað þau þannig. Ráðamenn voru ekkert vondir menn, sem vildu öllum illt. Heldur hafa þeir smám saman orðið svona, af því að við leyfum þeim að komast upp með hvað sem er. Þeir hafa ekkert aðhald. Alveg sama hvað þeir gera og segja, þeir eru kosnir, hvort sem er. Líti menn bara í eigin barm og skoði vel, hvort þeir myndu ekki sjálfir falla í slíka gryfju, ef það væru þeir, sem í áratugi, hefðu komist upp með hvað sem er.

Við erum nefnilega föst í mönnum, en ekki málefnum. Það fyrsta sem maður verður var við í íslensku samfélagi þegar maður fer að vinna að þessum málum er; ég get ekki kosið þennan flokk, af því að þessi maður er þar innanborðs. Eða, þessi maður er svo leiðinlegur að ég get ekki stutt flokkinn. Og svo framvegis.

Þetta er hreinlega að fara með lýðræðið á Íslandi. Og öfundin lýsir sér í allskonar yfirlýsingum á mönnum, þessi á kvóta, þá getur hann ekki stjórnað, þessi á svo ríkan pabba, að hann getur ekki verið þar sem hann er.

Málið er, að enginn einstaka maður ræður í raun einn yfir stjórnmálaflokki, í flestum tilvikum ekki allavega. Í öllum venjulegum stjórnmálaflokkum, eru málefnin rædd, og tekin sameiginleg afstaða um hvernig menn vilja sá málum háttað. Svo fylgja menn þeirri flokkslínu. Þar hefur farið fram umræða, og komist að sameiginlegri ásættanlegri afstöðu.

Lagðar línur og sett í stefnuskrá flokksins. Síðan fylgja menn þessari stefnu. Þá skiptir engu máli, hvort þeir eiga kvóta, eða eru synir einhvers, eða eru kvenmenn, eða ég veit ekki hvað og hvað.

Illgirninn er svo skrýtin að hún niðurlægir mest þann, sem sýnir hana. Og því meira, sem illgirnin er meiri. Og sama með öfundina.


Það sem er öllu alvarlegra, er að þetta er skaðlegt lýðræðinu. Því um leið og menn fara að setja stjórnmálaflokka í lið, eftir því hvort þessi eða hinn fer í taugarnar á þeim, af einhverjum orsökum, þá er hvatinn til að viðhalda lýðræðinu enginn.

Menn horfa á naflann á sér, og kjósa bara það sama yfir sig aftur og aftur, hvað sem hver segir, af því að hinir flokkarnir (menn þar innanborðs) eru ekki nógu góðir.

Ráðamenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu, þeir vita sem er að það gerist ekkert, alveg sama hvað þeir gera eða segja. Því menn hlaupa upp til handa og fóta, mótmæla og svo framvegis, en ganga svo hlýðnir og stiltir inn í kjörklefann og kjósa aftur, hvað sem tautar og raular.

Besta dæmið um svona, er eldri kona sem vék sér að mér í kosningabaráttu, Cesil mín, sagði hún, ég er alveg sammála stefnu ykkar í mörgum málum, og mér finnst þið vera að gera rétta hluti. En ég hef nú alltaf kosið þá sömu, og get ekki farið að breyta því.

Þetta vita stjórnmálamennirnir, þess vegna er málið að koma vel fyrir rétt fyrir kosningar, tala fagurlega, og auglýsa kosti sína vel og lengi. Og síðan er allt í góðu.

En lýðræðið smýgur út um gluggann. Því vitað er að vald spillir, og þegar hvatinn er enginn, til að standa sig, til hvers ættu menn þá að vera að svoleiðis ? Hið íslenska Bananalýðveldi, í boði íslendinga.

 

Í flestum öðrum löndum skirrast menn ekki við að refsa sínum mönnum, með afgerandi hætti í kosningum. Þess vegna er lýðræðið skilvirkara. Alþingismenn komast ekki upp með neitt múður, þeir þurfa að segja af sér, og eru jafnvel sakfelldir, ef þeir brjóta af sér, jafnvel fyrir minnstu yfirsjón. Það eru gerðar siðferðiskröfur til þeirra, um að misnota ekki aðstöðu sína. Þetta er mjög nauðsynlegt í öllum lýðræðisríkjum.

Hér vita menn, að þetta verður allt í lagi, einhverjir belgja sig út og hafa hátt smátíma, svo gleymist þetta bara. Hið íslenska gullfiskaminni.

Eina sem hefur svona svolítið velt þessu upp, er fjölmiðlafrumarpið í fyrra. Það kom róti á fólk, sérstaklega þegar forsetinn neitaði að skrifa undir lögin. En það var farið kring um þá neitun. Og menn komust upp með það. Síðan hafa svona smáværingar verið, og kannski er fólk aðeins að vakna, ég veit þó ekki. Og þegar ég les núna stjórnmálaþráðinn, þá verð ég….. ég veit ekki hvað ég á að kalla það, svolítið sorgmædd, því það er með ólíkindum hvað fólk finnur upp, til að níða, rægja, og niðurlægja það fólk, sem hefur tekist á hendur, að vinna að okkar málum. Og ég er ekki að ræða neinn sérstakan.

Ég hef sjálf gerst sek um þetta, svo ég er ekkert að tala meira um aðra en mig sjálfa. Svo það sé á hreinu. En í alvöru, þetta gengur bara ekki.

Förum að hugsa um málefnin, en gefum okkur að fólkið sem leiðir ætli sér að vinna af heilindum, þangað til þau sýna eitthvað annað. Og refsum þeim þá, og kjósum einhvern annann flokk.

Þá fyrst, þurfa menn að fara að gæta að hvað þeir segja og hað þeir gera. Ef dómurinn fellur á fjögurra ára fresti.

 

Vor.

Nú lifnar allt og grasið grær

gleymist vetrartími.

Allt það grimmt sem var í gær

ég gref í hugans rými.

 

Eftirvænting ást og þor

eykst á þessum tíma.

Víst er komið langþráð vor

vafið ástarbríma.

 

Skýjaglenna við oss skín

Skokkar lamb í haga.

Sálin blessuð sértu mín

um sumarlanga daga.

Ásthildur 2005


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 2022150

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband