Sjávarútvegur fyrr og nú, frá mínum sjónarhóli.

Þessi mynd ef af honum afa mínum Júlíusi Geirmundssyni, Lóa frænka mín var einmitt að senda mér þessa mynd af honum ungum manni.  Afi bjó alla tíð á Atlastöðum í Fljótavík, byggð sem nú er í eyði. 

 

afi j

Hér má sjá einbeittn, einarðan svip og sterkan mann, enda skilaði hann sínu.

Ef nafnið Júlíus Geirmunds hringir bjöllum í huga ykkar, þá er þetta hann.  Frystitogarinn Júlíus Geiermundsson var skírður í höfuðið á afa mínum.  Reyndar hét annar togari Guðrún Jónsdóttir, og var það konan hans hún amma mín. 

Afi var harðduglegur maður, hann var talinn minnstak kosti þriggja manna maki eða meira í slætti, sem gjarnan var miðað við í dugnaði í gamla daga.  Að sveifla orfinu var eitthvað sem lífið byggðist á.  En afi sótti líka sjó, hann varð að sjá fyrir 12 börnum og var jafnan líka gjafmildur við nágranna sína, sem ekki höfðu eins mikið á milli handanna og hann.

Á þessum tíma varð hann að sækja sjóinn frá Aðalvík, það var yfir fjöll að fara til að róa, og þurfti hann að bera alla björg þaðan oft á bakinu, sjóblautur og þreyttur.  Það hefðu ekki allir farið í fötin hans afa míns.

En hann átti 12 mannvænleg börn, sem öll hafa plummað sig vel í lífinu.  Bræðurnir Þórður og Jóhann fluttust til Ísafjarðar, þaðan sem þeir byrjuðu að gera út.  Keyptu sé smábáta og byrjuðu skreiðarframleiðslu.  Þessir smábátar urðu síðan stærri og fyrirtækið óx, vegna dugnaðar og eljusemi þeirra.  Ég man aldrei eftir föður mínum öðruvísi en vinnandi við hlið starfsfólksins, hann vann líka oftast manna mest.  En fyrirtækið varð stórt og mikið.  Júlíus Geirmundsson er ennþá einn af aflahæstu skipum landsins,  að vísu kominn í annara eigu að hluta til allavega.

En í dag hefði þetta ævintýri aldrei gerst.  Í dag hefði þessum ungu athafnamönnum verið bannað að renna fyrir fisk í sjó.  Og ef fram fer sem heldur, verður byggðin hér líka komin í eyði rétt eins og Fljótavíkin forðum.  Það var sárt fyrir fólkið að þurfa að yfirgefa byggðina sína, skilja æfistarfið eftir og koma sér annað.  Mjög margir þeirra settust að á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík.  Nú liggja þessi svæði við höggi fyrir aðgerðir stjórnvalda, sem þjónka þeim sem hafa tekið við af þessum kempum.   Vælandi sykurpúðum, sem fæstir hafa farið á sjó, hugsjónin er Mammon og græðgin ein ræður, að eignast sem mest, og öllum brögðum beitt.

Þegar þessar gömlu kempur voru og hétu, þá dugði handsal og munnleg loforð voru lögmál sem ekki varð brotið.  Í dag er það nú eitthvað annað.  Svik og prettir daglegt brauð, baktjaldamakk til að fá sitt fram, daglegt brauð.  Stórar greiðslur í kosningasjóði landsherrana til að  tryggja sér áfram völdin, eru að mínu mati einkar ógeðfeld.  Einnig hótanir þeirra við starfsfólkið um að þeir leggi niður starfsemina ef fólk kýs ekki að þeirra vilja.

Í dag kemst enginn áfram í þessum geira af eigin dugnaði, nema þeim dugnaði að græða peninga og olnboga sig áfram í goggunarröðinni.  Þessum burgeisum hefur verið gefinn auðlind almennings fiskurinn í sjónum.  Og þeir vilja gera allt til að halda í þá eign, flestum þeirra alveg sama hvað verður um byggðir landsins, bara að þeir fái sitt og ríflega það. 

Og allt er þetta með aðstoð stjórnvalda, sem hafa setið og gætt þess að auðlindin sé trygg í þeirra höndum.  Og það grátlegasta við þetta allt saman er að almenningur í þessu landi veitir þessum herramönnum sífellt áframhaldandi umboð til að gefa eigur hans.

En fólki úti á landsbyggðinni, fólkið sem tók þátt í allri uppbyggingunni, sjómennirnir, landverkafólkið og iðnaðarmennirnir eiga engann rétt.  Þeir hafa verið sviptir lífsstarfi sínu, húsin verðlítil og atvinna ótrygg.  Sjávarútvegsráðherrann segir bara að sjómennirnir geti farið að mála. Það er hans ráðlegging til þeirra. 

Hér á árum áður voru Vestfirðir tekjuhæsta svæði landsins.  Hér voru umsvifin mest, og héðan streymdi allt handbært fé, það fór til uppbyggingar í Reykjavík.  Allt sem inn í bankana fór, var sent suður, skattarnir,  aurar og krónur, var sent suður, og svo var skammtað hingað smánarlega litlu fé.  Nú erum við ekki einu sinni lánshæf, ölmusufólk að mati þeirra sem búa fyrir sunnan með stóru ERRI, það eru mest ungir burgeisar, sem halda að mínu mati að peningarnir verði til í Kringlum og Smáralindum sunnlendinga.  Og alltaf fjarlægist stjórnsýslan landsbyggðina.  Hér áður fyrr voru alþingismenn bændur, útgerðarmenn og dreyfbýlis menn að stórum hluta.  Núna er það mest ungt fólk úr Reykjavík, sem hefur ekki hugmynd um út á hvað lífið gengur í bæjum og sveitum landsins, ef dæma má eftir lagasetningum, og þjónkun við ráð og nefndir bæði utanlands frá og innann.  Allt keyrt í reglugerðir og lög, sem eru andstæði því frelsi sem landsbyggðinn bjó svo lengi við, og þreyfst á.  Lið fyrir lið hafa reglugerðir gert fólki nánast ókleyft að bjarga sér.  Allt miðað við stórar byggðir Evrópu, en ekki litlu sveitafélögin í hinu 300.000 manna samfélagi á Íslandi, og alls ekki dreyfbýlisfólkinu sem kýs að búa við sem mest frelsi til athafna. 

Já Ísland hefur breyts, nútímavæðst og auðvitað er það að mörgu leyti gott.  En að öðru leyti búum við við fornaldarkerfi, eins og til dæmis einokun ríkisútvarpsins,  að við megum ekki einu sinni eiga sjónvarpstæki nema greiða til ríkisins.  Og svo hið óréttláta landbúnaðarkerfi, þar sem hendur bóndans eru bundnar á bak aftur, og honum meinað að bjarga sér, með því að lifa á því sem hann framleiðir.  Það er allt selt undir aðra einokunarmenn sem vilja auðvitað halda sínum hlut, enn ein græðgin þar.  Og svo hlutur sjómannanna okkar sem er í dag  er stétt sem er að blæða út.  Hér verða engir sjómenn eftir, eftir nokkur ár, þá verður bara að panta sér Pólverja á sjóinn ef menn eiga einhvern kvóta eftir.  Ef hann verður ekki bara seldur út landi, því þannig endar útgerðin ef hún verður áfram í höndum þeirra sem nú hafa þar tögl og haldir, enda vilja þeir helst búa á Malíbú. 

(Verð að taka hér fram að ég er ekki að niðra pólverja, þeir eru alls góðs maklegir)

Þetta er nú orðin nokkuð langur pistill og mikill reiðilestur.  En ég er reið, og afar margir á landsbyggðinni eru reiðir, ég vona bara að reiði þeirra bitni á réttum aðilum, og þeir þori og láti verða af því að refsa þeim sem ábyrgð bera á ástandinu.  En ekki endalaust að láta taka sig í ósmurt rass***** 

Og svo eitt að lokum, eini flokkurinn sem alltaf hefur haldið sinni stefnu skýrri í sjávarútvegsmálum er Frjálslyndi flokkurinn.  Ef fólk virkilega vill breyta ástandinu, þá er hann sú eina von, sem menn geta hengt sig á.  Þetta vita aðrir foringjar, Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið hræddur við þennan litla flokk, því þeir vita manna best, að ef einhver getur velt flokknum úr þeim valdasessi sem hann hefur verið í, þá eru það einmitt frjálslyndir.  Það er hrollvekjandi hugsun, því hlýtt og notalegt er við kjötkatlana, og svo þarf að passa upp á að þeirra menn sitji áfram í sínum einokunarstöðum.  Þess vegna hefur leið þöggunnar verið valin, að láta eins og flokkurinn sé ekki til, og nota hvert tækifæri til að koma á hann höggi, með því að smyrja á hann rasista stimpli ef ekki annað.  En það er nú svo, að svo lengi getur samsæri og undirferli grasserað, en að lokum kemur sannleikurinn alltaf upp á yfirborðið.  Sá tími gæti verið nær en marga grunar. 

Að lokum set ég hér inn link á skrif Kristins H. Gunnarssonar sem heitir "Réttu máli hallað."

http://www.kristinn.is/frettirpage.asp?ID=1162 Þessi skrif sýna svo vel það sem ég er að tala um þöggun.  Okkar menn hafa lagt margt gott til mála, og allir okkar helstu frammámenn í flokknum hafa ritað og rætt lærðar greinar um sjávarútveg, nefni það Guðjón Arnar, Sigurjón Þórðar, Kristinn H. Grétar Mar, Magnús Þór, allir þessir menn þekkja mjög vel til sjávarútvegs á Íslandi og hafa barist hatrammt gegn núverandi ástandi.  Fólk ætti að fara að hlusta, ef það vill ekki sjá sömu hluti gerast nú árið 2007 bráðum 2008, og gerðist norður Hornströndum á árunum kring um 1950.  Erum við enn í sömu sporum og þá, höfum við ekkert lært.  Þó segja megi að harðbýlt hafi verið þarna fyrir norðan, og eingraðar byggðir, þá er núna uppi sami söngurinn í dag um Vestfirði.  En hingað og ekki lengra.  Við þurfum að ná vopnum okkar, og ef síðasta úrræðið verður að segja okkur út lögum við Íslands, svo verði það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta er mjög fróðleg grein sem þú  ert að tala um hann afi þinn hefur verið sterkur maður og þú líkist honum það er ég viss um elsku Ásthildur mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 20.12.2007 kl. 12:09

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir það Katla mín.  Ég er afar stolt af honum afa mínum.  Hann var heljarmenni og margir afkomendur hans líka, bæði í kvenlegg og karllegg.  Vonandi hef ég fengið eitthvað að þeim góðu eiginleikum sem hann átti svo mikið af.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2007 kl. 13:00

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

...þú hefur það...engin spurning

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.12.2007 kl. 13:39

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2007 kl. 15:23

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Flottur pistill hjá þér vinkona, tek undir með þér 400%.

Steingrímur Helgason, 20.12.2007 kl. 21:49

6 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Þeir hafa verið glettilega áþekkir, þeir frændur, Atlastaðabændurnir.  En mikið svakalega er hann Kalli líkur afa sínum......  Jólakveðjur vestur,

Sigríður Jósefsdóttir, 21.12.2007 kl. 17:34

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Ásthildur, er eitthvað andvaka og fór að skoða bloggvini. Hef sjaldnast tíma til þess því miður. Þessi pistill þinn er meistarasmíð og ekkert annað. Móðuramma mín var fædd og uppalin í Dýrafirði eða þangað til langafi drukknaði. Þá neyddist Þura langamma að bregða búi þó börnin væru bara tíu. Ég er ákaflega stoltur af því að vera Vestfirðingur í aðra ættina. Sjálfur er ég utanbæjarmaður, fæddur í Kópavoginum og flutti ekki til Reykjavíkur fyrr en ég var tveggja ára. Þannig er farið fyrir okkur mörgum sem búum hér á mölinni fyrir sunnan, eru fædd annarstaðar eða eigum ættir að rekja út á land. Mörg okkar skynja enn hvaðan ræturnar koma. Mörg okkar svíður framkoma og skeytingaleysið við þá ákvörðun sumra Íslendinga að vilja búa á slóðum forfeðra sinna. Eðli málsins samkvæmt eru langflestir fyrrverandi utanbæjarmenn búsettir í Reykjavík. Af þeim sökum er það grundvallaratriði að ef við ætlum að breyta einhverju landsbyggðinni í vil að efla FF á suðvesturhorninu. Því miður fækkar á landsbyggðinni og þess vegna einnig kjósendum FF þar. Ef okkur tekst að gera FF stóran hér fyrir sunnan þá munum við breyta hlutunum, annars ekki, flokkur með 5-6% breytir engu. Betur má ef duga skal. Því þurfum við að tefla fram öllum okkar vopnfimustu mönnum og konum sem allra fyrst, annars er málið dautt. Hann afi þinn hefði örugglega kallað til bestu sláttumennina ef vætutíð væri framundan.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.12.2007 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Höfundur

Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tónlistarspilari

Ásthildur Cesil - Dagdraumar
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 2f19c636fb68b249555c5fa250d3e103--russian-image-jellyfish
  • engill-angel
  • jolatre
  • 20171002 121526
  • gasometers-vienna-7[5]

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 2022939

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband